Að fatta upp á kókómjólkinni

Hér hefur áður verið skrifað um tökusögnina fatta sem hefur verið notuð í óformlegu máli síðan snemma á tuttugustu öld. En sambandið fatta upp á er miklu yngra og ekki komið í orðabækur – elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er fyrirsögn í NT 1984: „Hann hét Kolli sem fattaði upp á þessu.“ Í DV 1984 segir: „Einu sinni hélt ég nefnilega að ég hefði fyrstur fattað upp á því að pissa standandi.“ Í Degi 1987 segir: „Það voru eiginlega Jakob, Sara og nokkrir í viðbót sem föttuðu upp á þessu.“ Í Degi 1988 segir: „Svo einfalt raunar að maður furðar sig á því að maður hafi ekki sjálfur fattað upp á þessu.“ Um 90 dæmi eru um sambandið á tímarit.is en í Risamálheildinni eru tæp 400 dæmi um það, öll nema 50 af samfélagsmiðlum.

Ekki hugnast öllum þetta samband, og í Málvöndunarþættinum var í gær verið að amast við því að þáttastjórnandi á Bylgjunni hefði sagt „Hann fattaði upp á kókómjólkinni“. Þátttakendum í umræðunni fannst þetta óboðlegt og töldu það „barnamál“, og sama athugasemd er oft gerð í dæmum úr formlegu máli: „Allavega var það einhver frægur maður sem nú er löngu dauður sem „fattaði upp á þessu,“ eins og börnin segja“ segir í Skessuhorni 2008; „Efnahagslegu fyrirvararnir sem við þingmenn sem hér störfuðum í sumar vorum svo stolt af að hafa „fattað upp á“, eins og börnin segja“ var t.d. sagt í ræðu á Alþingi 2009; „Sniðugt hjá þeim að hafa fattað upp á þessu, eins og krakkarnir segja“ segir á vef Ríkisútvarpsins 2020.

Sögnin fatta er merkt „óformlegt“ í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrð 'skilja (e-ð)', en 'skilja, botna í' í Íslenskri orðabók. Þótt þessar skýringar séu ekki rangar eru þær ófullnægjandi – oft væri 'átta sig á' heppilegri skýring. Í fatta felst nefnilega oft að skilningurinn komi skyndilega frekar en smátt og smátt. Þetta kemur skýrast fram í sambandinu vera að fatta. „Ég var að fatta að mig vantar alveg trampólín“ segir t.d. í Fréttablaðinu 2007 – hér væri hægt að segja ég var að átta mig á að mig vantar alveg trampólín en alls ekki *ég var að skilja að mig vantar alveg trampólín. Sama máli gegnir með „Fólk er að fatta hvað við erum að segja“ í Vísi 2013, „Ég er að fatta að ég er bara þó nokkur listamaður í mér“ í DV 2019, og ótal fleiri dæmi.

Sambandið fatta upp á má reyna að skýra sem 'finna upp' en það samband nær þó ekki merkingunni alveg. Það virðist nefnilega oftast vísa til útkomu úr einhverju ferli eins og kemur fram í skýringunni 'upphugsa e-ð' í Íslenskri orðabók. Þar að auki vísar það fremur til einhvers áþreifanlegs hlutar eða tækis – 'búa e-ð til sem ekki hefur verið til áður' segir í Íslenskri orðabók. Aftur á móti vísar fatta upp á ekki síður til einhvers óáþreifanlegs, eins og dæmin hér að framan sýna, og mér finnst það líka vísa fremur til skyndilegrar hugdettu eða hugljómunar en til útkomu úr löngu ferli. Það stemmir einmitt við þá merkingu í sögninni fatta sem lýst er hér að framan – eitthvað sem gerist skyndilega frekar en eitthvað sem kemur smátt og smátt.

Þótt sögnin fatta sé óumdeilanlega komin úr dönsku virðist sambandið fatta upp á vera íslensk nýsmíði – í dönsku er sagt hitte på eða finde på í sömu merkingu en ekki *fatte på. Það er vel trúlegt að sambandið sé upprunnið í máli barna eins og oft er haldið fram, en það er a.m.k. fjörutíu ára gamalt og fyrstu notendurnir því komnir á miðjan aldur eða eldri og nota það sumir hverjir enn – varla eru það eintóm börn sem nota það athugasemdalaust á samfélagsmiðlum. Vissulega sýnir hlutfallslega mikil notkun þess þar að það er að verulegu leyti bundið við óformlegt mál enn sem komið er, en dæmum í formlegu máli virðist þó fara smátt og smátt fjölgandi. Mér finnst þetta gagnlegt samband sem engin ástæða er til að amast við.