Morguns-ár eða morgun-sár?

Framburður orðsins morgunsár var efni nýlegs innleggs í „Málspjalli“. Höfundur innleggsins sagðist nýlega hafa heyrt það borið fram bæði morgun-sár og morguns-ár og hugnaðist síðarnefndi framburðurinn mun betur. Væntanlega er þar vísað til þess að sá framburður endurspegli betur uppruna orðsins því að venjulega er talið að seinni hluti þess sé fremur ár en sár. Hins vegar skiptir uppruninn engu máli fyrir framburðinn – í eðlilegu samfelldu tali væri orðið borið fram á nákvæmlega sama hátt hvor sem uppruninn væri. Vissulega er hægt að gera mun á framburði eftir því hvar meginskilin í orðinu eru talin vera, en það verður aðeins gert með því að slíta orðið dálítið í sundur og það er ekki venjulegur framburður.

En reyndar er sá skilningur að seinni hluti orðsins sé sár og samsetningin því morgun-sár algengur og útbreiddur – og eðlilegur. Gísli Jónsson sagði t.d. í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986: „En einhvern veginn finnst mér að ekki megi alveg útiloka hugtakið sár í þessu tilfelli. Það virðist kannske fjarstæðukennt í fyrstu að hugsa sér morgunsár. Að vísu telst það venjulega fremur ánægjuefni, þegar grisja tekur í næturhúmið, en er samt ekki um eins konar sár að ræða, þegar það er rofið af morgunbirtunni í austri.“ Þessi skilningur kemur fram í heiti ljóðabókarinnar Það blæðir úr morgunsárinu eftir Jónas Svafár frá 1952, þótt það þurfi ekki að þýða að skáldið hafi skilið orðið á þennan veg – eins víst er að um orðaleik sé að ræða.

Í grein á Vísindavefnum segir að elstu dæmi Ritmálssafns Orðabókar Háskólans um orðið morgunsár séu úr Hómersþýðingum Sveinbjarnar Egilssonar frá því um miðja nítjándu öld –  orðið sé „í raun samsett úr orðunum morgunn og atviksorðinu ár í merkingunni 'árla, snemma'“ og hugsanlegt sé „að hvorugkynið sé orðið til við þann misskilning að orðið sé sett saman úr morgunn og sár.“  En reyndar kemur orðið fyrir þegar í fornu máli, í biblíuþýðingunni Stjórn frá þrettándu öld – vissulega ritað í tvennu lagi en það skiptir ekki máli: „Að morgins ári skylduðu englarnir Lot út að ganga.“ Einnig kemur það fyrir í Hjálmþérs sögu og Ölvis frá sautjándu öld: „Hann vakir, sem hann var vanr; utan í móti morgunsári rann á hann svefnhöfgi.“

Það er líka ástæðulaust að ætla að seinni hluti orðsins sé atviksorðið ár en hvorugkyn orðsins megi rekja til þess skilnings að seinni hlutinn sé nafnorðið sár. Hvorugkynsorðið ár í merkingunni 'tíminn í öndverðu, mjög snemma' var nefnilega til í málinu en er merkt „fornt/úrelt“ í Íslenskri orðabók. Sambandið um morguninn í ár kemur fyrir nokkrum sinnum í fornu máli. Í Hrólfs sögu Gautrekssonar segir t.d.: „Um morguninn þegar í ár býr konungur lið sitt og fer þegar til borgarinnar.“ Í Rémundar sögu keisarasonar segir: „konungsson vaknar um morguninn í ár.“ Það er því varla nokkur vafi á að orðið er myndað af karlkynsorðinu morgunn og hvorugkynsorðinu ár – þótt skilningurinn morgun-sár sé eiginlega mun skemmtilegri.