Category: Málfar

Vanskilegt, vanskillegt, vænskilegt

Í rúmlega hundrað ára gömlu sendibréfi sem ég var að lesa um daginn kom fyrir orðið vanskilegt – „Annars er mjög vanskilegt að ná fólki saman til að hlusta á fyrirlestra“. Ég kannaðist svo sem við þetta orð þótt ég hafi ekki rekist á það lengi enda er það mjög sjaldgæft – aðeins 23 dæmi á tímarit.is, þar af aðeins þrjú frá síðasta aldarfjórðungi og öll úr gömlum textum. Í Risamálheildinni eru tvö dæmi til viðbótar. Orðið er ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók er það skýrt 'vandgæfur, vandmeðfarinn, sem erfitt er að gera til hæfis' (um mann) og 'brigðull, ótraustur'. Í Íslenskri orðsifjabók er orðið sagt 19. aldar tökuorð úr vanskelig í dönsku og merkja nokkurn veginn það sama – 'erfiður, vandgæfur, brigðull'.

En á tímarit.is er einnig að finna fjögur dæmi um myndina vanskillegur, með tveimur l-um, og þá mynd er einnig að finna í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 auk þess sem hún er gefin til hliðar við vanskilegur í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar þar sem hún er greind van|skil|legur. Sú greining bendir til þess að orðið hafi ekki alltaf verið skilið sem íslenskun á vanskelig, heldur einnig sem íslensk orðmyndun af nafnorðinu vanskil með viðskeytinu -legur, og stafsetning með tveimur l-um gæti bent til hins sama þótt erfitt sé að fullyrða um það vegna þess að ritháttur var mjög á reiki fyrir daga samræmdrar stafsetningar. En e.t.v. hefur fólk tengt þetta orðum eins og vanskilamaður – merkingin 'brigðull, ótraustur' gæti bent til þess.

Í grein um Kristrúnu í Hamravík eftir Guðmund G. Hagalín í Lesbók Morgunblaðsins 1971 telur Matthías Johannessen vanskilegur upp í hópi orða sem „eiga sér öll danskar fyrirmyndir, en sú merking, sem þau hafa í sögunni, er allt önnur en samsvarandi myndir þeirra hafa í dönsku. Hef ég reynt að finna skýringar á merkingarbreytingum þessara erlendu orða í íslenzku með samanburði við nágrannatungur okkar, en ekki komizt að neinni ákveðinni niðurstöðu í þeim efnum.“ Meðal dæma sem hann tekur um þetta er „Hún, breysk og vanskilleg manneskjan“ og segir: „Danska fyrirmynd þessa orðs er vanskelig (= erfiður), og er merkingarmunurinn augljós.“ Væntanlega á hann við að vanskilleg merki þarna 'brigðul' eða eitthvað slíkt.

En mig rámaði í að ég hefði líka heyrt myndina vænskilegur, með æ í stað a. Þá mynd finn ég ekki í orðabókum en átta dæmi eru um hana á tímarit.is. Mér finnst ég þekkja þessa mynd í merkingunni 'varasamur‘ og a.m.k. sum dæmanna styðja þann skilning. Í Vikunni 1940 segir t.d.: „Einnig þótti þeim stofan á bænum vænskileg til þess að taka þar á sig náðir.“ Í Þjóðviljanum 1970 segir: „sum orð eru svolítið vænskileg og ofnotkun þeirra getur  hæglega leitt til þess, að við hættum jafnvel að taka eftir raunverulegri merkingu þeirra.“ Í Húnavöku 2019 segir: „Þar er áin breið og ekki djúp en flúðir eru þar miklar örskammt neðar og vaðið því vænskilegt ef eitthvað ber útaf.“ En auðvitað er ekki langt á milli 'varasamur' og 'brigðull'.

Hvað sem þessu líður, og hvort sem líta ber á vænskilegur, vanskilegur og vanskillegur sem sama orðið, er ljóst að síðastnefnda myndin er mun eldri í málinu en frá 19. öld, a.m.k. frá fyrsta hluta 18. aldar – „original af so gamalle þyngbók er vanskillegt ad fá“ segir í bréfi Árna Magnússonar frá 1728. Þar og í fleiri 18. aldar dæmum í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans virðist ljóst að merkingin er 'erfiður' eins og í dönsku, en önnur náskyld merkingartilbrigði hafa sennilega þróast síðar. Vel má vera að mismunandi myndir hafi fengið eitthvað mismunandi merkingu, en dæmin eru of fá til að hægt sé að fullyrða nokkuð um það, auk þess sem samhengið sker oft ekki úr um nákvæma merkingu vegna þess hve merking tilbrigðanna er skyld.

Morguns-ár eða morgun-sár?

Framburður orðsins morgunsár var efni nýlegs innleggs í „Málspjalli“. Höfundur innleggsins sagðist nýlega hafa heyrt það borið fram bæði morgun-sár og morguns-ár og hugnaðist síðarnefndi framburðurinn mun betur. Væntanlega er þar vísað til þess að sá framburður endurspegli betur uppruna orðsins því að venjulega er talið að seinni hluti þess sé fremur ár en sár. Hins vegar skiptir uppruninn engu máli fyrir framburðinn – í eðlilegu samfelldu tali væri orðið borið fram á nákvæmlega sama hátt hvor sem uppruninn væri. Vissulega er hægt að gera mun á framburði eftir því hvar meginskilin í orðinu eru talin vera, en það verður aðeins gert með því að slíta orðið dálítið í sundur og það er ekki venjulegur framburður.

En reyndar er sá skilningur að seinni hluti orðsins sé sár og samsetningin því morgun-sár algengur og útbreiddur – og eðlilegur. Gísli Jónsson sagði t.d. í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1986: „En einhvern veginn finnst mér að ekki megi alveg útiloka hugtakið sár í þessu tilfelli. Það virðist kannske fjarstæðukennt í fyrstu að hugsa sér morgunsár. Að vísu telst það venjulega fremur ánægjuefni, þegar grisja tekur í næturhúmið, en er samt ekki um eins konar sár að ræða, þegar það er rofið af morgunbirtunni í austri.“ Þessi skilningur kemur fram í heiti ljóðabókarinnar Það blæðir úr morgunsárinu eftir Jónas Svafár frá 1952, þótt það þurfi ekki að þýða að skáldið hafi skilið orðið á þennan veg – eins víst er að um orðaleik sé að ræða.

Í grein á Vísindavefnum segir að elstu dæmi Ritmálssafns Orðabókar Háskólans um orðið morgunsár séu úr Hómersþýðingum Sveinbjarnar Egilssonar frá því um miðja nítjándu öld –  orðið sé „í raun samsett úr orðunum morgunn og atviksorðinu ár í merkingunni 'árla, snemma'“ og hugsanlegt sé „að hvorugkynið sé orðið til við þann misskilning að orðið sé sett saman úr morgunn og sár.“  En reyndar kemur orðið fyrir þegar í fornu máli, í biblíuþýðingunni Stjórn frá þrettándu öld – vissulega ritað í tvennu lagi en það skiptir ekki máli: „Að morgins ári skylduðu englarnir Lot út að ganga.“ Einnig kemur það fyrir í Hjálmþérs sögu og Ölvis frá sautjándu öld: „Hann vakir, sem hann var vanr; utan í móti morgunsári rann á hann svefnhöfgi.“

Það er líka ástæðulaust að ætla að seinni hluti orðsins sé atviksorðið ár en hvorugkyn orðsins megi rekja til þess skilnings að seinni hlutinn sé nafnorðið sár. Hvorugkynsorðið ár í merkingunni 'tíminn í öndverðu, mjög snemma' var nefnilega til í málinu en er merkt „fornt/úrelt“ í Íslenskri orðabók. Sambandið um morguninn í ár kemur fyrir nokkrum sinnum í fornu máli. Í Hrólfs sögu Gautrekssonar segir t.d.: „Um morguninn þegar í ár býr konungur lið sitt og fer þegar til borgarinnar.“ Í Rémundar sögu keisarasonar segir: „konungsson vaknar um morguninn í ár.“ Það er því varla nokkur vafi á að orðið er myndað af karlkynsorðinu morgunn og hvorugkynsorðinu ár – þótt skilningurinn morgun-sár sé eiginlega mun skemmtilegri.

Páskar

Í „Málspjalli“ var nýlega spurt hvenær hefði verið farið að tala um páskadag sem páskasunnudag, sem heyrðist nú í auglýsingum og víðar – og sagt að páskalaugardagur hefði jafnvel heyrst um laugardaginn fyrir páska. Orðið páskasunnudagur er reyndar ekki nýtt þótt sjaldgæft sé – nokkuð á annað hundrað dæmi eru um það á tímarit.is, það elsta í Vísi 1937: „Óeirðasamt var í Belfast á Írlandi páskasunnudag.“ Meginhluti dæmanna er þó frá síðustu þrjátíu árum. Tæp 120 dæmi eru um orðið í Risamálheildinni þar sem eru að langmestu leyti textar frá þessari öld. Notkun orðsins fer því greinilega vaxandi og er ekki ótrúlegt að þar gæti áhrifa frá Easter Sunday í ensku. En þetta gefur tilefni til að fjalla dálítið um orðið páskar.

Þetta er vitanlega tökuorð sem kom inn í málið með kristninni úr miðlágþýsku en er upphaflega úr arameísku eða hebresku samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. Orðið hefur nánast alltaf verið haft í fleirtölu þótt einstöku dæmi megi finna um eintölumyndina páski, en hins vegar var bæði kyn þess og fleirtöluending á reiki áður fyrr eins og Árni Björnsson rekur í Sögu daganna. Í fornu máli eru dæmi um orðið í kvenkyni álíka mörg og karlkynsdæmi. Í Strengleikum frá 13. öld segir t.d.: „dvaldist í Bretlandi til þess er páskar voru liðnar.“ Þarna er notuð fleirtalan páskar eins og í karlkyni en oftast er fleirtalan þó -ir þegar orðið er haft í kvenkyni: „og fá presti í hendur fyrir páskir“ segir í Kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar frá um 1300.

Kvenkynið páskir hélst í málinu fram á nítjándu öld. Í Skírni 1828 segir: „allir Rússar […] ferdudust annadhvört til Flórenz edr Lívornó til ad halda páskir og adrar hátídir sínar.“ Í Íslands Árbókum Jóns Espólíns frá fyrsta hluta 19. aldar segir: „Tók Ögmundur biskup vel við hönum og lét setja hönum drykkjuborð í einni stofu um páskirnar.“ Í Æfisögu Þórðar Sveinbjarnarsonar frá miðri 19. öld segir: „Um vorið um páskir skilaði Jón prestur mér heim til föður míns.“ Í Orðabók Björns Halldórssonar í Sauðlauksdal frá seinni hluta 18. aldar er myndin páskir hins vegar gefin sem karlkynsorð en myndin páskar talin „vulgo“, þ.e. alþýðumál. Engin dæmi um páskir – hvorki í karkyni né kvenkyni – eru yngri en frá 19. öld.

Í færeysku hefur myndin páskir hins vegar tíðkast alla tíð og verið kvenkynsorð – fram undir þetta. En nú um páskana birtist eftirfarandi færsla á Facebook-síðu færeyska Málráðsins: „Eitur tað gleðiligar páskir ella gleðilig páskir? Eldri – og rættari – er at siga gleðiligar páskir (kvennkyn). Í dag er tó vorðið so vanligt at hoyra páskir sum hvørkikynsorð, ið er yngri formur, at Stavsetingarorðabókin hevur báðar møguleikarnar: upprunaformin ‘páskirnar’ (kvennkyn, bundið) og yngra formin ‘páskini’ (hvørkikyn, bundið).“ Það er sem sé orðið svo algengt að hafa páskir í hvorugkyni að hin opinbera færeyska Stavsetningarorðabók er búin að taka inn bæði kvenkyns- og hvorugkynsmyndir með greini – páskirnar í kvenkyni, páskini í hvorugkyni.

Vissulega hefur svipuð þróun stundum orðið í íslensku og færeysku en litlar líkur eru á að svo verði í þessu tilviki – þótt -ar sé algeng nefnifallsending í fleirtölu bæði í karlkyni og kvenkyni í íslensku eru sterk hvorugkynsorð ævinlega endingarlaus í nefnifalli fleirtölu. En svo að komið sé aftur að spurningunni sem varð tilefni þessa pistils er ljóst að þótt orðið páskasunnudagur sé ekki nýtt er það tiltölulega mjög sjaldgæft og litlar líkur á því að það hrófli við orðinu páskadagur – vitanlega er sjálfsagt að halda sig við hefðina og óþarfi að lengja orðið. Aftur á móti finnst mér orðið páskalaugardagur sem fimm dæmi eru um á tímarit.is, það elsta frá 1944, ekki sem verst og koma vel til greina í staðinn fyrir langlokuna laugardagurinn fyrir páska.

Eru strandaglópar glópar?

Í „Málspjalli“ var í dag – og raunar ekki í fyrsta skipti – verið að gera athugasemd við notkun orðsins strandaglópur um fólk sem ekki kemst leiðar sinnar vegna atvika sem það hefur enga stjórn á. Orðið kemur fyrir í fornu máli í myndinni strandarglópur, og er þar notað í bókstaflegri merkingu eins og Jón G. Friðjónsson bendir á í Merg málsins – í Sturlungu segir t.d.: „kemur hann norðan að firði, þá er skipið létt út, og er orðinn strandarglópur“, þ.e. „missir af skipinu og stendur sem glópur á ströndinni – glápir á skipið sigla frá landi“ segir Jón. En hann bendir einnig á að yfirfærð merking er þekkt úr bréfi í Biskupsskjalasafni frá 17. öld – „því bréf mín sem út eiga að sendast með norðanskipum kalla sjálf að skuli þau ei verða strandaglópar“.

Þarna er orðið notað um bréf og fleiri dæmi eru um að það sé notað um hluti, en vissulega er það oftast haft um fólk. Það er skýrt 'sá eða sú sem verður eftir e-s staðar' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'maður sem verður af skipi eða öðru farartæki' eða 'sá sem er stöðvaður á ferð sinni og kemst ekki lengra' í Íslenskri orðabók. Í Merg málsins er sambandið verða strandaglópur e-s staðar skýrt 'verða of seinn; einangrast e-s staðar'. Sumum þátttakendum í umræðunni í dag fannst orðið hins vegar óheppilegt og neikvætt vegna þess að glópur merkir 'kjáni, flón‘' en því fer fjarri að glópska valdi því alltaf að fólk verði strandaglópar.

Það er alkunna að merking samsettra orða er fjarri því að vera alltaf summa eða fall af merkingu orðhlutanna. Þegar samsetning er komin í verulega notkun getur hún farið að lifa sjálfstæðu lífi og slitið sig að meira eða minna leyti frá uppruna sínum eins og ég hef margoft skrifað um. Í þessu tilviki er ljóst að þrátt fyrir upprunann tengja málnotendur nútímans orðið yfirleitt hvorki við nafnorðið strönd né nafnorðið glópur, heldur við sögnina stranda í merkingunni 'komast ekki áfram', 'komast ekki leiðar sinnar' – orðhlutinn -glópur gegnir bara því hlutverki að vísa til einstaklings. En vissulega er ekki óeðlilegt að orðhluti sem er svo neikvæður þegar hann er sjálfstætt orð trufli sumt fólk og leiði til þess að því finnist orðið gildishlaðið en ekki hlutlaust.

Ég er að fara ufrum

Í gær skrifaði ég hér um framburðinn indir fyrir undir sem var bundinn við Norðurland en er nú sennilega alveg horfinn. En annað norðlenskt dæmi um víxl i (y) og u er öllu þekktara og lifir góðu lífi – framburðurinn ufrum, ufrí og ufrá á yfir um, yfir í og yfir á. Slík víxl má rekja til þess þegar y táknaði sérstakt hljóð í málinu – frammælt kringt hljóð sem var ekki langt frá u. Þegar y hætti að vera sérstakt hljóð fengu flest orð með því i eins og þau hafa nú, en fáein orð fóru stundum í hina áttina og fengu u í staðinn, og því urðu til ýmsar tvímyndir – ukkur, spurja, smurja, kjur, drukkur o.fl. við hlið ykkur, spyrja, smyrja, kyrr og drykkur. Myndir með u eru oftast taldar óformlegri og sjaldan notaðar í riti, og eru líklega flestar á undanhaldi.

Forsetningin yfir ein og sér er aldrei borin fram *ufir – framburður með u kemur eingöngu fyrir í sambandi við aðra forsetningu, og aðeins ef áherslulausa i-ið í öðru atkvæði fellur brott þannig að framburðurinn verður ufr- – *ufirum er ekki til. Í texta sem börn lásu í mállýskurannsókn Björns Guðfinnssonar upp úr 1940 var ritað yfrum í stað hins viðurkennda ritháttar yfir um til að reyna að fá fram framburðinn ufrum. Í rannsókn Björns kom þessi framburður mun sjaldnar fyrir en framburðurinn indir – aðeins í örfáum tilvikum á Norðurlandi, einkum í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði. En öfugt við indir lifir ufrum góðu lífi, a.m.k. í Skagafirði þar sem þetta er nánast orðið héraðseinkenni og eitt af því sem Skagfirðingar eru stoltir af.

Í Króksbók sem Rotaryklúbbur Sauðárkróks gaf út 1993 segir: „Það þykir gott að nota mikið b- og u-hljóð, eins og t.d. í ufrum, þegar farið er yfir um. […] Ég habbðiða gott þegar ég var kominn ufrum.“ Í þetta er vitnað í Morgunblaðinu 1996 og bætt við til skýringar: „Í þessu sambandi er rétt að geta þess að það að fara austur yfir Héraðsvötn kalla Króksarar að fara yfir um – ufrum.“ Það orðalag virkar í báðar áttir – þegar ég er í Blönduhlíðinni austan Vatna fer ég ævinlega ufrí Varmahlíð eða ufrum og gæti ekki með nokkru móti sagt yfir um eða yfrum. En í mínu máli, og líklega annarra Skagfirðinga sem hafa þennan framburð, gildir það eingöngu um þessa tilteknu ferð, yfir Vötnin – ég segði t.d. ég er alveg að fara yfir um en alls ekki *ufrum.

Myndirnr ufrum, ufrí og ufrá eru því í raun sérstök og sjálfstæð orð. Það er ekki við því að búast að finna á prenti mörg dæmi sem sýni þennan framburð, en þau örfáu sem finna má á tímarit.is frá seinni árum tengjast nær öll Skagafirði og Héraðsvötnum. Á árum áður hefur þetta þó væntanlega verið notað víðar um ferðir milli byggða yfir fljót eða firði – ég rakst á eitt dæmi um að það hefði verið notað um ferðir milli Akureyrar og Svalbarðsstrandar á seinni hluta síðustu aldar og annað úr Svarfaðardal frá fyrri hluta aldarinnar. Þótt framburðurinn sé vel þekktur í Skagafirði enn í dag, og virðist tengjast Skagafirði í huga margra, veit ég svo sem ekki hversu útbreiddur hann er meðal Skagfirðinga eða hvort ungt fólk tileinkar sér hann.

Indir

Muna einhver eftir því að hafa heyrt – eða jafnvel sagt – indir með i í stað undir? Þessi framburður þekktist áður fyrr en er líklega alveg horfinn nú. Í Mállýzkum II eftir Björn Guðfinnsson segir frá því að í rannsóknum hans á framburði 10-14 ára barna um allt land upp úr 1940 hafi þessi framburður komið fyrir í samsetningunum undireins, undirferli og undirsæng – orðið undir kom ekki fyrir sem sjálfstætt orð í rannsókninni. Þessi framburður kom eingöngu fyrir á Norðurlandi, allt frá Vestur-Húnavatnssýslu til Suður-Þingeyjarsýslu, en var algengastur í Skagafirði, Eyjafirði og á Siglufirði. Það var þó aðeins lítill hluti barnanna í rannsókninni sem hafði þennan framburð, og ekkert þeirra hafði hann í öllum orðunum þremur.

Þegar ég var á sjötta ári kom rafmagn heima hjá mér og um leið Rafha eldavél. Á henni voru fimm snerlar og fyrir ofan hvern um sig bókstafur – V, U, A, Y, H. V þýddi „vinstri hella“, A „afturhella“ og H „hægri hella“, og það fannst mér nokkuð gagnsætt en áttaði mig ekki á U og Y fyrr en það var útskýrt fyrir mér að þetta tengdist bakarofninum – U táknaði „undirhiti“ og Y „yfirhiti“. Ég var um það bil að verða læs og þekkti hljóð allra bókstafanna – vissi að bæði I og Y höfðu hljóðið i, en hef væntanlega ekki verið farinn að pæla neitt í því hvenær hvor bókstafurinn væri notaður. Ég man nefnilega eftir því að mér fannst Y á eldavélinni ruglandi og spurði hvernig ætti að vita hvort það stæði fyrir indirhita eða ifirhita.

Þetta sýnir væntanlega að ég hef sagt indir í æsku – a.m.k. hefur sá framburður tíðkast í málumhverfi mínu á þessum tíma, Skagafirði austan Vatna árið 1960. Ég man samt ekkert eftir því – við tökum yfirleitt ekki eftir því hvernig fólkið sem við ölumst upp hjá talar nema við heyrum eitthvað óvenjulegt. Ég man til dæmis eftir því að gamlir menn í málumhverfi mínu sögðu höndur og tönnur þannig að það hefur aldrei verið mitt mál. Ástæðan fyrir því að ég man eftir áðurnefndu atviki er líklega sú að fullorðna fólkinu fannst þetta fyndið og það var hlegið að þessu – örugglega góðlátlega, en svoleiðis getur setið í börnum. Ég þakka samt fyrir það núna, því að þetta er eini vitnisburðurinn sem ég hef um framburðinn indir í mínu máli.

Sjónarvitni

Í fyrirsögn á vef Heimildarinnar í dag kemur fyrir orðið sjónarvitni sem kom greinilega mörgum spánskt fyrir sjónir og varð ýmsum að hneykslunarefni. Blaðamanninum var bent á að reyna aftur, „og nú á íslensku“; spurt hvers vegna þyrfti að beinþýða orð úr ensku þegar mörg orð sömu merkingar væru til í íslensku og öll betri; spurt hvort Heimildin þyrfti að ráða  prófarkalesara; spurt hvort viðkomandi blaðamaður væri „fullur af gervigreind; sagt að það væri „gaman ef fréttamiðlar tilkynntu hvar blaðamenn þeirra lærðu íslensku“; talað um „hráþýðingu“, „nýíslensku“, o.fl. Það dró heldur úr hneyksluninni þótt henni linnti ekki alveg þegar bent var á að sjónarvitni er „góð og gild íslenska og hefur verið notað allt frá 16. öld“.

En orðið er reyndar miklu eldra. Um það finnast ein ellefu dæmi í fornu máli samkvæmt Ordbog over det norrøne prosasprog, það elsta í handriti lögbókarinnar Járnsíðu frá áttunda áratug þrettándu aldar: „og kemur víglýsing og sjónarvitni fram.“ Annað dæmi er úr Kristnirétti Árna biskups frá því um 1300: „það skal vera sjónarvitni sem skírskotað er undir.“ Orðið sjónarvottur sem mörgum fannst að blaðamaður Heimildarinnar hefði átt að nota kemur hins vegar ekki fyrir í fornu máli – elsta dæmi um það er í fyrsta árgangi Minnisverðra tíðinda frá 1796: „eg bæti því adeins vid, til sanninda merkis, ad Sóknar-presturinn þar, er siónar-vottur þessa vidburdar.“ En orðið er þegar á nítjándu öld margfalt algengara en sjónarvitni.

Þótt orðið sjónarvitni sé vissulega sjaldgæft er hvorki ástæða til að ætla að það sé beinþýðing úr ensku sem vilji svo til að sé samhljóma gömlu íslensku orði, né að það sé tilgerð blaðamanns sem hafi rekist á það í fornum textum og ákveðið að nota það sem smellubeitu í fyrirsögn eins og nefnt var í umræðunni. Það verður nefnilega ekki betur séð en orðið hafi haldist í málinu alla tíð og er bæði að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 og Íslenskri orðabók. Rúm sextíu dæmi eru um það á tímarit.is, þar af fjögur frá þessari öld, en samtals fjörutíu frá sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Orðið er hins vegar of sjaldgæft til að hafa komist inn í Íslenska nútímamálsorðabók, en er að finna í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls.

Hitt er annað mál að merking orðsins virðist hafa breyst svolítið frá fornu máli – þar merkir það oftast 'vitnisburður', þ.e. vísar ekki til persónu – sjónarvotts – heldur til frásagnar. Í Íslensk-danskri orðabók er gerður munur á skýringu orðanna sjónarvottur og sjónarvitni – það fyrrnefnda er skýrt 'Öjenvidne' en það síðarnefnda 'et Öjenvidnes Vidnesbyrd'. En í Íslenskri orðabók eru orðin spyrt saman og skýrð 'sá sem hefur orðið vitni að e-u, séð atburð gerast' og þannig virðist sjónarvitni yfirleitt hafa verið notað undanfarnar aldir ef marka má dæmin í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans. Það er því nákvæmlega ekkert athugavert við að nota orðið sjónarvitni eins og gert var í Heimildinni – miklu fremur lofsvert að blása lífi í sjaldgæft orð.

Fimmið, sexið, sjöið – fimman, sexan, sjöan

Í greininni „Læknið íslenska tungu“ eftir V.G. (væntanlega Vigfús Guðmundsson) sem birtist í Fálkanum 1929 eru talin ýmis „mállýti“ og bent á hvernig þau „mætti ögn betur af munni mæla“ að mati höfundar. Eitt þessara „mállýta“ er „fimman (spil, og sexan, sjöan)“ sem höfundur vill hafa „fimmið (sexið, sjöið)“ – sem sé hafa þessi spilaheiti í hvorugkyni en ekki kvenkyni sem greinilega hefur einnig tíðkast á þessum tíma. Í spurningadálknum „Póstinum“ í Vikunni 1943 var spurt: „Hvort eru spilin 5, 6 og 7 kvenkyns eða hvorugkyns ? Á að segja fimman eða fimmið o.s.frv.?“ „Póstinum“ varð ekki svarafátt frekar en endranær og sagði: „Við leituðum að þessu í orðabók Sigfúsar Blöndal og hefir hann þar kvenkyn á þessum spilum.“

En reyndar skjöplast „Póstinum“ þar – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hvorugkynið nefnilega aðalmynd þessara orða þótt kvenkynsmyndirnar séu einnig nefndar. Við kvenkynsorðið fimma er vísað á hvorugkynsorðið fimm, en við bæði sexa og sjöa stendur „(Múl.)“ á eftir skýringunni – kvenkynsmyndirnar eru sem sé taldar staðbundnar við Múlasýslur. Í Íslenskri orðabók frá 1963 og síðari útgáfum eru bæði kvenkyns- og hvorugkynsmyndirnar gefnar athugasemdalaust án þess að gert sé upp á milli þeirra, en í Íslenskri nútímamálsorðabók eru aðeins kvenkynsmyndirnar gefnar en orðin fimm, sex og sjö er þar aðeins að finna sem töluorð. Hvorugkynsmyndirnar virðast því vera að hverfa úr málinu.

Ef marka má tímarit.is tíðkuðust bæði kvenkyns- og hvorugkynsmyndirnar mestalla tuttugustu öldina en hvorugkynið var lengi framan af öllu algengara. Ég ólst upp við hvorugkynsmyndirnar í Skagafirði um 1960 og held að ég hafi ekki þekkt kvenkynsmyndirnar á þeim tíma, en kynntist þeim síðar og hef sennilega tekið þær upp þótt ég tali svo sjaldan um spil að ég átti mig ekki alveg á því hvað ég myndi segja núna. Í greininni „Hvernig á að tala íslensku?“ í Morgunblaðinu 1983 nefnir Höskuldur Þráinsson prófessor þetta sem dæmi um landshlutabundin tilbrigði og segir: „sumir segja fimman, sexan, sjöan, aðrir fimm, sex, sjö.“ En upp úr 1970 tóku kvenkynsmyndirnar ótvíræða forystu en hvorugkynsmyndum fækkaði smátt og smátt.

En fjölgun dæma um kvenkynsmyndirnar má reyndar ekki eingöngu rekja til spilanafna, heldur stafar ekki síður af því að farið var að nota þær um strætisvagnaleiðir í Reykjavík – fimman, sexan, sjöan. Ég veit ekki hvenær sú notkun hófst en sennilega eftir að nýtt leiðakerfi Strætisvagna Reykjavíkur var tekið upp vorið 1970. Þá fækkaði leiðum mjög og voru í upphafi ellefu, en höfðu áður verið á þriðja tug. Með þessari fækkun voru komnar forsendur fyrir því að nota spilaheiti á flestar leiðir og fljótlega urðu til ný kvenkynsorð með sama sniði – ellefan og einnig tólfan þegar leiðum fjölgaði enn. Bæði þessi nýju orð er að finna í Slangurorðabókinni frá 1983. Hvorugkynsmyndirnar fimmið, sexið, sjöið virðast aldrei hafa gegnt þessu hlutverki.

Það er ekki hægt að fullyrða neitt um það hvers vegna kvenkynsmyndirnar urðu ofan á og hvorugkynsmyndirnar hurfu nánast úr málinu, en þó er ekki ólíklegt að áhrif frá kvenkynsheitunum átta, nía og tía hafi spilað þar inn í – ég tala nú ekki um þegar ellefa og tólfa bættust við. Á seinni árum hefur hvorugkynsorðið sex líka fengið aukamerkingu af enskum uppruna í (óformlegri) íslensku sem gæti haft áhrif í þá átt að fólk veigraði sér við að nota orðið sem spilaheiti. Einnig má benda á að kvenkynsmyndirnar eru í vissum skilningi skýrari og ótvíræðari en hvorugkynsmyndirnar – fimma, sexa og sjöa eru einvörðungu nafnorð en nafnorðin fimm, sex og sjö falla saman við töluorðin fimm, sex og sjö.

Hvernig hefurðu það? – Hafðu það gott

Í umræðu um kveðjuna hafðu góðan dag sem ég vísaði til í nýlegum pistli kom fram að sumum finnst hafðu það gott í dag vera íslenskulegri kveðja en hafðu góðan dag, en þó var bent á að áður hefði verið amast við fyrrnefndu kveðjunni vegna uppruna hennar. Í grein Sigríðar Sæunnar Sigurðardóttur í Íslensku máli 2020 nefnir hún að sér hafi verið „bent á að íslenska kveðjan Hafðu það gott […] hafi á árum áður verið talin dönsk kveðja“ en segist ekki hafa „fundið beinar heimildir um það“ þótt hún bendi á að hliðstæð sambönd séu til í nágrannamálum, svo sem Ha det godt í dönsku. Á tímarit.is eru nokkur gömul dæmi að amast sé við sambandinu hafðu það gott, og skyldri spurningu – hvernig hefurðu það?

Í Reykvíkingi 1928 skrifar „Stafkarl“ um samtal tveggja stúlkna sem hann varð áheyrsla og segir: „Heyrið þið stúlkur! Ég veit að það eru margir karlmenn sem tala vont mál, en þið eruð yfirleitt verri.“ Eitt af því sem hann nefnir því til sannindamerkis er að önnur stúlkan hafi sagt „Nei, hvernig hefurðu það?“ og bætir við: „Mig dauðlangaði til þess að spyrja hana að því, hvað þetta „það“ væri, en af því ég veit að ég er 40 árum of gamall til þess ungar stúlkur hafi gaman að tala við mig, þá hafði ég vit á að þegja.“ „Stafkarl“ er ekki einn um að velta þessu fyrir sér – í áðurnefndri grein Sigríðar Sæunnar í Íslensku máli segir: „Þrátt fyrir að óljóst sé til hvers það í dæmum sem þessum vísar má telja líklegt að upphaflega hafi það verið vísandi.“

Í grein í Fálkanum 1929 eru tínd til ýmis „mállýti“ og bent á hvernig þau „mætti ögn betur af munni mæla“. Í stað „Hafðu það gott“ er lagt til að sagt sé „Líði þjer vel, farnist þjer vel, vegni þjer vel“, og í stað „Hvernig hefurðu það?“ má hafa „Hvernig líður þjer? Hvernig vegnar þjer? Hversu líkar þjer nú?“ Í Vísi 1939 segir: „Ný orðskrípi, setningaglundroð og heilar setningar (t.d. „Hafðu það gott“) spilla máli voru miklu meira, en nafnorðin sum, sem lengi hafa verið notuð.“ Í Fálkanum 1942 segir: „Þú átt ekki að ávarpa kunningja þinn með þessum orðum: Hvernig hefurðu það? […] Hafðu það gott. Vertu ekki að apa þetta eftir Dönum. Talaðu hreina íslensku, og mæltu heldur við kunningjann: Hvernig líður þjer? […] Líði þjer vel.“

Síðastnefnda dæmið er úr grein sem heitir „Verndun móðurmálsins“ og er eftir Vigfús Guðmundsson. Hinum dæmunum fylgir ekki höfundarnafn heldur aðeins upphafsstafirnir V.G. og má telja næsta víst að um sama höfund sé þar að ræða, sem og á lesendabréfi með sömu upphafsstöfum í Morgunblaðinu 1951 þar sem segir: „Í stað […] gamallra og góðra siða og einfaldrar íslensku er nú farið að særa íslenskt eyra og spilla tungu vorri með margs konar aurslettum útlendum. Til dæmis tek jeg hjer einungis ávörpin dönsku: „Hvernig hefurðu það?“ og „hafðu það gott“, í staðinn fyrir „hvernig líður þjer?“ og „líði þjer vel“.“ En Vigfús var vissulega ekki einn um að amast við hafðu það gott og hvernig hefurðu það?

Í Hlín 1954 skrifar „íslenskumaður“: „„Hafðu það gott“ – Það er nú orðin algeng kveðja á Íslandi. – Þetta er svo sem ekkert ljótt. – En hvaðan úr fj., liggur mjer við að segja, er þetta orðskrípi komið inn í daglegt mál? – Ekki er hægt að kenna Ameríku um það. – Nei, það er bara þýðing á norskri eða danskri kveðju. – Er þetta nokkuð þægilegra en að segja: „Líði þjer vel.“ – Látum oss leggja niður þennan leiðinlega sið. – Skólarnir þurfa að taka sig til og herja á þetta orðskrípi, áður en það verður landlægt.“ Sjálfsagt má finna fleiri gömul dæmi um að amast hafi verið við þessum samböndum þótt ég hafi ekki rekist á þau í fljótu bragði, en ég kannast ekki við að gerðar hafi verið athugasemdir við þau á síðustu áratugum.

Bæði samböndin virðast koma inn í málið í byrjun tuttugustu aldar. Elsta dæmi sem ég finn um hvernig hefurðu það? er í Þjóðhvelli 1909: „Hvernig hefurðu það, Imba mín; þú ert vel frísk?“ Elsta dæmi um hafðu það gott er í Dropum 1929: „Vertu nú blessuð og sæl, Stína mín, og hafðu það gott.“ Hvorugt sambandið verður þó sérlega algengt fyrr en á þessari öld og þá er farið að nota þau sem staðgengil fyrir það sem þykir enskulegt orðalag, eins og sjá má í grein í DV árið 2000: „Menn segja ekki: – Hafðu góða ferð. Menn segja: – Hafðu það gott.“ Þetta er gott dæmi um það hvernig málfar sem (sumum) þótti áður forkastanlegt er tekið í sátt og verður gott og gilt þegar við eignumst nýjan óvin. Svo skal böl bæta að bíða annað meira.

Hafðu góðan dag

Ég rakst í gær á umræðu á Facebook um kveðjuna Hafðu góðan dag og meintan uppruna hennar í ensku. Ég hef vikið að þessu áður og oft er bent á að kveðjan á sér beinar fyrirmyndir í fornum textum, svo sem „Haf góðan dag, herra“ í Stúfs þætti og „Haf góðan dag frú“ í Ólafs sögu Tryggvasonar. Eftir að ég skrifaði um þetta hefur Sigríður Sæunn Sigurðardóttir gert sambandinu ítarleg skil í grein í Íslensku máli 2020. Hún bendir á að í ofangreindum dæmum er um heilsun að ræða, en sambandið kemur einnig fyrir sem brottfararkveðja eins og það er notað í nútímamáli: „Og er Þórarinn heyrði svör hennar þá bað hann drottningu að hafa góðan dag“ segir í Ólafs sögu Tryggvasonar. Lokaorð greinar Sigríðar Sæunnar eru þessi:

„Af ofangreindri umræðu má ráða að orðasambandið Hafðu góðan dag hafi ratað tvisvar sinnum inn í íslensku í hlutverki kveðju. Í fyrra skiptið kom það inn í málið á 13. öld, eða örlítið fyrr, og festist í sessi sem heilsan. Í þeirri notkun hefur sögnin hafa (í boðhætti) fallið brott, hugsanlega tiltölulega snemma. Í síðara skiptið kom orðasambandið inn í málið, að því er virðist, á síðari hluta 20. aldar og var notað sem brottfararkveðja. Líklegt er að tilhneiging til að halda heilsunum og brottfararkveðjum formlega aðgreindum komi í veg fyrir að sögnin falli þar brott. Þrátt fyrir að Hafðu/Eigðu góðan dag megi rekja til erlendra áhrifa má segja að ýmislegt í íslensku málkerfi og íslenskri málnotkun ýti undir uppkomu hennar og notkun.“

Í umræðu um þetta á Facebook í gær var sagt að þessi dæmi úr fornsögum „skiptu ekki nokkru máli“ og spurt hvort það væri „kannski líklegt að íslenskir leigubílstjórar nútímans hafi farið að lesa þessar fornsögur og ákveðið að haga málfari sínu eftir þeim“. Ýmsir leigubílstjórar hafa raunar verið bókmenntalega sinnaðir, en á bak við þetta liggur sú afstaða að sambandið hafðu góðan dag sé óæskilegt vegna ensks uppruna síns. Væntanlega felst þá líka í þessu sú afstaða að sambandið væri gott og gilt ef hægt væri að sýna fram á að notkun þess í nútímamáli ætti sér rætur í fornu máli, hvort sem sú saga væri óslitin eða sambandið hefði beinlínis verið tekið upp úr fornu máli á meðvitaðan hátt eins og dæmi eru um, svo sem orðið og samsetningar af því.

Það er lítill vafi á því að framangreind niðurstaða Sigríðar Sæunnar er rétt – notkun sambandsins hafðu (eða eigðu) góðan dag í nútímamáli er tilkomin fyrir ensk áhrif. Spurningin er hins vegar hvort við eigum að láta það ráða afstöðu okkar til sambands sem er í fullkomnu samræmi við íslenskt mál og kemur auk þess fyrir í fornu máli. Þá er í raun og veru verið að láta enskuna ráða afstöðu okkar til íslensks orðasambands og vanhelga það, ef svo má segja. Hitt er annað mál að auðvitað er ekkert við það að athuga þótt kveðjan hafðu/eigðu góðan dag falli ekki að smekk allra og ýmsum finnist njóttu dagsins fallegri kveðja – þrátt fyrir að hún eigi sér óumdeilanlega upphaf í ensku fyrir þrjátíu árum eða svo en engar fyrirmyndir í fornu máli.