Ritháttur sagnar sem merkir 'fylla upp í göt og misfellur í veggjum með sérstöku fylliefni' og samsvarandi nafnorðs sem merkir 'efni sem notað er sem fylling í göt og misfellur áður en málað er eða lakkað' hefur verið nokkuð á reiki. Í Málfarsbankanum segir: „Rita skal sparsl og sparsla í samræmi við þann framburð sem hér tíðkast (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar).“ Sú ályktun er frá 1984 en fram að því hafði rithátturinn spartl og spartla verið notaður í Íslenskri orðabók sem var á þeim tíma – og lengi síðar – ígildi stafsetningarorðabókar. Íslensk málnefnd benti hins vegar á að sá ritháttur samræmdist ekki framburði fagmanna og hefur væntanlega talið að sparsl og sparsla gerði það betur, þótt rithátturinn spasl sé einnig nefndur í ályktuninni.
Myndir með -rtl- virðast vera eldri, enda liggur að baki danska sögnin spartle sem er leidd af nafnorðinu spartel sem merkir 'kíttisspaði' eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók. Elsta dæmi um spartl er í auglýsingu í Bæjarskrá Reykjavíkur 1929: „Penslar, sandpappír, spartl og fleiri slíkar vörur.“ Í auglýsingu í Tímanum 1930 segir: „Allskonar áhöld fyrir málningariðn, t.d. Penslar. Spartlar. Sandpappír. Kork.“ Þarna er spartlar greinilega í sömu merkingu og spartel í dönsku, þ.e. 'kíttisspaði', en það virðist einsdæmi – orðið spartlspaði kemur fyrir sama ár og oft síðar í þessari merkingu. Sögnin spartla kemur fyrst fyrir í Speglinum 1935: „þó er rjettara að nota zinkhvítu en blýhvítu, og spartla hana nokkurnveginn jafnt yfir allt andlitið.“
Myndir með -rsl- virðast vera tíu til fimmtán árum yngri. Nafnorðsmyndin sparsl kemur fyrst fyrir í auglýsingu í Frjálsri verslun 1944: „Lökk, þynnir, undirmálning, sparsl, slípimassi, sandpappír o.fl.“ Elsta dæmi um sagnmyndina sparsla er í Þjóðviljanum 1945: „þar sem hann var að sparsla skápinn sinn.“ Síðan hafa þessar myndir verið notaðar nokkuð jöfnum höndum og verður ekki séð að dregið hafi úr tíðni mynda með -rtl- við ályktun Íslenskrar málnefndar. Þetta virðist þó vera að breytast – í Risamálheildinni eru myndir með -rsl- nærri þrisvar sinnum algengari en myndir með -rtl-. En þriðja ritmyndin, sem reyndar er nefnd í ályktun Íslenskrar málnefndar eins og áður segir, er aðeins með -sl- en hvorki t né s – spasl og spasla.
Dæmi um þessar myndir á tímarit.is eru ekki ýkja mörg, en í Risamálheildinni eru þær rúmlega hálfdrættingur á við -rtl-myndir – flest dæmin af samfélagsmiðlum. Nafnorðsmyndin spasl kemur fyrst fyrir í Morgunblaðinu 1953: „Bifreiðalökk, grunnur, spasl og þynnir nýkomið.“ Sagnmyndin spasla sést fyrst í Alþýðublaðinu 1961: „Hann gat lagfært dyrnar, […] kíttað og spaslað þannig að allt var til þegar mér þóknaðist að byrja með pensilinn.“ Það eru líka dæmi um að -rtl- og -rsl- sé blandað saman – „Dömureiðhjól og bílaspartsl til sölu“ segir í Morgunblaðinu 1948; „þótt spartslað sé og málað yfir sprungur innanhúss, koma þær í ljós aftur, er frá líður“ segir í Alþýðublaðinu 1953. Stöku sinnum voru orðin rituð sparzl og sparzla.
Annað tökuorð þar sem klasinn -rtl- er upprunalegur er sporsla sem skýrt er 'smáaukastarf, bitlingur' í Íslenskri nútímamálsorðabók og langoftast haft í fleirtölu, sporslur. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er það tökuorð úr sportel í dönsku sem hefur sömu merkingu, og er einnig til í myndinni sportla/sportlur. Sú mynd virðist alltaf hafa verið sjaldgæf og er líklega horfin úr málinu en örfá dæmi eru á tímarit.is, það elsta úr bréfi Matthíasar Jochumssonar frá 1888 í Skírni 1972: „hefði jeg ekki drjúga kennslu og nokkrar fleiri sportlur væri ekki heldur hér við vært.“ Öll dæmin um þessa mynd eru gömul nema þrjú dæmi úr Helgarpóstinum 1995, m.a.: „Er menntamálaráðherra kannske á sportlum hjá Ríkisútvarpinu án þess að nokkur viti af því?“
Myndin sporslur er yngri, elsta dæmi í Freyju 1907: „Hann segir það sé fyrir sig að betla fyrir eldivið og aðrar smá sporslur handa kyrkjunni.“ Sú mynd er mjög algeng, en orðið var þó merkt með spurningarmerki sem „vont mál“ í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar. Eins og við er að búast er myndin sposlur einnig til og nokkuð algeng, elsta dæmi í Stormi 1930: „Hinsvegar munu fleiri en áður hafa sposlur góðar.“ Myndinni sportslur bregður einnig fyrir, og nokkur dæmi eru um sporzlur, það elsta í Heimskringlu 1914: „En svo eru einhverjar smá sporzlur, sem Ameerinn verður að leggja til rússnesku lögreglunnar.“ Það eru því öll sömu tilbrigði í orðinu sporsla og í orðunum sparsl og sparsla, og í báðum tilvikum virðist þróunin líka vera hin sama.
Elstu dæmin eru með -rtl- eins og dönsku fyrirmyndirnar, -rsl- kemur nokkru síðar, þar á eftir -rtsl- (og -rzl-), og að lokum -sl-. Á breytingunni úr -rtl- í -rsl- hlýtur að vera einhver hljóðfræðileg skýring sem ég átta mig ekki alveg á, þótt vissulega sé ekki ýkja langt á milli þessara klasa í framburði. Myndir með -rtsl- skýrast líklega af blöndun hinna tveggja, og myndir með -sl- eru eðlileg einföldun klasans -rsl- – brottfall r eða samlögun þess við s. Sams konar einföldun þessa klasa verður oft í ýmsum öðrum orðum, eins og versla, ærslast o.fl. Ritháttur með -rtl- samsvarar ekki venjulegum framburði orðanna en vegna þess að r helst oft í þeim er er eðlilegt að rita þau með -rsl- eins og nú er mælt með, frekar en bara með -sl-.