Mig hlakkar til

Í „Málvöndunarþættinum“ var fólk að hneykslast á því að mennta- og barnamálaráðherra hefði sagt „Mig hlakkar til“ í útvarpsviðtali í dag. En því fer fjarri að sú málnotkun sé ný af nálinni. Elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Þjóðólfi 1892: „Mig hlakkar til, að fá að verða félagi þinn og sessunautur.“ Í Morgunblaðinu 1942 segir: „Þýska hermenn hlakkar til þess að fá tækifæri til þess að opna augu Ameríkumanna fyrir því, að einnig þeim er Evrópa bannað landssvæði.“ Í Lögbergi 1945 segir: „Veit eg að marga hlakkar til að heyra hana og sjá og þakka henni fyrir síðast.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Það er gott að vera hjá afa og ömmu og Helgu hlakkar til hvers dags.“ Í Jólakveðju til íslenskra barna 1951 segir: Þig hlakkar til að sjá hana.“

Á fimmta áratug síðustu aldar hefur þessi málnotkun verið orðin algeng. Það má marka af því að frá þeim tíma má finna í blöðum, tímaritum og bókum mikinn fjölda dæma um að amast sé við henni. Í Regin 1943 segir t.d.: Segið ekki: Okkur hlakkar til, – heldur: Við hlökkum til (jólanna).“ Í Degi 1945 segir: „Sl. sunnudagskvöld þrástagaðist t. d. annar þulur útvarpsins í barnatímanum á málblómum eins og […] mig hlakkar til.“  Í Heimilisritinu 1948 er spurt: „Er réttara að segja „mig hlakkar til“ heldur en „mér hlakkar til“ – og svarað: „Nei, rétt er að segja „ég hlakka til“.“ Í Bæjarblaðinu 1957 segir: „Það er hreint og beint viðbjóðslegt að heyra fólk segja: […] „Henni hlakkar til jólanna“.“ Og í Vísi 1956 sagði Eiríkur Hreinn Finnbogason:

„Afar algengt er, að fólk fari rangt með sögnina að hlakka til, láti hana standa með þolfalli eða jafnvel þágufalli […]. Með þessari sögn á ævinlega að fara nefnifall. […] Þetta skilst betur, ef haft er í huga, hvað sögnin hlakka merkir. Hún er upphaflega notuð um hljóð fugla, það hlakkar í honum, hann hlakkar. Klógulir ernir yfir veiði hlakka …, kvað Jónas. Hann segir ekki, að ernina hlakki yfir veiði, heldur að ernirnir hlakki yfir veiði. Engu breytir í þessu efni, þó að forsetningin til kom aftan við sögnina. Sögnin breytir aðeins ofurlítið merkingu, þýðir þá upphaflega, að sá, sem hlakkar til, hugsi með svo mikilli ánægju til einhvers, sem hann á í vændum, að það hlakki í honum. [S]ögnin að hlakka táknar hljóð líkt og sögnin að syngja.“

Þótt þessi skýring á uppruna sambandsins sé eflaust rétt er það misskilningur að forsetningin til breyti engu. Alþekkt er að margar sagnir taka mismunandi frumlagsfall og hafa mismunandi merkingu eftir þeim orðasamböndum sem þær eru notaðar í, og ég þori að fullyrða sögnin hlakka í sambandinu hlakka til táknar ekki hljóð í huga nokkurs núlifandi málnotanda. Það er merking sambandsins hlakka til sem veldur því að frumlagsfallið hefur tilhneigingu til að breytast eins og Árni Böðvarsson benti á í Þjóðviljanum 1961: Alkunna er að notkun þágufalls breiðist út í sambandi við sumar sagnir […], svo sem „mér langar, mér hlakkar til“, til samræmis við ,.mér líkar, mér finnst“ og aðrar sagnir sem tákna eitthvað á tilfinningasviðinu.“

Skemmtilegustu athugasemdina við mig hlakkar er að finna í Tímanum 1955, þar sem hneykslaður Norðlendingur skrifar af nokkru yfirlæti: „Í grein um [konunafn] í Vísi í gær, byggðri á símtali við hana í London í morgun, er tekið svo til orða: Spurning: Hvenær komið þér heim? Svar: Ég býst við að koma með flugvél Flugfélags Íslands á þriðjudaginn, og hlakkar mig nú til! [Konunafn] er góður Norðlendingur, og þess vegna útilokað, að hún hafi sagt þessa ambögu. Vegna þess, að þessi ambaga, sem vitanlega er tekin úr orðabók blaðamannsins við Vísi, sem talið átti við [konunafn], og er Sunnlendingum mjög tamt, særir það svo eyru hreinna Norðlendinga, að ég fékk ekki orða bundizt.“

Ég er ekki viss um að Norðurland hafi verið alveg laust við mig hlakkar til. Ég er fæddur sama ár og þessi hneykslunarpistill var skrifaður, 1955, og er nokkuð viss um að mig hlakkar til (en ekki mér hlakkar til) sé mitt eðlilega mál þótt ég hafi vanið mig af því síðar. Mennta- og barnamálaráðherra er líka fæddur sama ár og nokkuð öruggt að mig hlakkar til er það mál sem hann hefur tileinkað sér í æsku enda hefur það greinlega verið mjög algengt á þeim tíma eins og hér hefur komið fram. Aukafall með hlakka til á sér rætur aftur á nítjándu öld eins og hér hefur komið fram, og hefur verið mjög algengt í meira en áttatíu ár. Það er engum í hag, og allra síst íslenskunni, að halda áfram að berja hausnum við steininn og kalla mig hlakkar til rangt mál, hvað þá að hneykslast á fólki sem segir það. Mig hlakkar til er góð og gild íslenska.