Í frétt í DV í gær haft eftir konu um nafngreindan erlendan mann: „Hún skrifaði athugasemd þar sem hún sagðist ánægð með að hann standi loksins upp fyrir sjálfum sér.“ Á Fótbolti.net er haft eftir þeim sem vísað er til: „Það er enginn að stjórna mér heldur er ég að standa upp fyrir mér í fyrsta sinn“ – í frumtextanum segir „I‘m standing up for myself for the first time in my life“. Þarna er í báðum tilvikum notað sambandið standa upp fyrir einhverjum sem er augljóslega þýðing á stand up for something/someone í ensku en það samband merkir 'to defend or support a particular idea or a person who is being criticized or attacked' eða 'að verja eða styðja tiltekna hugmynd eða manneskju sem sætir gagnrýni eða árásum'.
Þetta samband hefur töluvert verið notað í íslensku undanfarin tuttugu ár eða svo. Elsta dæmi sem ég finn um það er á Hugi.is 2004: „sjálfur stend ég upp fyrir sjálfum mér ef einhver byrjar með leiðindi.“ Á Bland.is 2005 segir: „Dáist að konum sem standa upp fyrir sjálfum sér og láta níðinginn heyra það!“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Bæjarins besta 2007: „Það er mín ósk að geðfatlaðir standi upp fyrir sjálfum sér og verði sýnilegri.“ Í Fréttablaðinu 2008 segir: „Hvenær munu Ólafar landsins standa upp fyrir sjálfum sér?“ Sambandið virðist hafa breiðst mikið út eftir að lagið „Stattu upp“ með hljómsveitinni Blár ópal lenti í öðru sæti í Söngvakeppni Sjónvarpsins árið 2012, en þar er línan „Stattu upp fyrir sjálfum þér“ margendurtekin.
Í „Molum um málfar og miðla“ árið 2012 segist Eiður Guðnason hafa fengið spurninguna „Myndi molaskrifari álíta sem svo að ,,Stattu upp fyrir sjálfum þér“ teldist til góðrar notkunar á íslensku? Svarið er nei, – en Molaskrifari lítur nú eiginlega á þetta sem grínbull.“ Í Morgunblaðinu 2016 spyr Svanhildur Hólm Valsdóttir: „Hvernig fer maður líka að því að „standa upp fyrir sjálfum sér“ eins og var sungið í undankeppni Eurovision fyrir nokkrum árum; „Stattu upp fyrir sjálfum þér.“ Ég hef átt í mestu vandræðum með sjálfa mig þegar ég heyri þetta því ég get ómögulega séð fyrir mér hvernig hægt er að koma því í verk. Einhverjir myndu segja að ég væri pínu bókstafleg en ég virka svona – hlutir þurfa helst að vera rökréttir.“
Bókstafleg og hefðbundin – og „rökrétt“ – merking sambandsins standa upp fyrir einhverjum er 'bjóða einhverjum sæti sitt', t.d. í strætó – og sú merking er auðvitað enn í fullu gildi. En þrátt fyrir að sambandið standa upp fyrir sjálfum sér hafi verið talið „grínbull“ og „órökrétt“ hefur notkun þess haldið áfram að aukast og í Risamálheildinni eru rúm 150 dæmi um það. Þó fer því fjarri að öllum hugnist sambandið og í allmörgum þessara dæma er einmitt verið að gagnrýna það. Á Twitter 2016 segir t.d.: „Ömurlegt þegar fólk stendur upp fyrir sjálfum sér í stað þess að standa með sér.“ Það getur í sjálfu sér verið í lagi að gefa orðasamböndum nýja og yfirfærða merkingu, jafnvel þótt hún sé komin úr ensku. En þarna byggist þetta á misskilningi.
Enska atviksorðið up merkir nefnilega bæði 'upp' og 'uppi' og á ensku getur stand up því vísað bæði til hreyfingar ('rísa upp') og kyrrstöðu – og það er síðarnefnda merkingin sem á við ef ég skil þetta rétt. Í íslensku hlýtur standa upp hins vegar að vísa til hreyfingar en standa uppi væri ekki eðlilegt í þessu samhengi. Hins vegar eru til ýmis sambönd sem hægt væri að nota í svipaðri merkingu og um ræðir, svo sem standa með sjálfum sér, standa á rétti sínum, standa í lappirnar o.fl. Þótt ekki sé ástæða til að amast við yfirfærslu enskra orðasambanda sem falla að reglum málsins gegnir öðru máli þegar yfirfærslan brýtur gegn venjulegri málnotkun og byggist auk þess á vanþekkingu eða misskilningi. Hættum að tala um að standa upp fyrir sjálfum sér.

+354-861-6417
eirikurr