Að fá stígvélið

Í frétt á vef DV í dag segir: „Van Nistelrooy fær stígvélið um mánaðarmótin“ og í annarri frétt á sama miðli (og eftir sama blaðamann) í gær sagði: „Hann bjóst ekki við að fá stígvélið á þessum tímapunkti.“ Ég minntist þess ekki að hafa séð sambandið fá stígvélið áður en merkingin í því er svo sem augljós og þarf varla að lesa fréttirnar til að átta sig á því að það merkir 'vera sagt upp störfum, vera rekinn'. Við nánari athugun kom hins vegar í ljós að þetta orðasamband er ekki alveg nýtt í málinu – elsta dæmi sem ég finn um það er á Hugi.is 2007: „annars ætti hún bara að fá stígvélið að mínu mati.“ Sambandið hefur töluvert verið notað á síðustu fimmtán árum – rúm hundrað dæmi eru um það í Risamálheildinni.

Sambandið fá stígvélið á augljóslega uppruna sinn í ensku þar sem samböndin get the boot og be given the boot eru notuð í óformlegu máli í merkingunni 'you are told that you are not wanted any more, either in your job or by someone you are having a relationship with' eða 'þér er sagt að þín sé ekki óskað lengur, annaðhvort í starfi eða af einhverjum sem þú ert í sambandi við/með'. Notkunarsviðið getur því verið nokkuð vítt, en notkun sambandsins fá stígvélið í íslensku er mun takmarkaðri – það virðist nær eingöngu vera notað í knattspyrnumáli þótt annarri notkun bregði stöku sinnum fyrir á samfélagsmiðlum, eins og í „Piers Morgan búinn að fá stígvélið á CNN“ á Twitter 2014 og „Fékk stígvélið frá Árna á Spot“ á Twitter 2017.

Það má segja að fá stígvélið sé myndrænt og gagnsætt, og þótt sambandið eigi sér enskan uppruna er það í sjálfu sér ekki næg ástæða til að amast við því ef það kemur að notum í íslensku – ný orðasambönd sem falla að málinu auðga það og ég hef oft sagt að orð og orðasambönd eigi ekki að gjalda uppruna síns. Ég hef sem sé engar athugasemdir við sambandið út af fyrir sig eða áhyggjur af því að það spilli málinu. Mér finnst hins vegar umhugsunarvert hver ástæðan er fyrir beinni upptöku enskættaðra orðasambanda af þessu tagi – ég er hræddur um að það sé oft annaðhvort hugsunarleysi eða vanþekking á því hvernig venja er að orða þetta í íslensku.

Í þessu tilviki eru til ágæt sambönd sem eiga sér meira en aldarlanga hefð í málinu – bæði vera sparkað eða fá sparkið sem vísa til sömu myndar og fá stígvélið, og einnig látinn taka pokann sinn sem er kannski dálítið mildara. Bæði samböndin hafa iðulega verið notuð í knattspyrnumáli á undanförnum áratugum, m.a. um nákvæmlega sömu aðstæður og vísað var til í fréttum DV. Í Vísi 1976 segir: „Þjálfaranum var sparkað.“ Í DV 1981 segir: „að undanförnu hafa þrír þjálfarar verið látnir taka pokann sinn.“ Jafnvel kemur fyrir að samböndin séu notuð saman – „Fyrsta þjálfaranum á Spáni, sem fær að taka pokann sinn, var sparkað frá Real Murcia í gær“ í DV 1986. Þótt sé í lagi að tala um að fá stígvélið er ástæðulaust að gleyma þessum samböndum.