Aðvara, aðvörun, vara við, viðvörun – og viðvara
Í Málfarsbankanum segir: „Síður skyldi segja „aðvara“ en vara við. Á sama hátt ætti frekar að nota nafnorðið viðvörun en „aðvörun“.“ Á þessu hefur verið hamrað lengi. Í Íslenzkri stafsetningarorðabók frá árinu 1900 eru aðvara og aðvörun flokkuð sem „mállýti“. Í Syrpu 1947 segir Bjarni Vilhjálmsson: „Að aðvara og aðvörun er algengt í ritmáli nú, en verður að teljast dönskusletta. Að vara (e-n) við (e-u) og viðvörun er íslenzka.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Sagt var: Þeir hafa birt aðvaranir. RÉTT VÆRI: Þeir hafa birt viðvaranir.“ Í skýringu segir: „Dönsku orðin at advare eru á íslensku að vara við, en ekki að vara að, og advarsel er því á íslensku viðvörun.“ Ýmis fleiri dæmi í sama dúr mætti nefna.
Sögnin aðvara er vissulega komin af advare í dönsku en hún er gömul í íslensku – elstu dæmin um hana eru frá því snemma á 18. öld. Sambandið vara við kemur fyrir í fornu máli og virðist ævinlega hafa verið mun algengara en sögnin aðvara – ekki er hægt að átta sig á nákvæmri tíðni á tímarit.is en í Risamálheildinni er vara við nærri fimmtíu sinnum algengara en aðvara. Hér er rétt að hafa í huga að sambandið vara við er setningafræðilega fjölhæfara en sögnin aðvara, ef svo má segja. Það er hægt að segja ég varaði hana við þessu, ég varaði hana við og ég varaði við þessu en hins vegar aðeins ég aðvaraði hana – það sem varað er við getur ekki fylgt með. Þess vegna nýtist vara við í mun fleiri aðstæðum en aðvara og eðlilegt að hún sé mun algengari.
Aftur á móti er enginn slíkur munur á setningafræðilegum eiginleikum nafnorðanna viðvörun sem kemur fyrir þegar í fornu máli og aðvörun sem dæmi eru um frá því í byrjun 18. aldar. Danska nafnorðið advarsel sem svarar til advare hefði getað orðið *aðvarsla í íslensku en um það eru engin dæmi heldur var búið til nafnorðið aðvörun sem er því strangt tekið ekki danskt tökuorð heldur íslensk nýsmíð. Frá því um miðja 19. öld var aðvörun talsvert algengara orð en viðvörun ef marka má tímarit.is en bæði hafa lengi verið mjög algeng – á þriðja tug þúsunda dæma um hvort þeirra á tímarit.is. Hlutfallið snerist við um 1980 og á þessari öld er viðvörun hátt í fjórum sinnum algengara en aðvörun bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni.
En samsetta sögnin viðvara er líka til og gömul í málinu þótt hún sé ekki algeng. Í bréfi frá 1547 segir: „Þar fyrir áminni ég og viðvara kristið fólk.“ Í Eyrarannál frá seinni hluta 17. aldar segir: „Sendi kongl. Majest. sína galíótu hingað til Bessastaða, að viðvara alla Íslands kaupmenn við tyrkneskum sjóreyfurum.“ Í Vikunni 1970 segir: „Ef einhver reyndi að að brjótast inn, myndi kerfið undireins viðvara næstu lögreglustöð.“ Í DV 2011 segir: „Hver sér um að viðvara lögregluna erlendis frá?“ Milli tíu og tuttugu dæmi af samfélagsmiðlum eru um viðvara í Risamálheildinni, t.d. „Kominn tími til að fólk sé viðvarað“ á Bland.is 2013. En á Bland.is 2008 er líka „Vinaleg ábending, held maður segi alveg örugglega aðvara, ekki viðvara.“
Í Málfregnum 1992 segir Baldur Jónsson: „Tökuorðið aðvara hefir hreiðrað býsna vel um sig í íslensku, einnig nafnorðið aðvörun sem af því er myndað.“ En þrátt fyrir að hafa „hreiðrað býsna vel um sig“ virðast bæði aðvara og aðvörun á hraðri niðurleið eins og fram kom hér á undan, hvort sem rekja má undanhald þeirra að einhverju leyti til málhreinsunar eða ekki. Það er auðvitað enginn vafi á því að þrátt fyrir danskan uppruna er sögnin aðvara gott og gilt íslenskt orð, enda hefur hún verið í málinu í þrjú hundruð ár – og aðvörun ekki síður, enda íslensk smíð. Stundum er haft á orði að mál sé til komið að friða þær „dönskuslettur“ sem enn lifi í íslensku og þótt það sé líklega oftast í gamni sagt finnst mér rétt að láta aðvara og aðvörun í friði.