Posted on Ein athugasemd

Íslenska í fjármálaáætlun

Fjármálaráðherra kynnti í morgun nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029. Fyrir ári fór ég vandlega í gegnum síðustu fjármálaáætlun, 2024-2028, og skrifaði um hana pistil það sem ég klykkti út með því að segja: „Í heildina má segja að frá sjónarhóli íslenskrar tungu sé fjármálaáætlunin dapurleg lesning og veki litlar vonir um að íslenskan komist úr þeirri varnarstöðu sem hún er í.“ Það er skemmst frá því að segja að hin nýja fjármálaáætlun er síst ánægjulegri lesning. Þar segir vissulega að áhersla verði lögð „á að efla íslensku og íslenskt táknmál sem opinber mál á Íslandi“ og það er svo sem minnst á íslenskuna og mikilvægi hennar á ýmsum stöðum í áætluninni, t.d. í kafla um málefni innflytjenda og flóttafólks.

Í þeim kafla segir m.a.: „Innflytjendum fer fjölgandi og voru þeir 18,7% af heildarmannfjölda hér á landi, eða 74.000, 1. desember 2023. Aðgengi innflytjenda að íslenskunámi og samfélagsfræðslu þarf að vera auðvelt, m.a. með samhæfðari upplýsingagjöf en nú er, bæta þarf faglegan stuðning við kennara og tryggja fjölbreyttari leiðir til að læra íslensku og æfa talmál. Í því sambandi er hafið verkefni um þróun starfstengdrar íslenskufræðslu á vinnutíma samhliða leiðsagnarkerfi. Þá er stutt við aukna notkun stafrænna lausna þar sem læra má starfstengdan orðaforða hvar og hvenær sem er. Unnið verður áfram að útfærslum aðgerða í tillögum til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 […].“

Í kafla um grunnskóla segir: „Mæta þarf þörfum barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og barna í viðkvæmri stöðu til að stuðla að auknum jöfnuði í menntun og til að auka virkni þessara hópa í námi og starfi. […] brýnt er að styrkja kennslu þessa hóps í íslensku sem öðru tungumáli og áherslu á virkt fjöltyngi.“ Í kafla um framhaldsskóla segir: „Tryggja þarf kennslu við hæfi í hvetjandi námsumhverfi, auka íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og veita viðeigandi stuðning. Aukinn fjöldi umsókna barna um alþjóðlega vernd kallar einnig á aukinn stuðning skólakerfisins, s.s. sálrænan stuðning, almenna móttöku og styrkingu kennslu í íslensku sem annars tungumáls (ÍSAT) […].“

Þetta eru falleg orð sem hægt er að taka undir en þau eru samt lítils virði ef þeim er ekki fylgt eftir með fjárveitingum. Í fyrri áætlun stóð: „Tillaga til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi er í vinnslu og fjallar um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Eins og kemur fram í nýju áætluninni hefur tillagan nú verið lögð fram og „[l]eiðarstef í áætluninni eru bætt aðgengi og gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur og aukinn sýni- og heyranleiki tungumálsins“. Þessi tillaga hefur vissulega ekki verið samþykkt enn en samt hefði mátt ætla að hennar sæi víða stað í fjármálaáætluninni. En eftir því sem ég fæ best séð fer lítið fyrir því.

Ég sé a.m.k. hvergi í áætluninni að til standi að auka fjárveitingar til kennslu íslensku sem annars máls. Í áætluninni er sett fram það markmið að „Hlutfall flóttafólks sem nýtir íslenskunámskeið á fyrsta ári eftir verndarveitingu“ fari úr 75% árið 2023 í 90% árið 2029, og „Fjöldi skráninga á íslenskunámskeið viðurkenndra fræðsluaðila“ fari úr 9.691 árið 2023 í 15.000 árið 2029. En það er til lítils að setja fram mælikvarða og göfug markmið ef ekkert kemur fram um hvernig eigi að ná þeim markmiðum og ekkert fé er sett í að ná þeim. Sums staðar virðist m.a.s. unnið þvert á markmið um eflingu íslenskunnar – í áætluninni kemur t.d. fram að felld verði niður 360 milljóna króna tímabundin fjárveiting til máltækni.

Því miður er hér hægt að endurtaka óbreytt það sem ég sagði um fyrri fjármálaáætlun en í fylgigögnum nýrrar áætlunar „er fjallað um stöðu og horfur á einstökum málefnasviðum í mörgum köflum sem öllum er skipt í undirkafla á sama hátt. Meðal undirkafla eru „Helstu áskoranir“, „Tækifæri til umbóta“ og „Áhættuþættir“. Það vekur sérstaka athygli að þörf fyrir íslenskukennslu er sjaldnast nefnd í köflum um helstu áskoranir – ekki í „10.05 Útlendingamál“, ekki í „14.1 Ferðaþjónusta“, og ekki í „29.7 Málefni innflytjenda og flóttafólks“. Tækifæri sem íslenskukennsla skapar eru ekki heldur nefnd í köflum um tækifæri til umbóta, og áhættan af því að hér verði til samfélög fólks sem ekki talar íslensku er ekki nefnd í köflum um áhættu.“

Í áætluninni er gert ráð fyrir „400 m.kr. varanlegu framlagi til menningarmála þar sem m.a. er horft til stofnunar þjóðaróperu og starfslauna listamanna“. Þetta er vitaskuld ánægjulegt – íslensk listsköpun styrkir íslenskuna á ýmsan hátt. En einnig er gert ráð fyrir „8.220 m.kr. tímabundnu framlagi vegna framkvæmda við þjóðarhöll á tímabilinu 2025-2027“. Það er gott og blessað að fá nýja þjóðarhöll – sú sem við eigum er sögð of lítil og úrelt um margt. En ekki má gleyma því að við eigum óefnislega þjóðarhöll þar sem er íslensk tunga. Hún þarfnast viðhalds og styrkingar – en ef hún hrynur, eða hættir að fullnægja þörfum samfélagsins, er ekki hægt að byggja nýja. Henni veitti ekkert af átta milljarða innspýtingu. Við þurfum að gera betur.

Posted on Færðu inn athugasemd

Getur breidd verið meiri en lengd?

Einu sinni hringdi í mig maður sem hafði verið að grúska í gömlum heimildum þar sem talað var um kirkjugarð sem var 37 metrar á lengd og 43 metrar á breidd. Hann var að velta fyrir sér hvort það gæti staðist að orða þetta svona. Getur breidd verið meiri en lengd? Og þá við hvaða aðstæður? Hvernig á að ákvarða hvað er lengd og hvað breidd einhvers tvívíðs fyrirbæris? Þessar spurningar koma sjaldan upp vegna þess að yfirleitt virðist fólki finnast þetta augljóst – en hvað er það sem gerir það augljóst? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er lengd skýrt 'það hversu langt eitthvað er' og langur skýrt 'mikill á lengdina, t.d. band eða vegur'. Aftur á móti er breidd skýrt 'það hversu breitt eitthvað er', og breiður skýrt 'mikill á þverveginn, víður'.

Þegar fyrirbærið sem um ræðir er á hreyfingu eða getur hreyfst er lengd venjulega notað um stefnuna – þegar talað er t.d. um ár er lengd fjarlægðin frá upptökum til ósa en breidd fjarlægðin milli bakka. Jökulsá á Breiðamerkursandi er ekki nema 500 metra löng og styttist ár frá ári, og svo gæti farið á endanum að lengd hennar yrði minni en breiddin – en það yrði samt haldið áfram að nota orðin lengd og breidd á þann hátt sem áður var lýst. Þegar um er að ræða t.d. hús með mæni held ég að lengd vísi alltaf til stefnu mænisins jafnvel þótt það gæti í undantekningartilvikum leitt til þess að lengd hússins yrði minni en breidd þess. Því má segja að lengd vísi í einhverjum skilningi til stefnu eða hreyfingar en breidd til fasta eða kyrrstöðu.

Langoftast er það samt þannig að lengd þess sem um er að ræða er meiri en breidd þess þar sem hægt er að finna einhverja tengingu við stefnu eða hreyfingu. En það er ekki alltaf hægt, t.d. þegar um er að ræða landspildu, hús með flötu þaki, o.m.fl. Þá er venja að lengri hliðarnar séu kallaðar lengd en þær styttri breidd – nema einhverjar aðstæður geri kleift að gera upp á milli. Ef kirkja stæði í kirkjugarðinum sem nefndur var í upphafi væri eðlilegt að fara eftir henni – lengd garðsins væri samhliða lengd kirkjunnar, jafnvel þótt það leiddi til þess að lengd hans yrði minni en breidd. Einnig gæti garðshliðið ráðið þessu – það segir til um stefnu inn í garðinn og þess vegna er eðlilegt að hliðarnar samhliða þeirri stefnu séu kallaðar lengd garðsins.

Posted on Færðu inn athugasemd

Gerum íslenskukunnáttu eftirsóknarverða

Stundum heyri ég fólk hneykslast á innflytjendum sem hafa búið hér árum saman en ekki lært íslensku og halda því fram að við eigum að gera kröfur til innflytjenda um íslenskukunnáttu. Þessi hneykslun er í sjálfu sér skiljanleg – okkur finnst sjálfsagt að fólk sem hefur ákveðið að starfa og búa í þessu samfélagi læri tungumál þess, og það ætti að vera sjálfsagt. En þarna þarf að huga að mörgu. Oft vísa slíkar athugasemdir til málnotkunar fólks í opinberri umræðu, t.d. sjónvarpsviðtölum. Það er ekkert óeðlilegt að fólk sem hefur ekki náð fullu valdi á íslensku veigri sér við að tala málið við slíkar aðstæður þótt það tali málið kannski hversdags, vegna þess að það hefur heyrt að fólk er iðulega gagnrýnt og gert gys að því fyrir hvers kyns „villur“.

Þótt það kunni að virðast æskilegt að gera kröfur til innflytjenda um íslenskukunnáttu verður að hafa í huga að slíkar kröfur verða að byggjast á málefnalegum forsendum. Í úrskurði Kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2019 er vísað í Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 og sagt: „Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. orkar ekki tvímælis að mati kærunefndarinnar að kröfur um tungumálakunnáttu geta í ýmsum tilvikum talist lögmætar, enda þótt þær komi að einhverju marki niður á einstaklingum sem eru af erlendum þjóðernisuppruna og búa þar með hugsanlega ekki yfir íslenskukunnáttu.“ En jafnframt segir: „Kröfur […] um íslenskuþekkingu geta því verið til þess fallnar að fara í bága við“ bann við mismunun á vinnumarkaði.

Það er auðvelt að færa málefnaleg rök fyrir mikilvægi íslenskukunnáttu við ýmis störf – afgreiðslu- og þjónustustörf, umönnunarstörf, störf á leikskólum og frístundaheimilum, og jafnvel leigubílaakstur svo að vísað sé í nýlega umræðu. Aftur á móti gegnir öðru máli um t.d. störf í byggingariðnaði, við ræstingar o.fl. Í þeim er ýmist ekki þörf mikilla mállegra samskipta eða þau samskipti hljóta hvort eð er að verða mest á erlendum málum vegna þess að vinnufélagar fólks eru af erlendum uppruna. Því væri sennilega ekki hægt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til fólks í þessum störfum og ef við ætlumst til þess að fólkið læri íslensku verður það að byggjast á því að það finni hjá sér einhverja þörf til þess og sjái gagnsemi í því.

Í staðinn fyrir að spyrja „Hvers vegna hefur fólkið ekki lært íslensku?“ ættum við að prófa að snúa þessu við og spyrja „Hvers vegna hefði fólkið átt að læra íslensku?“. Það dugir ekki að svara bara „Af því að íslenska er opinbert mál í landinu“. Fólk leggur yfirleitt ekki á sig að læra nýtt tungumál af þeirri ástæðu einni. Ekki dettur okkur í hug að áfellast íslensku frumbyggjana í Vesturheimi sem sum hver lærðu aldrei ensku sér til gagns. Þau þurftu þess ekki vegna þess að þau bjuggu sér til íslenskt samfélag í nýju heimkynnunum. Sú staðreynd að fólk býr og starfar á Íslandi árum saman án þess að læra íslensku sýnir að fólk hefur ekki séð brýna þörf fyrir að læra málið vegna þess að það er yfirleitt hægt að bjarga sér ágætlega á ensku.

Það er ekki innflytjendunum að kenna heldur okkur sjálfum. Það erum við sem höfum leyft enskunni að verða svo fyrirferðarmikil í íslensku málsamfélagi að hún dugir fólki til allra daglegra nota. En hún nægir samt ekki til fullrar þátttöku í samfélaginu – þátttaka innflytjenda í kosningum og í almennri lýðræðislegri umræðu er mjög lítil, sýnileiki þeirra í fjölmiðlum sömuleiðis, og margt fleira mætti nefna. Það þarf að auðvelda innflytjendum eins og mögulegt er að læra íslensku en það er ekki nóg – það þarf líka að hvetja þá til að læra málið. Það verður ekki gert með boðum og bönnum, heldur með því að gera íslenskukunnáttu áhugaverða og eftirsóknarverða – sýna fram á gildi og mikilvægi fullrar þátttöku í samfélaginu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Breytum atvinnu- og launastefnu í þágu íslenskunnar

Í dag var ég að tala við innflytjanda sem hefur búið hér í tíu ár. Við töluðum saman á ensku sem er þó ekki móðurmál hans – hann sagðist skilja dálítið í íslensku en ekki nóg til að geta tekið þátt í samræðum. Ég kunni ekki við að spyrja hvers vegna hann hefði ekki lært íslensku en heyrðist á honum að aðalástæðan væri sú að hann hefði ekki þurft á því að halda – þótt hann þurfi að hafa samskipti við Íslendinga í starfi sínu er hann ekki í afgreiðslu- eða þjónustustarfi og það er vel þekkt að vegna almennrar enskukunnáttu Íslendinga er enginn vandi að búa í landinu árum saman án þess að læra málið. Það er vont fyrir íslenskuna, getur verið truflandi fyrir Íslendinga, tvíbent fyrir fólkið sem hingað kemur – en gott fyrir atvinnulífið.

Það eru nefnilega atvinnurekendur sem bera meginábyrgð á því að hér skulu búa tugir þúsunda fólks sem ekki kann íslensku. Atvinnulífið kallar eftir fleira og fleira fólki og gerir enga kröfu um íslenskukunnáttu. Eðlilegt væri að fólki sem hingað kemur til að vinna í afgreiðslu- og þjónustustörfum væri boðið – og gert skylt – að læra íslensku sér að kostnaðarlausu, á vinnutíma. En atvinnurekendur myndu aldrei samþykkja það vegna þess kostnaðar sem af því leiddi. Þegar er talað um að vöxtur ferðaþjónustunnar hafi stöðvast vegna þess að Ísland sé of dýrt, og við séum ekki samkeppnishæf. Ókeypis íslenskukennsla á vinnutíma myndi vitanlega kosta sitt og fara út í verðlagið og þar með auka verðbólgu og draga úr samkeppnishæfi landsins.

Hinn kosturinn er að ríkið taki þennan kostnað á sig. Eins og ég benti á um daginn er ríkið nýbúið að taka á sig 20 milljarða á ári næstu fjögur ár í tengslum við kjarasamninga og fáeinir milljarðar í íslenskukennslu til viðbótar breyta kannski ekki öllu, en myndu samt auka skuldir ríkisins og þar með sennilega tefja fyrir lækkun vaxta og verðbólgu. En miðað við núverandi atvinnustefnu eru bara tveir kostir: Annars vegar að stórauka kennslu í íslensku sem öðru máli, með þeim kostnaði sem því fylgir, og gera þá kröfur um íslenskukunnáttu í ýmsum störfum. Hins vegar að gera ekki neitt – auka ekki íslenskukennslu að marki og gera engar kröfur um íslenskukunnáttu umfram það sem nú er. Þetta leiðir óhjákvæmilega til þess að íslenskan hörfar.

Vegna kostnaðar er ólíklegt að fyrri leiðin verði farin, en sú seinni er mjög ófýsileg. Mín skoðun er sú að framtíð íslenskunnar verði ekki tryggð nema með gerbreyttri atvinnu- og launastefnu þar sem hætt verði að leggja áherslu á að fá til landsins tugþúsundir fólks í láglaunastörf þar sem þarf að vinna myrkranna á milli til að ná endum saman og fólk hefur hvorki tíma né orku, né heldur hvata, til íslenskunáms. Þess í stað þarf að leggja áherslu á atvinnugreinar þar sem eru færri en betur launuð störf sem krefjast menntunar. Vandinn verður þá minni vegna þess að fólkið er færra, og við fáum fólk sem hefur betri aðstæður til íslenskunáms. Jafnframt er mikilvægt að hækka lægstu laun því að auðvitað verða áfram störf sem ekki krefjast menntunar.

Sjálfsagt finnst mörgum þetta óraunhæft, og kannski er það rétt. Kannski verðum við bara að sætta okkur við að fórna íslenskunni fyrir hagvöxtinn – því að það er það sem við erum að gera. Við erum að búa til tvískipt þjóðfélag – íslenskumælandi yfirstétt og svo lágstétt fólks sem talar oft litla íslensku og er fast í láglaunastörfum. Það sem verra er – hætta er á að börn þessa fólks nái ekki heldur fullkomnu valdi á íslensku, detti út úr skóla og séu föst í hlutskipti foreldranna. Það er óviðunandi og hættulegt lýðræðinu. Við verðum að leita allra leiða til að koma í veg fyrir að þetta gerist. Ég veit að þetta hugnast engum, hvorki stjórnvöldum né almenningi, en það skortir skilning eða vilja eða kjark eða djörfung eða fé til að grípa til róttækra ráðstafana.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að öfunda frægð og velgengni

Í fyrirsögn fréttar á mbl.is í dag segir „Öfunda frægð og velgengni yngri systra sinna“ og í fréttinni sjálfri segir: „Hudson og Lively, sem starfa einnig sem leikarar, viðurkenndu að öfunda velgengni yngri systra sinna sem og öll tækifærin sem þeim býðst í Hollywood.“ Ég staldraði við þetta vegna þess að sögnin öfunda er þarna notuð á óvenjulegan hátt. Venjulega er hún notuð um fólk en einnig er hægt að nota hana um hópa, félög og samfélög fólks. Einnig er öfunda stundum notuð með staðaheitum en þá er í raun vísað til fólks líka, þ.e. samfélagsins á staðnum – „Ég held að enginn vafi sé á því að stjórnendur margra stórborga úti í heimi öfunda Reykjavík af legu flugvallarins svo nærri miðbænum“ segir í Morgunblaðinu 2001.

Það er hins vegar ekki hefð fyrir því að öfunda óáþreifanlega hluti eins og frægð og velgengni. Um það má þó finna nokkur dæmi á netinu en sum þeirra virðast vera vélþýdd og eru því ekki marktæk. Önnur dæmi eru sárafá: „Þessi pirringur hjá Joel endurspeglar bara mótlætið sem hann fær frá fólki sem öfundar velgengni hans“ á Hugi.is 2008, „Konur um allan heim öfunda hugarfar og sjálfsöryggi franskra kvenna“ á Bleikt.is 2014, „Tiger Woods öfundar golfsveiflu sex ára sonar síns“ á Kylfingur.vf.is 2015 og „Ég get samt ekki gert upp við mig hvort ég öfunda kastíþróttir af þessum seríum“ á twitter 2021. Svo eru auðvitað dæmi eins og „Ég veit ég öfunda vorið“ í „Ég leitaði blárra blóma“ eftir Tómas Guðmundsson en þar er vorið persónugert.

Þetta eru sem sé algerar undantekningar, og það er nokkuð ljóst að í fréttinni sem vitnað var til í upphafi er um ensk áhrif að ræða – í samsvarandi frásögn á ensku segir: „Kate Hudson’s and Blake Lively’s siblings Oliver and Robyn admit they’re envious of sisters’ fame.“ Nú er svo sem ekkert stórmál þótt ein sögn verði fyrir áhrifum frá ensku og breyti hegðun sinni en samt er alltaf æskilegast að halda í hefðbundna málnotkun ef þess er kostur, og þarna hefði verið hægt – og eðlilegt – að segja öfunda yngri systur sínar af frægð þeirra og velgengni. Sambandið öfundast út í er líka notað bæði um fólk og óáþreifanlega hluti – hægt hefði verið að segja öfundast út í frægð og velgengni systra sinna og á tímarit.is má finna nokkur hliðstæð dæmi.

Posted on Færðu inn athugasemd

Það slitnar ekki slefan

Undir nafnorðinu slefa í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar er að finna sambandið það slitnar ekki slefan á milli þeirra sem sagt er „óformlegt“ og vera notað á tvennan hátt: '1. (í háði, um ástfangið fólk) þau láta sífellt vel hvort að öðru, eru alltaf að kyssast' og '2. (niðrandi) þeir (þær …) eru algerlega sammála, dást hvor af öðrum'. Fyrri merkingin er auðvitað mjög myndræn lýsing en sú seinni líking við hana. Þessi notkun sambandsins virðist ekki vera mjög gömul – hana er t.d. hvorki að finna í Slangurorðabókinni frá 1982 né annarri útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 1983. Elsta dæmi sem ég finn um hana er frá 1985, en rétt er að benda á að óformlegt orðalag af þessu tagi getur tíðkast í talmáli árum saman án þess að komast á prent.

Í Þjóðviljanum 1985 segir: „Finnst ykkur kannski breska stjórnin æðislega líkleg til að lenda í andstöðu við Bandaríkin, þótt ekki slitni slefan á milli Reagans og Thatschers.“ Í Degi 1988 segir: „Þetta var fyrir um fjórum mánuðum og það hefur varla slitnað slefið á milli þeirra síðan.“ Í Vikunni 1990 segir: „Það hallærislegasta sem ég sé er þegar slitnar ekki slefið milli fólks við næsta borð.“ Í Alþýðublaðinu 1995 segir: „Það hefur ekki ennþá slitnað slefan á milli þeirra Kristjáns Ragnarssonar og Þorsteins Pálssonar í að viðhalda þessu kerfi.“ Í Degi 1999 segir: „Þessa dagana slitnar ekki slefið á milli stjórnarflokkanna.“ Í DV 2011 segir: „Við vorum í skíðaferð með fólki sem var svo ástfangið að það slitnaði ekki slefið á milli þeirra.“

Þarna er að finna dæmi um bæði hina lýsandi merkingu sambandsins og yfirfærðu merkinguna, og ýmist er notuð kvenkynsmyndin slefa eða hvorugkynsmyndin slef sem hefur sótt mjög á síðustu áratugina. Í Risamálheildinni eru um 75 dæmi um sambandið, meirihlutinn vissulega af samfélagsmiðlum en drjúgur hluti þó úr formlegra máli, þ. á m. úr ræðum á Alþingi. En þótt þessi notkun sambandsins virðist ekki ýkja gömul hefur það verið notað áður í annarri merkingu. Það er að finna undir nafnorðinu slefa í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924, skýrt 'de ævler og snakker i det uendelige (siges om Sladdertasker)', þ.e. 'þær rausa og masa út í eitt (sagt um kjaftakerlingar)' – sagt „Talem.“, þ.e. talmál, og merkt Skaftafellssýslu.

Hvorugkynsorðið slef getur merkt 'söguburður, þvættingur' eins og fram kemur í Íslenskri orðabók en þarna er kvenkynsmyndin slefa greinilega höfð í sömu merkingu. Þetta er sama orðið og slef(a) í merkingunni 'munnvatn sem rennur út úr munninum' og væntanlega verið að líkja kjaftasögunum sem streyma út úr munninum við slef(u). Það er hins vegar óljóst hvernig stendur á því að þetta samband sem sagt er staðbundið í talmáli fyrir hundrað árum dúkkar upp í annarri merkingu meira en hálfri öld síðar. Breiddist það út og lifði allan tímann og fékk svo nýja merkingu þegar hætt var að nota slef í merkingunni ‚söguburður, þvættingur‘? Eða rakst einhver á það í Íslensk-danskri orðabók, fannst það fyndið og tók það upp í nýrri merkingu?

Posted on Færðu inn athugasemd

Slef

Í innleggi hér í gær var sagt: „Hér í eina tíð heyrði maður og sagði slefa. Nú er slefan komin í hvorugkyn hjá fjölda fólks, eða var hún alltaf tvíkynja?“ Því er til að svara að upphaflega er orðið kvenkyns. Í Snorra-Eddu segir: „Hann grenjar illilega og slefa rennur úr munni hans.“ Í Íslenskri orðabók er kvenkynsorðið slefa skýrt 'vökvi sem rennur úr munni' en þar er einnig að  finna hvorugkynsorðið slef sem er skýrt 'það að slefa; slefa, munnvatnsrennsli'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er slef skýrt 'munnvatn sem rennur út úr munninum, einkum á ungbörnum' en slefa er aðeins skýrt 'slef'. Það er því ljóst að þar er litið á hvorugkynsmyndina slef sem aðalmyndina. Þarna hefur greinilega orðið breyting á notkun orðsins á undanförnum áratugum.

Elsta dæmi sem ég finn um hvorugkynið slef er í Lesbók Morgunblaðsins 1926 þar sem sagt er frá „rannsóknum Pawlow’s, hins rússneska lífeðlisfræðings, á slefi og meltingarvökvum hunda“. En síðan sést það ekki fyrr en í kvæði í Speglinum 1970: „Þar norræn froða og norrænt slef / norrænum vall úr munni.“ Upp úr þessu fer dæmum að fjölga. Í Hús og búnaður 1972 segir: „úr munnvikum hans draup slef milli slappra varanna.“ Í Kvæðum Þórarins Eldjárn frá 1974 segir: „og Grettir verður undireins við það / svo hræddur að hann heldur varla slefi.“ Í Vikunni 1979 segir: „Inn um hana sýgst slef, vatn og annað.“ Í Lystræningjanum 1981 segir: „Grænu slefi?“ Í Hallærisplanið eftir Pál Pálsson frá 1982 segir: „Hún var að drukkna úr slefi.“

Í fyrsta dæminu hefur slef merkinguna ‚það að slefa‘ en í öllum hinum dæmunum merkir það ‚slefa‘ sem er aðalmerking þess í nútímamáli. Hvorugkynið verður smátt og smátt algengara á níunda og einkum tíunda áratugnum og sækir enn í sig veðrið. Samkvæmt Risamálheildinni er það margfalt algengara en kvenkynið á síðustu árum – myndin slefa virðist á útleið úr málinu. Það er ekki gott að vita hvers vegna þetta hefur breyst, en þó gæti verið um að ræða áhrif frá hvorugkynsorðum með -ef- í stofni sem eru nokkur – kvef, nef, sef, skref, stef, þref o.fl. Hins vegar er slefa eina kvenkynsorðið með -ef- (fyrir utan ellefa sem er dálítið sérstakt orð). En svo má ekki gleyma því að slef var til í málinu fyrir, í annarri merkingu – eða öðrum merkingum.

Eins og kemur fram í Íslenskri orðabók gat slef merkt 'söguburður, þvættingur', eins og í slefberi. Í Þjóðólfi 1900 segir: „Það eru sorpblöð ein, en heiðvirð blöð engin, sem láta sér sæma að bera út um sveitir slef og lygasögur.“ Í þessari merkingu, þar sem væntanlega er um líkingu að ræða (að bera út sögur líkt við að slefa), er orðið frá 17. öld. En í Íslenskri orðabók kemur líka fram að orðið gat að auki merkt 'það að draga (skip, bát) á eftir sér, dráttur'. Í Einherja 1936 segir: „Brúni hafði brotið stýri og tók Garðar hann þegar í slef áleiðis til hafnar.“ Í Morgunblaðinu 1945 segir: „Gætu sjerstakir dráttarbátar þá farið með marga slíka þróarpramma á slefi.“ Þetta er tökuorð úr dönsku þar sem talað er umtage / have nogen / noget på slæb.

Merkingin 'söguburður, þvættingur' í orðinu slef virðist vera alveg horfin úr málinu og merkingin ‚dráttur, tog‘ virðist vera orðin frekar sjaldgæf. Notkun orðsins í þessum merkingum hefur því farið dalandi á sama tíma og notkun þess í merkingunni 'slefa' hefur aukist. Þarna var sem sé tiltækt orð sem ekki var lengur mikið notað í eldri merkingum sínum og þess vegna hægt að taka það til handargagns og fara að nota það í nýrri merkingu, án þess að það rækist alvarlega á við eldri merkingarnar. Við það bætist svo að stofngerðin er dæmigerðari fyrir hvorugkynsorð en kvenkynsorð eins og áður segir. Þetta er gott dæmi um kynskipti sem hafa orðið á stuttum tíma, síðustu þrjátíu árum eða svo. Sumar breytingar líða hjá án þess að við tökum eftir þeim.

Posted on Færðu inn athugasemd

Til skamms tíma

Í frétt á vef Feykis stendur í dag: „Það má geta þess að Arna Rún er svolítill Króksari, bjó til skamms tíma í foreldrahúsum hjá Óskari Jónssyni lækni og Aðalheiði Arnórsdóttur.“ Það vill svo til að ég þekki til á Króknum og veit því að til skamms tíma merkir þarna 'í stuttan tíma' – annars hefði ég skilið þetta sem 'þar til nú fyrir stuttu'. Á Vísindavefnum var eitt sinn spurt: „Mig langar líka að fá að vita um „til skamms tíma“. Það virðist vera mjög skipt milli þeirra sem ég hef spurt. Sumir vilja meina að það þýði „í stuttan tíma“ án tillits til hvort það var í nýlega eða fyrir löngu. En ég ólst upp við að það þýddi „var lengi en hætti fyrir stuttu“, sem sagt „var kennari til skamms tíma“ þýðir „var kennari í langan tíma en hætti fyrir stuttu síðan“.“

Ég ólst líka upp við þessa merkingu, og í svari Guðrúnar Kvaran var sagt að merkingin væri 'fram til þessa, þar til nú fyrir skemmstu' og vísað því til staðfestingar í dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar – og einnig í Íslenska orðabók, þar sem þó eru gefnar tvær merkingar – 'í stuttan tíma' og 'þar til nú fyrir stuttu'. Það er ljóst að mjög oft hefur sambandið fyrrnefndu merkinguna og sú síðarnefnda er útilokuð, t.d. ef setningin er í nútíð. Í Samtíðinni 1943 segir: „Húsgögnin eru fremur fátækleg og flest fengin að láni hér og hvar í þorpinu, því að tjaldað er til skamms tíma.“ Í Vísi 1946 segir: „Samningurinn er gerður til skamms tíma“. Í DV 1993 segir: „má gefa út sérstakt vegabréf sem gildir til skamms tíma og rennur út að áætlaðri ferð lokinni.“

Sé setningin aftur á móti í þátíð flækist málið. Stundum er þó ótvírætt að merkingin er 'í stuttan tíma', eins og í „Samningurinn var til skamms tíma“ í Morgunblaðinu 2020. En oft verður samhengið að skera úr. Í Tímanum 1987 segir: „Nú í haust fékk Natalja loks leyfi til að heimsækja mann sinn til München. […] Leyfið gilti til skamms tíma.“ Þarna er merkingin augljóslega 'í stuttan tíma'. Í Lesbók Morgunblaðsins 1992 segir: „Fyrirkomulagið var í gildi til skamms tíma og þurfti úrskurð alþjóðadómstóls til að afnema það“ en í Morgunblaðinu 2009 segir: „Hann var í gildi til skamms tíma í senn, viku eða tvær vikur.“ Þarna sýnir samhengið ótvírætt að fyrra dæmið merkir 'þar til nú fyrir stuttu' en það seinna 'í stuttan tíma'.

Í sjálfu sér má segja að það liggi miklu beinna við að skilja til skamms tíma sem 'í stuttan tíma' en 'þar til nú fyrir stuttu' – í fyrrnefnda tilvikinu hafa orðin sína venjulegu merkingu hvert fyrir sig, en í síðarnefnda tilvikinu hefur sambandið sem heild ákveðna merkingu sem ekki verður ráðin af merkingu einstakra orða þess. Þetta má bera saman við hliðstæð sambönd eins og til langs tíma og til lengri tíma sem merkja 'í langan tíma' og til stutts tíma, til styttri tíma og til skemmri tíma sem merkja 'í stuttan tíma'. Í öllum þessum samböndum halda orðin venjulegri merkingu sinni og því er ekkert undarlegt að skilningur málnotenda á sambandinu til skamms tíma breytist og farið sé að skilja það á hliðstæðan hátt og hin samböndin, þ.e. 'í stuttan tíma'.

Þetta er alveg eðlilegur skilningur og því ekki lengur hægt að halda því fram að til skamms tíma merki eingöngu 'þar til nú fyrir stuttu'. Í Málfarsbankanum segir líka: „Orðasambandið til skamms tíma merkir að jafnaði: þar til fyrir stuttu.“ Athyglisvert er að þarna er sagt „að jafnaði“ og því viðurkennt að þessi merking er ekki algild. Það er hins vegar óheppilegt að þessi breytti skilningur á sambandinu leiðir til þess að í mörgum tilvikum er það tvírætt og þarf að reiða sig á samhengi til að skilja það eins og til var ætlast – og í sumum tilvikum dugir mállegt samhengi ekki einu sinni, heldur þarf þekkingu á aðstæðum eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi. En við það verðum við líklega bara að búa – það er enginn heimsendir.

Posted on Færðu inn athugasemd

Er að bera virðingu fyrir það sama og virða?

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í gær sagði: „Guðveig segist bera virðingu fyrir þessum sjónarmiðum.“ Þetta er algeng málnotkun og hvarflar ekki að mér að nýta í hana eða halda því fram að hún sé röng í einhverjum skilningi, en þarna hefði ég fremur sagt Guðveig segist virða þessi sjónarmið. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er nafnorðið virðing skýrt 'viðurkenning og gott álit sem maður ávinnur sér frá öðrum, heiður' og í Íslenskri orðabók er orðið skýrt 'álit, heiður; það að virða'. Þótt sögnin virða sé vissulega skýrð 'bera virðingu fyrir' í Íslenskri nútímamálsorðabók mætti skilja skýringarnar á nafnorðinu virðing á þann veg að það sé einkum fólk fremur en skoðanir sem getur notið virðingar – sem hægt er að bera virðingu fyrir.

Þetta er samt ekki svo einfalt – það má finna ótal gömul dæmi um að virðing sé notað um annað en fólk. Í Kvennablaðinu 1913 segir: „þær bera þá virðingu fyrir þessu mikilvægasta máli íslenzku þjóðarinnar.“ Í Íslandi 1927 segir: „Maður hefir ekki getað séð það á blaðinu, að það bæri sérlega virðingu fyrir þessu ríki.“ Í Alþýðublaðinu 1935 segir: „Ég hafði borið svo óstjórnlega virðingu fyrir þessu bréfi.“ Í Morgunblaðinu 1941 segir: „En alt í einu hjer um daginn fjekk jeg djúpa virðingu fyrir þessu gamla húsi.“ Í Morgunblaðinu 1955 segir: „Við verðum að bera mikla virðingu fyrir þessu framtaki.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „Þegar maður gengur um götur Varsjár, setur mann hljóðan af virðingu fyrir þessu minnismerki.“

Í staðinn fyrir virðing væri í flestum eða öllum þessum dæmum hægt að setja orðið lotning sem einmitt er skýrt 'djúp virðing' bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. En það eru líka dæmi frá ýmsum tímum um að bera virðingu fyrir skoðunum eða sjónarmiðum og þar væri tæpast eðlilegt að tala um lotningu. Í Dagskrá 1899 segir: „látum oss líka bera virðingu fyrir skoðunum annara manna.“ Í Heimskringlu 1902 segir: „Hann sýndi virðingu fyrir skoðununum og talaði heiðarlega um mótstöðumenn sína.“ Í Alþýðublaðinu 1966 segir: „en berum fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hvors annars.“ Í Tímanum 1982 segir: „Staðreyndin er jafnframt sú að ég ber mikla virðingu fyrir sjónarmiðum landverndarmanna.“

Í þessum dæmum myndi ég nota sögnina virða í stað bera virðingu fyrir. Mér finnst virða í samhengi af þessu tagi merkja 'taka tillit til, taka mark á, taka alvarlega, gera ekki lítið úr' eða eitthvað slíkt fremur en tengjast áliti eða heiðri. En mér sýnist notkun sambandsins bera virðingu fyrir í þessari merkingu hafa aukist mjög á síðustu árum. Í Alþingisræðum í Risamálheildinni eru 129 dæmi um bera virðingu fyrir skoðun / sjónarmiði, þar af aðeins ellefu frá því fyrir aldamót. Auðvitað er ekkert athugavert við það eins og áður segir – þetta sýnir bara að við leggjum ekki öll nákvæmlega sömu merkingu í ýmis orð og orðasambönd. Það er í fínu lagi, svo framarlega sem það veldur ekki alvarlegum misskilningi – sem sjaldnast er.

Posted on Færðu inn athugasemd

Smellhitta, smellpassa og aðrar smell-sagnir

Í fyrradag rakst ég á fyrirsögnina „Brasilíumaðurinn smellhitti boltann“ á mbl.is. Ég hef svo sem ótal sinnum sé sögnina smellhitta en fór samt af einhverjum ástæðum að velta henni fyrir mér. Þótt hún sé í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er hana hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en í íslensk-enskri Orðabók Aldamóta á Snöru er hún þýdd 'smash'. Hún merkir 'hitta vel eða nákvæmlega' og væntanlega liggur sögnin smella að baki – ein merking hennar er 'hrökkva (á sinn stað), passa vel (á sínum stað)‚ ganga upp, klárast', t.d. þetta er allt að smella (saman). En smella merkir einnig 'gera snöggt hljóð' og e.t.v. vísar smell- í smellhitta einnig til smellsins sem verður þegar slegið er eða sparkað í bolta.

Eins og ég þóttist vita er sögnin ekki ýkja gömul – elsta dæmi um hana á tímarit.is er í Víkurfréttum 1985: „Margeir notaði 6-járn, smellhitti og … „lenti inn á gríni og rúllaði beint í holu“.“ Þarna er sögnin notuð um golf og líka í næstelsta dæminu, „Bingó, hann smellhitti boltann“ í DV 1985, en í DV 1989 er merkingin óeiginleg: „Kringlan hefur gengið vel og með henni virðist Pálmi hafa smellhitt naglann á höfuðið.“ Þetta eru einu dæmin um sögnina fyrir 1992 en í DV það ár er hún fyrst notuð um fótbolta: „Ég smellhitti boltann og það var frábært að sjá hann í netinu.“ Eftir það fer dæmum smátt og smátt fjölgandi og langflest eru úr fótboltamáli. Á tímarit.is eru tæp 170 dæmi um hana en í Risamálheildinni eru dæmin rúm 500.

Nokkrar aðrar samsettar sagnir með smell- sem fyrri lið má finna í Risamálheildinni. Þrettán dæmi eru um smellvirka, t.d. „Síðast en ekki síst er það svo meginatriðið, þetta samspil mynda og texta, sem smellvirkar“ í Morgunblaðinu 2008. Átta dæmi eru um smellganga, t.d. „Sumir hafa látið í sér heyra síðar og þá hefur allt smellgengið upp“ í Vísi 2015. Fjögur dæmi eru um smellfalla, t.d. „Allan Fall er að smellfalla inn í liðið“ í Morgunblaðinu 2008. Sögnin smellkyssa er hins vegar miklu eldri og líklega annars eðlis– elsta dæmi um hana er „augun ætluðu blátt áfram út úr hausnum á honum, þegar hann sá hana smellkyssa stjúpuna“ í Alþýðublaðinu 1951. Þar er væntanlega vísað til hljóðsins, enda orðið kossasmellur til – elsta dæmi um það frá 1943.

En langalgengasta sögnin með þennan fyrri lið er smellpassa sem mér fannst ég hafa kunnað alla tíð og hélt að væri gömul, er í raun litlu eldri en smellhitta ef marka má tímarit.is – elsta dæmið um hana er í Íþróttablaðinu 1978: „Einhver áhorfandanna hafði verið við þessum úrslitum búinn og dró upp úr pússi sínu gulllitaða kórónu sem smellpassaði á hálfsköllótt höfuð Stenzels.“ Fáein dæmi eru um sögnina frá næstu árum en það er ekki fyrr en um miðjan tíunda áratuginn sem hún fer að verða algeng og tekur svo við sér svo að um munar á þessari öld. Alls eru tæplega 2.600 dæmi um hana á tímarit.is og nærri 4.500 í Risamálheildinni. Þarna er augljóst að um er að ræða merkinguna ‚passa vel‘ en merkingin ‚gera snöggt hljóð‘ á ekki við.