Fjarblaðamannafundur – blaðamannafjarfundur
Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í dag segir: „Hareide sat fyrir svörum á fjarblaðamannafundi eftir að hópurinn var kynntur.“ Ég kannaðist ekki við að hafa séð orðið fjarblaðamannafundur áður en það er þó vitanlega auðskiljanlegt. Nánari athugun leiddi í ljós að orðið er ekki alveg nýtt – nokkur dæmi má finna um það frá síðustu fjórum árum. Á mbl.is 2020 segir: „„En við búumst við því að áhrifin muni ekki vara lengi,“ sagði hann á fjarblaðamannafundi í dag.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2020 segir: „„Við ætlum okkur að vinna og komast á EM,“ sagði Erik á fjarblaðamannafundi KSÍ í dag.“ Á Vísi 2021 segir: „Guðmundur Felix ræddi við fréttamenn á fjarblaðamannafundi frá sjúkrabeði sínum í Lyon í Frakklandi síðdegis.“
Örfá önnur dæmi má finna, en einnig eru dæmi um orðið blaðamannafjarfundur í sömu merkingu. Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Hammer var þá kvæntur og sagði Effie á blaðamannafjarfundi að Hammer hefði nauðgað henni í fjórar klukkustundir.“ Á Vísi 2024 segir: „Hareide kynnti hóp sinn á blaðamannafjarfundi, í gegnum tölvu.“ Bæði fjar-blaða-manna-fundur og blaða-manna-fjar-fundur eru fjórliða samsetningar með sömu liðum, fjar, blað, fund og mann – í mismunandi röð. Þríliða samsetningin blaða-manna-fundur er meira en hundrað ára gömul í málinu og mjög algeng. Tvíliða samsetningin fjar-fundur er hins vegar ekki nema tæplega þrjátíu ára gömul en er líka mjög algeng, einkum síðustu fjögur ár.
Þarna þarf sem sé að tengja saman tvö orð með sama síðasta lið, -fundur. Ein aðferð til þess er að tengja orðin með og og sleppa sameiginlega liðnum í fyrra orðinu (og enda fyrri liðinn á bandstriki). Þetta er t.d. gert í Morgunblaðinu 2005: „Fræðslu- og aðalfundur Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir verður haldinn fimmtudaginn 15. mars.“ Til að það sé hægt verða fyrri liðirnir að vera sama eðlis (í einhverjum skilningi). Í blaðamanna-fundur vísar fyrri liðurinn til fundargesta en til fundarforms í fjar-fundur og þess vegna er útilokað að segja *blaðamanna- og fjarfundur eða *fjar- og blaðamannafundur. Eina leiðin er því að búa til nýtt orð þar sem allir fjórir liðirnir komi fram – en þá upphefst vandinn við að raða þeim saman.
Það er ljóst að -fundur verður seinasti liðurinn, en óhjákvæmilegt er að rjúfa annaðhvort tengslin milli fjar- og -fundur eða milli blaðamanna- og -fundur. Ýmislegt getur haft áhrif á hvor leiðin er farin, en mér finnst skipta máli hvort megináherslan er á eðli fundarins og þá eðlilegt að tala um fjarblaðamannafund, eða á markhópinn og þá eðlilegt að tala um blaðamannafjarfund. En áhersla og hrynjandi getur líka skipt máli. Í eðlilegri víxlhrynjandi getur fjarblaðamanna-fundur hljómað eins og fyrri liðurinn sé *fjarblaðamenn en það orð er ekki til (í þeirri merkingu sem hér á við). Í framburði þarf þess vegna eiginlega að slíta fjar- frá afgangnum af orðinu, eins og gert var þegar áðurnefnd frétt var lesin í fréttum sjónvarps í kvöld.
Fleirsamsett orð eins og fjarblaðamannafundur þar sem fyrsta liðnum er bætt framan við orð sem er margsamsett fyrir eru þó ekki einsdæmi í málinu. Ég hef áður skrifað um orðið óhagnaðardrifinn þar sem fyrri hlutinn er ekki orðið óhagnaður (sem merkti annað) heldur er ó- bætt framan við hagnaðardrifinn. Annað margsamsett orð með fyrsta liðnum fjar- er fjarheilbrigðisþjónusta. Orðið *fjarheilbrigði er ekki til frekar en *fjarblaðamaður, en vitanlega er heilbrigðisþjónusta til, og einnig fjarþjónusta. Þegar þarf að steypa þessu saman kemur upp sami vandinn og með blaðamannafund og fjarfund – seinasti liðurinn verður alltaf þjónusta en óhjákvæmilegt er að rjúfa tengsl hans við annaðhvort heilbrigði- eða fjar-.
Orð eins og fjarblaðamannafundur, fjarheilbrigðisþjónusta og önnur slík eru vissulega frekar stirð eins og margsamsett orð hljóta alltaf að vera en ég sé samt ekki að þau brjóti á neinn hátt í bága við íslenskar orðmyndunarreglur, og sama máli gegnir um blaðamannafjarfundur og *heilbrigðisfjarþjónusta (sem ég finn engin dæmi um). En mörg orð af þessu tagi hafa orðið til á síðustu árum, ekki síst á covid-tímanum, við það að eðli ýmissa gamalgróinna fyrirbæra var breytt og þau gerð að fjarfyrirbærum. Um þessi fyrirbæri voru til gamalgróin orð og það er skiljanlegt að eðlisbreytingin sé frekar táknuð með því að bæta fjar- framan við orðin en með því að brjóta þessi gamalgrónu orð upp með því að skjóta -fjar- milli liða í þeim.