Category: Málfar

„Vestlendinga uggir“

Í „Málvöndunarþættinum“ var umræða um fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í gær: „Vestlendinga uggir vegna veiðigjalda.“ Merkingarlega séð er ekkert athugavert við notkun sagnarinnar ugga þarna – ljóst er af fréttinni að hún er notuð í merkingunni 'óttast, vera hræddur um (e-ð)' sem er önnur aðalmerking hennar samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók. Sögnin ugga í þessari notkun hefur raunar lengi verið sjaldgæf eins og m.a. kemur fram í grein Halldórs Halldórssonar í Íslensku máli 1982 þar sem hann segir frá könnun á notkun frumlagsfalls meðal 19-20 ára nemenda árið 1981. „Þá virtust nokkuð margir aldrei hafa heyrt mig sundlaði og mig uggir, og sögnin ugga yfirleitt virtist líka heldur lítt kunnugt dæmi.“

Í þessari merkingu tekur ugga venjulega þolfallsfrumlag eins og hún gerir í fyrirsögn Morgunblaðsins, en þó er ekki hægt að segja að notkunin sé þar í fullu samræmi við málhefð. Í öllum notkunardæmum, í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók tekur hún nefnilega með sér skýringarsetningu, t.d mig uggir að illt muni hljótast af; hann uggði að hann yrði ekki langlífur. Ég sé ekki betur en þannig sé sögnin undantekningarlítið notuð, a.m.k. á síðari öldum – auk þolfallsfrumlagsins þarf hún að taka með sér annan röklið (fallorð eða fallsetningu). „Vestlendinga uggir“ er því hliðstætt við mig langar, mig vantar án upplýsinga um það hvað mig langar í eða hvað mig vantar.

Nú gætu einhver auðvitað sagt að það kæmi fram í framhaldinu „vegna veiðigjalda“ hvað veldur þessum ugg. Það er út af fyrir sig rétt að merkingin kemst til skila með því. En það er ekki nóg því að sagnir gera ekki bara merkingarlegar kröfur til þeirra liða sem standa með þeim, heldur einnig setningafræðilegar kröfur. Sumar sagnir taka ekkert andlag, t.d. ég sef, aðrar geta tekið andlag en þurfa þess ekki eins og ég les (bókina), enn aðrar verða að taka andlag eins og ég óttast veiðigjöldin – *ég óttast gengur ekki eitt og sér, ekki frekar en *mig uggir. Svo eru sagnir sem taka eða geta tekið tvö andlög, eins og ég gaf henni bókina. Sumar sagnir geta svo tekið fallsetningu (-setningu) sem andlag og ugga er ein af þeim sem verða að taka slíkt andlag.

Hins vegar hefur lýsingarháttur nútíðar af sögninni, uggandi, öðlast sjálfstætt líf sem lýsingarorð og er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem hann er skýrður 'kvíðafullur, sem býst við illu' – sem passar nákvæmlega í þessu tilviki. Það er auðvitað ekkert einsdæmi að lýsingarháttur nútíðar verði að sjálfstæðu lýsingarorði en ekki algengt að hann verði svo margfalt algengari en sögnin sem hann er leiddur af – rúm fimm þúsund dæmi eru um uggandi í Risamálheildinni. Það er líka sérkennilegt við lýsingarorðið að ólíkt sögninni getur það staðið án framhalds – Vestlendingar uggandi (vegna veiðigjalda) væri fullkomlega eðlileg setning. E.t.v. hefur það ruglað höfund áðurnefndrar fyrirsagnar í ríminu.

„Kyn orðsins kemur kyni viðkomandi bara ekkert við!“

„Kyn orðsins kemur kyni viðkomandi bara ekkert við!“ Þetta var fullyrt í „Málspjalli“ í gær og fjöldi fólks hefur tekið undir það. Svipaðar fullyrðingar sjást oft í umræðu um mál og kyn, þrátt fyrir að þetta sé svo augljóslega rangt að það ætti ekki að þurfa að ræða það. Vitanlega eru bæði sterk og náin tengsl á milli málfræðilegs kyns orða og kyns þess fólks sem orðin eru notuð um. Með því að halda því fram að málfræðilegt kyn komi kyni fólks „ekkert við“ er í raun verið að segja að það sé helber tilviljun að orð eins og karl, sveinn, piltur, strákur, hnokki, faðir, sonur, bróðir eru málfræðilega karlkyns en orð eins og kona, meyja, stúlka, stelpa, hnáta, móðir, dóttir, systir eru málfræðilega kvenkyns. Auðvitað dettur engum í hug að halda slíku fram.

Hitt er annað mál – sem er væntanlega það sem fólk á við þegar það afneitar tengslum málfræðilegs kyns og kyns fólks – að þessi tengsl eru hvorki einkvæm né algild. Oft eru dregin fram dæmi eins og orðið kvenmaður sem er málfræðilega karlkyns en vísar til konu, orðið fljóð sem vísar einnig til konu en er málfræðilega hvorugkyns, og fáein önnur. En þessi orð eru undantekningar. Aðalfrávikið frá tengslum málfræðilegs kyns við kyn fólks felst í kynhlutleysi karlkynsins – málfræðilegt karlkyn er mjög oft notað í vísun til annarra en karlmanna í fornöfnum, lýsingarorðum og töluorðum, og fjölmörg nafnorð sem hafa almenna vísun eru karlkyns. Þetta hefur margoft verið rakið hér og annars staðar og á sér sögulegar rætur.

Þetta eru staðreyndir sem eru óumdeilanlegar. Það sem er deilt um er hvort þessir yfirburðir hins málfræðilega karlkyns fram yfir önnur málfræðileg kyn skipti einhverju máli utan tungumálsins – hvort hinn óumdeilanlegi kynjahalli tungumálsins hafi einhver meðvituð eða ómeðvituð áhrif á málnotkun og viðhorf málnotenda, og hvort andóf gegn honum sé misskilin jafnréttisbarátta eða eigi sér raunverulegar rætur í tilfinningu fólks. Um þetta er erfitt að fullyrða nokkuð vegna þess að tilfinnanlegur skortur er á íslenskum rannsóknum á þessu sviði. Ýmsar erlendar rannsóknir eru vissulega til en málfræðilegt kynjakerfi íslenskunnar er sér á báti og þess vegna hæpið að yfirfæra erlendar rannsóknaniðurstöður á íslenskt málsamfélag.

Ég hef þó gert nokkrar athuganir (ofrausn væri að kalla það „rannsóknir“) á málnotkun í Risamálheildinni eins og ég hef rakið í nokkrum pistlum í „Málspjalli“. Þessar athuganir sýna ótvírætt að málnotendur nota síður karlkynsorð í vísun til kvenna en karla. Það er mun algengara að vísa til kvenna með kynbeygðu lýsingarorð að viðbættu kvenkyns nafnorði (bandaríska konan Hillary, danska sóknarkonan Pernille) en að vísa til karla á sambærilegan hátt. Ómögulegt er að túlka þetta öðruvísi en svo að í huga (margra) málnotenda eigi karlkyns starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti síður við konur en karla og (margt) fólk hafi þess vegna tilhneigingu til að nota aðra aðferð (lýsingarorð + kvenkynsnafnorð) í vísun til kvenna.

Textamagnið sem er undir í þessum athugunum er svo mikið og fjölbreytt að þessar niðurstöður sýna ótvírætt að sú (oft ómeðvitaða) tilfinning að karlkyns starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti tengist karlmönnum meira en konum er ekki bundin við fámennan hóp, heldur er útbreidd í málsamfélaginu og endurspeglast í málnotkun margra. Hitt er svo allt annað mál hvort þetta hafi einhver áhrif út fyrir tungumálið, og hvort ástæða sé til – eða yfirleitt mögulegt – að gera eitthvað í því að leiðrétta kynjahalla tungumálsins. Um það hefur fólk deilt og heldur sjálfsagt áfram að gera, en mikilvægt er að sú umræða sé byggð á staðreyndum en ekki misskilningi, eins og sú fullyrðing að kyn orða sé kyni fólksins sem þau vísa til alls óviðkomandi.

Hefð eða nauðung?

Nú hafa nokkrir þingmenn Viðreisnar lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á lögum um mannanöfn, þar sem m.a. er gert ráð fyrir almennri heimild til að bera ættarnafn en samkvæmt núgildandi lögum er sú heimild takmörkuð við ákveðna skilgreinda hópa fólks. Í frétt á Vísi í dag er því spáð að fólk myndi í stórhópum leggja niður föður- og móðurnöfn og taka upp ættarnöfn í staðinn ef slíkt yrði leyft. En ég sé í raun engar líkur til þess að svo færi. Stundum er vísað til þess að föðurnöfn hafi horfið í Danmörku og Noregi á stuttum tíma, en slíkar vísanir til ólíkra samfélaga á öðrum tímum hafa takmarkað gildi. Nútímaviðhorf í jafnréttismálum eru t.d. líkleg til að valda því að konur séu ófúsari en áður að taka upp ættarnafn eiginmannsins.

Hér má enn fremur benda á að vegna þess að Íslendingar hafa haldið þeim sið að kenna sig til föður (eða móður) er það ákveðið þjóðareinkenni sem vel má hugsa sér að margir vilji halda í þess vegna, en um slíkt var ekki að ræða í Danmörku og Noregi. Í Færeyjum hefur þróunin á undanförnum árum einmitt verið í þá átt að styrkja færeysk eftirnöfn eins og kom fram í frétt sem birtist nýlega á vef Ríkisútvarpsins: „Milli 2001 og 2015 fækkaði Færeyingum með hið danska -sen í eftirnafni sínu um 1.771. Á sama tíma fjölgaði fólki sem kenndi sig til foreldra sinna og er með annað hvort -son eða -dóttir í eftirnafninu sínu um tæplega fjórtán hundruð.“ Vel má hugsa sér að þróunin á Íslandi yrði sú að styrkja föður- og móðurnafnakerfið.

Í áðurnefndri frétt á Vísi er reglum um ættarnöfn líkt við umferðarlög: „Svo er þetta eins og umferðarlög. Við höfum hérna hægri umferð en það væri ekki gott að hafa bæði vinstri og hægri umferð.“ En þetta er sérlega óheppileg líking. Við höfum nefnilega bæði vinstri og hægri umferð nú þegar. Flest okkar eru skikkuð til að keyra hægra megin en svo er hópur fólks sem keyrir vinstra megin og má það – en mætti líka keyra hægra megin ef það vildi. Það skapar auðvitað margs konar vanda og óánægju sem á endanum vinnur gegn hefðinni. Ég tek heils hugar undir það að kenning til föður eða móður er menningarhefð sem æskilegt er að viðhalda. En hefðir eru lítils virði nema samfélagið þar sem þær gilda hafi áhuga á að halda í þær.

Hér vegur þó þyngst að núgildandi lög standast ekki með nokkru móti jafnræðiskröfur samtímans – og eru raunar að því er best verður séð brot á 65. grein stjórnarskrárinnar þar sem segir m.a. að allir „skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannrétt­inda án tillits til […] ætternis […]“. Það stenst því ekki að sumum sé leyft það sem öðrum leyfist ekki. Á þetta hefur oft verið bent, t.d. í athugasemdum nefndar sem samdi frumvarp að gildandi mannanafnalögum, og í athugasemdum Íslenskrar málnefndar við það frumvarp. Það er vitanlega ekki verið að „kasta [hefðinni] á glæ“ þótt reglur um upptöku ættarnafna verði rýmkaðar. Hefð sem þarf að viðhalda með lögum er ekki hefð – heldur nauðung.

Ensk áhrif eða ekki?

Það er enginn vafi á því að ensk áhrif á íslenska setningagerð hafa farið vaxandi á síðustu árum. Þessi áhrif eru oft mjög lúmsk vegna þess að orðin eru íslensk og notuð í hefðbundinni merkingu (þótt vissulega geti hún líka hnikast til) en eitthvað í því hvernig orðin standa í setningu er frábrugðið því sem venja er í íslensku. Munurinn er þó oft svo lítill að við tökum ekki eftir honum í máli annarra, enda erum við sjálf oft orðin gegnsósa í ensku. En í frétt á vefmiðli í morgun staldraði ég þó við setninguna „Trump hótar enn fleiri tollgjöldum skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum“ vegna þess að mér fannst notkun sagnmyndarinnar skyldi þarna einhvern veginn bera keim af enskri setningagerð – should Putin not.

Formlega séð virðist ekkert athugavert við þetta. Þarna er skilyrðissetning, „skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum“ sem er ekki tengd er við aðalsetninguna „Trump hótar enn fleiri tollgjöldum“ með hinni dæmigerðu skilyrðistengingu ef – einnig væri hægt að segja Trump hótar enn fleiri tollgjöldum ef Pútín heldur ekki áfram í vopnahlésviðræðum. En það er alkunna að skilyrðissetningar hafa þá sérstöðu meðal aukasetninga að hægt er að sleppa tengingunni en byrja aukasetninguna þess í stað á sögn í viðtengingarhætti – hægt er að segja bæði ég verð glaður ef hún getur hjálpað mér og ég verð glaður geti hún hjálpað mér. Er þá ekki skilyrðissetningin skyldi Pútín ekki halda áfram í vopnahlésviðræðum í góðu lagi?

Ég hef samt á tilfinningunni að ekki sé venja í íslensku að nota sögnina skulu alveg svona, en vissulega er þetta ekki einsdæmi og ég finn slæðing af svipuðum setningum frá síðustu árum, svo sem „hindra að Bush forseti grípi til þess að ákveða að ráðast á Íran, skyldi hann vilja gera það“ í Fréttablaðinu 2007 „Ég skal taka það á mig að láta Carlsen vita að Íslendingar taka óþekkum skákmönnum opnum örmum skyldi hann vilja ísl. ríkisfang“ á Twitter 2015, „Það verður áhugavert að fylgjast með samskiptum Suarez og varnarmanna Juventus skyldu liðin mætast í úrslitum“ á fótbolti.net 2015, „Endurnýjun á miðju United gæti gert Skotanum kleift að yfirgefa herbúðir félagsins, skyldi hann vilja það“ í mbl.is 2023, og nokkrar fleiri.

En svo er þetta kannski ekkert nýtt. Í leikritinu „Gizurr Þorvaldsson“ eftir séra Eggert Ó. Briem, sem birtist í Draupni 1895, segir t.d.: „En skyldi hann vilja heyra tillögur mínar um það mál í dag, mun eg mæla svo, sem mér þá þykir sannlegast.“ Þarna er skyldi notað í upphafi skilyrðissetningar eins og í dæmunum að framan. Vegna þess að við vitum af vaxandi enskum áhrifum má alltaf búast við því að við þykjumst sjá slík áhrif víðar en þau eru í raun – höldum að eitthvað sem svipar til ensku hljóti að vera komið þaðan þótt það hafi lengi tíðkast í málinu. Það má ekki gleyma því að íslenska og enska eru skyld mál. Mér finnst samt enn að setningin sem vitnað var til í upphafi sé eitthvað enskulegri en aðrar – en átta mig ekki alveg á muninum.

En ef það kæmi nú í ljós við nánari athugun að þarna væri um ensk áhrif að ræða – hvaða áhrif hefði það á mat okkar á slíkum setningum og viðhorf til þeirra? Það er ljóst að um smávægilega breytingu væri að ræða sem tekur bara til einnar sagnar, skulu, og hefur ekki áhrif á kerfið í heild. Ótal sambærilegar breytingar hafa orðið á málinu á undanförnum áratugum og öldum án þess að við sjáum ástæðu til að amast við þeim – og oftast reyndar án þess að við gerum okkur grein fyrir þeim. Þótt við viljum vitanlega halda í íslenska setningagerð sé ég því enga ástæðu til að ergja sig sérstaklega á þessari breytingu – ef þetta er breyting. Hins vegar er sjálfsagt að vera á varðbergi gagnvart enskum áhrifum sem gera sig líkleg til að hafa áhrif á málkerfið.

Brottfararúrræði – brottvísunarbúðir

Fyrir rúmu ári skrifaði ég um sambandið lokað búsetuúrræði sem fyrst kom fyrir í frumvarpi um breytingu á útlendingalögum sem þáverandi dómsmálaráðherra lagði fyrir Alþingi vorið 2022. Ég benti á að þetta samband, sem var notað sem þýðing á detention center, væri óheppilegt og villandi á margan hátt. Grunnmerking orðsins úrræði er 'möguleiki til úrlausnar, kostur' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók og þótt samsetningin búsetuúrræði hafi að vísu unnið sér nokkra hefð í málinu í merkingunni 'heimili fyrir fólk í viðkvæmri stöðu' er þarna vitanlega ekki um neins konar „heimili“ að ræða. Þarna var gert ráð fyrir að fólk sætti frelsisskerðingu og því er í raun um að ræða fangelsi eða fangabúðir.

Þarna var því um að ræða skýrt dæmi um pólitíska misnotkun tungumálsins – merking orða sveigð til í þeim tilgangi að slá ryki í augu almennings og milda aðgerðir stjórnvalda. Umrætt frumvarp varð reyndar ekki að lögum, og ekki heldur frumvarp sem þáverandi dómsmálaráðherra hugðist leggja fram í fyrravor þar sem lokað búsetuúrræði var skýrt nánar  og líkindi þess við fangelsi dregin skýrt fram. Þetta frumvarp var aldrei lagt fram og lokað búsetuúrræði er því ekki komið inn í lög, en dómsmálaráðherra var ekki af baki dottin og málið var að finna á þingmálaskrá þáverandi ríkisstjórnar sem lögð var fram í upphafi haustþings 2024, en undir nýju nafni. Nú hét þetta lokað brottfararúrræði.

Þetta rifjaði einu sinni sem oftar upp fyrir mér ógleymanlega frásögn úr uppáhaldsbókum mínum þegar ég var strákur – bókunum um Grím grallara (Just William) eftir Richmal Crompton (sem ég komst að löngu síðar mér til mikillar furðu að var kona) í snilldarþýðingu Guðrúnar Guðmundsdóttur. Með eftirminnilegustu köflunum í þessum bókum var frásagan af því þegar Grímur kom heim allur rifinn og tættur og Helga móðir hans fór að þýfga hann um hverju það sætti. Grímur sagði að þeir vinirnir hefðu verið að leika ljónatemjara – einn var ljónið og hinir ljónatemjarar sem reyndu að handsama það. Helga lagði umsvifalaust blátt bann við því að þeir lékju ljónatemjara aftur og Grímur lofaði vitanlega öllu fögru.

Daginn eftir kom hann samt heim í svipuðu ástandi og Helga byrjaði að skamma hann fyrir að hafa brotið gegn banni við að leika ljónatemjara. En Grímur hélt nú ekki að hann hefði brotið það – þeir voru nefnilega að leika tígrisdýratemjara. Þegar Helga innti eftir lýsingu á þeim leik kom í ljós að hann fólst í því að einn væri tígrisdýr og hinir reyndu að handsama það. Augljóslega allt annar leikur, en Grími var samt stranglega bannað að fara í hann aftur. Næsta dag kom hann enn heim í svipuðu standi og hafði verið að leika krókódílatemjara að eigin sögn – þið megið giska á hvernig sá leikur fór fram. Því miður leikur stjórnmálafólk iðulega þennan leik – býr til ný og villandi heiti á óvinsæl mál til að auðveldara verði að ná þeim í gegn.

Orðið brottfararúrræði er vissulega örlítið nær því en búsetuúrræði að lýsa því sem um er að ræða, en þó vantar í orðið það grundvallaratriði að brottförin er ekki sjálfviljug. Þess vegna væri brottvísunarúrræði nær lagi, en eftir sem áður er seinni hlutinn úrræði þarna notaður í óeðlilegri merkingu. Eðlilegast væri að tala um lokaðar brottvísunarbúðir því að í búðum er fólk oft ekki sjálfviljugt, svo sem í einangrunarbúðum, fangabúðum, flóttamannabúðum, herbúðum o.fl. Okkur er sagt að samkvæmt Schengen-samningnum sé okkur skylt að koma upp búðum af þessu tagi og ég ætla ekki að taka afstöðu til þess. Hins vegar er dapurlegt að nýr dómsmálaráðherra skuli virðast ætla að halda áfram pólitískri misnotkun fyrirrennara sinna á tungumálinu.

Mér hlakkar til

Þegar aukafalli fór að bregða fyrir með sögninni hlakka til var það frekar þolfall framan af. Þetta má bæði sjá af dæmum um þessa málnotkun á prenti og á athugasemdum við hana. Í elsta dæmi um slíkar athugasemdir sem ég hef fundið, í Foreldrablaðinu 1939, er reyndar talað um bæði þolfall og þágufall, „Ambögurnar í máli barnanna eru margskonar, t.d. […] mér eða mig hlakkar til, í stað, ég hlakka til“, en oft er eingöngu talað um mig hlakkar. Orðalag Eiríks Hreins Finnbogasonar í Vísi 1956, „Afar algengt er, að fólk fari rangt með sögnina að hlakka til, láti hana standa með þolfalli eða jafnvel þágufalli“, bendir líka til þess að þágufallið hafi verið sjaldgæfara. Oft er reyndar ekki hægt að greina milli falla, t.d. í hann hlakkar og okkur hlakkar.

Slæðing af dæmum um þolfallið má finna í blöðum og tímaritum frá undanförnum áttatíu árum, en ég hef ekki fundið nein ótvíræð dæmi um þágufallið fyrir 1990 nema þegar verið er að vitna orðrétt í talað mál eða gera athugasemdir við þessa notkun. Líklega hefur þolfallið stundum verið talið „réttara“ en þágufallið. Til þess benda m.a. dæmi um það á prenti, sem og spurningin í Heimilisritinu 1948, „„Er réttara að segja „mig hlakkar til“ heldur en „mér hlakkar til““. Alþekkt eru líka orðaskiptin í Punktur punktur komma strik eftir Pétur Gunnarsson frá 1976 þar sem Andri segir „Mamma, mamma – mér hlakkar svo til“, faðirinn leiðréttir: „Mig hlakkar“, en móðirin áréttar „Ég hlakka til“ og faðirinn segir „Ertu eitthvað klikkuð kona“.

Það er ljóst að notkun aukafalls með hlakka til hefur lengi verið útbreidd þótt útbreiðslan hafi verið mismunandi eftir þjóðfélagshópum eins og kom fram í könnun Félagsvísindastofnunar 1986 sem Gísli Pálsson segir frá í Þjóðlífi 1987. Þar var spurt: „Sumir segja „Ég hlakka til að fara“, aðrir „Mig hlakkar til að fara“, og enn aðrir „Mér hlakkar til að fara“. Hvað af þessu myndir þú segja?“ Hátt í helmingur reyndist nota „rangt“ fall: „Flestir svarendur, eða 54,7%, sögðust myndu segja „ég“, 36,8% „mig“ og 8,4% „mér“ (1,1% þátttakenda tók ekki afstöðu). Marktækt samband reynist vera á milli málnotkunar og félagsstöðu. Því hærri sem félagsstaðan er þeim mun ólíklegra er að viðkomandi noti „rangt“ fall (þolfall eða þágufall).“

Í verkefninu Rannsókn á málfræðilegum afleiðingum stafræns málsambýlis árið 2017 var þátttakendum 13 ára og eldri gefin setningin Það er aðfangadagskvöld og bræðurnir geta ekki beðið, og síðan beðið um mat á tvenns konar framhaldi: Þeir hlakka svo til og Þeim hlakkar svo til. 49% þátttakenda töldu að „rétta“ setningin með nefnifallinu þeir væri „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“ en 47% þótti hún „frekar eðlileg“ eða „alveg eðlileg“. 56% fannst setningin með þágufallinu þeim „mjög óeðlileg“ eða „frekar óeðlileg“ en 37% fannst hún „frekar eðlileg“ eða „alveg eðlileg“. Ekki var spurt um þolfallið en gera má ráð fyrir að einhver þeirra sem fannst bæði nefnifallið og þágufallið óeðlilegt hefðu valið þolfallið ef það hefði verið í boði.

Í rannsókninni kom fram skýr munur eftir menntun, einkum í mati á þágufallinu – hlutfall fólks með háskólamenntun sem taldi það eðlilegt var mun lægra en hlutfall fólks með minni menntun.  Sáralítill munur var á dómum mismunandi aldurshópa um nefnifallið, en hins vegar voru mun færri í hópunum yfir fertugu sem töldu þágufallið eðlilegt, og má leiða líkum að því að það fólk hefði fremur valið þolfallið. En notkun aukafalls með hlakka til hefur væntanlega lengi verið margfalt algengari en prentaðar heimildir benda til, því að slík frávik frá viðurkenndu máli hafa oftast verið hreinsuð út í prófarkalestri. Það er fyrst með tilkomu  Risamálheildarinnar sem við höfum aðgang að miklu magni óprófarkalesinna texta, en þeir eru flestir frá þessari öld.

Þar er mikill fjöldi dæma um þágufall með hlakka til en þó u.þ.b. þrisvar sinnum fleiri dæmi um þolfall – í báðum tilvikum eru hátt í 90% dæmanna af samfélagsmiðlum. Þetta er breyting sem hefur verið í gangi síðan á nítjándu öld, hefur náð til verulegs hluta málnotenda á öllum aldri, og engar líkur eru á að verði stöðvuð eða snúið við. Ótal sambærilegar breytingar hafa orðið í málinu á undanförnum öldum. Þess vegna er fáránlegt að telja þessa málnotkun ranga og líta niður á hana. Nær er að taka mark á því sem Guðbergur Bergsson sagði í DV 1987: „Það er ekkert vit í að vera sífellt að staglast á því, í tíma og ótíma: Mér hlakkar til er rangt mál. Miklu nær væri að búa unga fólkið undir að heyra eitthvað, sem það hlakkar til að heyra.“

Mig hlakkar til

Í „Málvöndunarþættinum“ var fólk að hneykslast á því að mennta- og barnamálaráðherra hefði sagt „Mig hlakkar til“ í útvarpsviðtali í dag. En því fer fjarri að sú málnotkun sé ný af nálinni. Elsta dæmi sem ég hef fundið um hana er í Þjóðólfi 1892: „Mig hlakkar til, að fá að verða félagi þinn og sessunautur.“ Í Morgunblaðinu 1942 segir: „Þýska hermenn hlakkar til þess að fá tækifæri til þess að opna augu Ameríkumanna fyrir því, að einnig þeim er Evrópa bannað landssvæði.“ Í Lögbergi 1945 segir: „Veit eg að marga hlakkar til að heyra hana og sjá og þakka henni fyrir síðast.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Það er gott að vera hjá afa og ömmu og Helgu hlakkar til hvers dags.“ Í Jólakveðju til íslenskra barna 1951 segir: Þig hlakkar til að sjá hana.“

Á fimmta áratug síðustu aldar hefur þessi málnotkun verið orðin algeng. Það má marka af því að frá þeim tíma má finna í blöðum, tímaritum og bókum mikinn fjölda dæma um að amast sé við henni. Í Regin 1943 segir t.d.: Segið ekki: Okkur hlakkar til, – heldur: Við hlökkum til (jólanna).“ Í Degi 1945 segir: „Sl. sunnudagskvöld þrástagaðist t. d. annar þulur útvarpsins í barnatímanum á málblómum eins og […] mig hlakkar til.“  Í Heimilisritinu 1948 er spurt: „Er réttara að segja „mig hlakkar til“ heldur en „mér hlakkar til“ – og svarað: „Nei, rétt er að segja „ég hlakka til“.“ Í Bæjarblaðinu 1957 segir: „Það er hreint og beint viðbjóðslegt að heyra fólk segja: […] „Henni hlakkar til jólanna“.“ Og í Vísi 1956 sagði Eiríkur Hreinn Finnbogason:

„Afar algengt er, að fólk fari rangt með sögnina að hlakka til, láti hana standa með þolfalli eða jafnvel þágufalli […]. Með þessari sögn á ævinlega að fara nefnifall. […] Þetta skilst betur, ef haft er í huga, hvað sögnin hlakka merkir. Hún er upphaflega notuð um hljóð fugla, það hlakkar í honum, hann hlakkar. Klógulir ernir yfir veiði hlakka …, kvað Jónas. Hann segir ekki, að ernina hlakki yfir veiði, heldur að ernirnir hlakki yfir veiði. Engu breytir í þessu efni, þó að forsetningin til kom aftan við sögnina. Sögnin breytir aðeins ofurlítið merkingu, þýðir þá upphaflega, að sá, sem hlakkar til, hugsi með svo mikilli ánægju til einhvers, sem hann á í vændum, að það hlakki í honum. [S]ögnin að hlakka táknar hljóð líkt og sögnin að syngja.“

Þótt þessi skýring á uppruna sambandsins sé eflaust rétt er það misskilningur að forsetningin til breyti engu. Alþekkt er að margar sagnir taka mismunandi frumlagsfall og hafa mismunandi merkingu eftir þeim orðasamböndum sem þær eru notaðar í, og ég þori að fullyrða sögnin hlakka í sambandinu hlakka til táknar ekki hljóð í huga nokkurs núlifandi málnotanda. Það er merking sambandsins hlakka til sem veldur því að frumlagsfallið hefur tilhneigingu til að breytast eins og Árni Böðvarsson benti á í Þjóðviljanum 1961: Alkunna er að notkun þágufalls breiðist út í sambandi við sumar sagnir […], svo sem „mér langar, mér hlakkar til“, til samræmis við ,.mér líkar, mér finnst“ og aðrar sagnir sem tákna eitthvað á tilfinningasviðinu.“

Skemmtilegustu athugasemdina við mig hlakkar er að finna í Tímanum 1955, þar sem hneykslaður Norðlendingur skrifar af nokkru yfirlæti: „Í grein um [konunafn] í Vísi í gær, byggðri á símtali við hana í London í morgun, er tekið svo til orða: Spurning: Hvenær komið þér heim? Svar: Ég býst við að koma með flugvél Flugfélags Íslands á þriðjudaginn, og hlakkar mig nú til! [Konunafn] er góður Norðlendingur, og þess vegna útilokað, að hún hafi sagt þessa ambögu. Vegna þess, að þessi ambaga, sem vitanlega er tekin úr orðabók blaðamannsins við Vísi, sem talið átti við [konunafn], og er Sunnlendingum mjög tamt, særir það svo eyru hreinna Norðlendinga, að ég fékk ekki orða bundizt.“

Ég er ekki viss um að Norðurland hafi verið alveg laust við mig hlakkar til. Ég er fæddur sama ár og þessi hneykslunarpistill var skrifaður, 1955, og er nokkuð viss um að mig hlakkar til (en ekki mér hlakkar til) sé mitt eðlilega mál þótt ég hafi vanið mig af því síðar. Mennta- og barnamálaráðherra er líka fæddur sama ár og nokkuð öruggt að mig hlakkar til er það mál sem hann hefur tileinkað sér í æsku enda hefur það greinlega verið mjög algengt á þeim tíma eins og hér hefur komið fram. Aukafall með hlakka til á sér rætur aftur á nítjándu öld eins og hér hefur komið fram, og hefur verið mjög algengt í meira en áttatíu ár. Það er engum í hag, og allra síst íslenskunni, að halda áfram að berja hausnum við steininn og kalla mig hlakkar til rangt mál, hvað þá að hneykslast á fólki sem segir það. Mig hlakkar til er góð og gild íslenska.

Langstoðsendingahæstur

Áðan rakst ég á eitt lengsta orð sem ég hef séð í íslenskum texta í körfuboltafrétt á mbl.is. Það var orðið langstoðsendingahæstur – heilir 22 bókstafir, sjö atkvæði, fjórar rætur (lang, stoð, send og (hæst) og eitt viðskeyti (ing) auk beygingarendinga. Þetta er þó fjarri því að vera lengsta orð málsins – í greininni „Hve langt má orðið vera?“ í Íslensku máli 1992 nefnir Magnús Snædal dæmi um orð sem hafa að geyma allt að ellefu atkvæði og hátt á þriðja tug bókstafa, svo sem undirstöðuatvinnufyrirtæki. Magnús segir þó: „Áttkvæð orð eru þau lengstu sem geta haft óbrotna hrynjandi, þ.e. verið eitt orð gagnvart áherslunni.“ Lengri orð brotna sem sé í raun í tvennt í framburði – og raunar gera mörg styttri orð það líka eins og Magnús nefnir.

Frá orðmyndunarfræðilegu sjónarmiði er í raun ekkert við langstoðsendingahæstur að athuga. Til er fjöldi algengra samsetninga með -hæstur, svo sem aflahæstur, stigahæstur, leikjahæstur, markahæstur, launahæstur o.fl. Fyrir kemur að fyrri liðurinn sé einnig samsettur, eins og í frákastahæstur og stoðsendingahæstur. Flest þessara orða eru í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls og Íslenskri nútímamálsorðabók, en þar eru þau öll gefin upp í frumstigi eins og venja er þótt frumstig þeirra sé sárasjaldgæft. En sum þeirra geta líka bætt lang- eða næst- framan við sig, eins og næstaflahæstur og langstoðsendingahæstur, og þá er ekki um annað að ræða en gefa þau upp í efsta stigi – *næstaflahár og *langstoðsendingahár gengur alls ekki.

Þegar lang- eða næst- er bætt framan við ósamsett orð fær það yfirleitt venjulegt áherslumynstur þar sem aðaláherslan kemur á fyrsta atkvæði – langelstur, næstbestur o.s.frv. En ef lang- eða næst- er bætt framan við orð sem er samsett fyrir fær nýja samsetningin oftast tvær aðaláherslur og slitnar í sundur í framburði, verður í raun að tveimur orðum – lang-markahæstur, næst-aflahæstur o.s.frv. Það er svo sem engin frágangssök, en mér fyndist samt betra að umorða þetta og segja t.d. langsamlega stoðsendingahæstur eða gaf langflestar stoðsendingar. Löng orð torvelda lesskilning og geta valdið vandkvæðum í framburði og þess vegna er almennt séð æskilegt að nota þau í hófi og búa ekki til lengri samsetningar en þörf krefur.

Framtíðarstaða íslenskunnar ef kynhlutlaust mál verður ráðandi

  • Vísindavefurinn bað mig að svara spurningunni Hver verður framtíðarstaða íslenskunnar ef kynhlutlaust mál verður ráðandi? Það er að vísu nokkuð óljóst við hvað er átt með framtíðarstöðu íslenskunnar, kynhlutlausu máli og ráðandi, en ég reyndi samt að segja eitthvað um þetta.

Íslenska er mjög kynjað mál, í þeim skilningi að öll fallorð málsins hafa eitthvert þriggja kynja – eru karlkyns, kvenkyns eða hvorugkyns. Kynið er fastur eiginleiki nafnorða þannig að hvert nafnorð er aðeins til í einu kyni (með örfáum undantekningum) en kynið er hins vegar beygingarþáttur í lýsingarorðum, fornöfnum og töluorðum – þau geta staðið í hvaða kyni sem er og þiggja kyn sitt oftast frá nafnorði. Það væri vitanlega gerbreyting á málinu ef nafnorð yrðu kynlaus eða lýsingarorð, fornöfn og töluorð hættu að beygjast í kynjum, enda hefur engum dottið neitt slíkt í hug. Umræða um svokallað kynhlutleysi málsins snýst ekki um neitt í þá veru, heldur um tengslin milli málfræðilegs kyns og líffræðilegs kyns eða kynvitundar fólks.

Það má halda því fram að í íslensku sé mikill kynjahalli – tungumálið sé mjög karllægt. Með því er átt við að málfræðilegt karlkyn er mjög oft notað án þess að vísað sé (eingöngu) til karla. Þetta kemur einkum fram á þrennan hátt. Í fyrsta lagi er karlkyn oft notað í vísun til einstaklinga og hópa sem eru óskilgreindir eða ekki afmarkaðir – allir eru velkomnir, fjórir eru slasaðir, enginn er ómissandi. Í öðru lagi er karlkynsorðið maður sem oft merkir eingöngu ‚karlmaður‘ (maður og kona, maðurinn minn) einnig notað í almennri merkingu – maðurinn er spendýr, menn eru í vafa. Í þriðja lagi eru langflest starfs-, hlutverks- og þjóðaheiti karlkyns – formaður, vísindamaður, forstjóri, skipherra, barþjónn, tölvunarfræðingur, kennari, Íslendingur, Dani.

Á undanförnum árum hafa verið gerðar ýmsar tilraunir til að draga úr kynjahallanum og færa málið í átt til kynhlutleysis, svo sem að nota hvorugkyn sem hlutlaust (ómarkað) kyn í stað karlkyns í vísun til hópa með óþekkta kynjasamsetningu – öll eru velkomin, fjögur eru slösuð og svo framvegis. Einnig hefur verið reynt að draga úr notkun orðsins maður og samsetninga af því, bæði með því að nota orð eins og manneskja og man og með því að búa til samsetningar með -fólk í stað -maður (til dæmis stjórnmálafólk, þingfólk) eða samsetningar með -kona við hlið samsetninga með -maður (til dæmis þingkona). En fjölmörg vandamál og vafamál koma upp í tengslum við slíkar breytingar – þetta er enn stutt á veg komið og óljóst hvernig það á eftir að þróast.

Líklega yrði þó snúnast að fást við starfs-, hlutverks- og íbúaheitin. Þótt þessi heiti séu málfræðilega karlkyns eru þau eigi að síður kynhlutlaus í þeim skilningi að þau eru notuð um fólk af öllum kynjum. Augljóslega væri meiriháttar mál að búa til hvorugkynsorð í stað þeirra allra og litlar líkur á að það verði gert í fyrirsjáanlegri framtíð, enda oft haldið fram að það sé fullkomlega ástæðulaust því að málfræðilegt kyn og kyn fólks sé tvennt ólíkt. Það er rétt svo langt sem það nær, en samt bendir margt til þess að málnotendur tengi þessi orð ómeðvitað fremur við karlmenn eins og ég hef sýnt fram á í ýmsum pistlum – Um meint kynhlutleysi samsetninga með maður, Karllægni íslenskra íbúaheita, Eru Danir karlkyns? o.fl.

Það er því ekki líklegt að kynhlutlaust mál verði „ráðandi“ í íslensku málsamfélagi í náinni framtíð, ef átt er við að kynjahalla tungumálsins verði útrýmt með öllu. Það er hins vegar vel hugsanlegt, þótt ómögulegt sé að fullyrða nokkuð um það, að smátt og smátt dragi úr kynjahallanum vegna meðvitaðra aðgerða í þá átt, en það er ekki líklegt að neinar skyndilegar breytingar eða kollsteypur verði í þessum efnum. Hvað sem því líður er engin ástæða til að ætla að breytingar í átt til kynhlutleysis hafi stórvægileg áhrif á framtíðarstöðu íslensku. Eftir sem áður verða þrjú kyn í málinu og þótt innbyrðis verkaskipting þeirra breytist eitthvað, og búin verði til einhver ný hvorugkynsorð í stað karlkynsorða, heldur málið áfram að vera íslenska.

 

Happ og hending

Í stórmerku bréfi sem langamma mín skrifaði verðandi tengdasyni sínum, afa mínum, fyrir nærri hundrað árum, haustið 1926, segir: „Þú hefur – sem betur fer – aldrei þekt hvað það er að vera öreigi. Það er að eiga ekki nokkurn skapaðann hlut í eigu sinni sem tryggir framtíð manns. Ekki þak yfir höfuðið, ekki blett af landi til að rækta, ekkert nema það sem happ og hending veitir fyrir hvern daginn.“ Það sem mér fannst áhugaverðast í þessu var sambandið happ og hending sem ég hafði ekki séð áður og vissi ekki hvort hefði tíðkast eða hvort langamma hefði búið það til. Þegar ég fór að skoða málið kom í ljós að þetta er ekki einsdæmi þótt sambandið sé vissulega sjaldgæft – aðeins sex dæmi eru um það á tímarit.is og eitt í Risamálheildinni.

Elsta dæmið á tímarit.is er í kvæði eftir vesturíslenska skáldið Guttorm J. Guttormsson í Heimskringlu 1906: „Sorgin, yndið, happ og hending, / hulin orsök, mönnum dulin“. Annað dæmi úr kvæði eftir Guttorm er í Eimreiðinni 1952: „Fylgi happ og hending æ / hvirfilbyl – en í báðum tilvikum er þetta bundið í stuðla og því e.t.v. ekki alveg marktækt. Í Lögbergi 1924 segir: „Það er ómótmælanlegur sannleikur að allra hygnustu menn láta stundum happ og hending ráða.“ Í ályktun frá fulltrúafundi Kaupfélags Austur-Skaftfellinga í Tímanum 1953 segir: „Þessar póstsendingar eru svo settar í land einhvers staðar á Austfjörðum og ræður þá happ og hending hvenær þær komast hingað.“

Tvö yngstu dæmin á tímarit.is eru úr greinum eftir Ólaf Jónsson í Vísi 1971 og 1974, það síðara er: „happ og hending ræður jafnan miklu um hvenær „röðin kemur“ að hverjum þeim höfundi sem til álita kemur við verðlaunaveitingu.“ Eina dæmið í Risamálheildinni – og það eina sem ég hef fundið frá síðustu fimmtíu árum – er úr viðtali við bónda í Suðursveit í Morgunblaðinu 2011: „En við skild­um eft­ir grím­ur hjá ferðaþjón­ustuaðilum líka en þar er happ og hend­ing hvort magn pass­ar við mann­fjöld­ann.“ Það er því ljóst að sambandið happ og hending hefur áður verið þekkt víða um land og í Vesturheimi en væntanlega alltaf verið sjaldgæft og virðist nú alveg horfið. Mér finnst þetta skemmtilegt samband og væri gaman að endurvekja það.