Að varsla skotvopn

Í gær vitnuðu bæði mbl.is og Vísir í tilkynningu á vef Lögreglunnar í gær þar sem segir: „Sömuleiðis eru nokkur brögð að því að í fórum manna finnist gömul skotvopn sem í flestum tilfellum reynast hafa komið „frá afa“ en eru ekki skráð á þann sem varslar þau. Afar mikilvægt er að skotvopnaleyfishafar séu meðvitaðir um að óheimilt er að varsla skotvopn án tilskilinna leyfa.“ Þarna er sögnin varsla notuð tvisvar og í  hópnum Skemmtileg íslensk orð var spurt hvort fólk kannaðist við hana. Sögnina er hvorki að finna í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en eitt dæmi um lýsingarháttinn varslaður er í Ritmálssafni Árnastofnunar: „Umhyggjusamlega var hann varslaður þessi blettur“ segir í Andvara 1962.

Í þessu dæmi er verið að tala um afgirtan blett og varslaður merkir greinilega 'varinn' en sú merking kemur ekki fram í öðrum dæmum. Næstelsta dæmi sem ég finn um orðið er úr ræðu á Alþingi 1987: „Ef menn fara yfir þann lista um alla þá sjóði sem varslaðir hafa verið í Seðlabankanum.“ Hér merkir varslaðir augljóslega 'varðveittir' og sama máli gegnir um öll yngri dæmi að því er virðist. Í Austra 1997 segir: „verður leitað tilboða frá til þess bærum aðilum, að varsla þessa peninga og ráðstafa þeim.“ Í Morgunblaðinu 1998 segir: „Átekin myndbönd skulu vörsluð í læstri hirslu og geymd í 30 daga.“ Í Morgunblaðinu 2003 segir: „menn sem séð hafi um að taka á móti fíkniefnunum, varsla þau og koma þeim í verð.“

Undanfarin tuttugu ár hefur sögnin varsla verið nokkuð notuð, einkum í dómum og lagafrumvörpum þar sem talað er um að varsla fíkniefni, varsla barnaklám, varsla skotvopn o.fl. En sögnin er einnig nokkuð notuð í fréttum fjölmiðla af dóms- og lögreglumálum, sem og fjármálafréttum – talað er um að varsla fé, varsla lífeyrissparnað, varsla skuldabréf o.fl. Í öllum tilvikum er verið að tala um varðveislu og því má spyrja hvort einhver þörf sé á sérstakri sögn – hvort ekki mætti einfaldlega nota sögnina varðveita. En varsla merkir ekki alveg það sama – í henni felst að varðveislan sé tímabundin og oftast í einhverjum sérstökum tilgangi öðrum en bara varðveita það sem um er að ræða. Þetta er gagnsæ og lipur sögn sem sjálfsagt er að nota.

1138

Í yfirliti á heimasíðu minni um þá pistla sem ég hef skrifað hér má sjá að þessi er sá 1138. í röðinni. Það er í sjálfu sér ekkert merkileg tala en þó takmark sem ég hef lengi stefnt að. Þetta er nefnilega sama tala og fjöldi þáttanna um „Íslenskt mál“ sem Gísli heitinn Jónsson skrifaði í Morgunblaðið á árunum 1979-2001. Pistlum mínum svipar um margt til þátta Gísla – hann skrifaði fróðleiksmola um ótal málfarsatriði og svaraði fyrirspurnum lesenda. Ég hef margoft fjallað um sömu eða svipuð atriði og Gísli og vitna oftar í hann en nokkurn annan, enda veit ég ekki til að meira liggi eftir nokkurn á prenti um daglegt mál og málnotkun – Árni Bövarsson fjallaði mjög mikið um þetta en þættir hans um daglegt mál eru ekki aðgengilegir á prenti.

Gísli kenndi mér íslensku á öðrum vetri mínum í Menntaskólanum á Akureyri fyrir rúmri hálfri öld, 1972-1973. Hann fór yfir Íslenzka málfræði handa æðri skólum eftir Halldór Halldórsson þar sem fjallað er um hljóðfræði og beygingafræði fornmálsins. Mörgum fannst þetta óheyrilega leiðinlegt og strembið en ég hafði býsna gaman af því enda löngum verið nörd. Einnig fór hann yfir Gylfaginningu og gerði það á mjög málfræðilegan hátt – rakti orðsifjar þannig að ég varð á tímabili mikill áhugamaður um orðsifjafræði. Ég á einhvers staðar í skúffu glósur mínar úr tímum Gísla og man jafnvel einstök atriði úr því sem hann sagði, svo sem að orðin spjald og fjöl séu skyld (þótt ég geti ekki rakið smáatriðin í skýringu á þeim skyldleika).

Þegar ég var að endurskrifa pistla sem ég hafði birt á Facebook til birtingar í bók minni Alls konar íslenska fór ég yfir alla þætti Gísla og fann þá margt sem ég gat bætt inn í umfjöllun mína. Gísli var vitanlega málvöndunarmaður af gamla skólanum og ég er oft á öndverðum meiði við hann, en í ýmsum tilvikum vék hann líka frá einstrengingslegum hugmyndum um eitt rétt afbrigði. Þegar hann var að skrifa sína þætti var aðgangur að heimildum mjög takmarkaður miðað við það sem nú er – engin rafræn gagnasöfn komin til og hann á Akureyri fjarri söfnum Orðabókar Háskólans, og blöð og tímarit eingöngu á prentuðu formi en ekki leitarbær í gullkistunni tímarit.is. Þess vegna er aðdáanlegt hversu fjölbreytt og ítarleg skrif hans voru.

Misupplýsingar, rangupplýsingar, meinupplýsingar

Í Málvöndunarþættinum sá ég að vakin var athygli á ókunnuglegum orðum í frétt á Vísi nýlega: „Í yfirlýsingu segir hann að ummælin séu byggð á misupplýsingum og að hún beri í raun mikla virðingu fyrir Harris. Rangupplýsinga um fjölskyldusögu Harris hefur gætt á samfélagsmiðlum vestanhafs.“ Þarna koma fyrir tvö nýleg íðorð sem ekki eru í almennum orðabókum en er hins vegar að finna í orðasafninu Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði í Íðorðabankanum. Skilgreining á misupplýsingar er 'rangar upplýsingar sem deilt er án ásetnings um að valda skaða', rangupplýsingar eru 'rangar upplýsingar sem deilt er til að valda skaða', og við bætast þriðja orðið, meinupplýsingar, sem eru 'réttar upplýsingar sem deilt er til að valda skaða'.

Þessi orð vísa til grundvallarhugtaka á sviði upplýsingaóreiðu (information disorder) og eru þýðingar á ensku orðunum misinformation, disinformation og malinformation. Forskeytið mis- hefur ýmsar merkingar en þarna er merkingin sambærileg við merkingu þess í misskilningur sem má orða sem 'rangur skilningur sem skapast án þess að blekkingum sé beitt'. Orðið rangupplýsingar á sér líka hliðstæðu í rangskilningur sem er mjög sjaldgæft en þó að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Í Íslenskri samheitaorðabók er það einnig gefið sem samheiti við misskilningur en rangur tengist þó miklu fremur ætlun en mis- eins og sjá má af samheitunum falsaður, falskur, loginn. Merkingin í mein- er svo augljós út frá nafnorðinu mein.

Upplýsingaóreiða og falsfréttir eru mjög til umræðu þessi misseri og nauðsynlegt að hafa íslensk orð yfir helstu hugtök á því sviði, og umrædd orð eru þegar komin í nokkra notkun. Vitanlega má deila um hversu vel heppnuð þau séu – það fer oft ekki sérlega vel að bæta einkvæðu forskeyti eða forlið framan við orð sem er með einkvætt forskeyti eða forlið fyrir. En það er varla völ á öðru grunnorði en upplýsingar þarna og val forliðanna er eðlilegt eins og hér hefur verið rakið. Svo er rétt að hafa í huga að ekki eiga öll íðorð erindi inn í almenna umræðu og eftir er að koma í ljós hversu víðtæk notkun orðanna misupplýsingar, rangupplýsingar og meinupplýsingar verður. En verði þau notuð eitthvað að ráði venjumst við þeim örugglega fljótt.

Skynsöm ákvörðun

Á fyrstu vikum þessa hóps fyrir fjórum árum var hér spurt hvort ætti að tala um skynsama ákvörðun eða skynsamlega ákvörðun. Ég svaraði því til að venjulega vísaði skynsamur til þess sem tæki ákvörðunina, ekki ákvörðunarinnar sjálfrar. Þetta er í samræmi við skýringu orðanna í Íslenskri nútímamálsorðabók – þar er skynsamur skýrt 'sem tekur rökréttar ákvarðanir, sem stjórnast af skynsemi' en skynsamlegur er skýrt 'sem ber vott um skynsemi'. Í dálknum Málið í Morgunblaðinu 2014 segir líka: „Nú orðið tökum við „skynsamar“ ákvarðanir dögum oftar. Hættum því. Að vera skynsamur getur aðeins gilt um manneskju; þann „sem tekur rökréttar ákvarðanir“. Skynsamlegur er rétta lýsingarorðið um þær ákvarðanir okkar sem vit þykir í.“

En við nánari athugun reynist þetta ekki vera svona einfalt. Það hefur nefnilega tíðkast lengi að nota skynsamur um annað en fólk – ákvarðanir, hugmyndir, lög, reglur, tillögur o.fl. Í Skírni 1829 segir: „greidir þannig veg betri og skynsamari sannfæríngu eptirleidis.“ Í Skírni 1831 segir: „hefir hann lofað að mæla fram með skynsamri umbreytíngu á parlamentinu.“ Í Skírni 1832 segir: „þjóðar-andinn hefir tekið frjálsari og skynsamari stefnu, enn híngaðtil“ og „hvörsu miklu hollara og skynsamara það reyndar er, að fylgja með og láta eptir tíðarandanum“. Í Fjölni 1835 segir: „egi þessar framkvæmdir að verða skynsamar og arðsamlegar.“ Í Ársriti presta í Þórsnesþingi 1846 segir: „þá snúast allir strax að því ráðinu, sem er betst og skynsamast.“

Þessi notkun orðsins skynsamur var því talsvert algeng þegar á fyrri hluta nítjándu aldar – en hún var ekki óumdeild frekar en nú og hefur e.t.v orðið fyrir barðinu á málhreinsun þegar leið á öldina. Í Suðra 1884 segir: „Þingin hér fylgja nefnilega þeirri skynsömu reglu.“ Í vísun í þessa grein í Þjóðólfi sama ár segir: „Fyrst fræðir hann oss á, að það sé skynsöm (á líkl. að vera: skynsamleg) regla.“ Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru bæði skynsamur og skynsamlegur þýdd með sama danska orðinu, fornuftig, og vitanlega er ekki ólíklegt að sú staðreynd að danska orðið dekkar merkingu beggja íslensku orðanna hafi stuðlað að notkun orðsins skynsamur í merkingu sem sumum fannst að eingöngu skynsamlegur ætti að hafa.

Hvað sem þessu líður er ljóst að skynsamur hefur alla tíð verið nokkuð notað í sömu merkingu og skynsamlegur og sú notkun er talsvert algeng í nútímamáli. Vissulega hefur því verið haldið fram að orð sem enda á -samur vísi oftast til fólks en orð sem enda á -samlegur til athafna, ákvarðana o.þ.h. Þessu til stuðnings var bent á að mótmæli gætu verið friðsöm en mótmælendur hins vegar friðsamlegir. Það eru samt gömul dæmi um friðsamur tími, friðsamt tímabil og fleira þess háttar, og ýmis orð sem endar á -samur eru bæði notuð um fólk og athafnir eða skoðanir, svo sem gamansamur, hávaðasamur, íhaldssamur o.fl. Það er tvö hundruð ára hefð fyrir því að nota skynsamur í þessari merkingu – það er rétt mál sem engin ástæða er til að amast við.

Ég get svarið fyrir það

Í innleggi hér fyrr í dag sagðist höfundur vera hissa á því að fólk segðist oft geta svarið fyrir eitthvað „þegar ljóst má vera af samhenginu að það er reiðubúið að leggja eið að því að eitthvað sé eins og segir“. Sambandið sverja fyrir er skýrt 'neita e-u með eiði' í Íslenskri orðabók og var áður – fyrir daga DNA-prófa – ekki síst notað í sambandinu sverja fyrir barn, þ.e. 'sverja að maður væri ekki faðir að barni'. En þótt sögnin sverja merki upphaflega ‚vinna eið‘ er hún í venjulegu máli oftast notuð í merkingunni 'fullyrða, vera alveg viss um, standa fast á' í samböndum eins og ég get (svo) svarið það – sú merking er reyndar talin „óformleg“ bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók.

Það sem átt er við í áðurnefndu innleggi eru væntanlega setningar eins og þessi í Fréttablaðinu 2004: „Ég er búin með einhverjar 50 blaðsíður í bókinni og get svarið fyrir það að ég skil það sem ég er að lesa.“ Upphaflega merkingin í sverja fyrir er 'neita' eins og áður segir en af samhenginu er ljóst að lesarinn skilur textann sem um er að ræða. Það má því segja að sambandið sé þarna notað í þveröfugri merkingu við orðabókarskýringuna, þ.e. í sömu merkingu og sverja. Það er ekki nýtt og ástæðuna má trúlega rekja til neitandi merkingar sverja fyrir. Í mörgum af eldri dæmum um sambandið er tvöföld neitun sem líklega ruglar málnotendur í ríminu, ef svo má segja, og veldur því að farið er að skilja sverja fyrir eins og sverja.

Í þýddri sögu í Hauki 1900 segir: „Hann […] fann loks í koffortinu hennar ýmsa muni, er hún gat svarið fyrir, að hún hefði aldrei áður sjeð.“ Ef svarið fyrir merkir hér 'neitað' inniheldur málsgreinin tvöfalda neitun (svarið fyrir og aldrei) og merkir 'er hún gat neitað að hún hefði aldrei áður séð'. Neitanirnar eyða áhrifum hvor annarrar og því verður merkingin í raun að hún játaði að hafa séð munina. Samhengið sýnir hins vegar að það á setningin ekki að merkja, og í annarri þýðingu sögunnar í Heimilisvininum 1910 segir: „Hann […] fann fjölda gripa í kistu hennar, er hún gat svarið fyrir að hafa nokkru sinni séð á ævi sinni.“ Þarna er engin neitun í aukasetningunni og ljóst að svarið fyrir er notað í merkingunni 'neita' – öfugt við fyrra dæmið.

Í Suðurlandi 1913 segir: „Ekki get eg svarið fyrir það, að hér sjáist ekki vatnsdropi.“ Í Vikunni 1942 segir: „En þau skjöl voru ekki hér, það get ég svarið fyrir.“ Í Þjóðviljanum 1943 segir: „Ég get svarið fyrir það, að aldrei hefur mér dottið til hugar að ég mundi fá konur handa sonum mínum á þennan hátt.“ Í Morgunblaðinu 1953 segir: „Ég get svarið fyrir það, að hann man ekki meira.“ Í Alþýðublaðinu 1953 segir: „Já, það get ég svarið fyrir, að þetta hefur engin gert fyrr.“ Í Þjóðviljanum 1954 segir: „Það hélt ég að ég gæti svarið fyrir að ég ætti ekki eftir að skrifa í Þjóðviljann.“ Í Fálkanum 1961 segir: „Hann gat svarið fyrir, að hún væri ekki frá Tübingen.“ Í öllum þessum dæmum er tvöföld neitun og sverja fyrir merkir sama og sverja.

En það eru líka gömul dæmi um að geta svarið fyrir merki sama og sverja án þess að nokkur neitun sé í málsgreininni. Í Syrpu 1915 segir: „Ég gætti að Stewart og hefði getað svarið fyrir að hann sagði sannleikann, eins og við hinir.“ Í Morgunblaðinu 1919 segir: „Þetta er verk þessarar djöfullegu Estellu, það get eg svarið fyrir, hrópaði Kathleen upp.“ Í Vikunni 1940 segir: „Þegar ég lagði mig fyrir eftir hádegið, var aðalleiðslan lokuð, það get ég svarið fyrir.“ Í Morgunblaðinu 1950 segir: „hún hefði getað svarið fyrir að hún sá snöggvast, á broti úr sekúndu, Rosönnu bregða fyrir.“ Í Morgunblaðinu 1951 segir: „Gætir þú ekki svarið fyrir að þetta er Norma?“ Í Vikunni 1959 segir: „Þeir settust á akurinn hjá mér, það get ég svarið fyrir.“

Sambandið geta svarið fyrir var því notað í tveimur mismunandi merkingum alla tuttugustu öldina, ýmist 'neita' eða 'fullyrða, sverja', en síðarnefnda – og yngri – merkingin hefur þó smám saman verið að sækja í sig veðrið og er nú greinlega aðalmerking sambandsins. Hún er notuð í langflestum dæmum í Risamálheildinni, þ. á m.  öllum dæmum af samfélagsmiðlum sem eru meginhluti dæmanna – þetta samband er greinilega mikið notað í óformlegu málsniði. Oftast er ljóst af samhengi og setningagerð um hvora merkinguna er að ræða – sú eldri tekur t.d. frekar með sér viðtengingarhátt eða nafnhátt en hin framsöguhátt. Stundum koma þó báðar merkingar til greina og það er vissulega óheppilegt en við því er lítið að gera.

Eru Danir karlkyns?

Þótt flest starfs- og hlutverksheiti sem enda á -maður séu að nafninu til kynhlutlaus, í þeim skilningi að þau á að vera hægt að nota um fólk af öllum kynjum, fer því fjarri að svo sé í raun í huga málnotenda. Sama gildir um íbúaheiti sem öll eru karlkyns í íslensku – þau hafa greinlega sterk tengsl við karlmenn í huga málnotenda. Til að sýna fram á þetta skoðaði ég í Risamálheildinni hvaða orðalag þar er haft um nafngreinda Dani. Ég leitaði að fimm samböndum – Daninn X, danski *maðurinn X, danska *konan X, hinn danski X og hin danska X. X stendur hér fyrir sérnafn, og * stendur fyrir hvaða fyrri hluta sem er – *maðurinn skilar þá t.d. þingmaðurinn, leikmaðurinn, listamaðurinn o.s.frv., og samsvarandi með *konan.

Alls voru 3.689 dæmi um Daninn X í Risamálheildinni og þar af vísuðu aðeins 32 til kvenna eða tæplega 0,9%. Vissulega er margfalt meira sagt frá körlum en konum í fjölmiðlum en þó er ekki trúlegt að munurinn sé svona mikill og líklegra að þetta stafi að einhverju leyti af því að karlkynsorðið Dani sé síður notað um konur. Svipað kemur út þegar danski *maðurinn X er skoðað. Sú leit skilaði 3.807 dæmum og þar af vísaði ekki nema 31 til kvenna eða rúmlega 0,8%. Hér gegnir sama máli – skýringin á þessum gífurlega mun hlýtur að einhverju leyti að vera sú að málnotendum finnist samsetningar með -maður síður eiga við um konur. Þess í stað eru oft notaðar samsetningar með -kona – leit að danska *konan X skilaði 620 dæmum.

Allt annað er uppi á teningnum þegar ekki eru notuð nafnorð í karlkyni heldur eingöngu lýsingarorð sem beygjast í kynjum. Alls fundust 713 dæmi um sambandið hinn danski X en 529 um hin danska X – hlutfall kvenkynsins er þar tæp 43% af heildinni. Þegar allt er talið saman – Daninn X, danski *maðurinn X, danska *konan X, hinn danski X og hin danska X – er hlutfall dæma sem vísa til kvenna tæp 13% af heildinni. Það má halda því fram að sú tala endurspegli karllægni í umfjöllun fjölmiðla. En tæplega 1% í vísun orðsins Dani og í vísun samsetninga með -maður til kvenna endurspeglar hins vegar karllægni orðanna sem um er að ræða – þá tilfinningu málnotenda að þrátt fyrir meint kynhlutleysi tengist þau fremur körlum en konum.

Mörgum finnst þessi kynjahalli væntanlega ekkert til að gera veður út af, og það er a.m.k. ljóst að á honum er engin einföld lausn. Vissulega eru til ýmsar samsetningar með -kona sem stundum eru notaðar í stað samsetninga með -maður í vísun til kvenna, en sú lausn er oft ekki sérlega heppileg, m.a. vegna þess að eftir sem áður vantar orð um kynsegin fólk. Það væri hugsanlegt að búa til kvenkyns íbúaheiti, *Dana, til að nota í vísun til kvenna, en það væri tæpast raunhæft af ýmsum ástæðum. Í þessu tilviki eins og ýmsum öðrum verðum við, um sinn a.m.k., að búa við málið eins og það er – en það er samt mikilvægt að átta sig á þeim duldu og oftast ómeðvituðu skilaboðum sem við sendum með málnotkun okkar í dæmum eins og þessu.

Að kynna þeim fyrir tónlist og ljóðum

Í gærkvöldi stóð fyrirsögnin „Kynna Svíum fyrir íslenskri tónlist“ um stund á forsíðu mbl.is. Innan klukkustundar hafði henni verið breytt í „Kynna Svíum íslenska tónlist“ eins og hún er nú, en í millitíðinni hafði hún verið gripin upp í Málvöndunarþættinum þar sem einn þátttakenda í umræðunni skrifaði: „Nú bíður maður spenntur eftir því að einhver komi hér inn og segi að þetta sé bara eðlilegt mál margra og engin ástæða til að amast við því.“ Ég hélt reyndar í upphafi að þetta væri tilviljanakennd villa en við nánari athugun fæ ég ekki betur séð en þetta sé einmitt „eðlilegt mál margra“ en fólk getur auðvitað „amast við því“ ef því sýnist svo. En þetta eru ekki einu tilbrigðin í fallnotkun með sögninni kynna eins og ég hef áður skrifað um.

Sögnin kynna tekur ýmist tvö andlög, það fyrra í þágufalli og það seinna í þolfalli eins og „Hún […] kynnti honum ungan, laglegan mann“ í Fálkanum 1946, eða þolfallsandlag og forsetningarlið með þágufalli eins og „Hann kynnti hana fyrir vini sínum“ í Tímanum 1946. Áður fyrr vísuðu þessir liðir ævinlega til fólks eins og skýringin í Íslenskri nútímamálsorðabók bendir til: 'láta (tvo eða fleiri) kynnast; segja til nafns (síns eða einhvers annars)'. Nú er hins vegar algengt að þolfallsliðurinn vísi til hugmynda eða hluta, t.d. „Guðbrandur kynnti honum hugmynd sína um róðrarvélina“ í Breiðfirðingi 1990 og „Ég kynnti tillöguna fyrir borgarstjóra viku síðar“ í Degi 1997. Þessi breyting virðist ekki vera ýkja gömul og er aldrei gagnrýnd.

Á hinn bóginn er oft amast við því að þágufallsliðurinn í sambandinu kynna X fyrir Y sé látinn vísa til hugmynda eða hluta, eins og „Elsti sonur Refskís kynnti hann fyrir verkum Byrons“ í Morgunblaðinu 1987 eða „kynnti hann fyrir óperu og ballett“ í Heimsmynd 1991. Andlag í þolfalli táknar mjög oft einhvers konar þolanda, þann sem verður fyrir einhverjum áhrifum af þeim verknaði sem sögnin lýsir. Í setningum eins og hún sendi þessa bók til mín eða hún keypti þessa bók má segja að andlagið þessa bók verði fyrir ákveðnum áhrifum – breyti um staðsetningu eða eiganda. Vissulega er þetta ekki algilt en þó svo algengt að ekki er ólíklegt að málnotendur hafi tilfinningu fyrir því að eðlilegt hlutverk þolfallsandlags sé að vera einhvers konar þolandi.

En í ég kynnti tillöguna fyrir borgarstjóra og Guðbrandur kynnti honum hugmynd sína verður þolfallsandlagið tillöguna / hugmynd ekki fyrir neinum áhrifum frá sögninni – áhrifin koma fram hjá þeim sem kynnist tillögunni / hugmyndinni, hvort sem sú persóna er tjáð í forsetningarlið eða sem andlag. Þess vegna má segja að ég kynnti borgarstjóra fyrir tillögunni sé í betra samræmi við venjuleg mynstur málsins. Við getum gert ráð fyrir að það hafi einhver áhrif á borgarstjóra eða afstöðu hans að komast í kynni við umrædda tillögu, og því er „eðlilegt“ að hann standi í þolfalli. Þessi breyting er því mjög skiljanleg. Aftur á móti hef ég ekki fundið dæmi eins og *Guðbrandur kynnti hann hugmynd sinni þar sem hlutverk andlaganna víxlast.

Þessi notkun sagnarinnar kynna er a.m.k. fjörutíu ára gömul og orðin mjög algeng. Notkun tveggja þágufalla með kynna eins og í dæminu sem vísað var til í upphafi er hins vegar yngri, síðan um aldamót að því er virðist. Á Bland.is 2001 segir: „eftir svona mánuð væri mér óhætt að kynna honum fyrir nýmjólkinni.“ Á Hugi.is 2001 segir: „Ljóð er eitthvað sem þeim var kennt í grunnskóla, þegar það var verið að kynna þeim fyrir þjóðskáldum íslendinga.“ Elsta dæmi sem ég fann um þetta á tímarit.is er í Morgunblaðinu 2001: „Jive þekkti Joönnu Ifrah hjá Sony Columbia og kynnti henni fyrir því efni sem hann og Hreimur höfðu samið.“ Þessi notkun er orðin talsvert útbreidd – dæmi í Risamálheildinni skipta hundruðum, flest af samfélagsmiðlum.

Það er athyglisvert að í þessari setningagerð er þágufallið á andlaginu notað „rétt“ miðað við málhefð og vísar til þeirra sem kynnast einhverju nýju. Frávikið felst í því að á eftir þágufallsandlaginu ætti að koma þolfallsandlag í stað forsetningarliðar – kynna honum nýmjólkina í stað fyrir nýmjólkinni, kynna þeim þjóðskáld Íslendinga í stað fyrir þjóðskáldum Íslendinga og kynna henni það efni í stað fyrir því efni. Forsetningaliðurinn vísar aftur á móti til þess sem kynnt er, eins og í setningagerðinni sem fjallað var um hér á undan (ég kynnti borgarstjóra fyrir tillögunni). Þarna virðast því blandast saman tvær setningagerðir. Ég ætla ekkert að mæla með því í sjálfu sér – bara benda á að þetta er ótvírætt orðin málvenja margra.

Við erum góð í lélegri ensku

Eins og iðulega hefur verið skrifað um á þessum vettvangi eru Íslendingar mjög oft fljótir til að skipta yfir í ensku þegar kemur í ljós að viðmælandinn talar ekki fullkomna íslensku. Fólk skortir þolinmæði til að bíða eftir að viðmælendur finni réttu orðin, réttu beygingarmyndirnar, eða réttu setningagerðina, en einnig skortir umburðarlyndi gagnvart „ófullkominni“ íslensku – erlendum hreim, frávikum í beygingu og setningagerð o.fl. Stundum telur fólk sig vissulega vera að gera viðmælendum greiða með því að skipta yfir í ensku, en einnig kunna að vera dæmi um að enskan sé notuð til að neita viðmælendum um fullan aðgang að íslensku samfélagi. En hver sem ástæðan er leiðir þetta háttalag til þess að fólk fær ekki tækifæri til að æfa sig í málinu.

Fyrir meira en tuttugu árum las ég viðtal við konu sem hafði í æsku átt heima í Afríkuríki – „í alþjóðlegu hverfi þar sem börn af mörgu þjóðerni […] léku sér saman. Samskiptamálið var léleg enska […].“ Konan bætti við: „Ég er nokkuð góð í lélegri ensku.“ Mér fannst þetta athyglisvert orðalag á sínum tíma en var fyrir löngu búinn að gleyma því. Undanfarið hefur það þó iðulega rifjast upp fyrir mér vegna þess að ég sé ekki betur en það stefni hraðbyri í að helsta samskiptamálið á Íslandi verði einmitt þetta tungumál – léleg enska. Við erum nefnilega flest nokkuð góð í henni. En það grátbroslega í þessu er að sú enska sem við skiptum yfir í er örugglega oft lélegri en íslenskan sem viðmælandinn var að reyna að tala við okkur.

En léleg enska er ekki móðurmál neinna. Léleg enska er það sem orðin segja – ófullkomið tungumál sem getur vissulega nýst til einfaldra samskipta á afmörkuðum sviðum en er fjarri því að búa yfir þeim fjölbreyttu möguleikum til tjáningar, samskipta, hugsunar og sköpunar sem móðurmál hafa – og þurfa að hafa. Með því að láta gott heita að samskipti við fólk sem hingað flytur fari fram á lélegri ensku erum við að skerða möguleika fólksins til fullrar þátttöku í samfélaginu og svipta það möguleikanum á að gera íslensku að sínu tungumáli og nýta hana til þeirra fjölbreyttu verkefna sem móðurmál þarf að sinna. Þess vegna verðum við að kenna innflytjendum íslensku – og gefa þeim færi á að nýta og auka íslenskukunnáttu sína.

Á einum fæti

Í gær var sett hér inn spurningin „Er ekki frekar algengt að fólk segist hoppa eða standa á einum fæti?“ Í umræðum kom fram að fyrirspyrjanda þætti þetta orðalag rangt og sama máli virtist gegna um mörg þeirra sem tóku þátt í umræðunum og töldu rétt að segja á öðrum fæti. Vissulega hefur síðarnefnda orðalagið lengi verið mun algengara – á tímarit.is eru fjórum til fimm sinnum fleiri dæmi um hoppa / standa á öðrum fæti en hoppa / standa á einum fæti. Munurinn virðist þó fara minnkandi því að í Risamálheildinni eru um 300 dæmi um öðrum fæti í þessum samböndum en um 160 dæmi um einum fæti. Í samfélagsmiðlahluta Risamálheildarinnar eru álíka mörg dæmi um bæði samböndin sem sýnir enn frekar að einum er í sókn í þeim.

En það er engin nýjung að nota einum í þessum samböndum. Í Ísafold 1892 segir: „Allt í einu setti hann annan fótinn þvert út í loptið […], en stóð á einum fæti upp á öxlum hinna, er efstir stóðu.“ Í Nýjum kristilegum smáritum 1894 segir: „Þeir stóðu nú flestir á einum fæti og lituðust um.“ Í Verði ljós 1896 segir: „En þegar Tomrni stóð og hímdi fyrir utan opinn búðargluggann, hálfnötrandi af kulda og standandi altaf á víxl á einum fæti.“ Í Íslandi 1897 segir: „En hún hoppar ekki á einum fæti.“ Í Hauki 1899 segir: „þar eru menn, sem hoppa að eins á einum fæti, en eru samt sem áður eins hraðfara, eins og vindurinn.“ Í Framsókn 1901 segir: „Þóra stóð á einum fæti, eins og hún var vön að gera þegar hún gladdist ákaflega.“

Það er því ljóst að gömul og rík málvenja er fyrir því að tala um að hoppa og standa á einum fæti. Auðvitað getur fólk haft þá skoðun að betur fari á að segja á öðrum fæti en þótt samböndin séu oft og jafnvel oftast notuð í sömu merkingu er ég ekki viss um að þau séu alltaf nákvæmlega jafngild. Þegar sagt er á einum fæti finnst mér áherslan oft vera á því afreki að nota bara einn fót en ekki tvo, eins og í „komst loks á einum fæti heim til kerlu sinnar aptur“ í Ísafold 1889. En hvað sem þessu líður er þetta skýrt dæmi um tvær málvenjur sem lengi hafa tíðkast hlið við hlið og engar forsendur fyrir því að kalla aðra ranga en hina rétta, þótt fólk geti vitanlega tekið aðra fram yfir hina í eigin máli af vana eða einhverjum öðrum ástæðum.

Skipulög, þjóðskipulög og deiliskipulög

Ég var spurður hvort hægt sé að nota orðið skipulag í fleirtölu. Í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er aðeins gefin eintala orðsins, og í Málfarsbankanum segir: „Orðið skipulag er kvenkynsnafnorð í eintölu.“ Í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið skýrt 'fast form, regla, kerfi' með dæminu með góðu skipulagi er hægt að ljúka verkinu á skömmum tíma; og 'tilhögun' með dæminu skipulag svæðisins er unnið í samvinnu við heimamenn. Skýring og notkunardæmi í Íslenskri orðabók eru mjög svipuð. Þegar orðið hefur almenna vísun til hugmynda eða óhlutstæðrar tilhögunar er eðlilegt að það sé ekki haft í fleirtölu. Hins vegar vísar það oft til einstakra kerfa, áætlana, uppdrátta og slíks, sem oft getur þurft að tala um í fleirtölu.

Tvö dæmi eru um fleirtöluna í Ritmálssafni Árnastofnunar. Í Eimreiðinni 1924 segir: „Nú votta vísindi, að skipulög hinna örsmáu frumeinda virðist alveg eins og skipulög sólkerfis.“ Í Iðunni 1929 skrifar Halldór Laxness: „síðan hafa þessi skipulög blómstrað í ákveðnum stofnunum.“ Í Morgunblaðinu 1931 segir: „Það hafa jafnvel verið gerð skipulög yfir heil hjeruð.“ Í fyrirsögn í Rauða fánanum 1931 segir: „Tveir heimar – tvö skipulög.“ Í Verklýðsblaðinu 1932 segir: „það skipulag […] ætti fyrir sér eins og öll eldri skipulög að líða undir lok.“ Í Vísi 1936 segir: „Sýning á skipulögum verður opnuð í Miðbæjarbarnaskólanum eftir hádegi á morgun.“ Í Stúdentablaðinu 1942 segir: „Öll skipulög á mannfélaginu eru verk mannanna sjálfra.“

Fjöldi nýlegra dæma er líka til. Í Fréttablaðinu 2011 segir: „Það eru til mörg skipulög á námi barna og unglinga.“ Í Fréttablaðinu 2012 segir: „Fyrirséð er að þessi skipulög geta beinlínis valdið skorti.“ Í Morgunblaðinu 2013 segir: „alltaf er hægt að komast í tæri við lifandi verk, skipulög og jafnvel framtíðarsýn fyrir ákveðin svæði.“ Í Bæjarins besta 2014 segir: „Ætlunin sé að ljúka við önnur skipulög.“ Í Austurglugganum 2014 segir: „norðanmenn vilja, samhliða þessu, setja Sprengisand inn á sín skipulög.“ Í Bændablaðinu 2014 segir: „En þeir Mollison og Holmgren settu fram mjög skipulega skipulögð skipulög.“ Í Skessuhorni 2015 segir: „Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur samþykkt að auglýsa eftirfarandi skipulög.“

Í þessum dæmum hefur skipulag ýmist merkinguna 'kerfi, þjóðfélagsskipan' eða 'skipulagsuppdráttur, skipulagsstefna' eða eitthvað slíkt. Þar þarf oft að tala um fleira en eitt eintak eða tilvik af því sem orðið vísar til og því óheppilegt ef ekki er hægt að nota orðin í fleirtölu. Fleirtalan er líka algeng í samsetningum eins og þjóðskipulög og deiliskipulög – elsta dæmi um það fyrrnefnda er frá 1925 en um það síðarnefnda frá 1967. Niðurstaðan er því sú að það er ekkert að því að nota orðið skipulag í fleirtölu og tala um skipulög. Fleirtalan á sér hundrað ára hefð, hefur töluvert verið notuð, og er merkingarlega fullkomlega eðlileg þegar orðið vísar til einstakra kerfa, skipulagsuppdrátta, stefnuplagga eða slíks. Hún telst ótvírætt rétt mál.