Íslenskukennsla í ruglinu?

Í þeirri miklu umræðu sem hefur verið um skólamál undanfarna daga hefur ákveðin þátíðarþrá komið fram hjá sumum – sú hugmynd að íslenskir skólar og kennsla hafi verið betri í einhverri óskilgreindri þátíð. Vegna þess að umræðan hefur ekki síst snúist um lesskilning og orðaforða er íslenskukennsla oft nefnd í þessu samhengi, og það er svo sem ekki ný bóla. Ég hef lesið ótalmörg innlegg og athugasemdir í Málvöndunarþættinum og fleiri hópum á Facebook þar sem því er haldið fram að íslenskukennslu í skólum hafi hrakað stórlega og hún jafnvel verið lögð niður með öllu. Allt eru þetta sleggjudómar eða fordómar sem virðast oftastnær byggja á því að verið sé að kenna eitthvað annað, eða á annan hátt, en þegar höfundar voru í skóla.

Ég tek fram að ég þekki íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum ekki af eigin raun, nema sem nemandi fyrir 50-60 árum. En ég ætla rétt að vona að kennsla og námsefni hafi breyst síðan þá. Ekki vegna þess að kennslan sem ég fékk hafi endilega verið vond á þeim tíma (hún var auðvitað misjöfn eins og gengur), heldur vegna þess að nú er verið að búa börn og unglinga undir líf og starf í þjóðfélagi sem á fátt sameiginlegt með því þjóðfélagi sem ég kom út í sem nýstúdent 1975. Fólk sem kemur út úr framhaldsskólum þarf að takast á við allt annan veruleika en við fyrir hálfri öld, þarf að geta skilið, talað um og skrifað um ótal hluti sem voru óþekktir þá. Til þess þarf annars konar þekkingu og færni – og annars konar kennslu og námsefni.

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga er sá mikli munur sem var gerður á nemendum áður fyrr. Lengi vel tíðkaðist í stærri skólum að skipta nemendum í bekki eftir getu þar sem „tossabekkir“ voru lítils metnir, og í menntaskóla fór aðeins lítill hluti hvers árgangs. Sá hópur sem verið er að kenna í framhaldsskólum er þess vegna allt öðruvísi samsettur en fyrir hálfri öld og í raun alls ósambærilegur. Fólkið sem kvartar yfir hnignandi íslenskukennslu er flest komið yfir miðjan aldur og líklegt er að margt af því hafi verið í litla forréttindahópnum sem var í góðu bekkjunum í barnaskóla og fór svo í menntaskóla. Þetta er fólkið sem tileinkaði sér það sem kennt var, oft sem hinn heilaga sannleik (ég veit þetta því að ég er í þessum hópi).

Þess vegna blæs ég á órökstuddar fullyrðingar um að íslenskukennslu hafi hrakað enda liggja engar rannsóknir liggja að baki slíkum fullyrðingum. Íslenskukennsla er auðvitað misjöfn eins og önnur kennsla en umræddar fullyrðingar lýsa fyrst og fremst þátíðarþrá og skilningsleysi á því hvernig þjóðfélagið og nemendahópurinn hefur breyst. Þar fyrir utan – og það er reyndar aðalatriðið – ræðst framtíð íslenskunnar ekki af því hvort íslenskukennsla er mikil eða lítil, vond eða góð. Skólarnir geta styrkt þann grunn sem hefur verið lagður á heimilum en þeir geta ekki lagt grunninn og eiga ekki að gera það. Framtíð íslenskunnar ræðst af því hvort við viljum halda í hana, ekki síst með því að tala við börnin og veita þeim traust máluppeldi á heimilunum.