„Heimferða- og fylgdadeild“

Ég hafði aldrei heyrt minnst á Heimferða- og fylgdadeild Ríkislögreglustjóra fyrr en í gær og einu eldri dæmi sem ég finn á netinu eru í frétt frá því í júlí og annarri frá í ágúst. Á vef Lögreglunnar er vissulega síða með fyrirsögninni „Heimferða- og fylgdadeild“ og í upphafi textans á síðunni segir: „Heimferða- og fylgdadeild (áður Stoðdeild) ríkislögreglustjóra annast framkvæmd lögreglufylgda úr landi þeirra umsækjenda um alþjóðlega vernd sem hafa fengið endanlega synjun á umsókn sinni og hafa ekki annan rett til dvalar á Íslandi.“ Þetta er þó í eina skiptið sem heitið Heimferða- og fylgdadeild er notað í textanum – aftur á móti er eldra heitið Stoðdeild notað tólf sinnum í honum, og slóð síðunnar endar ennþá á /stoddeild/.

Heitið Stoðdeild segir vissulega ekki mikið en deildin var stofnuð 2016 og var orðin vel þekkt undir þessu nafni – hefur verið margoft í fréttum að undanförnu og flestum því væntanlega vel kunnugt hvert hlutverk hennar væri. Það virðist því vera eitthvað annað en ógagnsæi orðsins stoðdeild sem hefur rekið Ríkislögreglustjóra til að breyta heiti deildarinnar sem hefur greinilega verið gert nýlega í allnokkrum flýti – eða kannski væri nær að segja óðagoti. Hvergi kemur fram hver ástæðan hafi verið fyrir nafnbreytingunni – vitanlega má segja að Heimferða- og fylgdadeild sé mjög gagnsætt heiti á yfirborðinu, en gagnsætt heiti er því aðeins gagnlegt að það gefi ekki rangar eða villandi hugmyndir um merkinguna, eins og það gerir í þessu tilviki.

Í mörgum tilvikum er nefnilega hvorki verið að fylgja fólki né fara með það heim til sín. Orðið fylgd er í Íslenskri orðabók skýrt 'það að fylgja, leiðsögn, samfylgd' en í þessu tilviki er oftast fremur um að ræða þvingaðan flutning undir eftirliti – nauðungarflutning – en vinsamlega samfylgd. Þar að auki er oftast ekki verið að senda fólk heim til sín enda á það yfirleitt ekkert heimili utan Íslands, heldur iðulega til lands þar sem það hefur af einhverjum ástæðum fengið tímabundið dvalarleyfi en á engar rætur eða tengsl – eins og í því máli sem nú er mest rætt um. Og jafnvel þótt fólk sé sent til upprunalands síns er það einmitt landið sem það flúði frá og lítur ekki á sem heimaland sitt lengur – og telur sig iðulega vera í hættu komi það þangað aftur.

Nafnbreyting deildarinnar er því ekki í þágu gagnsæis heldur þvert á móti. Hins vegar leikur varla nokkur vafi á því að henni er ætlað að skapa jákvæðari ímynd af deildinni og verkefnum hennar í huga almennings – bæði fylgd og heimferð eru orð sem hafa á sér jákvæðan og notalegan blæ. Heimferða- og fylgdadeild bætist því í hóp veigrunarorða eða skrauthvarfa eins og rafvarnarvopn, afbrotavarnir, lokað búsetuúrræði og fleiri sem skotið hafa upp kollinum á undanförnum misserum og eru notuð í sama tilgangi. Óháð því hvaða skoðun fólk hefur á umsækjendum um alþjóðlega vernd og brottvísunum þeirra er hagræðing dómsmálayfirvalda á tungumálinu til að hafa áhrif á almenningsálitið stóralvarlegt mál og mikið áhyggjuefni.

Að sammæla(st)

Í grein í Heimildinni á föstudaginn stendur: „„Stóra málið eru efnahagsmálin,“ útskýrði þingmaður Viðreisnar í sjónvarpsfréttum RÚV síðar um kvöldið. Við hlið hans stóð umhverfis-, orku- og loftslagsráðherrann og sammælti.“ Ég staldraði við síðasta orðið, sammælti, sem kom mér ókunnuglega fyrir sjónir – þótt miðmyndin sammælast sé vissulega algeng er germyndina sammæla ekki að finna í orðabókum. Hún kemur þó fyrir í Guðbrandsbiblíu frá 1584: „þeir höfðu sammælt með sér að þeir vildu koma og sampínast honum.“ Örfá dæmi má einnig finna um germyndina á tímarit.is en eingöngu í afturbeygðri notkun sem jafngildir miðmyndinni – „Menn hafa frjálsar hendur með að sammæla sig með tíma“ segir t.d. í Tímanum 1981.

Nokkur dæmi um sammælast frá 17. og 18. öld eru í Ritmálssafni Árnastofnunar en elsta dæmið á tímarit.is er í Skírni 1868. En sögnin er fremur sjaldgæf lengi vel – aðeins um hundrað dæmi um hana á tímarit.is fram til 1970. Eftir það fjölgar dæmum ört og þó einkum eftir 1990, og alls eru dæmin á tímarit.is rúmlega 2.600. Í Risamálheildinni eru dæmin hátt í sjö þúsund þannig að þetta er greinilega orð á hraðri uppleið. En merking sagnarinnar hefur reyndar breyst. Í fyrstu tveim útgáfum Íslenskrar orðabókar frá 1963 og 1983 er hún skýrð 'ákveða stefnumót við e-n' – sammælast e-m, sammælast við e-n – og í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er hún skýrð 'aftale Møde el. Følgeskab med hinanden', þ.e. 'koma sér saman um stefnumót eða samfylgd'.

Þessi merking sést glöggt í flestum eldri dæmum um sögnina. Í dæminu í Skírni 1868 segir: „Þeir þingmenn, er áður eru nefndir, og með þeim þrettán blaðaritendur frá Parísarborg, sammæltust til ferðar og komu til Kaupmannahafnar í miðjum ágústmánuði.“ Í Heimskringlu 1895 segir: „Þegar fólk var ferðbúið fór það að sammælast og áttu þá ýmsir samleið, sem nærri má geta.“ Í Nýjum kvöldvökum 1911 segir: „Við sammæltumst, þessir sömu þrír sem haustið áður, og ákváðum að gista á Dynjanda.“ Í Norðurlandi 1912 segir: „Hann hafði sammælst við Hermann Stoll á Brú 8 ágúst, til þess að verða samferða þenna sjaldfarna fjallveg.“ Í Sunnudagsblaði Tímans 1970 segir: „Sammæltust þeir svo daginn eftir á sama stað.“

En í þriðju útgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002 er sögnin hins vegar skýrð 'taka sameiginlega ákvörðun um e-ð' og í Íslenskri nútímamálsorðabók er hún skýrð 'ákveða (e-ð) í sameiningu'. Þessari merkingu bregður vissulega fyrir í gömlum dæmum, t.d. dæminu úr Guðbrandsbiblíu sem vitnað var til hér að framan. Sama gildir um dæmi í Skírni 1869: „Sumir segja, að stjórnin sje farin að sjá sitt óvænna, því hún hafi fengið að vita, að Czekar og Pólverjar i Galizíu sje farnir að sammælast um ráðin.“ Eldri merking sagnarinnar er í raun hlutmengi af þeirri nýrri. Báðar fela í sér sameiginlega ákvörðun, en í nýrri merkingunni getur sú ákvörðun varðað hvað sem er – í þeirri eldri varðar hún hins vegar ævinlega ferð eða stefnumót.

Lengi framan af er eldri merkingin ráðandi í dæmum á tímarit.is þótt víðari merkingunni bregði fyrir stöku sinnum. Hún verður hins vegar smátt og smátt meira áberandi upp úr 1970, samfara fjölgun dæma um sögnina, og eftir 1990 þegar dæmum snarfjölgar er eldri merkingin sárasjaldgæf. En í germyndardæminu úr Heimildinni sem vitnað var til í upphafi er um þriðju merkinguna að ræða – þar er sögnin notuð í merkingunni 'samsinna'. Það er sjaldgæft en þó ekki einsdæmi. Í Bræðrabandinu 1985 segir: „Dómnum yfir honum og þeim sem sammæltu honum var fullnægt á skjótan og áhrifaríkan hátt.“ Í DV 1988 segir: „„Alveg örugglega,“ sammæltu þau.“ Þessi notkun er í sjálfu sér rökrétt án þess að ég mæli sérstaklega með henni.

Misgóðar málbreytingar – eða misvondar

Eins og hér hefur margoft verið rætt er það eðli tungumála að taka breytingum. Þau verða í raun að gera það til að þjóna þörfum málsamfélaganna sem nota þau, þótt vissulega séu breytingar misjafnlega nauðsynlegar og sumar séu ekki til bóta. Sumum finnst reyndar allar breytingar á málinu til bölvunar og það held ég að sé skaðlegt viðhorf. Ég held að það sé gagnlegt að reyna að flokka málbreytingar og átta sig á eðli þeirra – meta hvort ástæða sé til að amast við þeim eða jafnvel berjast gegn þeim af öllu afli. Þess vegna set ég hér fram tillögu að fjórum flokkum breytinga. Ég veit vel að margt í þessari flokkun orkar tvímælis og þykist vita að mörgum þyki mega setja ýmislegt af því sem ég nefni í öðrum flokki í þriðja eða jafnvel fjórða flokk.

  1. Þarfar eða nauðsynlegar breytingar. Undir þetta falla nær eingöngu breytingar á orðaforða. Á öllum tímum eru að koma til ný fyrirbæri og athafnir sem þurfa heiti, nýjar hugmyndir og hugtök sem þarf að vera hægt að tala um, og þess vegna þarf sífellt að vera að auka orðaforðann, annaðhvort með nýmyndunum eða tökuorðum. Um þetta er vitanlega almenn sátt í málsamfélaginu þótt fólk geti verið misánægt með nýju orðin. En önnur mikilvæg breyting á orðaforða felst í því að hætta að nota orð sem fela í sér fordómafulla afstöðu eða eru niðurlægjandi fyrir tiltekna einstaklinga og hópa – orð eins og negri, fáviti, kynvilla o.þ.h. Þótt flestum finnist þetta eðlilegt að einhverju marki er oft ágreiningur um hve langt skuli ganga.
  2. Eðlilegar og meinlausar breytingar. Undir þetta falla langflestar breytingar sem eru að verða og hafa orðið á málinu, svo sem hvers kyns breytingar á fallstjórn (mig langar > mér langar, spá í það > spá í því), fallendingum (drottningar > drottningu, læknar > læknirar), framburði (ána > ánna, hugsa [hʏxsa] > huggsa [hʏksa]), setningagerð (ég var barinn > það var barið mig), orðanotkun (brauðrist > ristavél), samtengingum (fyrst > víst, við hliðina á > hliðiná) eintölu- og fleirtöluorðum (trúarbrögð / trúarbragð, keppni / keppnir), o.s.frv. Vitanlega mæta flestar þessar breytingar andstöðu – við erum íhaldssöm og viljum halda málinu eins og við lærðum það. En þær eru flestar rökréttar og skiljanlegar og raska ekki málkerfinu.
  3. Óheppilegar eða óæskilegar breytingar. Undir þetta falla breytingar sem draga úr fjölbreytni og raska samfellu málsins á einhvern hátt. Það má t.d. segja að sú breyting þegar svokallaðir u-stofnar hættu að beygjast á sérstakan hátt og þolfall fleirtölu fjörðu, skjöldu o.s.frv. varð firði, skildi o.s.frv. falli undir þetta – dró úr fjölbreytni beygingakerfisins án þess þó að raska grundvelli þess. Það má líka segja að samfall i/í og y/ý á sínum tíma hafi verið óheppilegt, og ein ástæða baráttu gegn svokölluðu „flámæli“ var að það hefði getað leitt til samfalls ýmissa orðmynda (skyr / sker, flugur / flögur). Undir þetta getur einnig fallið ástæðulaus notkun enskættaðra orða og orðasambanda þar sem til eru góð og gild íslensk orð.
  4. Skaðlegar breytingar. Undir þetta falla breytingar sem raska grundvallaratriðum málkerfisins. Það væri t.d. ef lýsingarorð hættu að beygjast, eða eignarfall hyrfi úr málinu, eða frumlag setninga stæði alltaf í nefnifalli, eða hefðbundin þolmynd hyrfi úr málinu, eða verulegar breytingar yrðu á framburði vegna samlögunar og brottfalls hljóða, o.s.frv. Sem betur fer er ekki að sjá að neitt af þessu sé að fara að gerast á næstunni, en þessi atriði eru þó ekki nefnd alveg út í bláinn og mikilvægt að vera á verði. En undir þetta falla ekki síður breytingar á málumhverfi eða viðhorfi málnotenda sem valda því að íslenska verði ekki lengur nothæf eða notuð á tilteknum sviðum. Slíkar breytingar eru langmesta ógnin við íslensku um þessar mundir.

Þegar ég sá um þáttinn „Daglegt mál“ í Ríkisútvarpinu um tveggja mánaða skeið sumarið 1984, fyrir fjörutíu árum, sagði ég í einum þættinum: „Ég held að það sé hvorki nauðsynlegt né skynsamlegt að berjast af sama krafti gegn öllum breytingum, heldur verði að vega það og meta hverju sinni, hvort málstaðurinn sé baráttunnar virði. Á því hafa menn auðvitað mismunandi skoðanir, en ég get t.d. hugsað mér þrjár gildar ástæður fyrir að vilja sporna gegn ákveðinni málbreytingu; að hún geri okkur erfiðara um vik að skilja málfar undangenginna kynslóða, að hún minnki fjölbreytni málsins, og að hún raski grundvallarþáttum málkerfisins – sem að vísu gæti reynst erfitt að skilgreina hverjir séu.“ Ég er enn sama sinnis.

Báðir málstaðirnir

Í grein í Morgunblaðinu 1980 sagði Helgi Hálfdanarson: „Nú er mjög farið að segja […] „Báðir málstaðirnir eru slæmir“ í stað „hvortveggi málstaður er slæmur““ og í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 sagði Helgi: „Heyrst hefur: Báðir málstaðirnir eru góðir. RÉTT VÆRI: Hvortveggi málstaðurinn er góður.“ Í skýringu segir: „Orðið málstaður er ekki til í fleirtölu. Þess vegna ekki: tveir málstaðir, heldur tvennur málstaður; ekki margir málstaðir, heldur margur málstaður.“ Það má þó finna slæðing af dæmum um fleirtöluna frá ýmsum tímum á tímarit.is, það elsta í Ísafold 1891: „Sumir segja, að hjer kunni launráð undir búa, og stjórnin ætli sjer svigrúm, ef hún þykist þurfa að skerast í leikinn þar syðra og velja um málstaði.“

Það má líka finna dæmi um sambandið tveir málstaðir. Í Dagsbrún 1944 segir: „En ekkert varpaði þó jafn skæru ljósi á hina tvo málstaði eins og yfirlýsing Helga Hannessonar.“ Í Þjóðvörn 1949 segir: „Það er erfitt að tala fyrir tveim málstöðum í sömu ræðunni.“ Í Samvinnunni 1968 segir: „En Churchill varð ævinlega að þjóna tveimur málstöðum samtímis.“ Halldór Laxness hikaði ekki heldur við að tala um tvo málstaði – í ræðu 1940 sagði hann: „milli málstaðar mannkynsins og málstaðar kapítalismans er engin brú og ekkert kraftaverk getur skapað brú milli þessara tveggja málstaða“ og í Kristnihaldi undir Jökli frá 1968 segir: „Ég hef aldrei heyrt annað en í stríði séu tveir málstaðir: illur og góður.“

Nokkur dæmi eru einnig um sambandið báðir málstaðir, t.d. í Vísi 1917: „báðir málstaðirnir standa jafnt að vígi.“ Í Degi 1925 segir: „Verður ef til vill síðar hér í blaðinu gerð grein fyrir þeim grundvallarmun er liggur að rótum beggja málstaða.“ Í Læknablaðinu 1929 segir: „Lick hefur metið báða málstaði.“ Í ræðu á Alþingi 1951 segir: „Ég hef hlýtt á rök beggja málstaðanna.“ Í Ský 1999 segir: „báðir málstaðir höfðu sitthvað til síns máls.“ Á Bland.is 2006 segir: „Er eitthvað að því að barist sé fyrir báðum málstöðum?“ Á mbl.is 2010 segir: „Réttar upplýsingar hljóta alltaf að þjóna báðum málstöðum.“ Á mbl.is 2014 segir: „Það er auðvelt að skilja báða málstaði.“. Á Vísi 2018 segir: „Báðir málstaðir þóttu vondir.“

Á tímarit.is eru engin dæmi um tvennur málstaður nema úr framangreindri ábendingu Gætum tungunnar sem birtist oft í dagblöðum. Engin dæmi eru heldur um margur málstaður án greinis en fáein um margur málstaðurinn með greini, t.d. „Enda er margur málstaðurinn góður“ í Vísi 1981, „Rangar baráttuaðferðir hafa spillt fyrir mörgum málstaðnum“ í Morgunblaðinu 2007 og „Hún hefur komið ótal sinnum fram til stuðnings mörgum málstaðnum“ í Morgunblaðinu 2008. Örfá dæmi eru um marga málstaði – í Skólablaðinu 1985 segir: „en það eru svo margir málstaðir góðir og margir sannleikar til í þessum heimi“ og í DV 2014 segir: „Það er úr ótalmörgum flokkum að velja í forritinu og hver þeirra inniheldur marga málstaði.“

Þótt orðið málstaður sé vissulega oftast haft í eintölu í nútímamáli hefur það ekki alltaf verið svo. Í einu elsta varðveitta íslenska handritinu, Stokkhólms hómilíubókinni frá því um 1200, segir: „Þó að þér finnið á því sanna málstaði.“ Í Skafinskinnu, Njáluhandriti frá seinni hluta 14. aldar, segir: „féllu hálfar bætur niður fyrir sakir málstaða þeirra, er hann þótti að eiga.“ Fleiri dæmi eru um fleirtöluna í fornu máli. Þarna er merkingin vissulega eilítið önnur en þó náskyld – 'álitamál', 'umræðuefni' eða eitthvað slíkt – reyndar gat orðið einnig merkt 'ræðustóll' áður fyrr. Það er merkingarlega eðlilegt að nota orðið í fleirtölu og hún er gefin í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Það er því engin ástæða til annars en nota hana.

Heimilispersóna

Eftir að umræða um breytingar á íslensku máli í átt til kynhlutleysis fór á flug fyrir fáum árum virðast andstæðingar þessara breytinga oft sjá skrattann í hverju horni og fordæma ýmislegt sem jafnvel hefur tíðast lengi í málinu vegna þess að þeir telja að um sé að ræða „afkynjun“ tungumálsins. Skýrt dæmi um þetta mátti sjá í innleggi í Málvöndunarþættinum í dag: „Heimilispersóna – nýjasta í atlögunni að tungumálinu – Mogginn í gær.“ Þar var greinilega vísað í fyrirsögn í Morgunblaðinu: „Saumavél var eins og heimilispersóna.“ Þetta er tilvitnun í viðmælanda blaðsins sem hefur rannsakað sögu saumavéla á Íslandi og segir: „Saumavélin var eins og heimilispersóna, svo eðlilegur hlutur þótti hún fljótlega upp úr aldamótum.“

Í umræðunni í Málvöndunarþættinum var reyndar bent á að orðið er ekki nýtt – í Ritmálssafni Árnastofnunar eru skráð tvö dæmi um það, frá sautjándu og átjándu öld. Elsta dæmið er þó í bréfi frá 1660 sem er prentað í Blöndu 1918: „Og meðkendu þær heimilispersónur, sem þar voru þá, fyrir prestinum og oss, sem greptran veittum hennar líkama, að síra Eiríkur Hallsson hefði þar ei heima verið, þá hennar afgangur skeði.“ Í Lögbergi 1916 segir líka: „Þessar tvær heimilispersónur voru henni mjög góðar.“ Ýmsir þátttakendur í umræðunni voru samt sárhneykslaðir og spurðu hvort ekki mætti lengur tala um heimilisfólk, hvort það væri of særandi fyrir einhverja. En notkun orðsins heimilispersóna í áðurnefndri grein á sér eðlilega skýringu.

Í meistararitgerð viðmælanda Morgunblaðsins um saumavélar á Íslandi er nefnilega vitnað í svar konu fæddrar 1911 við spurningaskrá Þjóðminjasafnsins frá 1990 um fatnað og sauma (svarið birtist einnig í Iðnnemanum 1999): „Því miður þrýtur hér vitneskju mína um þennan þarfahlut sem í barnsaugum mínum var nánast sem ein heimilispersónan.“ Þetta er vissulega óvenjulegt orðalag, og einmitt þess vegna er ekkert undarlegt að viðmælandi blaðsins noti það í frásögn sinni – og ekki er heldur óeðlilegt að það sé tekið upp í fyrirsögn vegna þess að einn tilgangur fyrirsagna er að vekja forvitni og fá fólk til að lesa meira. En þetta hefur sem sé engin tengsl við kynhlutlaust mál – ekki frekar en margt annað sem reynt er að klína á það.

Þetta gengur brösu(g)lega

Ég sá í Málvöndunarþættinum umræðu um atviksorðið brösuglega sem nefnt var að oft væri sagt og skrifað brösulega – þ.e. án g. Sama gildir um samsvarandi lýsingarorð, brösu(g)legur. Í Málfarsbankanum segir: „Ritað er brösuglega en ekki „brösulega““ og væntanlega gert ráð fyrir að þessi orð séu leidd af lýsingarorðinu brösugur sem í Íslenskri orðabók er sagt vera „staðbundið“ og notað um veður. Hvort tveggja virðist tekið beint úr Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 þar sem orðið er sagt notað „om Vejrliget“ og merkt „Af.“, þ.e. austfirskt. Dæmi á tímarit.is sýna þó að notkunarsvið orðsins er mun víðara og ekki að sjá að það sé staðbundið núorðið. Í seinni tíð er það mjög algengt í fótboltamáli – brösugt gengi, brösug byrjun o.fl.

Myndirnar brösulega og brösuglega eru báðar tilfærðar í Íslenskri orðabók en aðeins sú síðarnefnda í Íslenskri nútímamálsorðabók, og hvorug hefur lýsingarorðið brösu(g)legur. Orðin virðast ekki ýkja gömul í málinu – elsta dæmi um atviksorðið brösulega á tímarit.is er frá 1949, en um lýsingarorðið brösulegur frá 1955. Alls eru um 1330 dæmi um þessi orð samtals. Elsta dæmi um atviksorðið brösuglega er frá 1961, en lýsingarorðið brösuglegur sést ekki fyrr en 1980. Alls eru rúmlega 2300 dæmi um þessi orð samtals. Fá dæmi eru um báðar gerðirnar fram til 1980 en notkun beggja stóreykst upp úr því, og í báðum tilvikum eru langflest dæmanna um atviksorðin – dæmi um lýsingarorðin eru sárafá. Atviksorðin eru nær alltaf notuð með ganga.

Séu orðin leidd af lýsingarorðinu brösugur eru þau alveg hliðstæð við atviksorðið sköru(g)lega og lýsingarorðið sköru(g)legur sem virðast leidd af horfna lýsingarorðinu *skörugur samkvæmt Íslenskri orðsifjabók. En þá bregður svo við að báðir rithættir eru viðurkenndir og ekki gert upp á milli þeirra. Í Íslenskri stafsetningarorðabók segir undir skörulegur „einnig ritað sköruglegur“ og undir sköruglegur segir „einnig ritað skörulegur“. Hliðstætt er um atviksorðið sköru(g)lega. Sama gildir um nauðu(g)lega og nauðu(g)legur – þar eru báðir rithættir viðurkenndir í Íslenskri stafsetningarorðabók. Eina ástæðan sem séð verður til að meðhöndla brösu(g)lega/-legur öðruvísi en þessi orð er sú að í þeim síðarnefndu koma báðir rithættir fyrir í fornu máli.

En svo er alls óvíst að brösulega sé leitt af brösugur. Til er í málinu kvenkynsorðið brösur sem aðeins er notað í fleirtölu og einkum í sambandinu eiga í brösum (við/með). Það er ekkert því til fyrirstöðu að líta svo á að fyrri liður brösulega sé ekki brösugur heldur brösur í eignarfalli eintölu. Það er alþekkt að í fyrri lið samsetninga er oft notað eignarfall eintölu af veikum kvenkynsorðum þar sem búast mætti við fleirtölu – stjörnuskoðun, perutré, gráfíkjukaka o.s.frv. Þetta gildir meira að segja þótt orðið sé venjulega ekki notað í eintölu, eins og t.d. (hjól)börur – það er talað um börukjálka, hjólböruhjól o.s.frv. en ekki *bar(n)akjálka, *hjólbar(n)ahjól. Á sama hátt getur brösu- í brösulega vel verið eignarfall eintölu þótt það sé ekki notað sjálfstætt.

Eins og áður er nefnt eru elstu dæmi um brösulega/brösulegur heldur eldri en elstu dæmi um brösuglega/brösuglegur þótt vissulega muni ekki miklu. Báðir rithættir eru mjög algengir – í Risamálheildinni eru um 2070 dæmi um myndir með g en um 1700 um myndir án g. Þótt ekki kæmi annað til ættu aldur og tíðni því í sameiningu að vera nægileg réttlæting fyrir því að viðurkenna rithátt án g eins og gert er í sambærilegum orðum. Þegar við bætist að eins víst er að g-lausu myndirnar séu alls ekki leiddar af brösugur heldur af brösur liggur niðurstaðan beint við: Þótt brösulega/-ur og brösuglega/-ur séu sömu merkingar eru þetta mismunandi orð sem eru mynduð á mismunandi hátt, og eðlilegt að stafsetningin endurspegli það.

Fjárlagafrumvarpið frá sjónarhóli íslenskunnar

Ég var að skoða fjárlagafrumvarp ársins 2025 sem lagt var fram í morgun og leita að vísbendingum um fjárveitingar til að efla íslenskuna, ekki síst kennslu í íslensku sem öðru máli. Í skýrslu OECD um innflytjendur sem var birt í síðustu viku kom fram að fjárveitingar til kennslu í þjóðtungunni á Íslandi eru ekki nema brot af því sem þær eru annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt kom fram að kunnátta innflytjenda í þjóðtungunni væri minni en í nokkru öðru landi OECD. En þótt skýrslan sé nýkomin og hafi ekki haft áhrif á fjárlagafrumvarpið hefur vitanlega verið vitað lengi að við stæðum okkur illa á þessu sviði, og þess vegna mátti vænta þess að einhverra breytinga sæi stað í fjárlagafrumvarpinu.

Ég fann einkum tvær tillögur sem ástæða er til að fagna. Undir lið 22.10, „Leikskóla- og grunnskólastig“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin um 500 m.kr. vegna inngildingar barna af erlendum uppruna.“ Trúlegt er að megninu af þessu verði varið til stuðnings við íslenskunám og þetta er því gífurlega mikilvægt. Undir lið 22.20, „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 250 m.kr. til eflingar íslenskukennslu fyrir útlendinga.“ En undanfarin tvö ár hefur verið samþykkt 115 milljóna króna aukning í þennan lið, tímabundin til eins árs í hvort skipti, og mig grunar að það megi draga frá og raunaukning frá síðustu árum sé því 135 milljónir en ekki 250.

Undir lið 29.70, „Málefni innflytjenda og flóttafólks“, segir: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 150 m.kr. vegna aðgerðaáætlunar ríkisstjórnar frá febrúar 2024 um inngildingu innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag.“ Í aðgerðaáætluninni er að finna margar aðrar fjárfrekar aðgerðir þannig að ólíklegt er að mikið af þessu fari til íslenskukennslu. Undir lið 14.10, „Ferðaþjónusta“, segir: „Fjárheimild málaflokksins hækkar um 200 m.kr. sem er varanlegt framlag til að vinna aðgerðaáætlun ferðamálastefnu til 2030.“ Eitt markmið stefnunnar er vissulega „Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskrar tungu og menningar“. En í aðgerðaáætluninni eru yfir 40 aðgerðir og hæpið að mikið fé fari til að bæta stöðu íslensku.

Í fjárlögum þessa árs segir undir lið 18.30, „Menningarsjóðir“: „Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið til eins árs um 75 m.kr. vegna aðgerðaáætlunar í málefnum íslenskrar tungu.“ Undir markmiðinu „Efla stöðu íslenskrar tungu í samfélaginu“ í sama lið í nýja frumvarpinu segir: „Unnið samkvæmt aðgerðaáætlunum í málefnum íslenskrar tungu og táknmáls.“ Þrátt fyrir það er ekki gert ráð fyrir framhaldi á þessari aukningu. Í frumvarpinu segir: „Fjárheimild málaflokksins hækkar um 153,2 m.kr. þar sem tímabundin framlög ganga til baka“ – væntanlega eru umræddar 75 milljónir inni í þeirri tölu. Það er því ekki að sjá að neitt fé sé ætlað í aðgerðaáætlunina sem er þó rétt að fara af stað því að henni seinkaði um heilt ár.

Auk þessa má nefna fleira sem kemur íslenskunni til góða að einhverju leyti, einkum tvennt undir lið 18.30: „Fjárheimild málaflokksins er aukin varanlega um 125 m.kr. til hækkunar á starfslaunum listamanna“ og „Fjárheimild málaflokksins er aukin varanlega um 170 m.kr. til að efla Kvikmyndasjóð, Myndlistarsjóð, Sviðslistasjóð og Bókasafnssjóð höfunda“. Á móti koma niðurfellingar tímabundinna framlaga til menningarmála upp á 620 milljónir en ég veit ekki hversu mikið af því fé gagnaðist íslenskunni. Það verður að hafa þann fyrirvara að framsetning frumvarpsins er ekki með þeim hætti að auðvelt sé að átta sig á þessu og því kann eitthvað að hafa farið fram hjá mér, en í heildina sýnist mér íslenskan koma skár út úr þessu en í fyrra.

Bærinn hefur verinn lokaður

Í morgun var hér vakin athygli á því að í frétt á Vísi í gær segir: „Frá því að Grindavík var fyrst rýmd þann 10. nóvember á síðasta ári hefur bærinn verinn lokaður almenningi.“ Það er orðið verinn sem er þarna áhugavert – þarna er greinilega um sögnina vera að ræða en myndin verinn kemur hvergi fyrir í venjulegri beygingu hennar. Á eftir hjálparsögninni hafa (og einnig geta) kemur venjulega sagnbót (sem er eins og lýsingarháttur þátíðar í hvorugkyni) og því væri venjulega sagt þarna hefur verið lokaður. Í umræddri frétt er hins vegar notuð karlkynsmyndin verinn í stað hvorugkynsmyndarinnar verið vegna þess að orðið sem vísað er til, bærinn, er karlkynsorð. Ég hafði aldrei tekið eftir þessu en við nánari athugun reynist þetta ekki einsdæmi.

Elsta dæmi sem ég finn af þessu tagi er í ræðu á Alþingi 1915: „þau miklu ólæti, er hafin hafa verin hjer í bænum.“ Í Bergmálinu 1916 segir: „Sjúkrasamlög hafa verin stofnuð á nokkrum stöðum hér á landi.“ Í ræðu á Alþingi 1926 segir: „Það getur verin hin brýnasta þörf að setja lög um þetta.“ Í Rauða fánanum 1927 segir: „Þetta er hin svívirðilegasta árás á kaup verkalýðsins, sem gerð hefur verin í langa tíð.“ Í Íslenskri endurreisn 1933 segir: „Sumarið hefir hingað til verinn talið helsti bjargræðistíminn.“ Í Verkamanninum 1934 segir: „Sumum alþýðumönnum meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins […] hefur verin talin trú um […].“ Í Þjóðviljanum 1945 segir: „Kosin hefur verin sérstök stjórn fyrir Bókabúð Í.S.Í.“

Dæmi um þetta fara þó ekki að sjást að ráði fyrr en eftir 1980 og einkum eftir aldamót. Alls er a.m.k á áttunda tug dæma á tímarit.is og a.m.k. 130 í Risamálheildinni. Meðal nýlegra dæma eru: „á þessu ári hefur kvótinn verinn skorinn niður um 10 þúsund tonn“ í Morgunblaðinu 2000, „Samkeppnislög hafa beinlínis verin tekin úr sambandi“ í Morgunblaðinu 2006, „Lögð hefur verin áhersla á að ná góðum árangri“ á Vísi 2011, „Talin höfðu verin 8.900 atkvæði“ á vef Ríkisútvarpsins 2012, „Fyrsti hópur sýrlenska flóttafólksins sem boðin hefur verin búseta hér á landi kemur á morgun“ á mbl.is 2016, „úrlausn þeirra getur verin flókin og sár“ í Fréttablaðinu 2018, og „talinn hefur verinn um helmingur atkvæða“ í Fjarðarpóstinum 2018.

Þegar hafa er hjálparsögn tekur hún venjulega með sér svokallaða sagnbót eins og áður segir. Hún beygist ekki en hefur sama form og lýsingarháttur þátíðar í hvorugkyni – við segjum ráðherra hefur skorið kvótann niður og kjörstjórn hefur talið 8.900 atkvæði. Hjálparsögnin vera tekur hins vegar með sér lýsingarhátt þátíðar sem beygist og samræmist nafnorðinu sem hann á við í kynjum, tölum og föllum – við segjum kvótinn var skorinn niður og 8.900 atkvæði voru talin. Það sem er að gerast í dæmunum hér að framan er að í stað þess að standa sem óbeygjanleg sagnbót er sögnin vera líka látin sambeygjast nafnorðinu á sama hátt og lýsingarhátturinn sem hún tekur með sér, og því fáum við verinn skorinn, verin talin o.s.frv.

Þetta er þó kannski ekki eins mikil nýjung og virst gæti í fljótu bragði. Þótt yfirleitt sé ekki gert ráð fyrir því að vera eigi sér lýsingarhátt þátíðar er lýsingarhátturinn verinn gefinn upp í Altnordisches Lesebuch eftir Friedrich Pfeiffer frá 1860, og í Lögmannsannál, handriti frá seinni hluta 14. aldar, segir: „sú sama Margrét hafði brennd verin“. Beygður lýsingarháttur af vera kemur einnig fyrir nokkrum sinnum í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540 eins og Kjartan G. Ottósson bendir á í bókinni Íslensk málhreinsun, t.d. „Því að ef í Sódóma hefði þau kraftaverk gjörst sem í þér hafa gjörð verin.“ Þetta eru þó væntanlega áhrif frá frumtexta og ekki líkur á að notkunin í nútímamáli tengist þessum gömlu dæmum.

En einnig má benda á að í fornu máli er nokkuð um það að lýsingarháttur þátíðar með sögninni hafa sambeygist andlagi, t.d. „Þú hefur skaptan mig“ í sálminum „Heyr himnasmiður“ eftir Kolbein Tumason og „Hefi eg þig reyndan að góðum dreng“ í Hallfreðar sögu vandræðaskálds. Þegar í fornu máli er þó einnig algengt að í stað beygðs lýsingarháttar sé notuð óbeygð sagnbót í þessu sambandi, og stundum eru mismunandi myndir notaðar í tveimur handritum sömu sögu – „Hefi eg þig reynt að góðum dreng“ segir í öðru handriti. Jafnvel eru þess dæmi að báðar setningagerðir komi fyrir í sömu málsgrein: „þeir þræti um hvort Vésteinn hefði átt eftir dætur einar eða hefði hann áttan son nokkurn“ segir í Gísla sögu Súrssonar.

Það er samt ekki líklegt að þessi gömlu dæmi hafi bein tengsl við áðurnefnda setningagerð í nútímamáli. Hins vegar verður ekki séð að það sé neitt órökrétt að láta sögnina vera í þessari stöðu sambeygjast orðinu sem hún á við, rétt eins og lýsingarhátturinn sem hún tekur sjálf með sér – kvótinn hefur verinn skorinn niður, atkvæðin höfðu verin talin o.s.frv. En auðvitað er þetta bæði setningafræðileg og beygingarleg nýjung. Þarna er verið að láta hafa taka með sér lýsingarhátt í staðinn fyrir sagnbót, og þar að auki er verið að búa til nýjar beygingarmyndir vegna þess að sögnin vera hefur yfirleitt ekki átt sér neinn lýsingarhátt þátíðar. Þau sem telja allar nýjungar í setningagerð og beygingum til bölvunar leggjast því væntanlega gegn þessu.

En það er líka hægt að líta á þetta jákvæðari augum. Í hinni svonefndu „nýju þolmynd“ sem oft er amast við er lýsingarhátturinn alltaf í hvorugkyni eintölu í stað þess að sambeygjast frumlagi (ef það er í nefnifalli) – það var barið hana í stað hún var barin, það var fellt hann í stað hann var felldur. Breytingin leiðir því til minnkandi notkunar beygðra mynda. Í þeirri setningagerð sem hér er til umræðu er farið í öfuga átt – notuð beygð mynd sem sambeygist orðinu sem hún á við í stað óbeygðrar sagnbótar. Það er því verið að auka á beygingar, nýta beygingakerfið betur. Auk þess sýnir þessi setningagerð tilfinningu málnotenda fyrir kerfinu – þeim finnst eðlilegt að þarna komi beygð mynd en ekki óbeygð. Hvort tveggja hlýtur að teljast jákvætt.

Inngilding, samþætting, rótfesting – ekki aðlögun

Í fyrirsögn á frétt um nýja skýrslu OECD um málefni innflytjenda á Íslandi á vef Stjórnarráðsins segir: „Mikilvægt að setja inngildingu innflytjenda á dagskrá.“ Nafnorðið inngilding, sögnin inngilda og lýsingarorðið inngildandi eru svo notuð nokkrum sinnum í fréttinni sjálfri. Þessi orð eru ekki gömul í málinu en hafa verið notuð töluvert á undanförnum árum og eru að verða sæmilega þekkt – inngilding er þýðing á enska orðinu inclusion og felur í sér „að allir fái notið sín, óháð uppruna, kyni, hæfni eða fötlun, í skóla, á vinnumarkaði eða á öðrum vettvangi, og séu viðurkenndir sem fullgildir þátttakendur“ eins og segir í orðasafni í menntunarfræði í Íðorðabankanum. Þetta er þó ekki endilega heppilegasta orðið í þessu samhengi.

Orðið sem notað er í skýrslunni er nefnilega ekki inclusion heldur integration sem merkir 'the action or process of successfully joining or mixing with a different group of people' eða 'sú athöfn eða ferli að sameinast eða blandast við annan hóp fólks á farsælan hátt'. Þótt þetta sé vissulega mjög skylt inngildingu er áherslan í því orði fremur á að engin séu skilin útundan. Eðlileg íslensk samsvörun við integration er því fremur samþætting – ferlið miðast að því að samþætta innflytjendur og þau sem fyrir eru í landinu, búa til eina samstæða heild. Einnig hefur verið stungið upp á að nota sögnina rótfesta og nafnorðið rótfestingu um þetta ferli – við viljum að innflytjendur festi rætur í íslensku samfélagi og auðgi það á ýmsan hátt.

Í umræðu um skýrsluna hefur hins vegar stundum verið talað um aðlögun innflytjenda, t.d. í Morgunblaðinu. Það er óheppilegt orðalag því að það felur í sér að innflytjendur þurfi að laga sig að íslensku þjóðfélagi á forsendum þeirra sem fyrir eru í stað þess að aðlögunin sé gagnkvæm, þ.e. samþætting. Það er ekki til þess fallið að hvetja innflytjendur til samþættingar við íslenskt þjóðfélag og þarna mættum við líta í eigin barm – við viljum nefnilega fá að halda okkar siðum og sérkennum sem innflytjendur annars staðar. Nýlega lýsti dómsmálaráðherra t.d. sérstakri aðdáun á því „hversu margir Vestur-Íslendingar virðast leggja meiri áherslu á að viðhalda tungu og menningu en margir á Íslandi“. Notum ekki orðið aðlögun í þessu sambandi.

Að planta kartöflum – eða sá – eða gróðursetja

Í Málvöndunarþættinum var nýlega nefnt að í fréttum Ríkisútvarpsins hefði verið talað um að planta út kartöflum – í fréttinni var raunar sagt „plantað út útsæði“ en það kemur út á eitt. Þetta minnti mig á að fyrir fimm árum var talað um það í sjónvarpsfrétt að gróðursetja kartöflur sem einnig vakti nokkur viðbrögð í Málvöndunarþættinum. Í báðum tilvikum hefur verið bent á að þessi athöfn heiti að setja niður kartöflur og vissulega er það hið venjulega orðalag og hefur verið lengi. Við nánari athugun kemur þó í ljós að orðafar um þessa athöfn er í raun mun fjölbreyttara og séra Björn Halldórsson í Sauðlauksdal, frumkvöðull í kartöflurækt á Íslandi, notar sögnina planta í riti sínu Atli eða ráðagjörðir yngismanns um búnað sinn frá 1783.

Þar segir: „Sé eigi korn til, þá skal þar í planta jarðepli, ef þau er að fá.“ Hér er heitið jarðepli notað um kartöflur eins og algengt var áður fyrr. Sögnin planta sem nú tekur með sér andlag í þágufalli stýrði áður þolfalli þannig að jarðepli er þarna þolfall í fleirtölu. Í Norðanfara 1873 segir: „síðan verður plantað helzt jarðepli.“ Í Ísafold 1896 segir: „Árið 1596 plantaði enski plöntufræðingurinn Gerard kartöflur fyrstur manna hjer í álfu.“ Í Lögbergi 1929 segir: „Hann plantaði kartöflur á öllum tímum árs.“ Í Morgunblaðinu 1950 segir: „Er þá hægt, seinna um vorið að planta kartöflunum út, eins og hverri annari pottaplöntu.“ Nýleg dæmi má einnig finna: „Það má planta kartöflum vel fram í júní“ segir garðyrkjufræðingur í Morgunblaðinu 2015.

Það er líka gamalt orðalag – en sjaldgæft – að tala um að gróðursetja kartöflur. Í Leifi 1886 segir: „Hundrað ára kartöpluhátíð var haldin á Frakklandi í vikunni sem leið, í minningu þess, að þá voru liðin 100 ár frá því hin fyrsta kartapla var gróðursett þar.“ Í Búnaðarritinu 1888 segir: „Sá, sem fyrstur gróðursetti kartöflur hér á landi, var […] Björn prófastur Halldórsson í Sauðlauksdal.“ Í Frey 1932 segir: „Björn Halldórsson var hinn fyrsti er gróðursetti jarðepli á Íslandi 1758.“ Í Búfræðingnum 1944 segir: Eini gallinn við að gróðursetja kartöflurnar úti í garðinum svo snemma, sem hér er gert ráð fyrir, er frosthættan.“ Í DV 2005 segir: „En þeir sem eiga kjallara með stöðugu og háu hitastigi geta gróðursett kartöflur í bréfpoka.“

Einnig hefur lengi tíðkast að einhverju marki að tala um að sá kartöflum ­– enda alltaf talað um útsæði eða útsæðiskartöflur. Í Nýjum félagsritum 1873 segir: „Sumstaðar er það venja, að sá kartöplum fyrsta árið sem jörðin er plægð.“ Í Norðlingi 1881 segir: „Sáð kartöplum í 80 ferfaðma af því sem ræktað var.“ Í Lögbergi 1889 segir: „Landar hjer ljetu flestir plægja smábletti næstl. vor og sáðu kartöflum og fleiru.“ Í Morgunblaðinu 1929 segir: „Um 20. mars var byrjað að sá kartöflum á Akureyri.“ Í Búnaðarritinu 1967 segir: „en það hefði þó verið illskárra en að sá kartöflum eftir þann tíma.“ Í DV 2010 segir: „Þeir sem ætla að sá kartöflum þurfa að kaupa útsæði (eða nota eigin kartöflur) í verslunum og láta þær forspíra.“

Sögnin setja hefur lengi verið notuð í þessu samhengi, en framan af er hún oft höfð ein sér, án niður. Í Gesti Vestfirðingi 1848 segir: „geta menn þá sett jarðeplin í 5. viku sumars.“ Í millifyrirsögn í Nýjum félagsritum 1853 segir: „Um aðferðina við að setja jarðeplin“ og í greininni segir: „Tvennslags aðferð má hafa til að setja kartöflur.“ Í Ingólfi 1853 segir: „Hinn þriðji átti að setja jarðepli í nokkra reiti.“ Í greininni „Um kartöplur“ í Íslendingi 1863 segir „og skal setja þær svo að frjóangarnir snúi upp“ en annars er miðmyndin setjast notuð í greininni, t.d. „Kartöplurnar ættu helzt að setjast í beinar raðir eptir vað“. Í Þjóðólfi 1870 segir: „Hann lætr frjóangann snúa niðr, þegar hann setr kartöfluna.“ En þessi notkun virðist löngu horfin.

Elsta dæmi sem ég finn um sambandið setja niður í tengslum við kartöflurækt er í bæklingnum Fáein orð um ræktun jarðepla eftir Jónas Benediktsson frá 1856. Þar er kaflafyrirsögnin „Hvernig stinga skuli upp eplagarða, setja niður í þá og fleira“. Í kaflanum segir: „Nær setja skuli niður jarðeplin, er undir tíðarfarinu komið.“ Í Norðanfara 1879 segir: „Skal svo setja niður í blettinn kartöflur.“ Í Búnaðarritinu 1888 segir: „Á flestum stöðum í sýslunni eru kartöflur settar mikið of þétt niður.“ Í Lýð 1889 segir: „Kýr víða komnar á beit, sáðgarðar yrktir og jarðepli niðursett.“ Í Þjóðólfi 1889 segir: „Lítið var sett niður af kartöflum.“ Í Búnaðarritinu 1900 segir: „fyrst fyrir alvöru var farið að sá 20. dag maímán. og settar niður kartöflur.“

Eftir aldamótin 1900 virðist setja niður kartöflur hafa orðið algengasta orðalagið um þessa athöfn og hefur verið það síðan, og vitanlega er engin ástæða til annars en mæla með því að svo verði áfram. Á hinn bóginn er ljóst að þótt samböndin planta kartöflur/kartöflum, sá kartöflum og gróðursetja kartöflur séu sjaldgæf eiga þau sér langa og samfellda sögu – það fyrstnefnda allt frá upphafi kartöfluræktunar á Íslandi á átjándu öld en hin frá seinni hluta nítjándu aldar. Notkun þeirra stafar ekki af fákunnáttu eins og marka má af því að dæmi eru úr Búnaðarritinu, Búfræðingnum og Frey, og frá garðyrkjufræðingi. Það er því engin ástæða til annars en fólk sem hefur vanist því að nota þessi sambönd haldi því áfram. Við þurfum ekkert öll að tala eins.