Posted on

Ábyrgð fjölmiðla – og aðhald okkar

Í frétt á mbl.is í dag segir: „Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra hefur ákveðið að auglýsa embætti skólameistara Borgarholtsskóla laust til umsóknar og láta þannig skipunartíma núverandi skólameistara ekki framlengjast eins og venja er nema eitthvað sérstakt beri til.“ Fólk getur vitanlega haft mismunandi skoðanir á því hversu skynsamleg eða sanngjörn þessi ákvörðun ráðherra hafi verið, en það er ljóst að hún er í fullu samræmi við 23. grein Laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, þar sem segir: „Ef maður hefur verið skipaður í embætti skv. 1. mgr. skal honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar.“

Þessi frétt ætti vitanlega ekkert erindi í umræður um málfar nema vegna þess að fyrirsögn hennar á mbl.is er „Skólameistara Borgarholtsskóla vikið“. Í frétt Vísis af sama máli sagði uphaflega „Ársæli Guðmundssyni skólameistara Borgarholtsskóla hefur verið vikið frá störfum“ en var fljótlega breytt í „Ársæll Guðmundsson lýkur senn störfum sem skólameistari Borgarholtsskóla“. Sem er eins gott – það er nefnilega alveg ljóst að sögnin víkja á alls ekki við þarna. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin víkja með þágufalli skýrð 'segja (e-m) upp, reka (e-n)' með dæminu Ráðherranum var vikið úr embætti, og í Íslenskri orðabók er sambandið víkja e-m úr embætti (starfi) skýrt 'reka e-n úr stöðu, svipta e-n stöðu'. Það á ekki við hér.

Ég hélt því fram í „Málspjalli“ að notkun sagnarinnar víkja í umræddri frétt yrði ekki kallað annað en pólitísk misnotkun tungumálsins, ekki síst í ljósi ýfinga sem undanfarið hafa verið milli Morgunblaðsins og ráðherrans. Í umræðum um þessa fyrirsögn í „Málspjalli“ sagði maður sem lengi stóð mjög nærri Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins (og gerir kannski enn): „Það er skilningur miðilsins að það að auglýsa stöðuna við þær aðstæður sem hér um ræðir, feli í sér brottvikningu.“ Í annarri athugasemd sagði hann: „Fjölmiðillinn leyfir sér að setja fram skoðun í fyrirsögninni. Það er hans mál og má deila um það út frá hlutleysi miðilsins en ekki út frá íslensku. Þetta er viljandi gert, miðillinn telur athæfið brottvikningu og notar rétt orð um það.“

Það má vitaskuld vera rétt að enda þótt unnið sé í samræmi við lög finnist einhverjum það jafngilda brottvikningu úr starfi að embættismaður fái ekki sjálfkrafa framlengingu á ráðningu. Það er skiljanlegt að slíkt sé áfall fyrir þann sem í því lendir og ekkert hefði verið óeðlilegt við það ef hann hefði sagt „ég var rekinn“, „mér var sparkað“ eða eitthvað slíkt. Það hefði ekki heldur verið neitt við því að segja þótt mbl.is hefði látið í ljósi skoðun í fyrirsögninni og skrifað t.d. Skólameistari hrakinn úr starfi eða Auglýsing starfs jafngildir brottvikningu eða eitthvað slíkt. Áðurnefnd athugasemd, „Það […] má deila um það út frá hlutleysi miðilsins en ekki út frá íslensku“ hefði átt ágætlega við slíkar fyrirsagnir en ekki þá sem þau orð voru höfð um.

En fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega getur ekki leyft sér að nota íslenskt orð sem hefur skýra merkingu, bæði í almennu máli og í þeim lögum sem um ræðir, í einhverri annarri merkingu eins og mbl.is gerði. Það getur ekki verið „skoðun“ hvað íslensk orð merkja. Það helgast af málhefð og er í þessu tilviki einnig stutt af lögum. Auglýsing starfs í samræmi við lög verður ekki „brottvikning“ og víkja verður ekki „rétt orð“ við það eitt að mbl.is telji það. Ég vona að sem flest átti sig á því hversu alvarlegt það er að fjölmiðill misnoti íslenskt orð með fasta og ákveðna merkingu á þann hátt sem þarna er gert. Á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta skiptir miklu máli að sýna fjölmiðlum aðhald og láta þá ekki komast upp með svona.