Daglegar ónáðir

Í frétt á mbl.is í gær var sagt frá veikindum norsku krónprinsessunnar sem „glími nú við daglegar ónáðir af völdum sjúkdómsins“ eins og það var orðað. Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var fólk að velta þessu orðalagi fyrir sér og mörgum fannst fremur eiga að tala um daglegt ónæði, enda er orðið ónáð yfirleitt ekki haft í fleirtölu í nútímamáli og aðeins eintalan gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'það að vera ekki velkominn, vanþóknun' með samböndunum falla í ónáð og vera í ónáð og augljóst að sú merking á ekki við í umræddu dæmi. Það þýðir samt ekki að fleirtalan ónáðir, eins og hún var notuð, hljóti að vera röng eða byggð á misskilningi – svo er ekki þegar betur er að gáð.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 kemur nefnilega fram að fleirtalan ónáðir merki 'órói', 'trafali', 'óþægindi'. Í fornu máli er orðið algengt í þessari merkingu og langoftast notað í fleirtölu. Fjölmörg dæmi eru um þessa merkingu í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, bæði í eintölu og fleirtölu. Á seinni öldum kemur þessi merking oftast fram í sambandinu gera e-m ónáð (ónáðir) sem er gefið í Íslenskri orðabók. Þetta kemur einstöku sinnum fyrir í textum á tímarit.is fram á fjórða áratug síðustu aldar en hverfur þá með öllu nema í textum úr eldra máli. Yngsta dæmi sem ég hef fundið úr samtímamáli er í stjörnuspá í Samvinnunni 1960: „Hætta er á að keppinautur yðar í viðskipta- eða ástamálum reyni að gera yður ónáðir.“

Hér hefur margsinnis verið fjallað um orð sem áður voru aðallega eða eingöngu notuð í eintölu en nú er farið að nota í fleirtölu, ýmsum til ama. Undantekningarlítið stafar þessi breyting þá af því að merkingin hefur víkkað eða hliðrast eitthvað til, og í nýju merkingunni er eðlilegt að nota orðið í fleirtölu sem ekki var áður. Þetta dæmi er í raun alveg sama eðlis, nema hvað fleirtalan og fleirtölumerkingin er ekki ný, heldur er verið að endurvekja gamla notkun sem var alveg horfin úr málinu og kemur flestum nútíma málnotendum ókunnuglega fyrir sjónir. Það er vitaskuld lofsvert að endurvekja orð og málnotkun sem hefur fallið í gleymsku, þótt vissulega þurfi að gæta þess að textinn verði ekki óskiljanlegur við það. Það varð hann ekki í þessu tilviki.