Category: Málfar

Kolsvört PISA-skýrsla

Í skýrslu um niðurstöður PISA-prófsins 2022 sést að frammistaða íslenskra nemenda dalar bæði í samanburði við önnur lönd og fyrri próf:  „Frammistaða íslenskra nemenda í PISA 2022 var undir meðaltali OECD-ríkja og undir meðalframmistöðu jafnaldra þeirra á Norðurlöndunum á öllum þremur sviðum PISA […]. Frammistaða íslenskra nemenda hefur dalað frá því í síðustu fyrirlögn árið 2018 á PISA sviðunum þremur um sem nemur á bilinu 28–38 PISA-stigum [...]. Frammistaða dalaði einnig á sama tímabili í mörgum þátttökulöndum í stærðfræðilæsi og lesskilningi [...]. Lækkunin hér á landi var engu að síður nokkuð mikil í samanburði við önnur lönd, sérstaklega í lesskilningi (38 stig) og í læsi á náttúruvísindi (28 stig) [...].“

Það er athyglisvert að íslenskir unglingar skuli standa jafnöldrum sínum í öðrum OECD-ríkjum að baki á öllum þremur sviðum. Ég er nokkuð viss um að ástæðan fyrir því er sú sama – ófullnægjandi lesskilningur. PISA-prófin í náttúrufræði og stærðfræði byggjast fyrst og fremst upp á texta og nemendur sem ekki hafa nægilega góðan lesskilning koma því ekki vel út á þeim – skilja e.t.v. ekki um hvað er verið að biðja þótt þeir viti í raun og veru svarið. Vægi lesskilnings er sennilega minna í stærðfræðiprófinu en í náttúrufræði og því koma íslenskir unglingar skár út þar. Íslensk þýðing PISA-prófanna hefur reyndar ekki alltaf verið nógu góð og því má setja spurningarmerki við samanburð við önnur lönd, en samanburður við fyrri próf er samt gildur.

Fyrir fjórum árum skrifaði ég: „Þrátt fyrir að hafa miklar efasemdir um marktækni íslenska PISA-prófsins finnst mér ekki ástæða til að draga í efa að lesskilningi íslenskra ungmenna fari hrakandi, en ég held að það endurspegli fyrst og fremst veikari stöðu íslenskunnar í málsamfélaginu á síðustu árum en áður – sem ýmsar vísbendingar eru um. Það hefur margsinnis verið bent á hvernig samfélags- og tæknibreytingar hafa þrengt að íslenskunni undanfarinn áratug. Börn og unglingar eru í miklu meiri tengslum en áður við enskan málheim og lesa minna á íslensku. Það getur leitt til þess að þau tileinki sér ekki ýmis orð og setningagerðir sem eru forsenda þess að skilja fjölbreytta texta til hlítar. Þróunin ætti því ekki að koma á óvart […].“

Ástæðurnar fyrir því að íslenskir unglingar standa sig ekki betur á PISA-prófinu geta auðvitað verið ýmsar en ég held að tvær skipti mestu máli. Annars vegar er ég hræddur um að málsnið prófanna og orðaval sé ekki rétt – textinn sé einfaldlega of þungur miðað við það sem hægt er að ætlast til að unglingar á þessum aldri ráði við. Ég hef ekki séð síðustu próf og get því ekkert fullyrt um þetta, en miðað við athugun mína á fyrri PISA-prófum sem ég hef skrifað um finnst mér þetta ekki ólíklegt. En hins vegar er svo trúlegt að orðaforði íslenskra unglinga sé einfaldlega minni en hann ætti og þyrfti að vera, ekki síst vegna langdvala í enskum málheimi. Þetta er þó ekki það eina sem ástæða er til að hafa áhyggjur af – annað er ekki síður skuggalegt:

„Skýr merki eru um aukningu í ójöfnuði í námsárangri nemenda í PISA á Íslandi, út frá félags- og efnahagslegum bakgrunni nemenda, sérstaklega í lesskilningi. [...] Þegar ójöfnuður í námsárangri eykst yfir tíma má segja að frammistaða sé í meira mæli háð félags- og efnahagslegri stöðu foreldra nemenda en áður. Afleiðingar af því geta birst á öðrum sviðum samfélagsins og eru merki um aukinn stéttamun í tækifærum til menntunar og starfa í framtíðinni. Slíkt getur einnig verið merki um minnkandi félagslegan hreyfanleika í samfélaginu þar sem tækifæri barna verða í meira mæli háð þeim aðstæðum sem þau fæðast inn í m.t.t. efnahagslegra aðstæðna foreldra og félagslegu stöðu þeirra í lagskiptu samfélagi.“

Þarna er að koma í ljós það sem ég hef lengi haft áhyggjur af – stóraukin málfarsleg stéttaskipting. Það er hætta á að börn fólks með lágar tekjur og litla menntun, að ekki sé talað um börn fólks af erlendum uppruna, nái ekki nægilegu valdi á tungumálinu og sitji eftir – detti út úr skóla og eigi sér ekki viðreisnar von. Þau verða föst í láglaunastörfum og barna þeirra, þegar þar að kemur, bíða sömu örlög. Það ætti ekki að þurfa að fara mörgum orðum um hversu hættuleg þessi þróun er – auðvitað fyrir fólkið sjálft, en ekki síður fyrir samfélagið. Þetta er ávísun á stórkostleg vandræði í framtíðinni, og því miður verður ekki séð að verið sé að taka á þessu. Ný aðgerðaáætlun um eflingu íslenskrar tungu gerir það a.m.k. ekki.

Vísandi kyn og sjálfgefið málfræðilegt karlkyn

Ég í Málvöndunarþættinum að fólk var að reka hornin í fyrirsögnina „Hver komast í úrslit?“ í frétt um spurningaþáttinn „Kviss“ á síðu Stöðvar tvö fyrir helgi. Sumum fannst að þarna ætti frekar að vera hverjir komast í úrslit þar eð venja væri að nota sjálfgefið málfræðilegt karlkyn (karlkyn í kynhlutlausri merkingu) í slíkum setningum, og það hefði vissulega getað staðist. En í umræddum þætti kepptu tvö lið, hvort skipað karli og konu. Það var því ljóst að hvort liðið sem ynni yrðu það karl og kona sem kæmust í úrslit og vegna þess að það er vitað er eðlilegt að nota hvorugkyn fleirtölu, hver. „Hvorugkynið er sem sé ekki kynhlutlaust í þessu samhengi heldur vísandi, hlýtur að vísa í blandaðan hóp“ eins og Höskuldur Þráinsson hefur bent á.

Í frétt Vísis um tilnefningar til íslensku bókmenntaverðlaunanna var aftur á móti notað karlkyn – „Þessir eru tilnefndir til hinna Íslensku bókmenntaverðlauna“ stóð í fyrirsögn. Það er vissulega í fullu samræmi við málhefð, og auk þess má hugsa sér að karlkynsorðið höfundar sé þarna undirskilið. Á hinn bóginn var fólk af öllum kynjum tilnefnt, karlar, konur og kvár, og það kemur fram í fréttinni. Því hefði einnig verið eðlilegt og í samræmi við málhefð að nota vísandi hvorugkyn og segja þessi voru tilnefnd – og sumum hefði örugglega þótt það eðlilegra, a.m.k. einu hinna tilnefndu sem vakti athygli mína á þessu. Í annarri hliðstæðri frétt Vísis fyrr á árinu var notað hvorugkyn – „Þessi eru tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2023“.

Í báðum tilvikum höfum við sem sé val um það hvort við notum sjálfgefið málfræðilegt karlkyn og segjum hverjir komast í úrslit og þessir eru tilnefndir, eða vísandi hvorugkyn og segjum hver komast í úrslit og þessi eru tilnefnd. Hvort tveggja er fullkomlega eðlilegt og í fullu samræmi við íslenska málhefð – karlkynið er ekki til marks um karlrembu og hvorugkynið er ekki til marks um handstýrða breytingu á málinu. Ef hvorugkynið væri aftur á móti notað án þess að vitað væri að um kynjablandaða hópa væri að ræða væri þar vikið frá málhefð – sem sumum finnst eðlilegt eða nauðsynlegt en öðrum ekki. Aðalatriðið er að sýna umburðarlyndi og átta sig á því að innan ramma málhefðarinnar er oft um fleiri en einn kost að velja.

Við vissar aðstæður geta þó verið skiptar skoðanir um það hvort sjálfgefið málfræðilegt karlkyn eigi við eða hvort eðlilegt sé að nota vísandi kyn. Á Facebook-síðu Vísis 2015 er t.d. notað karlkyn og sagt „Hverjir verða tilnefndir til Eddunnar?“ en á síðu Ríkisútvarpsins 2020 er notað hvorugkyn og sagt „Hver verða tilnefnd til Óskarsverðlauna?“. Því má halda fram að einungis sjálfgefið málfræðilegt karlkyn sé þarna í samræmi við málhefð vegna þess að ekki er vitað þegar fréttin er skrifuð um hvaða einstaklinga er að ræða. Á móti má segja að þótt nöfn tilnefndra séu ekki þekkt sé vitað vegna flokkaskiptingar verðlaunanna að bæði karlar og konur verði tilnefnd og þess vegna sé ekki óeðlilegt að nota vísandi hvorugkyn. Þetta er smekksatriði.

Ástæðan af hverju

Í dag var hér bent á að ungt fólk segði iðulega ástæðan af hverju í stað ástæðan fyrir því að eða ástæða þess að eins og hefð er fyrir í málinu. Þetta er ekki alveg nýtt – elsta dæmi sem ég finn um það á prenti er í DV 2000: „Ástæðan af hverju hlauparar óska eftir að atburðurinn eigi sér frekar stað á laugardeginum en sunnudeginum er sú að þá geta þeir hlaupið fyrst um daginn.“ Næsta dæmi er í DV 2009: „Ætli það sé ekki ástæðan af hverju ég heillaðist svona af Íslandi á sínum tíma?“ Í Valsblaðinu 2011 segir: „Ég held að aðal ástæðan af hverju ég valdi handboltann var af því ég elskaði hann og allt það sem hann snerist um.“ Í Víkurfréttum 2014 segir: „Ástæðan af hverju við byrjuðum aftur er að skatturinn fann eitthvað athugavert við heimilisbókhaldið.“

Í Risamálheildinni eru alls um 430 dæmi um þetta samband, langflest af samfélagsmiðlum en rúm 70 úr formlegra máli – þó sárafá úr prentmiðlum. Á samfélagsmiðlum hefur sambandið verið algengt síðan um aldamót en sást vart annars staðar fyrr en um 2010 og dæmum hefur farið ört fjölgandi á allra síðustu árum. Varla er hægt að efast um að þetta sé tilkomið fyrir áhrif frá ensku þar sem sagt er the reason why í sömu merkingu. Í umræðu um þetta var einnig nefnt að unglingar segðu stundum það er af hverju sem er væntanlega komið af that‘s why í ensku. Engin dæmi um það samband er þó að finna í Risamálheildinni og leit á vefnum skilaði ekki heldur neinu þannig að ég geri ráð fyrir að þetta sé ekki algengt enn sem komið er.

En þótt ljóst sé að sambandið ástæðan af hverju á rætur í ensku er það í sjálfu sér engin skýring á því að það skuli eiga greiða leið inn í íslensku. Í sambandinu af hverju er af forsetning sem stýrir þágufalli á spurnarfornafninu hvað sem er í hvorugkyni. Fornöfn hafa jafnan einhverja tilvísun og hverju vísar til skýringar á því sem um er spurt, eins og m.a. má sjá á því að ævinlega er hægt að setja hvaða ástæðu í stað hverju án þess að merkingin breytist. Ef sagt væri t.d. ástæðan af hverri ég fór væri hugsanlegt að túlka hverri þannig að það vísaði til orðsins ástæða. Þetta væri þá svipað og staðurinn hvar ég bjó, konan hverrar son ég þekkti o.s.frv. Þetta eru hvorki algengar né liprar setningar og ekki sérlega íslenskulegar, en þekkjast þó í málinu.

En í setningunum sem hér um ræðir er ekki notuð kvenkynsmynd spurnarfornafnsins heldur hvorugkyn – ástæðan af hverju – og hvorugkynið getur ekki vísað til kvenkynsorðsins ástæða. Aftur á móti gæti samband eins og tilefnið af hverju staðist samkvæmt þessu – hverju er þágufall í hvorugkyni sem hugsanlegt er að túlka þannig að það vísi til hvorugkynsorðsins tilefnið. Slíkt dæmi má reyndar finna í Vísi 2022: „Man nú ekki tilefnið af hverju ég skáldaði þetta upp til að byrja með.“ En þetta er einstakt dæmi. Það sem truflar mig – og þau sem ekki eru vön sambandinu ástæðan af hverju – er væntanlega ekki síst þessi árekstuf milli kvenkynsnafnorðs og hvorugkynsfornafns – þessu fornafni virðist vera ofaukið, ekki hafa neina tilvísun.

En tilkoma sambandsins ástæðan af hverju gæti tengst því að sambandið af hverju virðist vera runnið saman í eitt orð í huga margra málnotenda. Það má marka af því að sambandið er mjög oft skrifað í einu lagi, afhverju. Um það er hátt á áttunda þúsund dæma á tímarit.is – fjöldinn fór mjög vaxandi á áttunda áratugnum og margfaldaðist eftir 1980. Í Risamálheildinni er hvorki meira né minna en nærri 130 þúsund dæmi um þennan rithátt – vissulega langflest af samfélagsmiðlum þar sem þessi ritháttur er hátt í jafn algengur og af hverju, en þó rúm fjögur þúsund úr formlegri textum. Við það má bæta rithættinum akkuru sem hátt í fjögur þúsund dæmi eru um í Risamálheildinni en aðeins 84 á tímarit.is, það elsta frá 1960.

Hjá þeim sem skynja afhverju / akkuru sem eina heild er það því orðið atviksorð, sambærilegt við hví. Það þýðir að fólk skynjar ekki neina vísun í -hverju / -kuru og þar með er ekki lengur neinn truflandi árekstur milli kvenkynsorðsins ástæðan og hvorugkynsmyndarinnar hverju. Það gæti skýrt hvers vegna ástæðan af hverju kemst inn í málið. En hvort sem eitthvert vit er í þessari skýringu legg ég áherslu á að mér finnst ástæðan af hverju hljóma mjög ankannanlega og myndi vilja losna við það. En þetta orðalag er greinlega komið inn í mál ungs fólks og ólíklegt að því verði útrýmt og í stað þess að ergja sig yfir því finnst mér skynsamlegra og skemmtilegra að velta því fyrir sér hvers vegna það eigi svona greiða leið inn í íslensku.

Að sunka og sakka

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var í dag umræða um sögnina súnka sem kom fyrir í frétt í mbl.is – „Ég var að fara yfir hana og þá súnkaði undan mér“ og „Jörðin getur súnkað niður“. Elsta dæmi um þessa sögn, sem einnig er oft rituð sunka eins og ritreglur mæla fyrir umþrátt fyrir að vera borin fram með ú, er í Heimdalli 1884: „það liggur við jeg súnki niður í hvert skipti, sem þjer gefið mjer á hann.“ Næsta dæmi er hins vegar með u, í Baldri 1910: „Um 300 fet frá jörðu missti farið jafnvægi sitt, grindin liðaðist í sundur, og sprekin rifu loftbelginn svo allt sunkaði niður.“ Sögnin hefur alla tíð verið sjaldgæf – um 140 dæmi eru um hana á tímarit.is, yfirleitt innan við fimm dæmi á hverjum áratug fram um 1980.

Eftir 1980 fjölgar dæmum um sunka nokkuð, sem gæti þó að einhverju leyti stafað af því að þá fer óformlegra mál að komast meira á prent en áður. Sögnin hefur nefnilega ekki alltaf þótt góð og gild íslenska – í ritdómi um Sögur frá Skaftáreldieftir Jón Trausta í Sameiningunni 1913 er ein málvillan sögð „sunkar (f. sekkr) niðr“ og sunka er sögð „óformleg“ í Íslenskri orðabók. En þótt sunka komin af dönsku sögninni synke sem merkir 'sökkva' hefur hún dálítið aðra merkingu. Hún er skýrð 'falla niður, sökkva í Íslenskri nútímamálsorðabók en í Íslenskri orðabók er skýringin 'detta, hlammast niður‘ eða ‚síga (ört) saman'. Mér finnst samt eiginlega vanta 'skyndilega, fyrirvaralaust, óforvarandis' í þessar skýringar.

Við leit að dæmum um sunka fann ég nokkur dæmi um að sögnin væri notuð í krossgátum, ýmist í skýringu eða lausn. Hún er þá pöruð með mismunandi sögnum – sökkva, detta, lækka og sakka. Síðastnefnda sögnin var einkum algeng í krossgátum um miðja síðustu öld og pöruð með sögnum eins og lækka, síga og dala, auk sunka. Þetta má ekki taka of bókstaflega – það verður að hafa í huga að oft er teygt töluvert á merkingu orða í krossgátum. Sögnin sakka er sögð „að nokkru“ tökuorð frá 19. öld úr dönsku sakke í Íslenskri orðsifjabók og kemur fyrir í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 í merkingunni 'síga saman' og er skýrð 'síga' og 'reka, hrekjast aftur á bak' í Íslenskri orðabók en kemur ekki fyrir í Íslenskri nútímamálsorðabók.

Sögnin sakka er sjaldgæf og þau tilvik þar sem hún nálgast það að vera samheiti við sunka eru mjög fá. Helst má nefna dæmi úr Arnfirðingi 1902: „Upp með hana að framan, niður með hana að aftan. Ha! Þar sakkar hún.“ Einnig má nefna dæmi í Morgunblaðinu 1974: „Það hefur ekki orðið nein umtalsverð breyting á sölu þorskblokkar, verðið máski heldur sakkað en hitt úr 60 centum.“ Nokkur dæmi eru einnig úr ræðum Steingríms J. Sigfússonar á Alþingi, t.d. „það er ekki gott að láta tekjustofna af þessu tagi sakka niður ef menn vanrækja það árum saman að láta þá fylgja verðlagi“ 2013 og „Það er t.d. umhugsunarefni að skattleysismörkin, jafngríðarlega mikið og þau hafa sakkað niður undanfarin ár, eiga að lyftast í þessum hægu skrefum“ 2008.

Þessar tvær sagnir, sunka og sakka, eiga ýmislegt sameiginlegt. Þær eru báðar tökuorð úr dönsku, komnar í málið seint á 19. öld. Dæmi eru um að þær séu notaðar í svipaðri merkingu í íslensku en merking beggja víkur nokkuð frá þeirri merkingu sem þær hafa í dönsku. Þær hafa báðar verið sjaldgæfar alla tíð en þó haldist óslitið í málinu. Hins vegar virðist vera talsvert meira líf í sunka – alls eru hátt í 140 dæmi um hana í Risamálheildinni, ýmist með u eða ú. Aðeins um tugur dæma er þar um sakka og sögnin virðist í seinni tíð nær eingöngu notuð í tengslum við laxveiði – „Á daginn standa veiðimenn nánast alltaf við fossinn og það veldur því að laxinn sakkar niður í ósinn og bíður færis“ segir t.d. í Vísi 2011.

Nýja lúkkið lúkkar vel

Í innleggi í gær var vitnað í gamla frétt með fyrirsögninni „Bríet frumsýnir nýtt lúkk“ og spurt hvort lúkk þætti góð og gild íslenska núorðið. Fyrirspyrjandi tók fram að sér fyndist blæmunur á orðinu lúkk og íslenska orðinu útlit og einn þátttakandi í umræðu um þetta sagði: „Í mínum huga er munurinn á lúkk og útliti sá að lúkk er útlit sem er skapað á meðvitaðan hátt.“ Þetta er einmitt málið – útlit getur verið mismunandi eftir aðstæðum og verður oft til á tilviljanakenndan hátt en lúkkið er sú mynd sem við viljum gefa – af okkur sjálfum eða einhverju í umhverfi okkar. Orðið lúkk er auðvitað komið af enska nafnorðinu look sem er þýtt sem 'útlit, svipur, yfirbragð' í Ensk-íslenskri orðabók og í mörgum tilvikum ætti síðastnefnda þýðingin best við.

Þetta sést best á dæmum. Elstu dæmi um lúkk á prenti eru hátt í 40 ára gömul og orðið oft haft innan gæsalappa fyrstu árin. Í DV 1985 segir: „Bandaríkjamenn þykjast höfundar „lúkksins“.“ Í Vikunni 1986 segir: „hermannalúkkið í uppáhaldi“. Í Þjóðviljanum 1990 segir: „hip hop lúkkið virðist ætla að lifa enn um sinn.“ Í Þjóðviljanum 1991 segir: „Var þar allt „lúkk“ það sama og í þeirri vinsælu mynd.“ Í Pressunni 1991 segir: „Hann hafði yfir sér nokkurs konar Smart spæjaralúkk á sínum yngri árum.“ Í Pressunni 1993 segir: „Kannski er allt annað „lúkk“ á skjánum en á öðrum vettvangi, ég veit það ekki.“ Í Eintaki 1994 segir: „Það er komið nýtt lúkk á staðinn.“ Í Tímanum 1995 segir: „Þú verður fríkaður í dag með skerí lúkk og bóld frasa á.“

Dæmum á tímarit.is fjölgar mjög upp úr aldamótum og í Risamálheildinni eru alls um níu þúsund dæmi um það – langflest vissulega á samfélagsmiðlum en þó rúmlega þúsund úr formlegra máli. Sögnin lúkka fylgdi svo fljótlega á eftir nafnorðinu – elsta dæmi um hana á prenti er í Pressunni 1994: „ég tala nú ekki um ef maður leyfir sér að lúkka svolítið dröggí“. Í DV 1998 segir: „Þetta eru mjög stíliseraðir gæjar og því nokkuð pottþétt að bókin muni lúkka flott.“ Í DV 2002 segir: „Það eina sem þetta gerir er að lúkka vel, eins og hver önnur innanstokkshönnun.“ Sögnin er talsvert sjaldgæfari en nafnorðið en tíðniþróunin er svipuð – í Risamálheildinni eru um 4.900 dæmi um lúkka, þar af um 4.600 af samfélagsmiðlum.

Það má kannski segja að nafnorðið lúkk sé ekki sérlega íslenskulegt en fleiri sambærileg tökuorð sem þykja góð og gild íslenska eru þó til – húkk, múkk (segja ekki múkk), púkk (leggja í púkk) og þrúkk. Sama má segja um sögnina lúkka – hún á sér hliðstæður í tökusögnunum dúkka, húkka, krúkka, púkka og þrúkka. Í innlegginu sem nefnt var í upphafi sagði fyrirspyrjandi að sér fyndist „mikil notkun orðsins [lúkk] í daglegu tali benda til þess að það þjóni ákveðinni þörf“ og dæmafjöldinn styður sannarlega þá tilfinningu. Þótt þessi orð séu vissulega tekin úr ensku taka þau íslenskum beygingum og eiga sér ýmsar hliðstæður í málinu. Þrátt fyrir ætternið sé ég enga ástæðu til annars en telja nafnorðið lúkk og sögnina lúkka góð og gild íslensk orð.

Förufólk

Í gær var sett hér inn frétt af mbl.is með fyrirsögninni „Svíar að skipta um skoðun á förufólki“ – með þeim ummælum að förufólk væri „prýðilegt orð í þessu samhengi“. En um það má deila. Í Íslenskri nútímamálsorðabók eru tvær skýringar á orðinu förufólk – sú fyrri er 'fólk sem flakkar um sveitir í leit að mat og húsaskjóli' og sú seinni 'fólk sem yfirgefur heimkynni sín í leit að betri framtíð'. Orðið förumaður er skýrt 'sá eða sú sem flakkar um sveitir í leit að mat og húsaskjóli, flakkari'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er förumaður skýrt 'Tigger' ('betlari') og Íslenskri orðabók sem 'flakkari, beiningamaður' en förufólk er í hvorugri bókinni. Það er aftur á móti í Íslenskri samheitaorðabók með samheitinu 'vergangsfólk'.

Eins og ég hef oft nefnt er tungumálið valdatæki og fólk í áhrifastöðum, t.d. stjórnmálafólk og fjölmiðlafólk, nýtir það oft á meðvitaðan og markvissan hátt til að reyna að hafa áhrif á skoðanir okkar. Við það er að sjálfsögðu ekkert að athuga – en við þurfum að gera okkur grein fyrir því og skoða það sem frá þessu fólki kemur á gagnrýninn hátt, reyna að átta okkur á því hvernig orðavali og orðanotkun er beitt til að koma ákveðnum viðhorfum á framfæri. Í þessu tilvik má spyrja hvers vegna orðið förufólk sé valið. Í fréttinni er vitnað til nýrrar skýrslu sænska jafnaðarmannaflokksins og sagt: „Fáir hafa verið jafneindregnir talsmenn viðtöku förufólks frá framandi löndum og dásemda fjölmenningarsamfélagsins og sænskir jafnaðarmenn.“

Í sænsku skýrslunni sem vísað er til er talað um invandrare, invandring og migration. Á íslensku er venja að nota orðið innflytjandi um fólk sem flyst til landsins frá öðrum löndum – orðið innflutningur er auðvitað til líka en það er frekar notað um vörur en fólk þótt sambandið innflutningur fólks komi vissulega fyrir. Merkingin í migration er svo einfaldlega 'fólksflutningar'. Í frétt mbl.is er hins vegar valið að nota orðið förufólk í staðinn fyrir hið venjulega orð innflytjendur. Það skiptir máli fyrir andann í fréttinni, því að enginn vafi er á því að orðin förufólk og förumaður hafa á sér neikvæðan blæ í huga margra eins og orðabókarskýringarnar benda til, sem og dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar og á tímarit.is.

Nú er ég hlynntur því að endurnýta gömul orð sem hafa lokið hlutverki sínu í upphaflegri merkingu, og vissulega er förufólk lipurt orð og hefur stundum í seinni tíð verið notað um fólk sem fer milli landa eins og seinni skýring Íslenskrar nútímamálsorðabókar bendir til. En þótt förufólk í eldri merkingu sé blessunarlega horfið hér á landi er svo sannarlega ekki alls staðar. Þess vegna er full þörf fyrir orðið í sinni upphaflegu merkingu, og jafnvel þótt svo væri ekki er ljóst að a.m.k. verulegur hluti málnotenda þekkir hina neikvæðu merkingu orðsins. Það er óheppilegt að taka gömul orð sem hafa haft neikvæða eða niðrandi merkingu og ætla sér að nota þau í hlutlausri eða jákvæðri merkingu – hætt við að uppruninn þvoist ekki af þeim.

Þetta á sérstaklega við um orð sem notuð eru um jaðarsetta hópa og fólk sem á undir högg að sækja af einhverjum ástæðum. Ef fjölmiðlar nota orð sem hafa á sér neikvæðan eða niðrandi blæ um þessa hópa er það til þess fallið að ýta undir neikvætt almenningsálit gagnvart þeim. Ef orðið innflytjandi þykir af einhverjum ástæðum óheppilegt er vel hægt að bregðast við á annan hátt en með því að grípa til orðs sem hefur neikvæða merkingu í huga margra. Það mætti t.d. nota orðið farandfólk sem notað er sem þýðing á migrants í Hugtakasafni þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins eða farfólk sem einnig er dæmi um að hafi verið notað í sömu merkingu. En með því að tala um förufólk er tekin skýr pólitísk afstaða – sem sjálfsagt hugnast sumum.

Hristu þau höfuðið – eða höfuðin?

Í Málfarsbankanum segir: „Það fer betur á að segja þeir hristu höfuðið en „þeir hristu höfuðin“. Sömu athugasemd má finna víðar. Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2012 segir: „Sumir útlendingar hrista höfuðin þegar við hristum höfuðið. Höldum endilega áfram að hrista það“, og í sama dálki árið 2014 segir: „Gaman væri ef sú venja lifði að segja frekar: […] Þau hristu höfuðið en „hristu höfuðin“.“ Trúlegt er að þetta boðorð eigi rætur að rekja til kversins Gætum tungunnar frá 1984 þar sem segir: „Sagt var: Þeir hristu höfuðin. Þetta er erlend setningargerð. Rétt væri: Þeir hristu höfuðið. (Hið fyrra gæti átt við þríhöfða þursa.)“ Rökin fyrir því að nota eintölu eru sem sé þau að við erum óumdeilanlega bara með eitt höfuð hvert og eitt.

En ef Jón hristir höfuðið og Gunna hristir líka höfuðið er ljóst að það er ekki sama höfuðið sem þau eru að hrista, heldur hrista þau hvort sitt höfuð. Það eru því óumdeilanlega tvö höfuð sem eru hrist og því hlýtur fleirtalan að teljast „rökrétt“ þarna. En málið er ekki endilega alltaf rökrétt svo að það dugir ekki til að réttlæta fleirtöluna ef annað mælir gegn henni. Það gæti t.d. verið að um væri að ræða erlenda setningagerð, eins og haldið er fram í Gætum tungunnar, sem stríddi gegn íslenskri málhefð. En þótt notuð sé fleirtala í ensku og sagt they shook their heads eru það engin rök gegn því að nota fleirtölu í íslensku, nema hægt sé að sýna fram á að engin hefð sé fyrir fleirtölunni í þessu sambandi í málinu heldur sé verið að apa hana upp eftir ensku.

En því fer fjarri að svo sé. Fleirtalan hefur verið notuð í þessu samhengi í margar aldir og m.a. eru dæmi um hana í elstu prentuðu bók á íslensku, Nýja testamentinu í þýðingu Odds Gottskálkssonar frá 1540. Í Mattheusarguðspjalli segir „Og þeir sem þar gengu hjá hæddu hann, skakandi höfuð sín“ og í samsvarandi setningu í Markúsarguðspjalli segir „skóku höfuð sín“. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 eru svo nokkur dæmi í viðbót. Einnig má nefna að í greininni „Frá Thaddæus Kosciuszko“ sem birtist í Fjölni 1838 og sögð er eftir ekki minni málsmekksmenn en Jónas Hallgrímsson og Konráð Gíslason segir: „Enn þeir, sem næstir honum voru, snurtu knje hans hinni hægri hendi, tóku ofan, og dreifðu dupti á höfuð sín til iðrunarmerkjis.“

Mikinn fjölda dæma um fleirtöluna hrista höfuðin og önnur sambærileg sambönd má finna allt frá 19. öld til samtímans. Það er ljóst að notkun bæði eintölu og fleirtölu í þessu sambandi er í samræmi við íslenska málhefð og þótt elstu fleirtöludæmin séu úr þýðingu Nýja testamentisins dugir það varla sem rök fyrir því að kalla þetta erlenda setningagerð sem beri að forðast. En það þýðir ekki að hægt sé að nota fleirtölu í *þau voru með hjörtun í buxunum eða *þau voru að bora í nefin á sér þótt það geti virst rökrétt og hliðstætt við þau hristu höfuðin. Fyrir því er engin hefð og málið er fullt af alls konar óútskýrðu og tilviljanakenndu ósamræmi – sem er einn af töfrum þess. Hér hlýtur málhefð að ráða en ekki tilbúin regla sem hver étur upp eftir öðrum.

Aðgerðaáætlun lögð fram

Ég var áðan á kynningarfundi ráðherranefndar um íslenska tungu á þingsályktunartillögu sem menningar- og viðskiptaráðherra lagði fram á Alþingi í morgun um „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026“. Fimm ráðherrar sitja í ráðherranefndinni og í fréttatilkynningu á vef Stjórnarráðsins segir: „Unnið hefur verið að mótun aðgerðanna í samstarfi ráðuneytanna fimm en þær snerta flest svið samfélagsins.“ Þessi tillaga hefur verið lengi á döfinni og fyrirsögnin eiginlega þegar orðin úrelt því að lítið er eftir af árinu 2023, en upphaflega átti að leggja tillöguna fram í mars sl. Í tillögunni er að finna lýsingu á „alls 19 aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar“ segir í áðurnefndri fréttatilkynningu.

Í tillögunni „er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Leiðarstef í aðgerðunum er að bæta aðgengi og gæði íslenskukennslu, stuðla að auknum sýni- og heyranleika tungumálsins og aukinni samvinnu um það langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.“

Tillagan var upphaflega kynnt í samráðsgátt stjórnvalda í byrjun júní sl. og „bárust 36 umsagnir um tillöguna og ýmsar gagnlegar athugasemdir og ábendingar sem horft var til við nánari mótun aðgerðanna“ segir í áðurnefndri fréttatilkynningu. Ég hef borið upphafleg drög saman við framlagða tillögu og sýnist sáralítið hafa breyst. Einni aðgerð hefur verið bætt við, orðalagi hnikað til á stöku stað og samstarfsaðilum víða bætt í upptalningu, en efnislega er þetta nokkurn veginn sama tillagan. Þess vegna eru athugasemdir mínar um það sem vantar í tillöguna að mestu leyti enn í fullu gildi. Meginathugasemd mín laut að fjármögnun aðgerðanna sem ekki var nefnd í drögunum. Ég taldi mikilvægt að einstökum aðgerðum fylgdi kostnaðarmat.

Í athugasemdum mínum í sumar sagði ég: „Aðgerðaáætlunin er metnaðarfull á margan hátt og í henni er að finna fjölda góðra áforma um aðgerðir sem örugglega munu efla íslenskuna verulega ef þeim verður hrint í framkvæmd.“ Þetta er í fullu gildi, en við það má bæta því að mér finnst orðalag almennt of loðið í tillögunni. Hún er skrifuð í viðtengingarhætti – orðið verði kemur t.d. 43 sinnum fyrir í henni („leitað verði leiða“, „lögð verði áhersla“, „hvatt verði til“, „samráð verði“ o.s.frv.). Hér hefði ég kosið ákveðnara og afdráttarlausara orðalag. Í flestum liðum eru nefnd dæmi um hugsanlega samstarfsaðila – sem er gott – en ekki kemur fram hvort rætt hafi verið við þessa aðila eða hvort vitað sé um hug þeirra til samstarfs.

Kostnaðarmat einstakra aðgerða er ekki að finna í endanlegri tillögu fremur en í drögunum, en í áðurnefndri fréttatilkynningu segir þó: „Ráðgert er að framlög vegna aðgerðanna muni nema um 1.365 milljónum kr. en í áætluninni eru einnig aðgerðir sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar að fullu og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður verði hærri.“ Þetta gengur eiginlega ekki upp – inni í áætluninni eru aðgerðir í máltækni og þegar hefur því verið lýst yfir að 360 milljónum á ári verði varið í máltækni út árið 2026. Eins og ég hef áður nefnt sé ég engin merki um aukin framlög til íslenskunnar í fjármálaáætlun næstu fimm ára eða í fjárlagafrumvarpi næsta árs. En þar fyrir utan er þetta allt, allt, alltof lítið fé. Íslenskan má alveg kosta meira.

Aukum íslenskuna í málumhverfinu!

Það sem Freyja Birgisdóttir segir í frétt Morgunblaðsins í dag er hárrétt og samræmist algerlega því sem ég hef oft skrifað um. „Lestr­aráhugi er ekk­ert sér­stak­lega mik­ill á meðal ungs fólks í dag. Þetta er bara sam­keppni um tíma og þau velja lang­flest að gera eitt­hvað annað í frí­tíma sín­um en að lesa [...] Orðaforði ís­lenskra nem­enda er að minnka ein­fald­lega af því að þau lesa minna og það er svo mikið af ensku í um­hverfi þeirra. Þannig að ef við ber­um okk­ur sam­an við önn­ur lönd, þar sem finna má stærri mál­sam­fé­lög, þá er þeirra móður­mál miklu meira í þeirra umhverfi en hjá okk­ar börn­um, þetta er bara staðreynd.“ Vegna smæðar málsamfélagsins hefur utanaðkomandi þrýstingur, aðallega frá ensku, meiri áhrif á íslensku en tungumál stærri málsamfélaga.

En það sem er ástæða til að hafa áhyggjur af er samt ekki of mikil enska í málumhverfi barna og unglinga, heldur of lítil íslenska. Auðvitað má segja að það komi út á eitt hvernig þetta er sett fram – því meiri sem enskan er, þeim mun minna rúm er fyrir íslenskuna. En þetta skiptir máli fyrir það hvernig brugðist er við vandanum. Við eigum ekki að hugsa um hvernig við getum dregið úr enskunni í málumhverfinu, heldur hvernig við getum aukið íslenskuna – og þá minnka áhrif enskunnar sjálfkrafa. Meginatriðið er að átta sig á því að þetta er samkeppni um tíma eins og Freyja segir. Við þurfum að komast að því í hvað börn og unglingar verja tíma sínum, og finna svo uppbyggjandi leiðir til að fylla þann tíma af íslensku. Strax.

Ég er að labba labba labba

Í fyrradag var hér spurt hvenær það hefði verið „þegar Íslendingar hættu að ganga og byrjuðu að labba“. Ég eyddi raunar þeirri færslu vegna þess að hún er ekki í anda hópsins (gefur sér rangar forsendur og er til þess fallin að kalla fram vandlætingu). En vegna þess að athugasemdir hafa iðulega verið gerðar við notkun sagnarinnar labba, bæði hér og þó einkum í Málvöndunarþættinum, fannst mér ástæða til að líta betur á hana. Athugasemdirnar eru einkum af þrennum toga: Í fyrsta lagi að sögnin sé ofnotuð á kostnað ganga og annarra sagna svipaðrar merkingar, í öðru lagi að sögnin sé oft notuð í formlegu máli þar sem hún eigi ekki við, og í þriðja lagi að labba eigi eingöngu að nota um dýr en ekki um fólk. Allt er þetta umdeilanlegt.

Í Íslenskri orðsifjabók er sögnin skýrð 'rölta, ganga', í Íslenskri orðabók er sögnin skýrð 'ganga' og 'ganga hægt, rölta', og í Íslenskri nútímamálsorðabók er skýringin 'ganga rólega'. Hvergi er minnst á að hún eigi frekar við um dýr en fólk og í öllum elstu dæmunum er vísað til fólks en ekki til dýra. Ég held að þetta hljóti að vera misskilningur sem stafar sennilega af því að labba er oft talin frekar óformleg sögn – í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skýringin ekki bara 'ganga hægt' heldur einnig 'fara fótgangandi' sem merkt er „(pop.), þ.e. 'alþýðumál' eða 'talmál'“. Fólk virðist tengja sögnina við önnur óformleg orð sem oft eru sögð eiga einkum við um dýr, eins og nafnorðin löpp og haus og sögnin éta.

Elsta dæmi Ritmálssafns Árnastofnunar um sögnina er í Íslenskum fornkvæðum frá seinni hluta 17. aldar. Hún kemur fyrir í kvæðinu „Flösku-kveðjur“ eftir Eggert Ólafsson frá miðri 18. öld: „Makinn labbar lotinn / landa sína hvetr.“ Elsta dæmið á tímarit.is er í Þjóðólfi 1849: „það væri miklu skynsamlegra fyrir oss bændur, að drepa hesta vora heima, heldur en að fara með þá suður í Reykjavík […] og eiga svo að labba austur yfir fjall í þokkabót.“ Einnig kemur sögnin fyrir í Pilti og stúlku eftir Jón Thoroddsen frá 1850: „Sigríður litla varð í fyrsta sinni að labba eptir fjenu fram fjár götur.“ Þrjú dæmi eru um hana í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum frá 1862 og á seinustu áratugum 19. aldar verður hún algeng og er enn að sækja í sig veðrið.

Í dæmum frá 19. öld virðist merkingin yfirleitt vera 'ganga hægt, rölta' en ekki vera sérstaklega óformleg. E.t.v. hefur hægur gangur þó þótt eitthvað kæruleysislegur og það leitt til þess að sögnin fékk á sig óformlegan blæ, sbr. „pop.“ í Íslensk-danskri orðabók. En önnur ástæða fyrir þeirri tilfinningu margra að sögnin sé óformleg gæti verið hljóðafarið. Orð með löngu bb eru mörg hver gælunöfn, gæluorð eða annars konar styttingar og því í eðli sínu óformleg – Sibba, Tobba, Kobbi, Stebbi; pabbi, nebbi, rebbi; abbó, vibbi; o.s.frv. Önnur hafa á sér einhvers konar neikvæðan eða kæruleysislegan blæ – gubba, rubba, gabba, skrúbba, subba, gribba, lubbi, nabbi o.s.frv. Líklegt er að þessi orð og önnur slík hafi áhrif á tilfinningu margra fyrir labba.

Kringum 1890 fór sögnin að koma fram í afturbeygðri notkun – labba sig. Ekki er alltaf að sjá skýran merkingarmun á labba og labba sig, en því síðarnefnda virðist alltaf fylgja einhver staðar- eða stefnuákvörðun – labba sig burt, labba sig til hennar, labba sig norður, labba sig ofan í bæinn o.s.frv. Ekki er hægt að segja t.d. *ég fór út að labba mig eða *ég labbaði mig lengi. Um 1930 fara svo að sjást dæmi um þágufall í stað þolfallsins – labba sér. Enginn merkingarmunur virðist vera á þolfalli og þágufalli í þessu sambandi. Afturbeygð notkun sambandsins virðist hafa náð hámarki kringum 1970 og farið smátt og smátt minnkandi síðan. Þolfallið hefur alla tíð verið mun algengara en þágufallið hefur þó mjög sótt á í seinni tíð.

Því er stundum haldið fram að labba sé að teygja sig inn á svið annarra sagna, einkum ganga, og vel má vera að labba sé nú notuð í samböndum þar sem sumum fyndist eðlilegra að nota ganga. Ég hef t.d. séð vísað til þess að nú sé meira að segja talað um að labba á fjöll. Það er alveg rétt – en það merkir ekki alveg sama og ganga á fjöll, heldur er frekar notað um tómstundagaman: „margir í þessari stétt gera það sér til gamans að setja saman lausavísur, líta í bók, labba á fjöll og renna fyrir fisk“ segir t.d. í DV 1987. Tæpast er talað umlabba á Everest. En dæmum um labba á tímarit.is hefur vissulega fjölgað verulega á þessari öld og það er auðvitað smekksatriði hvort hún sé ofnotuð. Notkun hennar truflar mig a.m.k. ekki.