Posted on

Hið raunverulega vandamál

Í umræðu um meintan minnkandi lestur á skáldsögum Halldórs Laxness í skólum hefur stafsetningu Halldórs, minnkandi lesskilningi, breyttum tíðaranda, styttingu framhaldsskólans og jafnvel marxískum hugsunarhætti verið kennt um.  En í mbl.is í gær voru nokkrir nemendur í Verslunarskóla Íslands teknir tali og spurðir hvort þeim fyndist áhyggjuefni að ungt fólk lesi ekki bækur. Ung kona svarar því svo: „Já, alveg mjög miklar. Í rauninni rosalegar. Ég persónulega les aldrei bækur.“ Þrjár aðrar „eru sammála skólasystrum sínum um að lestur í þeirra aldurshópi sé í lágmarki“ – ein þeirra segir: „Ég get bara sagt það sjálf að ég hef áhyggjur af mér sjálfri því ég les svo lítið. Ég þekki mjög fáa sem lesa sér eitthvað til gamans.“

Hér er loksins komið að kjarna málsins. Hann er nefnilega ekki sá að dregið hafi úr lestri á bókum Halldórs Laxness í skólum – sem er sjálfsagt rétt – heldur að unga fólkið les ekki bækur yfirleitt. Auðvitað er hér ekki um vísindalega rannsókn að ræða, en það verður samt að vekja athygli á því að þetta er vitnisburður nemenda í eftirsóttasta framhaldsskóla landsins – hlutfall þeirra sem fengu skólavist af þeim sem höfðu skólann sem fyrsta val var hvergi lægra en þar nú í haust, og þar sem fyrst og fremst er valið inn eftir einkunnum má ætla að nemendur Verslunarskólans séu vel fyrir ofan meðaltal í námsárangri. Samt segjast þau lesa lítið sem ekkert utan skólans. Það er hið raunverulega áhyggjuefni sem umræðan ætti að snúast um.

Það er þó fagnaðarefni að nemendurnir virðast gera sér grein fyrir stöðunni, telja „mikilvægt að lesa klassísk íslensk bókmenntaverk í menntaskóla“ og segja að „það sé gaman að tala góða íslensku“. Þær telja líka „að auka þurfi lestur bóka í grunnskólum“ og bæta við: „Maður þarf að kunna að fallbeygja orð og eitthvað. En ég held að það sé mikilvægt að lesa bækur.“ Ég er einmitt hræddur um að í grunnskólum sé stundum lögð of mikil áhersla á beygingar og orðflokkagreiningu á kostnað bóklestrar. Málfræðin skiptir vissulega máli, en hún er gagnslaus, tilgangslaus og drepleiðinleg í tómarúmi, án tengsla við málið sjálft. Sú málfræði sem máli skiptir fyrir framhaldsskólanema lærist langbest á því að nota málið – í tali, lestri og riti.

Stytting framhaldsskólans hefur án efa dregið úr skáldsagnalestri í skólum, en hún er ekki frumorsök vandans og skólakerfinu verður ekki kennt um hann. (Reyndar má nefna að þegar „marxískum hugsunarhætti“ er kennt umSjálfstætt fólk sé minna lesið í skólum en áður bendir það til þess að alvarlegar gloppur séu ekki síður í sögukennslunni.) Hins vegar kom styttingin á versta tíma – einmitt á þeim tíma þegar nemendur sem höfðu alist upp við samfélagsmiðla og snjallsímanotkun fóru að koma inn í framhaldsskólana með minni lestarþjálfun en þau sem á undan komu. Til mótvægis við það hefði einmitt þurft að bæta í á þessum tíma og auka lestur í framhaldsskólum, en styttingin kom í veg fyrir að það væri hægt.