Í gær hnaut ég um setninguna „Nýmálað hús Myndlistarskólans í Reykjavík á horni Rauðarárstígar og Laugavegs hefur vakið athygli fyrir litadýrð“ í frétt á vef Ríkisútvarpsins. Nú hefur fréttinni reyndar verið breytt þannig að í staðinn fyrir „á horni Rauðarárstígar og Laugavegs“ stendur „á horni Rauðarárstígs og Laugavegar“ – eignarfallsendingunum -s og -ar hefur sem sé verið víxlað og eru nú í samræmi við það sem venjulega hefur verið kennt. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er eingöngu gefið eignarfallið Rauðarárstígs en hins vegar bæði Laugavegs og Laugavegar. Í athugasemd við síðarnefnda orðið segir: „Upprunalegt eignarfall af orðinu vegur er vegar en eignarfallinu vegs bregður einnig fyrir.“
Í Alþýðublaðinu 1954 segir Sveinbjörn Sigurjónsson: „Laugavegs er rangt, því að ef. af orðinu vegur í merkingunni leið er yfirleitt vegar, ekki vegs.“ Í Málfarsbankanum segir: „Vegar er eignarfall af vegur þegar orðið merkir: leið o.s.frv. […] Samt sem áður getur vegs komið fyrir í samsetningum á borð við heitið Laugavegsapótek.“ Í ritdómi í Íslandi 1929 segir: „Laugavegs Apóthek […] þýðir á íslenzku Lyfjabúð Laugavegar“. Það er vel þekkt að orð hafa oft aðra eignarfallsmynd í samsetningum en ein og sér, en myndin Laugavegs á sér einnig langa hefð utan samsetninga. Um hana eru hátt í tuttugu þúsund dæmi á tímarit.is, þau elstu frá því fyrir 1900 – en dæmin um „réttu“ myndina Laugavegar eru ekki nema rétt á fjórða þúsund.
Eignarfallið vegs í merkingunni 'leið' kemur reyndar fyrir þegar í Reykjahólabók frá fyrri hluta sextándu aldar, og vegna aldurs og tíðni er ljóst að Laugavegs hlýtur að teljast rétt. Eignarfallið (Rauðarár)stígar hefur hins vegar allt aðra stöðu en er þó ekki einsdæmi. Í Morgunblaðinu 1940 segir: „Laugarnessókn, austan Rauðarárstígar.“ Í Tímanum 1979 segir: „Í fyrrakvöld var ekið á fullorðna konu á mótum Skúlagötu og Rauðarárstígar.“ Í Morgunblaðinu 1998 segir: „Á horni Njálsgötu og Rauðarárstígar.“ Það má líka finna myndirnar Laugavegs og Rauðarárstígar á síðunni frostiberg í texta frá 2016 við mynd af húsinu sem vísað var til í áðurnefndri frétt Ríkisútvarpsins: „Stórhýsi Egils Vilhjálmssonar, á horni Laugavegs og Rauðarárstígar nýrisið.“
Einnig má finna fáein dæmi um -ar-eignarfall annarra stígs-heita. Í Vísi 1952 segir: „og þar sett fram gagnrýni vegna ósamrýmis milli götuljósanna á horni Skólavörðustígar og Laugavegs annars vegar og ljósanna á mótum Bankastrætis og Laugavegar hins vegar.“ Í Vísi 1955 segir: „Hinn áreksturinn varð milli hjólreiðamanns og bifreiðar á mótum Barónsstígar og Laugavegar.“ Í DV 1987 segir: „Umferðarslys varð í veðurblíðunni í gær á mótum Bergstaðastrætis og Bjarnarstígar.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Rúmgott og bjart versl.húsn. á horni Barónsstígar og Laugavegar.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Vorum að fá í sölu þetta glæsilega verslunarhúsnæði á horni Skólavörðustígar og Óðinsgötu.“
En eignarfallsmyndir með -stígar eru ekki bundnar við götuheiti. Á vef Ríkisútvarpsins 2012 segir: „Í gær mættu bæjarbúar með skóflur og hófu gerð gangstígar.“ Á mbl.is 2017 segir: „Þannig sé nú unnið að gerð hjólastígar milli Akureyrar og þéttbýlisins í Hrafnagili.“ Í Vísi 2022 segir: „Framkvæmdir hófust við Litluhlíð fyrir neðan Bústaðaveg í maí í fyrra við gerð nýs göngu- og hjólastígar.“ Einnig má finna dæmi um eignarfallið stígar eitt og sér. Í Vikunni 1965 segir: „Við enda eins stígarins gnæfði stytta af Pan.“ Í Mosfellsblaðinu 2000 segir: „Mikil handvömm virðist í lagningu þessa stígar.“ En erfitt er að leita rafrænt að dæmum um eignarfallið stígar án greinis vegna þess að það fellur saman við fleirtöluna.
Enda þótt eignarfallinu stígar hafi lengi brugðið fyrir er ekki að sjá í Risamálheildinni að tíðni þess fari vaxandi – sárafá dæmi eru um það af samfélagsmiðlum. Það er ljóst að þetta eignarfall er of sjaldgæft til að hægt sé að telja það málvenju og þar með er það ekki „rétt mál“ samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Þess vegna var rétt að breyta því á vef Ríkisútvarpsins – en eðlilegt hefði verið að leyfa Laugavegs að standa. Hitt er annað mál að eins og ég hef skrifað um eru fjölmörg dæmi um það frá ýmsum tímum að karlkynsorð flakki milli -s- og -ar-eignarfalls, og ýmis orð höfðu tvímyndir þegar í fornu máli. Það væru engin málspjöll og algerlega meinlaust þótt eignarfallið Rauðarárstígar breiddist út og yrði málvenja.