Category: Málfar

Að slá nýtt met – eða slá gamla metið

Fyrir rúmum tveimur árum var orðasambandið slá met hér nokkuð til umræðu. Það er væntanlega komið úr dönsku, slå en rekord, og virðist vera u.þ.b. hundrað ára gamalt í íslensku. Þrátt fyrir það er varla hægt að segja að það hafi komist inn í orðabækur – það er hvorki undir sögninni slá í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók. Í fyrrnefndu bókinni  má hins vegar finna dæmið „slá met þ.e. ná betri árangri“ undir met, og í þeirri síðarnefndu er sambandið slá metið skýringarlaust undir met. En þótt merking sambandsins, 'gera betur en áður hefur verið gert', sé skýr, er það notað á tvo mismunandi vegu. Orðið met vísar nefnilega ýmist til þess árangurs sem verið er að lýsa eða til þess árangurs sem áður hafði bestur náðst.

Elsta dæmi sem ég finn um sambandið er í Morgunblaðinu 1922: „þar hleypur Guðjón Júlíusson, sem slær met hvar sem hann hleypur og meira að segja Jóns Kaldals.“ Í Vísi 1930 segir: „En auk betra veðurfars, betri brauta, betri tækja og betri kenslu, hafa enskir íþróttamenn svo miklu fleiri  tækifæri til að ,,slá“ met en íslenskir íþróttamenn.“ Í Alþýðublaðinu 1930 segir: „Að vísu er nú búið að „slá“ met Marinós, og var það gert af Þorsteini Einarssyni.“ Eins og þarna sést var „slá“ stundum haft innan gæsalappa fyrstu árin sem bendir til þess að þessi málnotkun hafi ekki verið alveg viðurkennd. En af dæmunum má ráða að sambandið var þegar í upphafi notað á tvo mismunandi vegu. Þetta kemur greinilega fram þegar lýsingarorð fylgir.

Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Þess má geta að umferð um Hvalfjarðargöng sló nýtt met á árinu 2015 en fyrra metið var frá árinu 2007“. Metið sem var slegið er þarna augljóslega nýja metið, ekki metið frá 2007. En í DV 1991 segir: „Bandaríska sveitin hljóp á 37,67 sek. og sló gamla metið sem var 37,79 sek.“ Þarna er metið sem sagt er að hafi verið slegið ekki nýja metið heldur það gamla. Það er vel hægt að víxla því til hvors metsins er vísað með slá met í þessum setningum – vísa til þess gamla með Þess má geta að umferð um Hvalfjarðargöng var meiri en nokkru sinni áður á árinu 2015 og sló gamla metið frá árinu 2007 en vísa til þess nýja með Bandaríska sveitin sló nýtt met og hljóp á 37,67 sek. en gamla metið var 37,79 sek.

Þannig virðist þetta hafa verið alla tíð frá því að farið var að nota þetta samband í íslensku – það hefur alltaf getað vísað ýmist til metsins sem verið var að setja eða eldra mets, og þannig er það enn. Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Árið 2011 var slegið met í áheitasöfnun þegar söfnuðust 43.654.858 kr.“ og í Fréttablaðinu 2021 segir: „Hana vantaði bara nokkra daga til að slá met Helmut Kohl.“ Ég held reyndar að sama gildi um slå en rekord í dönsku hvort sem „tvískinnungur“ sambandsins í íslensku er ættaður þaðan eða ekki. Hvort tveggja er algengt en líklega er vísun til eldra mets þó algengari, ekki síst vegna tíðni sambandanna slá öll met og slá öll fyrri met sem bæði eru gömul í málinu – þar er augljóst að vísað er til eldri meta.

Þótt vísun orðsins met í slá met sé óumdeilanlega mismunandi kemur í sama stað niður hvor merkingin er lögð í sambandið. Þegar þetta var til umræðu hér fyrir tveimur árum spurði ég hvort fólk gæti notað sambandið á báða vegu. Þau sem svöruðu sögðust geta það og ég held að þannig sé það líka með sjálfan mig. Hins vegar held ég að það sé útlokað að nota slá met í vísun til tveggja mismunandi meta í sömu setningu – það er ekki hægt að segja *Bandaríska sveitin sló nýtt met og hljóp á 37,67 sek. og sló þar með gamla metið sem var 37,79 sek. En hversu langt þarf að vera á milli veit ég ekki – væri hægt að nota sambandið á tvo mismunandi vegu í tveimur samliggjandi málsgreinum? Eða í sömu frétt? Því verður að vera ósvarað að sinni.

Vopnahlé eða hvíld

Eitt algengasta og mikilvægasta orðið í umræðum þessa dagana er vopnahlé. Það orð er gamalt í málinu en kemur þó ekki fyrir í fornsögum þrátt fyrir mikinn fjölda bardagalýsinga í þeim. Elstu dæmi um orðið eru í Minnisverðum tíðindum frá lokum 18. aldar – „hann lét sér í tíma segiast og keypti sér vopna-hlé uns fridur ákiæmi“ 1797 og „áleit Pignatelli, það naudsynlegt, að tilbjóda franska Herforíngjanum vopnahlé“ 1798. Orðið var algengt strax á seinni hluta 19. aldar en tíðnin margfaldaðist við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Það dró úr notkun orðsins á millistríðsárunum en allt frá því að fór að hilla undir lok seinni heimsstyrjaldarinnar hefur það verið mjög algengt, enda ekkert lát á hvers kyns styrjöldum og skærum.

Eitt dæmi er um hlé í þessari merkingu í fornmáli – „þá er nokkuð hlé varð á bardaganum“ segir í Rómverja sögu. En annars er notað orðið hvíld. Það gat vissulega líka merkt 'það að hvíla sig' eins og það gerir enn, en í langflestum dæmum um orðið í Íslendingasögum, Sturlungu og Heimskringlu er það þó notað um hlé á bardaga. Í Brennu-Njáls sögu segir: „Þeir tóku hvíld og sóttu að í annað sinn.“ Í Egils sögu segir: „Þá beiddist Ljótur hvíldar.“ Í Gísla sögu segir: „Verður nú hvíld á aðsókninni.“ Í Heiðarvíga sögu segir: „Nú verður á hvíld nokkur og binda menn sár sín.“ Í Heimskringlu segir: „Eftir þetta varð hvíld á orustu og greiddust sér hvor skipin.“ Í Sturlungu segir: „Þeir börðust lengi nætur og tóku hvíldir sem við skinnleik.“

Nokkur dæmi eru um þessa merkingu orðsins hvíld á 19. öld. Í Skírni 1848 segir: „Frá því nú og til þess um dagmál daginn eptir (þann 24.) varð svo að segja engin hvíld á orustunni.“ Í Skírni 1864 segir: „Bardaginn tókst um miðnætti með hörðustu atgöngu og varð engi hvíld á í fjórar stundir.“ Í Skírni 1877 segir: „Nú varð nokkur hvíld á bardögunum.“ En vissulega má segja að hvíld merki ekki alveg sama og vopnahlé. Oftast er vopnahlé formleg ákvörðun sem aðilar semja um, þótt stundum sé um einhliða ákvörðun annars aðila að ræða, en hvíld er óformlegt hlé að frumkvæði annars eða beggja aðila og engir formlegir samningar gerðir um það. Þetta breytir því þó ekki að bæði hvíld (í eldra máli) og vopnahlé merkir 'hlé á bardaga'.

Ég ætla samt ekki að leggja til að við hættum að tala um vopnahlé og tökum aftur upp orðið hvíld – til þess er hvíld of almennt orð auk þess sem vopnahlé á sér langa hefð. Vissulega má segja að það sé gagnsætt að nokkru marki – við vitum hvað bæði vopn og hlé merkir. Við þurfum samt að vita hver tengsl orðhlutanna eru og auðvitað gætu þau verið önnur – vopnahlé gæti alveg eins merkt 'hlé til að vopnast'. En vegna þess að við þekkjum orðið og vitum hvað það merkir hugsum við ekki út í þetta. Öðru máli gegnir með orðið mannúðarhlé sem er nýtt – þar þurfum við að læra hver tengsl orðhlutanna eru og átta okkur á því að orðinu er ekki ætlað að merkja 'hlé á mannúð' þótt sannarlega hafi verið gert langt hlé á mannúð á Gaza-svæðinu.

Þetta syrgir mig

Sögnin syrgja er skýrð 'sakna (látins manns), vera hryggur (vegna e-s sem er látinn)' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Notkunardæmi orðabókarinnar, þau sitja heima og syrgja og hann syrgði föður sinn mikið sýna að sögnin getur verið áhrifslaus, án andlags, en hún tekur þó oftast þolfallsandlag sem vísar þá til þess sem er syrgður – föður sinn í dæminu hér á undan. En stundum er hlutverk þolfallsliðarins þó annað eins og kom fram í athugasemd hér í gær þar sem sagt var: „Ég heyrði eitt sinn sagt “það syrgir mig”, í merkingunni gerir sorgmæddan.“ Ég kannaðist ekki við þetta en fór að athuga málið og komst að því að þetta er ekki einsdæmi og hægt er að finna gömul dæmi um þessa merkingu sem virðist nú hafa verið endurvakin.

Í „Gauta kvæði“ sem varðveitt er í Kvæðabók séra Gissurar Sveinssonar frá miðri 18. öld spyr Gauti „hvað syrgir þig, sætan mín“ og svarið er „Mig syrgir það þú mátt ei sjá“ en í öðru handriti stendur í staðinn „það syrgir mig, segir hún þá“. Þarna er merkingin augljóslega 'gera sorgmædda'. En þessi merking var lengi vel mjög sjaldgæf – elsta dæmi sem ég hef fundið um hana á tímarit.is er í kvæði í Heimskringlu 1916 þar sem segir: „Það syrgir mig, Mýrdal, að sjá þér á bak.“ Önnur dæmi frá 20. öld hef ég ekki fundið í fljótu bragði en um síðustu aldamót fer þessi merking skyndilega aftur að sjást. Alls má finna nokkra tugi dæma um hana frá þessari öld í Risamálheildinni, ekki síst í minningargreinum en einnig á samfélagsmiðlum.

Í Morgunblaðinu 1999 segir: „Því það sem syrgir okkur núna var gleði okkar meðan þú lifðir.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Að vita það að þú munt aldrei aftur taka utan um mig og rugga mér eða hita grjónagrautinn þinn sem mér fannst alltaf svo góður, syrgir mig mjög.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „Það syrgir mig djúpt að nú er lífssiglingu hennar lokið svona snemma.“ Á mbl.is 2003 segir: „Það syrgir okkur ef sumir starfsmenn okkar hafa ekki hegðað sér í samræmi við gildi kirkjunnar okkar.“ Í Vísi 2015 segir: „Og það syrgir mig að sjá hana verða að veruleika.“ Í Kjarnanum 2017 segir: „Það sem syrgir mig mest í málflutningi stuðningsmanna frumvarpsins er hversu ótengdan þeir skynja heiminn.“

Þessi notkun sagnarinnar syrgja er í sjálfu sér skiljanleg – hún lagar sig þarna að sögnum eins og gleðja og hryggja. Við segjum þetta gleður mig í merkingunni 'þetta gerir mig glaðan', þetta hryggir mig í merkingunni 'þetta gerir mig hryggan' – því þá ekki þetta syrgir mig í merkingunni 'þetta gerir mig sorgmæddan'? Vissulega leiðir þetta til þess að sögnin er notuð á mismunandi vegu – annars vegar vísar frumlagið til syrgjanda og andlagið til sorgarefnisins (ég syrgi hana) en hins vegar vísar frumlagið til sorgarefnisins en andlagið til syrgjandans (þetta syrgir mig) en þar er þó tæpast hætta á misskilningi. Í ljósi þess að síðarnefnda notkunin er gömul þótt efast megi um að hefðin fyrir henni sé óslitin er ástæðulaust að amast við henni.

Að hryggja

Ég sá á Facebook-síðu vinar vitnað í ályktun frá ungu Framsóknarfólki þar sem stóð: „Ungt Framsóknarfólk hryggir að Ísland hafi ekki tekið afstöðu með vopnahléi í mannskæðum átökum við Gaza svæðið.“ Sá sem setti þetta inn sagði: „[M]aður (eða framsóknarfólk) hryggir ekki einhvern atburð eða staðreynd, slíkt harmar maður. Hins vegar geta atburðir eða staðreyndir eftir atvikum og réttilega hryggt mann (eða framsóknarfólk).“ Það er alveg rétt að venjulega væri sögnin harma notuð í setningum af þessu tagi og í fljótu bragði mætti ætla að notkun hryggja þarna sé einhvers konar mistök eða stafi af vankunnáttu. En þegar setningin er skoðuð nánar kemur samt í ljós að hún gæti alveg staðist, merkingarlega og setningafræðilega.

Sögnin hryggja merkir 'gera (e-n) hryggan, sorgmæddan' og stjórnar þolfalli á andlagi sínu. Frumlag hennar, það sem hryggir, er yfirleitt ekki persóna heldur atburður eða fyrirbæri eins og notkunardæmin orð hans hryggðu hana mikið og það hryggir <mig> að heyra þetta í Íslenskri nútímamálsorðabók sýna vel. Frumlagið er í nefnifalli (þótt þessi dæmi sýni það reyndar ekki) en samt sem áður má finna slæðing af dæmum þar sem orð í þolfalli kemur á undan sögninni. Þekkt dæmi er í ljóði eftir Þorstein Erlingsson sem birtist fyrst í Sunnanfara 1893: „Mig hryggir svo mart, sem í mínum huga felst“. Í Hrópinu 1905 segir: „Mig hryggir misskilningur og villa prestanna.“ Í Vísi 2022 segir: „Okkur hryggir að tilkynna ykkur að við erum að skilja.“

Þótt þarna komi þolfall á undan hryggja en ekki nefnifall er ekki verið að nota sögnina rangt í þessum dæmum, heldur er þolfallsorðið í raun andlag sem er fært fram fyrir sögnina í stað þess að koma á eftir henni eins og andlög gera venjulega. Þá verður frumlagið að fara aftur fyrir sögnina því að í íslensku er aðeins hægt að hafa einn setningarlið á undan sögn í persónuhætti (framsöguhætti eða viðtengingarhætti). Slík færsla (sem setningafræðingar kalla kjarnafærslu) er algeng í íslensku, sérstaklega ef frumlagið er „þungt“ – fleiryrt eða jafnvel heil aukasetning. Runurnar svo margt sem í mínum huga felst, misskilningur og villa prestanna og að tilkynna ykkur að við erum að skilja í setningunum hér að framan eru allt dæmi um „þung“ frumlög.

Hægt er að greina setninguna sem vísað var til í upphafi á sama hátt. Orðarunan að Ísland hafi ekki tekið afstöðu með vopnahléi í mannskæðum átökum við Gaza svæðið er „þungur“ liður sem hefur því tilhneigingu til að standa á eftir sögninni og andlagið þá að koma á undan henni í staðinn. Það er hins vegar langalgengast að setningar hefjist á frumlagi, og langalgengast að frumlag sé í nefnifalli. Þegar við rekumst á setningu þar sem fyrsti liðurinn gæti verið nefnifall er því eðlilegt að túlka hann sem frumlag og vegna þess að nafnliðurinn ungt Framsóknarfólk er eins í nefnifalli og þolfalli er ekki augljóst að um andlag sé að ræða. Sú greining getur þó alveg staðist eins og ég hef sýnt, og er í fullu samræmi við reglur málsins um setningagerð.

Hvað varð um sögnina síma?

Sögnin síma er leidd af nafnorðinu sími og jafngömul – bæði orðin birtust fyrst á prenti í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum árið 1896. Þar er að finna flettiorðin Telefonere sem er skýrt 'talsíma (tala í – senda skeyti með – […] talsíma)' og Telegrafere sem er skýrt 'ritsíma (senda ritsímaskeyti […])'. Sögnin komst fljótlega í notkun – elsta dæmi sem ég finn er í Bjarka 1899: „Um öll lönd er nú farið að skrifa og síma (telegrafera) um verksynjunina í Danmörku.“ Í Bjarka 1900 segir: „Londonarblaðið »Lloyd's weekly« segir að Kaupmannahafnarblaði einu hafi verið símuð frá Vardö þessi orð á Finsku: »Andrée er frelsaður«. Í Norðurlandi 1902 segir: „Hann hefir símað til mín og spurt mig, hvort eg geti sent sér mann í miklu snatri.“

Sögnin varð brátt mjög algeng, einkum þolmyndin er símað sem var notuð um fréttaskeyti: „Frá Berlín er símað, að nýir erfiðleikar séu komnir um friðarsamningana“ segir t.d. í Alþýðublaðinu 1920. Þessi notkun sagnarinnar varð gífurlega algeng á þriðja áratugnum en eftir það fór að draga úr henni. Notkun sagnarinnar í germynd var aftur á móti mikil fram um 1960 en minnkaði mjög ört eftir það, og um 1980 var notkunin bæði í germynd og þolmynd orðin mjög lítil. Dæmi um sögnina frá síðustu árum á tímarit.is eru sárafá, og flest úr eldri textum. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin sögð „gamaldags“. Í ljósi þess að nafnorðið sími er enn gífurlega algengt er merkilegt að samstofna sögn skuli nær horfin úr málinu.

Í Íslenskri orðabók er síma skýrð 'hringja, tala við e-n í síma' og 'senda skeyti í síma' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'hringja (og tala) í síma'. En þarna kemur ekki fram að síma hagar sér setningafræðilega allt öðruvísi en bæði hringja og tala – getur tekið tvö andlög eins og t.d. senda. Í Dagblaðinu 1906 segir: „Konungur vor símaði ráðherranum á Laugardaginn þessa orðsendingu.“ Í eldri dæmum af þessu tagi er oftast um símskeyti að ræða, en í yngri dæmum væntanlega yfirleitt símtöl. Í Morgunblaðinu 1951 segir: „Frjettaritari Mbl. í Vestmannaeyjum símaði blaðinu í gærkvöldi þessar frjettir.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Fréttaritari Mbl. í Mýrdalnum símaði okkur fréttina sem hér fer á eftir.“

Oftast er andlagið þó aðeins eitt. Stundum er það seinna (beina) andlagið, það sem vísar til þess efnis sem símað er. Viðtakandinn er þá oft hafður í forsetningarlið, eins og „Fréttaritarinn símaði fréttina til blaðsins“ í Alþýðublaðinu 1947. Að þessu leyti hagar síma sér eins og senda. En einnig er hægt að hafa aðeins fyrra (óbeina) andlagið, það sem vísar til viðtakandans, eins og „Fréttaritari Alþýðublaðsins á Sauðárkróki símaði blaðinu í gærkveldi á þessa leið“ í Alþýðublaðinu 1942, eða forsetningarlið í staðinn, eins og „Isobel kemur aftur í kvöld – eg símaði til hennar“ í Vísi 1937. Þannig er ekki hægt að nota senda. Einnig er hægt að nota síma án andlags eða forsetningarliðar – „hann símaði, að eg skyldi ekki koma“ í Þjóðviljanum 1911.

Undanhald sagnarinnar síma virðist hafa hafist á sjötta áratugnum og verið hratt á þeim sjöunda. Í Morgunblaðinu 1958 segir Guðmundur Ágústsson: „Hér er annað stutt og gott orð, sem mér er sárt um að missa, en það er síma-heitið, sem við megum vara okkur á að missa ekki sem sagnorð. […] [B]reytingin kemur smám saman, án þess að því sé gaumur gefinn, en slíkar breytingar eru einmitt varasamastar – og þannig breytist tungan. Mér virðist nefnilega fleiri og fleiri vera að hætta að tala um að síma – til kunningjans, eða í búðina – heldur bara hringja til hans, en hér er þó meiningamunur, sem engin ástæða er til að rugla saman. Víst þarf að byrja á að hringja áður, en símað er til einhvers, en vissulega er símtalið þó aðalatriðið […].“

Það er ljóst að engin ein sögn getur komið í stað síma nema í einstöku tilvikum, eins og „Hann símaði að minnsta kosti einu sinni á dag“ í Fálkanum 1955, þar sem hægt er að setja hringja í staðinn. En í dæmum eins og „Kolur símaði mér að þið væruð á leiðinni“ í Þjóðviljanum 1938 er hvorki hægt að nota hringja tala í stað síma, heldur verður að segja Kolur hringdi í mig og sagði að þið væruð á leiðinni – eða Kolur sendi mér skeyti um að þið væruð á leiðinni. Í dæmum eins og „Fréttaritari Þjóðviljans í Mývatnssveit, Starri í Garði, símaði blaðinu þessa frétt í gær“ í Þjóðviljanum 1970 verður að segja Fréttaritari Þjóðviljans hringdi í blaðið í gær og sagði þessa frétt eða til að segja þessa frétt eða eitthvað slíkt.

Hvernig stendur á því að svona lipur og þægileg sögn hvarf nánast úr málinu á tveimur áratugum á seinni hluta síðustu aldar, þrátt fyrir að símanotkun hafi margfaldast? Ég get ekkert fullyrt um það en hér er hugmynd: Sögnin síma felur ekki bara í sér að hringja og tala, heldur er verið að flytja einhver boð – að síma hefur tilgang. Hrun í notkun sagnarinnar síma fer saman við aukningu og breytingu á símanotkun. Áður áttu færri síma, símtöl voru dýrari, og höfðu því oftast tilgang. En með almennari símaeign og ódýrari símtölum breyttist þetta og fólk fór að hringjast á án þess að samtalið hefði sérstakan tilgang – og þá átti sögnin síma ekki lengur við. Auðvitað er þetta gróf alhæfing en það má mikið vera ef ekki er eitthvað til í þessu.

Sími – frábært orð, en ógagnsætt

Einhvern tíma á skólaárum mínum, annaðhvort í gagnfræðaskóla eða á fyrstu árum í menntaskóla, lét íslenskukennarinn okkur skrifa niður þau nýyrði sem best þóttu heppnuð ásamt höfundum þeirra – sem auðvitað voru allt karlmenn. Kannski á ég þennan lista enn þótt ég finni hann ekki í svipinn en ég man eitthvað af honum – a.m.k. orðin samúð eftir Björn Bjarnason frá Viðfirði og andúð sem Sigurður Guðmundsson skólameistari bjó til. Þetta eru mjög góð orð og tiltölulega gagnsæ, a.m.k. fyrri hlutinn, þótt tengsl seinni hlutans -úð við orðið hugur eða hugð liggi kannski ekki í augum uppi. En svo var það auðvitað orðið sími sem kallað hefur verið „eitt snjallasta nýyrði, sem komið hefur upp“ – og það maklega að margra mati.

Áður höfðu verið notuð orð eins og hljómþráður, hljóðberi, hljóðþráður, málþráður, málmþráður og talþráður til að þýða telefon (og/eða telegraf) en sími sást fyrst á prenti í Nýrri danskri orðabók með íslenzkum þýðingum sem kom út 1896. Þar er að finna flettiorðin Telefon sem skýrt er 'talsími, hljómberi' og Telegraf sem skýrt er 'ritsími (fréttaþráðr, málþráðr, fréttafleygir)'. Aðalhöfundur orðabókarinnar var Jónas Jónasson frá Hrafnagili en Steingrímur Thorsteinsson og Pálmi Pálsson kennarar við latínuskólann voru fengnir „til þess að yfirfara handritið undir prentun og laga það sem laga þyrfti“. Pálma er jafnan eignaður heiðurinn af orðinu sími sem kemur fyrir í fornu skáldamáli, þó ekki síður í hvorugkynsmyndinni síma.

Í formála orðabókarinnar segir Björn Jónsson: „En […] þýðingar þær, er notaðar hafa verið á orðinu Telegraf […] eru hver annari lakari að vorum dómi: «fréttaþráðr », «fréttafleygir», «málþráðr» (sem eins getr verið Telefon, eða öllu heldr þó), «endariti», og þar fram eftir götunum. Höfum vér eigi hikað við að stinga þar upp á alveg nýju orði, þótt vér göngum að því vísu, að ýmsir muni tjá sig «eigi kunna við það». Orð þetta («ritsími», eða að eins «sími») hefir þá kosti fram yfir «þráðr» og samsetningar af því orði, vegna þess að það er nú lítt tíðkað í málinu, þá ríðr það ekki í bága við aðrar merkingar, eins og orðið «þráðr» gerir svo meinlega; það er mjög hljómþítt; og það er einkar-vel lagið til afleiðslu og samskeytinga.“

Björn heldur áfram: „Teljum vér engan vafa á því, að orð þetta þætti góðr gripr í málinu, ef jafnsnemma hefði verið upp hugsað eins og hin orðin («fréttafleygir» o.s.frv.). Fáum vér eigi skilið, að oss þurfi að verða meira fyrir að segja «að síma», heldr en enskumælandi lýð «to wire».“ Orðið sími sló líka í gegn strax í lok 19. aldar enda er það eins vel heppnað orð og verða má. Það hefur einungis að geyma algeng hljóð og enga samhljóðaklasa – er því auðvelt í framburði og „hljómþýtt“ eins og Björn sagði. Það tilheyrir mjög stórum beygingarflokki og hefur engin hljóðavíxl í beygingunni og er því auðvelt í meðförum. Það er stutt og því mjög þægilegt í samsetningum og afleiðslu – sögnin (tal/rit)síma var t.d. strax búin til.

Valdimar Ásmundsson sagði þó í Fjallkonunni 1898: „Bezt hygg ég að taka upp útlenda orðið „telegraf“, eins og allar aðrar þjóðir hafa gert, og eins „telefón“, og svo mundu forfeður vorir líka hafa gert á gullöld íslenzkunnar (sbr. ,,symfón“).“ Og Þórarinn Eldjárn sagði í Morgunblaðinu 2015: „Fónn hefði ekki verið neitt ósíslenskulegra orð fyrir þetta áhald. Sími hefur ekkert fram yfir fón annað en hreinan uppruna.“ Orðið er nefnilega ekki „gagnsætt“ þótt við getum svo sem reynt að telja okkur trú um að svo sé, vegna þess að sími/síma merki ‚þráður‘ þótt það sé nú „lítt tíðkað í málinu“. En venjulegir málnotendur hafa ekki hugmynd um það – og auk þess væri það gagnsæi horfið í nútímamáli vegna þess að allir símar eru nú þráðlausir.

Rúta eyðilagðist af eldi

Í gær var hér spurt út í fyrirsögn á mbl.is, „Rúta eyðilagðist af eldi við Selfoss“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa „lesið að það sé ekki hægt að láta gerandann í ljós með forsetningarlið af + þgf. í lok slíkra setninga“. Í umræðum var bent á að það er meginregla í íslensku að gerandi þarf að vera lifandi vera en ekki t.d. náttúruafl til að geta komið fram í forsetningarlið í þolmynd eins og Sigríður Sigurjónsdóttir og Joan Maling hafa fjallað um. Þær taka dæmið „Húsið var eyðilagt“ og segja að þar sé ekki hægt að bæta við „af eldi“ vegna þess að eldurinn er ekki lifandi vera og getur því ekki verið gerandi. En „ef eldur eða snjóflóð hefði eyðilagt húsið væri eðlilegt að nota miðmynd og segja […] Húsið eyðilagðist í eldi/í snjóflóðinu.“

Vissulega eru ekki mörg þolmyndardæmi á við húsið var eyðilagt af eldi á tímarit.is en þau eru þó til. Dæmi um miðmynd með af-lið eins og í fyrirsögninni eru hins vegar gömul eins og einnig var bent á í umræðum – ekki bara um eyðileggjast af eldi, heldur líka af vatni, af sprengingu, af skriðuhlaupum, af eldgosi, af þurrkum, af stormi o.s.frv. Slík dæmi skipta hundruðum – það elsta er í Skírni 1830 þar sem talað er um „gömlu borgirnar Herkúlaneum og Pompeji, sem eyðilögðust af ösku úr Vesúf á fyrstu öld eptir Krist“. Í ljósi fjölda slíkra dæma má því spyrja hvort það sé rangt sem fyrirspyrjandi hafði fyrir satt og Sigríður og Joan halda fram, að ekki sé hægt að hafa geranda í af-lið í dæmum eins og því sem vitnað var til í upphafi.

En hér þarf að athuga að nafnorð í forsetningarlið með af í slíkum dæmum þarf ekki að tákna raunverulegan geranda, heldur getur oft táknað einhvers konar ástæðu eða áhrifavald. Þetta sést vel í dæmum eins og vera úrvinda af þreytu, deyja af ást, æpa af sársauka o.s.frv. Í þeim dæmum er nafnorðið á eftir af vissulega einhvers konar ástæða þess sem sögnin lýsir, en samt ekki gerandi í venjulegum skilningi enda eru þetta ekki þolmyndarsetningar. Þegar um slíkt er að ræða er oftast hægt að nota aðrar forsetningar í staðinn fyrir afúrvinda úr þreytu, deyja úr ást, æpa vegna sársauka o.s.frv. Þetta er aftur á móti ekki hægt í þolmyndardæmum eins og hann var étinn af hákarli – þar er útilokað að nota aðra forsetningu en af í vísun til geranda.

Í dæminu rútan eyðilagðist af eldi er hægt að nota aðrar forsetningar en af, t.d. í eldi eins og áður kom fram en einnig vegna elds. Slíkt væri ekki hægt ef um raunverulegan geranda væri að ræða eins og áður segir. Það þýðir að dæmi eins og fyrirsögnin sem nefnd var í upphafi geta alveg samræmst því að ekki sé hægt að hafa geranda í af-lið nema um lifandi veru sé að ræða. Og það þýðir þá líka að í svipuðum þolmyndardæmum sem vissulega koma fyrir þótt sjaldgæf séu eins og áður segir, eins og  „Húsið er þó nær eyðilagt af eldi og vatni“ í Tímanum 1954, þarf ekki að líta svo á að af-liðurinn vísi til geranda, enda koma aðrar forsetningar fyrir í sambærilegum dæmum – „Elsta hús Siglufjarðar eyðilagt í eldi“ segir í Morgunblaðinu 1948.

Niðurstaðan byggir á þessu

Í Málfarsbankanum segir: „Rétt er að gera greinarmun á notkun sagnarinnar byggja og miðmynd hennar byggjast. Dæmi: Þetta mat er byggt á sjálfstæðri rannsókn. Hann byggir þetta mat á sjálfstæðri rannsókn. Þetta mat byggist á sjálfstæðri rannsókn. Síður: „þetta mat byggir á sjálfstæðri rannsókn“.“ Í Íslenskri orðabók er „e-ð byggir á e-u“ merkt „!?“ sem þýðir að það teljist ekki gott mál og vísað á „e-ð byggist á e-u“. Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 1998: „Samningarnir byggjast á gagnkvæmu trausti. Þeir byggja ekki neitt, af því að þeir kunna það ekki.“ Hann nefnir hliðstætt dæmi: „Enginn segir: Samningurinn „grundvallar“ á gagnkvæmu trausti, heldur grundvallast. […] Miðmynd er þarna höfð í þolmyndarmerkingu.“

Þetta er út af fyrir sig rétt, svo langt sem það nær. En þarna er ekki tekið tillit til gamallar og ríkrar málvenju. Það hefur nefnilega verið algengt a.m.k. síðan fyrir miðja 19. öld, og er enn, að nota sambandið byggja á á þann hátt sem þarna er varað við. Í Nýjum félagsritum 1841 segir: „Útskíríngu gamla testamentisins nema menn þá ekki, en hún er þó öldúngis ómissandi til þess að geta rétt skilið hið nýa, sem opt byggir á hinu gamla.“ Í Tíðindum frá þjóðfundi Íslendinga 1851 segir: „Það er og eitt athugavert við þetta frumvarp, að það byggir á ókomnum lögum, eða á öðrum lögum en þeim, sem þar standa.“ Í Þjóðólfi 1869 segir: „Það var einkennilegt við þetta frumvarp, að það byggir á því, að Ísland hafi verið innlimað í Danmörk 1662.“

Hliðstæð dæmi frá 19. öld, þar sem byggja á tekur ekki með sér geranda, eru fjölmörg, og þessi notkun sambandsins hefur verið mjög algeng alla tíð síðan. Af Risamálheildinni má ráða að hún sé algengari í nútímamáli en byggjast á, en það er ljóst að samböndin eru oft notuð jöfnum höndum í sömu merkingu, jafnvel innan sömu málsgreinar. Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Þær skiptast aftur í tvennt: þær sem byggja á að kaupa til að selja aftur og hinar sem byggjast á því að kaupa til að eiga.“ Í DV 2016 segir: „Aðstoð við flóttamenn á ekki að byggja á því hverrar trúar þeir eru heldur á að byggjast á mannúð.“ Í Kjarnanum 2017 segir: „Ekki stöðugleika sem byggir á því að festa ranglæti í sess heldur stöðugleika sem byggist á samfélagslegri sátt.“

Það má vissulega halda því fram að þessi notkun byggja á sé „órökrétt“ vegna þess að byggja krefjist geranda eins og fram kemur í orðum Gísla Jónssonar hér að framan. En eins og ég hef iðulega skrifað um er ekki hægt að hafna rótgróinni málvenju á þeirri forsendu að hún sé „órökrétt“ – þá fengi ansi margt að fjúka. Og reyndar þarf ekki heldur að líta svo á að eitthvað sé „órökrétt“ við þessa notkun. Það má nefnilega ekki einblína á sögnina byggja – samband sagnar og forsetningar/atviksorðs fær oft sérstaka merkingu sem víkur frá grunnmerkingu sagnarinnar og það má segja að sambandið byggja á hafi fengið merkinguna 'hvíla á'. Á hana er komin löng og rík hefð og hún er augljóslega rétt mál sem engin ástæða er til að amast við.

Þegar hér er komið við sögu

Sambandið þegar hér / þar / þarna er / var komið sögu(nni) er gamalt í málinu og kemur fyrir þegar í fornu máli – „var kominn til Ólafs konungs þá er hér er komið Ólafs sögu“ segir t.d. í Fóstbræðra sögu og „þar til er nú er komið sögunni“ í Færeyinga sögu. Elsta dæmið á tímarit.is er í Skírni 1844: „Hjer við bættist, að nú var kominn tími til, þá hjer var komið sögunni, að kjósa fulltrúa.“ Í nokkrum elstu dæmum á tímarit.is er notuð myndin sögunni og sú mynd er algengari en sögu fram um 1930. Einnig var á þeim tíma algengt að eignarfornafn eða nafnorð í eignarfalli fylgdi sögu, t.d. „Þegar hjer var komið sögu vorri, var en nýja þingseta byrjuð“ í Skírni 1870 og „Þegar hér var komið sögu læknisins, litu allir ósjálfrátt til himins“ í Vísi 1914.

Sambandið þegar hér er komið sögu víkur frá eðlilegu talmáli á ýmsan hátt eins og algengt er um föst orðasambönd – í orðaröð, orðanotkun og beygingu. Eðlilegt mál væri t.d. þegar sagan er komin hingað, þegar hingað er komið í sögunni eða eitthvað slíkt. Það er eðlilegt að venjulegir málnotendur átti sig ekki á gerð sambandsins, t.d. að sögu er í raun þágufallsfrumlag með koma (sögunni er komið hér) því að koma tekur venjulega nefnifallsfrumlag (nema í koma í hug / til hugar). Í slíkum tilvikum má búast við að föst orðasambönd breytist, og sú er raunin með þetta – „Í nútímamáli bregður fyrir í sömu merkingu orðasambandinu þegar hér var komið við sögu en ekki styðst það við málvenju“ segir Jón G. Friðjónsson í Merg málsins (2006).

Sambandið koma við sögu þar sem koma við merkir 'snerta, tengjast' er einnig mjög algengt í málinu og hefur verið lengi „Millum þeirra sitja þrjár konur, er tákna þær borgir, er svo mjög koma við sögu siðabótarinnar“ segir t.d. í Skírni 1869. En í seinni tíð slær samböndunum þegar hér er komið sögu og koma við sögu iðulega saman eins og fram kemur hjá Jóni G. Friðjónssyni. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Vísi 1948: „Á stríðsárunum hafði hann verið starfandi í fjármálaráðuneytinu og var er hér var komið við sögu verzlunarmálaráðherra.“ Annað dæmi er í Fylki 1969: „Þegar hér er komið við sögu, hafði Þórunn Jónsdóttir frá Túni haft á hendi matsölu, rekið matsölu, í Þingholti við Heimagötu um tveggja ára skeið.“

Þetta eru einangruð dæmi, en árið 1973 eru tvö dæmi, 1974 og 1975 þrjú hvort ár, og eftir það fer dæmunum ört fjölgandi, einkum þó eftir miðjan níunda áratuginn. Alls er hátt á áttunda hundrað dæma um þegar hér / þar er / var komið við sögu á tímarit.is, og hátt á níunda hundrað í Risamálheildinni. Þessi dæmi eru úr textum af öllu tagi og ekki síður úr formlegu málsniði en óformlegu. Þótt Jón G. Friðjónsson hafi sagt „ekki styðst það við málvenju“ er rétt að hafa í huga að þau orð eru hátt í 20 ára gömul. Á þeim tíma var sambandið talsvert sjaldgæfara en nú en málvenjan hefur fest sig í sessi. Því er óhjákvæmilegt að taka þegar hér er komið við sögu í sátt og viðurkenna það sem gott og gilt mál, við hlið þegar hér er komið sögu.

Bölvað gagnsæið

„Hingað til hefur það verið talin ein höfuðprýði og meginkostur íslenzkrar tungu, hve gagnsæ orðin eru“ sagði Gísli Magnússon í Samvinnunni 1971. Sigurður Líndal sagði í Málfregnum 1988: „[O]rð af innlendum uppruna eru einatt gagnsæ, þannig að hver maður, sem málið kann, getur skilið þau.“ Sigurður Kristinsson sagði í Skírni 2001: „[Í]slenskan hefur það sérkenni sem oftast er kostur að vera gagnsæ. Flókin hugtök má þýða á íslensku með því að setja saman orð á þann hátt að merking hugtaksins blasir við þeim sem heyrir á það minnst í fyrsta skipti.“ Ágústa Þorbergsdóttir er varfærnari: „Með gagnsæi er átt við að orðið sé lýsandi og hægt sé að lesa út úr orðinu merkingu þess eða a.m.k. vísbendingu um merkingu þess“, Orð og tunga 2020.

Ég held að gagnsæið sé stórlega ofmetið. Vissulega getur verið hjálp í því að geta tengt ný orð við önnur kunnugleg, en sú tenging dugir þó sjaldnast til að skýra nýju orðin til fulls – yfirleitt þurfum við að læra hvernig tengingunni er háttað. Gott dæmi er orðið útihús sem við getum tengt við atviksorðið úti og nafnorðið hús, en dugir það? Við getum giskað á að þetta sé einhvers konar hús, en úti segir ekki mikið – öll hús eru úti í einhverjum skilningi. Við þurfum að læra sérstaklega að orðið merkir 'önnur hús en íbúðarhús á sveitabæ, t.d. fjós og fjárhús' – ekkert í orðinu sjálfu gefur vísbendingu um þá merkingu. Og gleraugnahús er ekki einu sinn hús – nærtækast væri að giska á að það merkti 'gleraugnaverslun' enda hefur það verið notað þannig.

Oft er líka teygt ansi mikið á gagnsæinu. Bergljót S. Kristjánsdóttir segir í Ritinu 2011: „En af því hve íslensk orð eru gjarna gagnsæ mætti líka taka mið af að orðið hryðjuverkamaður er stofnskylt sögninni „hrjóða“ sem merkir ,að ryðja burt‘ – og tengja það samtímahugmyndum um hryðjuverkamenn og sprengjur.“ Ég stórefa að almennir málnotendur átti sig á þessari tengingu við hina sjaldgæfu sögn hrjóða. Í Lesbók Morgunblaðsins 1999 segir Eiður Guðnason: „Þota og þyrla eru nokkuð gagnsæ orð og fela að auki í sér hljóðlíkingu.“ Þótt þota og þyrla séu frábær orð og eigi vel við þau fyrirbæri sem þau lýsa gætu þau líka vísað til fjölmargra annarra og gerólíkra fyrirbæra – og gera það í samsetningum, s.s. snjóþota, sláttuþyrla o.fl.

Í áðurnefndri grein Sigurðar Kristinssonar viðurkennir hann að vissulega geti „gagnsæi íslenskunnar verið galli ef hin gagnsæja merking gefur villandi hugmynd um fyrirbærið sem vísað er til“. Þessi galli kom mjög greinilega í ljós í nýlegri umræðu um orðið feðraveldi sem sumum fannst villandi og tengjast feðrum á óheppilegan hátt. Slíkar tengingar trufla fólk oft meðan orð eru nýleg eða ekki mjög þekkt, en svo er eins og mörg algeng orð, einkum þau sem tengjast engum viðkvæmum málum eða tilfinningum, hætti með tímanum að vekja slík hugrenningatengsl. Alþekkt dæmi er eldhús sem við tengjum sjaldnast við eld og hús jafnvel þótt þeir orðhlutar séu augljósir í samsetningunni – orðið lifir sjálfstæðu lífi óháð upprunanum.

Jón Hilmar Jónsson nefnir annan galla í Málfregnum 1988: „Það er og einkenni gagnsærra samsetninga og kann að þykja ókostur að þær hneigjast til að marka sér þrengra merkingarsvið en þau orð hafa sem þær standast á við. í því sambandi má nefna erlenda orðið „video“ sem bundið er víðu merkingarsviði. Íslenska orðið myndband og samsetningar af því hafa hvert um sig miklu þrengri vísun og merkingu.“ Reyndar er myndband dæmi um orð sem hefur slitið sig frá uppruna sínum á þeim 35 árum sem liðin eru. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt bæði 'segulband sem geymir mynd og hljóð, myndbandsspóla' og 'stutt kvikmynd eða myndskeið, einkum í tengslum við popptónlist'. Merkingin hefur þróast með merkingarmiðinu.

Ég held sem sé að þótt gagnsæið geti vissulega haft kosti séu ókostirnir síst minni. Þess vegna er oft heppilegra að taka upp erlend orð og laga þau að hljóðkerfi og beygingakerfi íslenskunnar en leggja ofuráherslu á að ný orð eigi sér íslenska ættingja – séu „gagnsæ“. Þórarinn Eldjárn tók goðsögnina um gagnsæi íslenskunnar ágætlega fyrir í Morgunblaðinu 2015 og sagði: „Ekkert orð er gagnsætt nema það sé samsett úr öðrum orðum eða leitt af öðru orði. Ef samsetningarnar eru leystar upp eða frumorðið fundið endum við alltaf á orðum sem eru ekkert frekar gagnsæ í íslensku en í öðrum málum.“ Hann mælti með tökuorðum og sagði: „Hvorugkynsnýyrðið app, fleirtala öpp, er […] mun betra orð en hið „gagnsæja“ smáforrit.“