Merking og orðflokkur orðsins lúmskt
Lýsingarorðið lúmskur er komið inn í málið á nítjándu öld sem tökuorð úr lumsk í dönsku sem merkir 'lævís, slóttugur', 'inn undir sig'. Að uppruna er þetta sama orð og lymskur sem kemur fyrir í fornmáli, t.d. „„Ekki er eg,“ sagði Knútur, „lymskari en þér þótt eg sé skapbráður““ í Sturlungu. Það orð er mjög sjaldgæft í nútímamáli – aðeins nítján dæmi eru um það í Risamálheildinni, mörg hver úr gömlum textum. Hins vegar lifir það góðu lífi í samsetningum eins og lymskulegur, lymskufullur, lymskubragð o.fl. Í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 er lúmskur einfaldlega skýrt 'lumsk', og í Íslenskri orðabók er það skýrt 'undirförull, lævís, lymskur'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin einnig 'undirförull, lævís'.
En skýringarorðin 'undirförull', 'lævís', 'slóttugur' og ‚'inn undir sig' eiga ekki alltaf við – þau eru oft of neikvæð og eiga einkum við um lifandi verur, fólk eða dýr. Þannig er orðið þó sjaldnast notað, heldur oftast um hluti, fyrirbæri eða hugmyndir – sérstaklega hvorugkynið lúmskt sem er langalgengasta myndin. Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Margrét Ólafía segir að háþrýstingur geti verið mjög lúmskur.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „Hún er með lúmsk skot og ótrúlega gott auga fyrir leiknum.“ Í Fréttablaðinu 2020 segir: „Það er lúmskt markmið hjá okkur að koma hvert öðru á óvart.“ Áðurnefnd skýringarorð eiga ekki við þarna – heppilegra væri 'óvænt', 'laumulegt', 'sem á að fara lágt', 'lítið áberandi', 'dulið', 'ósýnilegt' o.þ.h.
Það er vel þekkt að hvorugkyn lýsingarorða fær oft setningarstöðu atviksorðs og er þá iðulega sérstakt flettiorð í orðabókum – sem dæmi má nefna hátt, lágt, hægt, hratt, brátt, fljótt og mörg fleiri sem orðabækur gefa upp sem atviksorð eins og eðlilegt er. Því fer þó fjarri að hvorugkyn allra lýsingarorða sé notað á þennan hátt, og í orðabókum er myndin lúmskt sem atviksorð ekki sérstakt flettiorð – aðeins lýsingarorðið lúmskur. Notkunardæmið um það orð í Íslenskri nútímamálsorðabók er hafa lúmskt gaman af að <stríða yfirmanninum>. Dæmi um þetta samband eru reyndar meira en helmingur af öllum dæmum um myndina lúmskt á tímarit.is, það elsta í Mánudagsblaðinu 1952: „Höfðu menn lúmskt gaman, að þessum kennslustundum.“
Nú er gaman vissulega nafnorð, en mjög sérstakt nafnorð að því leyti að í sambandinu hafa gaman af tekur það venjulega með sér atviksorð en ekki lýsingarorð eins og við væri að búast – oftast er sagt mjög gaman, ákaflega gaman en síður mikið gaman og varla ákaft gaman. Vegna þess að gaman er hvorugkynsorð er þó ekki hægt að útiloka með öllu að lúmskt sé lýsingarorð þegar orðin standa saman, og hægt er að finna dæmi þar sem sambandið fallbeygist og er þá ótvírætt um lýsingarorð að ræða – „Og á meðan mjólkin sogaðist úr tanknum tæpti Bergur á tíðindum af traktorakaupum, heyfeng og heimasætum og réði unglingspiltum heilt í lúmsku gamni“ segir í Morgunblaðinu 1992. En þetta er eina dæmið af þessu tagi sem ég hef fundið.
Það er hins vegar auðvelt að finna dæmi þar sem lúmskt stendur ótvírætt sem atviksorð. Í Tímanum 1952 er talað um „tólf af bræðrum þeirra morðingja, sem svo lúmskt höfðu unnið á hinum hröktu mönnum“. Þetta er sennilega þýðing úr dönsku og gæti notkun lúmskt þarna mótast af því, en nóg er af öðrum dæmum. Í Tímanum 1957 segir: „Um leik Valeri verður það þó að segjast, að hann er lúmskt góður.“ Í Mánudagsblaðinu 1959 segir: „Sumar húsmæður […] urðu í rauninni ,,lúmskt“ fegnar eggjaleysinu.“ Í Speglinum 1965 segir: „Í þriðja lagi mætti svo nefna Akureyringa, sem oss grunar lúmskt að séu Framsóknarmenn.“ Í Mánudagsblaðinu 1965 segir: „Ustinov er oft helzti hjaldrjúgur, lúmskt hrifinn af sjálfum sér.“
Dæmum af þessu tagi hefur fjölgað mjög á undanförnum áratugum og enginn vafi á því að eðlilegt væri að gera atviksorðið lúmskt að sérstöku flettiorði í orðabókum. Merking þess er svipuð merkingu lýsingarorðsins, en merkingin 'dálítið' eða 'býsna' virðist þó oft bætast við 'laumulega'. „Sömuleiðis hef ég lúmskt gaman af því að elda mat“ segir í Fréttablaðinu 2016 og „Pabbi hafði líka lúmskt gaman af því að setja saman vísur“ segir í Morgunblaðinu 2016. Þarna finnst mér merkingin eiginlega vera 'það kemur kannski á óvart, en ég hef býsna gaman af því að elda mat' og 'það kemur kannski á óvart, en pabbi hafði býsna gaman af því að setja saman vísur'. Sá neikvæði blær sem er á 'undirförull', 'lævís' og 'slóttugur' er þarna víðs fjarri.
Leave a Reply