Category: Málfar

Heimgreiðslur ýta undir málfarslega mismunun

Á síðustu árum hafa nokkur sveitarfélög tekið upp svokallaðar heimgreiðslur til foreldra ungra barna sem ekki hafa fengið leikskólavist eða komist að hjá dagforeldri. Margir foreldrar hafa tekið þessum greiðslum fegins hendi vegna þess að þær auðvelda þeim vitanlega að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barnið kemst í skipulagða dvöl utan heimilis. En greiðslurnar hafa einnig verið gagnrýndar vegna þess að þær haldi konum inni á heimilum í stað þess að auðvelda þeim að fara aftur út á vinnumarkaðinn. Sú umræða á ekki heima í þessum hópi en öðru máli gegnir um umræðu um þau áhrif sem þetta fyrirkomulag kann að hafa á máltöku og málþroska barna innflytjenda eins og bent er á í nýrri skýrslu OECD.

Það hefur sýnt sig að hlutfall foreldra sem þiggja heimgreiðslur er hærra meðal innflytjenda en innfæddra. Fyrir því eru auðvitað ýmsar ástæður svo sem lægri tekjur innflytjenda, einkum kvenna, og að þeir hafa oft lítið stuðningsnet og eiga því færri kosta völ í umönnun barna sinna. En þegar innflytjendur sinna börnum sínum heima þýðir það að oft að börnin hafa enga íslensku í málumhverfi sínu og það er því mjög mikilvægt að börn innflytjenda komist sem allra fyrst í leikskóla. Heimgreiðslur létta hins vegar á þrýstingi á sveitarfélög að sjá öllum börnum fyrir leikskóladvöl frá tólf mánaða aldri og stuðla því að aukinni málfarslegri mismunun milli barna sem eiga íslenska foreldra og barna þar sem heimilismálið er annað en íslenska.

Í skýrslunni segir: „Börn innflytjenda sækja síður leikskóla en jafnaldrar þeirra og bilið er að breikka.“ Síðar segir svo: „Leikskólinn skapar mállegt umhverfi þar sem börn innflytjenda geta lært íslensku sem þau læra ekki heima hjá sér og PISA-gögn benda til þess að það sé sérstakur ávinningur fyrir börn innflytjenda að byrja snemma í leikskóla hér á landi. Börn innflytjenda þurfa á mállegri aðstoð að halda í skólanum sem byggir á markvissu tungumálamati. Helmingur barna innflytjenda á Íslandi flokkast sem börn með litla færni í PISA-mati, langt yfir meðaltali OECD-ríkja sem er 30% og aðeins Mexíkó er þar yfir. Þá eru innfædd börn innflytjenda með svipaða, ef ekki verri, færni en jafnaldrar þeirra sem komu til landsins sem börn.

Þetta á ekki aðeins við um PISA-stig heldur einnig brottfall úr framhaldsskóla þar sem brottfall er meira hjá innfæddum börnum innflytjenda en hjá börnum innflytjenda sem koma til landsins fyrir sex ára aldur. Þetta virðist að miklu leyti vera vegna tungumálaerfiðleika þessa hóps. Þó að úrtak innfæddra barna innflytjenda sé of lítið til greiningar er munurinn á PISA-lestrarstigum þeirra innfæddu sem tala íslensku heima og þeirra sem ekki tala íslensku 81 stig, eða meira en þriggja ára skólaganga, mesti munur allra OECD-ríkja. […] Reynsla annarra OECD-ríkja og langtímarannsókn á áhrifum málfærnimats í leikskólum á námsárangur benda til að mat á tungumálakunnáttu geti skilað miklum árangri til að bæta frammistöðu barna innflytjenda.“

Í skýrslu OECD er bent á að reynsla frá öðrum ríkjum OECD sýni að lág leikskólagjöld séu líkleg til að leiða til þess að hærra hlutfall barna innflytjenda sæki leikskóla. Há leikskólagjöld og of fá leikskólapláss vinna því beinlínis gegn íslenskunámi og inngildingu barna innflytjenda. Þess vegna er lagt til í skýrslunni að heimgreiðslur til foreldra verði afnumdar og dregið úr hækkun leikskólagjalda í þeim tilgangi að auka leikskólasókn barna innflytjenda. Heimgreiðslur og há leikskólagjöld vinna gegn íslenskunámi innflytjendabarna á máltökuskeiði og stuðla þar með að því að búa hér til alvarlega málfarslega stéttaskiptingu sem á endanum mun kosta okkur margfalt meira en fjölgun ódýrra leikskólaplássa.

Málstefna ferðamála

Í nýsamþykktri þingsályktun „um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030“ er kafli sem hefur yfirskriftina „Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskar menningar“ og í greinargerð segir: „Sýnileiki og notkun íslenskrar tungu er […] órjúfanlegur þáttur upplifunar um sanngildi.“ Sem „dæmi um verkþætti aðgerðar“ er nefnt: „Að stuðlað verði að því að íslenska heyrist og sjáist sem víðast, í samvinnu og samráði við lykilaðila í ferðaþjónustu.“ En engar tillögur um ákveðnar afmarkaðar og tímasettar aðgerðir í þágu íslenskunnar er að finna í þingsályktuninni sjálfri – aðeins sagt að starfshópi verði falið marka stefnu og innleiða hvata „til þess að auka áherslu á sanngildi og sérstöðu íslenskrar menningar í ferðaþjónustu á Íslandi“.

Veik staða íslenskunnar innan ferðaþjónustunnar er mikið áhyggjuefni frá sjónarmiði tungumálsins – en hún ætti líka að vera áhyggjuefni fyrir ferðaþjónustuna. Mikil enskunotkun í almannarými veldur sívaxandi pirringi íslensk almennings, ekki síst gagnvart skorti á íslenskukunnáttu hjá fólki í þjónustustörfum. Líklegt er að þessi pirringur sé m.a. ástæða fyrir þeim áhyggjum af stöðu íslenskunnar sem komu fram í áðurnefndri könnun og liti líka viðhorf til greinarinnar. Síðast en ekki síst hlýtur staða íslenskunnar í ferðaþjónustu að vera áhyggjuefni fyrir stjórnvöld – bæði vegna þeirrar ábyrgðar sem þau bera á íslenskunni samkvæmt lögum, og einnig vegna þess að aukinn pirringur almennings getur ýtt undir skaðlega útlendingaandúð.

Vitanlega er eðlilegt að kynningar- og markaðsstarf erlendis sé rekið á ensku eða öðrum erlendum málum, og erlend mál séu notuð í leiðsögn innanlands. En mikilvægur hluti af þeirri upplifun að koma í nýtt land og nýja menningu er einmitt að heyra og sjá tungumálið sem þar er talað og það er ástæðulaust að halda íslenskunni algerlega frá ferðafólki – eða forða því frá íslenskunni. Það á að vera grundvallaratriði að íslenska sé alltaf notuð samhliða ensku á matseðlum, skiltum og hvers kyns merkingum. Það er líka fráleitt að láta erlend heiti koma í stað gamalgróinna íslenskra örnefna. Við leggjum oft áherslu á það að tungumálið sé ein helsta réttlæting fyrir sérstöðu okkar og sjálfstæði – hvers vegna flöggum við ekki þessari sérstöðu?

Það er óheppilegt að svo stór og mikilvæg atvinnugrein þar sem tungumálið leikur lykilhlutverk skuli ekki hafa sett sér málstefnu þar sem tungumálum – íslensku og ensku, og öðrum málum eftir atvikum – sé markaður bás. Þess vegna skora ég á ferðamálaráðherra, Ferðamálastofu, Rannsóknarmiðstöð ferðamála, Samtök ferðaþjónustunnar og Íslenska málnefnd að taka nú höndum saman og beita sér fyrir því að málstefna ferðamála verði samin og samþykkt. Það er ljóst að fólk og fyrirtæki í ferðaþjónustu skortir skýra leiðsögn um meðferð og notkun tungumála í greininni, og vel hugsuð og útfærð málstefna – sem vitaskuld þyrfti síðan að fylgja eftir á einhvern hátt – gæti einmitt verið slík leiðsögn.

Tíu aðgerðir til að bæta stöðu íslensku í ferðaþjónustu

Í dag flutti ég stutt erindi á málþingi á vegum Ferðamálastofu og Rannsóknarmiðstöðvar ferðamála þar sem m.a. var verið að kynna niðurstöður nýrrar spurningakönnunar um viðhorf Íslendinga til ferðafólks og ferðaþjónustu. Ein spurningin í könnuninni var „Hversu miklar eða litlar áhyggjur hefur þú af því að íslenskan verði útundan í upplýsingagjöf í ferðaþjónustu?“. Niðurstöður voru mjög afgerandi – tæp 70% sögðust hafa mjög miklar eða nokkuð miklar áhyggjur, en aðeins tæp 20% sögðust hafa mjög litlar eða nokkuð litlar áhyggjur. Þetta er sláandi en þarf ekki að koma á óvart – rímar t.d. vel við þrjár skýrslur sem unnar voru á vegum Háskólans á Hólum og Árnastofnunar á árunum 2021-2022 og ég hef áður skrifað hér um.

Í einni þessara skýrslna er bent á að í stefnuramma ferðaþjónustunnar til 2030, Leiðandi í sjálfbærri þróun, sem unninn var árið 2019 í samvinnu ríkisstjórnarinnar, ferðamálayfirvalda, Samtaka ferðaþjónustunnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga, er hvergi minnst á tungumál. Það er furðulegt þar sem ferðaþjónustan byggist að miklu leyti á tungumálinu. Í framhaldi af þessu er spurt í skýrslunni: „Er ekki kominn tími til að spyrja um sjálfbærniáform ferðamálayfirvalda gagnvart íslenskri tungu?“ En slík áform virðast ekki vera til og ég sé ekki betur en ferðaþjónustan stundi ósjálfbæra rányrkju gagnvart íslenskunni með því að þrengja smátt og smátt að henni og útrýma henni af fleiri og fleiri sviðum – meðvitað eða ómeðvitað.

Í júní var samþykkt þingsályktun menningar- og viðskiptaráðherra „um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030“. Einn kafli hennar hefur yfirskriftina „Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskar menningar“ og í greinargerð segir: „Sýnileiki og notkun íslenskrar tungu er […] órjúfanlegur þáttur upplifunar um sanngildi.“ Sem „dæmi um verkþætti aðgerðar“ er nefnt: „Að stuðlað verði að því að íslenska heyrist og sjáist sem víðast, í samvinnu og samráði við lykilaðila í ferðaþjónustu.“ En engar tillögur um ákveðnar aðgerðir er að finna í þingsályktuninni sjálfri. Ég hef þess vegna tekið ómakið af stjórnvöldum og ferðaþjónustunni og samið lista um tíu aðgerðir sem grípa þarf til nú þegar, ef ekki á illa að fara:

  • Semja og samþykkja málstefnu ferðaþjónustunnar
  • Smíða fleiri íslensk íðorð á sviði ferðaþjónustu
  • Hvetja og styðja starfsfólk til íslenskunáms
  • Gera kröfur um íslenskukunnáttu í ákveðnum störfum
  • Leggja áherslu á þátt tungumálsins í sérstöðu okkar
  • Nota íslensk örnefni en ekki enskar gerðir þeirra
  • Hafa öll skilti og merkingar á íslensku samhliða ensku
  • Hætta að forða ferðafólki frá íslenskunni
  • Umbuna fyrirtækjum sem halda íslenskunni á lofti
  • Vekja öll til vitundar um stöðu og mikilvægi íslensku

Blendigras, grasblendi, blendingsgras

Í dag var undirrituð viljayfirlýsing um framtíðaruppbyggingu þjóðarleikvanga í Laugardal. Í fyrirsögn um þetta á Vísi segir: „Leggja hybrid gras á Laugardalsvöll og frjálsíþróttir fá aðra aðstöðu.“ Í fréttinni sjálfri segir: „Laugardalsvelli verður breytt og þar lagt hybrid gras, það er að segja blanda af grasi og gervigrasi, í stað grasvallarins sem þar hefur verið.“ Sambandið hybrid gras er svo notað í því sem eftir er af fréttinni. Í fyrirsögn á mbl.is segir: „Blandað gras verður lagt á Laugardalsvöll“ – en leitarvélar sýna að upphafleg fyrirsögn fréttarinnar hefur verið „Hybrid-gras verður lagt á Laugardalsvöll“. Í fréttinni segir: „Blandað gras eða svokallað Hybrid-gras verður lagt á Laugardalsvöll“ og „Hybrid-gras er blanda af grasi og gervigrasi“.

Fyrirsögnin á vef Ríkisútvarpsins er „Frjálsíþróttirnar fluttar og nýtt gras lagt á Laugardalsvöll“ og í fréttinni segir „Fram kom að leggja ætti svokallað hybrid-gras á Laugardalsvöll, blöndu af grasi og gervigrasi.“ Fyrirsögn DV er „Hybrid-gras lagt á Laugardalsvöll“ og í fréttinni sjálfri (sem raunar er tekin orðrétt upp úr fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins án þess að þess sé getið) segir „Fyrsti áfangi í uppbyggingu Laugardalsvallar verður að skipta út núverandi grasi á vellinum fyrir blandað gras (svokallað hybrid-gras)“ og „Með ákvörðun um notkun hybrid-grass á Laugardalsvelli er þar með útilokuð keppni í kastgreinum frjálsíþrótta“. Á fótbolti.net er fyrirsögnin „Hybrid gras verður lagt á Laugardalsvöll“.

Enska orðið hybrid getur verið nafnorð og má þá þýða sem 'blendingur' en einnig lýsingarorð sem þýða mætti 'blandaður'. Þetta er ekkert flókið eða erfitt í þýðingu enda útskýrt í öllum framangreindum miðlum hvað hybrid gras er. Þess vegna er óskiljanlegt að sumir miðlanna hampi þrátt fyrir það enska orðinu eins og dæmin sýna. Eðlilegt væri að hafa íslensku í fyrirsögn en enska orðið gæti komið inni í fréttinni – sem skýring á því íslenska, en ekki öfugt. Svo er spurning hvaða orð eða orðasamband er best að nota á íslensku um þetta fyrirbæri. Í dæmunum að framan er talað um blandað gras og blöndu af grasi og gervigrasi en einnig má hugsa sér grasblendi, blendigras og blendingsgras – íslenskan er ekki í vandræðum með þetta.

Af erlendu bergi brotnu

Orðasambandið af erlendu bergi brotinn var hér til umræðu í gær vegna þess að það virðist vefjast fyrir fólki. Elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1901 en sambandið af X bergi brotinn er þó mun eldra eins og kemur fram hjá Jóni G. Friðjónssyni í Merg málsinselstu dæmi eru frá því um 1600, úr þýddum trúarritum: „aðrir fleiri af sama bergi brotnir“ og „því að vér erum allir af einu bergi brotnir“. Jón telur að þetta eigi rætur í Biblíunni „og virðist líkingin runnin frá grjóthöggi“ – „Lítið á það hellubjargið sem þér eruð af höggnir“ segir í Jesajabók í Guðbrandsbiblíu frá 1584. Sambandið var lengi frekar sjaldgæft en tíðni þess hefur margfaldast á síðustu þremur áratugum samfara fjölgun fólks af erlendum uppruna á Íslandi.

Eins og títt er um föst orðasambönd er röð orða í sambandinu frábrugðin því sem eðlilegast er í málinu. Forsetningarliður sem á við lýsingarorð eða lýsingarhátt kemur venjulega þar á eftir og venjuleg orðaröð væri því brotinn af erlendu bergi sem er hliðstætt við t.d. slitinn af langvinnu striti en í af erlendu bergi brotinn er forsetningarliðurinn hafður á undan orðinu sem hann á við. Það er hins vegar ekki hægt að segja *af langvinnu striti slitinn (nema í bundnu máli) vegna þess að þar er ekki um fast orðasamband að ræða. En bæði vegna óvenjulegrar orðaraðar og vegna þess að um er að ræða líkingu sem ekki er víst að allir málnotendur átti sig á má búast við að sambandið taki breytingum. Það hefur líka verið að gerast.

Í Morgunblaðinu 1981 segir: „Það kann ýmsum að þykja það nokkuð mikið í fang færst fyrir mann af erlendu bergi brotnu“ (ætti að vera brotinn). Í Tímanum 1993 segir: „Hún sagði hugsanlegt að fólk af erlendu bergi brotnu ætti í meiri erfiðleikum með að fá vinnu“ (ætti að vera brotið). Í DV 1994 segir: „Hér er megn andúð gegn mönnum af erlendu bergi brotnu“ (ætti að vera brotnum). Í Morgunblaðinu 1994 segir: „menn séu farnir að venjast veru þess hér og líki vel það krydd í mannlífið, er tilvist fólks af erlendu bergi brotið á Íslandi færir okkur“ (ætti að vera brotins). Í Helgarpóstinum 1994 segir: „erum við Íslendingar haldnir fordómum í garð útlendinga og annarra af erlendu bergi brotnir?“ (ætti að vera brotinna).

Stundum kemur nefnifall í réttu kyni í stað þeirrar myndar sem við væri að búast eins og í tveimur síðustu dæmunum hér að framan og þá er hægt að hugsa sér að sem er(u) sé undirskilið á undan forsetningarliðnum. Langalgengast er þó að þágufall hvorugkyns sé sett í stað annarra mynda og sagt af erlendu bergi brotnu. Þar er að sjá sem staðsetning forsetningarliðarins af erlendu bergi rjúfi tengslin sem eiga að vera í huga málnotenda á milli lýsingarorðsins og orðsins sem kemur á undan forsetningarliðnum og á að ráða kyni, tölu og falli lýsingarorðsins. Þess í stað virðist nálægasti fallvaldur, forsetningin af, í raun yfirtaka fallstjórnina þannig að lýsingarorðið kemur í þágufalli og hvorugkyni eins og það eigi við hvorugkynsorðið berg.

Á seinustu árum er orðið mjög algengt að myndin af erlendu bergi brotnu komi í stað annarra mynda – í Risamálheildinni eru tæp 300 dæmi um hana og í yfirgnæfandi meirihluta þeirra ætti að vera einhver önnur beygingarmynd en brotnu. Þágufallsmyndum í karlkyni og kvenkyni og eignarfallsmyndum er mjög oft skipt út fyrir brotnu þannig að dæmi eins og af erlendu bergi brotins / brotinni / brotinnar / brotinna eru sárasjaldgæf. Í sjónvarpsfréttum Ríkisútvarpsins 2018 segir: „Mörgum árum síðar kynntist hún annarri konu af erlendu bergi brotnu.“ Á mbl.is 2017 segir: „Fæðingar kvenna af erlendu bergi brotnu námu 27,5% af heildinni.“ Í Netlu 2020 segir: „Mikilvægt er að þróa leiðir til að ná betur til unglinga af erlendu bergi brotnu.“

Í umræðum var einnig nefnt að stundum væri orðasambandið stytt – lýsingarorðinu sleppt og sagt aðeins af erlendu bergi. Þetta er ekki nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Tímanum 1961: „Sumt er fólk af erlendu bergi, sem átt hefur hér heima alllengi og er orðið hér fótfast.“ Í Morgunblaðinu 1974 segir: „Aðrir flytjst hingað í þeirra stað, bæði menn af íslenzku og erlendu bergi.“ Í Morgunblaðinu 1979 segir: „Hann er fyrsti maðurinn af erlendu bergi, sem er kjörinn deildarforseti í Háskóla Íslands.“ Í Risamálheildinni er vel á annað hundrað dæma um þetta. Ég get ekki séð neitt athugavert við að stytta sambandið á þennan hátt – líkingin skilar sér fullkomlega þótt lýsingarorðinu sé sleppt en við losnum við vandann við að beygja það.

Hefðbundin beyging sambandsins af erlendu bergi brotinn á greinilega í vök að verjast – samræmist ekki málkennd margra málnotenda og virðist jafnvel hljóma asnalega í eyrum þeirra eftir því sem fram kom í umræðum hér í gær. Þótt myndin af erlendu bergi brotnu sé mjög oft notuð í stað þágufalls- og eignarfallsmynda er hún líka iðulega notuð í stað nefnifalls og þolfalls. Það er ekki raunhæft að halda hefðbundinni beygingu til streitu sem einu viðurkenndu mynd sambandsins og óhjákvæmilegt að viðurkenna af erlendu bergi brotnu sem stirðnaða mynd til hliðar við beygðar myndir – slík stirðnun er auðvitað ekkert einsdæmi. En einfaldasta og besta lausnin er líklega sú að stytta sambandið og sleppa lýsingarorðinu eins og áður segir.

Fjarblaðamannafundur – blaðamannafjarfundur

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í dag segir: „Hareide sat fyrir svörum á fjarblaðamannafundi eftir að hópurinn var kynntur.“ Ég kannaðist ekki við að hafa séð orðið fjarblaðamannafundur áður en það er þó vitanlega auðskiljanlegt. Nánari athugun leiddi í ljós að orðið er ekki alveg nýtt – nokkur dæmi má finna um það frá síðustu fjórum árum. Á mbl.is 2020 segir: „„En við búumst við því að áhrifin muni ekki vara lengi,“ sagði hann á fjarblaðamannafundi í dag.“ Á vef Ríkisútvarpsins 2020 segir: „„Við ætlum okkur að vinna og komast á EM,“ sagði Erik á fjarblaðamannafundi KSÍ í dag.“ Á Vísi 2021 segir: „Guðmundur Felix ræddi við fréttamenn á fjarblaðamannafundi frá sjúkrabeði sínum í Lyon í Frakklandi síðdegis.“

Örfá önnur dæmi má finna, en einnig eru dæmi um orðið blaðamannafjarfundur í sömu merkingu. Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Hammer var þá kvæntur og sagði Effie á blaðamannafjarfundi að Hammer hefði nauðgað henni í fjórar klukkustundir.“ Á Vísi 2024 segir: „Hareide kynnti hóp sinn á blaðamannafjarfundi, í gegnum tölvu.“ Bæði fjar-blaða-manna-fundur og blaða-manna-fjar-fundur eru fjórliða samsetningar með sömu liðum, fjar, blað, fund og mann – í mismunandi röð. Þríliða samsetningin blaða-manna-fundur er meira en hundrað ára gömul í málinu og mjög algeng. Tvíliða samsetningin fjar-fundur er hins vegar ekki nema tæplega þrjátíu ára gömul en er líka mjög algeng, einkum síðustu fjögur ár.

Þarna þarf sem sé að tengja saman tvö orð með sama síðasta lið, -fundur. Ein aðferð til þess er að tengja orðin með og og sleppa sameiginlega liðnum í fyrra orðinu (og enda fyrri liðinn á bandstriki). Þetta er t.d. gert í Morgunblaðinu 2005: „Fræðslu- og aðalfundur Fræðslusamtaka um kynlíf og barneignir verður haldinn fimmtudaginn 15. mars.“ Til að það sé hægt verða fyrri liðirnir að vera sama eðlis (í einhverjum skilningi). Í blaðamanna-fundur vísar fyrri liðurinn til fundargesta en til fundarforms í fjar-fundur og þess vegna er útilokað að segja *blaðamanna- og fjarfundur eða *fjar- og blaðamannafundur. Eina leiðin er því að búa til nýtt orð þar sem allir fjórir liðirnir komi fram – en þá upphefst vandinn við að raða þeim saman.

Það er ljóst að -fundur verður seinasti liðurinn, en óhjákvæmilegt er að rjúfa annaðhvort tengslin milli fjar- og -fundur eða milli blaðamanna- og -fundur. Ýmislegt getur haft áhrif á hvor leiðin er farin, en mér finnst skipta máli hvort megináherslan er á eðli fundarins og þá eðlilegt að tala um fjarblaðamannafund, eða á markhópinn og þá eðlilegt að tala um blaðamannafjarfund. En áhersla og hrynjandi getur líka skipt máli. Í eðlilegri víxlhrynjandi getur fjarblaðamanna-fundur hljómað eins og fyrri liðurinn sé *fjarblaðamenn en það orð er ekki til (í þeirri merkingu sem hér á við). Í framburði þarf þess vegna eiginlega að slíta fjar- frá afgangnum af orðinu, eins og gert var þegar áðurnefnd frétt var lesin í fréttum sjónvarps í kvöld.

Fleirsamsett orð eins og fjarblaðamannafundur þar sem fyrsta liðnum er bætt framan við orð sem er margsamsett fyrir eru þó ekki einsdæmi í málinu. Ég hef áður skrifað um orðið óhagnaðardrifinn þar sem fyrri hlutinn er ekki orðið óhagnaður (sem merkti annað) heldur er ó- bætt framan við hagnaðardrifinn. Annað margsamsett orð með fyrsta liðnum fjar- er fjarheilbrigðisþjónusta. Orðið *fjarheilbrigði er ekki til frekar en *fjarblaðamaður, en vitanlega er heilbrigðisþjónusta til, og einnig fjarþjónusta. Þegar þarf að steypa þessu saman kemur upp sami vandinn og með blaðamannafund og fjarfund – seinasti liðurinn verður alltaf þjónusta en óhjákvæmilegt er að rjúfa tengsl hans við annaðhvort heilbrigði- eða fjar-.

Orð eins og fjarblaðamannafundur, fjarheilbrigðisþjónusta og önnur slík eru vissulega frekar stirð eins og margsamsett orð hljóta alltaf að vera en ég sé samt ekki að þau brjóti á neinn hátt í bága við íslenskar orðmyndunarreglur, og sama máli gegnir um blaðamannafjarfundur og *heilbrigðisfjarþjónusta (sem ég finn engin dæmi um). En mörg orð af þessu tagi hafa orðið til á síðustu árum, ekki síst á covid-tímanum, við það að eðli ýmissa gamalgróinna fyrirbæra var breytt og þau gerð að fjarfyrirbærum. Um þessi fyrirbæri voru til gamalgróin orð og það er skiljanlegt að eðlisbreytingin sé frekar táknuð með því að bæta fjar- framan við orðin en með því að brjóta þessi gamalgrónu orð upp með því að skjóta -fjar- milli liða í þeim.

Hiti núll gráður

Í gær var hér spurt hvers vegna væri notuð fleirtala nafnorðs með núll – upphaflega var tekið dæmið núll hestar en vissulega er rétt að við notum sjaldan núll með nafnorðum á þennan hátt. Helst er það í dæmum eins og núll gráður sem bent var á í umræðum, og þá er alltaf höfð fleirtala. Þetta er mjög góð spurning og svarið liggur ekki alveg í augum uppi, en gefur tilefni til vangaveltna um stöðu og hlutverk fyrirbærisins tala í málinu. Við erum vön að segja að eintala vísi til eins eintaks eða tilviks eða einingar af því sem um er rætt og þess vegna segjum við ein gráða, fleirtala til fleiri en eins og þess vegna segjum við tvær gráður – en hvora töluna á að nota þegar hvorki er vísað til einnar einingar né fleiri, heldur engrar eins og núll gerir?

Hér er rétt að benda á að því fer fjarri að sambandið milli málfræðilegrar tölu og fjölda þess sem um er rætt sé alltaf eins einfalt og nefnt var hér að framan. Það er auðvitað alþekkt að á eftir töluorðum sem enda á einum kemur eintala – við segjum tuttugu og ein gráða og þúsund og ein nótt en ekki *tuttugu og ein gráður og *þúsund og ein nætur þótt gráðurnar og næturnar séu margar. Þetta er málfræðileg regla sem þarna tekur völdin af merkingunni, ef svo má segja – það er seinasti liður tölunnar en ekki talan í heild sem ræður tölu nafnorðsins. Í ýmsum málum er notuð fleirtala í slíkum tilvikum, en íslenska hefur alltaf haft þarna eintölu. Fyrir því er engin sérstök ástæða – þetta er ein af þessum málvenjum sem við kunnum ekki skýringu á.

Það er hins vegar ekki víst að við höfum öll áttað okkur á því að við notum oft eintölu sumra nafnorða með öðrum tölum en þeim sem enda á einum. Við segjum einnar gráðu frost, en við segjum líka oft tveggja gráðu frost, þriggja gráðu frost o.s.frv. frekar en tveggja gráð(n)a frost, þriggja gráð(n)a frost o.s.frv. – notum sem sé eignarfall eintölu frekar en fleirtölu þótt gráðurnar séu fleiri en ein. Á tímarit.is er allt að þrisvar sinnum algengara að nota eintölu en fleirtölu í slíkum dæmum. Sambærileg dæmi má finna með fleiri veikum kvenkynsorðum, t.d. fimm stjörnu hótel, 24 peru ljósabekkir. Það er vel þekkt að við virðumst oft forðast eignarfall fleirtölu af veikum kvenkynsorðum, e.t.v. vegna óvissu um hvort það eigi að vera -a eða -na.

Þetta sýnir glöggt að formleg tala nafnorðs sem stendur með töluorði hefur engin áhrif á merkingu sambandsins – það er alltaf töluorðið sem ræður merkingunni. Merkingarlega skiptir auðvitað engu máli hvort við notum eintölu eða fleirtölu með núll – strangt tekið má halda því fram að hvort tveggja sé jafn óeðlilegt vegna þess að núll vísar hvorki til einnar einingar né fleiri. Við getum hugsað okkur að það sé sjálfgefið í málinu að hafa nafnorð sem stendur með töluorði í fleirtölu – eina undantekningin frá því er ef talan endar á einum. Þess vegna segjum við núll gráður núll fellur ekki undir undantekninguna og því kemur sjálfgefin tala fram, þ.e. fleirtala. Það væri svo sem hægt að segja núll gráða – en það er bara ekki málvenja.

Þar að segja

Orðasambandið það er að segja er svo algengt að það er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók, skýrt 'sagt þegar nánari útskýring á því sem áður er komið fylgir á eftir; oft skammstafað þ.e.a.s.'. Það er gamalt í málinu – elsta dæmi um það á tímarit.is er í Norðurfara 1849: „Fyrst hefur það samt líklega verið haft um Frakka, það er að segja hina fornu keltnesku en latínskuðu Galla.“ Alls eru um fimmtíu þúsund dæmi um sambandið á tímarit.is og auk þess um sextíu þúsund um skammstöfun þess, þ.e.a.s. Nokkuð virðist þó hafa dregið úr notkun bæði sambandsins og skammstöfunarinnar á síðustu þremur áratugum eða svo. Að einhverju leyti má rekja það til uppkomu nýs sambands í sömu merkingu, þar að segja.

Í eðlilegum framburði renna þrjú fyrstu orð sambandsins, það er að, yfirleitt saman og verða þara(ð). Önghljóðið ð verður mjög oft veikt eða fellur alveg brott í enda orðs, þannig að það verður þa. Þá eru komin saman tvö áherslulaus sérhljóð, a í þa og e í er, og í slíkum tilvikum fellur annað sérhljóðið nær alltaf brott – útkoman verður þar (það er > þa er > þar). Þetta gerist og er eðlilegt í framburði fólks sem ætlar sér að segja það er að – og telur sig vera að segja það er að. En vegna þess að þar er auðvitað vel þekkt og mjög algengt orð í málinu er skiljanlegt að framburðurinn þara(ð) sé stundum túlkaður sem þar að – þ.e. atviksorðið þar og nafnháttarmerkið . Þegar þar að segja fer að sjást á prenti bendir það til breytts málskilnings.

Elsta dæmi sem ég finn á tímarit.is og bendir til þessa málskilnings er í Alþýðublaðinu 1962: „Þar var mér aftur úthýst, þar að segja stjórnin og þjálfararnir sáu mig aldrei.“ Í Morgunblaðinu 1970 segir: „Setja skal tölustaf – ekki kross – fyrir framan nöfn manna á prófkjörsseðlinum og tölusetja í þeirri röð, sem óskað er að þeir skipi framboðslistann, þar að segja í 5 efstu sæti framboðslistans.“ Í Vísi 1974 segir: „auk þess er hann íþróttakennari við barna og unglingaskóla i Malmö – þar að segja þar til í síðustu viku að hann meiddist.“ Í Foringjanum 1976 segir: „Mótsgjaldið verður mjög stillt í hóf þar að segja aðeins 700 kr.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1977 segir: „Tæknina þar að segja, uppistöðuna og ívafið.“

Sem fyrr segir er skammstöfunin þ.e.a.s. algengari en það er að segja á tímarit.is, og eins og við er að búast er sambandið þar að segja einnig oft skammstafað. Það er reyndar ekki alltaf alveg ljóst fyrir hvað skammstöfunin þ.a.s. stendur, en elsta dæmi sem ég finn þar sem hún gæti staðið fyrir þar að segja er í Viljanum 1958: „Þeir, sem vilja búa í húsi eiga þess kost, þ.a.s. þeir fá rúm með svampdínu gegn vægu verði.“ Í Verkamanninum 1958 segir: „Gerum ráð fyrir að tannskemmdir minnkuðu um þó ekki væri meira en þriðjung þ.a.s. um ca. 120.000 kr.“ Tíðni skammstöfunarinnar eykst hraðar en tíðni þar að segja en stundum er hugsanlegt að hún standi fyrir eitthvað annað. Í Risamálheildinni eru rúm 400 dæmi um þ.a.s.

Sárafá dæmi eru um þar að segja framan af og verulegur hluti þeirra úr skrifum tiltekinna blaðamanna. Um 1990 fer dæmum fjölgandi, og þó einkum eftir aldamót. Í Risamálheildinni eru rúmlega 4.100 dæmi um sambandið, þar af rúm 3.700 af samfélagsmiðlum. Það er því augljóst að þetta er einkenni á óformlegu málsniði en er þó einnig orðið fast í sessi í formlegra máli. Í sjálfu sér er tilurð þessa sambands mjög eðlileg – margar málbreytingar verða einmitt þannig að hlustendur túlka tiltekin orð eða orðasambönd á annan hátt en þau voru hugsuð. Sambandinu þar að segja svipar líka til sambandsins þar að auki. Fólk getur haft misjafnar skoðanir á breytingunni og þessu nýja sambandi, en ég sé enga ástæðu til að amast við því.

Stakstætt fólk og sjálfstæðir foreldrar

Í  frétt í Morgunblaðinu í dag segir: „Fækkað hefur í þessum hópi að undanförnu, en þetta hafa gjarnan verið pör eða stakstætt barnlaust fólk.“ Vakin var athygli á þessu orðalagi í Málvöndunarþættinum þar sem fólk kannaðist ekki við að hafa séð stakstætt notað um fólk og það er vissulega rétt – það er ekki venja. Lýsingarorðið stakstæður virðist upphaflega hafa verið myndað sem grasafræðilegt íðorð – er merkt „bot.“ í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og eingöngu skýrt þannig, 'spredt (sparsus)'. Sama máli gegnir um Íslenska orðabók – þar er orðið merkt „grasafr.“ og skýrt 'þegar aðeins eitt blað er á hverju blaðstæði'. En í íðorðasöfnum úr læknisfræði og líffræði í Íðorðabankanum er það skýrt 'sem stingur sér niður á stangli'.

Skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók er hins vegar 'sem stendur einn og sér, stakur' með dæminu stakstætt tré og þannig held ég að orðið sé venjulega notað í almennu máli. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í tónlistargagnrýni í Alþýðublaðinu 1944: „hún leysir því heildræna áferð upp í smáeiningar stakstæðra tilfinningabólstra.“ Í Morgunblaðinu 1947 segir: „þá sjáum við ekki lengur hina gömlu, grónu ávölu grashæð, aðeins holt og stakstæða steina.“ Í Vísi 1948 segir: „Barrtrén njóta sín yfirleitt vel stakstæð í grasflötum.“ Í Tímanum 1959 segir: „Það eru sem sé margir lýsandi deplar (ljóskastarar) á líkama fisksins, annaðhvort raðstæðir eða stakstæðir.“ En annars er orðið oft notað í hinni grasafræðilegu merkingu í eldri dæmum.

Frá því um 1970 hefur orðið verið notað í ýmsu samhengi. Auk stakstæðra trjáa er mjög oft talað um stakstæð hús og stakstæða bílskúra en einnig stakstæð fjöll, stakstæðar tölvur, stakstætt stórgrýti, stakstæðan bakarofn, stakstæða minningargrein og ýmislegt fleira. Í öllum þessum tilvikum er augljóst út frá samhengi hvað orðið merkir og þá sjaldan svo er ekki er það skýrt: „Stakstætt peð (einstæðingur) kallast það peð, sem ekki hefur peð af sama lit á línunum beggja vegna við sig“ segir í skákþætti Æskunnar 1969. Það má meira að segja finna dæmi um að orðið sé notað um fólk: „Aðrir einstaklingar geta lent í þessu, einkum þeir sem eru á einhvern hátt stakstæðir í deild“ segir í grein Sigríðar Þorgeirsdóttur í Hug 2009.

Merking orðsins í fréttinni sem var vísað til í upphafi er líka alveg ljós. Vitanlega má halda því fram að þarna hefði verið hægt að nota einhver önnur orð og tala um ógift barnlaust fólk, einhleypt barnlaust fólk eða einstætt barnlaust fólk í staðinn fyrir að tala um stakstætt barnlaust fólk – það orðalag eigi sér enga hefð. En þetta merkir samt ekki endilega það sama – þarna er verið að tala um setur fyrir fólk sem hefur sótt um alþjóðlega vernd og það gæti vel átt maka sem væri þó ekki með í för og fólkið þess vegna stakstætt á Íslandi. Það er fráleitt að hafna orðinu stakstætt í þessu samhengi á þeim forsendum að ekki sé hefð fyrir því að nota það um fólk – við verðum að vera opin fyrir gagnlegum nýjungum í máli og málnotkun.

Þessu tengt má líka minna á að margt fólk sem elur eitt upp börn sín vill fremur tala um sig sem sjálfstæða foreldra en einstæða foreldra eins og áður var gert. Þótt einstæður merki þarna 'sem er hvorki í sambúð né hjónabandi' minnir það óneitanlega á orðið einstæðingur sem merkir 'sá eða sú sem á engan að, hvorki nána fjölskyldu né vini' og skiljanlegt að fólk vilji forðast þau hugrenningatengsl. Elsta dæmi sem ég finn um þetta er í grein Sonju B. Jónsdóttur í DV 1984: „Sjálfstæðar mæður (ég nota bara þetta orð þar til einhver stingur upp á öðru betra).“ Það virðist samt ekki hafa fundist neitt betra því að fjörutíu árum seinna er enn talað um sjálfstæðar mæður, sjálfstæða feður og sjálfstæða foreldra – og það er í góðu lagi, rétt eins og stakstætt fólk.

Spúla eða smúla?

Í gær var hér spurt hvort fólk notaði sögnina spúla eða smúla. Þessi spurning kemur öðru hvoru upp bæði í þessum hópi og öðrum málfarshópum og þess vegna fannst mér mál til komið að gera þessu skil. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin smúla flettiorð en ekki skýrð heldur vísað á spúla sem er skýrð 'skola eða þvo (e-ð) með vatnsbunu'. Í Íslenskri orðabók er smúla skýrð 'þrífa með kraftmikilli vatnsbunu (þilfar, gólf og borð í fiskvinnslu, síldarplan o.þ.h.), spúla', en einnig er þar gefin merkingin 'smygla' sem merkt er „gamalt“. Í þeirri merkingu er sögnin komin af smugle í dönsku – elsta dæmi um hana er í Stefni 1895: „Afleiðingin yrði, að slíkt lagabann hefði spillandi áhrif á þjóðina, kenndi henni að smúla vörum.“

Í merkingunni 'spúla' virðist smúla „ekki eiga sér samsvörun í grannmálunum, en er líkl. ísl. frb.tilbrigði af spúlasegir í Íslenskri orðsifjabók, en spúla er komin af spule í dönsku. Það er trúlegt að hún hafi verið notuð um tíma í talmáli áður en hún komst á prent, eins og títt er um tökuorð, en elsta dæmi um hana á tímarit.is er í Alþýðublaðinu 1938: „Þeir skrúbba og splæsa og spúla dekk.“ Í Vísi 1939 segir: „Eg held, að þér ættuð að byrja að „spúla“ þilfarið.“ Í Vísi 1940 segir: „tveir sjómenn komu inn með fötur fullar af vatni, skvettu því á gólfið og byrjuðu að „spúla“ það.“ Í Vísi 1944 segir: „Það er víst óþarfi að „spúla dekk“ á þessum tundurspilli.“ Notkunin vex svo um miðjan fimmta áratuginn en framan af er sögnin oft höfð innan gæsalappa.

En elsta dæmi sem ég finn um smúla í merkingunni 'spúla' á tímarit.is er í Eyjablaðinu 1947: „Fyrst er að þvo bátinn, smúla eins og við segjum.“ Í viðtali í Morgunblaðinu 1961 segir: „Góðan dag, þið eruð að smúla gangstéttarnar.“ Í þetta er vísað í Íslendingi viku síðar og sagt: „Þá er sagt í sömu grein frá mönnum, er voru að þvo gangstéttar með því að dæla á þær vatni. En þeir eru ekki látnir vera að þvo stéttarnar heldur smúla þær. Ég hef spurt nokkra menn um sögnina að smúla í merkingunni þvo, og kannast enginn þeirra við.“ Eftir þetta fer dæmum um smúla í þessari merkingu smátt og smátt fjölgandi þótt sögnin sé oftar notuð í merkingunni 'smygla' fram um 1980, en yngsta dæmi sem ég fann um þá merkingu í smúla er frá 1989.

Hvernig stendur á því að spúla varð smúla? Hljóðin p [p] og m [m] eru mjög skyld – bæði varahljóð, mynduð með því að loka vörunum og stöðva þannig loftstrauminn frá lungunum. Munurinn er sá að í p er alger lokun, en í m fer loftstraumurinn út um nefið í staðinn. Það er vel þekkt að í orðum þar sem nefhljóð (m eða n) eða hliðarhljóð (l) fer næst á eftir s í upphafi orðs kemur stutt lokhljóð á eftir s vegna þess að lokað er fyrir loftstrauminn í munni áður en opnað er fyrir strauminn um nef (í m og n) eða til hliðar við tunguna (í l). Þetta lokhljóð er stundum kallað „sníkihljóð“ vegna þess að það sníkir sér þarna inn – þetta er hljóð sem við ætlum ekkert að mynda og gerum okkur oftast ekki grein fyrir því að það kemur þarna á milli.

Orð sem byrja á sm- í stafsetningu eins og smár og smíða eru iðulega borin fram spmár [spmauːr] og spmíða [spmiːða] þótt við tökum venjulega ekki eftir því vegna þess að við erum svo bundin við stafsetninguna. Eðlilegur framburður orðs eins og smúla er því spmúla [spmuːla] og breytingin frá spúla [spuːla] er því mjög lítil. Guðrún Kvaran nefnir í grein á Vísindavefnum að hugsanlega geti tilvist smúla í merkingunni 'smygla' „hafa valdið því að hliðarmyndin varð til“. Mér finnst það ekki trúlegt þar sem merkingin er óskyld, en vissulega eru þau tengsl þarna á milli að notendahópurinn var svipaður í upphafi – smygl tengdist oft sjómönnum og spúla var í upphafi einkum notuð um þvott á sjó, í samböndum eins og spúla dekk / þilfar / lest o.s.frv.

Í nútímamáli virðast myndirnar spúla og smúla vera notaðar nokkuð jöfnum höndum – í Risamálheildinni eru rúm 1400 dæmi um þá fyrrnefndu en tæp 1200 um þá síðarnefndu. Áðurnefnd grein Guðrúnar Kvaran á Vísindavefnum er svar við spurningunni „Er réttara að segja „spúla“ eða „smúla“ um að skola plan, dekk á báti eða stétt með kraftmikilli vatnsslöngu?“ en Guðrún svarar því í raun ekki.  Í Málfarsbankanum er engin athugasemd gerð við orðin, aðeins sagt: „Orðið smúla er sömu merkingar og spúla.“ Aldursmunur orðanna er lítill, og það má m.a.s. alveg færa rök fyrir því að smúla sé í vissum skilningi „íslenskara“ orð en spúla vegna þess að það er einhvers konar íslensk nýmyndun en ekki bein endurómun dansks orð.