Hvers kyns er ökumaður?
Töluverð umræða hefur spunnist hér af pistli mínum um íþróttamann ársins eins og oft vill verða þegar kynjað orðfæri ber á góma. Einn þátttakenda í umræðunni benti á fyrr í dag að ökumaður bifreiðar „þarf ekki að vera karl“ og „afar fáir myndu taka þannig til orða að „ökukona Toyotunnar virti ekki biðskyldu á gatnamótunum““. Það er alveg rétt að lítil hefð er fyrir orðinu ökukona þótt það sé sannarlega til í málinu – á tímarit.is eru tæp fjörutíu dæmi um það, hið elsta frá 1913. En þótt ökumaður sé vissulega orðið sem er venjulega notað í vísun til allra kynja táknar það ekki að orðið sé fullkomlega kynhlutlaust – a.m.k. sé ég yfirleitt fyrir mér karlmann þegar það er nefnt. Og notkun orðsins í textum sýnir að ég er ekki einn um það.
Á tímarit.is eru samtals 43 dæmi um orðasamböndin ökumaður(inn) (sem) var kona / kvenmaður og í Risamálheildinni eru samtals 22 dæmi um þessi sambönd. Aftur á móti eru aðeins sex dæmi um ökumaður(inn) (sem) var karl(maður) á tímarit.is og jafnmörg í Risamálheildinni. Það er sem sé margfalt algengara að tilgreina kyn ökumanns ef um konu er að ræða en ef karlmaður ekur. Líklegasta skýringin sem ég sé á því er sú að í huga margra málnotenda sé það sjálfgefið að ökumaður sé karlkyns og þess vegna þurfi venjulega ekki að taka það fram. Þegar kona er ökumaður er það frávik frá norminu og þess vegna frekar tekið fram. Þetta bendir til þess að orðið ökumaður sé fjarri því að vera kynhlutlaust í huga fólks.
Einhverjum gæti reyndar dottið í hug að þessi munur hefði ekkert með orðið ökumaður að gera, heldur stafaði einfaldlega af því að karlar ækju bílum mun meira en konur. Frávikið frá norminu sem ylli því að kynið væri tekið fram fælist þá í því að kona væri að aka, ekki í því að orðið ökumaður vísaði til konu. Þetta er vissulega hugsanlegt, en þá ætti sami munur að koma fram í öðrum orðum sömu merkingar, eins og bílstjóri. Um samböndin bílstjóri(nn) (sem) var kona / kvenmaður eru samtals tíu dæmi á tímarit.is og í Risamálheildinni – um bílstjóri(nn) (sem) var karl(maður) eru þrjú dæmi á tímarit.is en ekkert í Risamálheildinni. Tölurnar eru vissulega lágar en munurinn er miklu minni, og einnig rétt að hafa í huga að -stjóri er karlkynsorð.
Ég er nokkuð viss um að svipaðar niðurstöður fengjust við athugun á ýmsum samsetningum af -maður. En ég legg samt áherslu á að ég er ekki að leggja til að orðinu ökumaður verði ýtt til hliðar og kynhlutlaust orð fundið í stað þess, og ég er ekki heldur að leggja til að ökumaður verði framvegis eingöngu notað um karlmenn en lífi verði blásið í orðið ökukona og það notað í stað ökumaður um konur sem aka bílum. Ég er bara að benda á að sú tilfinning margra að orðið maður og samsetningar af því hafi sérstök tengsl við karla í huga málnotenda er ekki ímyndun eða uppspuni heldur birtist hún áþreifanlega í málnotkun fólks. Andstaða við notkun þessara orða í almennri vísun er því skiljanleg, en engin einföld leið til breytinga er í augsýn.