Á vetrin
Í dag var hér spurt hvort það væri staðbundið að segja á vetrin í stað á veturna. Þetta samband er nefnt í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og merkt talmál („pop.“) og myndin vetrin er gefin sem „staðbundin“ í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi sem ég hef fundið um sambandið er í vísitasíubók frá 1575: „[Tveggja] mánaða beit öllu sauðfé á vetrin í Sandfellshlíð.“ Elstu dæmin um sambandið (sem er alloft ritað á vetrinn) í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is eru frá því um miðja 19. öld, en skiptar skoðanir eru um uppruna þess. Í bókinni Hugur og tunga frá 1926 segir Alexander Jóhannesson: „Af samræmisástæðum […] er algengt í nútíðarmáli að segja: […] á vetrin í stað á veturna (til samræmis við á sumrin) […].“
Í ritdómi um bókina í Skírni sama ár segir Jakob Jóh. Smári að Alexander skilji „orðatiltækið á vetrin sem samræmismynd við á sumrin, og getur verið, að málvitund síðari alda manna hafi tekið það svo, en þar hygg ég, að upprunalega sé um að ræða rétt þolfall eintölu með ákv. greini (í fornmáli á vetrinn).“ Sambandið á vetrin(n) virðist reyndar ekki koma fyrir í fornu máli – þar má hins vegar finna dæmi um vetrin(n) með forsetningunum um og of en í þeim er vetrin(n) þolfall eintölu eins og kemur fram hjá Jakobi Smára. Í öllum dæmum úr síðari alda máli um á vetrin(n) er hins vegar um þolfall fleirtölu að ræða – eins og í á sumrin. Ég sé þess vegna ekki alveg hvernig þolfall eintölu gæti legið að baki sambandinu á vetrin.
Í umræðum kom fram að á vetrin væri vel þekkt á Suðurlandi og austur á fjörðum, og ýmsar heimildir tengja orðalagið við Suðurland. Í grein í Degi 1922 segir Jóhann Sveinsson frá Flögu: „Aftur hygg eg, að óvíða á landinu sé málið meir afskræmt en sumstaðar á Suðurlandi. […] Einnig segja menn þar: »á vetrin«, eins og vér segjum á »sumrin.«“ Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1989 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson: „Það er vel þekkt um Suðurland a.m.k. að segja: á vetrin í stað hins upprunalega: á veturna. Dæmi eru samt víðar að.“ Í grein í Íslensku máli 2007 um orðasafn sem Jónas Jónasson frá Hrafnagili safnaði í Rangárvallasýslu á árunum 1884-1885 segir Guðrún Kvaran: „Þá tók Jónas […] eftir að sagt væri á vetrin í stað á vetrum.“
Þrátt fyrir þetta segir Guðrún að ekki sé „hægt að sjá að notkunin á vetrin sé staðbundin. Dæmi finnast úr öllum landsfjórðungum“. Mér finnst samt allt benda til þess að sambandið hafi verið meira notað á Suðurlandi en annars staðar. En það var ekki bara notað á Íslandi – í bók Birnu Arnbjörnsdóttur, North American Icelandic: the life of a language frá 2006, kemur fram að sambandið á vetrin hafi verið algengt í vesturíslensku og fjöldi dæma um sambandið í vesturíslensku blöðunum á tímarit.is staðfestir það. En þetta samband var langalgengast á fyrstu áratugum tuttugustu aldar en hefur síðan verið á hægri niðurleið og virðist vera að hverfa úr málinu – sárafá dæmi frá þessari öld eru um það á tímarit.is og nær engin í Risamálheildinni.