Í Facebook-hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ rakst ég á mikla hneykslunarumræðu um að nafngreind kona sem ekki er þekkt fyrir óvandað málfar hefði í viðtali sagt einhvern megin í stað einhvern veginn. Þetta var kallað „talgalli“, „málhelti“, „málleysa“ og „bull“ þótt einnig væri nefnt að „ógrynni af fólki“ segði þetta „fyrir austan“ – sem Austfirðingar mótmæltu reyndar harðlega. Ég veit ekki hvort þessi framburður er eitthvað algengari á Austurlandi en annars staðar en hitt er ljóst að hann er mjög algengur víða um land. Enginn vafi er á því að sambandið er upphaflega einhvern veginn, en langalgengasti framburður þess er sennilega einhvernegin [eiŋ̊k(v)ɛ(r)tneijɪn] – þ.e., orðin renna saman og v fellur framan af því seinna.
Þetta má sjá á textum í Risamálheildinni þar sem eru hátt í þúsund dæmi sem endurspegla þennan framburð, ýmist rituð einhvernegin, einhverneginn, einhverneigin eða einhverneiginn – stöku sinnum líka í tveimur orðum. Þarna eru líka rúm sex hundruð dæmi um samsvarandi myndir með m, einhvernmegin, einhvernmeginn, einhvernmeigin og einhvernmeiginn – þar af um þriðjungur í tveimur orðum. Langflest þessara dæma eru úr óprófarkalesnum textum samfélagsmiðla og nær engin dæmi um þessar myndir er að finna á tímarit.is. Vissulega er þetta ekki á við nema lítið brot af samsvarandi dæmum þar sem ritað er v, en sýnir þó að það er fjarri því að vera einsdæmi að hafa megin(n) sem seinni hluta þessa sambands í stað veginn.
Ég hlustaði reyndar á umrætt viðtal og þar var vissulega ekki sagt veginn en ég gat ekki heldur heyrt að þar væri sagt skýrt megin heldur virtist mér þetta vera einhvers konar millihljóð. Hér verður að hafa í huga að v og m eru hljóðfræðilega lík – hvort tveggja rödduð varahljóð og eini munurinn sá að v er önghljóð en m nefhljóð. Sá munur verður ansi lítill inni í miðri samsetningu þar sem að auki verður venjulega lítið eftir af hljóðinu – eins og áður segir er sennilega oftast hvorki v né m þarna í eðlilegum framburði þannig að hvorki rithátturinn einhvern veginn né einhvern megin(n) hefur stuðning af framburði. Þess vegna er í raun fullkomlega eðlilegt og viðbúið að veginn breytist stundum í megin(n) í ritmáli í þessu sambandi.
Hins vegar þekkja málnotendur ýmis orðasambönd þar sem megin er seinni liður – sambönd eins og hérna megin, báðum megin, hinum megin, sömu megin o.s.frv. – og ekkert undarlegt að þeir tengi einhvernegin við þau sambönd og skrifi einhvern megin eða eitthvert afbrigði af því. Þessi skilningur getur einnig leitt til þess að fólk fari að bera sambandið fram með m, til dæmis ef það ætlar að vanda sig. En þetta er heldur ekki fyrsta dæmið um að veginn breytist í megin. Það hefur nefnilega einmitt gerst í áðurnefndum samböndum með megin sem samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er „blendingsmynd úr -(v)eginn og vegum, sbr. þann veginn, einnegin(n)“. Myndin einhverneginn er reyndar gefin í Móðurmáls-bókinni eftir Jón Ólafsson frá 1911.
Því má bæta við að í skáldsögunni Merkingu notar Fríða Ísberg myndina megin(n) til að gefa málfari einnar persónu ákveðinn blæ. Í viðtali um söguna í Fréttablaðinu 2021 sagði hún: „Að sama skapi lét ég Tristan tala á sérstakan hátt til að sjá hvort það hefði áhrif á samkennd gagnvart honum. Yrði hann settur skör lægra, myndi hann strax verða fordæmdur af því hann segir einhvern meginn en ekki einhvern veginn?“ Nú veit ég ekki hvaða áhrif þessi ritháttur hefur haft á lesendur Merkingar en reyndar má búast við því að einhverjir þeirra hafi sambandið með megin(n). Viðbrögðin í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ sýna hins vegar greinilega að einhvern megin(n) kallar á hneykslun og fordæmingu hjá ýmsum málnotendum. Það er miður.

+354-861-6417
eirikurr