Category: Málfar

Sótt

Nýlega var ég að skrifa um sambandið elna sóttin sem er frekar sjaldgæft í nútímamáli og væntanlega bundið við ritmál. Orðið sótt er líka sagt „gamaldags“ í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem það er annars vegar skýrt 'sjúkdómur, veikindi' og hins vegar 'fæðingarhríðir, jóðsótt' og þetta rímar við það sem fram kom í umræðum um sambandið elna sóttin. Það rifjaðist hins vegar upp fyrir mér að í mínu ungdæmi þekkti ég orðið vel en aðeins í merkingunni 'niðurgangur'. Þessa merkingu heyrði ég eingöngu á heimilinu, enda kannski ekki mikið rætt um niðurgang á opinberum vettvangi eða í almennu spjalli utan heimilis. En ég hef ekki heyrt eða séð orðið notað í þessari merkingu í meira en sextíu ár.

Ég fór því að velta fyrir mér hvort þessi merking væri þekkt eða hvort þetta hefðu bara verið einhvers konar skrauthvörf sem aðeins hefðu verið notuð á mínu heimili – slíkt er vel þekkt. En svo reyndist ekki vera, heldur er þessi merking gefin í ýmsum orðabókum. Orðið sótt er t.d. skýrt 'sjúkleiki, veiki, hitaveiki; niðurgangur' í Íslenskri orðsifjabók, og ein skýring orðsins í Íslenskri orðabók er 'þunnur saur, niðurgangur'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er ein skýring orðsins '(niðurgangur) Diarré, tynd Afføring (hos Kreaturer, is. Faar)'. Af þessu er svo að sjá sem orðið sé eingöngu notað um skepnur, einkum sauðfé. Þessi merking kemur glöggt fram í ýmsum gömlum dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans.

„A vorum er þad tídt, ad magurt saudfje fær svo kallada Sýki eda Sótt, hvar af þad vanmegnast og deyr“ segir í Klausturpóstinum 1819. „sótt kálfa stillir opt krít nidurskafin til muna í mjólk þeirra“ segir í Klausturpóstinum 1820. „Vid þá lengri rófu á spønsku fé vill loda saur, þegar sótt fær“ segir í Klausturpóstinum 1825. „Neðan til í Árnes sýslu, þar sem fé gengur í sölvafjöru og fær jafnaðarlega sótt“ segir í Nýjum félagsritum 1852. „Hin eiginlega „sótt“ er afrás skaðlegra óhreininda þarmanna“ segir í Búnaðarriti 1893. „Niðurgangur sem einnig er nefndur sótt“ segir í Dýralækningabók Magnúsar Einarssonar frá 1931. „Hann hefur fengið svo mikla sótt, að hún rennur niður af honum eins og lækjarvatn“ segir um hest í Grímu hinni nýju.

Engin dæmi eru í Ritmálssafni um að sótt í þessari merkingu sé notað um fólk, og í fljótu bragði finn ég engin örugg dæmi á tímarit.is. Samhengisins vegna gæti þó verið um þessa merkingu að ræða í Heilbrigðisskýrslum 1897: „Veikin yfirleitt mjög væg; byrjaði á sumum með hálsbólgu, á sumum með sótt og uppköstum.“ Þarna gæti merkingin þó einnig verið 'sótthiti'. Í ljósi þess hve húsdýr léku stórt hlutverk í daglegu lífi fólks áður fyrr er þó ekkert óeðlilegt að orðafar um dýr færist yfir á fólk, og hvorki í Íslenskri orðsifjabók Íslenskri orðabók er tekið fram að þessi notkun orðsins sé bundin við skepnur. Ég geri þess vegna ráð fyrir því að notkun þess um fólk hafi ekki eingöngu tíðkast á æskuheimili mínu heldur verið sæmilega þekkt.

Karlar og kona handteknir

Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í morgun segir: „Handtóku konuna í gærkvöld: Alls sjö handteknir.“ Þetta er athyglisverð fyrirsögn í ljósi þess að Ríkisútvarpið hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að vilja útrýma karlkyni í kynhlutlausri merkingu – sem er reyndar della. Þarna er hins vegar notuð karlkynsmyndin handteknir enda þótt fram komi í setningunni á undan að kona sé meðal hinna handteknu. Í hefðbundinni íslensku væri því eðlilegt að nota hvorugkynsmyndina handtekin þarna vegna þess að vitað er að hópurinn er blandaður. Hins vegar er eðlilegt í hefðbundnu máli að nota karlkyn ef kynjasamsetning hópsins er óþekkt, og vitanlega ef eingöngu er um karlmenn að ræða. Hvorugu er til að dreifa í þessu tilviki.

Nú veit ég auðvitað ekki hver skýringin er á því að þarna er notað karlkyn og vel má vera að það sé bara fljótfærnisvilla sem ástæðulaust sé að leggja dýpri merkingu í. Samt læðist að manni sá grunur að margtuggin gagnrýni á kynhlutlausa notkun hvorugkyns spili þarna inn í – fréttafólk sé orðið hvekkt og farið að forðast að nota hvorugkyn jafnvel þar sem það væri eðlilegt í hefðbundnu máli. Það er vel þekkt að leiðréttingar geta leitt til ofvöndunar – ruglað málnotendur í ríminu og leitt til þess að þeir noti rangar myndir í viðleitni til að koma til móts við leiðréttingar og gagnrýni. En hver sem ástæðan er í þessu tilviki er ljóst að það er í raun rangt mál að nota þarna karlkyn, miðað við hefðbundna íslensku.

Henni elnar sóttin

Nýlega skrifaði ég um orðalagið daglegar ónáðir sem var notað í frétt á mbl.is og vakti athygli ýmissa, og komst að þeirri niðurstöðu að þessi notkun myndarinnar ónáðir styddist við gamla hefð og ætti fullan rétt á sér. En þetta er ekki það eina í umræddri frétt sem hefur verið til umræðu í málfarsþáttum. Fyrirsögn fréttarinnar var „Mette-Marit elnar sóttin“ og upphafssetningin „Norsku krónprinsessunni Mette-Marit hefur elnað lungnasóttin sem hana hrjáir“. Sögnin elna er vissulega sjaldgæf en þó gömul í málinu og merkir 'vaxa, aukast'. Sum þeirra sem tóku þátt í umræðu um þetta könnuðust ekkert við sambandið elna sóttin en önnur sögðust eingöngu þekkja það um léttasótt – þegar kona væri að því komin að fæða.

Sögnin kemur fyrir í fornu máli og þá alltaf í sambandinu elna sótt, ýmist í merkingunni 'verða veikari' eða 'nálgast fæðingu'. „En er sóttist hafið, þá elnaði sótt á hendur Kveld-Úlfi“ segir í Egils sögu Skallagrímssonar og „Nú elnar Lofthænu sótt, og hún varð léttari að sveinbarni“ segir í Örvar-Odds sögu. Sögnin virðist alla tíð einkum hafa verið notuð í þessu sambandi þótt stöku dæmi megi finna um hana í öðru samhengi – „Síldarafli virtist vera að elna“ segir í Þjóðólfi 1885, „skilnaðarhugsunin er þó farin að elna síðasta árið“ segir í Árvakri 1914, „hlýtur siðleysið að elna í óeirðunum“ segir í Snorra Sturlusyni eftir Sigurð Nordal. En í venjulegu nútímamáli eru varla dæmi um sögnina í öðru sambandi en elna sóttin (eða sjúkdómurinn).

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er gerður munur á sótt í merkingunni 'sjúkdómur' (Sygdom) og í sérhæfðu merkingunni 'hitasótt' (Feber) og dæmið honum elnaði sóttin er að finna við seinni merkinguna. Það kemur heim og saman við að sambandið virðist yfirleitt hafa verið notað um frekar bráð og skammvinn veikindi. Í Skírni 1833 segir: „sóttin elnaði, og konúngr lá fleiri dægr í andarslitrunum.“ Í Iðunni 1886 segir: „Um nóttina eptir varð hún veik, og tvo hina næstu daga elnaði sótt hennar, og andaðist hún á þriðja degi.“ Í Ísafold 1891 segir: „Sótt hans elnaði brátt og andaðist hann tveim dögum síðar.“ Í Íslandi 1898 segir: „Á laugardaginn var hann orðinu veikur, og elnaði sóttin því meir sem á daginn leið.“

Vissulega eru þó dæmi um annað, einkum í textum frá síðustu árum. Í hæstaréttardómi frá 2014 segir: „astmasjúkdómur sem hann hefði um langt skeið glímt við hefði elnað meðan hann starfaði við skólann.“ Í Húnahorninu 2020 segir: „En því þyngra hefir honum verið á einverustundum þau árin er honum elnaði sjúkdómurinn hægt og hægt en jafnt og þétt.“ Í grein á Wikipediu segir: „Astmasjúklingum getur elnað sóttin.“ Þetta eru þó undantekningar – yfirleitt hefur sambandið elna sóttin ekki verið notað um langvinna sjúkdóma eins og lungnatrefjun sem hrjáir norsku krónprinsessuna og hefur gert síðan 2018. Notkun sambandsins í umræddri frétt verður kannski ekki talin röng en þó má segja að hún sé ekki í fullu samræmi við málhefð.

Daglegar ónáðir

Í frétt á mbl.is í gær var sagt frá veikindum norsku krónprinsessunnar sem „glími nú við daglegar ónáðir af völdum sjúkdómsins“ eins og það var orðað. Í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var fólk að velta þessu orðalagi fyrir sér og mörgum fannst fremur eiga að tala um daglegt ónæði, enda er orðið ónáð yfirleitt ekki haft í fleirtölu í nútímamáli og aðeins eintalan gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'það að vera ekki velkominn, vanþóknun' með samböndunum falla í ónáð og vera í ónáð og augljóst að sú merking á ekki við í umræddu dæmi. Það þýðir samt ekki að fleirtalan ónáðir, eins og hún var notuð, hljóti að vera röng eða byggð á misskilningi – svo er ekki þegar betur er að gáð.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 kemur nefnilega fram að fleirtalan ónáðir merki 'órói', 'trafali', 'óþægindi'. Í fornu máli er orðið algengt í þessari merkingu og langoftast notað í fleirtölu. Fjölmörg dæmi eru um þessa merkingu í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, bæði í eintölu og fleirtölu. Á seinni öldum kemur þessi merking oftast fram í sambandinu gera e-m ónáð (ónáðir) sem er gefið í Íslenskri orðabók. Þetta kemur einstöku sinnum fyrir í textum á tímarit.is fram á fjórða áratug síðustu aldar en hverfur þá með öllu nema í textum úr eldra máli. Yngsta dæmi sem ég hef fundið úr samtímamáli er í stjörnuspá í Samvinnunni 1960: „Hætta er á að keppinautur yðar í viðskipta- eða ástamálum reyni að gera yður ónáðir.“

Hér hefur margsinnis verið fjallað um orð sem áður voru aðallega eða eingöngu notuð í eintölu en nú er farið að nota í fleirtölu, ýmsum til ama. Undantekningarlítið stafar þessi breyting þá af því að merkingin hefur víkkað eða hliðrast eitthvað til, og í nýju merkingunni er eðlilegt að nota orðið í fleirtölu sem ekki var áður. Þetta dæmi er í raun alveg sama eðlis, nema hvað fleirtalan og fleirtölumerkingin er ekki ný, heldur er verið að endurvekja gamla notkun sem var alveg horfin úr málinu og kemur flestum nútíma málnotendum ókunnuglega fyrir sjónir. Það er vitaskuld lofsvert að endurvekja orð og málnotkun sem hefur fallið í gleymsku, þótt vissulega þurfi að gæta þess að textinn verði ekki óskiljanlegur við það. Það varð hann ekki í þessu tilviki.

Hvað er kennitalan? Hvað er síminn? Hvað er málið?

Nýlega var spurningin hvað er kennitalan? hér til umræðu. Mörgum fannst að frekar ætti að segja hver er kennitalan? og það er í sjálfu sér eðlilegt – nafnorðið kennitala er kvenkyns og því mætti búast við að um kennitöluna væri spurt með kvenkynsmyndinni hver frekar en spurnarmyndinni hvað sem er hvorugkyns. Samt sem áður er ljóst að spurningar á við hvað er kennitalan? eru ekki einsdæmi í seinni tíð. Aðeins eitt dæmi er þó að finna á tímarit.is, úr Morgunblaðinu 2015, en dæmin um hver er kennitalan? eru svo sem ekki nema sjö. Í Risamálheildinni eru hlutföllin önnur – þar eru tíu dæmi um hvað er kennitalan? en 21 um hver er kennitalan?. Í báðum tilvikum eru nær öll dæmin af samfélagsmiðlum.

En ýmis fleiri dæmi, jafnvel gömul, má finna um að spurnarmyndin hvað sé notuð þar sem búast mætti við annarri mynd spurnarfornafnsins. Í Fálkanum 1933 segir: „Hvað er númerið hennar?“. Í Morgunblaðinu 1941 segir: „Hvað er símanúmerið.“ Í Vikunni 1956 segir: „Hvað er heimilisfangið?“ Í Helgarpóstinum 1986 segir: „Hvað er málið?“ Allt er þetta þó frekar sjaldgæft nema það síðastnefnda sem hefur orðið gífurlega algengt á þessari öld. Vissulega eru orðin númer, símanúmer, heimilisfang og mál öll hvorugkyns eins og spurnarmyndin hvað, en hins vegar er venjulega kennt að sú mynd sé aðeins notuð sérstæð en þegar spurnarorðið á við nafnorð sé notuð myndin hverthvert er númerið?, hvert er heimilisfangið?, hvert er málið?.

Þótt kynið sé hið sama eru setningar þar sem hvað stendur með hvorugkynsorði því í raun frávik frá hefðbundinni notkun spurnarorðsins, rétt eins og hvað er kennitalan?. En málnotendur virðast ekki kippa sér eins upp við slíkar setningar þótt stundum séu gerðar athugasemdir við þær – „Rétt er að segja hvert er málið“ segir t.d. á Bland.is 2005, og „Þótt enginn segi það er málfræðilega réttara að segja „hvert er málið?““ segir á Hugi.is 2010. En fleiri dæmi eru um að hvað sé notað með nafnorði af öðru kyni en hvorugkyni, t.d. karlkynsorðinu sími – „Hvað er síminn?“ segir í Alþýðublaðinu 1959. Í Vísi 1979 segir: „Hvað er síminn á afgreiðslu Vísis?“ Alls eru um 150 dæmi um hvað er síminn? í Risamálheildinni en aðeins 13 um hver er síminn?.

Það má færa rök að því að myndin hvað sé að þróast í þá átt að verða hlutlaust og óbeygjanlegt spurnarorð, eins konar ígildi spurningarmerkis eða spurnarhreims. Þetta er rétt eins og við segjum Kennitala? Heimilisfang? Sími? – við erum ekki að spyrja um eðli þessara fyrirbæra, heldur biðja um tilteknar upplýsingar. Svipuð þróun er ekki einsdæmi. Spurnarfornafnið hvaða er eingöngu notað hliðstætt með nafnorði og er eins í öllum kynjum og föllum og báðum tölum – hvaða kennitölu / heimilisfang / síma hefur þú?. Orðið er ekki til í fornu máli en kemur fyrst fyrir á 16. öld og er talið hafa orðið til úr hvað að (áður hvat at) – hvað að manni > hvaða maður. Mér finnst eðlilegt að segja hvað er kennitalan? og sé ekkert að þessari þróun.

Spurt hef ég tíu miljón manns

Hér var í gær vakin athygli á fyrirsögninni „Eftirvænting vegna 300 milljón króna yfirhalningar gamla félagsheimilisins“ á vef Ríkisútvarpsins og spurt hvort milljón væri „að frjósa í hel af beygingarleysi og afkynjun“. Í Málvöndunarþættinum var nýlega vakin athygli á auglýsingu þar sem segir: „Markmið verkefnisins er að setja niður eina milljón plöntur á næstu árum.“ Þarna kæmi vissulega til greina að láta milljón stýra eignarfalli og segja „eina milljón plantna“ og það væri í samræmi við það sem mælt er með í Málfarsbankanum: „Orðið milljón ætti fremur að beygja en láta óbeygt. Ft. milljónir. Tíu milljónir króna (ekki: „tíu milljón krónur“). Um er að ræða þriggja milljóna króna tap. Innflutningurinn nemur fjórum milljónum. […]

Þetta er samt ekki alveg einfalt. Eins og orðin hundrað og þúsund er milljón flokkað bæði sem töluorð og nafnorð í orðabókum. Þegar nafnorð tekur með sér annað nafnorð er það síðarnefnda venjulega í eignarfalli, en ef töluorð tekur með sér nafnorð stendur það venjulega í sama falli og töluorðið. Við segjum tíu menn en ekki *tíu manna af því að tíu er eingöngu töluorð, ekki nafnorð; en hins vegar tugur manna (eða tugur manns), ekki *tugur menn af því að tugur er eingöngu nafnorð, ekki töluorð. Vegna þess að hundrað og þúsund geta verið bæði töluorð og nafnorð má því búast við að bæði sé hægt að segja eitt hundrað (to.) menn og eitt hundrað (no.) manna, eitt þúsund (to.) menn og eitt þúsund (no.) manna – og það er einmitt hægt.

Þess vegna ætti líka að vera hægt að segja bæði setja niður eina milljón (to.) plöntur og setja niður eina milljón (no.) plantna – og það er hægt. Þótt Málfarsbankinn mæli með því síðarnefnda er það ekki spurning um rétt og rangt, enda sagt „ætti fremur að beygja en láta óbeygt“ (feitletrun mín). Þarna er í raun og veru verið að segja að fremur eigi að nota milljón sem nafnorð en sem töluorð og það er vitanlega spurning um smekk og venju. En ef töluorðinu á undan milljón er sleppt er óeðlilegt að nota orðið sem nafnorð – setja niður milljón plantna hljómar mun óeðlilegar en setja niður milljón plöntur. Sé milljón hins vegar fall- og tölubeygt er það nafnorð og verður að taka eignarfall – milljónir plantna, ekki *milljónir plöntur.

Því fer fjarri að það sé einhver nýjung að nota milljón sem töluorð og sleppa því að beygja það í föllum og tölum. Í Lögfræðingi 1899 segir: „Ríkið veitir stofnuninni 5 miljón krónur sem stofnfje.“ Í Eldingu 1900 segir: „200 miljón franka ríkislán þykjast Frakkar þurfa að taka nú.“ Í Þjóðviljanum 1910 er talað um „tveggja milljón franka skuld konungs“. Í Gjallarhorni 1912 segir: „Mundu þá sparast ríflega 300 miljón krónur.“ Í Dagsbrún 1915 segir: „Umsetningin óx frá 1903 úr 157 milljón krónur í 450 milljón krónur 1911.“ Í Lögréttu 1924 segir: „En þar vill stjórnin spara 7 milljón pund.“ Og árið 1935 orti Halldór Laxness í orðastað Bjarts í Sumarhúsum: „Spurt hef ég tíu miljón manns / sé myrtir í spaugi utanlands.“

Það er líka fráleitt að tengja beygingarleysi orðsins milljón eitthvað við „afkynjun“ sem er gildishlaðið orð og notað til að lýsa breytingum í átt til kynhlutleysis þar sem hvorugkyn er notað sem hlutlaust (ómarkað) kyn í stað karlkyns – reyndar er afkynjun rangnefni því að hvorugkyn er vitanlega fullgilt kyn. Hér verður að gera skýran mun á kynbeygingu annars vegar og beygingu í tölum og föllum hins vegar – orðið milljón tekur með sér ákvæðisorð (töluorð eða fornafn) í kvenkyni hvort sem það beygist í tölum og föllum eða ekki. Ekkert bendir til þess að nokkur breyting sé að verða á kyni orðsins – það er ævinlega kvenkyns eins og það hefur verið. Engin dæmi eru um að sagt sé *eitt milljón króna, *tvö milljón(ir) króna eða neitt slíkt.

Vörum okkur á órökstuddum kreddum

Á langri ævi hefur síast inn í mig mikill fjöldi boðorða og reglna um hvað sé talið rétt og vandað mál. Sumt af þessu lærði ég í skóla, annað hef ég lesið, og enn annað hef ég heyrt frá einhverjum sem töldu sig þess umkomin að hafa vit fyrir öðrum. Lengi vel fór ég umhugsunar- og athugasemdalaust eftir þessum boðum, jafnvel löngu eftir að ég hvarf frá strangri málvöndunarstefnu. En í seinni tíð hef ég farið að skoða margt af þessu með gagnrýnum augum og þá kemst ég að því að margt af því er löngu úrelt, annað byggt á hæpnum forsendum, og enn annað átti sér aldrei neina stoð og virðist vera byggt á einhverjum misskilningi eða kreddum einstakra málvanda. Um margt af þessu hef ég skrifað á þessum vettvangi.

Um helgina var ég að lesa bók þar sem mikið var vitnað í blöð frá fyrstu áratugum tuttugustu aldar. Þar sá ég talað um „fjölda þjóðerna“ og kipptist aðeins við vegna þess að mig rámaði í að þjóðerni væri eitt þeirra orða sem ég hefði einhvern tíma lært að ætti ekki að nota í fleirtölu. Þetta staðfestist þegar ég fletti upp í Málfarsbankanum þar sem segir: „Mælt er með því að að nota orðið þjóðerni sem sjaldnast í fleirtölu. Stundum verður þó ekki komist hjá því eins og í setningunni: 55 manns af 15 þjóðernum.“ Þetta er nokkuð sérkennileg framsetning og slegið úr og í – ekkert kemur fram um ástæður þess að æskilegt sé að forðast fleirtöluna af þjóðerni, en svo tekið fram að stundum sé óhjákvæmilegt að nota hana – og þá væntanlega ekki rangt.

Líklega má rekja þetta til molanna „Gætum tungunnar“ sem svonefnd „Áhugasamtök um íslenskt mál“, sem Helgi Hálfdanarson stóð á bak við, birtu í dagblöðum á árunum 1982-1983. Í einum slíkum mola sem birtist í Morgunblaðinu 1983 segir: „Sagt var: Þar búa menn af ýmsum þjóðernum. Rétt væri: … menn af ýmsu þjóðerni.“ Engin rök eru færð fyrir þessu, fremur en flestu öðru í umræddum molum. En þegar molunum var safnað saman í kverið Gætum tungunnar árið 1984 hafði orðalaginu verið breytt – þar segir ekki lengur „Rétt væri“ heldur „Sumir segja fremur“. Það er vitanlega grundvallarbreyting – þar með er þetta ekki lengur spurning um „rétt“ eða „rangt“, heldur um smekk og ekkert við það að athuga.

Elstu dæmi um orðið þjóðerni á tímarit.is og í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans eru frá því á fyrri hluta 19. aldar og elstu dæmi um fleirtölumyndir þess litlu yngri. Í Skírni 1842 segir: „En er Noregur aptur komst undan Dönum 1814 og varð ríki útaf fyrir sig, hlutu þjóðernin aptur að taka til að aðskiljast“. Í Skírni 1865 segir: „Þar sem eitt fylki deilist milli þjóðerna, bryddir jafnan á áskilnaði í flestum málum.“ Í Gefn 1871 segir: „lög og landsdeiling raska ekki þjóðernunum.“ Í Tímariti hins íslenzka bókmentafélags 1880 segir: „þar er áþekkur munur og á þjóðernum sömu kynkvíslar.“ Í Skírni 1885 segir: „Hinir vilja efla sjerveldið, eð[a] sjálfsforræði landanna og með því löghelga jafnrjetti allra þjóðernanna.“

Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er þjóðerni gefið athugasemdalaust bæði í eintölu og fleirtölu, og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er fleirtalan einnig gefin athugasemdalaust. Í Íslenskri orðabók er orðið aftur á móti eingöngu gefið í eintölu. Það er því að sjá að einhvern tíma um miðja tuttugustu öld hafi orðið til sú kredda að þetta orð væri „ekki til í fleirtölu“. Ég hef hvergi fundið neinn rökstuðning fyrir þeirri kreddu og átta mig ekki á því á hverju hún byggist. En þetta er eitt af mörgum dæmum um það sem ég nefndi í upphafi – kredda sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum kemst á flot og hver éta síðan upp eftir öðrum, og verður að boðorði um hvað sé „rétt“ og hvað „rangt“.

Þú átt tvö skilaboð

Fyrr í dag var hér spurt hvort orðið skilríki væri til í eintölu og vísað í skilaboð frá Þjóðskrá: „Það er okkur sönn ánægja að segja þér að þú getur sótt skilríkið þitt“. Eins og ég hef skrifað um er skilríki ekki síður notað í eintölu en fleirtölu í eldra máli þótt merkingin sé eilítið önnur, en þótt orðið hafi yfirleitt eingöngu verið haft í fleirtölu í seinni tíð er eintölunotkunin aftur orðin algeng og engin ástæða til að amast við henni. En í umræðum um þetta var spurt hvort einhver dæmi væru um að orðið skilaboð væri notað í eintölu – eins og skilríki er það yfirleitt eingöngu gefið upp í fleirtölu í orðabókum og eingöngu fleirtölubeyging er sýnd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þetta er þó að breytast, a.m.k. í óformlegu málsniði.

Örfá gömul dæmi má finna um að skilaboð sé notað í eintölu. Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Samt sem áður gafst honum færi á því að senda tvö skilaboð.“ Í Vísi 1925 segir: „Hver ert þú, og hvaða sönnun hefirðu fyrir því, að trúa megi skilaboði þínu?“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Þessu skilaboði er hjer með komið á framfæri.“ Í Lindinni 1943 segir: „ég hélt, að Guð sjálfur hefði sett þetta skilaboð þarna.“ Í Friðarboðinn og vinarkveðjur 1943 segir: „á miðilsfundi […] kom fram spíritisti og bað til skilaboðs til Jóh. Kr. Jóhannessonar.“ Í Vikunni 1944 segir: „Það getur auðvitað verið, að Ralph Paton, hafi sent skilaboðið.“ Í Vísi 1949 segir: „„Guði sé lof,“ sagði hann í einu skilaboðinu.“ Í Alþýðublaðinu 1959 segir: „Það eru þrjú skilaboð til þín.“

Þetta virðist hafa farið að breytast með tilkomu símboða og síðar talhólfa, smáskilaboða og annarrar nýrrar samskiptatækni. Í „Reglugerð um boðtæki fyrir hið almenna boðkerfi Póst- og símamálastofnunar“ sem Samgönguráðuneytið gaf út 1989 segir: „Í talnaboðtækinu á að vera hægt að geyma a.m.k. tvö skilaboð t.d. tvö skilaboð 12 tákna löng.“ Í Degi 2000 segir: „Þá notum við SMS skilaboðið eða talhólfið til að koma á milli skilaboðum um hvern eigi að sækja hvert, hvenær.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Fyrir Frelsis-viðskiptavini kostar 15 krónur að senda SMS en fyrstu þrjú skilaboð dagsins eru ókeypis.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þá kostar 10 krónur að senda SMS-skilaboð en að taka við SMS-skilaboði kostar ekkert.“

Í pistlum Eiðs Guðnasonar, Molar um málfar og miðla, birtist árið 2014 bréf frá Birni Jóni Bragasyni þar sem hann gerði athugasemdir við breytingu sem hefði orðið á talhólfi Símans. Þar hefði áður verið sagt þú átt ein talskilaboð, tvenn talskilaboð, þrenn talskilaboð, fern talskilaboð o.s.frv., en þessu hefði þá nýlega verið breytt í þú átt ein skilaboð, tvö skilaboð, þrjú skilaboð, fjögur skilaboð. Björn Jón sagði síðan: „Mér þykir þessi breyting með hreinum ólíkindum. Hjá fyrirtækinu virðast menn hafa skilið áður að orðið skilaboð er fleirtöluorð og ekki hægt að tala um ,,eitt skilaboð“, svo dæmi sé tekið, en einhverra hluta vegna ákveðið að breyta þessu.“ Eiður kvaðst vona að Síminn sæi sóma sinn í að breyta þessu til fyrra horfs.

Notkun eintölunnar virðist þó hafa farið mjög vaxandi á síðustu tíu árum en það er athyglisvert að fleirtalan virðist mun frekar notuð með tölunni einn en öðrum beygjanlegum töluorðum, rétt eins og í áðurnefndu dæmi frá Símanum. Þannig eru í Risamálheildinni 223 dæmi um ein skilaboð en 49 um eitt skilaboð, en á hinn bóginn 66 dæmi um tvenn skilaboð en 49 um tvö skilaboð, 24 um þrenn skilaboð en 21 um þrjú skilaboð, og 10 um fern skilaboð en 15 um fjögur skilaboð. Meginhluti dæmanna er af samfélagsmiðlum og það er því ljóst að eintalan skilaboð skilaboði skilaboðs er orðin mjög algeng í óformlegu máli. Engin ástæða er til að amast við henni – þetta er orð sem merkingarlegar forsendur eru fyrir að nota bæði í eintölu og fleirtölu.

Þorkeli eða Þorkatli?

Um daginn var hér spurt hvort fólk kysi fremur að nota myndina Þorkeli eða Þorkatli sem þágufall af karlmannsnafninu Þorkell. Fyrirspyrjandi sagðist vita að hvort tveggja væri talið rétt en vildi forvitnast um smekk fólks og tilfinningu fyrir þessu. Svörin voru á ýmsa vegu – mörgum fannst Þorkatli „sannarlega fallegra“ og „svipmeira“ en öðrum fannst það „svolítið tilgerðarlegt“, „nokkuð hátíðlegt“, „pínulítið snobbað“, „eitthvað hallærislegt“ og jafnvel „hljóma beinlínis undarlega“. En sumum fannst Þorkeli „hafa barnalegri hljóm“ og jafnvel „innst inni eitthvað rangt“. Bent var á að í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru báðar myndirnar gefnar og ekki gert upp á milli þeirra enda báðar algengar í málinu.

Seinni liður nafnsins, sem einnig kemur fyrir í nöfnunum Arnkell, Áskell, Hrafnkell og fleiri, er kominn af nafnorðinu ketill – það er ekkert óeðlilegt að sérhljóð falli brott í áherslulausu atkvæði og -ketill verði -kell í samsetningum. Í nafninu Ketill einu og sér ber seinna atkvæðið aftur á móti meiri áherslu og því fellur i ekki brott þar. Frumhljóð stofnsins er a sem breytist í e með i-hljóðvarpi (katil- > ketil-) nema í þágufallinu -katli þar sem i fellur brott eftir almennum reglum málsins vegna þess að beygingarendingin hefst á sérhljóði, sbr. depil+i > depli, jökul+i > jökli, hamar+i > hamri o.s.frv. Þess vegna fáum við í fornu máli beyginguna Þorkell (< Þorketill) – Þorkel (< Þorketil) – Þorkatli Þorkels (< Þorketils).

Í orðum með svipuðum víxlum er aftur á móti rík tilhneiging til að samræma stofnmyndir og útrýma óreglu. Orðið lykill beygðist t.d. lykil lykil lukli lykils og í fleirtölu luklar lukla luklum lukla vegna þess að i féll brott úr viðskeytinu -il- á undan sérhljóðsendingu (lukil+i > lukli í þágufalli eintölu) og i-hljóðvarpið u > y varð því ekki þar. En þegar í fornu mál er y oft haldið í allri beygingunni og lykli haft í stað lukli í þágufalli eintölu og lyklar í stað luklar í nefnifalli fleirtölu. Venjuleg þágufallsmynd mannsnafnsins Egill var líka Egli fram á tuttugustu öld en var útrýmt – í Islandsk Grammatik frá 1922 segir Valtýr Guðmundsson að Egill beygist „i Skriftsprog undertiden“ eins og Ketill – þ.e., þágufallið Agli sé stundum notað í ritmáli.

Það er því engin furða að tilhneiging hafi verið til að gera beygingu nafna eins og Þorkell reglulega og losna við hina óreglulegu mynd Þorkatli. Það er engin nýjung – í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld segir Björn Karel Þórólfsson: „Frá því um 1300 fer þágufall á keli að verða algengt […] og er í Möðruvallabók miklu algengara en gamla myndin […]“ – en Möðruvallabók er talin skrifuð um miðja 14. öld. Samkvæmt tímarit.is eru þágufallsmyndir með -keli mun algengari en myndir með -katli af öllum þeim nöfnum sem um er að ræða – síðarnefndu myndirnar virðast raunar hafa verið mjög sjaldgæfar fram um 1930 en aukin tíðni þeirra eftir það stafar sennilega af (misskilinni) málvöndun og fyrnsku.

Allar góðar vættir

Nýlega var hér umræða um kyn nafnorðsins vættur. Orðið er upphaflega kvenkynsorð og beygist þá vættur vætti vætti vættar í eintölu og vættir vættir vættum vætta í fleirtölu. En vegna þess að það hefur hina venjulegu nefnifallsendingu karlkynsorða -ur, sem mjög fá kvenkynsorð hafa, hefur lengi verið rík tilhneiging til að hafa það í karlkyni og má finna þess dæmi þegar í fornmáli. Þá er beygingin vættur vætt vætti vættar í eintölu og vættir vætti vættum vætta í fleirtölu. Beygingin fellur því saman í öllum föllum nema þolfalli eintölu og fleirtölu, og oft verður því að ráða kynið af meðfylgjandi lýsingarorði eða fornafni. En ef orðið er með greini er samfall aðeins í þágufalli og eignarfalli fleirtölu – vættunum og vættanna.

Með því að gefa orðinu karlkyn er leitast við að laga það að málkerfinu þar sem -ur er dæmigerð karlkynsending eins og áður segir, en einnig eru dæmi um að orðið sé lagað að venjulegri beygingu kvenkynsorða með því að klippa endinguna af og hafa nefnifallið vætt. En karlkynið hefur lengi verið svo algengt að það hefur öðlast viðurkenningu í formlegu máli – „Upphaflega var nafnorðið vættur kvenkynsorð en tíðkast nú ekki síður í karlkyni“ segir Málfarsbankinn. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið gefið sem kvenkynsorð en „pop.“ sem karlkynsorð, þ.e. í talmáli. Í bók Valtýs Guðmundssonar, Islandsk Grammatik frá 1922, er orðið gefið sem karlkynsorð en bætt við innan sviga: „ogsaa Huk.“, þ.e. „einnig kvenkynsorð“.

Ýmsar samsetningar eru til með -vættur sem seinni lið, þær helstu bjargvættur, hollvættur, landvættur, óvættur og verndarvættur. Um þær flestar eða allar gildir hið sama, að þær koma fyrir bæði í kvenkyni og karlkyni, en hins vegar er misjafnt hvort kynið er algengara. Orðin hollvættur, landvættur og verndarvættur eru algeng í báðum kynjum og ekki hægt að skera úr um hvort sé algengara. Í fornu máli er óvættur mun algengara í karlkyni en kvenkyni og svo er líklega enn þótt erfitt sé að fullyrða um það. En bjargvættur sker sig nokkuð úr – það er margfalt algengara í karlkyni en kvenkyni. Á tímarit.is eru t.d. 13 dæmi um kvenkynsmyndina bjargvættirnar í nefnifalli fleirtölu, en 625 um karlkynsmyndina bjargvættirnir.

Skýringarinnar er líklega að leita í mismunandi merkingartilbrigðum. Í Íslensk-danskri orðabók er kvenkynsmyndin skýrð 'hjælpende Aand, hjælpsomt Væsen, Skytsaand' ('verndarandi' í Íslenskri orðabók) en karlkynsmyndin sem merkt er „pop.“ er skýrð 'Hjælper, Understøtter, Befrier, Redningsmand' ('hjálparhella, hjálparmaður' í Íslenskri orðabók). Í flestum samsetningum er vættur sem sé einhver yfirskilvitlega vera en það gildir ekki um algengustu notkun orðsins bjargvættur. Svo má velta því fyrir sér hvers vegna karlkynið sé yfirgnæfandi í merkingunni 'hjálparhella, hjálparmaður' – er það vegna þess að dæmigerðu bjargvættur í huga fólks sé karlmaður? Um það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða.