Víðförli víkinga

Á yfirferð um vefmiðla áðan staldraði ég við fyrirsögnina „Sjö nýfundin armbönd frá víkingatímum merk heimild um víðförli þeirra“ á vef Ríkisútvarpsins. Orðmyndin víðförli er vitanlega algeng sem beygingarmynd (karlkyn í veikri beygingu) af lýsingarorðinu víðförull og einnig notuð sem viðurnefni – Þorvaldur víðförli, Eiríkur víðförli og fleiri. En í umræddri fyrirsögn er greinilega um nafnorð að ræða og það er ekki algengt – er t.d. ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en hins vegar í Íslenskri orðabók, skýrt 'það að vera víðförull' og gefið bæði sem kvenkyns- og hvorugkynsorð. Í fyrirsögninni er orðið í þolfalli og því fylgir ekkert ákvæðisorð þannig að ómögulegt er að sjá hvort um kvenkyn eða hvorugkyn er að ræða.

Orðið víðförli kemur fyrir í fornu máli og er þar kvenkynsorð – „setti þar sterka stólpa til marks sinnar víðförli“ segir í Trójumanna sögu. Flest nýrri dæmi þar sem hægt er að greina kynið eru líka kvenkyns. Í Vísi 1933 segir: „þá hefur honum komið víðförlin að góðum notum.“ Í Æskunni 1937 segir: „Vegna víðförli Jóns var Kátur orðinn furðu þekktur.“ Í Vísi 1943 segir: „Frú Inga Laxness nýtur í hlutverki sínu víðförli og tungumálakunnátttu.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Víðförli Steins Elliða er hins vegar frekar gefin til kynna með öðrum hætti.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Sá er mikill fagurkeri og nýtir víðförli sína sem skipstjóri.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 2003 segir: „Hefur þessi víðförli komið þér að gagni við þýðingarstörfin?“

Eina ótvíræða dæmið sem ég hef fundið um víðförli í hvorugkyni er í kvæðinu „Norðmenn“ eftir Stephan G. Stephansson í Heimskringlu 1925: „Ennþá vakir vorra feðra andi: / Víðförlið og trú á eigin kraft.“ En vegna þess að greinislausar myndir orðsins í kvenkyni og hvorugkyni falla saman í öllum föllum nema eignarfalli er sjaldnast hægt að ákvarða kyn þess með vissu. Það á við um dæmi eins og „Víðförli höf. er á marga fiska“ í Lögréttu 1917, „En ein stjett manna hefir þó jafnan tekið flestum öðrum fram, að því er víðförli snertir“ í Fálkanum 1931, „Til þess að öðlast rétt sjálfs- og gildisskyn þarf að rækta vit sitt með víðförli“ í Skírni 2005 og „Dyggðir kvenna voru ekki útrásargjarnar líkt og hugrekki og víðförli“ í Lesbók Morgunblaðsins 2007.

Vegna þess að aðeins hefur fundist eitt ótvírætt dæmi um hvorugkynið verður að telja líklegt að flest eða öll dæmi þar sem ekki er hægt að ákvarða kynið séu í raun hugsuð sem kvenkyns. Reyndar er einnig til karlkynsorðið víðförli en það merkir annað, þ.e. 'víðförull maður' – „Þeir „lærðu víðförlar“ Banks og Solander heimsóttu Bjarna landlækni Pálsson að Nesi við Seltjörn“ segir t.d. í Heilbrigðu lífi 1945. En kvenkynsorðið víðförli er mjög sjaldgæft – aðeins eitt dæmi í Ritmálssafni Árnastofnunar, dæmin á tímarit.is eru aðeins milli tuttugu og þrjátíu, og í Risamálheildinni eru aðeins fimm dæmi um orðið frá þessari öld. Þess vegna kom skemmtilega á óvart að sjá orðið í áðurnefndri fyrirsögn – þetta er gott orð sem mætti nota meira.

Lágvöruverðsverslun, lágvöruverslun, lágverðsverslun

Í tengslum við opnun verslunarinnar Prís hafa orðin lágvöruverðsverslun og lágvöruverslun enn einu sinni komið til umræðu í málfarshópum. Það er svo sem ekki furða – þetta eru stórskrítin orð. Orðið lágvöruverslun er ekki að finna í Íslenskri nútímamálsorðabók en lágvöruverðsverslun er þar hins vegar og skýrt 'stórverslun þar sem vöruverð er lágt en vöruframboð takmarkað og þjónusta ekki mikil'. Þriðja orðið af þessum toga er lágverðsverslun – það er ekki í almennum orðabókum en er hins vegar að finna í Hagfræðiorðasafni í Íðorðabankanum í merkingunni 'discount store'. Öll þessi orð eru álíka gömul í málinu, frá þeim tíma sem fyrirbærið sem þau vísa til var að ryðja sér til rúms á árunum upp úr 1990.

Margsamsett orð eru venjulega mynduð þannig að einum og einum orðhluta í einu er bætt framan eða aftan við orð sem fyrir er í málinu – í skrifstofubúnaður er búnaður bætt við samsetta orðið skrifstofa, í súpueldhús er súpu bætt framan við eldhús, o.s.frv. En hvorki *lágvöruverð né *lágvara er til, og ekki heldur *verðsverslun eða *vöruverðsverslun – og svo sem ekki ljóst hvað þessi orð gætu merkt, ef til væru. Hlutarnir sem lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun virðast vera búnir til úr koma því aldrei fyrir einir og sér. Aftur á móti er lágverðsverslun eðlileg orðmyndun því að þótt orðið lágverð sé sjaldgæft er það til – „við höfum tekið allan reksturinn á Miklagarði við Sund og breytt honum í markað með lágverð“ segir t.d. í Alþýðublaðinu 1992.

Þrátt fyrir þetta er lágverðsverslun langsjaldgæfast af orðunum þremur – um það eru rúm 300 dæmi í Risamálheildinni, rúm 1500 um lágvöruverslun og rúm 2000 um lágvöruverðsverslun. Víkverji í Morgunblaðinu hefur margsinnis amast við þessum orðum og sagði t.d. 2008: „Orðið lágvöruverð er ekki orð heldur orðskrípi“ og „Ef rýnt er nánar í orðskrípið lágvöruverslun þá mætti halda að til væri ákveðin vörutegund sem kölluð væri lágvara.“ Í Málfarsbankanum segir: „Betur fer á að segja sparverslun en „lágvöruverðsverslun“.“ Orðið Sparverslun var notað sem sérnafn á fyrsta áratugi þessarar aldar en ég finn aðeins eitt dæmi um sparverslun sem samnafn, í DV 2013: „Flest þau sveitarfélaga sem hér eru skoðuð búa að einni sparverslun eða fleiri.“

Það er eðlilegt að velta því fyrir sér hvernig orðin lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun hafi orðið til, þvert á íslenskar orðmyndunarreglur að því er virðist. Þá er rétt að athuga að það sem einkennir fyrirbærið sem orðin vísa til er fernt – þetta er verslun sem selur vörur á verði sem er lágt. Allir þessir merkingarþættir koma fram í orðinu lágvöruverðsverslun þótt málfræðileg uppbygging orðsins sé ekki samkvæmt venjulegum reglum – en frá sjónarmiði merkingarlegs gagnsæis má halda því fram að þetta sé mjög gott orð. Sama gildir um lágverðsverslun – þar vantar að vísu vöru en það segir sig sjálft að verð hefur þarna merkinguna 'vöruverð'. Í orðið lágvöruverslun vantar hins vegar merkingarþáttinn verð sem er eiginlega grundvallaratriði.

Þótt orðin lágvöruverslun og lágvöruverðsverslun séu „órökrétt“ og myndun þeirra ekki í samræmi við íslenskar orðmyndunarreglur hafa þau unnið sér sess í málinu og við vitum öll hvað þau merkja. Ótal orð í daglegu máli okkar eru „órökrétt“ ef við förum að leysa þau upp og greina merkingu einstakra orðhluta, en það truflar okkur ekki vegna þess að við þekkjum þau og skynjum sem heild, og vitum til hvers þau vísa. Ef þessi orð væru að koma upp núna fyndist mér ástæða til að reyna að finna einhver betri. En þegar orð hafa verið notuð áratugum saman og eru vel þekkt er yfirleitt þýðingarlaust og jafnvel til bölvunar að reyna að losna við þau. Mér finnst samt full ástæða til að halda myndinni lágverðsverslun á lofti.

.

Í gær varð hér áhugaverð umræða um greinarmerkjanotkun sem spannst af því að margt ungt fólk notar ekki punkt í lok málsgreina í stafrænum samskiptum svo sem tölvupósti, smáskilaboðum, spjallrásum og samfélagsmiðlum – og finnst jafnvel stuðandi að sjá punkt í lok málsgreina. Í þessari umræðu var samt lítið talað um það meginhlutverk greinarmerkja að vera hjálpartæki við lestur – þau koma í stað hikorða, þagna, tónfallsbreytinga, svipbrigða og annars sem notað er í töluðu máli. Í formlegu máli hafa svo vissulega skapast ýmsar venjur og reglur um notkun greinarmerkja sem ekki þjóna endilega alltaf því markmiði að auðvelda fólki lestur textans og stundum er greinarmerkjum þar ofaukið frá því sjónarmiði.

Hlutverk punkts í samfelldum texta er fyrst og fremst að láta lesandann vita að málsgreininni sé lokið og önnur taki við. Það er vissulega líka gert með því að láta nýja málsgrein hefjast á stórum staf en punkturinn er samt miklu öruggara tákn um málsgreinaskil því að stórir stafir eru ekki eingöngu hafðir í upphafi málsgreina heldur líka í sérnöfnum. Í umræðum um skort á punktum í lok málsgreina hjá ungu fólki kom fram að það gilti yfirleitt ekki ef um samfelldan texta væri að ræða þar sem önnur málsgrein kæmi á eftir – þar væri venjulega hafður punktur. Honum væri hins vegar sleppt í síðustu málsgrein textans og ef boðin væru aðeins ein málsgrein. En þegar að er gáð er það er svo sem ekki bara í stafrænum boðum sem punkti er sleppt.

Punktur eru t.d. aldrei hafður á titilsíðum bóka, á eftir kaflafyrirsögnum í bókum, á eftir fyrirsögnum í blöðum og víðar þar sem textinn afmarkar sig sjálfur ef svo má segja þannig að punktur er óþarfur. En talsvert fram á tuttugustu öld var alsiða að punktar væru hafðir á eftir ýmiss konar textabrotum í einangrun. Þannig voru t.d. punktar á titilsíðum bóka – á eftir höfundarnafni, titli og öðrum upplýsingum – og á eftir kaflafyrirsögnum. Í blöðum og tímaritum voru punktar á eftir heiti ritsins og á eftir fyrirsögnum. Það var misjafnt hvenær þessu var hætt en í sumum blöðum hélst það a.m.k. fram á fjórða áratug tuttugustu aldar. Við hugsum aldrei út í að þarna eru ekki punktar og finnst óeðlilegt ef við sjáum punkta á þessum stöðum.

Þetta er í raun og veru alveg eðlilegt og í fullu samræmi við það hlutverk punktsins að láta lesandann vita að málsgreininni sé lokið. Þegar ekkert kemur á eftir segir það sig nefnilega sjálft að málsgreinin er á enda – það þarf engan punkt til að sýna það. Því má segja að það sé eðlileg naumhyggja að sleppa punkti þar. Unga fólkið sem sleppir punkti í lok texta í stafrænum boðum er því bara að feta í fótspor þeirra sem tóku upp á því að sleppa punktinum við sambærilegar aðstæður í prentuðum textum fyrir hundrað árum. Það er engin ástæða til að amast við því þótt punktinum sé sleppt, en hins vegar er auðvitað æskilegt að ungt fólk sýni því skilning að þau sem eldri eru nota punktinn oft í samræmi við reglur formlegs máls án þess að ætla sér að stuða.

Ég erfði hann að láninu

Nýlega rakst ég á ábendingu um að sögnin erfa hefði verið notuð ranglega í þýðingu á barnaefni í sjónvarpinu. Sögnin er einkum notuð í samböndunum erfa eitthvað sem merkir 'fá e-n hlut eða eignir í arf' og erfa einhvern sem merkir 'fá arf eftir einhvern' en í dæminu sem vísað var til hafði hún verið notuð í merkingunni 'arfleiða', þ.e. 'láta einhvern fá (eitthvað í) arf'. Varað er sérstaklega við þessari notkun í Málfarsbankanum: „Athuga að rugla ekki saman sögnunum arfleiða og erfa. Rétt er að tala um að arfleiða einhvern að einhverju og erfa eitthvað.“ En vitanlega þætti ekki ástæða til að vara við þessari notkun nema hún hefði tíðkast eitthvað, og hægt er að finna allnokkur dæmi um hana þótt erfitt sé að leita að þeim á rafrænan hátt.

Elsta dæmi sem ég fann á tímarit.is er í Nýjum kvöldvökum 1927: „Vonandi hefir hann ekki erft mig að görmunum sínum.“ Í Morgunblaðinu 1953 segir: „Læknir nokkur, Hólm að nafni, myrti einn af sjúklingum sínum, sem hafði erft hann að mikilli fjárupphæð.“ Í Vísi 1957 segir: „Þau gætu lifað eins og furstar, aðeins af vöxtunum af öllum þeim auðæfum, sem Qrace myndi erfa hann að.“ Í „Móðurmálsþætti“ Vísis skömmu síðar spyr bréfritari „hvort ekki sé hér rangt farið með sögnina að erfa“ og umsjónarmaður þáttarins svarar: „Ég kannast ekki við þessa notkun sagnarinnar að erfa og tel hana ranga. Hún merkir að fá eitthvað í arf, en ekki láta arf af hendi […]. Í umræddri málsgrein mun blandað saman sögnunum erfa og arfleiða.“

Dæmum virðist svo fjölga undir lok aldarinnar. Í Tímanum 1990 segir: „Erfði hann félagið að öllum eigum sínum.“ Í Skagablaðinu 1991 segir: „Þar hafði blessunin hún Lína móðursystir Fríu erft hana að kofa sem hún kallaði sumarbústað.“ Í Helgarpóstinum 1994 segir: „Þegar hann erfir hana að öllum auðæfum sínum reyna hálfsystkini hennar að knésetja hana með öllum hugsanlegum ráðum.“ Í grein eftir Margréti Jónsdóttur í Íslensku máli 2003 eru tilfærð nokkur dæmi frá því kringum aldamótin. Nokkur dæmi eru í Risamálheildinni, m.a. „Misstu efnaðan nákominn ættingja sem líklegur er að erfa þig að nokkrum milljónum“ í Viðskiptablaðinu 2013. Í mbl.is 2024 segir: „Ég er að hugsa um að gera erfðaskrá og erfa hann að láninu.“

Það kann að virðast sérkennilegt að nota sömu sögnina bæði um að fá arf og ánafna arfi en hliðstæð dæmi eru þó til í málinu eins og Margrét Jónsdóttir bendir á í áðurnefndri grein. Í setningu eins og ég leigði íbúð á Njálsgötunni getur leigði merkt bæði 'var með á leigu' og 'leigði út'. Í setningu eins og ég lánaði peninga merkir lánaði venjulega 'veitti lán' en er líka stundum haft í merkingunni 'fékk að láni' en það eru trúlega dönsk áhrif. Notkun erfa í merkingunni 'arfleiða' verður hins vegar varla rakin til erlendra áhrifa því að bæði í dönsku og ensku eru mismunandi sagnir hafðar um að 'fá í arf' og 'arfleiða'. Einnig má nefna að sögnin versla merkti áður oft 'selja', síðar 'kaupa og selja' en hefur nú oft merkinguna 'kaupa'.

Í grein Margrétar er bent á að þegar sögnin erfa er höfð í þessari merkingu fylgir henni ýmist forsetningin eða af enda er þeim forsetningum oft blandað saman. En erfa einhvern að / af einhverju getur aðeins merkt 'arfleiða', aldrei 'fá í arf', þannig að þótt erfa sé notuð í merkingunni 'arfleiða' er sú notkun alltaf aðgreind frá notkun hennar í merkingunni 'fá (í) arf'. Það er ekkert í gerð sagnarinnar erfa sem segir að hún merki frekar 'fá (í) arf' en 'arfleiða' og því er í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt hún sýni tilhneigingu til að hafa báðar merkingarnar, rétt eins og leigja. En þrátt fyrir að notkunin í merkingunni 'arfleiða' valdi sjaldnast misskilningi vegna mismunandi setningafræðilegs umhverfis er rétt að halda sig við hefðbundna merkingu.

Kirkjugarðar og grafreitir

Orðið garður hefur tvær meginmerkingar í íslensku – 'ræktað svæði (t.d. kringum hús) með runnum, blómum og trjám' og 'þykkur veggur hlaðinn úr steini' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Samsetningin kirkjugarður hefur einnig tvær merkingar sem svara til þessa. Orðið kemur fyrir í fornu máli og merkir þar annars vegar 'veggur utan um kirkju' og hins vegar 'afgirtur grafreitur kringum kirkju' segir í orðabók Fritzners. Fyrrnefnda merkingin var algeng áður fyrr – „Bænhús er sagt hjer hafi að fornu verið, og er hjer ein dálítil girðíng við bæinn, sem kallast kirkjugarður“ segir t.d. í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalín, og „undir kirkjugarðinum þar sem hann var nýhlaðinn“ segir í Þjóðsögum Jóns Árnasonar.

Í seinni tíð hefur orðið hins vegar nær alltaf síðarefndu merkinguna, og var yfirleitt notað bókstaflega, þ.e. um garð kringum kirkju. Fyrsti kirkjugarðurinn sem kirkja stóð ekki í var væntanlega kirkjugarðurinn við Suðurgötu í Reykjavík, Hólavallagarður, sem var tekinn í notkun 1838. Á tuttugustu öld var svo gerður fjöldi kirkjugarða í þorpum og bæjum án þess að kirkja stæði í görðunum, en til sveita eru kirkjugarðar yfirleitt ennþá kringum kirkjur. En vegna þess að hlutverk garðanna er óbreytt hefur orðið haldist þrátt fyrir að ekki sé alltaf hægt að skilja það bókstaflega núorðið. Nú er orðabókaskýring orðsins því ekki tengd kirkjum sérstaklega, heldur er 'grafreitur þar sem látnir eru jarðsettir' í Íslenskri orðabók.

Það er vitanlega ekkert óeðlilegt og fyrir því eru ótal fordæmi í málinu að eðli fyrirbæris breytist en heiti þess haldist þótt það sé ekki lengur „rökrétt“. Ég hef oft tekið dæmi af orðinu eldhús – í því felast bæði eldur og hús, en nú á tímum er sjaldnast eldað yfir opnum eldi, og eldhúsið er ekki sérstakt hús eins og eitt sinn var, heldur herbergi eða svæði í húsi. Samt finnst okkur engin ástæða til að skipta um orð og þetta truflar okkur ekkert. Það er hægt að líta á orðið kirkjugarður sem orð yfir grafreit án þess að tengja það við önnur orð og ég held að tengingin við kirkju sem hús trufli fólk ekki – valdi því ekki að fólki finnist óeðlilegt að tala um kirkjugarð þótt engin sé kirkjan. En kirkja er ekki bara hús, heldur líka trúarstofnun og þar kann að gegna öðru máli.

Vegna ákvæða laga um að skylt sé „að greftra lík í lögmætum kirkjugarði“ er fólk sem ekki játar kristna trú jarðsett í kirkjugörðum, og skiljanlegt að einhverjum finnist tenging þeirra við kristni óheppileg. Þetta kom fram í sjónvarpsviðtali við framkvæmdastjóra Kirkjugarða Reykjavíkur í gær þar sem hann benti á að garðarnir væru ekki aðeins fyrir kristið fólk og sagði: „Orðið er til dæmis bara eitt. Kirkjugarður. Á þetta að heita kirkjugarður? Á þetta að heita minningarreitur? Grafreitur?“ Hann benti einnig á „að kirkjugarðarnir séu sjálfseignarstofnun, sem sé ótengd trúarfélagi. Orðið kirkjugarður geti hins vegar gefið til kynna að þeir séu tengdir þjóðkirkjunni“. Út af þessu viðtali hefur orðið mikið fjaðrafok og sumt fólk farið fram úr sér.

Vitanlega er eðlilegt að fólki sé ekki sama um orð sem hefur verið í málinu í þúsund ár og er órjúfanlegur hluti af íslenskum orðaforða og íslenskri menningu. En framkvæmdastjórinn var ekki að leggja til að þessu orði væri hafnað þótt hann velti því fyrir sér hvort það væri heppilegt í ákveðnu samhengi, og það er ekkert óeðlilegt að skoða hvort stundum væri e.t.v. betra að nota eitthvert annað orð sem hefði engin tengsl við tiltekin trúarbrögð, hvorki sögulega né samtímalega. Mér finnst orðið grafreitur sem framkvæmdastjórinn nefndi koma vel til greina. Það er lipurt og lýsandi, tengist engum sérstökum trúarbrögðum og hefur lengi verið notað um heimagrafreiti sem eru í raun kirkjugarðar án kirkju – eins og margir kirkjugarðar nútímans.

Tilvikum af þessu tagi, þar sem gamalgróin orð verða óheppileg eða ónothæf að sumra mati vegna einhverra breytinga á þjóðfélagi eða viðhorfum, hefur farið fjölgandi á undanförnum árum, og mun halda áfram að fjölga – það er óhjákvæmilegur fylgifiskur aukinnar fjölbreytni í íbúasamsetningu og menningu, sem og aukinna réttinda og aukins sýnileika ýmissa jaðarsettra hópa. Þarna verða iðulega árekstrar milli ólíkra sjónarmiða – annars vegar þeirra sem vilja breyta orðum eða orðanotkun af tillitssemi við ákveðna hópa og hins vegar þeirra sem vilja halda í málhefðina og hafna því að breyta málinu vegna ofurviðkvæmni einhverra. Á þessu er engin einföld lausn en mikilvægt að aðilar ræði málin og reyni að skilja sjónarmið hvor annars.

Að hitta læknirinn

Alltaf öðru hverju sé ég amast við „rangri“ beygingu karlkynsorða sem enda á -ir í nefnifalli eintölu – orða eins og frystir, hellir, læknir o.s.frv. Í þessum orðum endar stofninn á -i-, frysti-, helli-, lækni-, en -r er ending nefnifalls og á því ekki að koma fram í öðrum beygingarmyndum. Þolfallið er því frysti, helli, lækni – og þágufallið líka því að hin venjulega þágufallsending –i getur ekki bæst við stofn sem endar á -i. Eignarfallið er svo frystis, hellis, læknis, en í fleirtölunni fellur -i alltaf brott úr stofninum vegna þess að allar beygingarendingar hefjast á sérhljóði og tvö áherslulaus sérhljóð geta ekki staðið saman. Við fáum því frystar, um frysta, frá frystum, til frysta – og samsvarandi fyrir hin orðin. Þannig beygðust orð af þessu tagi í fornu máli.

En á fimmtándu öld fór beyging þessara orða að breytast og myndir eins og hellir í þolfalli og hellirs í eignarfalli að koma upp, og þessu ferli lauk ekki fyrr en á sautjándu öld. Ástæðurnar fyrir því eru ýmsar hljóðbreytingar sem höfðu áhrif á beygingu sterkra karlkynsorða og ollu því að það var ekki lengur augljóst fyrir málnotendur að -r væri ending nefnfalls, heldur lá beinna við að álykta að það væri hluti stofnsins og ætti því að haldast í allri beygingunni – eins og í t.d. akur. Hreinn Benediktsson hefur rakið þessa þróun skilmerkilega í grein í Afmælisriti Jóns Helgasonar frá 1969 og hér er ekki vettvangur til að fara nánar út í það. Aðalatriðið er að breyting var fullkomlega eðlileg og rökrétt afleiðing af öðrum breytingum í málinu.

Í málfræði Jóns Magnússonar frá fyrri hluta átjándu aldar, Grammatica Islandica, er breytingin gengin í gegn. Þar segir (í þýðingu Jóns Axels Harðarsonar frá 1997): „Orð, sem enda á -er, halda sérhljóði lokasamstöfu nefnifalls í allri beygingunni, sem hér: herser, þf. herser, þgf. herser, ef. hersers; flt.nf. herserar, þf. hersera, þgf. herserum, ef. hersera.“ Síðan nefnir Jón hvernig orðin beygðust í fornmáli, en þessi beyging virðist hafa verið einhöfð á hans dögum – og væntanlega fram í lok nítjándu aldar eða byrjun þeirrar tuttugustu í ritmáli, og mun lengur í talmáli. En á seinni hluta nítjándu aldar var farið að amast við breyttu beygingunni – Halldór Kr. Friðriksson gefur aðeins fornmálsbeyginguna í Íslenzkri málmyndalýsingu frá 1861.

Jón Ólafsson segir í Litlu móðurmálsbókinni frá 1920: „Rangmælis-myndir eru: læknirs, læknirar o.s.frv.; sömuleiðis: hellirar (og) hellrar.“ Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru myndir með -r í eignarfalli eintölu og nefnifalli fleirtölu gefnar af flestum orðum af þessu tagi en merktar sem talmál. Valtýr Guðmundsson gefur fornmálsbeyginguna á læknir í Islandsk Grammatik frá 1922 en segir svo um sambærileg orð: „de alle […] ogsaa (i Talespr.) kan böjes som bjór […] idet -r betragtes som hörende til stammen.“ Jakob Jóh. Smári segir í Íslenzkri málfræði frá 1932: „Beygingin er þannig í fornmáli og í ritmáli nú (talmáls-myndir í svigum fyrir aftan)“ – og sýnir svo fornmálsbeyginguna en yngri beyginguna innan sviga.

Baráttan við yngri beyginguna hefur staðið í hálfa aðra öld. Í fyrstu útgáfu af Íslenzkri málfræði Björns Guðfinnssonar frá 1937 segir um læknir og sambærileg orð: „Slík orð eru oft ranglega beygð.“ Í Íslenzkri málfræði Halldórs Halldórssonar frá 1956 segir: „Fjölmargir beygja þessi orð eins og r-ið væri stofnlægt […]. Þótt finna megi gömul dæmi um þessa beygingu, er hún ekki talin rétt.“ Gísli Jónsson sagði þó í Morgunblaðinu 1991: „Þessi „læknira“-fleirtala hefur nú verið bannfærð og henni að mestu útrýmt, og ekki ætla ég að mæla með henni. Sum orð í þessum beygingaflokki eru þó þess eðlis, að slík fleirtala er myndarlegri og „áhrifameiri“ einhvern veginn.“ Gísli nefnir þar orð eins og drellirar í stað drellar og skelmirar í stað skelmar.

Ég hef áður sagt gamla sögu af því þegar ég hitti afa heitinn, sem var fæddur 1898, einhvern tíma á námsárum mínum. Hann vissi auðvitað að ég væri í íslenskunámi og fór að ræða við mig um málfar og býsnast yfir því hvað mál unglinga í Reykjavík væri orðið spillt – t.d. segðu þeir nú mér langar, mér vantar og annað eftir því. Ég spurði á móti hvort honum fyndist þá í lagi að tala um að hitta læknirinn. Hann varð hvumsa við, en sagðist ekki vita betur en það væri fullkomlega eðlilegt og rétt mál. Ég sagði honum þá að það mætti ekki á milli sjá hvor „villan“ þætti verri í setningunni mér langar að hitta læknirinn. Hann þagnaði um stund, en kvað svo upp úr með það að seinni villan væri miklu minni því að hún væri norðlenska en hin sunnlenska.

Hvorug „villan“ er reyndar landshlutabundin, en það er annað mál. En ég er sem sagt alinn upp við „nýju“ eða „röngu“ beyginguna á læknir og hliðstæðum orðum – afi og bræður hans notuðu hana, og ég held að foreldrar mínir hafi oftast gert það líka. Ég hélt samt lengi vel að ég hefði alltaf notað „réttu“ beyginguna en í dagbók sem ég hélt um tíma þegar ég var þrettán ára fann ég setningarnar „Setti hraðamælir á hjólið“ og „Gerði við hraðamælirinn“. Þar fór það. En vegna þessa hlýnar mér alltaf um hjartaræturnar þegar ég heyri „röngu“ beyginguna en fæ sting í hjartað þegar ég sé amast við henni. Þessi beyging á sér fimm hundruð ára sögu og var nær einhöfð í tvær eða þrjár aldir. Það er fráleitt að fordæma hana og tala um hana sem „rangt mál.“

Stríðandi fylkingar, berjandisk og bölvandisk

Nafnorðið stríð er mjög algengt í málinu í merkingunni 'viðureign vopnaðra hermanna, ofast á vegum yfirvalda og í langan tíma' eins og það er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók – einnig í ýmsum yfirfærðum merkingum eins og kalt stríð, stríð gegn fíkniefnum o.s.frv. Samsvarandi sögn, stríða, er líka til en hefur langoftast merkinguna 'gera grín að (e-m), beita (e-n) meinlausum hrekkjum' eða þá 'eiga í baráttu (við e-ð)' eða 'brjóta gegn' – eiga við vandamál að stríða, stríða gegn alþjóðalögum o.s.frv. Sjaldan er sögnin notuð í merkingunni 'heyja stríð' þótt einstöku dæmi finnist um það – „Svíar sneru sér á meðan í austurátt og stríddu við Rússa og Pólverja, eins og þeir raunar höfðu verið iðnir við aldirnar á undan“ segir í Tímanum 1983.

Aftur á móti er lýsingarháttur nútíðar af þessari sögn, stríðandi, mjög algengur í stöðu lýsingarorðs og er sérstök fletta í Íslenskri nútímamálsorðabók, skýrður 'sem á í baráttu, heyr baráttu við e-ð' með dæmunum stríðandi fylkingar og stríðandi öfl – önnur algeng nafnorð í þessu sambandi eru t.d. aðilar, þjóðir, glæpagengi og ættbálkar. Langalgengasta sambandið er stríðandi fylkingar – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1943. Tíðni sambandsins margfaldast eftir 1980 en alls er á þriðja þúsund dæma á tímarit.is og hátt í þrjú þúsund í Risamálheildinni. Stundum væri vissulega hægt að tala um heri í staðinn fyrir stríðandi fylkingar en oftast er ekki um að ræða formlega heri á vegum ríkja, heldur hvers kyns baráttuhópa af öðru tagi.

Í Morgunblaðinu 1983 segir: „En strax á nýjársdag bárust fréttir af hörðum bardögum stríðandi fylkinga í hafnarborginni Tripoli í norðurhluta landsins.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Stríðandi fylkingar í Sómalíu hafa rænt hjálpargögnum að undanförnu.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Írski lýðveldisherinn gerði í gær að engu vonir um að takast mætti að koma á vopnahléi á ný milli stríðandi fylkinga á N-Írlandi.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Lögin eru talin mikilvæg til að koma á sættum milli stríðandi fylkinga í Írak.“ Í DV 2008 segir: „Stríðandi fylkingar innan Sjálfstæðisflokksins hafa verið áberandi undanfarna mánuði.“ Í Morgunblaðinu 2015 segir: „Ríkisútvarpið er nú, rétt einn ganginn, í skotlínu stríðandi fylkinga á Alþingi.“

Sé notuð sögn til að lýsa samskiptum þeirra hópa sem um er að ræða væri eðlilegast að nota miðmynd sagnarinnar berja og segja fylkingar berjast – eins og áður segir kæmi vart til greina að nota sögnina stríða og segja fylkingar stríða. En þegar þarf að nota lýsingarorð um athafnir fylkinganna er ekki hægt að nota lýsingarhátt nútíðar af berja og segja *berjandi fylkingar vegna þess að germyndin berja merkir dálítið annað en miðmyndin berjast. Þá vandast málið, því að lýsingarháttur nútíðar í miðmynd – sem ætti að vera berjandist þar eð miðmyndarendingin –st kemur alltaf aftast – er varla til í eðlilegu nútímamáli og t.d. ekki gefinn í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þess vegna er útilokað að segja *berjandist fylkingar.

Lýsingarháttur nútíðar í miðmynd var hins vegar til í fornu máli en endaði þá á -sk í stað -st berjandisk. Þeirri mynd bregður stundum fyrir í nútímamáli en þá ævinlega í spaugi eða hálfkæringi að því er virðist. Í bréfi frá Matthíasi Jochumssyni í Ísafold 1915 segir: „nema skáldið sé eins og örkin gamla, byltandisk og berjandisk í brimróti veraldarflóðsins.“ Halldór Laxness notaði sambandið berjandisk og bölvandisk nokkrum sinnum, m.a. í Sjálfstæðu fólki: „nóg var að hafa hrútinn Séra Guðmund og bróður hans á krónni hinumegin við flórinn, berjandisk og bölvandisk alla nóttina.“ Í grein eftir Guðmund Andra Thorsson í Fréttablaðinu 2016 segir: „þar sem fullir karlmenn fara um í flokkum, berjandisk og bölvandisk.“

Örfá dæmi má þó finna um berjandist. Í sálmi í Sálmabók Guðbrands biskups frá 1589 segir: „Lausn, blessun og brúðguminn, / berjandist fyrir söfnuð sinn.“ Í Morgunblaðinu 1971 segir: „Goethe 10 árum eldri, lifandi og alinn upp við allsnægtir, en Schiller af fátækum foreldrum og berjandist allt lífið við basl og veikindi.“ Í Kjarnanum 2016 segir: „Hvers mega þeir útgerðarmenn þá gjalda sem lögðu allt traust sitt á æðstu ráðamenn þjóðarinnar, innan þings eða berjandist bljúgir við þá í bönkum?“ En þetta hljómar undarlega og þess vegna er lýsingarháttur nútíðar af stríða notaður í staðinn. Sambandið stríðandi fylkingar og ýmis önnur hliðstæð sambönd eru löngu orðin föst í málinu og ekkert við þau að athuga.

Ólympíuleikarnir í Ríkisútvarpinu

Ég veit ekki hvort eða hve mikið þið horfðuð á útsendingar frá Ólympíuleikunum í París – ég veit svo sem að mörgum þótti nóg um og vildu fá sínar fréttir á réttum tíma. En mér finnst ástæða til að hrósa Ríkisútvarpinu sérstaklega fyrir þessar útsendingar – ekki vegna þess að íþróttir séu viðfangsefni þessa hóps, heldur vegna þess að það er mikilsvert að fá lýsingar og umfjöllun um fjölbreyttar íþróttagreinar á íslensku. Ég er enginn sérstakur íþróttaáhugamaður en horfði þó löngum stundum – ekki síst vegna lýsinganna. Bæði starfsfólk Rúv og sérfræðingar sem voru kallaðir til stóðu sig einstaklega vel í því að miðla því sem var að gerast til áhorfenda og útskýra það af áhuga, þekkingu og gleði – yfirleitt á kjarngóðri og skýrri íslensku.

Vitanlega slæddust erlend orð með stöku sinnum, stundum að óþörfu – en það er óhjákvæmilegt í hita augnabliksins, ekki síst þegar verið er að lýsa greinum sem sumar hverjar eiga sér litla hefð hér. En ég heyrði líka fjölda íslenskra orða sem ég þekkti ekki fyrir og sýna að fólk í ýmsum íþróttagreinum er duglegt við að smíða nýyrði um greinar sínar. Það er gífurlega mikilvægt og skiptir raunar öllu máli fyrir íslenskuna að sýna fram á að unnt er að nota hana við allar aðstæður og um öll svið mannlífsins. Það eina sem skyggði á útsendingar Ríkisútvarpsins frá Ólympíuleikunum var auglýsing sem iðulega fór á undan þeim og var að hluta á ensku eins og ég hef nefnt hér áður. Það er óboðlegt og gerist vonandi ekki aftur.

Íslenskukennsla í ruglinu?

Í þeirri miklu umræðu sem hefur verið um skólamál undanfarna daga hefur ákveðin þátíðarþrá komið fram hjá sumum – sú hugmynd að íslenskir skólar og kennsla hafi verið betri í einhverri óskilgreindri þátíð. Vegna þess að umræðan hefur ekki síst snúist um lesskilning og orðaforða er íslenskukennsla oft nefnd í þessu samhengi, og það er svo sem ekki ný bóla. Ég hef lesið ótalmörg innlegg og athugasemdir í Málvöndunarþættinum og fleiri hópum á Facebook þar sem því er haldið fram að íslenskukennslu í skólum hafi hrakað stórlega og hún jafnvel verið lögð niður með öllu. Allt eru þetta sleggjudómar eða fordómar sem virðast oftastnær byggja á því að verið sé að kenna eitthvað annað, eða á annan hátt, en þegar höfundar voru í skóla.

Ég tek fram að ég þekki íslenskukennslu í grunn- og framhaldsskólum ekki af eigin raun, nema sem nemandi fyrir 50-60 árum. En ég ætla rétt að vona að kennsla og námsefni hafi breyst síðan þá. Ekki vegna þess að kennslan sem ég fékk hafi endilega verið vond á þeim tíma (hún var auðvitað misjöfn eins og gengur), heldur vegna þess að nú er verið að búa börn og unglinga undir líf og starf í þjóðfélagi sem á fátt sameiginlegt með því þjóðfélagi sem ég kom út í sem nýstúdent 1975. Fólk sem kemur út úr framhaldsskólum þarf að takast á við allt annan veruleika en við fyrir hálfri öld, þarf að geta skilið, talað um og skrifað um ótal hluti sem voru óþekktir þá. Til þess þarf annars konar þekkingu og færni – og annars konar kennslu og námsefni.

Annað sem er mikilvægt að hafa í huga er sá mikli munur sem var gerður á nemendum áður fyrr. Lengi vel tíðkaðist í stærri skólum að skipta nemendum í bekki eftir getu þar sem „tossabekkir“ voru lítils metnir, og í menntaskóla fór aðeins lítill hluti hvers árgangs. Sá hópur sem verið er að kenna í framhaldsskólum er þess vegna allt öðruvísi samsettur en fyrir hálfri öld og í raun alls ósambærilegur. Fólkið sem kvartar yfir hnignandi íslenskukennslu er flest komið yfir miðjan aldur og líklegt er að margt af því hafi verið í litla forréttindahópnum sem var í góðu bekkjunum í barnaskóla og fór svo í menntaskóla. Þetta er fólkið sem tileinkaði sér það sem kennt var, oft sem hinn heilaga sannleik (ég veit þetta því að ég er í þessum hópi).

Þess vegna blæs ég á órökstuddar fullyrðingar um að íslenskukennslu hafi hrakað enda liggja engar rannsóknir liggja að baki slíkum fullyrðingum. Íslenskukennsla er auðvitað misjöfn eins og önnur kennsla en umræddar fullyrðingar lýsa fyrst og fremst þátíðarþrá og skilningsleysi á því hvernig þjóðfélagið og nemendahópurinn hefur breyst. Þar fyrir utan – og það er reyndar aðalatriðið – ræðst framtíð íslenskunnar ekki af því hvort íslenskukennsla er mikil eða lítil, vond eða góð. Skólarnir geta styrkt þann grunn sem hefur verið lagður á heimilum en þeir geta ekki lagt grunninn og eiga ekki að gera það. Framtíð íslenskunnar ræðst af því hvort við viljum halda í hana, ekki síst með því að tala við börnin og veita þeim traust máluppeldi á heimilunum.

Héri, héra og hérun

Nafnorðið héri er gamalt í málinu, kemur fyrir þegar í fornu máli, og hefur lengi haft tvær merkingar – annars vegar 'nagdýr með löng eyru sem líkist kanínu' og hins vegar 'feiminn og huglaus maður' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í seinni tíð hefur orðið fengið þriðju merkinguna í íþróttamáli – „Fyrir þá sem ekki vita er sá kallaður héri sem hleypur á undan keppendum í langhlaupi en tekur sjálfur ekki þátt í baráttunni um verðlaunasætin“ segir í grein eftir Heiðu Maríu Sigurðardóttur á Vísindavefnum. Í dönsku er orðið hare notað í þessari merkingu þannig að líklegt er að þetta sé komið þaðan, og sambandið hlaupa eins og héri er gamalt í málinu og væntanlega einnig komið úr dönsku enda hafa hérar aldrei verið á Íslandi.

Ég stóð í þeirri meiningu að notkun orðsins héri í sambandi við keppnishlaup væri frekar nýleg en svo reyndist ekki vera. Í Íþróttablaðinu Sport 1949 segir: „þótti einhver bezti „héri“ í Svíþjóð.“ Í Allt um íþróttir 1953 segir: „sé héri látinn hlaupa með honum fyrstu 1000 metrana getur hvað sem er komið fyrir.“ Í Vísi 1954 segir: „Finnskur hlaupari […] tók að sér að vera „héri“ fyrir Landy.“ Í Þjóðviljanum 1954 segir: „Chris Chataway, sem kallaður hefur verið „bezti héri heims“.“ Í Morgunblaðinu 1960 segir: „„Héri“ er táknheiti manns er gætir þess að byrjunarhraði í hlaupi sé nægur til mikils afreks.“ Í fjórum af þessum dæmum er héri innan gæsalappa sem bendir til þess að þessi notkun orðsins hafi verið nýleg um miðja 20. öld.

Af þessari merkingu nafnorðsins héri hefur svo verið leidd sögnin héra. Hún virðist vera nýleg og sárafá ritmálsdæmi um hana enn sem komið er. Í Morgunblaðinu 2020 segir: „Ég lagði því til að hann myndi enda tímabilið með því að toppa í Ármannshlaupinu og ég myndi héra hann allt hlaupið. Þegar við tölum um að héra í hlaupum er það í rauninni þannig að ég sá um að halda réttum hraða og taka vindinn.“ Á hlaup.is 2020 segir: „Margir af bestu hlaupurum heimsins aðstoða Eliud við þessa tilraun með því að héra hann (í hópum) 3 km í senn.“ Það er því ljóst að sögnin er áhrifssögn og héra einhvern merkir 'vera héri fyrir einhvern'. Hugsanlega er líka talað um að héra hlaupið en ég hef ekki fundið dæmi um það.

Í dag var vakin athygli á því hér að Sigurbjörn Árni Arngrímsson hefði notað orðið hérun í lýsingu á hlaupi. Það er þó ekki í fyrsta skipti sem orðið er notað – „Þakka […] fyrir geggjaða hérun“ segir t.d. í færslu á Instagram 2019. Þetta orð er fullkomlega gagnsætt fyrir þau sem þekkja sögnina héra – viðskeytið -un er eitt virkasta viðskeyti málsins og merkir í upphafi jafnan 'það að gera' það sem felst í sögninni sem -un-orðið er leitt af (þótt merkingin geti breyst með tímanum). Það þarf reyndar ekki endilega að þekkja sögnina til að átta sig á merkingu orðsins hérun – þau sem þekkja nafnorðið héri tengja orðin væntanlega saman. Sögnin héra og nafnorðið hérun eru eðlileg og sjálfsögð afkvæmi orðsins héri og rétt að taka þeim fagnandi.