Hvenær verður „villa“ rétt (og eldri mynd „röng“)?
Í Málvöndunarþættinum var vakin athygli á því að viðmælandi í fréttum Stöðvar tvö í gærkvöldi sagði „Það búa mikið af hugverkabóndum í Reykjavík suður“. Eins og við var að búast olli þetta hneykslun – „Skömm er að þessu!“, „Úff. Blaðabörnin sitja við skriftir“, „Af hverju ráða Vísismenn ekki fólk sem kann íslensku“, „Lágmark að kunna að beygja starfsheitið líka í fleirtölu“ o.fl. Í þessu tilviki var um að ræða óundirbúið viðtal og engin ástæða til að ætla annað en um einfalt mismæli hafi verið að ræða – öllum getur okkur orðið á að mismæla okkur, ekki síst í aðstæðum eins og þessum þar sem hljóðnemi er rekinn framan í okkur. Smávægilegt mismæli kemur málvöndun ekkert við og ætti auðvitað ekki að kalla á slíka hneykslun.
En eins og bent var á í umræðum um þetta er myndin bóndum í þágufalli fleirtölu engin nýjung – þvert á móti. Í fornu máli var ó í öllum eintölumyndum orðsins bóndi eins og nú, en í fleirtölu beygðist orðið bœndr – bœndr – bóndum – bónda. Nefnifall og þolfall fleirtölu höfðu því annað stofnsérhljóð en aðrar beygingarmyndir orðsins og það stafaði af því að þessar tvær myndir höfði áður i í endingu sem dró stofnsérhljóðið í átt til sín en féll síðan brott. En þegar í fornu máli var æ farið að stinga sér niður í þágufalli og eignarfalli fleirtölu fyrir áhrif nefnifalls og þolfalls, og um 1400 voru nýju myndirnar bændum og bænda orðnar algengar. Eldri myndunum bregður þó fyrir fram eftir öldum og jafnvel enn í dag en þar getur oft verið um fyrnsku að ræða.
Það eru vissulega sáralitlar líkur á því að viðmælandi Stöðvar tvö hafi verið að bregða fyrir sig fornri beygingarmynd, en þetta dæmi vekur samt ýmsar spurningar. Þegar verið er að dæma um „rétt“ mál og „rangt“ er aldur eitt helsta viðmiðið – eldri myndir eru taldar „betri“ og „réttari“ en þær yngri. Ef það viðmið væri notað í þessu tilviki hlyti myndin bóndum því að teljast „rétt“ – og „réttari“ en bændum. Ég efast þó um að nokkrum dytti í hug að halda því fram, vegna þess að myndin bóndum hefur ekki tilheyrt lifandi máli í margar aldir. Þetta er þó ekki ósvipað því að myndir eins og læknir í þolfalli eintölu og læknirar í nefnifalli fleirtölu eru taldar „rangar“ en lækni og læknar „réttar“, enda þótt fyrrnefndu myndirnar væru nær einhafðar í nokkrar aldir.
En það er líka rétt að athuga að þegar myndir eins og bændum og bænda fara að koma upp, um 1300 eða fyrr, voru þær auðvitað „villur“, í þeim skilningi að þær voru frávik frá málhefðinni. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að amast hafi verið við slíkum tilbrigðum í máli á þeim tíma, þótt trúlegt sé að eldri kynslóðin hafi þusað eitthvað yfir málfari þeirrar yngri eins og á öllum tímum. En þessar „villur“ virðast hafa fengið að breiðast út uns þær urðu normið og hættu að vera „villur“. Spurningin er hins vegar hvaða áhrif það hefur á eldri myndirnar – verða þær þá „villur“ í staðinn? Og hvenær gerist það? Eða halda kannski myndir sem einu sinni voru „réttar“ áfram að vera það, óháð því hvort þær eru eitthvað notaðar eða ekki?
Ég ætla ekkert að svara þessum spurningum, enda veit ég ekki til þess að nokkurt einhlítt svar sé til við þeim. Það virðist vera mjög tilviljanakennt hvaða breytingar eru viðurkenndar sem „rétt mál“ og hverjar ekki, og eins og ég hef áður sagt virðast (óorðuð) rök fyrir því að telja eitthvað „rangt mál“ stundum einfaldlega vera: „Þetta er rangt af því að það hefur verið kennt svo lengi að það sé rangt.“ En það eru auðvitað engin rök – við eigum að hafa kjark til að skipta um skoðun, viðurkenna að þótt við höfum kennt eitthvað á sínum tíma, eftir bestu vitund, kann það að vera úrelt. Það er eðlilegt að vilja halda í málhefðina, en nauðsynlegt að átta sig á því að hún getur breyst – og þegar breyting er komin vel af stað getur barátta gegn henni verið skaðleg.