Orðin uppáhald og eftirlæti í merkingunni ‘sá eða sú sem einhver hefur í hávegum umfram aðra’ eins og það síðarnefnda er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók voru nýlega til umræðu í „Málspjalli“. Málshefjandi sagði að það fyrrnefnda væri „svo löngu komið inn í málið að það telst hrein íslenska þó það sé danskt að uppruna“ og yfirtæki síðarnefnda orðið „sem er þó miklu skemmtilegra orð“. Hún sagði einnig að einn íslenskukennari sinn hefði hvatt nemendur til að nota eftirlæti fremur en uppáhald enda hefði Jónas Hallgrímsson aldrei notað það síðarnefnda. Engin athugasemd er þó gerð við uppáhald í Málfarsbankanum þar sem segir einungis: „Orðið uppáhald má finna í fjölmörgum samsetningum: uppáhaldsbragðtegundin, uppáhaldsfag.“
Orðið eftirlæti kemur oft fyrir í fornu máli og merkir þá yfirleitt ‘eftirlátssemi, greiði, hlýðni’ eða eitthvað slíkt. „Veit eg eigi hvort mér er þunglegra, angurlyndi föður þíns eða eftirlæti við hann“ segir í Gísla sögu Súrssonar. „Melkorka spyr hví hann vildi eigi veita henni eftirlæti það að flytja hana til Íslands“ segir í Laxdæla sögu. Hins vegar er ekki að sjá að orðið sé notað um fólk í fornu máli (t.d. hún er eftirlæti mitt) eða í samsetningum (t.d. eftirlætissonur). Í umræðu í „Málspjalli“ sagði Haukur Þorgeirsson að það virtist „býsna ungt“ að nota eftirlæti í sömu merkingu og uppáhald. Óljóst er hvenær sú merking kemur til – samsetningar með eftirlætis- eru til a.m.k. frá nítjándu öld, en ekki er alltaf auðvelt að átta sig á nákvæmri merkingu þeirra.
Í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1884 segir t.d. um Ragnheiði Brynjólfsdóttur biskups: „hún var ágætlega gáfuð til munns og handa, og eftirlætisbarn föður síns.“ Brynjólfur átti tvö börn, en þetta þarf ekki endilega að þýða að hann hafi haft meira uppáhald á Ragnheiði en Halldóri syni sínum, heldur að hann hafi haft mikið eftirlæti á henni. En í Lögbergi 1901 virðist merkingin fremur vera ‘uppáhaldsbarn’: „Hún var talin gáfuðust allra þeirra systkina, og var eftirlætisbarn föður síns á meðan hann lifði.“ Sennilega hafa báðar merkingarnar lengi lifað hlið við hlið og gera jafnvel enn eins og sést í Morgunblaðinu 2003: „Ég var auðvitað eftirlætisbarn, aldrei þurfti ég að vinna neitt innanhúss“. Hér er merkingin sennilega ekki ‘uppáhaldsbarn’.
Eitt af því sem gæti bent til þess að orðin eftirlæti og uppáhald hafi ekki alltaf alveg sömu merkingu er að þau standa iðulega hlið við hlið. Í Kennaranum 1899 segir: „Hann var uppáhald og eftirlæti föður síns.“ Í Lögbergi 1923 segir: „Hún var eftirlæti foreldra sinna og uppáhald leiksystkina sinna.“ Í Þjóðviljanum 1982 segir: „Sigurjón Ólafsson varð ungur uppáhald og eftirlæti fagurkera og færustu sérfræðinga í myndmennt.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Tariq-ol-Islam varð strax eftirlæti og uppáhald hinna „trúuðu“.“ Vissulega þarf þetta ekki að sýna að fólk leggi mismunandi merkingu í orðin heldur getur einfaldlega verið um að ræða tvítekningu sömu merkingar til áherslu – slíkt er algengt, eins og t.d. glens og gaman.
Orðið uppáhald er mun yngra en eftirlæti – elstu dæmi um það eru frá lokum átjándu aldar, úr Kvöldvökum Hannesar Finnssonar: „við það annað vórud þjer ordinn mesta uppáhald Kalífans“, „eins eru konúngarnir og þeirra uppáhald“ og „eg vard uppáhaldid hans“. Þarna er ekki annað að sjá en orðið hafi sömu merkingu og í nútímamáli, ‘sem er hafður í hávegum umfram aðra’. Á nítjándu öld fara svo að koma fram ýmsar samsetningar með uppáhalds- að fyrri lið – „Enn 25. dag nóvembers kom Akbar, uppáhaldssonur Dost Mahomed‘s […] í leikinn“ segir í Skírni 1843; „Önnur villa er að hafa uppáhaldsbörn“ segir í Norðra 1856; „eg er uppáhalds-innistúlkan hennar Undinu, sem er uppáhaldsdóttir sækóngsins“ segir í Barnablaðinu 1899.
Í innlegginu í „Málspjalli“ sem vitnað var til í upphafi var nefnt að uppáhald væri „danskt að uppruna“. Í umræðum kom fram að þátttakendur áttuðu sig ekki á því af hvaða danska orði eða orðasambandi þetta væri komið, og ég finn ekkert sem bendir til dansks uppruna orðsins. En orð sem mynduð eru á svipaðan hátt, með tveimur forskeytum, þykja stundum kauðsleg (svo sem óásættanlegur, óínáanlegur o.fl.) og hugsanlegt er að fólk hafi einfaldlega gefið sér að orð sem ekki væri fallegt hlyti að eiga sér danskan uppruna. En þótt svo sé ekki má vitanlega halda því fram – eins og oft er gert – að samsetningar með eftirlætis- séu mun fegurri en með uppáhalds-. Ég geri ekki athugasemd við það, en hvort tveggja er vitaskuld góð og gild íslenska.

+354-861-6417
eirikurr