Græna gímaldið

Fátt ber hærra í samfélagsumræðunni þessa dagana en risastórt vöruhús sem verið er að byggja við Álfabakka. Þetta hús hefur í fréttum iðulega verið nefnt græna gímaldið en hér var áðan bent á að gímald væri ekki rétta orðið þarna. Upphaflega merkir það 'vítt gap, stórt ílát eða vistarvera' samkvæmt Íslenskri orðsifjabók og er skylt orðunum geimur og gína, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'mjög stórt (hátt og vítt) rými, t.d. salur e.þ.h.'. Það er ljóst af þessu að orðið vísar til innri gerðar rýmisins. Við myndum t.d. tæplega tala um Hörpu eða Kringluna sem gímöld þótt þau hús séu mjög stór, vegna þess að þau skiptast í fjölda minni rýma. Hins vegar væri hugsanlegt að tala um einhver þeirra rýma, t.d. Eldborg, sem gímöld.

Það virðist ljóst af fréttum að margs konar starfsemi á að fara fram í vöruhúsinu við Álfabakka og því líklegt að því verði skipt í nokkur rými. Ég veit ekki hvort það hefur þegar verið gert, enda skiptir það ekki máli vegna þess að greinilegt er að í allri umfjöllun er verið að vísa til ytra umfangs hússins en ekki innri gerðar. Ein ástæðan fyrir því að gímald hefur verið notað um húsið er e.t.v. sú að orðið hefur á sér frekar neikvæðan blæ og hæfir því viðhorfinu til hússins. En hægt væri að finna önnur neikvæð orð sem vísa til ytra umfangs og ættu því betur við, t.d. ferlíki. Líklega er samt komin hefð á að tala um græna gímaldið enda stuðlar það og festist því vel í minni. Það eru svo sem lítil málspjöll en samt rétt að hafa hefðbundna merkingu í huga.