Category: Málfar

Að vökva blómum – og vatna þeim

Í greininni „Ástkæra, ylhýra málið“ sem birtist í Regin 1942 og ég hef áður vitnað í kvartar Friðrik Hjartar yfir ýmsum málbreytingum – sú athyglisverðasta er að hans sögn „fráhvarf frá nefnifalli og þolfalli til þágufalls“. Um þetta nefnir hann ýmis dæmi, bæði af frumlögum með sögnum eins og langa og dreyma, en einnig af andlögum með sögnum eins og pakka, framlengja, skora – og vökva. „Þá er sagt, að nú þurfi að vökva blómunum, vökva görðunum, í stað þess að segja: að vökva blómin, vökva garðana, m. ö. orðum: vökva eitthvað, ekki vökva einhverju.“ Sögnin vökva tekur vissulega með sér þolfall í fornu máli en er gefin upp með bæði þolfalli og þágufalli í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og þágufallið er greinilega gamalt.

Það er notað í einu af elstu dæmum um sögnina á tímarit.is, í Norðurfara 1849: „svo menn þessvegna víst hefðu getað sparað það blóð, sem nú ei varð til annars enn að vökva götum Parísar.“ Í Skuld 1879 segir: „þessi ungi maðr er líka „eik“, sem visnar, ef henni er ekki vökvað.“ Í sögunni „Lífið í Reykjavík“ eftir Gest Pálsson frá 1888 segir: „sumir eru í óða önn að vökva blómum og trjám.“ Í Frey 1904 segir: „Það má auka blómgunina og lengja blómgunartímann með því að vökva þeim með áburðarlegi.“ Í Búnaðarritinu 1907 segir: „auk þess þarf að vökva blómkálinu með áburðarlegi.“ Í Sindra 1921 segir: „Það þarf þannig að vökva rakri steypu í eigi minna en ½ mánuð.“ Í Blika 1936 segir: „Það þarf að vökva því dyggilega.“

Þágufall virðist hafa verið töluvert notað með vökva á seinni hluta nítjándu aldar og langt fram eftir þeirri tuttugustu, en dæmum fer fækkandi eftir miðja öldina. Yngsta dæmi sem ég hef fundið á tímarit.is er í Morgunblaðinu 1992: „Jafnframt er í húsgæslukerfinu þjónusta öryggisvarða VARA sem tvisvar í viku tæma póstkassa, vökva blómum og gefa gæludýrum.“ Tvö yngri dæmi fundust í Risamálheildinni: „Mun minni hætta fólgin í að vökva blómum“ á Málefnin.com 2006 og „hann fór til þess að vökva plöntunum“ í héraðsdómi frá 2012. En ég hafði aldrei rekist á þágufallið og hélt að það væri alveg horfið – þangað til í gærkvöldi að ég heyrði í sjónvarpinu eldri mann á Ísafirði tala um að vökva blómunum.

Þessi maður hefur væntanlega alist upp við notkun þágufalls með vökva og vitanlega engin ástæða til að amast við því. Það er í sjálfu sér vel skiljanlegt að vökva hneigist til að taka með sér þágufall í stíl við sagnir eins og vatna og brynna sem eru merkingarlega skyldar þótt þær séu vissulega einkum notaðar um húsdýr. Notkun vökva og vatna skarast þó eitthvað – til eru dæmi eins og „Margir hirða ekki nógu vel um að vökva fénu“ í Búnaðarritinu 1914, og allnokkur dæmi um að vatna blómum, t.d. í Æskunni 1924: „Í blómgarði við húsið var mær ein ung og vatnaði blómunum.“ Þetta virðist hverfa upp úr 1970 og í ritdómi í Morgunblaðinu 1981 segir: „Sem gamall sveitamaður hlýt ég að vara við reykvískunni að „vatna blómum“.“

Ég var í tveimur kosningaköffum

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt um setninguna „Ég treysti á að við fáum kökuafgangana frá einhverju af þessum kosningaköffum“ sem fyrirspyrjandi taldi að væri  „augljóslega rangt“ en spurði hvaða mynd væri rétt að nota þarna. Þarna er greinilega verið að nota orðið kosningakaffi í þágufalli fleirtölu sem einhverjum kann að þykja vafasamt, enda engin fleirtala orðsins gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það má þó finna dæmi um fleirtöluna á netinu – „Vinstri græn og Samfylking eru með sín kosningakaffi í Edinborgarhúsi frá 14-17“ segir í Bæjarins besta 2017, „Þar sem ég veit að við hjónin kjósum líklega ekki það sama finnst mér líklegt að við mætum í tvö kosningakaffi“ segir á mbl.is 2024.

Ýmis fleiri dæmi má finna um fleirtölu annarra samsettra orða þar sem -kaffi er seinni liður. Í bókinni Fyrir daga farsímans eftir Böðvar Guðmundsson segir: „Hún dró Siggu með sér í nokkur sunnudagakaffi en Sigga sagði að lokum þvert nei.“ Í Húna 2015 segir: „Fleiri prjónakaffi verða í Kvennaskólanum í vetur.“ Í Vísi 2020 segir: „Svo eru kannski foreldrakaffi.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Bókakaffi með ákveðin þemu eru t.d. haldin tvisvar á ári.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Haldin verða Vísindakaffi á kaffihúsum Reykjavíkurborgar.“ Í Vísi 2004 segir: „Þegar við komum aftur voru internetkaffi á hverju götuhorni og allir með gemsa.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Netkaffi eru ekki á hverju strái í Sýrlandi.“

Orðið kaffi eitt og sér er vissulega ekki til í fleirtölu frekar en önnur orð um vökva og drykki – ef það er notað í grunnmerkingu sinni. En í þessum orðum vísar það ekki til drykkjarins kaffi, heldur ýmist til viðburða (kosningakaffi, sunnudagakaffi, prjónakaffi, foreldrakaffi, bókakaffi, vísindakaffi) eða fyrirtækja (internetkaffi, netkaffi). Í fyrri merkingunni mætti t.d. setja kaffisamsæti eða kaffiboð í staðinn, en í þeirri seinni kaffihús. Öll þau orð eru til í fleirtölu þannig að það er augljóslega ekkert á móti því frá merkingarlegu sjónarmiði að nota samsetningar með -kaffi í fleirtölu – ef þær vísa til teljanlegra fyrirbæra. Þess eru ýmis dæmi að orð sé aðeins til í eintölu í einni merkingu en bæði í eintölu og fleirtölu í annarri merkingu.

Eins og í öðrum hvorugkynsorðum (nema einkvæðum orðum með a í stofni) er nefnifall og þolfall fleirtölu af samsetningum með -kaffi eins og eintalan. Í þágufalli fleirtölu bætist endingin -um við eins og er nánast algilt í nafnorðum, og þá fellur -i brott úr stofninum sem er líka nánast algild regla þegar tvö áherslulaus sérhljóð koma saman – kaffi+um > kaffum. En þá er u komið í næsta atkvæði á eftir a-inu í stofni og til kemur enn ein nánast algild regla sem setur ö í stað a við slíkar aðstæður – kaffi+um > kaffum > köffum. Þótt kosningaköffum kunni að hljóma framandi er það því ekki bara rétt mynd, heldur eina hugsanlega myndin í þágufalli fleirtölu ef orðið kosningakaffi er notað í fleirtölu á annað borð – sem er sem sé fullkomlega eðlilegt.

Fræðsla er betri en fyrirframgefin skoðun

Eins og margsinnis hefur komið fram er þessi hópur ætlaður fyrir umræðu, fræðslu og fyrirspurnir um mál, málfræði og málfar. Ef við rekumst á eitthvað í máli sem er nýtt, ókunnuglegt eða í ósamræmi við það sem við höfum vanist eða verið kennt að væri rétt, þá er auðvitað eðlilegt að við viljum forvitnast eitthvað um það og veltum því fyrir okkur hvort þarna sé um nýyrði að ræða, málbreyting að stinga upp kollinum, málfar sem tíðkist annars staðar á landinu eða í öðrum þjóðfélagshópum en við tilheyrum, leifar úr eldra máli eða fyrnska, fljótfærnis- eða frágangsvilla, eða eitthvað annað. Þessum hópi er ætlað að vera vettvangur fyrir slíkar spurningar – og fjölmargar aðrar – og svör við þeim, eftir því sem kostur er.

En grundvallaratriði er að umræðan á að vera jákvæð. Það þýðir að innlegg og athugasemdir þar sem ekki er verið að spyrjast fyrir heldur gera athugasemdir við málfar, leita staðfestingar á eigin skoðun eða fordómum, segja hvað fari í taugarnar á fyrirspyrjanda eða gefa sér að eitthvað sé rangt eiga ekki erindi hingað inn. Efnisatriðin sem um er að ræða í slíkum innleggjum geta oft átt rétt á sér, en framsetningin ekki. Stundum hef ég eytt innleggjum af þessu tagi vegna andans í þeim en tekið samt fyrir það atriði sem um var rætt. Sumum finnst þetta kannski einstrengingsleg afstaða en ég trúi því einlæglega að það sé hægt – og nauðsynlegt – að ræða íslenskt mál á jákvæðum nótum, án þess að hnýta í málnotkun annarra.

Þess vegna bið ég ykkur að hafa þetta í huga. Hikið ekki við að vekja hér máls á hvers kyns atriðum í máli og málfari sem vekja áhuga ykkar eða forvitni, en gerið það án fyrirframgefinnar afstöðu, til dæmis í formi spurninga. Þegar ég svara spurningum eða skrifa fræðandi pistla um málfar reyni ég að skoða málið frá öllum hliðum þannig að lesendur geti sjálfir myndað sér skoðun. Stundum segi ég mína skoðun á því hvað sé rétt, og stundum gengur hún í berhögg við það sem vanalega hefur verið kennt – en ég ætlast ekkert til þess að öllum falli niðurstaða mín í geð. Meginatriðið er að fólk fái forsendur til að taka sjálfstæða afstöðu í stað þess að halda dauðahaldi í það sem hefur verið kennt, án þess að hafa nokkur rök fyrir því.

Bóndahjón

Í Málvöndunarþættinum var nýlega spurt hvort það væri að „verða málvenja“ að tala um bónda í staðinn fyrir bændur í fleirtölu. Tilefnið var frétt í Vísi þar sem orðið bóndahjón kom nokkrum sinnum fyrir, t.d. í „Hann lýsti akstri sínum ekki sem ógnvænlegum líkt og bóndahjónin gerðu“. Þar sem um er að ræða hjón, karl og konu, mætti vissulega virðast rökréttara að nota þarna eignarfall fleirtölu í fyrri lið samsetningarinnar og segja bændahjón. Hvoruga myndina, bóndahjón eða bændahjón, er þó að finna í Íslenskri orðabók eða Íslenskri nútímamálsorðabók. Aftur á móti er myndin bóndahjón flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 sem sýnir að hún er a.m.k. hundrað ára gömul – bændahjón er þar hins vegar ekki að finna.

Báðar myndirnar eru þó gamlar í málinu og elstu dæmi um þær á tímarit.is frá svipuðum tíma. Í Víkverja 1874 er talað um „einstök heimili, þar sem bóndahjónin væru sérlega vel fallin til að ala upp börn og segja þeim til“ og í Norðlingi 1878 segir: „Mánudaginn 9. júlí seinastl. héldu bændahjónin Klemens Klemensson og Ingibjörg Þorleifsdóttir gullbrúðkaup sitt að Bólstaðarhlíð.“ Síðarnefnda myndin er þó töluvert algengari – um hana eru 400 dæmi á tímarit.is en rúm 230 um þá fyrrnefndu. Í Risamálheildinni er munurinn hlutfallslega minni – 74 dæmi um bóndahjón en 106 um bændahjón. Það er því ljóst að jafnvel þótt myndin bóndahjón teldist „órökrétt“ hefur hún fyrir löngu unnið sér hefð og hlýtur að teljast rétt mál.

En í þessu tilviki þarf samt ekki að vísa til hefðar heldur er myndin bóndahjón fullkomlega eðlileg og rökrétt. Í fyrsta lagi má benda á að í fornu máli var eignarfall fleirtölu af bóndi ekki bænda eins og nú er, heldur bónda – myndin bænda var ekki orðin algeng fyrr en um 1400 eins og ég skrifaði nýlega um. Það er fjarri því að vera einsdæmi að gamlar beygingarmyndir varðveitist í samsettum orðum, og því er ekki óhugsandi að orðið bóndahjón hafi verið myndað áður en breytingin varð og fyrri hluti orðsins sé því í raun eignarfall fleirtölu. Vissulega virðast engin dæmi vera um orðið bóndahjón eldri en frá seinni hluta nítjándu aldar, en þess eru fjölmörg dæmi að orð lifi í málinu í fleiri aldir án þess að komast á pappír – eða skinn.

Líklegast er þó að bónda- sé þarna eignarfall eintölu, en öfugt við það sem gæti virst í fljótu bragði er það fullkomlega eðlileg orðmyndun og í samræmi við málhefð. Fjöldi dæma er um að eignarfall eintölu sé notað í samsetningum þar sem fleirtala væri „rökrétt“. Þetta er einkum algengt í veikum kvenkynsorðum, svo sem stjörnuskoðun, gráfíkjukaka, perutré o.s.frv., en kemur þó einnig fyrir í fjölda annarra tilvika. Nefna má orð eins og landsleikur þar sem ævinlega eru tvö landslið að spila saman og því mætti segja að *landaleikur væri rökréttara orð. Þótt svo geti virst að „rökréttara“ væri að nota fleirtölu í samsetningum með -hjón á það viðmið einfaldlega ekki við þarna – mörg samsett orð eru „órökrétt“ en samt fullkomlega viðurkennd.

En svo er orðið bóndahjón ekki einu sinni „órökrétt“ ef betur er að gáð. Eins og bent var á í umræðum í Málvöndunarþættinum eru orð eins og prestshjón, læknishjón, kaupmannshjón og fleiri slík mjög algeng, þótt talsvert hafi dregið úr tíðni þeirra á seinni árum. Þarna er notuð eintala í fyrri lið, enda hjónin kennd við starf annars þeirra – áður ævinlega karlsins – þau eru ekki bæði prestar, læknar eða kaupmenn. Orðið bóndi var til skamms tíma nær eingöngu notað um karlinn – kona hans var ekki bóndi, heldur húsfreyja. Þess vegna er eintalan í bóndahjón í fullkomnu samræmi við önnur orð af þessu tagi. Vissulega má segja að bændahjón sé í betra samræmi við nútíma hugmyndir og málnotkun, en það þýðir ekki að bóndahjón sé rangt mál.

Fokviðri

Í frétt á mbl.is fyrir nokkrum dögum var sagt „Tjón varð á brú sem er í byggingu fyrir vestan í fokviðrinu í dag.“ Orðið fokviðri er vissulega sjaldgæft og á Facebook-síðu mbl.is bar nokkuð á því að fólk hneykslaðist – talaði um „Óþarfa nýyrði“ og segði „Svo núna á að reka rokið út því það er ekki nógu fínt lengur“. En orðið er ekki nýyrði – elsta dæmi sem ég hef fundið um það er í Paradísarmissi Miltons sem séra Jón Þorláksson þýddi snemma á 19. öld og kom út 1828 – þar er talað um „fljúgandi flíkur / í fokviðri“. Þetta er eina dæmið um orðið í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, en orðið er líka í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem það er þýtt 'forrygende Vejr' og í Íslenskri orðabók í merkingunni 'rok, hvassviðri'.

En orðið er vissulega sjaldgæft, a.m.k. á prenti. Ekkert dæmi er um það í Risamálheildinni og á tímarit.is er aðeins eitt dæmi – í grein um séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal eftir Össur Skarphéðinsson í Lesbók Morgunblaðsins 1994 þar sem segir: „Eftir mikið fokviðri í febrúar 1763 orti séra Björn ljóð.“ Hér í hópnum var hins vegar bent á að orðið væri töluvert notað fyrir vestan sem samræmist því að bæði Jón Þorláksson og Össur Skarpéðinsson eru ættaðir að vestan. Þetta er því skemmtilegt dæmi um orð sem hefur lifað í a.m.k. meira en tvær aldir án þess að komast nokkuð að ráði á prent en sýnir jafnframt að það er gott að fletta upp í orðabókum áður en fullyrt er að um nýyrði sé að ræða – hér hefði dugað að fletta upp á málið.is.

Að segja ósatt um árás á íslenskuna

Í haust var lagt fram á Alþingi frumvarp um breytingu á ýmsum lögum til að bæta stöðu trans fólks. Þar eru meðal annars lagðar til breytingar á lögum um mannanöfn sem ganga eingöngu út á að nota orðið foreldri í stað orðanna faðir og móðir og orðið stórforeldri í stað orðsins afi í texta laganna. Þannig verði fyrsta málsgrein áttundu greinar laganna t.d. „Kenninöfn eru tvenns konar, foreldrisnöfn og ættarnöfn“ í stað „Kenninöfn eru tvenns konar, föður- eða móðurnöfn og ættarnöfn“, og í stað „Hver maður skal kenna sig til föður eða móður nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo“ í annarri málsgrein sömu greinar komi „Hver maður skal kenna sig til foreldris nema hann eigi rétt á að bera ættarnafn og kjósi að gera svo.“

Þessar breytingar eru mikilvæg réttarbót og því dapurlegt að þær skuli rangtúlkaðar í pólitískum tilgangi. Í grein eftir Helgu Dögg Sverrisdóttur frambjóðanda Lýðræðisflokksins í Vísi segir: „Á síðasta löggjafarþingi Íslendinga lögðu fáir þingmenn fram frumvarp til þess að breyta ákveðnum orðum. […] Lýðræðisflokkurinn hafnar svona skemmdarverkum á tungumálinu. Hefðbundin góð og gild orð sem vísa til um hvern ræðir á ekki að breyta. […] Breytingartillagan er aðför að fjölskyldunni og íslenskunni. […] Höfundur frábiður sig að þessi skemmdarverk á íslenskum orðum sem ylja flestum hjörtum haldi áfram. Hvað er yndislegra en að tala um ömmu og afa, langömmu og langafa, móður og föður, frænda og frænku, pilt og stúlku?“

Það er óljóst hvað langafi og langamma, frændi og frænka, hvað þá piltur og stúlka, koma málinu við, en Helga Dögg Sverrisdóttir er þekkt fyrir andstöðu gegn trans fólki og því þarf þetta ekki að koma á óvart – ekki frekar en þau ósannindi hennar að orðið leghafi sé komið inn í lög um þungunarrof og það fyrir tilstilli núverandi heilbrigðisráðherra. Það er hins vegar öllu alvarlegra þegar sjálfur forsætisráðherra landsins stekkur á þennan vagn í færslu á X fyrir nokkrum dögum: „Í dag er pabba og afadagur í leikskólanum. Ég mæti í kaffi sem stoltur afi. Það er ótrúlegt en satt að nokkrir þingmenn vildu breyta kenninöfnum í mannanafnalögum. Ég væri ekki lengur afi heldur foreldri foreldris. Vitleysan ríður ekki við einteyming.“

Umræddar breytingar eru sjálfsagðar og eðlilegar og raunar óhjákvæmilegar til að ákvæði laga um mannanöfn samræmist ákvæðum laga um kynrænt sjálfræði sem leyfa hlutlausa skráningu kyns. En gagnstætt því sem haldið er fram er einungis verið að breyta því hvernig vísað er til foreldra í lögunum – það er ekki verið að gera neina breytingu á kenninöfnunum sjálfum eins og sést vel á því að lagt er til að þriðja málsgrein áttundu greinar orðist svo: „Foreldrisnöfn eru mynduð þannig að á eftir eiginnafni eða eiginnöfnum og millinafni, ef því er að skipta, kemur nafn foreldris í eignarfalli með eða án viðbótarinnar son, dóttir eða bur.“ Það er sem sé áfram hægt að vera Benediktsson og Sverrisdóttir – eða Benediktsbur og Sverrisbur ef fólk vill.

Það er ljóst að forsætisráðherra segir ekki satt þegar hann skrifar að „nokkrir þingmenn vildu breyta kenninöfnum“ – það hefur aldrei verið lagt til. Vitanlega hefur ekki heldur verið lagt til að hrófla við orðinu afi – eða faðir og móðir – og fráleitt að halda því fram. Annaðhvort er lesskilningi forsætisráðherra stórlega ábótavant eða hann fer vísvitandi með rangt mál. Fólk getur haft misjafnar skoðanir á þessum breytingartillögum en þegar um er að ræða réttarbætur til handa jaðarsettum hópi sem á undir högg að sækja er einstaklega ómerkilegt og lágkúrulegt að snúa út úr og beinlínis fara með rangt mál í pólitískum tilgangi. Það er fyrir neðan virðingu forsætisráðherra, jafnvel þótt hann sé í miðri kosningabaráttu.

„Í öðrum og betra heimi“

Línurnar „ef andana langar í öl og vín / í öðrum og betra heimi“ er að finna í ljóðinu „Í bíl“ eftir Örn Arnarson. Nýlega var hér spurt hvort orðmyndin betra væri rétt. Þetta er eðlileg spurning – miðstig lýsingarorða í karlkyni er venjulega eins í öllum föllum í nútímamáli og það er eina beygingin sem gefin er upp í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Því hefði mátt búast við að þarna stæði betri heimi en ekki betra heimi. Samt sem áður er ljóst að betra heimi er hvorki prentvilla né einsdæmi – á tímarit.is eru alls tvö hundruð dæmi um það samband í þolfalli og þágufalli, dreifð yfir síðustu hálfa aðra öld. Um betri heimi eru aftur á móti 1.400 dæmi. Hundrað dæmi eru um eignarfallið betra heims, en tæp þrjú hundruð um betri heims.

Í fornu máli endaði nefnifall karlkynsorða í miðstigi á -i eins og í nútímamáli, en aukaföllin enduðu aftur á móti á -a – miðstigið af góður beygðist því betri – betra betra betra. Þetta fór að breytast á 16. öld og á 18. öld virðist beygingin að mestu komin í það horf sem algengast er í nútímamáli eftir því sem Björn Karel Þórólfsson segir í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld og breytingar þeirra úr fornmálinu. Í Íslenzkri málmyndalýsingu frá 1861 segir Halldór Kr. Friðriksson: „Nú látum vjer öll föllin í eintölu í karlkyni endast á ari.“ Sama segir Valtýr Guðmundsson í Islandsk Grammatik frá 1922. Það virðist samt ljóst að eldri beygingin hefur alltaf lifað að einhverju leyti og hefur verið með töluverðu lífsmarki fram undir þetta.

Þarna er þó ýmislegt sem þyrfti að skoða nánar. Ekki er ótrúlegt að þetta sé misjafnt eftir lýsingarorðum, og eins virðist eldri beygingin í fljótu bragði vera hlutfallslega algengari í þágufalli en eignarfalli. En hvað sem því líður eru aukaföll með -a greinilega á undanhaldi. Í Risamálheildinni eru um 650 dæmi um sambandið betri heimi en aðeins átta um betra heimi, þar af þrjú úr textum frá því fyrir miðja síðustu öld – og hundrað dæmi um betri heims en sjö um betra heims. Vegna þess að betra í aukaföllum er hin forna beyging, sem virðist hafa lifað að einhverju marki og a.m.k. verið töluvert notuð undanfarna hálfa aðra öld, finnst mér samt ekki koma til greina að telja hana ranga þótt ekki sé ástæða til að mæla sérstaklega með henni.

Ein trefj

Í frægu atriði Radíusbræðra, Davíðs Þórs Jónssonar og Steins Ármanns Magnússonar, leika þeir sér að því að búa til eintölu með því að klippa fleirtöluendingu aftan af orðum og fá þannig út óvenjulegar eða ótækar myndir. Sum orðin eru ekki til í eintölu í venjulegu máli – trefjar sem verður *trefj í eintölu, menjar sem verður *menj og fornminjar sem verður *fornminj. Út frá fleirtölunni klyfjar búa þeir til eintöluna *klyfj í stað venjulegu myndarinnar klyf, og einnig búa þeir til eintöluna *fenj í stað fen út frá þágufalli fleirtölu fenjum. Frá merkingarlegu sjónarmiði er ekkert því til fyrirstöðu að nota þessi orð í eintölu en hljóðskipunarreglur málsins valda því að eintölumyndir með j eru vafasamar ef ekki ótækar með öllu.

Ýmis orð í málinu hafa j í sumum beygingarmyndum en ekki öðrum. Af karlkynsorðum má nefna her og beður sem eru herjum og beðjum í þágufalli fleirtölu, af kvenkynsorðum skel og nyt, í fleirtölu skeljar og nytjar, og af hvorugkynsorðum ber og engi, í þágufalli fleirtölu berjum og engjum. Þessi orð hafa upphaflega j í stofni en það fellur hins vegar brott við ákveðnar aðstæður – einkum í enda orðs (við segjum ekki *herj, *skelj, *nytj, *berj heldur her, skel, nyt, ber) og á undan samhljóðum (við segjum ekki *herjs, *beðjs, *berjs heldur hers, beðs, bers). Auk þess fellur j brott á undan nefnifallsendingunni -ur (við segjum ekki *beðjur heldur beður) vegna þess að hún var áður -r. Ástæðan fyrir brottfalli j er hljóðfræðileg sérstaða þess.

Í fornu máli var j svokallað hálfsérhljóð – óatkvæðisbært hljóð, eins konar millistig milli sérhljóðs og samhljóðs. Í nútímamáli er það yfirleitt flokkað sem samhljóð en þó er oft lítill munur á því og sérhljóðinu í. Vegna hljóðfræðilegs eðlis síns verður j alltaf að hafa sérhljóð næst sér, annaðhvort á undan eða eftir. Í myndum eins og *herj, *herjs o.s.frv. er sú krafa ekki uppfyllt og því hlýtur j að falla brott. Beygingarending sem hefst á sérhljóði bjargar hins vegar málinu – í myndum eins og herjum, skeljar, berjum o.s.frv. fær j sérhljóð endingarinnar næst á eftir sér og helst því í þeim myndum. Í ýmsum orðum hafa þó áhrifsbreytingar riðlað þessu svo að j hefur fallið brott þar sem það gat haldist, eða helst þar sem það hefði átt að falla brott.

Stöku sinnum verða þó til orð sem brjóta þessar reglur, einkum þegar reynt er að búa til nafnorð af sögnum með samhljóð og j í stofni. Eina algenga orðið af því tagi þar sem j er í enda orðs án sérhljóðs við hlið sér er hvorugkynsorðið grenj af sögninni grenja – elsta dæmi um það er frá 17. öld. Fyrir utan grenj er hvorugkynsorðið emj af sögninni emja eina orðið af þessu tagi sem gefið er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, en við bæði orðin er athugasemd: „Orðið er einkum haft í þágufalli og nefnifalli og þolfalli með greini. Engin dæmi hafa fundist um eignarfall.“ Myndirnar sem þarna eru nefndar hafa allar endingar sem hefjast á sérhljóði – emji, grenji; emjið, grenjið. Í þessum myndum bjargar endingarsérhljóðið því j-inu.

Ef búin væri til eintölumynd eftir fleirtölumyndunum trefjar, menjar og fornminjar ættu þær því að vera *tref, *men og *fornmin frekar en *trefj, *menj og *fornminj. Eins og áður segir væri ekkert við þessar myndir að athuga frá merkingarlegu sjónarmiði – það eru engar merkingarlegar ástæður fyrir því að þessi orð eru ekki til í eintölu og við myndum örugglega venjast þessum eintölumyndum ef þær kæmust í notkun. Það þarf aftur á móti ekki að búa til eintölu af klyfjar og fen því að hún er til í málinu eins og áður segir – en er ekki *klyfj og *fenj, heldur klyf og fen. Orðmyndir þeirra Radíusbræðra eru hins vegar bráðskemmtilegt dæmi um það hvernig hægt er að leika sér að tungumálinu og fá okkur til að hugsa um orð á nýjan hátt.

Auglýsingaherferð VIRK

Í svari starfsendurhæfingarsjóðsins VIRK við gagnrýni á auglýsingaherferð sjóðsins segir m.a.: „Tökuorðið „kombakk“ […] hefur unnið sér sess í heimi lista, einkum tónlistar, íþrótta og stjórnendamenningar. Um það vitna dæmi sem koma upp þegar leitað er að orðinu á netinu, bæði í fjölmiðlum og á óformlegri stöðum á borð við bloggsíður og samfélagsmiðla.“  „Orðið Kombakk hefur í þessu samhengi yfirtóna eftirvæntingar, ólíkt hinu miklu hlutlausara orði „endurkoma“ […].“ „Ákvörðunin um að nota kombakk sem yfirskrift þessarar mikilvægu vitundarvakningar var tekin að vel athuguðu máli […].“ „Lagið Back To Life (However do you want me) styrkir þessa tilfinningu, eins og tónlist er ævinlega ætlað að gera.“

Ég svaraði og sagði: „Takk fyrir svarið, sem olli mér samt miklum vonbrigðum og bendir til að þið áttið ykkur ekki á alvarleik málsins og hversu slæmt fordæmi þið eruð að gefa með þessari herferð. Ég ber virðingu fyrir því mikilvæga starfi sem VIRK vinnur, en þeim mun sárgrætilegra finnst mér að það skuli auglýst undir enskum formerkjum. Það er alveg rétt að kombakk hefur lengi verið notað í íslensku, en fyrst og fremst í óformlegu máli. Ég hef ekkert á móti tökuorðum en þegar til eru ágæt íslensk orð í sömu merkingu er æskilegt að halda sig við þau. Það kann að vera rétt að kombakk höfði betur til fólks en endurkoma þótt ég efist stórlega um það – ég sé ekki betur en orðið endurkoma sé oftast notað í jákvæðu samhengi, ekkert síður en kombakk.

Það alvarlegasta er þó að meginboðskapur auglýsingarinnar, Back to life, back to reality, er á ensku. Fyrir utan að það er álitamál hvort það standist lög finnst mér það algerlega forkastanlegt. Ég trúi ekki öðru en þið áttið ykkur á því þegar þið hugsið málið hvað þið eruð að gera með þessu. Ef við göngumst inn á það að enska sé heppilegri en íslenska í einhverju samhengi þótt verið sé að höfða til Íslendinga erum við að opna flóðgátt sem ómögulegt verður að loka. Við erum með því að gera lítið úr íslenskunni, tala hana niður, segja að hún dugi ekki – við erum að kveða upp dauðadóm yfir henni. Ég trúi ekki að það sé vilji aðstandenda VIRK að gera það og skora enn og aftur á ykkur að endurskoða þessa auglýsingaherferð.“

Frábær Skrekkur

Þriðja árið í röð hef ég nú setið þrjú kvöld í röð í Borgarleikhúsinu og horft á 25 atriði í undankeppni Skrekks, hæfileikakeppni grunnskólanna í Reykjavík. Ástæðan er sú að ég er í dómnefnd um „Skrekkstunguna“, íslenskuviðurkenningu keppninnar, sem ákveðið var í hitteðfyrra að taka upp vegna þess að aðstandendum fannst íslenska vera mjög á undanhaldi í keppninni og vildu reyna að snúa þeirri þróun við. Það hefur svo sannarlega tekist. Íslenska varð strax meira áberandi þegar viðurkenningin var fyrst veitt fyrir tveimur árum, hlutur hennar stækkaði enn töluvert í fyrra, og í ár fannst mér verða alger bylting. Sáralítið bar á ensku í keppninni – í langflestum atriðum var allur texti, talaður, sunginn og ritaður, á íslensku.

Í Skrekk er hin sjónræna hlið mjög mikilvæg en samt sem áður tókst sumum skólunum að hafa íslenskuna beinlínis í aðalhlutverki í atriðum sínum – lifandi, frjóa og skapandi íslensku. Það var einstaklega ánægjulegt að horfa og hlusta á þetta – en að sama skapi verður verkefni dómnefndarinnar, að velja sigurvegara, sérlega snúið. Það er samt tilhlökkunarefni vegna þess að við vitum að sigurvegarinn verður verðugur. Ég hvet ykkur til að horfa á úrslitakeppni Skrekks á mánudagskvöld í beinni útsendingu í Ríkissjónvarpinu – þá verður jafnframt tilkynnt hvaða skóli fær Skrekkstunguna. Frammistaða unglinganna gleður mann sannarlega á þessum annars dapra og drungalega degi og fyllir mann bjartsýni fyrir hönd íslenskunnar.