Posted on Færðu inn athugasemd

Kvæntir karlar, kvæntar konur, kvænt kvár

Í „Málspjalli“ var í gær vísað í fyrirsögn í DV, „Fékk áfall þegar hann komst að því að hann hefði gift sig án þess að vita af því“ og spurt hvort ekki hefði frekar átt að segja að hann hefði verið kvæntur án þess að vita af því vegna þess að karlmenn kvæntust en konur giftust. Vissulega er rétt að sögnin gifta er skyld gefa og merkti áður 'gefa til eiginkonu'. Sú merking er gefin fyrst í Íslenskri orðabók en einnig merkingin 'gefa saman, vígja í hjónaband'. Miðmyndin giftast er skýrð 'ganga í hjónaband' og sagt „nú bæði um karl og konu, áður aðeins um konuna“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er gifta sig skýrt 'ganga í hjónaband' og miðmyndin giftast skýrð 'ganga í hjónaband (með e-m)'. Þar er því ekki gert upp á milli kynja sem endurspeglar venjulega notkun.

Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er sagt að upphaflegum mun á giftast og kvongast sé oft haldið í ritmáli, en í talmáli sé giftast og gifta sig notað um bæði kyn. En þetta fór að riðlast löngu fyrr, líka í ritmáli. Í Guðbrandsbiblíu frá 1584 segir t.d. „Og Abraham gifti sig aftur“ og „Hver sína eiginkonu forlætur og giftist annarri, sá drýgir hór“.  Í Biskupa-annálum Jóns Egilssonar frá fyrri hluta sautjándu aldar segir: „sagði það eitt vera, að prestinum væri bannað að giptast.“ Fleiri dæmi frá sautjándu og átjándu öld eru í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, og á tímarit.is má finna fjölda dæma frá nítjándu öld um að karlmenn giftist. Það er því óhætt að segja að notkun sagnarinnar gifta(st) og lýsingarorðsins giftur um bæði karla og konur sé fullkomlega venjuleg og eðlileg.

Öðru máli gegnir um sögnina sem notuð var um karla sem gengu í hjónaband – kvænast (kvongast). Í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'gifta sig (um karlmann)' og í Málfarsbankanum er varað sérstaklega við rangri notkun hennar: „Sögnin kvænast merkir: giftast konu. Konur giftast mönnum en kvænast þeim ekki.“ Þessi munur á giftast og kvænast er svo sem skiljanlegur. Hin orðsifjafræðilegu tengsl giftast við gefa eru málnotendum ekki ofarlega í huga, enda er það ekki í samræmi við nútíma hugmyndir að kona gefist manni eða sé gefin honum. Aftur á móti er kvænast komið af kván sem síðar varð kvon og kemur fram í myndinni kvongast, og þótt kvænast sé ekki sérlega líkt kona dugir eignarfallsmyndin kvenna e.t.v. til að málnotendur tengi kvænast við konu.

Það má þó finna slæðing af gömlum dæmum um að sögnin kvænast og lýsingarorðið kvænt sé notað um konur. Í Þjóðólfi 1863 segir: „þángað til hún í einhverju rænuleysi játaði, að hún hefði ekki verið „virgo immaculata‘‘, þegar hún kvæntist honum.“ Í Skuld 1879 segir: „Dagmar [...] kvæntist stórfurstanum af Rússlandi.“ Í Lögbergi 1891 segir: „Hún er nú kvænt, en barnið lifir.“  Í Þjóðviljanum 1900 segir: „kvæntist hún þá skömmu síðar fátækum, lítt þekktum hershöfðingja.“ Í Þjóðviljanum 1901 segir: „kona þessi hafði verið kvænt verkstjóra einum þar í borginni.“ Í Ísafold 1907 segir: „Hún kvæntist úr föðurgarði 1855.“ Í Bjarma 1907 segir: „Hún kvæntist eftirlifandi manni sínum 1894.“ Í Þjóðviljanum 1907 segir: „Hún var kvænt Jóhanni söðlasmið Jónssyni.“

Notkun sagnarinnar kvænast og lýsingarorðsins kvænt(ur) um konur á sér því langa sögu og alls eru a.m.k. þrjú hundruð dæmi (og sennilega mun fleiri) um það á tímarit.is að þessi orð séu notuð um konur. Sú notkun hefur farið vaxandi og er veruleg í nútímamáli – í Risamálheildinni eru dæmin a.m.k. hátt á fjórða hundrað og aðeins lítill hluti þeirra af samfélagsmiðlum enda eru þessi orð nokkuð formleg og lítið notuð í óformlegu málsniði. Það er athyglisvert að þetta er sérstaklega algengt í minningargreinum – höfundar þeirra eru oft fólk sem er ekki vant að skrifa formlegan texta en grípur þarna til formlegs orðs sem ekki er hluti af virkum orðaforða þess og áttar sig þess vegna ekki á því að notkun þess um konur er ekki í samræmi við málstaðalinn.

Grundvöllur þess að nota mismunandi orð um að ganga í hjónaband og vera í hjónabandi hefur gerbreyst með ýmsum samfélagsbreytingum seinni ára. Langt er síðan sögnin giftast hætti að vera bundin við karlmenn eins og áður segir, en með tilkomu samkynja hjónabanda og viðurkenningu á því að kynin eru ekki bara karl og kona eru forsendur fyrir kyngreiningu orða um hjónaband algerlega fallnar brott og sú kyngreining samræmist tæpast nútíma jafnréttishugmyndum. Vitanlega getur sögnin kvænast og lýsingarorðið kvæntur slitið tengslin við orðsifjafræðilegan uppruna sinn ekkert síður en giftast og giftur – fyrir slíku eru ótal fordæmi í málinu. Við eigum ekki að hika við að tala um að kvænast karli og kvænast kvári – og kvæntar konur og kvænt kvár.

Posted on Færðu inn athugasemd

Oft og/á tíðum

Í „Málspjalli“ var nýlega spurt hvort fólk legði sömu merkingu í orðasamböndin oft á tíðum og oft og tíðum. Bæði samböndin eru algeng en ég svaraði því til að oft og tíðum væri eldra, en merkingin sú sama. Í sambandinu oft og tíðum er tíðum atviksorð, í raun upphaflega þágufall fleirtölu annaðhvort af nafnorðinu tíð eða lýsingarorðinu tíður. Eins og Jón G. Friðjónsson hefur rakið er slík myndun atviksorða algeng, svo sem bráðum af lýsingarorðinu bráður, stundum af nafnorðinu stund o.fl. Jón bendir á að oft og tíðum er mun eldra en oft á tíðum og kemur fyrir þegar í fornu máli en síðarnefnda afbrigðið hefur tíðkast allt frá nítjándu öld. Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Norðlingi 1876: „lifraraflinn eintómur verður opt á tíðum ónógur til að borga kostnaðinn.“

Í sambandinu oft á tíðum er á forsetning og tíðum skilið sem þágufall fleirtölu af nafnorðinu tíð – sem gæti líka verið uppruni tíðum í oft og tíðum þótt þar sé tíðum hugsanlega af lýsingarorði eins og áður segir. Munurinn er sá að í oft á tíðum heldur tíðum fallorðseðli sínu og setningarstöðu en hefur setningarstöðu atviksorðs í oft og tíðum. Það er varla vafi á því að yngra sambandið oft á tíðum er orðið til úr oft og tíðum og sú þróun er í sjálfu sér skiljanleg. Tengingin og er áherslulaus í oft og tíðum og framburðarmunur og og á við slíkar aðstæður er ekki mikill – hvort tveggja einhvers konar óráðið sérhljóð. Við það bætist að málnotendur kunna að hafa upplifað oft og tíðum sem óþarfa og óeðlilega tvítekningu, þar sem merking orðanna oft og tíðum er sú sama.

Hvað sem því líður er ljóst að bæði samböndin hafa lengi verið mjög algeng og hljóta vitanlega bæði að teljast „rétt mál“. Síðan upp úr miðri tuttugustu öld hefur oft á tíðum verið algengara og dæmin um það á tímarit.is eru hátt í helmingi fleiri en dæmi um oft og tíðum. Á seinustu árum sækir fyrrnefnda sambandið mjög á – í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar er það meira en tuttugu sinnum algengara en oft og tíðum sem virðist því vera að hverfa úr óformlegu málsniði. Það rímar við að sum þeirra sem tóku þátt í umræðum í „Málspjalli“, líklega fremur yngra fólk, sögðust aldrei hafa heyrt það, en önnur, líklega fremur úr hópi þeirra eldri, sögðust aftur á móti alltaf nota oft og tíðum og fannst jafnvel oft á tíðum vera „bara bull“. Þarna er því líklega kynslóðamunur.

Það kom mér hins vegar á óvart að í umræðunum kom fram að sumum fannst vera merkingarmunur á samböndunum, þannig að oft og tíðum merkti 'oft, margsinnis' en oft á tíðum merkti 'áður fyrr'. Mjög oft gætu báðar merkingar vissulega átt við. Í setningu eins og „Lífsbaráttan var oft á tíðum hörð“ í Morgunblaðinu 2000 er vel hægt – og ekkert óeðlilegt – að skilja oft á tíðum sem ‚áður fyrr‘. Svipaðar setningar eru algengar og slík tvíræðni er einmitt forsenda endurtúlkunar á merkingu. Það er líka þekkt tilhneiging meðal málnotenda að finna tilbrigðum mismunandi hlutverk – fólki finnst eðlilegt að gera ráð fyrir því að einhver ástæða sé fyrir því að tvö afbrigði eru til, og fyrst til er bæði oft og tíðum og oft á tíðum er farið að gefa þeim mismunandi merkingu.

Það getur ýtt undir þennan skilning að til eru ýmis sambönd þar sem á tíðum vísar til tíma – bæði fyrri tíðar, eins og fyrr á tíðum og áður á tíðum, en einnig til samtímans eins og nú á tíðum. Líkindi við þessi sambönd gætu leitt til þess að fólk tengdi tíðum í oft á tíðum fremur við tíma en við tíðni. Ég veit ekki hversu algengur þessi skilningur er og það er ógerningur að kanna það í textum vegna þess að oft er ekki hægt að ráða merkingu fyrir víst af samhenginu. En svo má spyrja hvort þessi merkingarbreyting – ef hún er að verða – sé í lagi, og því verður fólk að svara fyrir sig. Svipaðar breytingar eru algengar og valda sjaldnast vandræðum, en vissulega getur misskilningur – þó varla alvarlegur í þessu tilviki – hlotist af því ef fólk skilur tiltekið orðasamband á mismunandi hátt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Yfirsjón en ekki einbeittur brotavilji

Ég hef fengið viðbrögð frá starfsfólki Arion banka vegna athugasemda við enskunotkun í kynningu á markaðsherferð bankans – „Arion sport 2025 spring summer“. Bankanum þykir þetta leitt – þetta var „yfirsjón“ að sögn en „slapp í gegnum nálaraugað“ og „gerist ekki aftur“. Ég skal alveg trúa því að um mistök sé að ræða en ekki „einbeittan brotavilja“ – en það er samt ekki síður áhyggjuefni. Það er nefnilega ljóst að fjöldi fólks kom að þessu kynningarefni án þess að nokkur kveikti á því að eitthvað væri undarlegt eða athugavert við að kjörorðið (eða hvað á að kalla það) væri á ensku. Fulltrúi bankans sagðist „viss um að mörgum finnist kjánalegt að hafa þetta á ensku (en velti því ekkert fyrir sér fyrr en á það er bent)“.

En þetta sýnir í hnotskurn hvað við erum orðin ónæm fyrir enskunni í kringum okkur. Auðvitað á ekki að þurfa að benda á þetta – auðvitað ætti fólk að kippast við þegar það sér að auglýsing sem beint er til Íslendinga er á ensku en ekki íslensku. Reyndar verður ekki betur séð en umrætt kjörorð brjóti beinlínis gegn þriðju málsgrein sjöttu greinar laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu nr. 57/2005, þar sem segir: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þetta dæmi sýnir að mikilvægt er að vera á verði og gera athugasemdir við óþarfa og ástæðulausa enskunotkun. Ég treysti því að bankinn geri alvöru úr vangaveltum um að láta framleiða peysur með áletrun á íslensku í stað ensku.

Posted on Færðu inn athugasemd

Í augnsýn

Í „Málspjalli“ var í gær vakin athygli á fyrirsögninni „Segir samning Kvikmyndaskólans við ráðuneytið í augnsýn“ á vef Ríkisútvarpsins og spurt „Augnsýn eða augsýn“? Spurningin er skiljanleg – vissulega er augsýn, án n, venjulega orðmyndin en myndina augnsýn er ekki að finna í orðabókum. Hún kemur þó einnig fyrir inni í fréttinni sem sýnir að tæpast er um innsláttarvillu að ræða. Myndin Augnsýn er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls sem nafn á gleraugnaverslun en nafnið kom ýmsum ókunnuglega fyrir sjónir í byrjun eins og sjá má á leiðréttingu í Morgunblaðinu 1981: „Einn stafur féll niður í nafni nýrrar gleraugnaverzlunar í Hafnarfirði, sem skýrt var frá blaðinu í gær. Verzlunin heitir Augnsýn en ekki Augsýn.“

En myndin augnsýn í áðurnefndri frétt er þó fjarri því að vera einsdæmi. Um tvö hundruð dæmi eru um hana á tímarit.is, það elsta í Þjóðviljanum 1947: „Þegar Alec var horfinn úr augnsýn, fór dálítill kuldahrollur um Sally.“ Langflest dæmanna eru frá því eftir 1990 og virðist ekki ólíklegt að verslunarheitið Augnsýn sem áður var nefnt og tekið var upp 1981 hafi ýtt undir notkun þessarar orðmyndar – fólk heyrir hana og sér og hefur enga ástæðu til að ætla annað en hana megi nota í samböndum eins og í aug(n)sýn og úr aug(n)sýn. Hún er gagnsæ, ekkert síður en augsýn, og samræmist íslenskum orðmyndunarreglum fullkomlega. Samsetningar með augn- sem fyrri lið eru reyndar miklu fleiri en þær sem hafa aug- að fyrri lið og einhverjar tvímyndir eru til.

Í Risamálheildinni eru um fimm hundruð dæmi um augnsýn, þar af nærri helmingur úr formlegri textum en samfélagsmiðlum. Fjöldi dæma um augnsýn á samfélagsmiðlum er rúmur fjórðungur af fjölda dæma um augsýn. Vegna þess að orðið er gagnsætt, rétt myndað, a.m.k. hátt í áttatíu ára gamalt og greinilega komið í verulega notkun eru hvorki forsendur né ástæða til að hafna því eða telja það rangt mál. Það er ljóst að margt yngra fólk hefur alist upp við þetta orð og eðlilegt að það noti samböndin í augnsýn og úr augnsýn. Við hin þurfum ekkert að amast við því þótt við höldum væntanlega áfram að segja í augsýn og úr augsýn. Það er líka í himnalagi – við þurfum ekkert öll að tala eins og málið þolir alveg tilbrigði, svo framarlega sem þau raska ekki kerfinu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Arion gegn íslenskunni

Eins og alkunna er og oft er rætt um er íslenskan í vörn gagnvart ensku, ekki síst meðal ungs fólks. Í ágætum pistli sem Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur skrifaði á þjóðhátíðardaginn og deilt var í „Málspjalli“ sagði: „Svo mikið kveður að [...] enskunotkun Íslendinga að segja má að enskan sé að verða óopinbert opinbert mál hér á landi. Við þurfum að muna að það er hlutverk Íslendinga að varðveita íslenskuna. Það verður ekki Pólverjum eða Palestínumönnum að kenna ef við töpum íslenskunni heldur okkur sjálfum.“ Þetta rifjaðist óþægilega upp fyrir mér þegar ég sá að Arion banki hefur sett af stað markaðsherferð sem beinist að ungu fólki og er rekin undir kjörorði á ensku – „Arion sport 2025 spring summer“. Þetta er algerlega ótækt og bankanum til háborinnar skammar.

Það er ekki eins og erfitt sé að finna íslenskar samsvaranir við sport, spring og summer. Reyndar er eðlilegt að líta á tökuorðið sport sem fullgilda íslensku þótt íþróttir sé óneitanlega íslenskulegra orð, en það er óskiljanlegt og með öllu óafsakanlegt að nota ensku orðin spring og summer í stað erfðaorðanna vor og sumar. Þetta sendir þau skýru skilaboð að íslenska sé ekki kúl – enska sé eina málið sem mark er takandi á. Þótt eitt kjörorð á ensku kunni að virðast léttvægt eru það atriði eins og þetta sem grafa undan íslenskunni vegna þess að þau skapa neikvætt viðhorf til hennar en ýmsar rannsóknir sýna að lífvænleiki smáþjóðatungumála veltur ekki síst á viðhorfi ungu kynslóðarinnar – ef hún hefur neikvætt viðhorf til móðurmálsins á það sér ekki viðreisnar von.

Arion banki hefur sérstaka stefnu um samfélagsábyrgð og segir: „Hjá Arion banka leggjum við áherslu á að samfélagsábyrgð sé hluti af daglegri starfsemi bankans, ákvarðanatöku og ferlum.“ En samfélagsábyrgð snýr ekki bara að fjármálum – hún felst ekki síður í því að hlúa að grunngildum samfélagsins. Varla er ágreiningur um það að íslensk tunga sé meðal þessara grunngilda. Notkun ensks kjörorðs þar sem auðvelt væri að nota íslensku er algerlega andstæð þeirri samfélagslegu ábyrgð sem bankinn segist vilja hafa í heiðri og verður að líta á hana sem mistök. Þegar bent hefur verið á þessi mistök hljótum við að gera ráð fyrir því að bankinn hætti umsvifalaust notkun umrædds kjörorðs en velji markaðsherferð sinni íslenskt kjörorð í staðinn.

Posted on Færðu inn athugasemd

Flugskeyti og loftskeyti

Í færslu í „Málspjalli“ í dag var gerð athugasemd við að talað væri um loftskeyti sem hernaðarvopn – „Rétta orðið er flugskeyti“. Það er vissulega rétt að á þessu tvennu hefur lengst af verið grundvallarmunur. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið loftskeyti skýrt 'skeyti sent með tækni sem byggist á útvarpsbylgjum' og hefur verið notað í þessari merkingu síðan í byrjun tuttugustu aldar – í Skírni 1902 segir: „Á hinu virðist enginn efi, að þar sem loftskeyti eru send milli fjarlægra stranda yfir haf, þá ná þau tilgangi sínum.“ Í elsta dæmi um orðið, í Heimskringlu 1898, er það hins vegar notað um eins konar flugvél með „rafmagnshreyfivél, sem ásamt vindmylnu.vængjum, skýtr henni gegnum loftið, hvert sem maðr vill“.

Orðið flugskeyti er aftur á móti skýrt 'fjarstýrð eldflaug sem getur borið vopn' í Íslenskri nútímamálsorðabók og þá merkingu hefur orðið venjulega haft þótt öðru máli gegni um elstu dæmi, eins og í Veðráttunni 1928 þar sem segir: „Vegna hinna innlendu flugferða voru fengnar aukaveðurfregnir frá 9 skeytastöðvum frá því snemma í júní til 8. september. Þessi flugskeyti voru ennfremur fengin frá 6 aukastöðvum.“ Í Morgunblaðinu 1929 segir: „í þær fregnir vantar yfirleitt upplýsingar um skygni, skýjahæð og sjávaröldu – sem alt er nauðsynlegt í flugskeytum.“ Í þessum dæmum merkir flugskeyti 'veðurlýsing (veðurskeyti) vegna flugs'. En í Vísi 1944 segir: „Mörg flugskeyti Þjóðverja voru skotin niður yfir Suður-Englandi í gær.“

Í elstu dæmum er merking orðsins loftskeyti sem sé nálægt því að vera 'flugskeyti' en merking orðsins flugskeyti er 'loftskeyti' (sent í ákveðnum tilgangi). En þetta eru undantekningar og orðin hafa haft þá merkingu sem lýst er í Íslenskri nútímamálsorðabók fram undir þetta. Elsta dæmi sem ég finn um merkingarbreytingu orðsins loftskeyti er í krossgátu í Morgunblaðinu 2000 þar sem ein skýringin er „Eldfimt loftskeyti notað í stríði“ og lausnin er „Tundurskeyti“. Í DV 2003 segir: „Búnaðurinn virkar þannig að sé loftskeyti skotið að flugvélinni getur flugmaðurinn skotið út tugum blysa.“ Í DV 2007 segir: „Loftskeytum rignir niður á mann.“ Í Fréttablaðinu 2008 segir: „Palestínumenn segja ísraelskt loftskeyti hafa lent á húsinu.“

Dæmum um að loftskeyti sé notað í þessari merkingu fer svo fjölgandi – hægt og sígandi fyrst, en fljótlega mjög ört og í fréttum frá síðustu tíu árum hefur orðið nær alltaf þessa merkingu, í hundruðum dæma. Í sjálfu sér er þessi merkingarbreyting vel skiljanleg – við tölum um loftárásir og loftvarnir og eðlilegt að tengja loftskeyti við það. Forsenda fyrir því að það gerist er þó að í raun og veru er ekki lengur þörf á orðinu í eldri merkingu – loftskeyti eru ekki send lengur, starf loftskeytamanna er nú úrelt og Félag loftskeytamanna hefur verið lagt niður. Eldri merkingin er því eingöngu notuð þegar talað er um liðna tíð en það er vissulega skiljanlegt að þeim sem ólust upp við hana hugnist ekki breytingin. Henni verður þó varla snúið við úr þessu.

Posted on Færðu inn athugasemd

Ölvunarpóstur

Í frétt á Vísi í dag segir: „Lögreglumenn settu upp ölvunarpóst í hverfi 105.“ Ég hef ekki séð orðið ölvunarpóstur áður og það er ekki í orðabókum, og ekki eru heldur nein dæmi um það á tímarit.is. Í Risamálheildinni eru tvö dæmi, það eldra á Twitter 2021: „Heyrði orðið „ölvunarpóstur“ í fyrsta sinn í gær.“ Fáein dæmi til viðbótar má finna á netinu, öll frá síðustu tveimur árum. Annað hliðstætt orð er stöðvunarpóstur sem ekki er heldur í orðabókum eða á tímarit.is en fáein dæmi eru um í Risamálheildinni – þau elstu frá 2017, þ. á m. þetta: „Eftirlitið fór þannig fram að svokallaðir stöðvunarpóstar voru settir upp á Reykjanesbraut.“ Orðið svokallaðir sýnir að ekki er búist við að lesendur þekki orðið stöðvunarpóstur.

Enn ein samsetning af sama tagi er lokunarpóstur sem er nokkru eldra en hin, a.m.k. fimmtán ára gamalt. Um það eru örfá dæmi á tímarit.is en hátt í sex hundruð í Risamálheildinni, það elsta í Sunnlenska.is 2010: „Björgunarsveitarmenn hafa mannað lokunarpósta auk þess að aðstoða við ýmis verkefni.“ Þetta orð var til umræðu í „Málspjalli“ fyrir tveimur árum og spurt hvort það væri „gilt orð yfir lokunarstað/stöð“ og bent á að skýringar orðsins póstur í Íslenskri nútímamálsorðabók næðu ekki yfir merkingu þess í þessari samsetningu, þrátt fyrir að þar séu sex mismunandi merkingar skráðar. En lokunarpóstur er komið í Íslenska nútímamálsorðabók og skýrt 'vegartálmi sem lokar fyrir umferð um veg, einkum vegna ófærðar'.

Notkun orðsins póstur í þessum samsetningum er væntanlega úr dönsku þar sem ein merking orðsins post er 'varðstöð'. Sú merking orðsins póstur hefur lengi þekkst í íslensku þótt hún hafi ekki komist í orðabækur, ekki síst í sambandinu vera/standa á sínum pósti sem er t.d. að finna í Íslensku orðaneti. Dæmi eru um það frá átjándu öld, m.a. í Ævisögu síra Jóns Steingrímssonar: „því mitt sigt var ei annað en að standa vel á mínum pósti.“ Elsta dæmi um það á tímarit.is er í Verklýðsblaðinu 1934: „hermenn fósturjarðarinnar, vökumenn þjóðarinnar, máttu aldrei víkja af sínum pósti.“ Þessi merking orðsins tíðkast enn – „Á fáum vikum sér fastaliðið í ráðuneytinu hvort sá nýi verði farsæll á sínum pósti“ segir í Morgunblaðinu 2023.

Þótt þessi merking sé vissulega komin úr dönsku á hún sér a.m.k. tvö hundruð og fimmtíu ára sögu í málinu og hlýtur að hafa unnið sér hefð, og það er hún sem orðið hefur í framangreindum samsetningum. Mér finnst orðin stöðvunarpóstur og lokunarpóstur eðlileg og gagnsæ – ég held reyndar að síðarnefnda orðið merki ekki beinlínis 'vegartálmi' heldur 'staður þar sem lokað er' – e.t.v. eingöngu með merkingum eða vörslu. Hliðstætt gildir um stöðvunarpóstur. Merkingartengsl orðhlutanna í ölvunarpóstur eru annars eðlis og orðið e.t.v. ekki eins gagnsætt – kannski þurfum við að styðjast við lokunarpóstur og stöðvunarpóstur til að átta okkur á því. En það er vitanlega algengt að merkingartengsl liða séu ólík í orðum sem eru formlega hliðstæð.

Posted on Færðu inn athugasemd

Við Stína erum þríburar

Bæði tvíburabróðir og tvíburasystir eru flettiorð í Íslenskri nútímamálsorðabók, skýrð 'bróðir / systir e-s sem er annar tvíbura', en af einhverjum ástæðum er aðeins það fyrrnefnda að finna í Íslenskri orðabók, með skýringunni 'bróðir sem er tvíburi' – kannski hefur þótt óþarfi að hafa síðarnefnda orðið með vegna þess að það hefði hvort eð er lent næst á eftir hinu (í prentuðu útgáfunni) og er auðskilið út frá því (þótt raunar megi deila um hversu góðar og gagnsæjar orðabókaskýringarnar séu). Orðin þríburabróðir og þríburasystir er aftur á móti ekki að finna í neinni orðabók, hvað þá fjórburabróðir og fjórburasystir eða þeim mun meira, enda væntanlega gengið út frá því að þetta séu orð sem þarfnist ekki skýringar. En er það svo?

Ef ég er tvíburi get ég augljóslega sagt Stína er tvíburasystir mín – en ef ég er þríburi, get ég þá sagt Stína er þríburasystir mín? Ég get líka sagt við Stína erum tvíburar, og við Olla og Stína erum þríburar – en gæti ég sagt við Stína erum þríburar án þess að nefna Ollu? Með öðrum orðum – er hægt að nota orðið þríburar, og samsetningar af því, þegar aðeins er verið að tala um tvö af þremur? Þessu var ég að velta fyrir mér einhvern tíma fyrir löngu – mér fannst skrítið að nota þríburar í þessu samhengi, en sá enga aðra leið. Þótt ég sé bara að tala um tvö er alls ekki hægt að segja við Stína erum tvíburar ef við erum í raun tvö af þremur. Ég komst sem sé aldrei að neinni niðurstöðu um þetta og hef aldrei lent í aðstæðum þar sem reyndi á þetta.

En þetta rifjaðist upp fyrir mér þegar ég sá frétt á mbl.is með fyrirsögninni „Ágúst mætti með þríburabróður sínum í stúdió“ og aðra með fyrirsögninni „Þríburabróðirinn fær allt áreitið“ þar sem í myndatexta segir líka „Tónlistarmaðurinn Ágúst og þríburabróðir hans Rúnar mættu í Skemmtilegri leiðina heim á K100 nýverið.“ Þarna er sem sé talað um þríburabróður þótt aðeins tveir af þremur í þríburahópnum séu til umræðu, og við nánari athugun fann ég fleiri dæmi um þetta. Í Morgunblaðinu 2007 segir: „Þau systkinin eru komin af sterkum stofni, þríburabróðir hennar stendur enn fyrir búskap.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Hansína þríburasystir hans er nú ein á lífi þeirra systkina.“ En dæmi af þessu tagi eru mjög fá.

Lykillinn að þessu held ég að sé sá að orð eins og tvíburar, þríburar o.s.frv. eru í raun tvíræð þótt við áttum okkur yfirleitt ekki á því vegna þess að það reynir svo sjaldan á það. Orðin tvíbura-/þríburabróðir og tvíbura/-þríburasystir vísa til vensla eins og bróðir og systir ein og sér – það er yfirleitt ekki sagt ég er bróðir eða ég er systir, það verður að vera bróðir eða systir einhvers eða einhverrar. Orðin tvíburi og þríburi geta vísað til vensla en þurfa ekki að gera það, heldur geta vísað til ákveðins afmarkaðs hóps – þess vegna er hægt að segja við Stína erum bæði þríburar ef við tilheyrum tveimur mismunandi þríburahópum. Hins vegar verður skrítið að segja við Stína erum þríburar vegna þess að þá fer venslamerkingin að þvælast fyrir.

En önnur spurning kemur upp í þessu sambandi. Ef ég tala um tvíburabróður minn eða tvíburasystur mína er ljóst að ég er sjálfur tvíburinn á móti, en ef ég tala um tvíburabræður mína eða tvíburasystur mínar er ljóst að ég er þar ekki meðtalinn vegna þess að tvíburar eru aðeins tveir. En hvað merkir þá ef ég tala um þríburabræður mína eða þríburasystur mínar – er ég þá einn af hópnum? Svo er greinilega stundum, eins og í „Margrét var þríburi en þríburabræður hennar tveir dóu nýfæddir“ í Goðasteini 1994 – en stundum ekki, eins og í „En þarna voru þríburasystur bræðranna, Ásta Evonne, Lóa Eloise og Sigríd Elaine“ í Morgunblaðinu 1996. Fleiri dæmi má finna um hvort tveggja svo að þetta er greinlega tvírætt.

Posted on Færðu inn athugasemd

Spa(r)(t)(s)l(a) – spo(r)(t)(s)lur

Ritháttur sagnar sem merkir 'fylla upp í göt og misfellur í veggjum með sérstöku fylliefni' og samsvarandi nafnorðs sem merkir 'efni sem notað er sem fylling í göt og misfellur áður en málað er eða lakkað' hefur verið nokkuð á reiki. Í Málfarsbankanum segir: „Rita skal sparsl og sparsla í samræmi við þann framburð sem hér tíðkast (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar).“ Sú ályktun er frá 1984 en fram að því hafði rithátturinn spartl og spartla verið notaður í Íslenskri orðabók sem var á þeim tíma – og lengi síðar – ígildi stafsetningarorðabókar. Íslensk málnefnd benti hins vegar á að sá ritháttur samræmdist ekki framburði fagmanna og hefur væntanlega talið að sparsl og sparsla gerði það betur, þótt rithátturinn spasl sé einnig nefndur í ályktuninni.

Myndir með -rtl- virðast vera eldri, enda liggur að baki danska sögnin spartle sem er leidd af nafnorðinu spartel sem merkir 'kíttisspaði' eins og kemur fram í Íslenskri orðsifjabók. Elsta dæmi um spartl er í auglýsingu í Bæjarskrá Reykjavíkur 1929: „Penslar, sandpappír, spartl og fleiri slíkar vörur.“ Í auglýsingu í Tímanum 1930 segir: „Allskonar áhöld fyrir málningariðn, t.d. Penslar. Spartlar. Sandpappír. Kork.“ Þarna er spartlar greinilega í sömu merkingu og spartel í dönsku, þ.e. 'kíttisspaði', en það virðist einsdæmi – orðið spartlspaði kemur fyrir sama ár og oft síðar í þessari merkingu. Sögnin spartla kemur fyrst fyrir í Speglinum 1935: „þó er rjettara að nota zinkhvítu en blýhvítu, og spartla hana nokkurnveginn jafnt yfir allt andlitið.“

Myndir með -rsl- virðast vera tíu til fimmtán árum yngri. Nafnorðsmyndin sparsl kemur fyrst fyrir í auglýsingu í Frjálsri verslun 1944: „Lökk, þynnir, undirmálning, sparsl, slípimassi, sandpappír o.fl.“ Elsta dæmi um sagnmyndina sparsla er í Þjóðviljanum 1945: „þar sem hann var að sparsla skápinn sinn.“ Síðan hafa þessar myndir verið notaðar nokkuð jöfnum höndum og verður ekki séð að dregið hafi úr tíðni mynda með -rtl- við ályktun Íslenskrar málnefndar. Þetta virðist þó vera að breytast – í Risamálheildinni eru myndir með -rsl- nærri þrisvar sinnum algengari en myndir með -rtl-. En þriðja ritmyndin, sem reyndar er nefnd í ályktun Íslenskrar málnefndar eins og áður segir, er aðeins með -sl- en hvorki t s – spasl og spasla.

Dæmi um þessar myndir á tímarit.is eru ekki ýkja mörg, en í Risamálheildinni eru þær rúmlega hálfdrættingur á við -rtl-myndir – flest dæmin af samfélagsmiðlum. Nafnorðsmyndin spasl kemur fyrst fyrir í Morgunblaðinu 1953: „Bifreiðalökk, grunnur, spasl og þynnir nýkomið.“ Sagnmyndin spasla sést fyrst í Alþýðublaðinu 1961: „Hann gat lagfært dyrnar, […] kíttað og spaslað þannig að allt var til þegar mér þóknaðist að byrja með pensilinn.“ Það eru líka dæmi um að -rtl- og -rsl- sé blandað saman – „Dömureiðhjól og bílaspartsl til sölu“ segir í Morgunblaðinu 1948; „þótt spartslað sé og málað yfir sprungur innanhúss, koma þær í ljós aftur, er frá líður“ segir í Alþýðublaðinu 1953. Stöku sinnum voru orðin rituð sparzl og sparzla.

Annað tökuorð þar sem klasinn -rtl- er upprunalegur er sporsla sem skýrt er 'smáaukastarf, bitlingur' í Íslenskri nútímamálsorðabók og langoftast haft í fleirtölu, sporslur. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er það tökuorð úr sportel í dönsku sem hefur sömu merkingu, og er einnig til í myndinni sportla/sportlur. Sú mynd virðist alltaf hafa verið sjaldgæf og er líklega horfin úr málinu en örfá dæmi eru á tímarit.is, það elsta úr bréfi Matthíasar Jochumssonar frá 1888 í Skírni 1972: „hefði jeg ekki drjúga kennslu og nokkrar fleiri sportlur væri ekki heldur hér við vært.“ Öll dæmin um þessa mynd eru gömul nema þrjú dæmi úr Helgarpóstinum 1995, m.a.: „Er menntamálaráðherra kannske á sportlum hjá Ríkisútvarpinu án þess að nokkur viti af því?“

Myndin sporslur er yngri, elsta dæmi í Freyju 1907: „Hann segir það sé fyrir sig að betla fyrir eldivið og aðrar smá sporslur handa kyrkjunni.“ Sú mynd er mjög algeng, en orðið var þó merkt með spurningarmerki sem „vont mál“ í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar. Eins og við er að búast er myndin sposlur einnig til og nokkuð algeng, elsta dæmi í Stormi 1930: „Hinsvegar munu fleiri en áður hafa sposlur góðar.“ Myndinni sportslur bregður einnig fyrir, og nokkur dæmi eru um sporzlur, það elsta í Heimskringlu 1914: „En svo eru einhverjar smá sporzlur, sem Ameerinn verður að leggja til rússnesku lögreglunnar.“ Það eru því öll sömu tilbrigði í orðinu sporsla og í orðunum sparsl og sparsla, og í báðum tilvikum virðist þróunin líka vera hin sama.

Elstu dæmin eru með -rtl- eins og dönsku fyrirmyndirnar, -rsl- kemur nokkru síðar, þar á eftir -rtsl- (og -rzl-), og að lokum -sl-. Á breytingunni úr -rtl- í -rsl- hlýtur að vera einhver hljóðfræðileg skýring sem ég átta mig ekki alveg á, þótt vissulega sé ekki ýkja langt á milli þessara klasa í framburði. Myndir með -rtsl- skýrast líklega af blöndun hinna tveggja, og myndir með -sl- eru eðlileg einföldun klasans -rsl- – brottfall r eða samlögun þess við s. Sams konar einföldun þessa klasa verður oft í ýmsum öðrum orðum, eins og versla, ærslast o.fl. Ritháttur með -rtl- samsvarar ekki venjulegum framburði orðanna en vegna þess að r helst oft í þeim er er eðlilegt að rita þau með -rsl- eins og nú er mælt með, frekar en bara með -sl-.

Posted on Færðu inn athugasemd

Umhverfisvænar málningar

Í gær var birt í „Málspjalli“ mynd af auglýsingaskilti þar sem stóð „Næstum allar málningarnar okkar eru umhverfisvænar“ og spurt hvort þetta væri nýtt – fyrirspyrjandi sagðist ekki áður hafa séð málningu í fleirtölu. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins eintala orðsins gefin, og fleirtalan er vissulega sjaldséð en þó má finna dæmi um hana. Í Morgunblaðinu 1920 segir: „Vér mælum sérstaklega með amerískum málningum fyrir þakjárn.“ Í NT 1984 segir: „Frábær reynsla af akrýlplastmálningunum.“ Í Árbók VFÍ/TFÍ 1994-1995 segir: „nýjar málningartegundir […] áttu að vera mun betri en gömlu sementsbundu málningarnar.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Blý er helst að finna í eldri grunnmálningum og olíumálningu.“

Fáein fleiri dæmi má finna, einkum um þágufallið málningum, en erfitt er að leita að nefnifalli og þolfalli fleirtölu án greinis, málningar, vegna þess að þau falla saman við eignarfall eintölu. Í Risamálheildinni má þó finna dæmi um nefnifall án greinis úr þingræðu 2001: „Olíubundnar málningar og lökk eru fremur á undanhaldi fyrir vistvænni afurðum.“ Aftur á móti er töluvert af dæmum um eignarfallið málninga. Meginhluti þeirra er úr samsettum orðum, eins og málningavörur, málningavinna, málningapenslar o.fl. Þau dæmi sýna í sjálfu sér ekki að verið sé að nota orðið málning í fleirtölu – það er alþekkt að í lok fyrri hluta samsettra orða er oft skotið inn r sem ekki á að vera þar, eins og í mánaðarmót, eða fellt brott r sem ætti að vera.

Hins vegar sýna þessi orð aðra merkingu orðsins málning en önnur dæmi sem hér hafa verið tilfærð, og sama máli gegnir um dæmi eins og „margir litir til málninga eru ódýrastir í verzlun Ben. S. Þórarinssonar“ í Reykjavík 1903, „Málningarvörur og alt er til málninga lýtur, er best að kaupa í Kolasundi í versl. Daníels Halldórssonar“ í Morgunblaðinu 1920, „Leitast skal við að vinna úr síldarlýsi olíu til málninga“ í Nýja dagblaðinu 1936, og nokkur fleiri. Orðabókaskýringar á málning ná ekki yfir þessi dæmi því að þær vísa eingöngu til efnis – ‘fljótandi litur til að bera á veggi og loft í húsum, bekki og báta og fleiri hluti’ í Íslenskri nútímamálsorðabók og ‘fljótandi litur, efni til að mála með’ í Íslenskri orðabók.

En í þessari notkun er augljóslega ekki verið að vísa til efnisins heldur verknaðarins ‘að mála’ eins og nafnorð mynduð af sögn með viðskeytinu -ing gera oftast, í byrjun a.m.k., þótt merkingin hnikist oft til með tímanum og færist yfir á afurð verknaðarins eins og í teikning, bygging o.fl., eða efni sem notað er til hans, eins og í málning – stundum verður þá til nýtt orð til að tákna verknaðinn ótvírætt, eins og teiknun og málun. Flest -ing-orð halda þó í verknaðarmerkinguna að einhverju leyti og hún kemur stöku sinnum fram í málning – „Málning hússins gæti bóndinn annazt sjálfur að öllu leyti“ segir t.d. í Andvara 1931. Það er þó sjaldgæft að orðið sé notað í fleirtölu í verknaðarmerkingunni, helst í eignarfalli eins og hér er sýnt.

Fjölmörg dæmi eru um að orð sem áður voru eingöngu höfð í eintölu séu nú einnig notuð í fleirtölu vegna þess að merking þeirra hefur hnikast til. Mjög algengt er að amast sé við þessari fleirtölunotkun en þó virðist fólk venjast henni smátt og smátt, í sumum orðum a.m.k. Orðið sulta var t.d. áður talið eintöluorð og er sýnt sem slíkt í Íslenskri orðabók en ég held að fæstum þyki nokkuð athugavert við sultur lengur og fleirtalan er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Enn nærtækara dæmi er málningar og lökk sem vitnað var til hér að framan – lakk og málning virðast vera hliðstæð fyrirbæri en fleirtalan lökk er viðurkennd og á sér langa hefð. Við myndum örugglega venjast fleirtölunni málningar ef hún færi að tíðkast.