Að kóa með
Sögnin kóa er komin inn í Íslenska nútímamálsorðabók, merkt „óformlegt“ og skýrð 'vera meðvirkur (með e-m), sýna meðvirkni'. Lýsingarorðið meðvirkur er skýrt 'haldinn meðvirkni' en nafnorðið meðvirkni er aftur skýrt sem 'hegðunarmynstur, t.d. hjá aðstandanda alkóhólista, þar sem hegðun og líðan aðstandandans stjórnast af áhrifavaldinum'. Sögnin kemur eingöngu fyrir í sambandinu kóa með. Elsta dæmi sem ég finn um sögnina er í Bæjarins besta 1990: „Aðstandendurnir fela og ljúga fyrir alkóhólistann, ,,kóa“ með og gera þannig illt verra.“ Næst sést það í bókarauglýsingu í blöðum 1993: „Aldrei aftur meðvirkni fjallar um það hvernig tilfinningasambönd taka á sig skrumskælda mynd skugga fíknar (við „kóum“ með fólki).“
Eins og ég hef áður skrifað um eru nafnorðið meðvirkni og lýsingarorðið meðvirkur a.m.k. aldargömul í málinu, en þá merkingu sem lýst er hér að framan virðast þau ekki hafa fengið fyrr en um 1990 – um svipað leyti og sögnin kóa fer að sjást. Þá var farið að nota orðin sem samsvörun við ensku orðin codependency (eða codependence) og codependent en þessi merking virðist vera litlu eldri í þeim og er talin eigar rætur að rekja til co-alcoholic. Það virðist nokkuð ljóst að sögnin kóa er komin af þessum orðum og er sennilega íslensk nýmyndun þótt á enskum grunni sé. Ég veit ekki til þess að samsvarandi sögn sé notuð í ensku – þar er talað um to be codependent, to show codependency o.fl.
Sögnin kóa er orðin mjög algeng í málinu – í Risamálheildinni er á sautjánda hundrað dæma um hana, langflest af samfélagsmiðlum en þó um 160 úr öðrum textum. Framan af var hún iðulega höfð innan gæsalappa en svo er sjaldnast lengur sem bendir til að hún hafi öðlast viðurkenningu að einhverju marki – enda fellur hún ágætlega að málinu og hefur sömu stofngerð og beygingu og flóa, fróa, gjóa, hóa, króa, snjóa, þróa og fleiri sagnir. Í upphafi var sögnin einkum notuð í tengslum við alkóhólisma og fíknisjúkdóma en fljótlega var farið að nota hana um hvers kyns aðra meðvirkni – um að styðja fólk sem þykir aðhafast eitthvað umdeilanlegt eða ámælisvert, halda hlífiskildi yfir því, hylma yfir með því o.s.frv.
Í Helgarpóstinum 1997 segir: „Við höfum þagað of lengi og höfum jafnvel „kóað“ með þessum manni til að halda friðinn.“ Í DV 2002 segir: „Erum við farin að „kóa“ með virkjunarsinnum?“ Í Fréttablaðinu 2004 segir: „Tveir risastórir þingflokkar kóuðu með karlinum sem ekki vildi hverfa af forsætisstóli án þess að koma höggi á Baug.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Þú kóaðir ekki með neinum og varst ekki að reyna að þóknast neinum.“ Í Stundinni 2015 segir: „Íþróttaforystan kóar með sínum manni og málinu gegn lögmanninum er vísað frá.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Þau eru einfaldlega að kóa með verstu sort af kapítalista.“ Í Bændablaðinu 2019 segir: „Köllum hlutina réttum nöfnum og hættum að kóa með.“
Eins og við er að búast hefur kóa getið af sér nafnorð með tveimur af virkustu viðskeytum málsins – verknaðarviðskeytinu -un og gerandaviðskeytinu -ari. Hvorugt orðið er þó ýkja algengt enn sem komið er – í Risamálheildinni eru um 30 dæmi um kóun og um 160 um kóari. Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Bara kóun.“ Í Kjarnanum 2013 segir: „Þetta minnti á kóunina með íslenska fjármálaundrinu.“ Í Morgunblaðinu 2004 segir: „Hér eftir verður þú að gera þér að góðu að vera kóari hjá mér.“ Í DV 2009 segir: „Eftir á að hyggja hefði ég auðvitað átt að fara í meðferð líka sem kóari og fyllibytta.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2015 segir: „Þessi einfalda lýsing á kóara í ofbeldissambandi gengur hvorki upp né er áhugaverð.“