Súrdeigsdeig

Ég fékk senda mynd af auglýsingu um súrdeigsdeig. Mér fannst þetta í fyrstu mjög sérkennilegt orð – þarna kemur deig tvisvar í röð þótt súrdeig virðist alveg ná merkingunni, án tvítekningar. En við nánari athugun fann ég fleiri dæmi um orðið, m.a. eitt á tímarit.is: „Margir segja að súrdeigsdeig fari mun betur í meltinguna en venjulegt gerdeig“ segir í Fréttablaðinu 2020. Á vefnum meniga.is segir: „Svo á ég alltaf í frystinum súrdeigsdeig frá Garra.“ Auk þess eru nokkur dæmi um súrdeigspizzadeig, ýmist í einu eða tveimur orðum – það hljómar ekki eins undarlega vegna þess að þar kemur orðið eða orðhlutinn deig ekki tvisvar í röð. Orðið hljómar því frekar eins og bílaleigubíll, borðstofuborð, pönnukökupanna og aðrar þekktar samsetningar.

Forsendurnar fyrir því að orð eins og súrdeigsdeig getur komið upp eru tvær – báðar vel þekktar og eiga við um fjölda orða. Annars vegar hafa skilin milli orðhlutanna súr og deig í súrdeig dofnað og hlutarnir renna saman í eina merkingarheild í huga okkar. Orðið fer þá að vísa til ákveðinnar tegundar af deigi frekar en til deigsins sjálfs, í merkingunni 'blandað, hrært eða hnoðað efni í brauð og kökur áður en bakað er' eins og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók hljóðar, og því merkir súrdeigsdeig í raun 'hrært eða hnoðað efni af tegundinni súrdeig' í dæminu úr Fréttablaðinu. Hins vegar hefur orðið deig svo bætt við sig merkingunni 'afmarkað efnismagn (oft kúla eða klumpur) úr deigi' eins og sést á því að farið er að nota það í fleirtölu.

Fleirtalan er þó ekki ný – elsta dæmi sem ég finn um hana er í frétt í Alþýðublaðinu 1948. Það er reyndar sérlega gott dæmi vegna þess að þar koma mismunandi merkingar orðsins deig vel fram. Í fréttinni er talað um hrærivélar „sem hver getur búið til um 400 kg af deigi í einu“. Síðan koma lyftivélar sem „steypa […] deiginu í vélar á næstu hæð fyrir neðan, er móta brauðin og flytja […] deigin að bökunarofnunum“. Í fyrri dæmunum tveimur er deig safnheiti og því í eintölu, en í seinasta dæminu er búið að móta deigið í mátulega klumpa og þá er fleirtalan deigin notuð um óbökuðu brauðin. Í dæminu af meniga.is hér að framan hefur súrdeigsdeig sambærilega merkingu og merkir því í raun 'kúla eða klumpur úr súrdeigi'.

Merkingarlega séð er því í raun ekkert við orðið súrdeigsdeig að athuga. Orðhlutinn deig hefur þar tvær mismunandi merkingar og því er ekki um merkingarlega tvítekningu að ræða – ekki frekar en í t.d. tréherðatré þar sem aðeins fyrra tré-ið vísar til efnis en það seinna er merkingarlega runnið saman við herða- í orðinu herðatré sem vísar til gerðar og hlutverks en ekki (lengur) til efnis. Frá orðfræðilegu sjónarmiði er hins vegar óneitanlega dálítið klúðurslegt að sami orðhluti sé tvítekinn í einu og sama orðinu, einkum tvisvar í röð. Einhverjar hliðstæður eru þó til, svo sem aflandsland, ferskvatnsvatn og djúpsjávarsjór, og sjálfsagt myndum við venjast súrdeigsdeigi ef það kæmist í verulega notkun – það verður bara að koma í ljós.