Ég var spurður að því í dag hvort hægt væri að segja bæði mér var úthlutuð lóðin og mér var úthlutað lóðinni. Ég svaraði því til að setningar af fyrri gerðinni sæjust vissulega stundum en í Málfarsbankanum segði: „Sögnin úthluta getur tekið með sér tvo þágufallsliði í germynd. Ríkið úthlutaði stöðinni rásum. Húsvörðurinn úthlutaði mér þessum skáp. Báðir liðirnir eiga að halda þágufallinu í þolmynd. Stöðinni var úthlutað rásum. Mér var úthlutað þessum skáp.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin eingöngu gefin upp með tveimur þágufallsliðum og sama gildir um Íslensk-danska orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri orðabók segir hins vegar: „úthluta e-m e-u (e-ð)“, þ.e. gert er ráð fyrir að seinna andlagið geti einnig verið í þolfalli.
Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2004 segir Jón G. Friðjónsson: „Dæmi í seðlasafni Orðabókar Háskólans sýna að fallstjórn sagnarinnar úthluta hefur reyndar alllengi verið nokkuð breytileg. Flestir munu þó vera sammála um að í nútímamáli sé rétt að segja úthluta einhverjum einhverju en síður úthluta einhverjum eitthvað.“ Í könnun sem Ása Bergný Tómasdóttir gerði í BA-ritgerð sinni kom glöggt í ljós að fallnotkunin er á reiki. Þar samþykkti rúmlega þriðjungur þátttakenda setninguna Sveitarfélög þurfa að úthluta trúfélögum ókeypis lóðir þar sem seinna andlagið er í þolfalli, en þrír fjórðu þátttakenda samþykktu setninguna Kennarinn úthlutaði nemendunum auðveldum verkefnum þar sem seinna andlagið er í þágufalli eins og talið er „rétt“.
„Málnotkun virðist vera í föstum skorðum í germyndarsetningum sem þessum en svo er hins vegar ekki í samsvarandi þolmyndarsetningum“ segir Jón G. Friðjónsson einnig í áðurnefndum pistli. Það er sem sé algengt að liðurinn sem vísar til hins úthlutaða haldi ekki þágufalli sínu í þolmynd heldur fái þar nefnifall, þannig að þótt sagt sé bærinn úthlutaði mér lóðinni í germynd sé sagt mér var úthlutuð lóðin í þolmynd. Þetta er stundum kallað „fallglötun“ og um hana er fjallað í meistararitgerð Ásbjargar Benediktsdóttur frá 2023. Það er hins vegar snúið að átta sig á því hvort þágufallið glastast raunverulega við breytinguna úr germynd í þolmyndi eða hvort nefnifallið stafar af því að viðkomandi málnotendur hafi þolfall á andlaginu í germynd.
Í pistli frá 2015 í Málfarsbankanum segir Jón G. Friðjónsson að bæði úthluta e-m e-u og úthluta e-m e-ð virðist „í samræmi við hefðbundna notkun og málkerfið“ og í pistli frá 2016 tilgreinir hann ýmis gömul dæmi um úthluta e-m e-ð og segir: „Dæmi [...] falla mjög vel að málkennd minni og þau eru öll studd afar traustum heimildum.“ Þetta mynstur er t.d. notað í elstu dæminu á tímarit.is, úr Fjölni 1835: „einginn vinnur nú til að kaupa þessi hjálparmeðöl, þó honum væri úthlutuð ein bók til að útleggja.“ Í Fjölni 1839 segir: „Með annarri konúnglegri ákvörðun [...] eru landsyfirvöldum úthlutaðir 1000 dalir árlega.“ Ýmis fleiri dæmi um þetta fallamynstur má finna á nítjándu öld og alla tíð síðan, en þágufall á seinna andlagi var þá þegar einnig algengt.
Jón G. Friðjónsson segir að „að teknu tilliti til aldurs og heimilda virðist hafa orðið breyting, þ.e. úthluta e-m e-ð > úthluta e-m e-u“ og bætir við: „Dæmin sýna að breytingin er ekki um garð gengin [...].“ Ég fæ samt ekki betur séð en þágufallið hafi verið algengara en þolfallið á seinna andlaginu alveg síðan á nítjándu öld en þolfallið sé heldur að sækja í sig veðrið í seinni tíð. Það er ekki óeðlilegt vegna þess að flestar sagnir svipaðrar merkingar taka með sér þágufall og þolfall, svo sem gefa, afhenda o.fl. Hvað sem þessu líður er ljóst að úthluta einhverjum einhverju er algengasta fallmynstrið er úthluta einhverjum eitthvað er líka algengt og á sér langa hefð. Þess vegna hlýtur mér var úthlutuð lóðin að teljast jafnrétt og mér var úthlutað lóðinni.

+354-861-6417
eirikurr