Posted on

Að hringja sig (inn) veikan

Nýlega var spurt í „Málspjalli“ hvenær fólk hefði byrjað að hringja sig inn veikt – hvort þetta væru áhrif frá call in sick í ensku. Þetta orðalag finnst ekki í orðabókum og er væntanlega ekki ýkja gamalt en eins og með aðrar nýjungar er trúlegt að það hafi tíðkast í málinu um hríð áður en það komst á prent. Elsta ritmálsdæmi sem ég finn er í Alþýðublaðinu 1988: „margir þorðu ekki fyrir sitt litla líf í vinnuna, hringdu sig inn veika.“ Í Helgarpóstinum 1996 segir: „ég var eiginlega aldrei í ástandi til að mæta og hringdi mig inn veika trekk í trekk.“ Orðalagið er orðið algengt á samfélagsmiðlum upp úr aldamótum en dæmum um það á prenti fer smátt og smátt fjölgandi upp úr því þótt það verði ekki verulega algengt fyrr en á síðustu tíu árum eða svo.

Dæmin um þetta orðalag í Risamálheildinni eru um 900, þar af um 700 af samfélagsmiðlum. En einnig eru alls um 100 dæmi um það án inn, einkum á samfélagsmiðlum. Á Bland.is 2004 segir: „Ætti ég að hringja mig veika?“ Á Twitter 2016 segir: „Er búinn að hringja mig veikan í vinnunni á morgun.“ Örfá dæmi eru úr öðrum textum. Í Morgunblaðinu 2012 segir: „getur verið snúið að taka sér leyfi eða hringja sig veikan.“ Á mbl.is 2023 segir: „Það er náttúrlega bömmer að hringja sig veika í vinnunni.“ Ég er reyndar viss um að sögnin hringja er ekki alltaf notuð í bókstaflegri merkingu í hringja sig (inn) veikan – það er nokkuð öruggt að í sumum tilvikum hefur fólk sent tilkynningu í tölvupósti, á samfélagsmiðlum eða í smáskilaboðum.

Áður var oftast notað orðalagið tilkynna sig veikan – elsta dæmi um það er í Íþróttablaðinu 1974: „Ég man t.d. einu sinni [...] að ég mætti ekki, og tilkynnti mig veikan.“ Þetta orðalag er enn algengt, en á seinni árum mun sjaldgæfara en hringja sig (inn) veikan. Einnig er stundum sagt melda sig veikan – „stór hluti símvirkjanna hefur þegar meldað sig veikan“ segir í DV 1984. Fleiri sagnir sem merkja 'tilkynna, láta vita' koma til greina, eins og segja – „Samkvæmt upplýsingum stjórnarmanna KSÍ báðu forráðamenn Stuttgart Ásgeir að segja sig veikan“ segir í Tímanum 1983. En sögnin hringja hefur þessa merkingu aðeins í sambandinu hringja sig (inn) – við getum sagt ég tilkynnti þetta, ég sagði þetta, ég meldaði þetta, en ekki *ég hringdi þetta.

Sagnir þessarar merkingar er yfirleitt hægt að nota í tveimur setningagerðum – annars vegar með nafnhætti og þolfallsandlagi, eins og ég tilkynnti mig veikan, ég sagði mig veikan, ég meldaði mig veikan, og hins vegar með -setningu, ég tilkynnti að ég væri veikur, ég sagði að ég væri veikur, og jafnvel ég meldaði að ég væri veikur. Það er hins vegar útilokað að hafa aukasetningu á eftir hringja (inn) – við getum ekki sagt *ég hringdi (inn) að ég væri veikur, enda hefur hringja ekki umrædda merkingu nema í hringja sig (inn) eins og fyrr segir. Þótt sambandið hringja sig (inn) sé komið inn í málið, væntanlega úr ensku, hagar það sér sem sjálfstætt fast samband og hefur ekki áhrif á merkingu eða setningarstöðu hringja að öðru leyti.