Þiggur þotu af Katörum – eða Köturum
Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í gær segir: „Trump ætlar að þiggja þotu af Katörum.“ Orðið Katörum er þágufall fleirtölu af íbúaheitinu Katari – í Málfarsbankanum segir: „Íbúar í landinu Katar (ef. Katars) nefnast Katarar.“ (Reyndar er katarar einnig til sem heiti á kristnum trúflokki en það skiptir ekki máli í þessu sambandi.) Samkvæmt íslenskum beygingarreglum er eðlilegt og óhjákvæmilegt að a í síðasta atkvæði stofns verði fyrir áhrifum frá u í beygingarendingu og þess vegna fáum við ö í Katörum – það væri óhugsandi að halda a-inu og segja *Katarum. Myndin Katörum er líka sú eina sem er gefin fyrir þágufall fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls – en hún er samt ekki sú eina sem kemur til greina.
Það væri nefnilega líka hugsanlegt að breyta seinna a-inu í stofninum í u og því fyrra í ö og fá Köturum – og sú beyging er reyndar til. Á tímarit.is eru fimm dæmi um Köturum en 18 um Katörum, og í Risamálheildinni rúm 20 um Köturum en tæp 60 um Katörum. Ef við skoðum orð með hliðstæða stofngerð við Katari kemur í ljós að þau breyta nær öll báðum a-unum í stofninum. Þágufall fleirtölu af gatari er göturum, ekki *gatörum, af hatari höturum, ekki *hatörum, af matari möturum, ekki *matörum, o.fl. Þjóðflokksheitið Tatari er þó undantekning – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er vissulega aðeins gefin upp myndin Töturum í þágufalli fleirtölu en á tímarit.is má þó finna á fjórða tug dæma um myndina Tatörum.
Tvímyndir af þessu tagi eru sannarlega ekki einsdæmi. Alþekkt er að þágufall fleirtölu af banani getur verið bæði banönum og bönunum, af sandali bæði sandölum og söndulum, og af Japani bæði Japönum og Jöpunum þótt það síðarnefnda sé vissulega sjaldgæft. Sameiginlegt með öllum þeim orðum þar sem tvímyndir koma fyrir er að þau eru tökuorð – orð af íslenskum stofni virðast aldrei leyfa myndir þar sem aðeins seinna a-ið i stofninum breytist, eins og *gatörum, *hatörum, *matörum. Það má þess vegna halda því fram að myndirnar Köturum, Töturum, Jöpunum, bönunum og söndulum séu í betra samræmi við málkerfið, séu „íslenskulegri“ í vissum skilningi en myndirnar Katörum, Tatörum, Japönum, banönum og sandölum.
Þótt erfitt sé að slá nokkru föstu um þróun tökuorðanna sýnist mér ritmálsdæmi benda til að þau aðlagist beygingakerfinu í skrefum – byrji yfirleitt á því að breyta aðeins seinna a-inu, eins og Katörum, en taki síðar smátt og smátt upp beygingarmynstur íslensku orðanna og þá koma til myndir eins og Köturum. Það er þó misjafnt eftir orðum hversu hratt þetta gerist og jafnvel hvort það gerist yfirleitt – orð eins og Albani verður t.d. aldrei *Ölbunum í þágufalli fleirtölu. Það er samt sem áður ljóst að bæði beygingarmynstrin eiga sér langa hefð í málinu og bæði Katörum og Köturum eru góðar og gildar beygingarmyndir – rétt eins og Tatörum og Töturum, Japönum og Jöpunum, banönum og bönunum, sandölum og söndulum o.s.frv.