Páskar
Í „Málspjalli“ var nýlega spurt hvenær hefði verið farið að tala um páskadag sem páskasunnudag, sem heyrðist nú í auglýsingum og víðar – og sagt að páskalaugardagur hefði jafnvel heyrst um laugardaginn fyrir páska. Orðið páskasunnudagur er reyndar ekki nýtt þótt sjaldgæft sé – nokkuð á annað hundrað dæmi eru um það á tímarit.is, það elsta í Vísi 1937: „Óeirðasamt var í Belfast á Írlandi páskasunnudag.“ Meginhluti dæmanna er þó frá síðustu þrjátíu árum. Tæp 120 dæmi eru um orðið í Risamálheildinni þar sem eru að langmestu leyti textar frá þessari öld. Notkun orðsins fer því greinilega vaxandi og er ekki ótrúlegt að þar gæti áhrifa frá Easter Sunday í ensku. En þetta gefur tilefni til að fjalla dálítið um orðið páskar.
Þetta er vitanlega tökuorð sem kom inn í málið með kristninni úr miðlágþýsku en er upphaflega úr arameísku eða hebresku samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Orðið hefur nánast alltaf verið haft í fleirtölu þótt einstöku dæmi megi finna um eintölumyndina páski, en hins vegar var bæði kyn þess og fleirtöluending á reiki áður fyrr eins og Árni Björnsson rekur í Sögu daganna. Í fornu máli eru dæmi um orðið í kvenkyni álíka mörg og karlkynsdæmi. Í Strengleikum frá 13. öld segir t.d.: „dvaldist í Bretlandi til þess er páskar voru liðnar.“ Þarna er notuð fleirtalan páskar eins og í karlkyni en oftast er fleirtalan þó -ir þegar orðið er haft í kvenkyni: „og fá presti í hendur fyrir páskir“ segir í Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar frá um 1300.
Kvenkynið páskir hélst í málinu fram á nítjándu öld. Í Skírni 1828 segir: „allir Rússar […] ferdudust annadhvört til Flórenz edr Lívornó til ad halda páskir og adrar hátídir sínar.“ Í Íslands Árbókum Jóns Espólíns frá fyrsta hluta 19. aldar segir: „Tók Ögmundur biskup vel við hönum og lét setja hönum drykkjuborð í einni stofu um páskirnar.“ Í Æfisögu Þórðar Sveinbjarnarsonar frá miðri 19. öld segir: „Um vorið um páskir skilaði Jón prestur mér heim til föður míns.“ Í Orðabók Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal frá seinni hluta 18. aldar er myndin páskir hins vegar gefin sem karlkynsorð en myndin páskar talin „vulgo“, þ.e. alþýðumál. Engin dæmi um páskir – hvorki í karkyni né kvenkyni – eru yngri en frá 19. öld.
Í færeysku hefur myndin páskir hins vegar tíðkast alla tíð og verið kvenkynsorð – fram undir þetta. En nú um páskana birtist eftirfarandi færsla á Facebook-síðu færeyska Málráðsins: „Eitur tað gleðiligar páskir ella gleðilig páskir? Eldri – og rættari – er at siga gleðiligar páskir (kvennkyn). Í dag er tó vorðið so vanligt at hoyra páskir sum hvørkikynsorð, ið er yngri formur, at Stavsetingarorðabókin hevur báðar møguleikarnar: upprunaformin ‘páskirnar’ (kvennkyn, bundið) og yngra formin ‘páskini’ (hvørkikyn, bundið).“ Það er sem sé orðið svo algengt að hafa páskir í hvorugkyni að hin opinbera færeyska Stavsetningarorðabók er búin að taka inn bæði kvenkyns- og hvorugkynsmyndir með greini – páskirnar í kvenkyni, páskini í hvorugkyni.
Vissulega hefur svipuð þróun stundum orðið í íslensku og færeysku en litlar líkur eru á að svo verði í þessu tilviki – þótt -ar sé algeng nefnifallsending í fleirtölu bæði í karlkyni og kvenkyni í íslensku eru sterk hvorugkynsorð ævinlega endingarlaus í nefnifalli fleirtölu. En svo að komið sé aftur að spurningunni sem varð tilefni þessa pistils er ljóst að þótt orðið páskasunnudagur sé ekki nýtt er það tiltölulega mjög sjaldgæft og litlar líkur á því að það hrófli við orðinu páskadagur – vitanlega er sjálfsagt að halda sig við hefðina og óþarfi að lengja orðið. Aftur á móti finnst mér orðið páskalaugardagur sem fimm dæmi eru um á tímarit.is, það elsta frá 1944, ekki sem verst og koma vel til greina í staðinn fyrir langlokuna laugardagurinn fyrir páska.