Ég veit ekki hvað oft ég hef rekist á það í hópunum „Málvöndunarþátturinn“ og „Skemmtileg íslensk orð“ að hnýtt sé í lýsingarorðið óínáanlegur – það kallað „orðskrípi“ og því valin hin háðulegustu orð. Þótt þetta orð sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er það ekki að finna í helstu orðabókum en kemur reyndar fyrir á Nýyrðavef Árnastofnunar þar sem það er skýrt 'að ekki sé hægt að ná í viðkomandi'. Orðið er vissulega hvorki algengt né ýkja gamalt – dæmin um það á tímarit.is eru samtals aðeins sautján, það elsta í Þjóðviljanum 1991: „En ríkisskattstjóri var, þennan dag [...], á leið norður í land – bílsímalaus og óínáanlegur fyrr en seint um kvöldið.“ Í Risamálheildinni eru dæmin 67, um tveir þriðju af samfélagsmiðlum.
Orðið er vissulega nokkuð langt og það má halda því fram að sé margbrotið og ekki ýkja þjált – greinist í sex hluta: ó-í-ná-an-leg-ur. En því fer samt fjarri að það skeri sig úr. Ýmis orð í málinu eru alveg hliðstæð, svo sem óaðfinnanleg, óaðskiljanleg, óáreiðanleg, óásættanleg, ófrávíkjanleg, ófyrirsjáanleg, óumdeilanleg, óumflýjanleg, óviðráðanleg, óyfirstíganleg – hér er lýsingarorðsendingu sleppt því að flest þessara orða geta einnig verið atviksorð og enda þá á -a. Þessi tíu orð eru öll mjög algeng – um hvert þeirra eru a.m.k. tvö þúsund dæmi bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni, og öll eru þau frá nítjándu öld eða eldri nema óumdeilanleg (1933) og óásættanleg (1979). Margir tugir sjaldgæfari orða til viðbótar fylgja sama mynstri.
Öll þessi orð eru byggð upp á sama hátt –fyrst er neitunarforskeytið ó-, síðan kemur forsetning, þá sagnstofn, síðan nátengdu viðskeytin -an- og -leg-, og að lokum ending lýsingarorðs eða atviksorðs. Forsetningin og sögnin mynda merkingarlega heild – finna að, víkja frá, ná í o.s.frv., og einnig hangir an-leg saman og merkir 'sem hægt er að'. Það er því ljóst að ástæðan fyrir andstöðu við óínáanlegur getur ekki verið gerð orðsins – það er yfirleitt ekki gerð athugasemd við önnur orð sem eru mynduð á sama hátt. Frá því er þó ein undantekning: Það er mjög oft amast við orðinu óásættanlegur eins og ég hef skrifað um. Það eina sem greinir það orð frá hinum, sem almenn sátt er um, er aldurinn – elsta dæmi um óásættanlegur er frá 1979.
Einhverjum kynni að detta í hug að það sem truflaði málnotendur við orðin óásættanlegur og óínáanlegur væri að þau byrja á tveimur breiðum sérhljóðum í röð. En sama gildir um hið algenga orð óáreiðanlegur, sem og orð eins og óáþreifanlegur o.fl. sem aldrei er amast við. Niðurstaðan er sem sé sú að eina hugsanlega ástæðan fyrir andstöðu við orðin óásættanlegur og óínáanlegur er ungur aldur þeirra – margir málnotendur sem hafa ekki alist upp með þau í málumhverfi sínu fúlsa við þeim þess vegna. Það er út af fyrir sig skiljanlegt að ný orð komi fólki spánskt fyrir sjónir, en þegar um er að ræða orð sem eru mynduð í samræmi við reglur málsins og eiga sér fjölmargar hliðstæður er engin ástæða til að amast við þeim, hvað þá að kalla þau „orðskrípi“.