Breyting á beygingu sagna með nd í stofni
Í umræðu um málfar barna á K100 um daginn sagði stjórnandi þáttarins: „Ég tek eftir því að þau hlusta á svo mikið af ensku tali að það hefur áhrif á hvernig þau tala“ og nefndi sem dæmi „að börnin segi senta en ekki senda“. „„Ég þurfti að senta boltann,“ segist hún hafa heyrt sagt á sínu heimili um daginn. Rekur hún þessa málfarsvillu til þess að á ensku er sagnorðið senda í þátíð sent.“ Það er vel þekkt að þátíð sagnarinnar senda verður oft senti í nútímamáli í stað sendi. Skýringin á því liggur í augum uppi. Aðrar sagnir með sömu stofngerð, benda, henda, lenda og venda, fá þátíð með t – benti, henti, lenti og venti – og ekkert óvænt að senda lagi sig að þeim. En þarna var ekki verið að tala um þátíð sagnarinnar, heldur nafnháttinn.
Ég hafði ekki tekið eftir dæmum um nafnháttinn senta – á tímarit.is eru vissulega fimm dæmi um hann frá ýmsum tímum en þau gætu verið prentvillur. Hins vegar eru um fjörutíu dæmi um hann í Risamálheildinni, nær öll af samfélagsmiðlum, þannig að einhver hreyfing er greinilega í þessa átt. En mér finnst sú skýring að um sé að ræða áhrif frá sent í ensku mjög ósennileg. Íslenski nafnhátturinn senda samsvarar enska nafnhættinum send og væri þá í raun og veru að flýja frá honum fyrir áhrif annarrar beygingarmyndar, ensku þátíðarinnar sent. Það væri mjög sérkennilegt. Við þetta bætist að enska þátíðarmyndin sent er borin fram með rödduðu n-, [sent], og er miklu líkari íslensku myndinni senda [sɛnta] en órödduðum framburði á senta [sɛn̥ta].
Auk þess kemur í ljós að sama breyting er í gangi hjá öðrum sögnum með sömu stofngerð, þ.e. benda, henda, lenda og venda. Í Risamálheildinni er hátt á þriðja hundrað dæma um nafnháttinn benta, hátt í tvö hundruð um lenta og nokkuð á annað hundrað um venta. Einnig er töluvert um nafnháttinn henta í stað henda en útilokað að átta sig á fjöldanum vegna þess að þær myndir falla saman við sögnina henta. Megnið af þessum dæmum er úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla en þó er einnig nokkuð úr fjölmiðlum, einkum um lenta – „Þetta hefur þann kost að góðir hlauparar lenta ekki aftast í kösinni“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2012; „Hann mun gera nokkur mistök og lenta í árekstrum, eins og allir nýliðar“ segir í Vísi 2011.
Þessi breyting virðist einnig taka til annarra sagna með nd í stofni, a.m.k. hrinda og synda. Hún hefur greinilega verið í gangi um nokkurn tíma, a.m.k. allt frá upphafi samfélagsmiðla upp úr aldamótum. Í þessum sögnum eru engar líkur á að um ensk áhrif sé að ræða, og þess vegna væntanlega ekki heldur í senta. Eina hugsanlega skýringin sem ég sé á þessari breytingu er tilhneiging til að halda sömu hljóðasamböndum í allri beygingunni. Í hefðbundinni beygingu hafa þessar sagnir nd í nafnhætti og nútíð en nt í þátíð og lýsingarhætti þátíðar, en ef breytingin gengur í gegn verða þær með nt í öllum myndum. Slík tilhneiging til samræmingar innan beygingardæmis er vel þekkt, en óljóst hvers vegna þátíðin hefur áhrif á nútíðina en ekki öfugt.