Category: Málfar

Að kynna þeim fyrir tónlist og ljóðum

Í gærkvöldi stóð fyrirsögnin „Kynna Svíum fyrir íslenskri tónlist“ um stund á forsíðu mbl.is. Innan klukkustundar hafði henni verið breytt í „Kynna Svíum íslenska tónlist“ eins og hún er nú, en í millitíðinni hafði hún verið gripin upp í Málvöndunarþættinum þar sem einn þátttakenda í umræðunni skrifaði: „Nú bíður maður spenntur eftir því að einhver komi hér inn og segi að þetta sé bara eðlilegt mál margra og engin ástæða til að amast við því.“ Ég hélt reyndar í upphafi að þetta væri tilviljanakennd villa en við nánari athugun fæ ég ekki betur séð en þetta sé einmitt „eðlilegt mál margra“ en fólk getur auðvitað „amast við því“ ef því sýnist svo. En þetta eru ekki einu tilbrigðin í fallnotkun með sögninni kynna eins og ég hef áður skrifað um.

Sögnin kynna tekur ýmist tvö andlög, það fyrra í þágufalli og það seinna í þolfalli eins og „Hún […] kynnti honum ungan, laglegan mann“ í Fálkanum 1946, eða þolfallsandlag og forsetningarlið með þágufalli eins og „Hann kynnti hana fyrir vini sínum“ í Tímanum 1946. Áður fyrr vísuðu þessir liðir ævinlega til fólks eins og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók bendir til: 'láta (tvo eða fleiri) kynnast; segja til nafns (síns eða einhvers annars)'. Nú er hins vegar algengt að þolfallsliðurinn vísi til hugmynda eða hluta, t.d. „Guðbrandur kynnti honum hugmynd sína um róðrarvélina“ í Breiðfirðingi 1990 og „Ég kynnti tillöguna fyrir borgarstjóra viku síðar“ í Degi 1997. Þessi breyting virðist ekki vera ýkja gömul og er aldrei gagnrýnd.

Á hinn bóginn er oft amast við því að þágufallsliðurinn í sambandinu kynna X fyrir Y sé látinn vísa til hugmynda eða hluta, eins og „Elsti sonur Refskís kynnti hann fyrir verkum Byrons“ í Morgunblaðinu 1987 eða „kynnti hann fyrir óperu og ballett“ í Heimsmynd 1991. Andlag í þolfalli táknar mjög oft einhvers konar þolanda, þann sem verður fyrir einhverjum áhrifum af þeim verknaði sem sögnin lýsir. Í setningum eins og hún sendi þessa bók til mín eða hún keypti þessa bók má segja að andlagið þessa bók verði fyrir ákveðnum áhrifum – breyti um staðsetningu eða eiganda. Vissulega er þetta ekki algilt en þó svo algengt að ekki er ólíklegt að málnotendur hafi tilfinningu fyrir því að eðlilegt hlutverk þolfallsandlags sé að vera einhvers konar þolandi.

En í ég kynnti tillöguna fyrir borgarstjóra og Guðbrandur kynnti honum hugmynd sína verður þolfallsandlagið tillöguna / hugmynd ekki fyrir neinum áhrifum frá sögninni – áhrifin koma fram hjá þeim sem kynnist tillögunni / hugmyndinni, hvort sem sú persóna er tjáð í forsetningarlið eða sem andlag. Þess vegna má segja að ég kynnti borgarstjóra fyrir tillögunni sé í betra samræmi við venjuleg mynstur málsins. Við getum gert ráð fyrir að það hafi einhver áhrif á borgarstjóra eða afstöðu hans að komast í kynni við umrædda tillögu, og því er „eðlilegt“ að hann standi í þolfalli. Þessi breyting er því mjög skiljanleg. Aftur á móti hef ég ekki fundið dæmi eins og *Guðbrandur kynnti hann hugmynd sinni þar sem hlutverk andlaganna víxlast.

Þessi notkun sagnarinnar kynna er a.m.k. fjörutíu ára gömul og orðin mjög algeng. Notkun tveggja þágufalla með kynna eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi er hins vegar yngri, síðan um aldamót að því er virðist. Á Bland.is 2001 segir: „eftir svona mánuð væri mér óhætt að kynna honum fyrir nýmjólkinni.“ Á Hugi.is 2001 segir: „Ljóð er eitthvað sem þeim var kennt í grunnskóla, þegar það var verið að kynna þeim fyrir þjóðskáldum íslendinga.“ Elsta dæmi sem ég fann um þetta á tímarit.is er í Morgunblaðinu 2001: „Jive þekkti Joönnu Ifrah hjá Sony Columbia og kynnti henni fyrir því efni sem hann og Hreimur höfðu samið.“ Þessi notkun er orðin talsvert útbreidd – dæmi í Risamálheildinni skipta hundruðum, flest af samfélagsmiðlum.

Það er athyglisvert að í þessari setningagerð er þágufallið á andlaginu notað „rétt“ miðað við málhefð og vísar til þeirra sem kynnast einhverju nýju. Frávikið felst í því að á eftir þágufallsandlaginu ætti að koma þolfallsandlag í stað forsetningarliðar – kynna honum nýmjólkina í stað fyrir nýmjólkinni, kynna þeim þjóðskáld Íslendinga í stað fyrir þjóðskáldum Íslendinga og kynna henni það efni í stað fyrir því efni. Forsetningaliðurinn vísar aftur á móti til þess sem kynnt er, eins og í setningagerðinni sem fjallað var um hér á undan (ég kynnti borgarstjóra fyrir tillögunni). Þarna virðast því blandast saman tvær setningagerðir. Ég ætla ekkert að mæla með því í sjálfu sér – bara benda á að þetta er ótvírætt orðin málvenja margra.

Við erum góð í lélegri ensku

Eins og iðulega hefur verið skrifað um á þessum vettvangi eru Íslendingar mjög oft fljótir til að skipta yfir í ensku þegar kemur í ljós að viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. Fólk skortir þolinmæði til að bíða eftir að viðmælendur finni réttu orðin, réttu beygingarmyndirnar, eða réttu setningagerðina, en einnig skortir umburðarlyndi gagnvart „ófullkominni“ íslensku – erlendum hreim, frávikum í beygingu og setningagerð o.fl. Stundum telur fólk sig vissulega vera að gera viðmælendum greiða með því að skipta yfir í ensku, en einnig kunna að vera dæmi um að enskan sé notuð til að neita viðmælendum um fullan aðgang að íslensku samfélagi. En hver sem ástæðan er leiðir þetta háttalag til þess að fólk fær ekki tækifæri til að æfa sig í málinu.

Fyrir meira en tuttugu árum las ég viðtal við konu sem hafði í æsku átt heima í Afríkuríki – „í alþjóðlegu hverfi þar sem börn af mörgu þjóðerni […] léku sér saman. Samskiptamálið var léleg enska […].“ Konan bætti við: „Ég er nokkuð góð í lélegri ensku.“ Mér fannst þetta athyglisvert orðalag á sínum tíma en var fyrir löngu búinn að gleyma því. Undanfarið hefur það þó iðulega rifjast upp fyrir mér vegna þess að ég sé ekki betur en það stefni hraðbyri í að helsta samskiptamálið á Íslandi verði einmitt þetta tungumál – léleg enska. Við erum nefnilega flest nokkuð góð í henni. En það grátbroslega í þessu er að sú enska sem við skiptum yfir í er örugglega oft lélegri en íslenskan sem viðmælandinn var að reyna að tala við okkur.

En léleg enska er ekki móðurmál neinna. Léleg enska er það sem orðin segja – ófullkomið tungumál sem getur vissulega nýst til einfaldra samskipta á afmörkuðum sviðum en er fjarri því að búa yfir þeim fjölbreyttu möguleikum til tjáningar, samskipta, hugsunar og sköpunar sem móðurmál hafa – og þurfa að hafa. Með því að láta gott heita að samskipti við fólk sem hingað flytur fari fram á lélegri ensku erum við að skerða möguleika fólksins til fullrar þátttöku í samfélaginu og svipta það möguleikanum á að gera íslensku að sínu tungumáli og nýta hana til þeirra fjölbreyttu verkefna sem móðurmál þarf að sinna. Þess vegna verðum við að kenna innflytjendum íslensku – og gefa þeim færi á að nýta og auka íslenskukunnáttu sína.

Á einum fæti

Í gær var sett hér inn spurningin „Er ekki frekar algengt að fólk segist hoppa eða standa á einum fæti?“ Í umræðum kom fram að fyrirspyrjanda þætti þetta orðalag rangt og sama máli virtist gegna um mörg þeirra sem tóku þátt í umræðunum og töldu rétt að segja á öðrum fæti. Vissulega hefur síðarnefnda orðalagið lengi verið mun algengara – á tímarit.is eru fjórum til fimm sinnum fleiri dæmi um hoppa / standa á öðrum fæti en hoppa / standa á einum fæti. Munurinn virðist þó fara minnkandi því að í Risamálheildinni eru um 300 dæmi um öðrum fæti í þessum samböndum en um 160 dæmi um einum fæti. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru álíka mörg dæmi um bæði samböndin sem sýnir enn frekar að einum er í sókn í þeim.

En það er engin nýjung að nota einum í þessum samböndum. Í Ísafold 1892 segir: „Allt í einu setti hann annan fótinn þvert út í loptið […], en stóð á einum fæti upp á öxlum hinna, er efstir stóðu.“ Í Nýjum kristilegum smáritum 1894 segir: „Þeir stóðu nú flestir á einum fæti og lituðust um.“ Í Verði ljós 1896 segir: „En þegar Tomrni stóð og hímdi fyrir utan opinn búðargluggann, hálfnötrandi af kulda og standandi altaf á víxl á einum fæti.“ Í Íslandi 1897 segir: „En hún hoppar ekki á einum fæti.“ Í Hauki 1899 segir: „þar eru menn, sem hoppa að eins á einum fæti, en eru samt sem áður eins hraðfara, eins og vindurinn.“ Í Framsókn 1901 segir: „Þóra stóð á einum fæti, eins og hún var vön að gera þegar hún gladdist ákaflega.“

Það er því ljóst að gömul og rík málvenja er fyrir því að tala um að hoppa og standa á einum fæti. Auðvitað getur fólk haft þá skoðun að betur fari á að segja á öðrum fæti en þótt samböndin séu oft og jafnvel oftast notuð í sömu merkingu er ég ekki viss um að þau séu alltaf nákvæmlega jafngild. Þegar sagt er á einum fæti finnst mér áherslan oft vera á því afreki að nota bara einn fót en ekki tvo, eins og í „komst loks á einum fæti heim til kerlu sinnar aptur“ í Ísafold 1889. En hvað sem þessu líður er þetta skýrt dæmi um tvær málvenjur sem lengi hafa tíðkast hlið við hlið og engar forsendur fyrir því að kalla aðra ranga en hina rétta, þótt fólk geti vitanlega tekið aðra fram yfir hina í eigin máli af vana eða einhverjum öðrum ástæðum.

Skipulög, þjóðskipulög og deiliskipulög

Ég var spurður hvort hægt sé að nota orðið skipulag í fleirtölu. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins gefin eintala orðsins, og í Málfarsbankanum segir: „Orðið skipulag er kvenkynsnafnorð í eintölu.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'fast form, regla, kerfi' með dæminu með góðu skipulagi er hægt að ljúka verkinu á skömmum tíma; og 'tilhögun' með dæminu skipulag svæðisins er unnið í samvinnu við heimamenn. Skýring og notkunardæmi í Íslenskri orðabók eru mjög svipuð. Þegar orðið hefur almenna vísun til hugmynda eða óhlutstæðrar tilhögunar er eðlilegt að það sé ekki haft í fleirtölu. Hins vegar vísar það oft til einstakra kerfa, áætlana, uppdrátta og slíks, sem oft getur þurft að tala um í fleirtölu.

Tvö dæmi eru um fleirtöluna í Ritmálssafni Árnastofnunar. Í Eimreiðinni 1924 segir: „Nú votta vísindi, að skipulög hinna örsmáu frumeinda virðist alveg eins og skipulög sólkerfis.“ Í Iðunni 1929 skrifar Halldór Laxness: „síðan hafa þessi skipulög blómstrað í ákveðnum stofnunum.“ Í Morgunblaðinu 1931 segir: „Það hafa jafnvel verið gerð skipulög yfir heil hjeruð.“ Í fyrirsögn í Rauða fánanum 1931 segir: „Tveir heimar – tvö skipulög.“ Í Verklýðsblaðinu 1932 segir: „það skipulag […] ætti fyrir sér eins og öll eldri skipulög að líða undir lok.“ Í Vísi 1936 segir: „Sýning á skipulögum verður opnuð í Miðbæjarbarnaskólanum eftir hádegi á morgun.“ Í Stúdentablaðinu 1942 segir: „Öll skipulög á mannfélaginu eru verk mannanna sjálfra.“

Fjöldi nýlegra dæma er líka til. Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Það eru til mörg skipulög á námi barna og unglinga.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Fyrirséð er að þessi skipulög geta beinlínis valdið skorti.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „alltaf er hægt að komast í tæri við lifandi verk, skipulög og jafnvel framtíðarsýn fyrir ákveðin svæði.“ Í Bæjarins besta 2014 segir: „Ætlunin sé að ljúka við önnur skipulög.“ Í Austurglugganum 2014 segir: „norðanmenn vilja, samhliða þessu, setja Sprengisand inn á sín skipulög.“ Í Bændablaðinu 2014 segir: „En þeir Mollison og Holmgren settu fram mjög skipulega skipulögð skipulög.“ Í Skessuhorni 2015 segir: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur samþykkt að auglýsa eftirfarandi skipulög.“

Í þessum dæmum hefur skipulag ýmist merkinguna 'kerfi, þjóðfélagsskipan' eða 'skipulagsuppdráttur, skipulagsstefna' eða eitthvað slíkt. Þar þarf oft að tala um fleira en eitt eintak eða tilvik af því sem orðið vísar til og því óheppilegt ef ekki er hægt að nota orðin í fleirtölu. Fleirtalan er líka algeng í samsetningum eins og þjóðskipulög og deiliskipulög – elsta dæmi um það fyrrnefnda er frá 1925 en um það síðarnefnda frá 1967. Niðurstaðan er því sú að það er ekkert að því að nota orðið skipulag í fleirtölu og tala um skipulög. Fleirtalan á sér hundrað ára hefð, hefur töluvert verið notuð, og er merkingarlega fullkomlega eðlileg þegar orðið vísar til einstakra kerfa, skipulagsuppdrátta, stefnuplagga eða slíks. Hún telst ótvírætt rétt mál.

„Heimferða- og fylgdadeild“

Ég hafði aldrei heyrt minnst á Heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra fyrr en í gær og einu eldri dæmi sem ég finn á netinu eru í frétt frá því í júlí og annarri frá í ágúst. Á vef Lögreglunnar er vissulega síða með fyrirsögninni „Heimferða- og fylgdadeild“ og í upphafi textans á síðunni segir: „Heimferða- og fylgdadeild (áður Stoðdeild) ríkislögreglustjóra annast framkvæmd lögreglufylgda úr landi þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni og hafa ekki annan rett til dvalar á Íslandi.“ Þetta er þó í eina skiptið sem heitið Heimferða- og fylgdadeild er notað í textanum – aftur á móti er eldra heitið Stoðdeild notað tólf sinnum í honum, og slóð síðunnar endar ennþá á /stoddeild/.

Heitið Stoðdeild segir vissulega ekki mikið en deildin var stofnuð 2016 og var orðin vel þekkt undir þessu nafni – hefur verið margoft í fréttum að undanförnu og flestum því væntanlega vel kunnugt hvert hlutverk hennar væri. Það virðist því vera eitthvað annað en ógagnsæi orðsins stoðdeild sem hefur rekið Ríkislögreglustjóra til að breyta heiti deildarinnar sem hefur greinilega verið gert nýlega í allnokkrum flýti – eða kannski væri nær að segja óðagoti. Hvergi kemur fram hver ástæðan hafi verið fyrir nafnbreytingunni – vitanlega má segja að Heimferða- og fylgdadeild sé mjög gagnsætt heiti á yfirborðinu, en gagnsætt heiti er því aðeins gagnlegt að það gefi ekki rangar eða villandi hugmyndir um merkinguna, eins og það gerir í þessu tilviki.

Í mörgum tilvikum er nefnilega hvorki verið að fylgja fólki né fara með það heim til sín. Orðið fylgd er í Íslenskri orðabók skýrt 'það að fylgja, leiðsögn, samfylgd' en í þessu tilviki er oftast fremur um að ræða þvingaðan flutning undir eftirliti – nauðungarflutning – en vinsamlega samfylgd. Þar að auki er oftast ekki verið að senda fólk heim til sín enda á það yfirleitt ekkert heimili utan Íslands, heldur iðulega til lands þar sem það hefur af einhverjum ástæðum fengið tímabundið dvalarleyfi en á engar rætur eða tengsl – eins og í því máli sem nú er mest rætt um. Og jafnvel þótt fólk sé sent til upprunalands síns er það einmitt landið sem það flúði frá og lítur ekki á sem heimaland sitt lengur – og telur sig iðulega vera í hættu komi það þangað aftur.

Nafnbreyting deildarinnar er því ekki í þágu gagnsæis heldur þvert á móti. Hins vegar leikur varla nokkur vafi á því að henni er ætlað að skapa jákvæðari ímynd af deildinni og verkefnum hennar í huga almennings – bæði fylgd og heimferð eru orð sem hafa á sér jákvæðan og notalegan blæ. Heimferða- og fylgdadeild bætist því í hóp veigrunarorða eða skrauthvarfa eins og rafvarnarvopn, afbrotavarnir, lokað búsetuúrræði og fleiri sem skotið hafa upp kollinum á undanförnum misserum og eru notuð í sama tilgangi. Óháð því hvaða skoðun fólk hefur á umsækjendum um alþjóðlega vernd og brottvísunum þeirra er hagræðing dómsmálayfirvalda á tungumálinu til að hafa áhrif á almenningsálitið stóralvarlegt mál og mikið áhyggjuefni.

Að sammæla(st)

Í grein í Heimildinni á föstudaginn stendur: „„Stóra málið eru efnahagsmálin,“ útskýrði þingmaður Viðreisnar í sjónvarpsfréttum RÚV síðar um kvöldið. Við hlið hans stóð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann og sammælti.“ Ég staldraði við síðasta orðið, sammælti, sem kom mér ókunnuglega fyrir sjónir – þótt miðmyndin sammælast sé vissulega algeng er germyndina sammæla ekki að finna í orðabókum. Hún kemur þó fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584: „þeir höfðu sammælt með sér að þeir vildu koma og sampínast honum.“ Örfá dæmi má einnig finna um germyndina á tímarit.is en eingöngu í afturbeygðri notkun sem jafngildir miðmyndinni – „Menn hafa frjálsar hendur með að sammæla sig með tíma“ segir t.d. í Tímanum 1981.

Nokkur dæmi um sammælast frá 17. og 18. öld eru í Ritmálssafni Árnastofnunar en elsta dæmið á tímarit.is er í Skírni 1868. En sögnin er fremur sjaldgæf lengi vel – aðeins um hundrað dæmi um hana á tímarit.is fram til 1970. Eftir það fjölgar dæmum ört og þó einkum eftir 1990, og alls eru dæmin á tímarit.is rúmlega 2.600. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í sjö þúsund þannig að þetta er greinilega orð á hraðri uppleið. En merking sagnarinnar hefur reyndar breyst. Í fyrstu tveim útgáfum Íslenskrar orðabókar frá 1963 og 1983 er hún skýrð 'ákveða stefnumót við e-n' – sammælast e-m, sammælast við e-n – og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hún skýrð 'aftale Møde el. Følgeskab med hinanden', þ.e. 'koma sér saman um stefnumót eða samfylgd'.

Þessi merking sést glöggt í flestum eldri dæmum um sögnina. Í dæminu í Skírni 1868 segir: „Þeir þingmenn, er áður eru nefndir, og með þeim þrettán blaðaritendur frá Parísarborg, sammæltust til ferðar og komu til Kaupmannahafnar í miðjum ágústmánuði.“ Í Heimskringlu 1895 segir: „Þegar fólk var ferðbúið fór það að sammælast og áttu þá ýmsir samleið, sem nærri má geta.“ Í Nýjum kvöldvökum 1911 segir: „Við sammæltumst, þessir sömu þrír sem haustið áður, og ákváðum að gista á Dynjanda.“ Í Norðurlandi 1912 segir: „Hann hafði sammælst við Hermann Stoll á Brú 8 ágúst, til þess að verða samferða þenna sjaldfarna fjallveg.“ Í Sunnudagsblaði Tímans 1970 segir: „Sammæltust þeir svo daginn eftir á sama stað.“

En í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er sögnin hins vegar skýrð 'taka sameiginlega ákvörðun um e-ð' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'ákveða (e-ð) í sameiningu'. Þessari merkingu bregður vissulega fyrir í gömlum dæmum, t.d. dæminu úr Guðbrandsbiblíu sem vitnað var til hér að framan. Sama gildir um dæmi í Skírni 1869: „Sumir segja, að stjórnin sje farin að sjá sitt óvænna, því hún hafi fengið að vita, að Czekar og Pólverjar i Galizíu sje farnir að sammælast um ráðin.“ Eldri merking sagnarinnar er í raun hlutmengi af þeirri nýrri. Báðar fela í sér sameiginlega ákvörðun, en í nýrri merkingunni getur sú ákvörðun varðað hvað sem er – í þeirri eldri varðar hún hins vegar ævinlega ferð eða stefnumót.

Lengi framan af er eldri merkingin ráðandi í dæmum á tímarit.is þótt víðari merkingunni bregði fyrir stöku sinnum. Hún verður hins vegar smátt og smátt meira áberandi upp úr 1970, samfara fjölgun dæma um sögnina, og eftir 1990 þegar dæmum snarfjölgar er eldri merkingin sárasjaldgæf. En í germyndardæminu úr Heimildinni sem vitnað var til í upphafi er um þriðju merkinguna að ræða – þar er sögnin notuð í merkingunni 'samsinna'. Það er sjaldgæft en þó ekki einsdæmi. Í Bræðrabandinu 1985 segir: „Dómnum yfir honum og þeim sem sammæltu honum var fullnægt á skjótan og áhrifaríkan hátt.“ Í DV 1988 segir: „„Alveg örugglega,“ sammæltu þau.“ Þessi notkun er í sjálfu sér rökrétt án þess að ég mæli sérstaklega með henni.

Misgóðar málbreytingar – eða misvondar

Eins og hér hefur margoft verið rætt er það eðli tungumála að taka breytingum. Þau verða í raun að gera það til að þjóna þörfum málsamfélaganna sem nota þau, þótt vissulega séu breytingar misjafnlega nauðsynlegar og sumar séu ekki til bóta. Sumum finnst reyndar allar breytingar á málinu til bölvunar og það held ég að sé skaðlegt viðhorf. Ég held að það sé gagnlegt að reyna að flokka málbreytingar og átta sig á eðli þeirra – meta hvort ástæða sé til að amast við þeim eða jafnvel berjast gegn þeim af öllu afli. Þess vegna set ég hér fram tillögu að fjórum flokkum breytinga. Ég veit vel að margt í þessari flokkun orkar tvímælis og þykist vita að mörgum þyki mega setja ýmislegt af því sem ég nefni í öðrum flokki í þriðja eða jafnvel fjórða flokk.

  1. Þarfar eða nauðsynlegar breytingar. Undir þetta falla nær eingöngu breytingar á orðaforða. Á öllum tímum eru að koma til ný fyrirbæri og athafnir sem þurfa heiti, nýjar hugmyndir og hugtök sem þarf að vera hægt að tala um, og þess vegna þarf sífellt að vera að auka orðaforðann, annaðhvort með nýmyndunum eða tökuorðum. Um þetta er vitanlega almenn sátt í málsamfélaginu þótt fólk geti verið misánægt með nýju orðin. En önnur mikilvæg breyting á orðaforða felst í því að hætta að nota orð sem fela í sér fordómafulla afstöðu eða eru niðurlægjandi fyrir tiltekna einstaklinga og hópa – orð eins og negri, fáviti, kynvilla o.þ.h. Þótt flestum finnist þetta eðlilegt að einhverju marki er oft ágreiningur um hve langt skuli ganga.
  2. Eðlilegar og meinlausar breytingar. Undir þetta falla langflestar breytingar sem eru að verða og hafa orðið á málinu, svo sem hvers kyns breytingar á fallstjórn (mig langar > mér langar, spá í það > spá í því), fallendingum (drottningar > drottningu, læknar > læknirar), framburði (ána > ánna, hugsa [hʏxsa] > huggsa [hʏksa]), setningagerð (ég var barinn > það var barið mig), orðanotkun (brauðrist > ristavél), samtengingum (fyrst > víst, við hliðina á > hliðiná) eintölu- og fleirtöluorðum (trúarbrögð / trúarbragð, keppni / keppnir), o.s.frv. Vitanlega mæta flestar þessar breytingar andstöðu – við erum íhaldssöm og viljum halda málinu eins og við lærðum það. En þær eru flestar rökréttar og skiljanlegar og raska ekki málkerfinu.
  3. Óheppilegar eða óæskilegar breytingar. Undir þetta falla breytingar sem draga úr fjölbreytni og raska samfellu málsins á einhvern hátt. Það má t.d. segja að sú breyting þegar svokallaðir u-stofnar hættu að beygjast á sérstakan hátt og þolfall fleirtölu fjörðu, skjöldu o.s.frv. varð firði, skildi o.s.frv. falli undir þetta – dró úr fjölbreytni beygingakerfisins án þess þó að raska grundvelli þess. Það má líka segja að samfall i/í og y/ý á sínum tíma hafi verið óheppilegt, og ein ástæða baráttu gegn svokölluðu „flámæli“ var að það hefði getað leitt til samfalls ýmissa orðmynda (skyr / sker, flugur / flögur). Undir þetta getur einnig fallið ástæðulaus notkun enskættaðra orða og orðasambanda þar sem til eru góð og gild íslensk orð.
  4. Skaðlegar breytingar. Undir þetta falla breytingar sem raska grundvallaratriðum málkerfisins. Það væri t.d. ef lýsingarorð hættu að beygjast, eða eignarfall hyrfi úr málinu, eða frumlag setninga stæði alltaf í nefnifalli, eða hefðbundin þolmynd hyrfi úr málinu, eða verulegar breytingar yrðu á framburði vegna samlögunar og brottfalls hljóða, o.s.frv. Sem betur fer er ekki að sjá að neitt af þessu sé að fara að gerast á næstunni, en þessi atriði eru þó ekki nefnd alveg út í bláinn og mikilvægt að vera á verði. En undir þetta falla ekki síður breytingar á málumhverfi eða viðhorfi málnotenda sem valda því að íslenska verði ekki lengur nothæf eða notuð á tilteknum sviðum. Slíkar breytingar eru langmesta ógnin við íslensku um þessar mundir.

Þegar ég sá um þáttinn „Daglegt mál“ í Ríkisútvarpinu um tveggja mánaða skeið sumarið 1984, fyrir fjörutíu árum, sagði ég í einum þættinum: „Ég held að það sé hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að berjast af sama krafti gegn öllum breytingum, heldur verði að vega það og meta hverju sinni, hvort málstaðurinn sé baráttunnar virði. Á því hafa menn auðvitað mismunandi skoðanir, en ég get t.d. hugsað mér þrjár gildar ástæður fyrir að vilja sporna gegn ákveðinni málbreytingu; að hún geri okkur erfiðara um vik að skilja málfar undangenginna kynslóða, að hún minnki fjölbreytni málsins, og að hún raski grundvallarþáttum málkerfisins – sem að vísu gæti reynst erfitt að skilgreina hverjir séu.“ Ég er enn sama sinnis.

Báðir málstaðirnir

Í grein í Morgunblaðinu 1980 sagði Helgi Hálfdanarson: „Nú er mjög farið að segja […] „Báðir málstaðirnir eru slæmir“ í stað „hvortveggi málstaður er slæmur““ og í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 sagði Helgi: „Heyrst hefur: Báðir málstaðirnir eru góðir. RÉTT VÆRI: Hvortveggi málstaðurinn er góður.“ Í skýringu segir: „Orðið málstaður er ekki til í fleirtölu. Þess vegna ekki: tveir málstaðir, heldur tvennur málstaður; ekki margir málstaðir, heldur margur málstaður.“ Það má þó finna slæðing af dæmum um fleirtöluna frá ýmsum tímum á tímarit.is, það elsta í Ísafold 1891: „Sumir segja, að hjer kunni launráð undir búa, og stjórnin ætli sjer svigrúm, ef hún þykist þurfa að skerast í leikinn þar syðra og velja um málstaði.“

Það má líka finna dæmi um sambandið tveir málstaðir. Í Dagsbrún 1944 segir: „En ekkert varpaði þó jafn skæru ljósi á hina tvo málstaði eins og yfirlýsing Helga Hannessonar.“ Í Þjóðvörn 1949 segir: „Það er erfitt að tala fyrir tveim málstöðum í sömu ræðunni.“ Í Samvinnunni 1968 segir: „En Churchill varð ævinlega að þjóna tveimur málstöðum samtímis.“ Halldór Laxness hikaði ekki heldur við að tala um tvo málstaði – í ræðu 1940 sagði hann: „milli málstaðar mannkynsins og málstaðar kapítalismans er engin brú og ekkert kraftaverk getur skapað brú milli þessara tveggja málstaða“ og í Kristnihaldi undir Jökli frá 1968 segir: „Ég hef aldrei heyrt annað en í stríði séu tveir málstaðir: illur og góður.“

Nokkur dæmi eru einnig um sambandið báðir málstaðir, t.d. í Vísi 1917: „báðir málstaðirnir standa jafnt að vígi.“ Í Degi 1925 segir: „Verður ef til vill síðar hér í blaðinu gerð grein fyrir þeim grundvallarmun er liggur að rótum beggja málstaða.“ Í Læknablaðinu 1929 segir: „Lick hefur metið báða málstaði.“ Í ræðu á Alþingi 1951 segir: „Ég hef hlýtt á rök beggja málstaðanna.“ Í Ský 1999 segir: „báðir málstaðir höfðu sitthvað til síns máls.“ Á Bland.is 2006 segir: „Er eitthvað að því að barist sé fyrir báðum málstöðum?“ Á mbl.is 2010 segir: „Réttar upplýsingar hljóta alltaf að þjóna báðum málstöðum.“ Á mbl.is 2014 segir: „Það er auðvelt að skilja báða málstaði.“. Á Vísi 2018 segir: „Báðir málstaðir þóttu vondir.“

Á tímarit.is eru engin dæmi um tvennur málstaður nema úr framangreindri ábendingu Gætum tungunnar sem birtist oft í dagblöðum. Engin dæmi eru heldur um margur málstaður án greinis en fáein um margur málstaðurinn með greini, t.d. „Enda er margur málstaðurinn góður“ í Vísi 1981, „Rangar baráttuaðferðir hafa spillt fyrir mörgum málstaðnum“ í Morgunblaðinu 2007 og „Hún hefur komið ótal sinnum fram til stuðnings mörgum málstaðnum“ í Morgunblaðinu 2008. Örfá dæmi eru um marga málstaði – í Skólablaðinu 1985 segir: „en það eru svo margir málstaðir góðir og margir sannleikar til í þessum heimi“ og í DV 2014 segir: „Það er úr ótalmörgum flokkum að velja í forritinu og hver þeirra inniheldur marga málstaði.“

Þótt orðið málstaður sé vissulega oftast haft í eintölu í nútímamáli hefur það ekki alltaf verið svo. Í einu elsta varðveitta íslenska handritinu, Stokkhólms hómilíubókinni frá því um 1200, segir: „Þó að þér finnið á því sanna málstaði.“ Í Skafinskinnu, Njáluhandriti frá seinni hluta 14. aldar, segir: „féllu hálfar bætur niður fyrir sakir málstaða þeirra, er hann þótti að eiga.“ Fleiri dæmi eru um fleirtöluna í fornu máli. Þarna er merkingin vissulega eilítið önnur en þó náskyld – 'álitamál', 'umræðuefni' eða eitthvað slíkt – reyndar gat orðið einnig merkt 'ræðustóll' áður fyrr. Það er merkingarlega eðlilegt að nota orðið í fleirtölu og hún er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það er því engin ástæða til annars en nota hana.

Heimilispersóna

Eftir að umræða um breytingar á íslensku máli í átt til kynhlutleysis fór á flug fyrir fáum árum virðast andstæðingar þessara breytinga oft sjá skrattann í hverju horni og fordæma ýmislegt sem jafnvel hefur tíðast lengi í málinu vegna þess að þeir telja að um sé að ræða „afkynjun“ tungumálsins. Skýrt dæmi um þetta mátti sjá í innleggi í Málvöndunarþættinum í dag: „Heimilispersóna – nýjasta í atlögunni að tungumálinu – Mogginn í gær.“ Þar var greinilega vísað í fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Saumavél var eins og heimilispersóna.“ Þetta er tilvitnun í viðmælanda blaðsins sem hefur rannsakað sögu saumavéla á Íslandi og segir: „Saumavélin var eins og heimilispersóna, svo eðlilegur hlutur þótti hún fljótlega upp úr aldamótum.“

Í umræðunni í Málvöndunarþættinum var reyndar bent á að orðið er ekki nýtt – í Ritmálssafni Árnastofnunar eru skráð tvö dæmi um það, frá sautjándu og átjándu öld. Elsta dæmið er þó í bréfi frá 1660 sem er prentað í Blöndu 1918: „Og meðkendu þær heimilispersónur, sem þar voru þá, fyrir prestinum og oss, sem greptran veittum hennar líkama, að síra Eiríkur Hallsson hefði þar ei heima verið, þá hennar afgangur skeði.“ Í Lögbergi 1916 segir líka: „Þessar tvær heimilispersónur voru henni mjög góðar.“ Ýmsir þátttakendur í umræðunni voru samt sárhneykslaðir og spurðu hvort ekki mætti lengur tala um heimilisfólk, hvort það væri of særandi fyrir einhverja. En notkun orðsins heimilispersóna í áðurnefndri grein á sér eðlilega skýringu.

Í meistararitgerð viðmælanda Morgunblaðsins um saumavélar á Íslandi er nefnilega vitnað í svar konu fæddrar 1911 við spurningaskrá Þjóðminjasafnsins frá 1990 um fatnað og sauma (svarið birtist einnig í Iðnnemanum 1999): „Því miður þrýtur hér vitneskju mína um þennan þarfahlut sem í barnsaugum mínum var nánast sem ein heimilispersónan.“ Þetta er vissulega óvenjulegt orðalag, og einmitt þess vegna er ekkert undarlegt að viðmælandi blaðsins noti það í frásögn sinni – og ekki er heldur óeðlilegt að það sé tekið upp í fyrirsögn vegna þess að einn tilgangur fyrirsagna er að vekja forvitni og fá fólk til að lesa meira. En þetta hefur sem sé engin tengsl við kynhlutlaust mál – ekki frekar en margt annað sem reynt er að klína á það.

Þetta gengur brösu(g)lega

Ég sá í Málvöndunarþættinum umræðu um atviksorðið brösuglega sem nefnt var að oft væri sagt og skrifað brösulega – þ.e. án g. Sama gildir um samsvarandi lýsingarorð, brösu(g)legur. Í Málfarsbankanum segir: „Ritað er brösuglega en ekki „brösulega““ og væntanlega gert ráð fyrir að þessi orð séu leidd af lýsingarorðinu brösugur sem í Íslenskri orðabók er sagt vera „staðbundið“ og notað um veður. Hvort tveggja virðist tekið beint úr Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem orðið er sagt notað „om Vejrliget“ og merkt „Af.“, þ.e. austfirskt. Dæmi á tímarit.is sýna þó að notkunarsvið orðsins er mun víðara og ekki að sjá að það sé staðbundið núorðið. Í seinni tíð er það mjög algengt í fótboltamáli – brösugt gengi, brösug byrjun o.fl.

Myndirnar brösulega og brösuglega eru báðar tilfærðar í Íslenskri orðabók en aðeins sú síðarnefnda í Íslenskri nútímamálsorðabók, og hvorug hefur lýsingarorðið brösu(g)legur. Orðin virðast ekki ýkja gömul í málinu – elsta dæmi um atviksorðið brösulega á tímarit.is er frá 1949, en um lýsingarorðið brösulegur frá 1955. Alls eru um 1330 dæmi um þessi orð samtals. Elsta dæmi um atviksorðið brösuglega er frá 1961, en lýsingarorðið brösuglegur sést ekki fyrr en 1980. Alls eru rúmlega 2300 dæmi um þessi orð samtals. Fá dæmi eru um báðar gerðirnar fram til 1980 en notkun beggja stóreykst upp úr því, og í báðum tilvikum eru langflest dæmanna um atviksorðin – dæmi um lýsingarorðin eru sárafá. Atviksorðin eru nær alltaf notuð með ganga.

Séu orðin leidd af lýsingarorðinu brösugur eru þau alveg hliðstæð við atviksorðið sköru(g)lega og lýsingarorðið sköru(g)legur sem virðast leidd af horfna lýsingarorðinu *skörugur samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En þá bregður svo við að báðir rithættir eru viðurkenndir og ekki gert upp á milli þeirra. Í Íslenskri stafsetningarorðabók segir undir skörulegur „einnig ritað sköruglegur“ og undir sköruglegur segir „einnig ritað skörulegur“. Hliðstætt er um atviksorðið sköru(g)lega. Sama gildir um nauðu(g)lega og nauðu(g)legur – þar eru báðir rithættir viðurkenndir í Íslenskri stafsetningarorðabók. Eina ástæðan sem séð verður til að meðhöndla brösu(g)lega/-legur öðruvísi en þessi orð er sú að í þeim síðarnefndu koma báðir rithættir fyrir í fornu máli.

En svo er alls óvíst að brösulega sé leitt af brösugur. Til er í málinu kvenkynsorðið brösur sem aðeins er notað í fleirtölu og einkum í sambandinu eiga í brösum (við/með). Það er ekkert því til fyrirstöðu að líta svo á að fyrri liður brösulega sé ekki brösugur heldur brösur í eignarfalli eintölu. Það er alþekkt að í fyrri lið samsetninga er oft notað eignarfall eintölu af veikum kvenkynsorðum þar sem búast mætti við fleirtölu – stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka o.s.frv. Þetta gildir meira að segja þótt orðið sé venjulega ekki notað í eintölu, eins og t.d. (hjól)börur – það er talað um börukjálka, hjólböruhjól o.s.frv. en ekki *bar(n)akjálka, *hjólbar(n)ahjól. Á sama hátt getur brösu- í brösulega vel verið eignarfall eintölu þótt það sé ekki notað sjálfstætt.

Eins og áður er nefnt eru elstu dæmi um brösulega/brösulegur heldur eldri en elstu dæmi um brösuglega/brösuglegur þótt vissulega muni ekki miklu. Báðir rithættir eru mjög algengir – í Risamálheildinni eru um 2070 dæmi um myndir með g en um 1700 um myndir án g. Þótt ekki kæmi annað til ættu aldur og tíðni því í sameiningu að vera nægileg réttlæting fyrir því að viðurkenna rithátt án g eins og gert er í sambærilegum orðum. Þegar við bætist að eins víst er að g-lausu myndirnar séu alls ekki leiddar af brösugur heldur af brösur liggur niðurstaðan beint við: Þótt brösulega/-ur og brösuglega/-ur séu sömu merkingar eru þetta mismunandi orð sem eru mynduð á mismunandi hátt, og eðlilegt að stafsetningin endurspegli það.