Category: Málfar

Auglýsingaherferð VIRK

Í svari starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK við gagnrýni á auglýsingaherferð sjóðsins segir m.a.: „Tökuorðið „kombakk“ […] hefur unnið sér sess í heimi lista, einkum tónlistar, íþrótta og stjórnendamenningar. Um það vitna dæmi sem koma upp þegar leitað er að orðinu á netinu, bæði í fjölmiðlum og á óformlegri stöðum á borð við bloggsíður og samfélagsmiðla.“  „Orðið Kombakk hefur í þessu samhengi yfirtóna eftirvæntingar, ólíkt hinu miklu hlutlausara orði „endurkoma“ […].“ „Ákvörðunin um að nota kombakk sem yfirskrift þessarar mikilvægu vitundarvakningar var tekin að vel athuguðu máli […].“ „Lagið Back To Life (However do you want me) styrkir þessa tilfinningu, eins og tónlist er ævinlega ætlað að gera.“

Ég svaraði og sagði: „Takk fyrir svarið, sem olli mér samt miklum vonbrigðum og bendir til að þið áttið ykkur ekki á alvarleik málsins og hversu slæmt fordæmi þið eruð að gefa með þessari herferð. Ég ber virðingu fyrir því mikilvæga starfi sem VIRK vinnur, en þeim mun sárgrætilegra finnst mér að það skuli auglýst undir enskum formerkjum. Það er alveg rétt að kombakk hefur lengi verið notað í íslensku, en fyrst og fremst í óformlegu máli. Ég hef ekkert á móti tökuorðum en þegar til eru ágæt íslensk orð í sömu merkingu er æskilegt að halda sig við þau. Það kann að vera rétt að kombakk höfði betur til fólks en endurkoma þótt ég efist stórlega um það – ég sé ekki betur en orðið endurkoma sé oftast notað í jákvæðu samhengi, ekkert síður en kombakk.

Það alvarlegasta er þó að meginboðskapur auglýsingarinnar, Back to life, back to reality, er á ensku. Fyrir utan að það er álitamál hvort það standist lög finnst mér það algerlega forkastanlegt. Ég trúi ekki öðru en þið áttið ykkur á því þegar þið hugsið málið hvað þið eruð að gera með þessu. Ef við göngumst inn á það að enska sé heppilegri en íslenska í einhverju samhengi þótt verið sé að höfða til Íslendinga erum við að opna flóðgátt sem ómögulegt verður að loka. Við erum með því að gera lítið úr íslenskunni, tala hana niður, segja að hún dugi ekki – við erum að kveða upp dauðadóm yfir henni. Ég trúi ekki að það sé vilji aðstandenda VIRK að gera það og skora enn og aftur á ykkur að endurskoða þessa auglýsingaherferð.“

Frábær Skrekkur

Þriðja árið í röð hef ég nú setið þrjú kvöld í röð í Borgarleikhúsinu og horft á 25 atriði í undankeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Ástæðan er sú að ég er í dómnefnd um „Skrekkstunguna“, íslenskuviðurkenningu keppninnar, sem ákveðið var í hitteðfyrra að taka upp vegna þess að aðstandendum fannst íslenska vera mjög á undanhaldi í keppninni og vildu reyna að snúa þeirri þróun við. Það hefur svo sannarlega tekist. Íslenska varð strax meira áberandi þegar viðurkenningin var fyrst veitt fyrir tveimur árum, hlutur hennar stækkaði enn töluvert í fyrra, og í ár fannst mér verða alger bylting. Sáralítið bar á ensku í keppninni – í langflestum atriðum var allur texti, talaður, sunginn og ritaður, á íslensku.

Í Skrekk er hin sjónræna hlið mjög mikilvæg en samt sem áður tókst sumum skólunum að hafa íslenskuna beinlínis í aðalhlutverki í atriðum sínum – lifandi, frjóa og skapandi íslensku. Það var einstaklega ánægjulegt að horfa og hlusta á þetta – en að sama skapi verður verkefni dómnefndarinnar, að velja sigurvegara, sérlega snúið. Það er samt tilhlökkunarefni vegna þess að við vitum að sigurvegarinn verður verðugur. Ég hvet ykkur til að horfa á úrslitakeppni Skrekks á mánudagskvöld í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu – þá verður jafnframt tilkynnt hvaða skóli fær Skrekkstunguna. Frammistaða unglinganna gleður mann sannarlega á þessum annars dapra og drungalega degi og fyllir mann bjartsýni fyrir hönd íslenskunnar.

Undarlegt, undanlegt og undalegt

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurst fyrir um myndina undanlegt sem fyrirspyrjandi hafði rekist á í blaði frá 1925 og velti fyrir sér hvort þessi mynd hefði verið notuð í stað undarlegt. Ég hafði aldrei rekist á þetta og taldi í fyrstu að þetta hlyti að vera prentvilla, en þegar ég fór að skoða málið skipti ég um skoðun. Á tímarit.is eru alls um 180 dæmi um atviksorðið undanlega og lýsingarorðið undanlegur, í ýmsum beygingarmyndum – elsta dæmið frá árinu 1900. Í Risamálheildinni eru dæmin um 70, þar af um helmingur af samfélagsmiðlum. Þetta eru alltof mörg dæmi til að hægt sé að gera ráð fyrir að alltaf sé um prentvillu að ræða, þannig að myndin undanleg- hefur greinilega verið í einhverri notkun frá því í upphafi síðustu aldar.

Auðvitað er enginn vafi á því að undanleg- er komið af undarleg-, hvort sem við viljum kalla það afbökun, misskilning eða eitthvað annað. Lýsingarorðið undarlegur kemur fyrir þegar í fornu máli og er skylt nafnorðinu undur en eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók hafa orðið víxl á -ur (áður -r) í því orði og -ar- í undarlegur. Trúlegt er að þessi víxl dragi úr gagnsæi orðsins undarlegur – valdi því að málnotendur tengi orðið ekki endilega við undur. Þessi skortur á gagnsæi veldur því svo að meiri líkur eru á að orðið breytist vegna þess að það styðst ekki við annað orð sem fólk þekkir. Heyranlegur munur á r og n í lok atkvæðis inni í orði er mjög lítill og þess vegna viðbúið að fólk misheyri stundum undan- fyrir undar-.

En stundum virðist r-ið líka falla alveg brott og þess vegna mætti búast við því að finna ritháttinn undaleg- án r. Ég hafði ekki tekið eftir slíkum dæmum, frekar en dæmum um undanleg-, en þau reyndust samt vera til þegar að var gáð – um ritháttinn undaleg- eru um 70 dæmi á tímarit.is, það elsta frá árinu 1900 eins og elsta dæmið um undanleg-. Það er hins vegar athyglisvert að dæmin í Risamálheildinni eru miklu fleiri eða tæp 150 – langflest af samfélagsmiðlum. Þetta er alveg öfugt við dæmin um undanleg- sem voru mun fleiri á tímarit.is en í Risamálheildinni. Vegna þess að textarnir í Risamálheildinni eru flestir frá þessari öld gæti þetta bent til þess að framburðurinn þar sem r fellur alveg brott sé að færast í vöxt.

Það er sem sé trúlegt að áður hafi fólk yfirleitt heyrt þarna eitthvert samhljóð en það hafi iðulega verið svo veikt að fólk gat skynjað það sem n í stað r – og sú skynjun endurspeglaðist í rithættinum. Núna er trúlegt að fólk heyri oft ekkert samhljóð á þessum stað og sú skynjun endurspeglast þá líka í rithættinum. Ég legg áherslu á að ég er auðvitað ekki að mæla með því að við hverfum frá hinum hefðbundna rithætti. Þetta er hins vegar forvitnilegt dæmi um það hvernig skert gagnsæi orða, ásamt óskýrum eða breyttum framburði, getur valdið því að málnotendur fari að skynja þau á nýjan hátt. Stundum leiðir þessi breytta skynjun til málbreytingar, en í þessu tilviki eru dæmin (enn) of fá til að hægt sé að tala um breytingu.

Hvítabirnir og ísbirnir

Spendýrið ursus maritimus heitir á íslensku ýmist hvítabjörn eða ísbjörn – síðarnefnda orðið er komið af isbjørn í dönsku. Í viðtali í Fréttablaðinu 2011 segir Ævar Petersen dýrafræðingur: „Hvítabjörn er þekkt í íslensku að minnsta kosti frá 12. öld en ísbjörn kom fyrst fram í rituðu máli snemma á 19. öld og var í raun lítið sem ekkert notað fyrr en á 20. öld. Orðið bjarndýr var mikið notað á 19. öld um hvítabirni en það er núna yfirleitt haft sem almennt heiti yfir birni – hvíta, brúna og svarta.“ Það er rétt að elsta dæmi um ísbjörn er frá 1827, en allt frá því í lok nítjándu aldar hefur það verið mun algengara orð en hvítabjörn. Á tímarit.is eru rúm níu þúsund dæmi um fyrrnefnda orðið en tæp tvö þúsund og tvö hundruð um það síðarnefnda.

Þótt orðið ísbjörn eigi sér hliðstæðu í dönsku og sé sniðið eftir henni er það eftir sem áður vitanlega íslenskt orð – báðir orðhlutarnir, ís og björn, eru íslenskir. Merkingarleg tengsl orðhlutanna eru hliðstæð við tengslin í orðinu skógarbjörn sem kemur fyrir í fornu máli og engum dettur í hug að gera athugasemdir við – í báðum tilvikum er dýrið kennt við búsvæði sitt, ís eða skóg. Vegna þess að hvítabjörn kemur fyrir í fornu máli en ísbjörn er mun yngra í málinu finnst mörgum samt æskilegra að nota fyrrnefnda orðið, og það er í sjálfu sér ekkert við því að segja. Hins vegar ætti það að vera liðin tíð að orð mynduð úr íslensku hráefni sem falla fullkomlega að málinu séu litin hornauga og látin gjalda þess að eiga sér hliðstæðu í dönsku.

„Back to life, back to reality“

Starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK rekur nú auglýsingaherferð undir kjörorðinu „Er þinn vinnustaður klár í kombakk?“. Í frétt um herferðina segir: „Kyninningarherferðin [svo] hverfist um hugtakið „Kombakk“. Hjartað í herferðinni er […] hljómsveitin Retro Stefson, sem hefur gert sína útgáfu af sígildum danssmelli, Back to Life með Soul II Soul í tilefni af Kombakk-herferðinni.“ Sett hefur verið upp síðan kombakk.is þar sem textinn „Back to life, back to reality“ úr áðurnefndu lagi rúllar sífellt og gerðar hafa verið sjónvarpsauglýsingar með laginu sem eru að megninu á ensku – þessi texti sunginn hvað eftir annað en sáralítil íslenska er í auglýsingunum. Það er ljóst að meginboðskapur auglýsinganna á að felast í þessum enska texta.

Ljóst er að markhópur auglýsinganna er aðallega Íslendingar og því álitamál hvort þær samrýmast ákvæðum 6. greinar Laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005 þar sem segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ En óháð því hvort þetta stenst lög eða ekki er þetta algerlega ótækt og til háborinnar skammar. Þarna er verið að höfða til Íslendinga með því að gera enskunni hátt undir höfði. Þetta er þeim mun alvarlegra sem aðstandendur VIRK eru m.a. ríki og sveitarfélög en í 5. grein Laga um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011 segir: „Ríki og sveitarfélög bera ábyrgð á að varðveita og efla íslenska tungu og skulu sjá til þess að hún sé notuð.“

Hvernig í ósköpunum stendur á því að íslensk samtök, sem m.a. opinberir aðilar standa að auk samtaka launafólks og atvinnurekenda, velja herferð sinni og vefsíðu enskt kjörorð og heiti? Hvernig í ósköpunum stendur á því að þessi samtök velja að koma boðskapnum fyrst og fremst á framfæri með texta á ensku? Hvernig í ósköpunum stendur á því að við látum þetta yfir okkur ganga? Það er ekki hægt að kalla þetta annað en fullkomna vanvirðingu við íslenskuna og íslenskan almenning. Það er ekki eins og það sé eitthvað flókið að finna íslenska samsvörun við kombakk, og fyrst verið er að kosta upp á að fá hljómsveit til liðs við herferðina hefði verið nær að fá hana til að semja nýjan íslenskan texta frekar en grafa upp 35 ára gamalt lag á ensku.

Íslenskan á í vök að verjast gagnvart ásókn ensku á öllum sviðum – enskunotkun í samfélaginu fer sívaxandi vegna mikils fjölda fólks af erlendum uppruna sem hér býr og starfar og vegna umfangs ferðaþjónustunnar þar sem enska er aðalmálið. Stafræn áhrif enskunnar gegnum netið, samfélagsmiðla, efnis- og streymisveitur o.fl. eru líka gífurlega mikil. Þess vegna kemur það úr hörðustu átt þegar samtök eins og VIRK leggja sitt af mörkum til að veikja varnir íslenskunnar með fullkomlega óþarfri, ástæðulausri og kjánalegri enskunotkun. Ég vonast til að VIRK sjái sóma sinn í því að breyta kjörorði herferðarinnar og heiti vefsíðunnar – og taka úr birtingu auglýsingar sem eru aðallega á ensku og gera auglýsingar á íslensku í staðinn.

Endurvinnsla orða: tómthússkattur

Í húsnæðisstefnu Samfylkingarinnar fyrir væntanlegar Alþingiskosningar segir: „Heimilum sveitarfélögum að leggja svokallaðan tómthússkatt á tómar íbúðir.“ Þótt orðið tómthússkattur sé nýtt í málinu er ekki hægt að segja annað en það sé mjög gagnsætt, en hins vegar getur það truflað fólk að orðið tómthús er fyrir í málinu í allt annarri merkingu, 'bú sem hefur hvorki jörð né skepnur, þurrabúð' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar sem það er að vísu merkt „gamalt“. Orðið er aðallega þekkt í samsetningunni tómthúsmaður sem er skýrt 'sjómaður eða daglaunamaður í verstöð eða kauptúni sem hefur ekki afnot af jörð, þurrabúðarmaður' í Íslenskri nútímamálsorðabók – og einnig merkt þar „gamalt“.

Ég er almennt séð hlynntur því að endurnýta orð sem hafa lokið hlutverki sínu í fyrri merkingu. Um þetta eru ýmis dæmi í málinu, þekktust líklega sími sem merkti 'þráður' í fornu máli og skjár sem áður merkti 'gegnsæ himna í glugga, notuð í stað rúðu'. Nýlegt dæmi er svo bur sem áður var karlkynsorð og merkti 'sonur' en var nýlega gert að hvorugkynsorði í merkingunni 'afkvæmi til að nota í kenninöfnum. Vissulega hefur slík endurnýting stundum mætt andstöðu –Helgi Hálfdanarson skrifaði t.d. grein sem hét „Orð á glapstigum“ gegn hinni nýju merkingu orðsins skjár, og ýmsar athugasemdir voru líka gerðar við breytinguna á orðinu bur, enda þótt það hafi áður verið bundið við skáldamál og sennilega aldrei verið hluti af daglegu máli.

Þótt orðin tómthús, tómthúsmaður og tómthúsbýli séu sjaldgæf í nútímamáli, og ekki notuð nema í sögulegu samhengi, eru þau vissulega ekki alveg horfin úr málinu. Því má spyrja hvort réttlætanlegt sé að taka upp orðið tómthússkattur þar sem fyrri hlutinn er sameiginlegur eldri orðunum en tengist þeim ekki merkingarlega. Þetta er vissulega álitamál, en í mínum huga snýst það fyrst og fremst um það hvort líklegt sé að þetta geti valdið misskilningi – gæti fólk sem lærir nýja orðið en þekkir ekki þau gömlu misskilið þau ef það rekst á þau í textum? Ég held ekki – ég sé ekki að hægt sé að fá nokkra merkingu, rétta eða ranga, í gömlu orðin út frá því nýja og fólk muni því fletta þeim upp í orðabókum eins og það hefði þurft að gera hvort eð er.

Framburður erlendra heita í íslensku

Mér finnst ég taka eftir því að framburður ýmissa erlendra staðaheita hafi breyst í seinni tíð. Heiti ríkjanna California og Pennsylvania í Bandaríkjunum voru í mínu ungdæmi oftast aðlöguð íslenskum framburðarreglum – borin fram með áherslu á fyrsta atkvæði og það fyrrnefnda með innskots-d á milli r og n, -rdn­- (eins og í lýsingarorðinu forn) og það síðarnefnda með a í -van-. Nú heyri ég æ oftar að framburður þessara heita er að nálgast ameríska framburðinn – sambandið -rn- í Kalifornía er borið fram án d-innskotsins (eins og í samsetningunni hor-nös) og Pennsylvanía er borið fram með ei í stað a, Pennsylveinía. Bæði heitin eru líka oft borin fram með aðaláherslu á þriðja atkvæði, KaliFORnía og PennsylVEInía.

Þetta er auðvitað ekkert óvænt eða óeðlilegt. Áður fyrr heyrðu Íslendingar þessi heiti mjög sjaldan, eins og aðra útlensku, og framburður þeirra tók því oftast mið af ritmyndinni. En með auknum kynnum okkar af erlendum málum – fyrst með kvikmyndum og sjónvarpi, síðar með neti, ferðalögum og ferðafólki – heyrir fólk þessi heiti mjög oft með sínum ameríska framburði, og mjög skiljanlegt að það taki hann upp. Það er samt líka skiljanlegt að þeim sem hafa alist upp við ritmálsframburð þessara heita bregði við breyttan framburð þeirra og telji að þar sé um óæskileg ensk áhrif að ræða, enda sé þarna verið að bregða út af hefð. Mér finnst samt engin ástæða til að amast við þessu, en hins vegar er þetta angi af miklu stærra máli.

Skylt þessu er framburður ýmissa erlendra skammstafana. Skammstöfun enska heitisins Union of European Football Associations, eða Samband evrópskra knattspyrnusamtaka, er UEFA og farið með hana sem orð sem borið er fram eitthvað í átt við eifa. Þessi framburður er einnig iðulega notaður í íslensku og það hefur oft verið gagnrýnt. Það kæmi til greina að nota íslenska skammstöfun, SEKS, og bera hana annaðhvort fram sem orð eða hvern bókstaf fyrir sig. En íslenskt heiti sambandsins á sér enga hefð, öfugt við t.d. European Union, EUEvrópusambandið, skammstafað ESB. Það væri hægt að bera þetta fram u-e-f-a– en er það eitthvað betra? Þetta er bara eins og hvert annað enskt heiti sem er látið halda sínum framburði.

En þetta snýst ekki bara um framburð enskra heita og orða. Vegna þess hversu áberandi enskan er í umhverfi okkar er algengt að hún hafi áhrif á framburð okkar á heitum og orðum úr öðrum tungumálum – í Málvöndunarþættinum hefur þetta stundum verið kallað „Rídsjard Wogner-heilkennið“. Það má vissulega gagnrýna þetta en það kemur hins vegar íslensku sáralítið við – segir ekkert um kunnáttu í íslensku heldur sýnir fremur þekkingarskort á umræðuefninu og öðrum erlendum tungumálum en ensku. Þetta er á sinn hátt alveg sambærilegt við þann ritmálsframburð sem Íslendingar notuðu yfirleitt á erlend heiti áður fyrr – framburðurinn miðast við þá fyrirmynd sem við höfum, sem áður var ritmálið en nú enskur framburður.

Það er auðvitað hægt að hafa þá skoðun að öll erlend orð sem notuð eru í íslensku samhengi, hvort sem það eru mannanöfn, staðaheiti eða annað, eigi að laga að íslenskum framburðarreglum – ekki nota í þeim nein hljóð, hljóðasambönd eða áherslumynstur nema þau sem komi fyrir í íslensku. Ég veit samt ekki um fólk sem hafi þessa skoðun enda væri hún fullkomlega óraunhæf – alveg jafn óraunhæf og sú skoðun sem ég veit ekki heldur til að hafi verið sett fram, að við eigum alltaf að bera öll erlend orð fram eins og þau eru borin fram í upprunamálinu. Þarna verður að fara einhvern milliveg og oft er tilviljun hvernig sá millivegur verður, en óneitanlega mótast hann oft af því að leiðin til okkar liggur iðulega í gegnum ensku.

19% – eða hvað?

Í nýlegri skýrslu OECD um innflytjendur á Íslandi kemur fram að hlutfall þeirra innflytjenda sem telja sig vera fullfæra eða sæmilega færa í landsmálinu er lægra á Íslandi en í öllum öðrum löndum OECD – aðeins 19%. Í nýlegri grein í Vísi var þetta borið saman við um 95% í Portúgal, 85% í Ungverjalandi og tæp 80% á Spáni. Þar er vissulega sláandi munur, en nærtækara væri að bera Ísland saman við önnur Norðurlönd. Hlutfallið er tæp 45% í Finnlandi, tæp 50% í Danmörku, rúm 55% í Noregi og rúm 60% í Svíþjóð – meðaltal OECD er rétt tæp 60%. Þetta er ekki óeðlilegur munur í ljósi þess að í Noregi og Finnlandi er varið um fjórum sinnum meira opinberu fé á mann í tungumálakennslu innflytjenda og í Danmörku allt að tíu sinnum meira.

En hugsanlegt er að annað bætist við sem auki enn á þennan mun. Tölur um málakunnáttu eru ekki byggðar á neins konar samræmdum prófum, heldur á sjálfsmati innflytjenda eins og áður er nefnt („respondents who considered their Icelandic to be either “fluent” or “advanced”“). Þá má spyrja á hverju innflytjendur byggi mat sitt á eigin íslenskufærni. Það hlýtur að byggjast að einhverju leyti á reynslu þeirra, og fólks í kringum þá, af því að nota íslensku og viðbrögðum Íslendinga þegar þeir reyna að tala málið. Eins og hér hefur margoft verið nefnt skortir okkur þolinmæði gagnvart „ófullkominni“ íslensku, svo sem erlendum hreim, röngum beygingum og óvenjulegri orðaröð, og skiptum iðulega yfir í ensku ef viðmælandinn talar ekki kórrétt.

Vegna þessa er ekki ótrúlegt, þótt ekki sé hægt að fullyrða neitt um það, að margir innflytjendur meti íslenskukunnáttu sína lægra en ella – þótt þeir tali íslensku að einhverju marki finna þeir að Íslendingum finnst íslenskan þeirra ófullnægjandi og telja þá jafnvel alls ekki tala málið. Hugsanlegt er að innflytjendur í öðrum OECD-löndum, með sambærilega kunnáttu í tungumálum þeirra landa, mæti öðru viðmóti og meti þar af leiðandi kunnáttu sína hærra. Um þetta er ekkert hægt að fullyrða en viðbrögð Íslendinga gagnvart „ófullkominni“ íslensku eru þekkt og gefa ástæðu til að velta þessu fyrir sér. Þetta þyrfti vitanlega að rannsaka áður en farið er að tala um „það grátlega litla hlutfall útlendinga sem sér ástæðu til að læra íslensku“.

Það er ljóst að hvatinn til að læra íslensku hlýtur alltaf að verða minni en hvatinn til að læra tungumál stórþjóða, einfaldlega vegna þess að íslenska nýtist hvergi nema á Íslandi, og því er ekki líklegt að fólk vilji verja tíma og fé í íslenskunám nema það ætli sér að vera hér til frambúðar. Við það ráðum við ekki, en allt hitt sem veldur því að of fáir innflytjendur læra íslensku getum við ráðið við – ef við bara viljum. Við getum sett miklu meira fé í kennslu íslensku sem annars máls, við getum breytt hugarfari okkar og viðbrögðum gagnvart „ófullkominni“ íslensku, og við getum hætt að haga okkur eins og það sé allt í lagi að enska sé notuð við ýmsar aðstæður. Allt eru þetta Íslendingavandamál, ekki útlendingavandamál.

Reikistefna

Orðmyndin reikistefna sem oft er notuð í stað rekistefna hefur stundum verið til umræðu hér og í öðrum málfarshópum. Nafnorðið rekistefna er skýrt 'mikið vesen, mikið mál' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'afskipti, íhlutun, rex' í Íslenskri orðsifjabók þar sem það er talið frá 18. öld og sagt „efalítið“ skylt sögninni reka og nafnorðinu rek í merkingunni 'það þegar e-ð rekur (fyrir straumi, á hafi)'. Elsta dæmi um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er úr Ferðabók Tómasar Sæmundssonar frá fjórða áratug nítjándu aldar: „Fékk eg þó áður lauk kátliga rekistefnu.“ Á tímarit.is eru tæp 1700 dæmi um orðið sem var algengt á seinasta hluta nítjándu aldar og alla tuttugustu öld en hefur heldur farið dalandi á þessari öld.

En myndin reikistefna er ekki ný – elsta dæmi um hana er í Heimskringlu 1896: „Lýkur þar fyrsta kaflanum í þessari reiki-stefnu sögu.“ Næsta dæmi er svo ekki fyrr en í Alþýðublaðinu 1954: „kærði húsbændur sína fyrir svelti, og varð úr mikil reikistefna.“ Í Tímanum 1958 segir: „Annars er óþarfi að gera nokkra reikistefnu út af þessu.“ Í Tímanum 1959 segir: „Af þessu verður löng reikistefna og málaferli.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Varla þykir því að gera reikistefnu út af smámunum.“ Í Morgunblaðinu 1969 segir: „Við erum allir litaðir á einn eða annan hátt svo að hvers vegna er þá öll þessi reikistefna?“ Í Tímanum 1982 segir: „Við spurðum Guðmund um mál Haraldar Ólafssonar, sem nokkur reikistefna varð út af.“

Á tímarit.is eru tæp 40 dæmi um reikistefna og vegna þess að þau eru svo fá og dreifast yfir svo langan tíma er hægt að líta á þau sem tilviljanakennd frávik eða villur frekar en upphaf málbreytingar. Þetta virðist hins vegar vera að breytast ef marka má Risamálheildina sem inniheldur einkum texta frá þessari öld. Þar eru alls rúm 500 dæmi um rekistefna en 200 um reikistefna, þar af meginhlutinn úr vef- og prentmiðlum. Í samfélagsmiðlahlutanum sem endurspeglar óformlegt mál snýst hlutfallið við – þar eru 24 dæmi um rekistefna en 34 um reikistefna. Það er því ljóst að myndin reikistefna sækir mjög á, bæði í formlegu og óformlegu máli, og það skýrir að einhverju leyti dalandi tíðni myndarinnar rekistefna sem áður var nefnd.

Skýringin á myndinni reikistefna er sennilega sú að málnotendur tengi orðið við reik í merkingunni 'flakk, ráf' eins og í vera á reiki sem merkir 'vera óljóst' eða 'óstöðugt, breytilegt'. Það er merkingarlega eðlilegt og líklega gagnsærra en tengingin við rek sem er kannski ekki augljós. Þegar við bætist að framburðarmunur á rekistefna og reikistefna er mjög lítill er þetta eðlileg breyting, bæði hljóðfræðilega og merkingarlega. Svo getur fólk haft sínar skoðanir á því hvort hún sé óæskileg. Mér finnst hún skemmtileg vegna þess að hún sýnir hversu röklegar málbreytingar eru iðulega, andstætt því sem oft er talið – hvernig málnotendur leita (oftast ómeðvitað) að skýringum og hliðstæðum, og komast að niðurstöðu. Getur hún verið röng?

Meðan öndin þöktir í vitunum

Í frétt á mbl.is í gær er talað um „dag sem Auði líður ekki úr minni á meðan öndin þaktir í vitum hennar“. Myndin þaktir vafðist greinilega fyrir sumum og var spurt um merkingu þessarar setningar í Málvöndunarþættinum, en í umræðum var bent á að þarna ætti að vera þöktir en ekki þaktir. Þetta er sem sé sögnin þökta sem er skýrð 'blakta dauflega, vera um það bil að slokkna' og 'vera um það bil að deyja' í Íslenskri orðabók. Það er svo sem ekkert undarlegt að þessi sögn skyldi vefjast fyrir bæði blaðamanni og lesendum því að hún virðist nánast vera horfin úr málinu – og hefur svo sem aldrei verið algeng. Aðeins um fjörutíu dæmi eru um hana á tímarit.is, aðeins níu dæmi í Risamálheildinni, og hana er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Það er ekki nýtt að blaðamenn skripli á skötu í meðförum þessarar sagnar eins og fram kemur í pistli sem B.E. (sem var dr. Bjarni Einarsson handritafræðingur) skrifaði í Þjóðviljann 1984: „Um daginn heyrðist í útvarpsfréttum að Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra hefði komist svo að orði í umræðum á alþingi, að enn „hökti lífsandi í nösum núverandi ríkisstjórnar“. Sverrir er kunnur að því að bregða fyrir sig skemmtilegum orðatiltækjum, en þarna hefur honum orðið á í messunni, ef rétt er eftir haft. Reyndar kom fyrst í hugann grunur um að fréttamaður hefði þarna sökum misheyrnar (og fákunnáttu) skipt um sagnorð og tekið upp alkunnugt orð í stað sjaldgæfs, þ.e. þöktir. Slíks eru mörg dæmi.“ Þessi grunur reyndist réttur – Sverrir sagði þöktir.

Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að sögnin þökta sjáist fyrst í heimildum á sautjándu öld en ég hef ekki fundið eldri dæmi um hana en „á meðan þökti eitthvað töluvert eptir í Höfn af Íslendingum af því tagi“ í Sunnanfara 1912. Sögnin er gefin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í samböndunum það þöktir á bláskarinu 'ljósið á kertinu er að slokkna', öndin þöktir aðeins fyrir brjóstinu á e-m 'er í andarslitrunum' og það þöktir á flöskunni 'það er smávegis eftir í flöskunni'. Í áðurnefndum pistli í Þjóðviljanum 1984 segir Bjarni Einarsson að sagnorðið þökta „virðist nú vera orðið fágætt í mæltu máli, en hefur til skamms tíma verið vel þekkt í vissum samböndum“ – og nefnir sömu sambönd og í Íslensk-danskri orðabók.

En fyrir utan dæmið úr Sunnanfara eru elstu dæmi sem ég hef fundið um sögnina úr Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness frá 1934-1935: „hér stend ég meðan öndin þöktir í vitunum á mér“ og „Maður á þó altaf öndina sem þöktir í vitunum á manni“. Halldór notaði þetta samband einnig í Húsi skáldsins 1939: „mikið hvað öndin þökti í vitunum á því.“ Í nær öllum dæmum um þökta er hún notuð í sambandinu öndin þöktir í vitunum – með smávægilegum tilbrigðum svo sem öndin þöktir í nösunum, öndin þöktir í brjósti, golan þöktir í vitum manns og andinn þöktir. Mörg þessara dæma eru tilvitnanir í Halldór og hvort sem hann er upphafsmaður þessa orðasambands eða ekki virðist a.m.k. ljóst að flest dæmin má rekja til hans beint eða óbeint.

Fáein dæmi eru þó um aðra notkun sagnarinnar, merkinguna 'blakta dauflega'. Í Frelsisálfunni eftir Jóhannes úr Kötlum frá 1951 segir: „Ófeigur Snorrason þöktir í bekknum eins og stirðnað hrör.“ Í Úr snöru fuglarans eftir Sigurð A. Magnússon frá 1986 segir: „Sá urmull af skynsemi sem enn blakti í heilabúinu.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Þá kviknuðu hugmyndir sem enn þökta í margs manns huga.“ Í Vestfirska fréttablaðinu 1994 segir: „drusluverk sem hékk yfir miðjum gatnamótum Hafnarstrætis og Austurvegar og þökti þar í veðri og vindum.“ Merkingin 'það er smávegis eftir í flöskunni' kemur líka fyrir í Hlíðarbræðrum eftir Eyjólf Guðmundsson frá 1953: „Og Grímur bætti kaffið með því sem þökti í lögg á kaffibrúnni flösku.“