Posted on

Handtaka

Í morgun hef ég séð fjölda fólks gera athugasemdir við það að fjölmiðlar skuli nota orðið handtaka (bæði sem nafnorð og sögn) í frásögnum af aðgerðum Ísraelshers gegn Möggu Stínu og öðrum skipverjum á Conscience. Mörgum finnst að með því að nota þetta orð sé verið að viðurkenna lögmæti aðgerðanna og í staðinn ætti að tala um ólögmæta handtöku, sjórán, mannrán eða eitthvað annað. Nú er rétt að nefna að þótt þeim sem gera athugasemdir við orðanotkunina og fleiri, þ. á m. mér, finnist ljóst að Ísraelsmenn hafi enga heimild samkvæmt alþjóðalögum til að stöðva skip á leið til Gasa og færa þau til hafnar er það ekki alveg óumdeilt. Gefum okkur samt að þetta sé óheimilt – leiðir það þá til þess að orðið handtaka eigi ekki við?

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið handtaka skýrt 'frelsissvipting í tiltölulega skamman tíma' og samhljóma sögn er skýrð 'taka (e-n) höndum (af yfirvaldi), taka einhvern fastan'. Skilgreining nafnorðsins í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum er 'Frelsissvipting í tiltölulega skamman tíma í þágu rannsóknar eða meðferðar sakamáls ellegar til að halda uppi lögum og reglu' og bætt er við skýringunni 'Yfirleitt er það lögregla sem tekur ákvörðun um handtöku og framkvæmir hana'. Aðgerðir Ísraelshers geta fallið undir þessar skilgreiningar – þarna eru það hernaðaryfirvöld (sem jafngilda lögreglu) sem framkvæma aðgerðina og halda því væntanlega fram að þau séu að „halda uppi lögum og reglu“ með aðgerðum sínum.

Skilgreiningar orðsins handtaka, hvort sem litið er á nafnorðið eða sögnina, fela í sjálfu sér ekki í sér að um lögmæta aðgerð sé að ræða – enda væri þá ekki hægt að tala um ólögmæta eða ólöglega handtöku sem þó er oft gert. Þess vegna er ekki hægt að halda því fram að orðið sé beinlínis ranglega notað í fréttum af umræddri aðgerð. Hitt er annað mál að væntanlega gerum við flest ósjálfrátt ráð fyrir því að lögregla og önnur yfirvöld fari að lögum í aðgerðum sínum og handtaka sé því að jafnaði lögmæt aðgerð. Þess vegna má halda því fram að handtaka sé ekki heppilegt orð þarna – en það eru sjórán og mannrán tæpast heldur vegna þess að með þeim er fullyrt um ólögmæti umdeildra aðgerða. Hlutlausasta orðið þarna væri líklega frelsissvipting.

Þetta er gott dæmi um það að fjölmiðlar þurfa að huga vel að orðanotkun sinni í umfjöllun um viðkvæm og umdeild málefni. Það er nefnilega ekki bara bókstafleg merking orðanna sem skiptir máli, heldur þau hughrif og hugrenningatengsl sem þau vekja. Það er ekki óeðlilegt að fjölmiðlar fari varlega og reyni að nota hlutlaus orð þótt þar með megi búast við að allir aðilar verði ósáttir við orðanotkunina – bæði þau sem vilja taka tiltekna afstöðu og þau sem vilja taka þveröfuga afstöðu. Þetta hefur komið skýrt fram á undanförnum mánuðum í fréttaflutningi af hryllingnum á Gasa þar sem íslenskir fjölmiðlar hafa smátt og smátt farið að nota gildishlaðnara og afdráttarlausara orðalag eftir því sem fleiri sönnur eru færðar á grimmdarverk Ísraelshers.