Category: Málfar

Reiðhjólamenn/-fólk og hjólreiðamenn/-fólk

Í gær mátti lesa á Vísi fyrirsögnina „Reiðhjólamaður féll af kletti við Jökulsárgljúfur“ og orðið reiðhjólamaður er einnig notað einu sinni í fréttinni sjálfri. Í Málvöndunarþættinum var gerð athugasemd við reiðhjólamaður og sagt „„hjólreiðamaður“ er gamla góða orðið um þetta fyrirbrigði!“. Það orð er reyndar notað í myndatexta með sömu frétt, „Þyrlan hífði hjólreiðamanninn upp úr gljúfrinu“ og kemur tvisvar fyrir í fréttinni sjálfri. Það er vissulega rétt að hjólreiðamaður er það orð sem venjulega er notað í merkingunni 'sá eða sú sem ferðast um á reiðhjóli' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók reiðhjólamaður er ekki í bókinni en er þó ekki óþekkt og er t.d. að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Við athugun kemur í ljós að reiðhjólamaður er hundrað ára gamalt orð – sést fyrst í auglýsingu í  Morgunblaðinu 1923: „Eins og allir gamlir reiðhjólamenn kannast við, er „Brennabor“ eitt af allra þektustu reiðhjólategundum fyrir gæði.“ Í Vísi 1929 segir: „Vísir sagði frá því nýlega, að lögreglan ætlaði að ganga eftir því, að reiðhjólamenn hefði ljós og bjöllur á hjólum sínum í vetur“ – í sömu frétt er einnig talað um hjólamenn. Nokkur dæmi eru um reiðhjólamaður á næstu áratugum en fer fjölgandi samfara auknum hjólreiðum um 1980 og eru samtals rúm 300 á tímarit.is. Elstu dæmi um hjólreiðamaður eru nokkru eldri, frá 1896 – í Dagskrá það ár segir: „Emil Zola er hjólreiðamaður mikill, þótt hann sje nú farinn að eldast og orðinn þungfær.“

Vitanlega eru dæmin um hjólreiðamaður margfalt fleiri – rúmlega 5.200 á tímarit.is og tæplega 8.600 í Risamálheildinni. En þar eru einnig rúm 600 dæmi um reiðhjólamaður, þar af aðeins rúmlega hundrað af samfélagsmiðlum, sem sýnir að orðið hefur fest sig í málinu og tengist óformlegu málsniði ekki sérstaklega. Samsvarandi samsetningar með -fólk eru einnig til – elsta dæmi um hjólreiðafólk er í Sovétvininum 1935: „Hjólreiðafólk frá verksmiðjunni „Elektrosila“ i Leningrad.“ Elsta dæmi um reiðhjólafólk er mun yngra, í Morgunblaðinu 1962: „Á miðjum þessum breiða grasrenningi, sé ég að komið hefur verið fyrir stíg fyrir reiðhjólafólk.“ Dæmin um hjólreiðafólk á tímarit.is eru rúmlega 1250 en um reiðhjólafólk tæplega 150.

Orðin hjólreiðamaður og hjólreiðafólk eru mynduð af samsetta nafnorðinu hjólreið sem langoftast er notað í fleirtölu, hjólreiðar, en orðin reiðhjólamaður og reiðhjólafólk eru mynduð af samsetta nafnorðinu reiðhjól. Það er vitaskuld fullgild orðmyndun enda eru aldrei gerðar athugasemdir við hliðstæða orðmyndun af öðrum samsetningum með -hjól sem seinni lið, svo sem bifhjól, mótorhjól, vélhjól o.fl. Orðið bifhjólamaður kemur fyrst fyrir 1920, mótorhjólamaður 1930 og vélhjólamaður 1965 – samsvarandi samsetningar með -fólk eru einnig til en nokkru yngri. Á seinustu árum hafa bæst við ýmis orð af þessu tagi – fjallahjólafólk, götuhjólafólk, rafhjólafólk, torfæruhjólafólk o.fl. – og samsvarandi orð með -maður.

Frá orðmyndunarlegu sjónarmiði er því ekkert við reiðhjólamaður og reiðhjólafólk að athuga. Það er ekki heldur hægt að amast við orðunum á þeim forsendum að þau séu óþörf því að orð sömu merkingar, hjólreiðamaður og hjólreiðafólk, séu fyrir í málinu – vitanlega er aragrúi samheita í málinu og það hefur venjulega verið talið kostur fremur en galli að hægt sé að grípa til fleiri en eins orðs til að tjá sömu merkingu. Ef til vill gæti einhverjum dottið í hug að segja að þessi orð væru ekki einasta óþörf heldur ættu sér enga hefð í málinu og ryddust inn á svið orðanna hjólreiðamaður og hjólreiðafólk. En eins og hér hefur komið fram er reiðhjólamaður hundrað ára gamalt og reiðhjólafólk 90 ára – þau hafa löngu unnið sér hefð sem íslensk orð.

Tvem

Í Málvöndunarþættinum sá ég að einu sinni sem oftar var verið að gera athugasemd við framburðinn tvem(ur) í stað tveim(ur) í þágufalli af töluorðinu tveir. Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2007 sagði Jón G. Friðjónsson: „Í nútímamáli gætir þess allnokkuð að framburðarmyndinni tvem bregði fyrir, sbr. myndina þrem við hlið þremur (af to. þrír) […]. Myndin tvem er ekki viðurkennd sem gott mál.“ Í grein á Vísindavefnum 2008 segir Guðrún Kvaran: „Myndirnar tvem og tvemur heyrast alloft í töluðu máli og sjást jafnvel á prenti […] en þær eru ekki taldar réttar.“ Í málfarshorni Morgunblaðsins 2019 segir: „Þó segjum við stopp við „tvem“ eða „tvemur“. Það er klárlega smit frá þrem og þremur og verður ekki liðið.“

Þessi framburður er þó fjarri því að vera nýjung heldur hefur þekkst í a.m.k. hálfa aðra öld. Á tímarit.is eru hátt í 400 dæmi um tvemur, það elsta í Baldri 1869: „Á tvemur seinustu mánuðum áður en skýrsla þessi var gefin.“ Næsta dæmi er í Þjóðólfi 1878: „rauð hryssa óaffext með síðu tagli og tvemur hvítum röndum á kviðnum.“ Dæmin um tvem eru tæp 120, það elsta í Lögbergi 1909: „Fyrir hér um bil tvem árum var eg ákaflega horuð orðin.“ Næstu tvö dæmi eru líka úr Lögbergi en fyrsta dæmið úr blaði gefnu út á Íslandi er í Fréttum 1915: „En þegar hann loks gat hrært sig úr sporunum, mætti hann tvem öðrum augum.“ Dæmum um bæði tvemur og tvem á tímarit.is hefur farið smátt og smátt fjölgandi, einkum eftir 1990.

Það er hins vegar alkunna að ritháttur prófarkalesinna texta, eins og megnið af textunum á tímarit.is er, getur gefið mjög villandi mynd af tíðni framburðarmynda sem ekki njóta viðurkenningar, eins og tilfellið er með tvem(ur). Þetta kemur vel fram í Risamálheildinni – í samfélagsmiðlahluta hennar er hátt á fjórða þúsund dæma um tvem og tvemur. Þetta gefur vísbendingu um að þessi framburður hafi lengi verið töluvert algengari en fram kemur á prenti. En þessar myndir eru þó ekki bundnar við óformlegt málsnið því að um 450 dæmi eru um þær í öðrum textum Risamálheildarinnar og það er margfalt hærra hlutfall en í sambærilegum textum á tímarit.is sem bendir til þess að þessi framburður sé í töluverðri sókn.

Það leikur lítill vafi á að í tvem(ur) gætir áhrifa frá þrem(ur) eins og áður segir og þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem beyging töluorðsins þrír hefur áhrif á beygingu orðsins tveir. Upprunalega þágufallsmyndin mun vera tveim, en myndin tveimr (síðar tveimur) er talin tilkomin fyrir áhrif frá þremr (áður þrimr – sérhljóðið þar hefur nefnilega líka breyst). En fleira en áhrif frá þrem(ur) gæti ýtt undir breytingu ei í e – eignarfallið tveggja gæti líka átt hlut að máli, því að þar er stofnsérhljóðið e eins og í tvem(ur). Við það bætast skyld orð með tve- eins og lýsingarorðið tvennur og nafnorðin tvenna, tvennd og tvenning, auk lýsingarorðsins tvefaldur sem var algengt áður fyrr. Aftur á móti er ei hvergi að finna í skyldum orðum.

Beyging tveir er mjög óregluleg – tveir um tvo í nefnifalli og þolfalli karlkyns, tvær í báðum þessum föllum í kvenkyni, og tvö í þessum föllum í hvorugkyni, en tveim í þágufalli og tveggja í eignarfalli allra kynja. Þessi óregla þýðir að tvíhljóðið ei í tveim(ur) hefur lítinn stuðning af öðrum beygingarmyndum orðsins og stendur því veikt – fyrir utan þágufallið kemur ei bara fyrir í nefnifalli karlkyns. Vissulega gildir það sama um e-ið í þrem(ur) – það hefur jafnvel enn minni stuðning af öðrum myndum. En einhljóðun er miklu algengari en tvíhljóðun í áherslulítilli stöðu eins og þessar myndir hafa oft. Þegar við þetta bætist að tvem(ur) er a.m.k. 150 ára gamalt, og orðið mjög útbreitt, leikur enginn vafi á því að sjálfsagt er að viðurkenna það sem rétt mál.

Sífleiri

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð sá ég spurt hvort orðið sífleiri sem kom fyrir í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í dag – „Sífleiri leita til Geðheilsumiðstöðvar barna“ – væri nýyrði. Líklega hefur einhverjum sýnst þetta vera villa því að fyrirsögninni var fljótlega breytt og er nú „Sífellt fleiri leita til Geðheilsumiðstöðvar barna“. En sífleiri er samt ekki einsdæmi þótt orðið hafi ekki komist í orðabækur og sé vissulega sjaldgæft. Fimm dæmi eru þó um það á tímarit.is, það elsta í Lindinni 1938: „Þegar nú uppeldisvandræðin hraðvaxa, sífleiri neita að gjörast mæður.“ Annað dæmi er í Vikunni 1962: „Þau hafa ekki farið um Evrópulöndin, sem sífleiri Evrópubúar þekkja ár hvert meira og meira til.“ Auk þess eru dæmi frá 1966, 1988 og 2021.

Í Risamálheildinni eru tólf dæmi um sífleiri frá þessari öld, þar af aðeins tvö af samfélagsmiðlum – meirihlutinn frá síðustu fimm árum. Í DV 2019 segir: „Hann nefnir sem dæmi að sífleiri þurfi að vinna um jólin.“ Í Vísi 2020 segir: „Andrés segir engan vafa á að sífleiri verslanir bætist í hóp þeirra sem leggja áherslu á sölu í gegnum vefverslun.“ Í Kjarnanum 2019 segir: „Í takt við aukna umhverfisvitund og stefnumótun í umhverfismálum kolefnisjafna sífleiri einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir sig.“ Á mbl.is 2015 segir: „Umhverfisverndarsinnar óttast að hlýnun jarðar muni umbreyta sífleiri svæðum Afríku í eyðimörk.“ Auk þess má finna um þrjátíu dæmi úr ýmsum áttum á netinu – notkun sífleiri virðist því færast í vöxt.

Forliðurinn sí- er fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrður 'fyrri liður samsetninga sem táknar endurtekningu' með dæmunum hann er síbrosandi og hún er síhrædd um eigur sínar. Raunar er ekki rétt að binda þetta við endurtekningu því að oft er frekar um langvarandi ástand að ræða. Önnur orð með þessum forlið eru t.d. sífjölgandi, síflissandi, sífreðinn, sífrjór, sífullur, sífækkandi, síhlæjandi, síkvikur, sístarfandi, síungur o.fl. Í raun er ekki hægt að koma með tæmandi upptalningu á þessum orðum því að hér er um virka orðmyndun að ræða – það er hægt að bæta sí- framan við flest orð sem tákna eða geta táknað endurtekningu eða langvarandi ástand – sídettandi, síhnerrandi, sískælandi, síspyrjandi, sívælandi, síöskrandi o.s.frv.

Í öllum þessum orðum er hægt að nota atviksorði sífellt í stað forliðarins sí- sífellt flissandi, sífellt starfandi, sífellt dettandi, sífellt öskrandi o.s.frv. Ég get því ekki séð neitt athugavert við að nota orðið sífleiri í stað sífellt fleiri, í sömu merkingu. Einhverjum kann að finnast óeðlilegt að bæta sí- framan við miðstigsmynd orðsins þar sem *símargur kemur ekki fyrir, en það er af merkingarlegum ástæðum. Ýmsar hliðstæður þar sem sí- er notað með miðstigi en ekki frumstigi má finna þótt þær séu ekki algengar, eins og síbetri, síhærri, símeiri, síminni, sístyttri, sístærri, o.fl. – aftur á móti má líta á orð eins og síyngri og sínýrri sem miðstig af sínýr og síungur sem koma fyrir. Það var alveg ástæðulaust að breyta sífleiri í sífellt fleiri á vef RÚV.

Vittu hvort hann er heima

Algengasta merking sagnarinnar vita er 'hafa fullvissu (um e-ð)' en meðal annarra merkinga sem nefndar eru í Íslenskri nútímamálsorðabók er 'athuga, aðgæta' með dæmunum vittu fyrir mig hvort glugginn er ekki lokaður og ég ætla að vita hvort hann er heima. Þessi merking kemur fram í frægri senu í Njálu þegar óvinir Gunnars á Hlíðarenda fara að honum og senda Þorgrím austmann til að vita (þ.e. 'gá') hvort Gunnar sé heima. Hann fer upp á skálann þar sem Gunnar sér til hans og leggur til hans atgeirnum þannig að hann fellur ofan af þekjunni og gengur til félaga sinna. Gissur hvíti spyr: „Hvort var Gunnar heima?“ Austmaður svarar: „Vitið þér það en hitt vissi eg að atgeir hans var heima“ – og fellur dauður niður.

Ég botnaði aldrei í upphafinu á þessu tilsvari fyrr en ég áttaði mig á því að vita er þarna ekki notuð í algengustu merkingu sinni heldur merkingunni 'athuga, aðgæta' og „vitið þér það“ merkir því 'þið getið gáð að því'. Spurningin er hins vegar hvað vita merkir í seinna skiptið sem sögnin kemur fyrir í tilsvarinu, „hitt vissi eg“. Merkir þetta 'ég fullvissaði mig um það' eða 'ég gáði að því'? Það skiptir svo sem ekki máli fyrir skilninginn á sögunni. En eftir því sem ég best veit er útilokað í nútímamáli að nota vita í merkingunni ‚athuga, aðgæta‘ í framsöguhætti og viðtengingarhætti – ég veit hvort hann er heima getur alls ekki merkt 'ég gái hvort hann er heima' og ég vissi hvort hann væri heima getur ekki merkt 'ég gáði hvort hann væri heima'.

Það er í sjálfu sér eðlilegt að boðhátturinn vittu sé ekki notaður í algengustu merkingu sagnarinnar vita – það er ekki hægt að skipa neinum að 'hafa fullvissu' um eitthvað en það er hægt að skipa öðrum að 'athuga, aðgæta' eitthvað og ekki óeðlilegt að nota boðháttinn í þeirri merkingu. Það kemur hins vegar ekki fram í orðabókum að sú merking er bundin við ákveðna hætti sagnarinnar – þá sem koma fram í notkunardæmunum úr Íslenskri nútímamálsorðabók, boðhátt og nafnhátt. Langoftast kemur merkingin fram í boðhætti annarrar persónu eintölu en stundum einnig í fleirtölu og stöku sinnum í nafnhætti. Lausleg athugun á tímarit.is bendir þó til þess að notkun nafnháttar í þessari merkingu sé mjög sjaldgæf á síðustu áratugum.

Breyting á beygingu sagna með nd í stofni

Í umræðu um málfar barna á K100 um daginn sagði stjórnandi þáttarins: „Ég tek eftir því að þau hlusta á svo mikið af ensku tali að það hefur áhrif á hvernig þau tala“ og nefndi sem dæmi „að börnin segi senta en ekki senda“. „„Ég þurfti að senta boltann,“ segist hún hafa heyrt sagt á sínu heimili um daginn. Rekur hún þessa málfarsvillu til þess að á ensku er sagnorðið senda í þátíð sent.“ Það er vel þekkt að þátíð sagnarinnar senda verður oft senti í nútímamáli í stað sendi. Skýringin á því liggur í augum uppi. Aðrar sagnir með sömu stofngerð, benda, henda, lenda og venda, fá þátíð með t benti, henti, lenti og venti – og ekkert óvænt að senda lagi sig að þeim. En þarna var ekki verið að tala um þátíð sagnarinnar, heldur nafnháttinn.

Ég hafði ekki tekið eftir dæmum um nafnháttinn senta – á tímarit.is eru vissulega fimm dæmi um hann frá ýmsum tímum en þau gætu verið prentvillur. Hins vegar eru um fjörutíu dæmi um hann í Risamálheildinni, nær öll af samfélagsmiðlum, þannig að einhver hreyfing er greinilega í þessa átt. En mér finnst sú skýring að um sé að ræða áhrif frá sent í ensku mjög ósennileg. Íslenski nafnhátturinn senda samsvarar enska nafnhættinum send og væri þá í raun og veru að flýja frá honum fyrir áhrif annarrar beygingarmyndar, ensku þátíðarinnar sent. Það væri mjög sérkennilegt. Við þetta bætist að enska þátíðarmyndin sent er borin fram með rödduðu n-, [sent], og er miklu líkari íslensku myndinni senda [sɛnta] en órödduðum framburði á senta [sɛn̥ta].

Auk þess kemur í ljós að sama breyting er í gangi hjá öðrum sögnum með sömu stofngerð, þ.e. benda, henda, lenda og venda. Í Risamálheildinni er hátt á þriðja hundrað dæma um nafnháttinn benta, hátt í tvö hundruð um lenta og nokkuð á annað hundrað um venta. Einnig er töluvert um nafnháttinn henta í stað henda en útilokað að átta sig á fjöldanum vegna þess að þær myndir falla saman við sögnina henta. Megnið af þessum dæmum er úr óformlegu málsniði samfélagsmiðla en þó er einnig nokkuð úr fjölmiðlum, einkum um lenta – „Þetta hefur þann kost að góðir hlauparar lenta ekki aftast í kösinni“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2012; „Hann mun gera nokkur mistök og lenta í árekstrum, eins og allir nýliðar“ segir í Vísi 2011.

Þessi breyting virðist einnig taka til annarra sagna með nd í stofni, a.m.k. hrinda og synda. Hún hefur greinilega verið í gangi um nokkurn tíma, a.m.k. allt frá upphafi samfélagsmiðla upp úr aldamótum. Í þessum sögnum eru engar líkur á að um ensk áhrif sé að ræða, og þess vegna væntanlega ekki heldur í senta. Eina hugsanlega skýringin sem ég sé á þessari breytingu er tilhneiging til að halda sömu hljóðasamböndum í allri beygingunni. Í hefðbundinni beygingu hafa þessar sagnir nd í nafnhætti og nútíð en nt í þátíð og lýsingarhætti þátíðar, en ef breytingin gengur í gegn verða þær með nt í öllum myndum. Slík tilhneiging til samræmingar innan beygingardæmis er vel þekkt, en óljóst hvers vegna þátíðin hefur áhrif á nútíðina en ekki öfugt.

Vodka/vodki, votka/votki, voðka/voðki, volka/volki

Nafnorðið vodka er skýrt 'litlaus, sterkur áfengur drykkur' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að orðið sé hugsanlega komið í íslensku úr dönsku en er upphaflega úr rússnesku þar sem það er eiginlega „smækkunarorð eða gæluorð af voda 'vatn'“. Elsta dæmi um orðið á tímarit.is er í Ísafold 1891: „sje honum fengið fje í hendur, ver hann því eigi til að kaupa matvæli fyrir, heldur brennivín (vodka).“ Önnur dæmi um orðið frá 19. öld eru úr vesturíslensku blöðunum en eftir aldamótin fer það að sjást oftar og oftar í íslenskum blöðum. Það varð þó ekki verulega algengt fyrr en á tíma seinni heimsstyrjaldarinnar og tíðnin hélt áfram að aukast út öldina en fer nú minnkandi, samfara minni neyslu sterkra drykkja.

Þegar nýtt nafnorð kemur inn í málið þarf að gefa því eitthvert kyn. Nafnorð sem enda á -a í nefnifalli eru langoftast kvenkynsorð og það eru dæmi um að vodka sé notað í kvenkyni. Í Tímanum 1967 segir: „Og að lokum drekkum við skál – í pólskri vodku!“ Í Þjóðviljanum 1992 segir: „Að lokum er mælt með staupi af ískaldri rússneskri vodku sem fer ágætlega með rauðrófusúpunni.“ En langoftast er orðið notað í þolfalli sem andlag sagnarinnar drekka og heldur þar -a-endingunni, og nafnorð sem endar á -a í þolfalli getur ekki verið kvenkynsorð heldur er annaðhvort karlkyn eða hvorugkyn. Hvorugkynsorð sem enda á -a eru hins vegar mjög fá og tákna langflest líffæri eða líkamshluta eins og auga, eyra, hjarta, nýra o.s.frv.

Þess vegna er eðlilegt að vodka í samböndum eins og drekka vodka sé túlkað eins og aukafall af karlkynsorði sem endi á -i í nefnifalli og til verði nýtt nefnifall – vodki. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Fálkanum 1946: „Jæja, nú er ég farinn að rausa – það gerir blessaður vodkinn.“ Í Degi 1956 segir: „Við erum úti í fárviðri og höfum misst vodkann.“ Í Skólablaðinu 1962 segir: „Munntamari var mér þó oft / meinhollur vodki á brúsa.“ Langsamlega algengast er að orðið sé notað í þolfalli eintölu án greinis, vodka, og sú mynd sýnir ekki hvort um karlkyn eða hvorugkyn er að ræða, en ótvíræð karlkynsdæmi eins og þessi eru svo algeng að karlkynið vodki er sérstakt flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók með vísun á hvorugkynsmyndina vodka.

Oft þarf líka að laga tökuorð að hljóðkerfi málsins. Orðið vodka hefur að geyma sambandið dk sem kemur ekki fyrir í orðum af norrænum stofni. Það er hins vegar enginn framburðarmunur á því og sambandinu tk sem til er í málinu þótt það sé sjaldgæft – komi helst fyrir í sögnunum litka og vitkast og nafnorðinu notkun. Því kemur ekki á óvart að hægt er að finna slæðing af dæmum um ritmyndina votka. Í Heimskringlu 1907 segir: „Enginn neitar þar glasi af „Votka“ undir neinum kringumstæðum.“ Í Templar 1914 segir: „Rússar hafa alveg bannað alla ‘votka’- og ölsölu í löndum sínum.“ Karlkynsmyndin votki kemur líka fyrir – í Morgunblaðinu 1982 segir: „Já, það er von að votkinn fljóti.“ En þetta er eingöngu aðlögun í rithætti, ekki framburði.

Annað samband hljóðfræðilega skylt dk er ðk sem er talsvert algengara en tk og kemur fyrir í ýmsum orðum – blaðka, iðka, iðkun, liðka, rauðka o.fl. Eins og við er að búast má finna dæmi um að þetta samband sé notað í aðlögun vodka að hljóðkerfinu. Í Ísafold 1915 segir: „Rússar bönnuðu alla sölu á Voðka og öðrum áfengum drykkjum síðastliðið sumar.“ Í Íslendingi 1919 segir: „Jeg sá Rússa drekka áfengi jafn hispurslaust og þeir drekka voðka á hinum norðlægu breiddargráðum.“ Í Fálkanum 1945 segir: „Þessu var skolað niður með rússnesku brennivíni, beisku zubrovka voðka, Moskva voðka og því, sem best var: með riabinvoðka, eða rauðum voðka.“ Þarna sýnir lýsingarorðið rauðum voðka í síðasta dæminu er af karlkyninu voðki.

En áhugaverðasta myndin, og sú sem olli því að ég fór að skoða þetta, er volka eða volki sem var til umræðu í hópnum Skemmtileg íslensk orð. Í þeirri umræðu kom fram að þessi mynd er vel þekkt, og stöku dæmi má finna um hana á prenti. Í skólablaðinu Þjóðólfi 1960 spyr kennari: „Geturðu nefnt einhvern áfengan drykk?“ og nemandi svarar: „Já, VOLKA.“ Í Morgunblaðinu 1963 segir: „Ég get gefið þér volka eða hvað það nú heitir vodka?“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þar sem við veiddum titti og drukkum „volka“ í friði frá kellingum.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Hún mætti í allar samkomur og fékk sér jafnvel Volka ef vel stóð á.“ Nokkur dæmi frá þessari öld má einnig finna í Risamálheildinni, öll af samfélagsmiðlum.

Þessa mynd hlýtur einnig að verða að skýra sem aðlögun að íslensku hljóðkerfi. Vissulega virðist ekki liggja beint við að setja lk í stað dk – hliðarhljóðið l í stað lokhljóðsins d ­– en bæði hljóðin eru þó tannbergsmælt og heyranlegur munur á d og órödduðu l í þessu umhverfi þarf ekki að vera ýkja mikill. Nafnorðið volk er auðvitað til í málinu í merkingunni 'hrakningar og erfiðleikar' og spurning hvort einhver hugrenningatengsl eru við það – að drekka volka getur leitt fólk út í ýmiss konar volk. Það er ástæðulaust að fara lengra út í þá sálma, en hvað sem þessu líður eru hinar fjölmörgu framburðar- og ritmyndir þessa orðs skemmtileg dæmi um það hvernig leitast er við að laga tökuorð að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins.

Klæð(n)ing

Nýlega var athygli mín vakin á því – sem ég hafði aldrei tekið eftir – að Vegagerðin notar jafnan orðið klæðing í staðinn fyrir klæðning sem er almennt notað og skýrt 'lag sem vegur er þakinn með' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þar er einnig að finna orðið vegklæðning sem er skýrt 'efsta slitlag á vegi'. Myndin klæðing er ekki í bókinni en hana er hins vegar að finna í Vegorðasafni í Íðorðabankanum þar sem hún er skýrð 'þunnt slitlag, blanda af bikbindiefni og steinefni'. Bæði -ing og -ning eru algeng viðskeyti kvenkynsorða og mynda verknaðarorð af sögnum – klæð(n)ing getur merkt 'það að klæða' og hægt væri að segja klæðning vegarins tók skamman tíma. En oft fá þessi orð líka hlutstæða merkingu, í þessu tilviki 'afurð verknaðar'.

Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að myndin -ning sé komin af -ing en -n-ið sé komið úr sögnum sem enda á -na (t.d. vakna vakn-ing) og lýsingarháttum sem enda á -inn (t.d. telja talin-ing > taln-ing). Málnotendur fara svo að skynja -n-ið sem hluta viðskeytisins (vakn-ing > vak-ning, taln-ing > tal-ning) og til verður nýtt sjálfstætt viðskeyti, -ning, sem notað er í sömu merkingu og -ing og hægt er að bæta við aðrar sagnir en þær sem hafa n í grunnmyndinni, svo sem klæða klæðning.  Það er því ljóst að klæðing og klæðning eru jafngild orð, bæði mynduð í fullkomnu samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur en sitt með hvoru viðskeytinu. Orðin virðast vera álíka gömul í málinu en lengi framan af einkum notuð um klæð(n)ingu húsa.

Elsta dæmi sem ég finn um klæðningu er í Ísafold 1881: „Að borðviðurinn hafi verið þurr, votta gólf og klæðning öll á húsinu þann dag í dag.“ Elsta dæmi um klæðingu er í Þjóðólfi 1886: „þá vóru eigi járnþökin og járnklæðingarnar komnar hjer.“ En elstu dæmi um orðið klæðning í merkingunni 'vegklæðning' eru í frétt með fyrirsögninni „„Klæðningin“ helmingi ódýrari en malbikið og olíumölin“ í Þjóðviljanum 1980. Elsta dæmi um orðið klæðing í sömu merkingu er í Feyki 1982: „Áætlað er að leggja bundið slitlag, svokallaða klæðingu, á Norðurlandsveginn frá Hrútatungu að Stað.“ Ég veit ekki hvers vegna Vegagerðin hefur valið að nota fremur klæðing en hið mun algengara orð klæðning en það er í sjálfu sér ekkert við það að athuga.

Við hittumst aðra hvora helgi

Í framhaldi af umræðu um samböndin öðru hvoru og öðru hverju í atvikslegri merkingu, 'við og við', fór ég að hugsa um notkun þessara sambanda sem fornafna í merkingunni 'einn af hverjum tveimur í röð (með nafnorði án greinis)' eins og skýringin á annar hvor er í Íslenskri nútímamálsorðabók, með dæmunum ég á að skúra aðra hvora viku og við hittumst annan hvorn sunnudag. En við skýringuna er bætt innan sviga: „(réttara er þó talið að nota hér 'annar hver': annan hvern sunnudag)“. Sambandið annar hver er skýrt 'einn af hverjum tveimur á víxl í samfelldri röð' með dæmunum annar hver nemandi lærir á hljóðfæri, það er mynd á annarri hverri blaðsíðu, önnur hver fjölskylda er áskrifandi að blaðinu og hún vinnur aðra hverja helgi.

Í Málfarsbankanum er svo hnykkt á því hvað er talið „réttara“ í þessu: „Annar hvor, önnur hvor, annað hvort merkir: Annar (önnur, annað) af tveimur. Þau fara þangað aðra hvora helgina, annaðhvort þá næstu eða þá þarnæstu.“ En hins vegar: „Annar hver, önnur hver, annað hvert. Þau fara þangað aðra hverja helgi, þ.e. að jafnaði 26 helgar á ári.“ Þetta samræmist því sem Málfarsbankinn segir um greinarmun hvor og hver – „Óákveðna fornafnið hvor á við þegar rætt er um annan af tveimur“ og „Fornafnið hver á við þegar rætt er um einn af þremur eða fleirum“ Sá greinarmunur hefur reyndar ekki alltaf verið gerður – í skýringu orðanna í Íslenskri orðabók segir: „á 14.–19. öld var enginn greinarmunur á hver og hvor.“

Það er líka alkunna að algengt er í nútímamáli að ekki sé gerður munur á þessum orðum. En þótt við höldum okkur við að gera merkingarmunur á hvor og hver leiðir það ekki endilega til þess að annan hvern sunnudag og aðra hverja helgi sé réttara en annan hvorn sunnudag og aðra hvora helgi í dæmunum að ofan. Þegar við segjum aðra hvora helgi er nefnilega hægt að líta svo á að viðmiðið sé í raun ekki allar 52 helgar ársins, heldur einungis tvær og tvær í einu. Það má sem sé líta svo á að aðra hvora helgi merki 'aðra af tveimur í hverjum viðmiðunarhópi' og því sé eðlilegt að nota þarna fornafnið hvor. En einnig kemur til greina að líta á allar helgar ársins sem viðmiðunarhóp og þá er eðlilegt að segja aðra hverja helgi.

Á tímarit.is má finna fjölda gamalla dæma um sambandið annar hvor í þessari merkingu. Elsta dæmi um annan hvorn dag og annan hvern dag eru jafngömul, frá 1872 – elsta dæmi um aðra hvora viku er frá 1887 en um aðra hverja viku frá 1906. Dæmi með hver eru vissulega mun fleiri, en dæmin um hvor skipta samt þúsundum og fráleitt vegna aldurs, tíðni og þess sem áður segir um viðmiðunarhóp að telja þau röng. Áðurnefnd skýring um að hvor miðist við hóp tveggja og tveggja gengur vitanlega ekki upp í dæmum eins og þriðju hvora helgi sem slæðingur er af í Risamálheildinni. En þau dæmi eru eingöngu af samfélagsmiðlum og því trúlegt að þau megi skýra með almennu samfalli hvor og hver sem er algengt í óformlegu máli.

Öðru hvoru og öðru hverju

Áðan var hér spurt hvort fólk væri „alveg hætt að greina mismuninn“ á öðru hverju og öðru hvoru – en hver er þessi munur? Í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 2006 sagði Jón G. Friðjónsson: „Spurnarfornafnið hvor vísar til annars af tveimur en hver til fleiri en tveggja. Í samræmi við það er (eða ætti að vera) merkingarmunur á orðasamböndunum öðru hvoru og öðru hverju. Orðasambandið öðru hverju vísar til þess sem gerist aftur og aftur með ákveðnu millibili (endurtekin merking) […]. Öðru hvoru vísar hins vegar til annars tilviks af tveimur […].“ Þrátt fyrir að telja að þarna „ætti að vera“ munur segist Jón hafa „veitt því athygli að í nútímamáli er algengt að enginn munur sé gerður á öðru hverju og öðru hvoru“.

Í pistli frá 2015 í Málfarsbankanum er Jón svo orðinn afdráttarlausari um þetta samfall og segir: „Í nútímamáli er t.d. ýmist sagt öðru hverju eða öðru hvoru án merkingarmunar […].“ Hér er rétt að athuga að „í nútímamáli“ er þarna skilgreint nokkuð rúmt – Jón vísar í ýmis dæmi allt frá fyrri hluta 18. aldar þar sem öðru hvoru er notað þar sem hann telur að búast mætti við öðru hverju. Stundum er því þó haldið fram að öðru hverju sé hið eina rétta. Í Einingu 1953 er vitnað í Magnús Finnbogason menntaskólakennara sem var þekktur málvöndunarmaður „og nú minnir hann okkur á að segja […] Ekki: öðru hvoru – heldur: öðru hverju“. Málfarsbankinn er ekki eins afdráttarlaus en segir þó: „Talið er betra mál að segja öðru hverju en „öðru hvoru“.

Þarna eru sem sé komin fram tvö sjónarmið – annars vegar telur Jón G. Friðjónsson rétt að nota ýmist öðru hvoru eða öðru hverju eftir merkingu, og hins vegar vilja Magnús Finnbogason og Málfarsbankinn alltaf nota öðru hverju, óháð fjölda tilvika að því er virðist. Þriðja sjónarmiðið kemur fram hjá Gísla Jónssyni í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1987: „Öðru hvoru eða öðru hverju. Erfitt er að segja að annað sé réttara en hitt. […] Hæpið mun að greina þetta eftir því, hversu oft eitthvað gerist, því að tímaviðmiðunin í þessu er svo afstæð.“ Ég tek undir þetta. Ég hef enga tilfinningu fyrir því að einhver merkingarmunur sé á öðru hvoru og öðru hverju og held að ég noti þessi sambönd til skiptis á tilviljanakenndan hátt.

Ég held nefnilega að tvö fyrri sjónarmiðin byggist á misskilningi – eins og dæmi hjá Jóni G. Friðjónssyni sýna er þar verið að blanda saman atviksorðunum öðru hvoru og öðru hverju annars vegar og beygingarmyndum fornafnanna annar hvor og annar hver hins vegar. Á fornöfnunum er gerður greinarmunur eftir því hvort vísað er til tveggja eða fleiri, en í aviksorðunum sem málið snýst um hér vísar hvor aldrei til fjölda tilvika, annars af tveimur – það er óhugsandi í merkingunni 'við og við'. Það skiptir því ekki heldur máli hvort sagt er öðru hvoru eða öðru hverju vegna þess að merkingarmunur getur ekki verið fyrir hendi – enda eru öðru hvoru og öðru hverju gefin athugasemdalaust í sömu merkingu í orðabókum.

Eignarfallsfrumlög

Tvær fyrirsagnir á mbl.is í morgun vöktu athygli ýmissa og voru m.a. gerðar að umtalsefni í Málvöndunarþættinum – „Líklegt að áhrif kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifin gæta ekki hjá Play“. Myndirnar áhrif og áhrifin gætu formsins vegna verið hvort heldur er nefnifall eða þolfall en fleirtalan gæta sýnir að um nefnifall er að ræða í seinni setningunni a.m.k. Sögnin gæta tekur hins vegar með sér eignarfall í þessari merkingu í hefðbundnu máli þannig að búast hefði mátt við áhrifa og áhrifanna. Báðum fyrirsögnum var líka fljótlega breytt og eru „Líklegt að áhrifa kerfisbilunar gæti hérlendis“ og „Áhrifanna gætir ekki hjá Play“. En er einhver skýring á því að þarna var í upphaflegri gerð fréttanna notað nefnifall í stað eignarfalls?

Í íslensku er frumlag setninga langoftast í nefnifalli. Allnokkrar sagnir taka þó frumlag í þolfalli, svo sem langa, vanta, dreyma, syfja, reka (á land), daga (uppi) en þolfall sem frumlag á þó nokkuð í vök að verjast eins og kunnugt er og margar þessar sagnir hafa tilhneigingu til að breyta um frumlagsfall – fá þágufall eins og langa, vanta og dreyma eða nefnifall eins og dreyma, reka (á land) og daga (uppi), svo að fáein dæmi séu tekin. Fjöldi sagna tekur þágufallsfrumlag, eins og líka, leiðast, finnast, sýnast og sambönd með vera eins og vera kalt, vera illt o.s.frv. Hins vegar taka aðeins örfáar sagnir eignarfallsfrumlag – Jóhannes Gísli Jónsson telur sjö í grein í Íslensku máli: bíða, geta, gæta, kenna, missa við, njóta (við) og þurfa.

Allar þessar sagnir eru einnig til með nefnifallsfrumlagi, ýmist í svipaðri merkingu eða ekki – til er bæði mín bíður erfitt verkefni og ég bíð eftir þessu, hennar getur í þessu kvæði og hún getur gert þetta, verkjanna gætir ekki og ég gæti að mér, það kenndi aflsmunar og ég kenndi hana, hans missti við og ég missti hann, hans nýtur ekki við og hún nýtur þessarar bókar, og þess þarf ekki og ég þarf þess ekki. Við bætist að flestar þessara sagna – sem og fáeinar aðrar sem mætti bæta við listann – eru sjaldgæfar með eignarfallsfrumlagi og sumar mjög sjaldgæfar. Þess vegna er í sjálfu sér ekkert undarlegt að fallstjórn þeirra hafi tilhneigingu til að breytast og dæmigert frumlagsfall, nefnifall, koma í stað eignarfallsins – eins og í umræddum fréttum.

Ef sögn sem hefur svipaða merkingu og gæta en tekur nefnifallsfrumlag eins og t.d. finnast, eða samband eins og koma fram, væri sett í stað gæta í upphaflegri gerð áðurnefndra fyrirsagna væri ekkert við þær að athuga – Líklegt að áhrif kerfisbilunar komi fram hérlendis, Áhrifin finnast ekki hjá Play. Sennilega hefur fréttaskrifurum fundist að gæta tæki nefnifallsfrumlag eins og langflestar sagnir. Almennt séð er meinlaust þótt einstakar sagnir breyti um fallstjórn og ég hef t.d. engar áhyggjur af breyttri fallstjórn með langa, vanta, dreyma og slíkum sögnum. En þar sem sagnir sem taka eignarfallsfrumlag eru svo fáar munar um hverja einstaka, og vegna þess að eignarfallsfrumlög eru eitt af sérkennum íslenskunnar væri mikil eftirsjá að þeim.