Posted on Færðu inn athugasemd

Að vera í sársauka og í tárum

Í dag var hér vísað til þess að lýsandi fótboltaleiks hefði sagt að leikmaður sem lá meiddur á vellinum væri „í sársauka“. Spurt var hvort fólk kannaðist við þetta orðalag sem fyrirspyrjandi taldi líklegt að væri bein yfirfærsla úr ensku, he is in pain. Það er mjög trúlegt en fáein dæmi má finna um þetta orðalag frá síðustu árum, þó aðeins eitt á tímarit.is: „Ég hef verið í sársauka síðan ég man eftir mér“ í Fréttablaðinu 2019. Í Risamálheildinni eru 16 dæmi, m.a. af Mannlífi 2018: „Það er ekki hægt að vera alltaf í góðu skapi þegar maður er í sársauka alla daga og verkjalyf gera takmarkað gagn.“ Flest eru þó af samfélagsmiðlum, það elsta á Bland.is 2002: „Ef maður er í sársauka þá á maður að biðja um eitthvað og ekki vera að hvelja sig, finnst mér.“

En þótt sambandið í sársauka eigi sér ekki langa hefð í íslensku er rétt að benda á að það virðist alveg hliðstætt við sambandið í kvölum sem hefur tíðkast allt frá 19. öld, ekki síst í biblíumáli. Í Viðeyjarbiblíu frá 1841 segir: „En er hann var í helvítiskvölum, þá hóf hann upp augu sín, og sá Abraham álengdar, og Lasarus í faðmi hans“ – í þýðingunni 2007 segir „þar sem hann var í kvölum“. Í þýðingu Hannesar Hafstein á „Brandi“ eftir Henrik Ibsen í Verðandi 1882 segir: „nístir saman höndunum sem í kvölum.“ Í Breiðabliki 1911 segir: „En hinn ríki vaknar þegar upp í kvölum.“ Í Stefni 1931 segir: „Hann var í kvölum.“ Í Ísfirðingi 1980 segir: „En þótt hann kunni nú að vera í kvölum verður hver að liggja svo sem hann hefur um sig búið.“

Annað svipað samband en talsvert algengara og eitthvað eldra í málinu er vera í tárum sem er væntanlega einnig yfirfærsla úr ensku, in tears. Elsta dæmi um það er í þýddri sögu í Alþýðublaðinu 1950: „Daginn áður hafði Denisa verið í tárum, yfirbuguð, full örvæntingar.“ Í Bliki 1954 segir: „Heimaey var í tárum.“ Í Morgunblaðinu 1980 segir: „Nokkrar kvennanna og börnin voru í tárum, en enginn missti stjórn á sér.“ Í Tímanum 1983 segir: „ekki er að efa, miðað við fyrri reynslu, að um hclmingur gesta muni vera í tárum mestan hluta kvöldsins.“ Í Morgunblaðinu 1993 segir: „Ég var í tárum“. Þetta eru einu dæmin sem ég finn fram á fyrri hluta tíunda áratugarins – tvö úr þýðingum og eitt eftir mann sem bjó lengi í Bandaríkjunum.

Eftir það fer dæmunum ört fjölgandi. Í bréfi frá Stefáni Snævarr sem Gísli Jónsson birti í þættinum „Íslenskt mál“ í Morgunblaðinu 1997 segir: „Maðurinn, sem hugsar á ensku, lætur ekki deigan síga. […] Hann segir lesendum Morgunblaðsins að leikarinn Ryan O’Neil og ástkona hans „hefðu verið í tárum“ nýverið.“ Þetta bendir til þess að sambandið í tárum hafi verið orðið algengt upp úr miðjum tíunda áratugnum og enskur uppruni þess verið talinn vafalaus. Í Risamálheildinni eru 66 dæmi um sambandið frá þessari öld, um helmingur af samfélagsmiðlum. Það vekur athygli að utan samfélagsmiðla virðist þetta orðalag einkum notað í fótboltalýsingum – megnið af dæmum um það er úr íþróttafréttum, m.a. af fótbolti.net.

Hvað á að segja um samböndin vera í sársauka og vera í tárum? Þótt augljóslega sé um yfirfærslu úr ensku að ræða eru þessi sambönd auðvitað íslenska, í þeim skilningi að orðin eru íslensk, og setningagerðin á sér líka skýrt fordæmi í vera í kvölum. Mér finnst enskar fyrirmyndir ekki næg ástæða til að amast við umræddum samböndum og í sjálfu sér eru þau bara góð viðbót við íslenskuna. Hins vegar er ástæða til að minna á að vitanlega væri venjuleg íslenska að segja kvalinn, þjáður, sárkvalinn, sárþjáður eða eitthvað slíkt frekar en í sársauka, og grátandi, tárfellandi, tárvotur, társtokkinn eða eitthvað slíkt frekar en í tárum. Ensk áhrif eru vond ef þau leiða til einhæfni í orðavali og til þess að rótgróin íslensk orð gleymist.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að (reyna að) veitast að

Í gær var hér spurt hvort orðasambandið veitast að gæti vísað eingöngu til einhvers sem er sagt, eða hvort eitthvað líkamlegt þyrfti líka að koma til. Tilefnið var fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins þar sem stóð „Reynt að veitast að utanríkisráðherra í Háskóla Íslands“, og í fréttinni stóð: „Þegar Bjarni hafði lokið máli sínu hlupu þrjár konur með fána Palestínu í átt að honum og hugðust veitast að honum en gæsla sem Bjarni fékk kom í veg fyrir að þær næðu alla leið.“ Sambandið veitast að er skýrt 'ráðast á' í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. Í hvorugri bókinni er tekið fram hvort árásin er gerð með orðum eða aðgerðum en í þeirri fyrrnefndu er tekið dæmið tveir ókunnir menn réðust að honum og rændu hann en ekki dæmi um árás í orðum.

Það er þó ljóst af dæmum að sambandið hefur alltaf getað vísað líka til orða – stundum væri reyndar eðlilegra að skýra það sem 'gagnrýna harkalega' en 'ráðast á' þótt vissulega sé það skilgreiningaratriði. Þannig segir t.d. í Þjóðólfi 1849: „Því næst hafa menn talið það sem ókost við blöðin, að þau svo opt veittust að valinkunnum embættismönnum, með því þau gjörðu sjer far af því að dæma og átelja aðgjörðir þeirra og athæfi.“ Í Þjóðólfi 1895 segir: „Þá sagðist hann geta sér þess til, að verjandi mundi veitast að rannsóknardómaranum.“ Sambandið er ekki eingöngu notað um fólk – í Ísafold 1876 segir t.d.: „þegar farið var að veitast að hinni veglegu íþrótt, er hann hafði stundað alla æfi og unni svo mjög, gat hann eigi lengur orða bundizt.“

Fyrirspyrjandi velti því líka fyrir sér hvort eðlilegt væri að segja „reyndu að veitast að“ og „hugðust veitast að“ eins og gert er í áðurnefndri frétt. Samkvæmt þessu orðalagi var í raun ekki veist að utanríkisráðherra, hvorki í orði né verki – konurnar sem um ræðir hugðust gera það og reyndu það samkvæmt fréttinni en voru stöðvaðar áður en til þess kæmi. Spurningin er sem sé hvort réttlætanlegt sé að nota orðasambandið veitast að í slíkum tilvikum – hvort og hvernig fréttafólk geti fullyrt eitthvað um hvað fólk hafði í huga eða ætlaði að gera. Þegar um er að ræða árás í orðum verða að liggja fyrir beinar heimildir um ætlun fólks, en ef málið snýst um athafnir er hugsanlegt að draga ályktanir út frá aðstæðum. Um þetta má nefna tvö mismunandi dæmi.

Í Sögu 2011 segir: „Norski Kominternfulltrúinn Haavard Langseth, sem heimsótti Ísland árið 1930, ætlaði að veitast að Einari í ávarpi til íslenskra kommúnista [...] Úr því varð þó ekki. Ráðamenn Komintern felldu þennan hluta ávarpsins burtu.“ Hér er sambandið ætlaði að veitast að notað og höfundur textans hefur beinar heimildir fyrir því sem segir í framhaldinu. Annars konar dæmi er í DV 2008: „Dave Grohl tæklaði það vel þegar aðdáandi ætlaði að veitast að honum. [...] Æstur og ölvaður aðdáandi hljómsveitarinnar stökk upp á sviðið og ætlaði að æða í átt að Dave en öryggisvörðum tókst að fella hann í tæka tíð.“ Hér er væntanlega ályktað út frá ástandi og framkomu aðdáandans að hann hafi ætlað að veitast að söngvaranum.

Sama máli gegnir um það tilvik sem sagt er frá í umræddri frétt. Frá málfræðilegu sjónarmiði sé ég ekkert athugavert við orðalag fréttarinnar – e.t.v. má segja að reyna að / hyggjast veitast að geti í slíkum tilvikum merkt 'nálgast á ógnandi hátt' eða jafnvel 'gera sig líklegan til að ráðast á'. En auðvitað er það hvort og hversu ógnandi fólk er eða líklegt til árása ekki málfarsleg spurning heldur snýst um ályktanir út frá aðstæðum, og þetta er vissulega dæmi um að það skiptir miklu máli að vandað sé til verka í fréttaskrifum um viðkvæm og umdeild mál. Oft er hægt að lesa tiltekið orðalag á mismunandi hátt og nauðsynlegt að fréttafólk hafi það í huga og vandi sig – og ekki síður mikilvægt að almenningur lesi fréttir með gagnrýnum huga.

Posted on Færðu inn athugasemd

Bíll og flugvél, malt og appelsín, blað og penni

Í gær var hér spurt hvort ætti fremur að segja þjónusta ráðgjafa og vinnuaðferðir byggja á þekkingu eða þjónusta ráðgjafa og vinnuaðferðir byggir á þekkingu (setningum örlítið breytt) – þ.e., hvort sögnin byggja ætti að vera í eintölu eða fleirtölu. Þarna er frumlagið samsett, [þjónusta ráðgjafa] og [vinnuaðferðir] og því mætti búast við að sögnin væri í fleirtölu, eins og í t.d. [vinur minn] og [bróðir hans] byggja saman hús – þar kemur eintalan byggir ekki til greina. Flest þeirra sem brugðust við þessari spurningu kusu líka fleirtöluna en mér og einhverjum fleiri fannst eintalan þó ekki fráleit. En setningar af þessu tagi hafa lengi vafist fyrir mörgum og skoðanir verið skiptar á því hvernig beri að fara með þær enda flóknari en virðist í fljótu bragði.

Jón G. Friðjónsson fjallaði um slíkar setningar í Morgunblaðinu 2004 og benti á að í setningunni bíllinn og flugvélin eru biluð „er um að ræða tvo teljanlega hluti og þá eru þeir lagðir saman og notuð fleirtala og lýsingarorðið (biluð) stendur í hvorugkyni fleirtölu þar sem nafnorðin eru ósamstæð að kyni (kk. og kvk.)“. En í setningunni kaffi og tóbak er óhollt „eru báðir liðir frumlagsins óteljanlegir og er í slíkum tilvikum jafnan notuð eintala og lýsingarorð, ef um það er að ræða, samræmist oftast síðari liðnum“. Jón segir þó að síðarnefnda reglan „virðist eiga nokkuð erfitt uppdráttar í nútímamáli“ og tekur ýmis dæmi um það sem hann telur vafasöm, s.s. verslun og þjónusta hafa staðið í stað þar sem honum finnst eiga að vera hefur staðið í stað.

Þetta er þó hvorki einfalt né algilt. Í Mannlífi 2019 segir: „Malt og Appelsín eru … alltaf á mínum borðum um jól og er frábært par.“ Þrátt fyrir að malt og appelsín vísi ekki til teljanlegra fyrirbæra er sögnin fyrst í fleirtölu, eru, enda má líta svo á verið sé að tala um drykkina hvorn fyrir sig. En í seinni hlutanum er sögnin í eintölu vegna þess að þar eru þeir spyrtir saman. Í auglýsingu frá Ölgerðinni segir „Malt og Appelsín hafa verið fastagestir við jólaborð Íslendinga áratugum saman“ með fleirtöluna hafa, en vegna þess að framhaldið er „og mörgum finnst jólin ekki vera komin fyrr en fyrsti sopinn af blöndinni rennur mjúklega niður“ fyndist mér eðlilegra að þarna væri eintalan hefur vegna þess að blandan er í raun einn drykkur, [maltogappelsín].

Þarna koma upp fjölmörg álitamál eins og Jón nefnir en ég held að fleira komi til en það hvort liðir frumlagsins vísa til teljanlegra fyrirbæra eða ekki – það skiptir ekki síður máli hvort málnotendur skynja þá sem eina heild. Í DV 1998 segir: „Einn stærsti kosturinn er hversu fljótt maður sér útkomuna ef tölva og prentari er við höndina.“ Á mbl.is 2020 segir: „Blað og blýantur er meira að segja bannvara í húsinu.“ Á Bland.is 2010 segir: „Nei, penni og blað er ekki out.“ Hér er alls staðar eintala þótt orðin tölva, prentari, blað, blýantur og penni vísi vitanlega öll til teljanlegra fyrirbæra, en það sem hér skiptir máli er að orðin sem tengd eru saman með og mynda í einhverjum skilningi eina heild. Í öllum tilvikum væri þó líka hægt að nota fleirtöluna.

Það er ljóst að bæði það hvort frumlagsliðirnir vísa til teljanlegra fyrirbæra og hvort unnt er að líta á það sem þeir vísa til sem einhvers konar heild getur skipt máli, en við það bætist að málnotendur geta haft mismunandi tilfinningu fyrir eða skoðanir á hvoru tveggja. Sumum finnst t.d. aðeins hægt að nota orðið þjónusta sem vísað var til hér í upphafi í eintölu en öðrum finnst ekkert að því að tala um þjónustur – sem eru þá teljanlegar. Það getur líka verið misjafnt milli fólks, og misjafnt eftir aðstæðum, hvort t.d. tölva og prentari eða blað og penni er skynjað sem ein heild. Um þetta verður fólk að fara eftir máltilfinningu sinni, og útilokað – og ástæðulaust – að reyna að setja einhverjar fastar reglur eða tala um eitthvað rétt eða rangt í þessu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Þrjár hneppur að framan

Áðan var hér spurt um orðalagið „Þrjár hneppur að framan“ og „Þrjár hneppur á sitthvorri erminni“ sem er notað í auglýsingu um leðurkápu og fyrirspyrjandi sagðist ekki hafa séð áður á prenti. Það sem hefur komið spánskt fyrir sjónir er væntanlega orðið hneppur sem hlýtur að vera fleirtala af kvenkynsorðinu hneppa. Það orð er að vísu að finna í orðabókum en mjög sjaldgæft og í allt annarri merkingu og samhengið sýnir glöggt að þarna hlýtur þetta að tengjast nafnorðinu hnappur og sögninni hneppa. Ég hélt fyrst að hneppa væri þarna notað í merkingunni hne(pp)sla, þ.e. 'hnappagat', en við nánari athugun kom í ljós að merkingin er víðari en svo. Orðið er sjaldséð á prenti en fáein nýleg dæmi um það eru í Risamálheildinni.

Nokkur dæmi: Á mbl.is 2021 segir: „Svo virðist sem hann hafi mögulega farið í þær öfugar, því framan á þeim er enginn rennilás, engin hneppa, ekkert!“ Á Hugi.is 2009 segir: „Það sést ekkert á henni alveg eins og ný bara, fyrir utan það að ein hneppan datt af inní vasanum.“ Á Bland.is 2005 segir: „Td jakki sem ég mátaði, smelpassaði, en gat ekki hnept því hneppan var svona brjóstahæð og bara náði ekki saman þar.“ Á Bland.is 2011 segir: „Ég heyrði um einhverja teygju eða eitthvað sem hægt væri að kaupa og láta í staðinn fyrir hneppuna eða allavega eitthvað svo maður geti notað gallabuxurnar lengur?“ Á Bland.is 2008 segir: „þegar hann er að hneppa henni sundur til að fara í hana þá fer bara hneppan af (voru smellur ekki tölur).“

Einnig er hægt að finna allnokkur dæmi um orðið hneppa í auglýsingum á netinu og þá fylgja yfirleitt myndir. Þessi dæmi og myndirnar benda til þess að orðið hneppa sé notað í víðri merkingu – merki í raun 'það sem gerir kleift að hneppa'. Í dæmum eins og „Falleg skyrta með hneppum alveg niður“ og „Hneppur aftan á hálsmáli til að auðvelt sé að klæða krílin“ má segja að hneppa vísi bæði til hnapps og hnappagats, en í dæmum eins og „Allur málmur og hneppur eru burstaðar“ og „Rauðar hneppur“ er einkum vísað til hnappsins. Eins og áður er komið fram er einnig hægt að nota orðið um smellur þar sem ekki er neitt hnappagat og ekki heldur hnappur í venjulegri merkingu – „Kuldagalli mjög hlýr og góður. Búið að naga tvær hneppur.“

Nafnorðið hneppa er eðlilegt orð og fellur vel að málinu, hvort sem litið er svo á að það sé myndað af nafnorðinu hnappur eða sögninni hneppa. Það er líka gegnsætt, í þeim skilningi að við tengjum það strax við orðin hnappur og hneppa þótt við þurfum að læra nákvæma merkingu orðsins sérstaklega eins og í flestum öðrum orðum sem kölluð eru „gegnsæ“. Svo er spurning hvort einhver þörf sé fyrir orðið. Í því samhengi má benda á að áður fyrr voru lítil tilbrigði í því hvernig flíkum var hneppt – með einföldum hnappi sem fór í gegnum hnappagat. Nú er fjölbreytnin margfalt meiri, happar oft fremur til skrauts en í hagnýtum tilgangi, og smellur oft í staðinn. Það getur verið hentugt að hafa orð sem nær yfir þetta allt og hneppa gerir það vel.

Posted on Færðu inn athugasemd

Að drífa sig, flýta sér – og letsa

Í gær var hér spurt hvort ekki væri lengur gerður greinarmunur á orðasamböndunum drífa sig og flýta sér. Ég sagðist telja að þessi munur væri gerður, en vissulega er oft hægt að nota bæði samböndin í sömu merkingu. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er drífa sig skýrt 'anstrænge sig, være dygtig og energisk', þ.e. 'leggja sig fram, vera iðinn og kappsamur'. Í Íslenskri orðabók er sambandið drífa sig skýrt annars vegar 'taka á sig rögg og koma sér af stað (hefjast handa)' og hins vegar 'herða sig (við verk)'. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin drífa skýrð ‚sýna dugnað, framtakssemi, hraða‘ og undir henni er gefið sambandið drífa sig <af stað> með dæmunum drífið ykkur krakkar, við erum að fara; hann dreif sig á fætur klukkan 6.

Þarna eru sem sé tveir merkingarþættir – annars vegar 'dugnaður, kappsemi' og hins vegar 'hraði, viðbragð'. Sögnin flýta er skýrð ‚hraða (e-u), láta (e-ð) gerast hraðar, fljótar‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók þannig að þar er skörun við aðra merkinguna í drífa, og iðulega gætu báðar sagnirnar átt við. Ef ég segi við þurfum að drífa okkur, við erum að verða of sein getur það annars vegar merkt 'nú þurfum við að sýna dugnað (við að koma okkur af stað)' og hins vegar 'nú þurfum við að vera fljót' – eins væri hægt að nota flýta okkur. Sama máli gegnir hugsanlega ef við erum á leiðinni eitthvað og ég segi við förum alltof hægt, nú þurfum við virkilega að drífa okkur – en ég er þó ekki viss um að öllum finnist eðlilegt að nota drífa sig við þær aðstæður.

Ástæðan fyrir því að þessi setning er e.t.v. vafasöm er sú að fyrir mörgum a.m.k. felst einhvers konar upphaf í drífa sig sem ekki er í flýta sér. Ég get sagt þegar ég mætti honum var hann alltaf að flýta sér í ræktina en mér finnst skrítið að segja þegar ég mætti honum var hann alltaf að drífa sig í ræktina – af því að þar er hann á leiðinni en ekki að hefja ferðina. En hugsanlega er þetta að breytast – a.m.k. finn ég slæðing af setningum með sambandinu alltaf að drífa sig þar sem ekki er augljóst að um eitthvert upphaf sé að ræða, eins og í Stundinni 2018: „Við gerum eitt í einu og sýnum þolinmæði fyrir líðandi stund í stað þess að vera alltaf að drífa okkur“ og „Fólkið í minni fjölskyldu er alltaf að drífa sig svo mikið“ á Bland.is 2010.

Í þessum dæmum væri eins hægt – og kannski eðlilegra – að nota flýta sér, en vissulega er hugsanlegt að lesa einhvers konar upphafsmerkingu úr þeim. Það virðist samt ekki ólíklegt að munurinn á merkingu drífa sig og flýta sér hafi dofnað undanfarið, en því fer samt fjarri að alltaf sé hægt að nota drífa sig í sömu merkingu og flýta sér. Mér finnst t.d. óeðlilegt eða útilokað að nota drífa sig í setningum eins og *hún spurði hvort þetta væri rétt og ég dreif mig að svara játandi, eða *það var beðið eftir mér svo að ég dreif mig eins og ég gat, eða *ég hef ekki drifið mig svona mikið í mörg ár, eða *við svona aðstæður er mikilvægt að drífa sig hægt. En ég skal samt ekki útiloka að einhverjum finnist einhverjar þessara setninga góðar og gildar.

Í tengslum við þetta má nefna nýlega sögn sem ungt fólk notar stundum í merkingunni ‚drífa sig, fara‘ – sögnina letsa. Dæmi um hana má m.a. finna á twitter 2016: „Núna þurfum við því miður að letsa“, og 2020: „Ég er að fara að henda mér í lopann og letsa“. En hugsanlega er letsa þegar úrelt eins og segir á twitter 2021: „Letsa er svona fjögurra ára gamalt og öööörugglega að detta út - held að núna sé LESSSSGO málið“ og „Þá er pottþétt löngu orðið ýkt halló að letsa“. Þetta er komið af let’s go á ensku – ensk sambræðsla sagnar og fornafns (let us) verður að íslenskri sögn sem fær merkingu ensku aðalsagnarinnar (go) – sem fellur brott. Kannski verður letsa ekki langlíf sögn en mér finnst þetta býsna skemmtileg orðmyndun.

Posted on Færðu inn athugasemd

Skotsilfur

Nýlega var hér spurt hvað fyrri liðurinn skot- í orðinu skotsilfur væri. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er skotsilfur skýrt 'lausir peningar, peningar til að eyða, reiðufé' og í Íslenskri orðabók er skýringin 'vasapeningar, eyðslueyrir, reiðufé' en þar kemur líka fram að skot eitt og sér geti m.a. merkt 'framlag eins einstaks til samskota'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er skotsilfur skýrt 'Lommepenge; Rejsepenge', þ.e. 'vasapeningar; ferðafé' og undir skot sem er skýrt á sama hátt og í Íslenskri orðabók er vísað á dæmi úr Riti þess íslenzka Lærdómslistafélags frá 1781: „skot (og skot-penningr) heitir, þá er hverr gefr sinn hluta til einhvers.“ Í Íslenskri orðsifjabók kemur fram að skot geti m.a. merkt ‚framlag (í peningum)‘.

Í fornmálsorðabók Fritzners, Ordbog over Det Gamle Norske Sprog, er vísað úr skotsilfur á skotpeningur sem hefur tvær merkingar: Annars vegar 'Penge som tilfalder en', þ.e. 'fé sem fellur einhverjum í hlut' og hins vegar 'Tærepenge, Penge som man erlægger for sig i Betaling for sin Underholdning, Beværtning', þ.e. 'dagpeningar, fé sem greitt er fyrir uppihald'. Við seinni merkinguna er vísað til samanburðar í écot á frönsku og scot, scotum í miðaldalatínu. Í seinni tíð (a.m.k. frá því á 19. öld) virðist fyrri merkingin ekki koma fyrir í skotsilfur þótt hún haldist í orðinu samskotskotsilfur er eingöngu notað í merkingunni 'eyðslueyrir' og áður fyrr langoftast um fé til að greiða útgjöld á ferðalagi – önnur en beinan ferðakostnað.

Þannig segir t.d. í Ísafold 1875: „Prinsinn af Wales hafði 1 milj. kr. eða freklega það í farareyri í Indlandsför sína, og undir það annað eins í skotsilfur.“ Í Heimskringlu 1886 segir: „kom þeim ásamt um, að verðið skyldi vera $67 (sextíu og sjö dollars!), eða með öðrum orðum farbrjef til Liverpool, sem kostar $55 og um 12 doll. í skotsilfri, til þess að svalla í leiðinni.“ Hér er gerður skýr munur á beinum ferðakostnaði og öðrum útgjöldum í ferðinni – skotsilfur er eyðslufé, notað til að greiða ýmislegt sem er ekki endilega allt bráðnauðsynlegt. En þetta gildir þó ekki eingöngu um ferðalög – í Skírni 1886 segir t.d.: „Drottning keisarans hefir í skotsilfur 600,000 rúflna, og heldur því fje, ef hún verður ekkja auk peninga til viðurværis og hirðkostnaðar.“

Posted on Færðu inn athugasemd

Að liggja í lausu lofti

Í innleggi hér í morgun, sem ég eyddi vegna neikvæðs orðalags, var vakin athygli á fyrirsögninni „Staðarhald á Hólum liggur í lausu lofti“ á mbl.is í dag og spurt hvort þetta væri „kannski bara eðlileg þróun málsins“. Þótt það hafi ekki komið fram geri ég ráð fyrir að fyrirspyrjandi telji að í stað sagnarinnar liggja ætti fremur að nota svífa eða vera – eins og reyndar er gert í upphafi fréttarinnar: „Staðarhald Hólastaðar er í lausu lofti.“ Vissulega er það rétt að sögnin vera er venjulega notuð í þessu sambandi sem merkir þarna 'hafa enga festu' segir í Íslenskri nútímamálsorðabók – í Íslenskri orðabók er sambandið svífa í lausu lofti skýrt 'vantar undirstöðu, er uppi í skýjunum'. Framtíð staðarhalds á Hólum er sem sé í algerri óvissu.

Nokkur dæmi um liggja í lausu lofti í þessari merkingu má finna í Alþingistíðindum, þau elstu meira en hundrað ára gömul. Það elsta er frá 1915, í ræðu Bjarna Jónssonar frá Vogi sem þótti enginn bögubósi: „Vona jeg, að þingmaðurinn breyti nú skoðun og greiði tillögum mínum atkvæði, þegar hann sjer, hversu spádómar hans liggja í lausu lofti.“ Annað dæmi er í ræðu Einars Jónssonar 1918: „En jeg vil hjer fara milliveginn, að alt sje ekki látið liggja í lausu lofti, en ekki heldur alt lögboðið, sem kemur við atvinnuþörfinni og vinnuveitandanum í bága.“ Þriðja dæmið er í ræðu Jakobs Möller 1927: „Ef þetta er ekki sönnun þess, að fyrirætlanir fjelagsins liggi í lausu lofti, þá veit jeg ekki, hvaða sannanir menn vilja fá.“

Á tímarit.is er á þriðja tug dæma um liggja í lausu lofti í þessari merkingu, það elsta í Sjómannablaðinu Víkingi 1948: „Þegar stjórnarsamvinnan rofnaði, var ekki búið að marka nægilega örugga stefnu í afurðasölumálunum. Þau lágu í lausu lofti.“ Í Vísi 1959 segir: „Þetta væru þó meira getgátur er lægju í lausu lofti.“ Í Morgunblaðinu 1966 segir: „Skýringin liggur í lausu lofti og áhorfandinn fær varla höndlað hana.“ Í Tímanum 1969 segir: „En það hlýtur alltaf að vera sanngirnismál, að ekki sé látið liggja í lausu lofti hverra breytinga sé von vegna framkvæmdanna.“ Ýmis nýleg dæmi eru líka til – í Fréttablaðinu 2023 segir: „Við breytum ekki fortíðinni en það er algjör óþarfi að láta málið liggja í lausu lofti lengur.“

Sambandið liggja í lausu lofti er vissulega fremur sjaldgæft – í Risamálheildinni eru rúm 800 dæmi um sambandið vera í lausu lofti en aðeins um 50 dæmi um liggja í lausu lofti. Hins vegar er sambandið liggja í loftinu í merkingunni 'eitthvað er yfirvofandi, líklegt er að eitthvað gerist' mjög algengt. Merkingin er vissulega ekki sú sama og í vera í lausu lofti en þó er ekki ýkja langt á milli – í báðum samböndum er um að ræða óvissu. Þótt ekkert sé hægt að fullyrða um þetta finnst mér því ekki ósennilegt að sambandið liggja í lausu lofti hafi orðið fyrir áhrifum frá liggja í loftinu. Það er auðvitað smekksatriði hvað fólki finnst um liggja í lausu lofti en þar eð elstu dæmin um það eru meira en hundrað ára gömul er a.m.k. ekki um að ræða splunkunýja „þróun“.

Posted on Færðu inn athugasemd

Mannleg mistök

Hér hefur oftar en einu sinni verið rætt um orðasambandið mannleg mistök sem mörgum finnst undarlegt – það er fólk sem gerir mistök og hljóta þá ekki öll mistök að vera mannleg? Orðið mistök er skýrt 'það sem er gert rangt' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'yfirsjón, handvömm, vangá, e-ð rangt, óheppilegt' í Íslenskri orðabók. Þar er sambandið mannleg mistök reyndar skýrt sérstaklega sem 'mistök vegna vangár eða vanrækslu (starfs)manna (en ekki vélarbilunar, náttúruaðstæðna o.s.frv.)' en merkt !? sem þýðir „orð eða málatriði sem ekki nýtur fullrar viðurkenningar, telst ekki gott mál í venjulegu samhengi“. Ástæðan fyrir þessari merkingu er væntanlega sú að mannleg þyki ofaukið vegna þess að sjálfgefið sé að mistök séu mannleg.

Oft eru mistök afleiðing ákvörðunar sem hefur verið hugsuð vandlega í langan tíma og það sem var gert var nákvæmlega það sem til stóð – en reynist samt sem áður hafa verið rangt, eftir á að hyggja. Það getur liðið langur tími áður en fólk kemst að þeirri niðurstöðu að þessi ákvörðun hafi verið röng, og það getur iðulega verið umdeilt hvort hún hafi verið það yfirleitt – t.d. þegar um er að ræða ákvarðanir í stjórnmálum. Aftur á móti sýnist mér að sambandið mannleg mistök sé einkum notað þegar um er að ræða athöfn eða aðgerð sem framkvæmd er að lítt hugsuðu máli eða í ógáti – jafnvel þegar annað er gert en til stóð, t.d. ýtt á rangan takka eða eitthvað slíkt. Yfirleitt kemur þá strax í ljós að mistök hafa verið gerð og um það er sjaldnast ágreiningur.

Þegar orðalagið mannleg mistök er gagnrýnt á þeim forsendum að öll mistök séu manngerð og hljóti þar af leiðandi að vera mannleg er litið fram hjá því að lýsingarorðið mannlegur hefur tvær merkingar. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'eins og maður, með þeim ágöllum sem því fylgir' og 'sem varðar manninn, manneskjuna'. Í Íslenskri orðabók eru sömu merkingar gefnar þótt lýsing þeirra sé orðuð eilítið öðruvísi – sú fyrri er 'í samræmi við mannseðlið' og sú seinni 'sem heyrir til mönnum'. Dæmið sem tekið er um þá fyrri er það er mannlegt að skjátlast – sem er einmitt merkingin sem lýsingarorðið hefur í sambandinu mannleg mistök. En fólk virðist oft líta svo á að í þessu sambandi sé um seinni merkinguna að ræða – sem er rangt.

Þetta þýðir að fólk gerir yfirleitt ekki mannleg mistök í þeirri merkingu að um meðvitaða og áformaða aðgerð sé að ræða – mannleg mistök gerast eða verða, oft vegna ytri aðstæðna, þau eru slys, óhöpp. Þessi sérstaða mannlegra mistaka kemur t.d. skýrt fram í því að á tímarit.is er á níunda hundrað dæma um sambandið gerði mistök en aðeins eitt um gerði mannleg mistök, og í Risamálheildinni eru tæp sjö hundruð dæmi um ég gerði mistök en aðeins þrjú um ég gerði mannleg mistök. Vissulega er ekki alltaf skýr munur á mistökum og mannlegum mistökum en það er samt í raun og veru ekki rétt að líta einfaldlega á mannleg mistök sem undirflokk mistaka – þau eru oftast annars eðlis og mér finnst ekkert að því að tala um mannleg mistök.

Hlutverk lýsingarorðsins í sambandinu mannleg mistök er að leggja áherslu á að það sé mannlegt að gera mistök og þar með oft að afsaka það sem gerðist og draga úr ábyrgð gerandans. Það er líka mannlegt – í sömu merkingu – en við þurfum að gæta þess vel að þetta orðalag sé ekki misnotað. Í frásögn Vísis af glæfraakstri rútu á Reykjanesbraut fyrr í vikunni var haft eftir yfirmanni verkstæðis þar sem rútan átti að vera: „Hann segir ljóst að þarna hafi verið um mannleg mistök að ræða.“ En þetta voru alls ekki mannleg mistök í þeirri merkingu sem það samband hefur vanalega. Þessu athæfi verður betur lýst sem alvarlegum dómgreindarskorti og jafnvel „einbeittum brotavilja“ svo að notað sé orðalag úr lögfræði.

Posted on Færðu inn athugasemd

Njóttu dagsins

Öðru hverju kemur upp umræða um frasann eigðu góðan dag sem starfsfólk í þjónustustörfum notar oft í kveðjuskyni. Oft er amast við þessu sambandi á þeim forsendum að það sé komið af kveðjunni have a nice day sem oft er notuð í ensku við sömu aðstæður. Engin ástæða er til að efast um að enska kveðjan hafi ýtt undir þá íslensku þótt tæplega sé hægt að segja að um beina þýðingu sé að ræða – bæði have og nice eiga sér beinni samsvaranir í íslensku en eiga og góður. Auk þess kemur sambandið haf góðan dag – sem stendur enskunni öllu nær – fyrir í fornu máli, einkum sem heilsun en einnig sem brottfararkveðja. Um þetta hef ég skrifað áður en eftir það hefur Sigríður Sæunn Sigurðardóttir gert sambandinu ítarleg skil í grein í Íslensku máli.

Sigríður Sæunn nefnir ýmsar kveðjur sem bent hafi verið á að nota megi í staðinn fyrir eigðu góðan dag: „Blessuð, Vertu sæl, Hafðu það gott, Njóttu dagsins og Verði dagurinn þér góður.“ Af þessum kveðjum er njóttu dagsins langoftast nefnd – þannig segir Örn Bárður Jónsson í Vesturbæjarblaðinu 2006: „Nú á tímum enskuskotinnar íslensku segir fólk gjarnan: eigðu góðan dag eða hafðu góðan dag sem er auðvitað hræðilega léleg þýðing á ensku kveðjunni „have a good day.“ Betra þykir mér að segja: njóttu dagsins sem er hljómfögur kveðja og í ætt við glaðlega kveðju skáldsins rómverska“ – þ.e. carpe diem hjá Hórasi. Hið sama kemur t.d. fram í pistli Eiðs Guðnasonar 2012, hjá Helga Snæ Sigurðssyni í Morgunblaðinu 2018, o.v.

En það er ekki víst að njóttu dagsins sé endilega betur ættað en eigðu góðan dag. Elsta dæmið um þetta samband í íslensku er í ljóði í vesturíslensku blöðunum Lögbergi og Heimskringlu 1913: „Njóttu dagsins, ljóss og lista.“ Þarna er hugsanlega um að ræða áhrif frá ensku þótt svo þurfi vitaskuld ekki að vera. Næst kemur sambandið fyrir í grein eftir Sigurð Einarsson í Straumum 1928: „Augu hans segja: „njóttu dagsins vel“, þegar hann mætir mér.“ Í kvæði eftir vesturíslenskt skáld í Lögbergi 1938 er línan „Sigurvinnings njóttu dagsins“ og í kvæði í Nýju kvennablaði 1951 er línan „komdu barn og njóttu dagsins“. Það er athyglisvert að þrjú af þessum fjórum dæmum eru úr kvæðum, þar af tveim eftir vesturíslensk skáld.

Þetta eru einu dæmin um sambandið fram á seinni hluta sjöunda áratugarins, en þá fer það að blómstra. Í stjörnuspá í Vísi 1967 segir: „Láttu allar starfsáhyggjur lönd og leið og njóttu dagsins.“ Ekki kemur fram hvort spáin er þýdd en það verður að teljast líklegt. A.m.k. leikur enginn vafi á því í dæminu „Ýttu áhyggjum til hliðar og njóttu dagsins“ í Morgunblaðinu 1968, því að það er úr stjörnuspá Jeane Dixon. Á næstu árum þar á eftir og fram undir þetta eru fjölmörg dæmi um sambandið úr stjörnuspám – framan af flest úr spám Jeane Dixon en síðar einnig úr spám Frances Drake í Morgunblaðinu, spám Athenu Lee í Degi og spám í öðrum blöðum þar sem höfundar er ekki getið en líklegt má telja að séu oft þýddar úr ensku.

Fram til 1997 kemur sambandið njóttu dagsins nánast eingöngu fyrir í stjörnuspám, fyrir utan nokkur dæmi um „Njóttu dagsins með Dentokej“ í auglýsingu frá 1978 um Wrigley‘s tyggjó, sennilega þýddri. En árið 1997 fer sambandið svo að sjást í íslenskum auglýsingum – „Gríptu ostinn og njóttu dagsins!“ frá Osta- og smjörsölunni, „Njóttu dagsins og komdu í Kringluna“, „Njóttu dagsins – taktu flugið“ frá Flugfélagi Íslands, o.fl. Strax upp úr aldamótum nær sambandið svo töluverðu flugi í auglýsingum en þó miklu fremur á samfélagsmiðlum. Á tímarit.is eru tæp 300 dæmi um sambandið, þar af 200 frá þessari öld, og á sjötta hundrað dæma er um sambandið í Risamálheildinni, þar af hátt í fimm hundruð af samfélagsmiðlum.

Án þess að ég geti fullyrt það finnst mér langtrúlegast að bæði í stjörnuspánum og tyggjóauglýsingunni – sem sé í nær öllum dæmum fram til 1997 – sé yfirleitt verið að þýða enjoy the day eða enjoy your day sem hvort tveggja eru algeng sambönd í ensku og oft notuð á sama hátt og have a nice day. Þessi sambönd samsvara njóttu dagsins nákvæmlega – raunar mun nákvæmar en eigðu góðan dag samsvarar have a nice day. Sé uppruni sambandsins eigðu góðan dag talinn enskur, þrátt fyrir að orðin séu íslensk, gildir hið sama ekki síður um sambandið njóttu dagsins. Vilji fólk forðast ensk áhrif er njóttu dagsins því ekki leiðin til þess. En vitanlega eru bæði eigðu góðan dag og njóttu dagsins góð og gild íslenska.

Posted on Færðu inn athugasemd

Letigarður, vinnuhæli og önnur „lokuð búsetuúrræði“

Áform dómsmálaráðherra um „lokað búsetuúrræði“ hælisleitenda, sem augljóslega er ekkert annað en fangelsi, er einstaklega gróft dæmi um hagræðingu stjórnvalda á tungumálinu í blekkingarskyni – „nýlensku“ (newspeak) eins og það hét hjá George Orwell í 1984. En þetta er þetta ekki í fyrsta skipti sem umdeilt heiti er áformað á „lokuðu búsetuúrræði“ fyrir fólk sem stjórnvöldum þykir af ýmsum ástæðum ekki heppilegt að leiki lausum hala. Fyrir tæpri öld, árið 1928, lagði þáverandi dómsmálaráðherra, Jónas Jónsson frá Hriflu, fram á Alþingi frumvarp „til laga um heimild fyrir landsstjórnina til að reisa betrunarhús og letigarð“ – „til að fangar, og slæpingar, sem ekki vilja vinna fyrir sjer eða sínum, geti stundað holla og gagnlega vinnu“.

Í greinargerð segir: „Með vaxandi þjettbýli við sjávarsíðuna, og einkum vegna hins öra vaxtar höfuðstaðarins, hefir myndast talsverð stjett slæpinga, er ekki vilja sinna gagnlegri vinnu, og verða sjálfir, og þá ekki síður börn þeirra, þjóðfjelaginu til byrði.“ Óneitanlega er orðræðan þarna óþægilega lík ýmsu sem nú er sagt um hælisleitendur, en frumvarpið er með lausn á vandanum: „Úr þessu þarf að bæta og er álitið að vel megi sameina nýtísku betrunarhús og letigarð, þar sem heilsuhraustir letingjar væru þvingaðir til að vinna.“ Einnig segir að „landeyður […] myndu mjög oft fremur vilja vinna eins og frjálsir menn, heldur en komast á slíkt vinnuheimili, þar sem aðbúðin væri að vísu góð, en þeir þó sviftir frelsi […]“.

Þarna var ekki verið að fela neitt með orðskrúði eða merkingarbreytingum orða – þetta „lokaða búsetuúrræði“ var ætlað fyrir slæpingja, landeyður og letingja, og því réttnefnt letigarður. Eitthvað hefur þó bersögli orðsins letigarður farið fyrir brjóstið á sumum – séra Sigurbjörn Á. Gíslason skrifaði t.d. í Vísi að það væri „miklu betra að kalla þá deild vinnustofnun, vinnuhæli, eða eitthvað þvílíkt, svo að nafnið sjálft sé ekki hnefahögg á tilfinningar heimilismanna og ættingja þeirra“. Við meðferð málsins á þingi lagði Ásgeir Ásgeirsson, síðar forseti Íslands, fram tillögu um að í stað orðsins letigarður kæmi vinnuhæli. Þetta var samþykkt og upp úr því var stofnað Vinnuhælið á Litla-Hrauni eins og fangelsið þar hét lengi vel, fram undir 1990.

En þótt vinnuhæli sé kannski ekki eins mikið „hnefahögg á tilfinningar“ fólks og letigarður fer ekki hjá því að það sé neikvætt orð. Þótt hæli út af fyrir sig sé skýrt 'skjól, athvarf' og 'sjúkrastofnun, ýmist til lækninga, heilsubótar eða hressingar' í Íslenskri nútímamálsorðabók, og til séu jákvæðar samsetningar eins og heilsuhæli og hressingarhæli, þá eru langflestar samsetningar með -hæli neikvæðar – vísa til staðar þar sem fólk er vistað meira og minna nauðugt. Þetta eru orð eins og berklahæli, drykkjumannahæli, fávitahæli, geðveikrahæli, holdsveikrahæli, munaðarleysingjahæli, þurfamannahæli o.fl. – sem betur fer eru þau flest fallin úr notkun að mestu, eins og vinnuhæli. Fangelsi er fangelsi, hvaða nafni sem það er kallað.