Í fyrirsögn á mbl.is í fyrradag stóð „Fjaran þakin klökum“ og í fréttinni sjálfri var haft eftir landverði: „Þetta eru fleiri klakar en ég hef séð á ströndinni.“ Þessi frétt var gerð að umtalsefni í Málvöndunarþættinum og tvenns konar athugasemdir hafðar uppi um orðalagið – annars vegar að klaki væri ekki rétta orðið þarna heldur ætti að tala um jakabrot eða eitthvað slíkt, og hins vegar að klaki væri ekki til í fleirtölu. Vissulega er klaki í merkingunni 'frosið vatn í umhverfinu, ís' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók aðeins notað í eintölu, í setningum eins og „Sumarið var kalt og fór aldrei klaki úr jörðu það sumar“ í Ganglera 1870 en öðru máli gegnir þegar orðið er haft í merkingunni 'klakastykki' sem hefur tíðkast lengi.
Í vísu eftir Stephan G. Stephansson frá lokum 19. aldar segir: „Klakar þrengja vaðið.“ Í Morgunblaðinu 1960 segir: „þó eru fannir í öllum giljum og brekkum, og sums staðar klakar á sléttlendi.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1974 segir: „Snjórinn rann af jörðinni og klakar tóku að flysja sig frá sverðinum.“ Í Mjölni 1976 segir: „Komið hafa í ljós undan mjöllinni miklir klakar, allt að 40-50 cm þykkir.“ Í Morgunblaðinu 1982 segir: „Stórir klakar, spýtnarusl og ýmislegt annað lauslegt lá úti um öll tún.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „Nú er kominn brúsandi sunnanþeyr með hláku og klakar sem óðast að bráðna.“ Í Morgunblaðinu 2006 segir: „Það var flóð með miklum jakaburði, þetta voru 90 sentímetra þykkir klakar sem sátu eftir á bakkanum.“
Í staðinn fyrir klakar mætti í öllum þessum dæmum nota orðið klakastykki, eða þá klakabrot eða jakabrot – mér sýnist þó að síðastnefnda orðið sé frekar notað um stærri stykki. Undanfarna áratugi hefur orðið klaki auk þess verið notað í merkingunni 'ísmolar (t.d. í drykk)' og þá er það oft í fleirtölu. Þetta hefur tíðkast í a.m.k. 40 ár – „Ég get varla meint að slík skemmtun yrði rekin með tapi þegar klakar í glasi sem fyllt er upp með gosi kostar 25 krónur“ segir í DV 1983. Þar fyrir utan hefur orðið verið notað í merkingunni 'frostpinni' í hálfa öld: „Emmess-ís – toppar – klakar – pinnaís“ segir í Eyjablaðinu 1975. Það má vel vera að þessar merkingar hafi ýtt undir notkun orðsins í fleirtölu í merkingunni 'klakastykki' en hún er þó miklu eldri.
Á undan útsendingum frá Ólympíuleikunum er oft sýnd auglýsing frá Toyota sem væntanlega styrkir útsendingarnar. Þar er íþróttafólki okkar óskað góðs gengis en endað á ensku setningunni „Start your impossible“ sem er bæði lesin og birtist með stóru letri á skjánum en er ekki þýdd á íslensku, hvorki í tali né texta. Ég sé ekki betur en þetta brjóti í bága við þriðju málsgrein sjöttu greinar Laga um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu: „Auglýsingar sem höfða eiga til íslenskra neytenda skulu vera á íslensku.“ Þessari auglýsingu er augljóslega beint til íslenskra neytenda en vissulega má halda því fram að vegna þess að það séu engar upplýsingar til neytenda í umræddri setningu skipti engu máli að hún sé ekki þýdd.
Þess vegna veit ég að ýmsum mun finnast þetta ástæðulaust nöldur um smáatriði sem engu máli skiptir – og ég skil það sjónarmið svo sem. En þetta er prinsipmál sem snýst fyrst og fremst um það hvor við sættum okkur við að erlend stórfyrirtæki ákveði það fyrir okkur að þau megi valta yfir íslensk lög og íslenska tungu – ég hef séð það haft eftir forstjóra Toyota-umboðsins að hann geti ekkert gert því að auglýsingin komi frá höfuðstöðvum Toyota og sé birt svona um allan heim. Mér finnst að íslensk fyrirtæki og Ríkisútvarpið eigi ekki að lúffa fyrir einhverjum slíkum skilyrðum – það eigi einfaldlega að hafna þeim, jafnvel þótt það kosti það að auglýsingin verði ekki notuð á Íslandi og Ríkisútvarpið missi hugsanlega af styrktarsamningi.
Í framhaldi af fimm ára gömlum pistli sem ég endurbirti hér í gær, og viðbrögðum við honum bæði nú og fyrir fimm árum, vil ég taka fram að tilgangurinn með pistlinum var eingöngu að vekja athygli á því að ungt fólk, þar á meðal fjölmiðlafólk, er alið upp í þjóðfélagi sem er á flestum sviðum gerólíkt því sem sem var á máltökuskeiði okkar sem erum komin yfir miðjan aldur. Þess vegna er engin furða, og ekkert óeðlilegt við það, þótt unga fólkið skripli stundum á skötu í orðalagi sem tengist lífsháttum og atvinnuháttum sem það hefur engin kynni haft af – og það er ekki heldur nein furða, og ekki ámælisvert, að unga fólkið noti ýmis tilbrigði í máli sem hafa tíðkast áratugum saman og það hefur tileinkað sér á máltökuskeiði.
En tilgangur pistilsins var alls ekki að afsaka óvönduð vinnubrögð fjölmiðla eins og einhver töldu. Síður en svo – við eigum kröfu á að fólk sem hefur það að atvinnu að skrifa texta vandi sig. Annað er óvirðing og ókurteisi við lesendur. Því miður sjást alltof oft í fjölmiðlum afbrigði í stafsetningu og máli sem ekki er hægt að kalla annað en hroðvirkni og slóðaskap og eiga sér engar málsbætur. Ég veit að fjölmiðlafólk vinnur oft undir tímapressu en það er engin afsökun vegna þess á undanförnum árum hefur orðið gerbreyting í rafrænum aðgangi að hvers kyns hugbúnaði og hjálpargögnum sem auðvelda fólki að skila frá sér skammlausum texta og eru mjög fljótleg og þægileg í notkun – en greinilega er oft misbrestur á að þetta sé nýtt.
Þar má einkum nefna tvennt: Annars vegar er Málið frá Stofnun Árna Magnússonar (https://malid.is/) þar sem er ókeypis aðgangur að Íslenskri nútímamálsorðabók, Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, Íslenskri stafsetningarorðabók, Íslensku orðaneti, Málfarsbankanum, Íðorðabankanum, Íslenskri orðsifjabók, Ritmálssafni, ISLEX-orðabókinni milli íslensku og Norðurlandamála, o.fl. Hins vegar er Málstaður frá Miðeind (https://malstadur.mideind.is/) þar sem m.a. er boðið upp á málrýni, þ.e. yfirlestur á stafsetningu og málfari (Málfríður), talgreiningu (Hreimur) og spurningasvörun (Svarkur). Aðgangur er ókeypis, en einnig er hægt að kaupa áskrift og fá þá aðgang að meiri þjónustu.
Mér finnst ástæða til að hvetja fjölmiðlafólk – og auðvitað öll sem vinna með tungumálið – til að nýta sér þessi hjálpartæki. En jafnframt finnst mér sjálfsagt að hvetja almenna málnotendur til að benda fjölmiðlafólki á það sem betur mætti fara – að því tilskildu að slíkum ábendingum sé komið á framfæri við þau sem hlut eiga að máli, í stað þess að birta þær í opnum hópum á netinu til að hneykslast og í leiðinni upphefja sig sjálf en niðurlægja höfund textans. Ég hef oft skrifað fjölmiðlafólki og bent á einhver atriði sem mætti laga og undantekningarlaust hefur verið brugðist vel við – ég hef fengið þakkir og viðkomandi atriði verið breytt umsvifalaust. Ég hef þá trú að fólk vilji yfirleitt vanda sig og betra sé að liðsinna því við það en skammast.
Ég rakst á setninguna „Bergþór Másson hlaðvarpsstjórnandi hefur heitbundið sig til að borða ekkert nema kjöt, smjör og egg í hálft ár“ á Vísi í gær. Ég hélt fyrst að þarna væri verið að rugla saman sögnunum heitbinda og skuldbinda vegna þess að lýsingarorðið heitbundinn þekkti ég aðeins í merkingunni 'trúlofaður' eins og það er skýrt bæði í Íslenskri nútímamálsorðabók og Íslenskri orðabók. Samsvarandi sögn kemur reyndar aðallega fram í miðmyndinni heitbindast sem er skýrð 'trúlofast' í Íslenskri orðabók en germyndin kemur líka fyrir í sömu merkingu – „Í vor tók hann þá ákvörðun að heitbinda sig ágætri stúlku“ segir í Munin 1958, „Ungur skipstjóri tekur upp á því að heitbinda sig ungri stúlku“ segir í Þjóðviljanum 1964.
En germyndin heitbinda hefur reyndar víðari merkingu – hún er skýrð 'binda heiti um, lofa' í Íslenskri orðabók. Við athugun kom í ljós að sambandið heitbinda sig til er gamalt í málinu í nákvæmlega sömu merkingu og það hefur í umræddri frétt. Í Sameiningunni 1886 segir: „stúdentarnir þyrptust fram til þess að heitbinda sig til að vinna fyrir Krist.“ Í Fróða 1885 segir: „ekki gæti jeg gengið í flokkinn, ef jeg þyrfti að heitbinda mig til að halda fram öllu því sem þar er nefnt.“ Í Sameiningunni 1897 segir: „Séra Jón Helgason skýrir frá því […] að nokkrir prestar hefði heitbundið sig til þess að veita honum ofanígjöf.“ Í Aldamótum 1897 segir: „þeir menn […] hafa […] að sjálfsögðu heitbundið sig til að reynast henni hollir og trúir.“
Flest dæmin um heitbinda sig til á tímarit.is eru frá síðustu áratugum nítjándu aldar. Eitt dæmi er frá miðri tuttugustu öld – í Stjörnunni 1952 segir: „Hann mundi árið 1953 heitbinda sig til að verða munkur og ganga í klaustur.“ Í Risamálheildinni er dæmi úr Vísi 2014: „Agi þýðir að segja satt, að heitbinda sig til einhvers, að mæta fyrir sig og aðra í það sem við höfum heitbundið okkur til að gera.“ Í öllum undanfarandi dæmum myndi ég nota sambandið skuldbinda sig sem er skýrt ‚lofa, heita e-u fastlega‘ í Íslenskri orðabók. En „ruglingurinn“ sem ég þóttist sjá í umræddri frétt Vísis reyndist sem sé enginn ruglingur, heldur eiga sér skýr, gömul fordæmi. Þetta er góð áminning um að hrapa ekki að ályktunum og fara sér hægt í hneykslun.
Fyrir fimm árum bar frídag verslunarfólks líka upp á mánudaginn fimmta ágúst. Í fréttum Sjónvarpsins það kvöld var sagt frá upphafi kartöfluupptöku en orðalag fréttarinnar hugnaðist ekki öllum – „Traktorinn TEYMIR kartöfluupptökuvélina segir fréttabarnið á RÚV“ sagði í hneykslunarinnleggi í Málvöndunarþættinum. Það er vissulega rétt að venjulega væri sögnin draga notuð þarna frekar en teyma en svipuð dæmi eru þó til – „Sér er nú hver vinnan sem þú framkvæmir, – dregur plóg eða teymir vagn“ segir t.d. í Þjóðviljanum 1947. Vitanlega er teyma dregið af taumur en sögnin er samt mjög oft notuð í afleiddri merkingu þar sem enginn taumur er til staðar. Það er talað um að teyma hjól, teyma fólk út í eitthvað o.s.frv.
Mér blöskruðu þessi viðbrögð – einkum hvernig talað var niður til ungs fólks með orðinu fréttabörn. Þess vegna skrifaði ég pistil til varnar ungu fréttafólki og birti hann í Málvöndunarþættinum daginn eftir, 6. ágúst 2019. Upp úr því fór ég að skrifa pistla um mál, málfræði og málfar og birti þá í Málvöndunarþættinum fyrsta árið – alls um 120 pistla. Þar kom þó að mér ofbauð andinn í umræðunni í Málvöndunarþættinum og ákvað eftir ár að stofna minn eigin hóp í staðinn til að efla jákvæða umræðu. Hópurinn Málspjall var stofnaður 7. ágúst 2020 og á því fjögurra ára afmæli á morgun. Í tilefni af þessum tveimur afmælum, í dag og á morgun, endurbirti ég hér fyrsta pistilinn frá 6. ágúst 2019 – mér finnst hann hafa elst ágætlega.
Ég sé oft á Fésbók, m.a. í þessum hópi [þ.e. Málvöndunarþættinum], að fólk furðar sig eða hneykslast á orðfæri eða orðfátækt ungra blaðamanna. Það er alveg skiljanlegt – ég stend mig iðulega að því sjálfur að hrista hausinn yfir einhverju sem ég sé eða heyri í fréttum og brýtur í bága við það málfar og orðfæri sem ég þekki og ólst upp við. En ég er kominn á sjötugsaldur - alinn upp í sveit fyrir u.þ.b. hálfri öld. Það umhverfi sem blaðamenn (og annað fólk) á þrítugsaldri hafa alist upp í er gerólíkt – á nánast öllum sviðum. Samfélagið hefur gerbreyst, tæknin hefur gerbreyst, tengsl við útlönd hafa margfaldast - allt umhverfi okkar hefur breyst meira en við áttum okkur kannski á í fljótu bragði.
Og breytt þjóðfélag þýðir líka breytt málumhverfi og því fylgir breytt orðfæri – það þarf að tala um ótalmörg ný hugtök, fyrirbæri og svið þjóðlífsins, en ýmis hugtök, fyrirbæri og svið sem flestir þekktu fyrir nokkrum áratugum eru nú á fárra vörum eða jafnvel aðeins minning. Þess vegna er ekki við því að búast að fólk á þrítugsaldri hafi vald á öllu sama orðfæri og við sem munum tímana tvenna. Það hefur einfaldlega ekki fengið tækifæri til að tileinka sér það orðfæri sem tíðkaðist á ýmsum sviðum. En á móti kann þetta unga fólk að tala um allt mögulegt sem við höfum ekki hundsvit á.
Þetta þýðir ekki að við eigum bara að yppta öxlum og láta það afskiptalaust ef brugðið er út af málhefð, þótt rétt sé að hafa í huga að stundum er til önnur hefð en sú sem við þekkjum – hefðir geta verið mismunandi eftir landshlutum, og til getur verið eldri eða yngri hefð en sú sem við höfum vanist. Það er sjálfsagt að leitast við að halda í það orðfæri sem hefð er fyrir, og benda á ef út af bregður. En það er heppilegra að gera það í formi fræðslu og ábendinga en furðu og hneykslunar, þar sem jafnvel er gert lítið úr þeim sem verður eitthvað á að mati umvandara. Slíkt er ekki vænlegt til árangurs.
Í gær sá ég á Facebook spurt um orðið drúldinn sem fyrirspyrjandi hafði rekist á í bók en kannaðist ekki við og taldi líklegast að væri villa fyrir drýldinn sem er vel þekkt orð. Svo er þó ekki – þótt orðið drúldinn sé ekki gefið í Íslenskri nútímamálsorðabók er það að finna í Íslenskri orðabók í merkingunni 'þungbúinn' eða 'þverúðlegur' og í Íslenskri orðsifjabók er orðið skýrt 'þungbúinn (um fólk og veður)'. Orðið kemur mjög sjaldan fyrir í nútímamáli eins og fram kemur í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2021 þar sem segir: „Yngsta dæmið um drúldinn í Ritmálssafni er búið að vera á ellilífeyri í mörg ár.“ Það er alveg rétt – aðeins sex dæmi eru um orðið í Ritmálssafni Árnastofnunar, þau yngstu frá því um og fyrir miðja tuttugustu öld.
Þess má geta að í nokkrum dæmum um drúldinn á tímarit.is, sem eru alls innan við tuttugu, kemur orðið fyrir í frásögnum af Eiríki Ólafssyni eða Ólsen sem var uppi kringum aldamótin 1800 og þótti sérkennilegur. Eftir honum er haft, fyrst í Ísafold 1891 en nokkrum sinnum síðan: „en þú ert útinn og tútinn, úldinn og drúldinn, eins og andskotinn uppmálaður á Harmoníu.“ En einnig kemur orðið fyrir í Vísi 1962: „fram að því hafði hún setið drúldin í sæti sínu.“ Í Alþýðublaðinu 1964 segir: „þótt vegfarendur væru dálítið drúldnir á svipinn af því að þeir höfðu ekki fengið neina sól í sumar.“ Í Morgunblaðinu 1992 segir: „Mesta upplifunin þennan dag fannst mér vera að hitta menn sem voru bæði drýldnir og drúldnir í senn.“
Í Íslenzkum rjettritunarreglum frá 1859 segir Halldór Kr. Friðriksson að stundum sé: „ýmist […] haft ú eða ý í sama orðinu, t.a.m.: drúldinn og drýldinn“, og vissulega eru báðar myndirnar leiddar af kvenkynsorðinu drúld sem merkir 'fýlusvipur' og kemur einnig fyrir í karlkynsmyndinni drúldur og veiku kvenkynsmyndinni drúlda sem eru allar sárasjaldgæfar. Um drúld er aðeins dæmi í Paradísarheimt Halldórs Laxness: „Hann gekk að kistlinum fyrstur manna í hópnum og fór að skoða þetta, þó með drúld.“ Um drúlda eru dæmi í Konungurinn á Kálfsskinni eftir Guðmund G. Hagalín frá 1945, „Jósef ók sér og setti á sig drúldu“, og í Morgunblaðinu 1961: „Þegar allir hlógu að bröndurum Krúsjeffs. sat Chou eins og drúlda“.
En þótt uppruni drúldinn og drýldinn sé sá sami er hæpið að hægt sé að líta á þetta sem sama orð í nútímamáli. Merking orðsins drúldinn sem er frá 17. öld er í fullu samræmi við merkinguna í drúld en í drýldinn sem er frá 19. öld hefur merkingin hnikast nokkuð til og er 'góður með sig, sjálfhælinn, montinn' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók. En það er ljóst að drúldinn hefur lengi verið sjaldgæft orð. Það má m.a. marka af því að Úrvali 1945 er það haft með í dálknum „Hver er orðaforði þinn?“ þar sem er „listi yfir fágæt orð ásamt þrem skýringum með hverju orði og er aðeins ein þeirra rétt“. Möguleikarnir sem gefnir eru við drúldinn eru rakur, úrillur og falskur og annars staðar í ritinu kemur fram að úrillur sé rétt.
Sögnin drúlda sem er flettiorð í Íslenskri orðabók í merkingunni 'vinna e-ð með semingi og gremju' er augljóslega skyld þessum orðum – hún kemur fyrir í Arnbjörgu eftir Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, frá seinni hluta 18. aldar: „en stundum drúlda yfir einhverri vinnu.“ Af henni er leitt lýsingarorðið drúldaður sem kemur fyrir í lýsingu Ástu Sigurðardóttur rithöfundar á Snæfellsjökli í bókinni Ísland í máli og myndum frá 1960: „hann er mistraður, hólaður, gloraður og drúldaður – og allt vissi þetta á illt.“ Lýsingarorðin drúldinn og drúldaður, nafnorðin drúld og drúlda og sögnin drúlda eru allt orð sem vel mætti endurvekja og nota, þótt merking þeirra sé reyndar þess eðlis að vonandi þurfi sem sjaldnast á þeim að halda.
Í fróðlegum pistli Jóhannesar B. Sigtryggssonar á vef Árnastofnunar sem deilt var hér nýlega er fjallað um ýmis fornmálsorð sem ekki tíðkast lengur í íslensku. Frétt mbl.is um þennan pistil var deilt hér í morgun og í framhaldi af því skapaðist umræða um nafnorðið illtyngd sem er eitt þeirra orða sem nefnd eru í pistlinum. Þetta orð sem merkir ‘baktal, illmælgi’ kemur aðeins einu sinni fyrir í fornum textum, í Grágás þar sem það er reyndar í fleirtölu, illtyngdir. Engin dæmi eru um orðið í síðari alda máli og það er ekki að finna í neinum orðabókum. Orðið er myndað með viðskeytinu -d og i-hljóðvarpi af tunga, á sama hátt og þyngd af þungur. Ekki finnast önnur dæmi um möguleg afleidd orð með -d af tunga, svo sem *tvítyngd eða *fjöltyngd.
Í umræðum var nefnt orðið illtyngi sem kemur fyrir í Ormsbók og er flettiorð í Index linguæ veteris scytho-scandicæ sive gothicæ eftir Oulaus Verelius frá 1691, en þekkist ekki í yngra máli eða orðabókum. Nokkur orð mynduð á sama hátt eru notuð í nútímamáli – eintyngi, fjöltyngi, margtyngi og tvítyngi. Einnig er sögnin illtyngja í merkingunni 'rægja' í Ritmálssafni Árnastofnunar með dæmum úr viðbótum Björns Halldórssonar við orðabók sína frá seinni hluta 18. aldar – „Svo er hann lastsamur hann illtyngir hvern mann“ og „Skömm er að illtyngja fróman mann um óráðvendni“. Orðið er einnig í Ordabók, sem inniheldr flest fágiæt, framandi og vandskilinn ord, er verda fyrir í dønskum bókum eftir Gunnlaug Oddsen frá 1819.
Í umræðum um illtyngd var einnig spurt hvort orðið gæti ekki líka verið lýsingarorð, sem væri þá illtyngdur í karlkyni. Það orð kemur ekki fyrir í fornmáli og ekki heldur í textum frá seinni öldum eða orðabókum um síðari alda mál. Í nútímamáli koma þó fyrir nokkur lýsingarorð mynduð á þennan hátt – eintyngdur, fjöltyngdur, fleirtyngdur, margtyngdur, tvítyngdur og þrítyngdur – og illtyngdur hefur verið til því að það er nefnt í Íslenzkum rjettritunarreglum eftir Halldór Kr. Friðriksson frá 1859 þar sem verið er að mæla fyrir um ritun orða með gnd og ngd – „tyngdur, í illtyngdur, tvítyngdur, af tunga“. Það er um að gera að endurvekja nafnorðið illtyngd og ættingja þess – nafnorðið illtyngi, sögnina illtyngja og lýsingarorðið illtyngdur.
Ég nefndi í gær að samböndin frjálsar íþróttir og franskar kartöflur hefðu þróast á svipaðan hátt, að því leyti að í þeim báðum hefði lýsingarorðið verið notað um tíma án nafnorðsins, frjálsar og franskar, en síðan verið gert að nafnorði og farið að bæta við sig greini. Þróun síðarnefnda sambandsins á sér þó bæði lengri sögu og er talsvert flóknari. Notkun franskar í merkingunni 'franskar kartöflur' er meira en hálfrar aldar gömul – í Alþýðublaðinu 1971 segir: „En Eþíópíubúar, sem komið hafa til Evrópu eru famir að kunna að meta „fisk og franskar“.“ Elstu dæmi um orðið með greini, sem eru ótvíræð nafnorðsdæmi, eru á samfélagsmiðlum, t.d. „Ef það er skipt oftar þá kemur ekki þessi góða stökka skorpa á franskarnar“ á Hugi.is 2001.
Þágufall með greini af kvenkynsorðinu franskar er frönskunum og það fer að sjást um svipað leyti – „ég gat borðað hálfan hamborgara ekkert af frönskunum mínum“ segir á Hugi.is 2002. En þá flækist málið því að frönskunum gæti líka verið þágufall af myndinni frönskurnar sem er talsvert eldri en franskarnar og sést fyrst í Degi 1986: „Það eru hamborgararnir og frönskurnar.“ En sá mikilvægi munur er á frönskurnar og franskarnar að í fyrrnefnda orðinu er hægt að flokka myndir án greinis sem ótvíræðar nafnorðsmyndir því að greinislausa myndin frönskur sem fyrst sést á Bland.is 2004 – „ætla fá hamborgara með mikilli sósu, frönskur, stóran skammt já“ – fellur ekki saman við lýsingarorðsmyndina franskar.
Í frönskur(nar) er notuð fleirtöluendingin -ur sem aðeins getur verið nafnorðsending í stað -ar í franskar(nar) sem getur verið hvort heldur er ending nafnorðs eða lýsingarorðs. Hugsanlega er þessi ending notuð til að merkja orðið sérstaklega sem nafnorð og greina það frá lýsingarorðinu – -ur er líka ending veikra kvenkynsorða og þar með langalgengasta fleirtöluendingin. En -ur-endingunni fylgir sjálfkrafa u-hljóðvarp í stofni, þ.e. fransk-ar > fransk-ur > frönskur. Þegar myndin frönskur er orðin til liggur beint við að mynda af henni eintölu sem eðlilegast væri að yrði franska í nefnifalli eins og oftast er í veikum kvenkynsorðum sem hafa ö í stofni í fleirtölu, eins og kökur – kaka, tölur – tala o.s.frv.
En myndin franska félli saman við heiti tungumálsins og e.t.v. er einhver andstaða við það í huga málnotenda – a.m.k. hef ég ekki fundið nein ótvíræð dæmi um þessa eintölumynd af frönskur. Vissulega kemur líka til greina að halda ö-inu í nefnifalli eintölu, eins og í tölvur – tölva (sem hefur reyndar mikla tilhneigingu til að verða talva) og einhver dæmi eru um nefnifallið frönska – á Twitter 2016 fylgir textinn „stór frönska“ með viðeigandi mynd, og á Twitter 2017 segir: „Fann drasl á milli brjóstanna, hélt það væri frönska.“ Hins vegar eru nokkur dæmi um aukaföllin frönsku – „já úff , maður fær eina frönsku með kjúllanum“ segir t.d. á Bland.is 2006. Sú mynd getur verið hvort heldur er af nefnifallinu franska eða frönska.
Bæði franskar(nar) og frönskur(nar) eru algeng orð á seinustu árum – á tímarit.is eru 26 dæmi um franskarnar en 93 um frönskurnar og 11 um frönskur. Í Risamálheildinni eru hlutföllin öfug – þar eru 844 dæmi um franskarnar en 287 um frönskurnar og 52 um frönskur. Um þágufallsmyndina frönskunum sem gæti verið af hvoru orðinu sem er eru 76 dæmi á tímarit.is en 355 í Risamálheildinni. Nokkur dæmi eru um franskanna í eignarfalli fleirtölu með greini, t.d. „þeir reyna að gera fæðuna fjölbreyttari með einhverri nýrri kaloríubombu sem á að koma í stað franskanna“ á Hugi.is 2008. Þetta er eðlileg mynd af nefnifallinu franska en af nefnifallinu frönska ætti eignarfall fleirtölu að vera frönskanna en ég finn engin dæmi um það.
Svo er það myndin fröllur en um hana og beygingarmyndir af henni eru 27 dæmi á tímarit.is en 769 í Risamálheildinni – elsta dæmið er í DV 2000: „Því er einnig að finna lista yfir þá sem sneru hamborgara og steiktu fröllur.“ Orðið er þó e.t.v. að verða úrelt – í viðtali við ungling í Morgunblaðinu 2018 segir: „Það segir t.d. enginn lengur fröllur [franskar kartöflur] nema foreldrar.“ Fyrri hlutinn frö- er auðskiljanlegur en því hefur verið stungið að mér að l-ið sé komið úr kartöflur og þarna sé því um einhvers konar sambræðslu að ræða. En hver sem skýringin er sýna myndirnar franskar(nar), frönskur(nar) og fröllur(nar) hversu lifandi og frjó íslenskan er og hversu hugkvæmir málnotendur eru við nýsmíði orða. Það er frábært.
Í fréttum og lýsingum frá Ólympíuleikunum heyrist og sést orðið frjálsar býsna oft – „fimleikar og frjálsar í fararbroddi“ stóð í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í dag, „Á að breyta reglum í frjálsum?“ stóð í annarri fyrirsögn fyrr í vikunni. Þetta er auðvitað stytting úr frjálsar íþróttir en það samband hefur tíðkast lengi í málinu – elsta dæmi um það á tímarit.is er frá 1916 en samsetningin frjálsíþróttir sést fyrst 1938. Það er ekkert einsdæmi að samband lýsingarorðs og nafnorðs sé stytt á þennan hátt – „kostar tré af þeirri stærð einn bláan, þ.e. eitt þúsund krónur“ segir t.d. í Degi 1988; „Skyldi hann fá sér tvo sterka um morguninn fyrir messu“ segir í Nýjum vikutíðinum 1963. Þetta er ekki síst algengt ef sambandið er einhvers konar heiti.
En stundum er myndin frjálsarnar notuð – „Eitrað lúkk hjá okkar manni þegar frjálsarnar duttu í gang!“ skrifaði Edda Sif Pálsdóttir á X í gær og hlekkjaði á færslu Sigurbjörns Árna Arngrímssonar. Þessi orðmynd getur ekki verið beygingarmynd af lýsingarorðinu frjáls heldur er þarna búið að bæta greini við myndina frjálsar og gera hana þannig að nafnorði. Þetta er ekki alveg nýtt – elsta dæmi um það á tímarit.is er „Það passaði vel fyrir mig að eiga barn á þessum tíma og fá smáhvíld frá frjálsunum“ í DV 2001. Dæmi frá því upp úr aldamótum er að finna á samfélagsmiðlum – „farðu í sturtu það styttist frjálsarnar“ segir á Hugi.is 2003; „Svo byrja frjálsarnar líka næstu helgi“ segir á Bland.is 2004.
Vegna þess að myndin frjálsar er oft notuð án meðfylgjandi nafnorðs í merkingunni 'frjálsar íþróttir' er ekkert undarlegt að farið sé að meðhöndla hana sem nafnorð, enda gæti hún formsins vegna verið fleirtala af kvenkynsnafnorði. En út frá myndunum frjálsar í nefnifalli og þolfalli og frjálsum í þágufalli er ekki hægt að sjá hvort um lýsingarorð eða nafnorð er að ræða og þess vegna er óhjákvæmilegt að halda sig við hefðbundna málnotkun í greiningu og greina þær myndir sem lýsingarorð. Öðru máli gegnir um eignarfallið – það er frjálsra af lýsingarorðinu en ætti að vera frjálsa af nafnorði því að -ra getur ekki verið eignarfallsending nafnorðs. En eignarfallið er sjaldgæft og ég hef ekki fundið dæmi um myndina frjálsa án greinis.
En eignarfall með greini var notað í „ákveðinn hápunktur frjálsanna“ á RÚV í dag og á Twitter 2015 – „Tala nú ekki um það – alfræðiorðabók frjálsanna!“ Myndir með greini sýna vitanlega að orðið er notað sem nafnorð. Um ótvíræðu nafnorðsmyndirnar frjálsarnar og frjálsunum eru 16 dæmi á tímarit.is og 26 í Risamálheildinni og þessi notkun virðist færast í vöxt en er einkum bundin við óformlegt málsnið – enn sem komið er að minnsta kosti. Þetta er ekki heldur neitt einsdæmi – til dæmis eru nafnorðin franskar(nar) og frönskur(nar) mynduð á svipaðan hátt af styttingunni franskar í merkingunni 'franskar kartöflur'. Mér finnst svona orðmyndun skemmtileg og sé ekkert athugavert við hana og því enga ástæðu til að amast neitt við henni.
Orðið þvílíkur er greint sem fornafn í Ritmálssafni Árnastofnunar og sem óákveðið fornafn í Íslenskri nútímamálsorðabók en í ýmsum orðabókum er það greint sem lýsingarorð og einnig í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, enda hefur það veika beygingu. En hún virðist ekki vera gömul – elstu dæmi sem ég finn um hana eru frá árinu 2000. Í Munin það ár segir „Þvílíka ruglið“, í Eyjafréttum segir „En stíflan brast með þessu þvílíka marki hjá Inga“ og í Morgunblaðinu segir „Þetta er búið að vera þvílíka rennireiðin“. „Fjöldi dæma er um veiku beyginguna á samfélagsmiðlum frá næstu árum eftir aldamótin en í öðrum textum fara dæmi ekki að sjást að ráði fyrr en 2007 og hefur farið ört fjölgandi, einkum á síðustu tíu árum.
Veika beygingin kemur fram við sömu aðstæður og veik beyging lýsingarorða, þ.e. í ákveðnum nafnliðum. Það sem gerir nafnliði ákveðna er einkum ákveðinn greinir á nafnorði, lausi greinirinn hinn og ábendingarfornöfnin sá og þessi. Dæmi með ákveðnum greini og þessi má sjá hér að framan en einnig má finna dæmi með lausa greininum, svo sem – „Hinn þvílíki undirbúningur sem sést hér á sér fáa líka“ í DV 2009. Það er því ljóst að orðið þvílíkur er farið að haga sér eins og lýsingarorð að flestu leyti – stigbreytist reyndar ekki en fyrir því eru merkingarlegar ástæður eins og hjá ýmsum lýsingarorðum. Ég legg því til að þvílíkur verði framvegis greint sem lýsingarorð – eins og farið er að gera með ýmis sem áður var talið fornafn.
Í gær var hér vitnað í setninguna „Það var tryllt í gær, þvílíka stemningin í höllinni“ í viðtali á mbl.is fyrr á þessu ári. Hliðstæð dæmi eru mjög algeng. Í Fréttablaðinu 2007 segir: „Þetta var þvílíka stuðið.“ Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Á meðan við lékum okkur galdraði frænka fram þvílíka veisluborðið.“ Í Morgunblaðinu 2015 segir: „þvílíka þolinmæðin sem þú sýndir barnabörnunum þínum.“ Í Morgunblaðinu 2016 segir: „Hér er dottin á þvílíka blíðan með logn og sól.“ Í Fréttatímanum 2017 segir: „Þau eru rosalega dugleg að bjóða okkur í mat og það eru nú þvílíku veislurnar.“ Í Morgunblaðinu 2018 segir: „Þvílíka partíið sem hefur verið á Króknum aðfaranótt sunnudags.“ Í Eyjafréttum 2023 segir: „Þvílíka batteríið í kringum þetta.“
Til skamms tíma hefði þvílíkur verið haft þarna í sterkri beygingu og nafnorðið án greinis – þvílík stemning í höllinni – og spurningin er hvers vegna þetta breytist. Í umræðum var bent á líkindi við sambönd eins og ljóta ruglið / ástandið o.s.frv. og meiri vitleysan / hörmungin o.s.frv. þar sem líka er notuð veik beyging lýsingarorðs og ákveðinn greinir á nafnorði án sýnilegrar ástæðu – við þetta mætti bæta sambandinu góða kvöldið sem stundum er amast við. Svo má líka spyrja hvort þvílík stemning og þvílíka stemningin merki alveg það sama. Mér finnst stundum að þvílíka stemningin sé eða geti verið sterkara en þvílík stemning en svo getur líka verið að þetta sé bara breyting á formi án merkingarlegrar ástæðu eða áhrifa.