Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á íslensku

Ég skrifaði hér um daginn að ákvæði Laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu um að „allt tal og texti sé á lýtalausri íslensku“ í Ríkisútvarpinu væri í raun marklaust vegna þess að „lýtalaus íslenska“ væri ekki til, ef lýsingarorðið lýtalaus er skilið bókstaflega sem 'gallalaus'. Einhverjum fannst þetta vera orðhengilsháttur hjá mér og töldu eðlilegt að túlka „lýtalaus íslenska“ svo að það merkti ekki 'algerlega gallalaust mál', heldur 'íslenska sem samræmist málstaðli'. Látum svo vera, en það leysir samt ekki vandann – þeirri viðmiðun er erfitt að beita vegna þess að íslenskur málstaðall er hvergi skráður í heild sinni og tekur ekki á fjölmörgum álitamálum. Þess vegna er oft ekki hægt að segja hvort tiltekið málfar samræmist málstaðli.

En jafnvel þótt við gefum okkur að hægt væri að nota málstaðalinn sem viðmið um lýtalausa íslensku væri það viðmið ótækt vegna þess að það myndi útiloka stóran hluta málnotenda – e.t.v. ekki frá því að koma fram í Ríkisútvarpinu en a.m.k. frá störfum við fréttamennsku og dagskrárgerð hjá stofnuninni. Það á bæði við um fólk sem á íslensku ekki að móðurmáli og talar hana því með ýmsum frávikum í framburði, beygingum, setningagerð og fleiru, og einnig fólk sem á íslensku að móðurmáli en notar ýmis tilbrigði sem ekki eru viðurkennd í málstaðlinum. Slík útilokun væri ekki í anda þess meginhlutverks Ríkisútvarpsins „að stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi“.

Þess vegna þarf að fella brott lýsingarorðið lýtalaus en viðkomandi lagagrein þess í stað að verða: „Skal lögð áhersla á að allt tal og texti sé á íslensku.“ Það opnar á margvísleg tilbrigði sem sjálfsagt er að fái að heyrast í Ríkisútvarpinu en ákvæðið má síðan útfæra nánar í málstefnu stofnunarinnar. Það er líka í fullu samræmi við ákvæði þjónustusamnings Ríkisútvarpsins og menningar- og viðskiptaráðherra þar sem segir að í málstefnu stofnunarinnar skuli setja fram „viðmið um mismunandi málsnið eftir tegundum dagskrárefnis“ – og í samræmi við málstefnuna sjálfa þar sem segir: „Mikilvægt er að hafa í huga að málsnið getur verið með ýmsu móti og misjafnlega formlegt. Orðaval og talsmáti kann að taka mið af því.“

Íslenska með pólskum hreim er íslenska. Mér langar og ég vill er íslenska. Það var barið mig er íslenska. Hán og kvár er íslenska. Meira að segja öll velkomin er íslenska. Kannski er ekkert af þessu „lýtalaus íslenska“, en íslenska samt – og það er það sem skiptir máli. Öll þessi tilbrigði myndu samræmast breyttu lagaákvæði eins og það er sett fram hér á undan. En það verður því miður ekki sagt um allt efni Ríkisútvarpsins. Í sumum tilvikum, einkum í ýmsum útvarpsþáttum sem fjalla um menningu og listir, er stundum svo mikið um erlend orð í íslensku samhengi að tæplega er hægt að segja að viðkomandi efni sé á íslensku vegna þess að það er nær óskiljanlegt fyrir almenna hlustendur sem ekki hafa sérþekkingu á því sem verið er að tala um.

Þetta er óviðunandi. Vitanlega má sýna því skilning að oft vantar íslensk orð, ekki síst þegar verið er að ræða um nýjungar og nýja strauma á ýmsum sviðum eins og oft er í þessum þáttum. Það má líka sýna því skilning að viðmælendur eru oft ekki vanir að tala um efnið við annað fólk en það sem lifir og hrærist í sama heimi, þar sem sérhæfður orðaforði er eðlilegur. En sú skylda hvílir þá á dagskrárgerðarfólki að gera efnið aðgengilegt almenningi. Það má t.d. gera með því að brýna það fyrir viðmælendum fyrir fram að reyna að nota íslensk orð eða útskýra erlend orð – og með því að stöðva viðmælendur sem nota erlend orð og biðja þá um að skýra þau fyrir hlustendum. Þetta er vel hægt að gera, og verður að gera til að uppfylla skyldur Ríkisútvarpsins.