Stórátak fyrir íslenskuna

Við Ólína Þorvarðardóttir ræddum stöðu og framtíð íslenskunnar við Gunnar Smára Egilsson í „Rauða borðinu“ á Samstöðinni í gær. Okkur greindi á um sumt, eins og t.d. hver réttur enskunnar eigi að vera í íslensku málsamfélagi. Ég held að það sé einfaldlega raunsætt mat að enskan sé komin til að vera og í stað þess að berja hausnum við steininn með það þurfum við að taka þetta mál til alvarlegrar umræðu og marka enskunni bás, draga víglínu sem við ætlum að verja eins og Kári Stefánsson sagði í viðtali í sumar. Um þetta vorum við Ólína ekki sammála, sem er í góðu lagi. En við vorum innilega sammála um það grundvallaratriði að stórátaks sé þörf til að tryggja framtíð íslensku sem aðalsamskiptatungumáls í landinu.

Snorri Másson sagði nýlega í grein: „Tvær leiðir eru færar til að snúa þróuninni við. Annars vegar kemur til greina að ráðast í stórátak á vegum hins opinbera af slíkri stærðargráðu að annað eins hefur ekki þekkst og það átak þyrfti að taka til allra sviða tungumálsins. Hins vegar kemur til dæmis til greina takmarka innflutning fólks vegna atvinnu verulega í því skyni að minnka álag á tungumálið. Hið síðarnefnda hugnast líklega hvorki stjórnvöldum né atvinnurekendum, þannig að eftir situr stórátaksleiðin.“ Ég held reyndar að síðarnefnda leiðin sé ekki bara ófær heldur líka óskilvirk. Ensk áhrif og þrýstingur á íslenskuna kemur eftir miklu fleiri leiðum en með erlendu vinnuafli og takmörkun á innflutningi fólks hefði því ekki mikið að segja.

Innan stórátaksleiðarinnar er í fyrsta lagi þörf á vitundarvakningu um mikilvægi íslenskunnar fyrir okkur, sem tjáningartækis og menningarmiðlara. Um leið þarf að gæta þess að reka þetta átak ekki á þjóðernislegum nótum. Í öðru lagi þarf stórátak í kennslu íslensku sem annars máls – menntun kennara, samningu kennsluefnis, framboði ókeypis námskeiða og hvatningu til íslenskunáms. Um leið þarf að auðvelda fólki að stunda nám á vinnutíma og í tengslum við vinnu. Í þriðja lagi þarf að sjá fólki, ekki síst börnum og unglingum, fyrir fjölbreyttu efni á íslensku – fræðsluefni, menningarefni, skemmtiefni, afþreyingu o.fl. Sumt af þessu þarf að vera vandað en það þarf líka að framleiða „rusl“ – aðalatriði er að þetta sé efni sem fólk sækir í.

Eins og Snorri Másson benti á í áðurnefndri grein verður því miður ekki séð að stjórnvöld hafi vilja eða getu til að grípa til nauðsynlegra aðgerða. Fyrir tæpu ári var þó tilkynnt um stofnun sérstakrar ráðherranefndar um íslenska tungu sem í sitja fimm ráðherrar. Í fréttatilkynningu um stofnun nefndarinnar segir að henni sé „ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast“ og „vinna markvisst að stefnumótun stjórnvalda og aðgerða í þágu tungumálsins“. Einnig segir: „Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarflokkanna er lögð áhersla á að styðja við íslenska tungu.“ Í sáttmálanum eru vissulega nefndar ýmsar aðgerðir sem tengjast íslensku og íslenskukennslu, einkum þessar:

(1) „Mótuð verður skýr og heildstæð stefna í málefnum útlendinga sem miðar að því að fólk sem sest hér að hafi tækifæri til aðlögunar og virkrar þátttöku í samfélaginu og á vinnumarkaði.“ (2) „Rík áhersla verður lögð á stuðning til aðlögunar við börn af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra, m.a. gegnum skóla- og frístundastarf og með auknu aðgengi að íslensku- og samfélagsfræðslu.“ (3) „Efla þarf íslenskukennslu fyrir kennaranema og auka símenntun í takt við breyttar aðstæður.“ (4) „Stuðningur við börn af erlendum uppruna verður aukinn í skólakerfinu.“ (5) „Ráðist verður í átak til að stuðla að fjölbreyttri nýsköpun í námsgagnagerð og auknu framboði af nýju námsefni, ekki síst á íslensku, fyrir öll skólastig.“

Þetta eru allt saman mikilvægar aðgerðir en nú þegar kjörtímabilið er hálfnað verður ekki vart við að þeim hafi verið hrint í framkvæmd, og lítið hefur heyrst frá ráðherranefndinni síðan hún var stofnuð. Samkvæmt endurskoðaðri þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar í janúar stóð til að leggja fram þingsályktunartillögu um „aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023-2026“ í mars. Það var ekki gert, en drög að tillögunni voru birt í samráðsgátt stjórnvalda í júní og samkvæmt þingmálaskrá á að leggja hana fram í október – það eru að verða síðustu forvöð. Í áðurnefndum drögum er vissulega að finna ýmsar mikilvægar aðgerðir, en hvorki í fjárlögum næsta árs né fjármálaáætlun næstu fimm ára er að finna neinar vísbendingar um að þær verði fjármagnaðar.

Íslenskan er ekkert í dauðateygjunum. Hún er auðvitað sprelllifandi og verður það næstu áratugina. En að óbreyttu mun hún smátt og smátt hörfa, missa ákveðin svæði og svið – það verða til heilu hverfin eða jafnvel þorpin þar sem hún gagnast ekki, og sviðum eins og ferðaþjónustunni þar sem hún er ekki notuð mun fjölga. Á endanum kemur að því að unga kynslóðin gefst upp á íslenskunni. Auðvitað er hægt að benda á að undanfarin 200 ár hafi oftsinnis verið hrópað úlfur, úlfur – og íslenskan lifi enn. En eins og ég hef skrifað um eru aðstæður nú algerlega fordæmalausar. Vissulega getur verið – og er vonandi – að íslenskan lifi þótt lítið verði að gert. En höfum við efni á að taka áhættuna – og viljum við það?

Feðraveldi og karl(a)veldi

Hér hefur orðið mikil umræða um orðið feðraveldi og merkingu þess. Í þeirri umræðu skiptir máli að hafa í huga að feðraveldi er í raun og veru íðorð sem vísar til ákveðins hugtaks sem á ensku heitir patriarchy og er skýrt 'a society in which the oldest male is the leader of the family, or a society controlled by men in which they use their power to their own advantage'. Það er komin meira en hundrað ára hefð á notkun orðsins feðraveldi yfir þetta hugtak – það var notað þegar í Íslensk-danskri orðabók 1920-1924 sem samsvörun við danska orðið patriarkat sem er skýrt 'form for samfundsmæssig organisation hvor magtudøvelsen ligger hos faderen som familiens eller klanens overhoved, og hvor arv og slægtskab regnes efter mandslinjen'.

Ljóst er að orðið er oft notað í neikvæðu samhengi og sumum fannst sneitt ómaklega að feðrum með notkun þess og töldu betra að nota orðið karl(a)veldi í staðinn. En orðin merkja ekki endilega það sama þótt vissulega sé skörun milli þeirra. Fyrrnefnda orðið er skýrt 'samfélagsform þar sem faðirinn fer með völdin og er höfuð fjölskyldunnar eða ættarinnar' í Íslenskri nútímamálsorðabók en það síðara 'fyrirkomulag þar sem karlmenn eru í helstu valdastöðum'. Í safninu „Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði“ í Íðorðabankanum er feðraveldi skilgreint svo: „(1) samfélagshættir þar sem ættfaðirinn ræður mestu í samfélaginu (gamalt); (2) rótgrónar formgerðir í samfélögum sem byggjast á yfirburðum karla og undirokun kvenna.“

Þarna er sem sé verið að segja að merking orðsins hafi hnikast til – það vísar ekki lengur bókstaflega til (ætt)feðra eins og það gerði, heldur til sambærilegrar þjóðfélagsskipunar. Það eru auðvitað ótal dæmi um það í málinu að merking samsettra orða sé ekki summa eða fall af merkingu orðhlutanna þótt hún hafi verið það í upphafi. Ég hef skrifað um nokkur slík dæmi, eins og eldhús, örvhent, brúðkaup o.fl. Þarna er alltaf hætta á að hið margrómaða gagnsæi íslenskunnar trufli okkur eða villi um fyrir okkur, en eins og ég hef oft sagt finnst mér yfirleitt mjög hæpið að hrófla við orðum sem hafa unnið sér hefð, jafnvel þótt þau merki eitthvað annað en þau líta út fyrir að merkja í fljótu bragði. Við þurfum að horfa á heildina, ekki orðhlutana.

Á tímarit.is má sjá að orðin karlveldi sem birtist fyrst 1952 og karlaveldi sem birtist fyrst 1966 voru mikið notuð á árunum 1980-1990 en síðan þá hefur verulega dregið úr notkun þeirra. Aftur á móti hefur notkun orðsins feðraveldi sem birtist fyrst 1911 aukist mikið á þessari öld. Svo getur fólk deilt um það hvort hér ríki feðraveldi eða karlaveldi – eða hvort tveggja – en sú umræða á ekki erindi í þennan hóp. Það sem skiptir máli er til hvaða hugtaks verið er að vísa með orðinu feðraveldi og tæpast leikur vafi á því að verið er að vísa til þess sem lýst er í skilgreiningunni úr „Alþjóðastjórnmál og stjórnmálafræði“. Þar sem feðraveldi er skilgreint íðorð sem samsvarar erlendum orðum um sama hugtak finnst mér eðlilegt að halda sig við það.

Fokk feðraveldi!

Í dag hefur verið nokkur umræða í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum um kjörorðið „Fokk feðraveldi“ sem var áberandi í kvenna- og kváraverkfallinu í gær. Í „Bítinu“ á Bylgjunni í morgun lýsti þáttastjórnandi óánægju með notkun þess og taldi „slíkt orðbragð ekki vera sæmandi“. Það er líklega einkum notkun orðsins fokk sem sumum finnst ósmekkleg þótt ég hafi líka séð athugasemdir við notkun orðsins feðraveldi, t.d. í eftirfarandi Facebookfærslu: „Þegar ég sá skiltið "Fokk feðraveldið" þá ákvað ég að sitja heima. Ég get ekki tekið undir þessi skilaboð, því ég skil þetta ekki. Ég vil að við breytum samfélaginu saman. Feður eru nauðsynlegir.“ En eins og mörg hafa bent á er þetta misskilningur á orðinu feðraveldi.

Orðið feðraveldi er meira en hundrað ára gamalt í málinu. Á tímarit.is eru 1400 dæmi um það, hið elsta frá 1911, og það er flettiorð í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – þýtt „Patriarkat“. Í grein eftir Guðmund Sveinsson í Samvinnunni 1962 segir: „Víðast hvar náðu karlmenn þó snemma forystunni og upphófst „feðraveldi“ svokallað „patríarkí“, og hefur haldizt allt fram til þessa dags.“ Í grein eftir Helgu Sigurjónsdóttur í DV 1982 segir: „Orðið pater, sem partriarkat er myndað af, er latneskt og merkir faðir og því er réttasta þýðingin á orðinu feðraveldi. Það er einnig sá skilningur sem lengst af var lagður í hugtakið og ekki að ófyrirsynju þar sem hin forna skipan var veldi „feðra“ nánast í orðsins fyllstu merkingu.“

Sumum finnst ótækt að nota orðið fokk vegna tengsla við enska orðið fuck sem vissulega þykir mjög dónalegt í upprunamálinu, og í Íslenskri nútímamálsorðabók er orðið fokk gefið sem 'upphrópun sem táknar vanþóknun eða reiði' og sagt „óformlegt, ekki fullviðurkennt mál, gróft“. Þess er þó að gæta að nafnorðið fokk ('lítilfjörlegt dútl') og sögnin fokka ('gaufa, dunda') eru gömul íslensk orð og þótt upphrópunin fokk eigi án efa rætur í fuck gætu eldri orðin hafa haft áhrif á hana og e.t.v. mildað merkinguna. Hvað sem því líður er ljóst að fokk hefur verið notað sem upphrópun eða blótsyrði í íslensku frá því á áttunda áratug síðustu aldar eins og kemur fram í BA-ritgerð Einars Lövdahl Gunnlaugssonar og grein Veturliða Óskarssonar.

Í slangurorðakönnun verkefnisins „Íslenskt unglingamál“ kom í ljósfokk (og orð leidd af því) var mjög algengt orð meðal unglinga og notkun þess var mjög fjölbreytt – stundum gegndi það „hlutverki upphrópunar, rétt eins og t.d. eða úff“, og stundum var það „e.k. áhersluliður líkt og mega eða ýkt.“ Því fer sem sé fjarri að orðið sé alltaf notað sem gróft blótsyrði í íslensku – „Ljóst er að merkingarsvið þess er afar vítt og skýringin sem einn þátttakandi slangurorðakönnunarinnar skrifaði, virðist raunar býsna lýsandi: FOKK er notað alla daga alltaf það er hægt að nota það fyrir allt og ekkert.“ UN Women hefur notað kjörorðið „Fokk ofbeldi“ síðan 2015. „Fokk feðraveldi“ er hliðstætt – en auðvitað er þetta spurning um smekk.

Var íslenskan fullkomin um 1950?

Um daginn rakst ég á grein með titlinum „Nýja Fjölnismenn“ í Fréttablaðinu 2010. Þar segir: „Undir lok átjándu aldar var íslenzkan orðin mjög lúin og dönskuskotin, þótt fólk í sveitum landsins hafi eflaust ennþá kunnað gamla góða málið. Að frumkvæði danska málfræðingsins Rasmusar Rasks hófu Fjölnismenn, með skáldið Jónas Hallgrímsson í farabroddi, að hreinsa málið og tókst að endurreisa það, svo að næstu hundrað árin eða fram yfir 1950 var hér töluð góð íslenzka.“ Eftir það hefur málinu farið hnignandi að mati greinarhöfundar sem spyr: „Hverjum er um að kenna, að málið er á leið til fjandans“? og er sannarlega ekki einn um þá skoðun eins og sjá má í Málvöndunarþættinum á Facebook,  athugasemdadálkum vefmiðla o.v.

En af málfarsumræðu í íslenskum blöðum á árunum kringum 1950 verður sannarlega ekki dregin sú ályktun að þá hafi verið töluð góð íslenska á Íslandi. Þvert á móti – sjaldan hefur eins mikið verið skrifað um hvers kyns „málvillur“ sem vaði uppi og á þessum tíma. Hér voru nýlega tekin nokkur dæmi frá fimmta og sjötta áratugnum um fordæmingu „þágufallssýki“ og ótal önnur dæmi mætti taka. En það er athyglisvert að við flestar þær „málvillur“ sem voru komnar fram og orðnar útbreiddar fyrir 1950 er verið að gera athugasemdir enn í dag. Það er táknrænt að 1950 er einmitt dánarár Björns Guðfinnssonar prófessors sem í huga margra er holdgervingur rétts máls. Það er eins og umræðan hafi staðnað við lát hans og málstaðallinn steingerst.

Árið 1986 var í fyrsta sinn sett fram skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“, í álitsgerð sérstakrar nefndar sem menntamálaráðherra skipaði. Þar segir: „Nauðsynlegt er að átta sig vel á því að rétt mál er það sem er í samræmi við mál­venju, rangt er það sem brýtur í bága við mál­venju.“ Árið 2002 svaraði Ari Páll Kristinsson rannsóknarprófessor spurningunni „Hvað er rétt og hvað er rangt í máli“ á svipaðan hátt á Vísindavef Háskóla Íslands: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Ari Páll var á þessum tíma forstöðumaður Íslenskrar málstöðvar og því má segja að þetta komist eins nálægt því og verða má að vera opinber skilgreining á „réttu“ máli og „röngu“.

Samt er enn verið að amast við sömu atriðunum og um 1950 og telja þau ýmist röng eða óæskileg – í Málfarsbankanum, í Handbók um íslensku, í málfarspistlum í fjölmiðlum, í Facebookhópum, í kennslubókum, í samræmdum prófum (meðan þau tíðkuðust) og víðar. Þetta eru atriði eins og „þágufallssýki“, hendi eða hend í stað hönd, vera ofan í í stað vera niðri í, þora því í stað þora það, keyra mér í stað keyra mig, hæðst og stæðst í stað hæst og stærst, föðurs í stað föður, forða slysi í stað forða frá slysi eða forðast slys, þaga í hel í stað þegja í hel, á og í stað æja og heyja, og ótalmörg önnur. Allt eru þetta þó tilbrigði sem voru komin fram fyrir 1950 og eru ótvírætt rétt mál samkvæmt skilgreiningunni sem vísað er í hér að framan.

Í grein í Ritinu 2013 segir Höskuldur Þráinsson prófessor frá námskeiði sem hann var með við Háskóla Íslands vorið 2012 og hét „Eru málvillur rétt mál.“ Þar fengu nemendur „það verkefni að skoða hvort einhver þeirra atriða sem menn hefðu fundið að í blöðum og tímaritum snemma á síðustu öld virtust hafa liðið undir lok, horfið úr málinu eða hörfað umtalsvert þegar leið á öldina eða í upphafi þessarar. Þar er skemmst frá að segja að yfirleitt var ekki hægt að finna nein dæmi um slíkan árangur. […] Í aðalatriðum virtust menn sem sé vera að hjakka ár eftir ár og áratug eftir áratug í sömu atriðunum í þessum málfarsathugasemdum, m.a. í þágufallssýkinni alræmdu. Það bendir til þess að árangurinn hafi ekki orðið mjög mikill.“

Málfarsumræða á þessum nótum er ótrúlega ófrjó og gagnslítil og sannarlega ekki til þess fallin að efla áhuga ungs fólks á íslenskunni. En ekki nóg með það – hún getur beinlínis gert skaða. Höskuldur segir: „Leiðrétting á stöku atriði sem styðst við reglu í máli þess sem í hlut á getur gert hann óöruggan, valdið því að hann hættir að treysta málkennd sinni og jafnvel eyðilagt regluna í máli hans og þannig í raun valdið málspjöllum.“ Við þurfum að hætta að amast við tilbrigðum sem komu upp fyrir mörgum áratugum, hafa náð til verulegs hluta þjóðarinnar og eru ótvírætt „rétt mál“ samkvæmt viðurkenndri skilgreiningu – við þurfum að þora að viðurkenna þessi tilbrigði sem góða og gilda íslensku. Íslenskan má nefnilega vera alls konar.

Öll kvár í verkfalli

Flest vita væntanlega – og verða áþreifanlega vör við – að það er kvennaverkfall í dag eins og nokkrum sinnum áður undanfarna tæpa hálfa öld. En að þessu sinni eru það ekki bara konur sem leggja niður störf, heldur líka kvár. Það hefur leitt til þess að orðið kvár hefur verið mjög áberandi í fréttum að undanförnu, en borið hefur á því að fólk kannist ekki við orðið, átti sig ekki á merkingu þess, og kunni ekki með það að fara. Það er mjög eðlilegt – þetta er nýlegt orð sem hingað til hefur aðallega verið notað í tengslum við kynsegin samfélagið. Og það er ekki bara orðið sem er nýtt – merkingarmið þess er líka nýtt í huga langflestra málnotenda. Við erum flest alin upp við það að kynin séu bara tvö en þurfum nú að laga okkur að nýjum veruleika.

Orðið kvár vísar til fólks sem skilgreinir sig utan kynjatvíhyggjunnar, hvorki sem karl né konu. Orðið tengist engu sérstöku – er bara hljóðaröð sem var ónotuð í málinu. Það kom fram í nýyrðasamkeppni Samtakanna 78 árið 2020 en hafði áður eitthvað verið notað í kynsegin samfélaginu. Einnig komu fram orðin mágkvár og svilkvár sem nota má um kynsegin fólk sem hliðstæður við mágur / mágkona og svili / svilkona. Enn fremur var nefnt að hægt væri að nota -kvár sem seinni lið í samsetningum í stað -kona eða -maður. Í sömu keppni kom einnig fram orðið stálp (sbr. lýsingarorðið stálpaður) sem hliðstæða við strákur og stelpa. Vitanlega er eðlilegt að það taki tíma að venjast þessum orðum og fólk felli sig misvel við þau í byrjun.

Orðið kvár er hvorugkynsorð og því endingarlaust í nefnifalli og þolfalli fleirtölu eins og hvorugkynsorð eru jafnan – öll kvár eru í verkfalli, ég hitti mörg kvár, o.s.frv. En þótt flest orð með þessa stofngerð séu hvorugkyns – hár, tár, sár, ár o.fl. – segir stofngerðin ekki ótvírætt til um kynið því að -ár er líka til í karlkynsorðum (klár) og kvenkynsorðum (ár). Þetta stuðlar að því að fólk sem er óvant orðinu gefur því stundum endingar í föllum sem eiga að vera endingarlaus og segir t.d. kvárar í nefnifalli fleirtölu og kvára í þolfalli. Þetta er í sjálfu sér ánægjulegt því að það sýnir hversu sterkt beygingarkerfið er í okkur – málkenndinni finnst að þarna eigi að vera ending því að vissulega er langalgengast að orð fái endingar í þessum föllum.

En þarna á sem sé ekki að vera nein ending frekar en í öðrum hvorugkynsorðum, þótt eðlilegt sé að fólk sem er óvant orðinu geri mistök í meðferð þess. Undanfarna daga hef ég tvisvar orðið var við aðra beygingu orðsins í Ríkisútvarpinu og sent ábendingar um það, og í bæði skiptin var brugðist vel við og beygingin leiðrétt umsvifalaust. Þegar við venjumst orðinu venjumst við líka endingarleysinu í nefnifalli og þolfalli fleirtölu og það hættir að trufla málkenndina, rétt eins og endingarleysið í mörg hár / sár / tár / ár truflar okkur ekki neitt. Mikil notkun orðsins í tengslum við verkfall kvenna og kvára leiðir væntanlega til þess að almennir málnotendur læra orðið og átta sig á merkingu þess og beygingu. Það er gott, því að þetta er mikilvægt orð.

Tómstund

Nýlega var spurt hér út í notkun orðsins tómstund í eintölu í merkingunni 'áhugamál'. Ég hafði rekist á þessa notkun orðsins í háskólaritgerð og fór því að kanna málið. Orðið tómstund er gamalt í málinu, kemur fyrst fyrir á 16. öld, og merkir bókstaflega 'tóm stund' – Íslensk orðabók skilgreinir það sem 'frístund, stund eða tími þegar ekki þarf að gegna skyldustörfum'. Íslensk-dönsk orðabók frá 1920-1924 skýrir eintöluna 'Fritime, Fritid' en fleirtöluna 'ledige timer'. Í eldri dæmum er orðið oftast í eintölu en í seinni tíð er það langoftast í fleirtölunni tómstundir, eins og kemur fram í því að í Íslenskri nútímamálsorðabók er eintalan gefin án skýringar og vísað á fleirtöluna sem er skýrð 'tíminn þegar ekki þarf að gera skylduverk, frístundir'.

Í orðasafni í tómstundafræði í Íðorðabankanum er hugtakið tómstundir aftur á móti skilgreint svo: „Meðvituð athöfn í frítíma sem byggir á frjálsu vali einstaklingsins, skapar tækifæri til reynslu og hefur jákvæð áhrif á velferð og lífsgæði.“ Þessu fylgir ítarleg skýring þar sem segir m.a.: „Tómstundir eiga sér yfirleitt stað í frítíma en ekki er allt sem gert er í frítíma tómstundir.“ Þarna er sem sé búið að taka orð sem vísar til tíma og það látið vísa til athafna í staðinn. Þetta má væntanlega rekja til þess að tómstund er notað sem þýðing á enska orðinu leisure sem einmitt getur vísað bæði til tíma og athafna – 'the time when you are not working or doing other duties' og 'activities people do when they are not working, to relax and enjoy themselves'.

Orðið tómstundastarf hefur lengi verið notað um 'viðfangsefni unnið í frístundum' – elsta dæmi um það orð er frá 1919. Tæp átta þúsund dæmi eru um orðið á tímarit.is og um fimm þúsund í Risamálheildinni. Orðið tómstundagaman var einnig mjög algengt – um það eru tæp fjögur þúsund dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1924. Það er þó minna notað í seinni tíð – dæmin í Risamálheildinni eru aðeins tæp 900. Orðið tómstundastarfsemi hefur einnig verið notað en er miklu sjaldgæfara. Við þetta má svo bæta orðinu áhugamál sem Íslensk nútímamálsorðabók skýrir 'eitthvað sem einhver gerir sér til ánægju (í frístundum sínum), tómstundagaman, hobbí' – merking þess er þó víðari og það er einnig skýrt 'málefni sem einhverjum er hugleikið'.

En nú er sem sé farið að nota orðið tómstund, í eintölu og fleirtölu, í þessari merkingu. Í Morgunblaðinu 2008 segir: „Ég held að samkvæmisdans sé eina íþróttin og tómstundin þar sem karlmenn eiga að stjórna.“ Í DV 2011 segir: „Hver er uppáhalds tómstundin eða afþreying?“ Í Víkurfréttum 2016 segir: „Sjóðurinn aðstoðar fjölskyldur sem eru undir viðmiðunarmörkunum einnig við að greiða fyrir eina tómstund fyrir hvert barn og skólamat.“ Í Morgunblaðinu 2021 segir: „Svo þarf líka að hlúa að þeim sem eru í hestamennsku sem tómstund og eru ekki að keppa.“ Í Fjarðarfréttum 2021 segir: „Foreldrar þurfa því að leggja út fyrir íþróttinni eða tómstundinni.“ Hér væri í öllum tilvikum hægt að nota ýmist tómstundastarf eða áhugamál.

Vitanlega er mjög algengt að merking orða breytist smátt og smátt í málsamfélaginu – það er fullkomlega eðlilegt. Meðvituð merkingarbreyting þar sem orð eru tekin og gefin ný merking eða eldri merkingu hliðrað aðeins til – og málfræðilegri hegðun stundum líka – er ekki heldur neitt einsdæmi. Alþekkt dæmi eru sími og skjár, og nýlegt dæmi er bur. En þar vantaði í öllum tilvikum íslensk orð, og endurnýttu orðin voru að mestu eða öllu leyti horfin úr notkun í upphaflegri merkingu. Aftur á móti er orðið tómstundir sprelllifandi í þeirri merkingu sem það hefur alltaf haft. Þess vegna er í meira lagi hæpið að taka það og breyta merkingu þess, ekki síst þar sem fyrir voru í málinu orð sem hafa þá merkingu sem tómstundum var gefin.

Meiri líkur en minni

Orðasambandið meiri líkur en minni er mikið notað um þessar mundir. Það er ekki gamalt – elsta dæmi sem ég finn um það er í Einherja 1984 þar sem segir: „Ef þessi breyting á skipinu hefði ekki verið gerð […] eru meiri líkur en minni á því að Siglfirðingur SI 150 hefði lent á uppboði.“ Annað dæmi er í DV 1991: „Hann telur fundinn hafa verið jákvæðan og eftir hann séu meiri líkur en minni að það verði reist nýtt álver á Íslandi.“ Á seinni hluta tíunda áratugarins verður þetta orðalag svo algengt og einkum eftir aldamót. Tæp 700 dæmi eru um það á tímarit.is og rúm 1700 í Risamálheildinni. Öfug röð, þ.e. minni líkur en meiri, kemur líka fyrir en er margfalt sjaldgæfari – 63 dæmi á tímarit.is, það elsta frá 1994, og 152 í Risamálheildinni.

Þótt líkur sé langalgengasta orðið í þessu sambandi koma önnur nafnorð einnig fyrir, svo sem upplýsingar, hagsmunir, líkindi, tími, viðbúnaður o.fl. Í sjálfu sér er þetta orðasamband dálítið sérkennilegt – meiri líkur en hvað? Meiri líkur en minni líkur? Og þá minni líkur en hvað? Í samanburði af þessu tagi er venjulega eitthvert ytra viðmið – meiri líkur en í fyrra, meira en helmings líkur, meiri líkur en áður var talið, o.s.frv. En þarna er sambandið eiginlega borið saman við sjálft sig ef svo má segja. Það má vel halda því fram að þarna skorti einhvern röklegan grundvöll og „rökréttara“ væri að segja t.d. meira en helmings líkur. En meiri líkur en minni hefur unnið sér hefð, fólk er farið að þekkja það og það misskilst varla. Ekkert að því.

Ég er oní kjallara niðrí bæ

Í dálknum „Þankabrot Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1942 segir: „Sú hræðilega málvilla virðist breiðast út eins og skæð farsótt, að vera »ofan í« einhverju í stað: »niðri í«.“ Í Útvarpstíðindum 1943 segir: „Menn tala um að vera ofan í bæ, vera ofan í fjöru o. s. frv., í stað þess að segja ber að vera niðri í bæ, vera niðri í fjöru.“ Í „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1951 segir: „Önnur slæm málvilla sést öðru hverju í blöðunum og er algeng í talmáli unglinga. Það er að segja „ofan í“ fyrir „niðri í“.“ Í Íslendingi-Ísafold 1972 segir: „Á síðari árum heyrist æ oftar „ofan í“ fyrir „niðri í.“ Blaðamenn dagblaðanna eru óðum að ánetjast þessari nýju málvillu […].“ En „málvillan“ var reyndar alls ekki ný 1942, hvað þá 1972, eins og heimildir sýna vel.

Í Skólablaðinu 1909 skrifar Jón Þórarinsson: „Sunnlendingar (og víst Múlsýslingar og ef til vill fleiri) segja: Eg geymi hnykilinn »ofan í« skúffu; bærinn stendur »ofan í« dalnum o.s.frv. »Ofan í« í merkingunni »niðri í« er svo daglegt brauð hjer í Rvík, að menn er farið að greina á um það, hvort ekki megi alveg á sama standa, hvort heldur sagt er. Og sumir hafa alveg hausavíxl á þessum orðum.“ Jón taldi sig hafa kveðið „þetta sunnlenska »ofan í«  niður“ hjá börnunum. „En svo kemur átta ára stelpan með »Norðurland« í hendinni og segir hróðug: Pabbi, líttu á! Hjerna stendur: Ofan í spiladósinni er ljósastika með logandi kerti; og þetta skrifar Einar Hjörleifsson [Kvaran]; og mátti eg þá ekki líka segja um daginn, að stúlkurnar væru ofan í kjallara að þvo?“

En þótt þessi málvenja sé orðin meira en aldargömul er enn verið að amast við henni. Í Málfarsbankanum segir: „Orðin ofan í og niður í, sem eru sömu merkingar, eru notuð um hreyfingu: þau létu sig síga niður/ofan í hellinn. Orðin niðri í eru notuð um dvöl á stað: þau héldu til niðri í hellinum. Samkvæmt þessu gengi ekki að segja „þau héldu til ofan í hellinum“ sem er þó útbreidd málvenja.“ Málfarsbankinn slær því greinilega dálítið úr og í með þetta. Þar segir einnig: „Atviksorðið niðri er notað um dvöl: vera niðri í fjöru. Atviksorðið niður er nota um hreyfingu: fara niður í fjöru.“ Í kverinu Gætum tungunnar frá 1984 segir: „Rétt væri að segja: Hann var uppi á fjallinu en kom ofan hlíðina niður í dalinn og er nú niðri við ána.“

En hvað þótti athugavert við að nota ofan í um dvöl? Vissulega vísar ofan oftast til hreyfingar niður, og í áðurnefndum „Þankabrotum Jóns í Grófinni“ í Íslendingi 1951 segir: „Það er hægt að fara ofan en ekki vera ofan.“ Það er alveg rétt, en það skiptir máli hvort sagt er ofan í eða bara ofan. Það má færa rök að því að ofan í sé orðið að sérstöku orði (sbr. orðalag Málfarsbankans hér að framan) enda er það nánast alltaf borið fram oní (og iðulega skrifað þannig líka – hátt í 6.600 dæmi eru um þann rithátt í Risamálheildinni). Þótt ofan eitt og sér vísi oftast til hreyfingar eins og áður segir þarf oní ekki að gera það. Í nútímamáli er mjög algengt að nota ofan í um dvöl – og líklega ekki mörgum ljóst að eitthvað hafi þótt athugavert við það.

Svipað er með niður í sem Málfarsbankinn bendir á að vísi til hreyfingar – það er oft notað um dvöl, eins og ofan í, og sú notkun er varla yngri en notkun ofan í um dvöl. Í Þjóðólfi 1890 segir: „öll önnur föt hans voru niður í koffortinu.“ Í Plógi 1900 segir: „Hefur það að líkindum verið niður í Akratungum.“ Í eðlilegum framburði falla niðri í og niður í venjulega saman, hvort tveggja borið fram niðrí (og 13.400 dæmi um þann rithátt í Risamálheildinni). Það má þess vegna halda því fram að niðrí sé orðið sjálfstætt orð, eins og oní, sem notað sé bæði um hreyfingu og dvöl. Þótt bæði ofan í og niður í hafi upphaflega aðeins átt við um hreyfingu er því komin löng hefð á að nota samböndin um dvöl og fráleitt að amast við því.

Ég þori því ekki

Í mínu ungdæmi þótti hræðileg „málvilla“ að segja ég þori því ekki í stað ég þori það ekki. Þetta var álíka vont og hin illræmda „þágufallssýki“ mér langar, mér vantar o.þ.h., og raunar oft fellt undir hana þótt þágufallið með þora sé annars eðlis. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er nefnt að þágufall sé notað með þora á Vestfjörðum og flest hinna fáu dæma um þágufallið frá fyrsta þriðjungi 20. aldar á tímarit.is eru úr ísfirskum blöðum. Í Vestra 1917 segir: „sumar halda jafnvel að þær hafi ekki leyfi til að ráða kennara fyrir hærri laun, eða þora því ekki vegna almennings.“ Í Skutli 1926 segir: „Og svo fór Wilson úr forsetastól að hann þorði því ekki“. Í Vesturlandi 1934 segir: „Munu þeir máske helzt þora því, er þeir vita Jón Auðunn fjarstaddan.“

Við þessu var lengi amast. Í Samtíðinni 1943 segir Björn Sigfússon: „Þágufallssýkin, sem kölluð er, nær til æ fleiri sagna með hverju ári og veldur glundroða. […] Rangt er að þora því ekki, en rétt að þora það ekki.“ Í Íslendingi 1951 segir: „Þágufallspestin færist með ári hverju í aukana. Má heita, að annarhvor unglingur og nokkuð af fullorðnu fólki segist ekki „þora því“ […].“ Í Vísi 1956 segir Eiríkur Hreinn Finnbogason: „Gömul þágufallssýki er það að nota þgf. með sögninni að þora, segja þora því, þora engu í staðinn fyrir þora það, þora ekkert. Þetta ætti að varast, þó að gamalt sé sums staðar.“ Í Morgunblaðinu 1996 er spurt: „Væri rétt að segja: Hann sagðist ekki þora því?“ og svarað: „Rétt væri: Hann sagðist ekki þora það.

Það kvað þó við annan tón í greininni „Um málvöndun“ eftir Halldór Halldórsson prófessor sem birtist fyrst í Stíganda 1943. Þar segir: „Á Vesturlandi er alþýðumál að segja: Ég þori því ekki. Á Norðlendinga orkar þetta sem ambaga, því að þeir segja: Ég þori það ekki. En þetta myndi á sama hátt vera talin málleysa á Vestfjörðum. Hvorir hafa nú rétt fyrir sér? Ef þetta er athugað í fornum ritum, kemur í jós, að norðlenzkan er upprunalegri. En er hún að réttari? Ég sé ekki rök fyrir því. Ég þori því ekki er orðið sameiginleg villa um Vestfjörðu, og það veitir réttinn […]. Hvort tveggja er því jafnrétt, annað er vestfirzka, en hitt norðlenzka.“ Halldór var frá Ísafirði og trúlegt að hann hafi alist upp við þora því – sem gæti hafa haft áhrif á mat hans.

A.m.k. hafði hann ekki sömu afstöðu til mér langar heldur sagði: „Er þetta rétt mál? Því fer fjarri. Og ástæðan til þess er sú, að það hefir hvergi hlotið almenna viðurkenningu sem rétt mál. Mikill hluti þjóðarinnar í öllum landsfjórðungum finnur, að þetta stríðir gegn málkennd hans, mönnum finnst þetta vera málvilla, og meðan svo er, getur þetta ekki talizt sameiginleg villa og hefir því engan rétt á sér.“ Og hann bætti við: „Það mætti því segja, að það eitt sé rétt mál, sem hlotið hefir þá viðurkenningu að vera rétt mál.“ En síðan þetta var skrifað eru liðin 80 ár og notkun þágufalls með langa, vanta og fleiri sögnum hefur breiðst mjög út. Mörgum finnst þetta ekki vera málvilla, heldur er það eðlilegt mál þeirra. Það er tími til kominn að viðurkenna það.

Þrátt fyrir að Halldór Halldórsson viðurkenndi þora því fyrir 80 árum var lengi haldið áfram að amast við því eins og sýnt er hér að framan. Í Morgunblaðinu 2006 var birt ábending undir fyrirsögninni „Gætum tungunnar“ sem áður hafði birst í samnefndu kveri 1984: „Rétt er að segja: Ég þori það, þú þorir það, hann eða hún þorir það, þeir, þær eða þau þora það.“ Ég hef grun um að mörgum finnist enn að þora því sé rangt – í Morgunblaðinu 2012 birti Baldur Hafstað bréf frá kennara sem sagði: „Þegar ég var barn leiðrétti mamma mig alltaf þegar ég sagði „ég þori því ekki“. Ég átti að segja „ég þori það ekki“ og síðan ég loks lærði það hef ég haldið mig við það. Nú segja flestir þori því ekki, maður tekur eftir ef einhver segir þorir það.“

Þetta er í raun óvenju skýrt dæmi um þá ósamkvæmni og tilviljanir sem birtast í því hvaða tilbrigði í máli eru „viðurkennd“ og hver ekki. Í Málfarsbankanum segir: „Sögnin þora stýrði upprunalega þolfalli en er nú líka farin að stýra þágufalli. Bæði kemur því til greina að segja ég þori það ekki og ég þori því ekki.“ En auðvitað mætti segja nákvæmlega hliðstætt um langa, vanta, dreyma og fleiri sagnir – þær stýrðu upprunalega þolfalli á frumlagi sínu en eru nú líka farnar að stýra þágufalli. Samt er mér langar, mér vantar og mér dreymir enn talið rangt. Þó að það komi ekki fram þykir mér einsýnt að á bak við samþykki Málfarsbankans við þora því liggi áðurnefnd skoðun Halldórs Halldórssonar, sem væntanlega tók mið af hans eigin máli.

En fleiri dæmi má nefna um að málnotkun sumra málnotenda vegi þyngra en annarra þegar spurt er hvað sé „rétt mál“. Í málfarsþætti í Morgunblaðinu sem áður er vísað til sagði Baldur Hafstað, eftir að hafa nefnt að samkvæmt Íslenskri orðabók teldust þora það og þora því jafngild orðasambönd: „Mér hefur verið sagt að þora því tíðkist mjög á Vestfjörðum. Í sinni ágætu skáldsögu, Hjarta mannsins, sem gerist þar vestra, segir Jón Kalman: „… hann þorir ekki öðru en að taka við …“ Hér stýrir sögnin þora semsagt þágufalli.“ Síðan segir: „Jón Kalman er sannur töframaður í stílbrögðum og málbeitingu.“ Á bak við þetta virðist liggja sú hugmynd að málfar slíks stílsnillings hljóti að vera rétt – fyrst hann notar þora því megum við hin það líka.

Að koma úr gagnstæðri átt

Í Málvöndunarþættinum sá ég vísað í frétt um bíla sem lentu í árekstri og „komu úr gagnstæðri átt“. Málshefjandi sagðist „freistast til að halda að þeir hafi komið sinn úr hvorri áttinni“. Um þetta hefur nokkrum sinnum áður verið fjallað í Málvöndunarþættinum, m.a. í innleggi sem ég skrifað þar sjálfur fyrir fjórum árum og sagði þá: „Í fréttum af umferðarslysum er mjög oft talað um „gagnstæða átt“, t.d. „bílarnir komu úr gagnstæðum áttum“, „rakst á bíl sem kom úr gagnstæðri átt“ o.s.frv. Mér sýnist á tímarit.is að tíðni þessa sambands hafi aukist verulega á síðustu áratugum. Það er auðvitað ekkert að þessu en vel mætti þó hafa meiri fjölbreytni í orðalagi, segja t.d. „bílarnir komu hvor á móti öðrum“, „rakst á bíl sem kom á móti“ o.s.frv.“

Orðalagið úr gagnstæðri átt er gamalt í árekstralýsingum. Í Heimskringlu 1893 segir: „En þá vildi svo til að inn rauðhærði Merkúríus Mr. Pleggits kom með jafn-hraðri ferð og í álíka vígamóði fyrir sama húshorn úr gagnstæðri átt, og sá hvorugr annan fyrri en þeir runnu hvor í fang öðrum á strætishorninu.“ Í Ísafold 1893 segir: „Eitt sinn kom Smith á flugferð fyrir götuhorn, en í sömu svipan bar hinn unga mann þar að viðlíka hratt úr gagnstæðri átt. Skullu þeir hvor á annan og fjellu af baki.“ Í Reykjavík 1910 segir: „Hraðlest, sem var á leið frá Berlín til Vínarborgar rakst með fullri ferð á flutningslest, sem kom úr gagnstæðri átt.“ Í Vísi 1912 segir: „Bifreið hans rakst á tvær aðrar bifreiðar er komu úr gagnstæðri átt.“

Þarna er alltaf byrjað að nefna annan aðilann en hinn kemur svo úr gagnstæðri átt við hann. Það er ekki fyrr en mun síðar að farið er að nefna báða aðila í sömu andrá og þeir sagðir koma úr gagnstæðum áttum – í fleirtölu. Í Alþýðublaðinu 1960 segir: „Ökumenn og hestamenn þurfa á mun meiri viðbragðsflýti að halda, ef hestar og bifreiðar koma úr gagnstæðum áttum á sama vegarhelmingi.“ Í Vísi 1965 segir: „Annar bíllinn var vörubifreið en hinn sendiferðabifreið og komu þeir úr gagnstæðum áttum.“ Í Vísi 1970 segir: „Tveir bílar, sem komu úr gagnstæðum áttum, rákust þar á á töluverðum hraða.“ Í Morgunblaðinu 1971 segir: „Bílarnir komu úr gagnstæðum áttum, en sá er var á norðurleið ætlaði hins vegar að beygja vestur Álfheima.“

En fljótlega var einnig farið að nota eintöluna, úr gagnstæðri átt, í dæmum af þessu tagi. Í Alþýðublaðinu 1971 segir: „Tildrög voru þau, að um klukkan hálf eitt í nótt komu tveir bílar úr gagnstæðri átt eftir Hringbraut og mættust þeir á móts við hús nr. 81.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þar komu tveir jeppar úr gagnstæðri átt, en í stað þess að mætast eðlilega, óku þeir beint saman og var höggið mikið.“ Í Alþýðublaðinu 1973 segir: „Þeir komu úr gagnstæðri átt og mættust á miðri leið.“ Í Vísi 1976 segir: „Komu bílarnir úr gagnstæðri átt og lentu saman á blindhæð.“ Í Morgunblaðinu 1977 segir: „Engin boð- eða bannmerki eru þarna, sem gefa ökumönnum er koma úr gagnstæðri átt til kynna hvor skuli víkja fyrir hinum.“

Bæði eintala og fleirtala hafa því tíðkast í setningum af þessu tagi í meira en hálfa öld, en eintalan virðist þó talsvert algengari. Sumum finnst þó órökrétt að nota eintölu þar sem áttirnar eru ómótmælanlega tvær og því hljóti að vera eðlilegra að segja komu úr gagnstæðum áttum. En hvor bíll (eða hvað svo sem það er sem lendir í árekstri) kemur þó aðeins úr einni átt – hinn kemur úr gagnstæðri átt. Þegar sagt er bílarnir komu úr gagnstæðri átt merkir það 'gagnstæðri átt hvor við annan' en óþarft er að segja hvor við annan því að það segir sig sjálft. Það er komin löng hefð á bæði eintölu og fleirtölu í slíkum setningum og engin hætta á misskilningi. Það breytir því ekki að ekkert væri á móti því að nota stundum annað orðalag til tilbreytingar.