Posted on

Að faila eða feila – þarna er efinn

Í frásögn DV af viðtali Sýnar sport við þjálfara karlalandsliðs Íslands í knattspyrnu segir: „Við failuðum á okkar markmiði, það er ekki disaster að faila.“ Það er auðvitað enginn vafi á því að disaster er komið beint úr ensku og bæði merking og ritháttur benda til að faila sé það líka  – ensk sögn sem merkir 'mistakast, misheppnast' er skrifuð fail. Enska sögnin er reyndar oftast notuð með andlagi frekar en forsetningu í þessari merkingu þannig að ef þetta tekið beint úr ensku hefði e.t.v. mátt búast við við failuðum okkar markmiði. En þarna er reyndar leitað langt yfir skammt – sögnin feila er gömul tökusögn sem hefur tíðkast í málinu a.m.k. síðan á sextándu öld – dæmi eru um hana í Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540.

Sögnin feila er komin af feilen í miðlágþýsku sem aftur er komin úr fornfrönsku og upphaflega af fallere í latínu. Enska sögnin fail er einnig komin af fallere gegnum fornfrönsku þannig að feila og fail er í raun sama sögnin. Í eldri íslenskum dæmum er feila yfirleitt afturbeygð, feila sér – „er það ósköp, að höfundurinn skuli ekki feila sjer við, að bjóða almenningi þvílíkt rugl og þvílíkan þvætting“ segir í Íslendingi 1861. Þarna merkir sögnin 'blygðast sín, vera feiminn, smeykur við e-ð, hika við e-ð' eins og hún er skýrð í Íslenskri orðabók, og sama skýring er gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Þetta virðist hafa verið aðalmerking eða eina merking sagnarinnar langt fram á tuttugustu öld og er gefin án athugasemda um málsnið.

En í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin eingöngu skýrð 'gera mistök, mistakast, misheppnast' sem er merkingin sem faila hefur í dæminu sem vísað var til í upphafi – þessi merking, og að auki 'skjátlast', er reyndar einnig gefin í Íslenskri orðabók en merkt „óforml.“ Sögnin virðist því hafa fengið nýja merkingu, hugsanlega fyrir áhrif frá dönsku og/eða ensku, á seinni hluta tuttugustu aldar þótt einstöku eldri dæmi megi finna. Í Unga hermanninum 1922 segir: „honum feilar aldrei þegar hann dæmir okkur.“ Í Harðjaxli réttlætis og laga 1924 segir: „þar feilar yður, hr. ritstjóri.“ Í Heimskringlu 1938 segir: „Honum feilar víst ekki þar eða hvað?“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1944 segir: „Skjóni heilan bar mig heim / honum feilaði eigi.“

Upp úr miðri öldinni verður nýja merkingin smátt og smátt algengari og sú eldri virðist hverfa með öllu. Eins og dæmin hér á undan sýna tók sögnin framan af frumlag í þágufalli í nýju merkingunni og þannig er hún gefin, merkt með ? („vont mál“), í annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983. Þolfalli bregður meira að segja fyrir – „Örugg vissa er fyrir því að mig feilar aldrei“ auglýsir maður sem spáir í spil og les í bolla í Íslendingi 1949. En um 1970 fer nefnifall smátt og smátt að koma í staðinn. „Ef ég feilaði, barði hún mig með brauðkefli“ segir í Múlaþingi 1969. Í Mánudagsblaðinu 1973 segir: „Kroppurinn […] feilar ekki að vekja hjá manni syndsamlegar hugsanir.“ Í Stúdentablaðinu 1976 segir: „Þar feilar hann reyndar.“

Sambandið feila á fer svo að sjást á áttunda áratugnum, stundum afturbeygt en þá með þolfalli en ekki þágufalli eins og var í eldri merkingunni. Í Mánudagsblaðinu 1972 segir: „einn eigenda […] feilaði sig á óþarfa mikilmennsku.“ Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Hann feilar á einu grundvallaratriði.“ Í Norðurlandi 1980 segir: „almættið virðist hafa feilað sig á barómetinu.“ Í Heima er bezt 1980 segir: „þar held ég að sé komið að því atriði sem flestir feila á.“ Í Alþýðublaðinu 1981 segir: „En honum feilaði á einu.“ Í Vísi 1981 segir: „Það er það sem þeir feila sig á, sko.“ Í DV 1982 segir: „Það væri synd að feila á lokasprettinum.“ Þegar sögnin er afturbeygð er merkingin oft fremur 'misreikna sig' eða 'skjátlast' en 'mistakast'.

En aftur að tilefni þessara skrifa – dæminu um fail í viðtalinu við landsliðsþjálfarann. Nú veit ég auðvitað ekkert hvort hann tengir feila við ensku sögnina fail eða hvort sú tenging er komin frá blaðamanninum sem skrifaði viðtalið upp. En þessi tenging er greinilega ekki einsdæmi heldur í huga margra – alls eru á tólfta hundrað dæmi um sagnmyndir með rithættinum faila í Risamálheildinni, öll nema þrjú af samfélagsmiðlum (sum reyndar í merkingunni 'fella' sem fail getur líka haft). Þetta sýnir að mörgum málnotendum virðist ekki kunnugt um að feila er gömul sögn í málinu og taka hugsunarlaust upp enskan rithátt hennar. Það er ekkert athugavert við að nota sögnina feila í þeirri merkingu sem hún hafði í viðtalinu – ef hún er skrifuð feila.