„Frú Sæland“

Á Vísi birtist í dag grein eftir mann sem titlaður er formaður Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Greinin heitir „Misskilningur frú Sæland“ og fjallar um svör Ingu Sæland félags- og húsnæðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi. Í greininni er einnig vísað til ráðherrans sem „frú Sæland“. Þarna er beitt vel þekktri og alveg sérlega ómerkilegri aðferð við að gera lítið úr fólki – að kalla það öðru nafni en venja er. Á yfirborðinu er „frú Sæland“ vitanlega mjög virðulegt og hátíðlegt en engum blandast hugur um að með þessum titli er verið að tala niður til ráðherrans á einkar ósmekklegan hátt. En því miður er þetta ekki einsdæmi – slík misþyrming mannanafna er algeng í pólitískri umræðu og ekki síst beitt gagnvart konum.
Einu sinni birti ég hér pistil sem heitir „Misþyrming mannanafna“ og fjallar um sambærileg tilvik. Lokaorðin í honum voru þessi, og eru enn í fullu gildi: „Tungumálið er öflugt valdatæki – í raun öflugasta valdatæki sem fólk í lýðræðisþjóðfélagi býr yfir. Á okkur hvílir sú ábyrgð að beita þessu valdatæki til góðs en ekki til að meiða annað fólk. Fátt er okkur hjartfólgnara en nafnið. Það hefur verið hluti af okkur frá því að við munum fyrst eftir okkur og við samsömum okkur því. Þess vegna á ríkisvaldið ekki að skipta sér af því hvaða nöfn foreldrar gefa börnum sínum eða hvaða nöfn fullorðið fólk kýs sér. Og þess vegna er það alvarleg og ómerkileg árás á fólk að breyta nafni þess, skrumskæla það eða misþyrma á einhvern hátt.“