Fimmið, sexið, sjöið – fimman, sexan, sjöan
Í greininni „Læknið íslenska tungu“ eftir V.G. (væntanlega Vigfús Guðmundsson) sem birtist í Fálkanum 1929 eru talin ýmis „mállýti“ og bent á hvernig þau „mætti ögn betur af munni mæla“ að mati höfundar. Eitt þessara „mállýta“ er „fimman (spil, og sexan, sjöan)“ sem höfundur vill hafa „fimmið (sexið, sjöið)“ – sem sé hafa þessi spilaheiti í hvorugkyni en ekki kvenkyni sem greinilega hefur einnig tíðkast á þessum tíma. Í spurningadálknum „Póstinum“ í Vikunni 1943 var spurt: „Hvort eru spilin 5, 6 og 7 kvenkyns eða hvorugkyns ? Á að segja fimman eða fimmið o.s.frv.?“ „Póstinum“ varð ekki svarafátt frekar en endranær og sagði: „Við leituðum að þessu í orðabók Sigfúsar Blöndal og hefir hann þar kvenkyn á þessum spilum.“
En reyndar skjöplast „Póstinum“ þar – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hvorugkynið nefnilega aðalmynd þessara orða þótt kvenkynsmyndirnar séu einnig nefndar. Við kvenkynsorðið fimma er vísað á hvorugkynsorðið fimm, en við bæði sexa og sjöa stendur „(Múl.)“ á eftir skýringunni – kvenkynsmyndirnar eru sem sé taldar staðbundnar við Múlasýslur. Í Íslenskri orðabók frá 1963 og síðari útgáfum eru bæði kvenkyns- og hvorugkynsmyndirnar gefnar athugasemdalaust án þess að gert sé upp á milli þeirra, en í Íslenskri nútímamálsorðabók eru aðeins kvenkynsmyndirnar gefnar en orðin fimm, sex og sjö er þar aðeins að finna sem töluorð. Hvorugkynsmyndirnar virðast því vera að hverfa úr málinu.
Ef marka má tímarit.is tíðkuðust bæði kvenkyns- og hvorugkynsmyndirnar mestalla tuttugustu öldina en hvorugkynið var lengi framan af öllu algengara. Ég ólst upp við hvorugkynsmyndirnar í Skagafirði um 1960 og held að ég hafi ekki þekkt kvenkynsmyndirnar á þeim tíma, en kynntist þeim síðar og hef sennilega tekið þær upp þótt ég tali svo sjaldan um spil að ég átti mig ekki alveg á því hvað ég myndi segja núna. Í greininni „Hvernig á að tala íslensku?“ í Morgunblaðinu 1983 nefnir Höskuldur Þráinsson prófessor þetta sem dæmi um landshlutabundin tilbrigði og segir: „sumir segja fimman, sexan, sjöan, aðrir fimmið, sexið, sjöið.“ En upp úr 1970 tóku kvenkynsmyndirnar ótvíræða forystu en hvorugkynsmyndum fækkaði smátt og smátt.
En fjölgun dæma um kvenkynsmyndirnar má reyndar ekki eingöngu rekja til spilanafna, heldur stafar ekki síður af því að farið var að nota þær um strætisvagnaleiðir í Reykjavík – fimman, sexan, sjöan. Ég veit ekki hvenær sú notkun hófst en sennilega eftir að nýtt leiðakerfi Strætisvagna Reykjavíkur var tekið upp vorið 1970. Þá fækkaði leiðum mjög og voru í upphafi ellefu, en höfðu áður verið á þriðja tug. Með þessari fækkun voru komnar forsendur fyrir því að nota spilaheiti á flestar leiðir og fljótlega urðu til ný kvenkynsorð með sama sniði – ellefan og einnig tólfan þegar leiðum fjölgaði enn. Bæði þessi nýju orð er að finna í Slangurorðabókinni frá 1983. Hvorugkynsmyndirnar fimmið, sexið, sjöið virðast aldrei hafa gegnt þessu hlutverki.
Það er ekki hægt að fullyrða neitt um það hvers vegna kvenkynsmyndirnar urðu ofan á og hvorugkynsmyndirnar hurfu nánast úr málinu, en þó er ekki ólíklegt að áhrif frá kvenkynsheitunum átta, nía og tía hafi spilað þar inn í – ég tala nú ekki um þegar ellefa og tólfa bættust við. Á seinni árum hefur hvorugkynsorðið sex líka fengið aukamerkingu af enskum uppruna í (óformlegri) íslensku sem gæti haft áhrif í þá átt að fólk veigraði sér við að nota orðið sem spilaheiti. Einnig má benda á að kvenkynsmyndirnar eru í vissum skilningi skýrari og ótvíræðari en hvorugkynsmyndirnar – fimma, sexa og sjöa eru einvörðungu nafnorð en nafnorðin fimm, sex og sjö falla saman við töluorðin fimm, sex og sjö.