– eða þar

Fyrir nokkru skrifaði ég hér um orðasambandið eða þannig sem oft er notað í enda segðar „þegar við treystum okkur ekki til eða viljum ekki eða nennum ekki að útskýra nákvæmlega það sem um var rætt eða lýsa því, og treystum á að viðmælendur eða lesendur þurfi ekki eða hafi ekki áhuga á að vita öll smáatriði“. En annað ekki ósvipað samband sem oft er notað í hliðstæðri merkingu er eða þar. Það er mjög algengt í óformlegu talmáli en kemst mjög sjaldan á prent og þess vegna er erfitt að átta sig á hversu gamalt það er í málinu. Ég hef ekki fundið nein dæmi um það á tímarit.is en þau gætu þó vissulega leynst þar – vegna tíðni sambandsins eða þar í annarri notkun (ekki síst hér eða þar) er erfitt að leita af sér allan grun.

Eitt dæmi er að finna í héraðsdómi frá 2018: „Þeir hafi ekið „sveitaleiðina“ sunnan megin við Selfoss og komið inn rétt hjá Ljónsstöðum eða þar.“ Annað dæmi er á vef Ríkisútvarpsins 2014: „Það er ekkert sem stoppar Jökulsána að fara yfir í Kreppu, innan við Upptyppinga eða þar.“ En auk þess eru í Risamálheildinni um 50 dæmi af samfélagsmiðlum, það elsta á Bland.is 2002: „Þær voru keyptar í Kringlunni í búðinni á móti Auganu eða þar.“ Á Hugi.is 2004 segir: „þetta er svona ljósrofi, þarna litli hvíti kassinn í miðjunni eða þar.“ Á Bland.is 2005 segir: „Ég er nefnilega búin að vera með verk hægramegin í mjöðminni eða þar.“ Á Bland.is 2006 segir: „Skómarkaðnum úti á Fiskislóð minnir mig, æ þarna hjá Granda eða þar.“

Eins og þarna sést er elsta dæmið frá 2002, en það sýnir aðeins að þessi notkun er a.m.k. meira en 20 ára gömul – gögn af samfélagsmiðlum ná ekki lengra aftur í tímann. Þetta samband gæti þess vegna verið mun eldra. Eins og dæmin sýna er eða þar notað þegar mælandinn er ekki viss á staðsetningu eða getur ekki tilgreint hana nánar – eða óþarfi er að nefna nákvæma staðsetningu. Þetta getur vísað til hvers kyns staðsetningar – bæði utanhúss og innan, og einnig á líkamanum. Það er freistandi að tengja þetta við sambandið eða þannig sem oft er notað á mjög svipaðan hátt eins og nefnt er í upphafi. Það samband er frá því um 1980 þannig að mér þykir líklegt að þessi notkun sé a.m.k. ekki eldri, án þess að hægt sé að fullyrða nokkuð um það.

Reykneskur

Ég var spurður hvort hægt væri að nota lýsingarorðið reykneskur, af Reykjanes – hliðstætt reykvískur, af Reykjavík. Svarið við því er ekki alveg einfalt. Yfirleitt er hægt að búa til lýsingarorð af staðaheitum með viðskeytinu -sk(ur), en oft þarf að gera ákveðnar breytingar á grunnorðinu, bæði hljóðbreytingar og styttingar. Af staðaheitum sem enda á -fjörður eru leidd lýsingarorð sem enda á -firskur,  svo sem hafnfirskur, súgfirskur; af -vík kemur -vískur, svo sem reykvískur, húsvískur; , af -dalur kemur -dælskur, svo sem bárðdælskur, svarfdælskur; af -ey kemur -eyskur, svo sem færeyskur, grímseyskur; o.fl. Yfirleitt er fyrri hluti grunnorðsins styttur í eitt atkvæði – Hafnar- > hafn-, Súganda- > súg-, Reykja- > reyk-, Svarfaðar- > svarf-, o.s.frv.

Vissulega eru til í málinu fjölmörg orð sem enda á -neskur en þau eru ekki komin af staðheitum sem enda á -nes eins og ætla mætti, heldur er um að ræða viðskeytið -nesk(ur) sem er komið af germanska viðskeytinu *-iskaeins og -sk(ur). Afbrigðið -nesk(ur) varð til í orðum eins og himinn þar sem stofninn endar á -nhimin+isk verður himn-isk sem verður himnesk, og síðan er farið að skilja orðið á þann hátt að n-ið úr stofninum tilheyri viðskeytinu – himn-esk > him-nesk. Þannig verður í raun og veru til sjálfstætt viðskeyti með sömu merkingu og -sk(ur) sem síðan er notað í fjölmörgum lýsingarorðum dregnum af erlendum staða- eða þjóðflokkaheitum – baskneskur, keltneskur, lettneskur, rússneskur, slavneskur, svissneskur, tyrkneskur o.s.frv.

En þótt viðskeytið -sk(ur) sé mjög virkt í myndun lýsingarorða af margs konar staðaheitum eins og áður segir eru lýsingarorð af einhverjum ástæðum yfirleitt ekki mynduð á þennan hátt af staðaheitum sem enda á -nes. Við höfum ekki *álftneskur, *borgneskur, *drangsneskur, *langneskur – og ekki heldur *reykneskur. Samt ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að mynda slík orð – það verður ekki betur séð en þau séu í fullu samræmi við önnur orð mynduð með -sk(ur). Hugsanlegt er að málnotendur forðist (ómeðvitað) slíka orðmyndun af því að þessi orð myndu líta út eins og þau væru mynduð með -nesk(ur). Það viðskeyti er aðeins notað á erlend heiti, og e.t.v. höfum við tilfinningu fyrir því að það eigi ekki við á íslensk staðaheiti.

Misnotkun stjórnvalda á tungumálinu

Undanfarið hálft annað ár hafa ráðherrar hvað eftir annað orðið berir að því að misnota tungumálið gróflega í pólitískum tilgangi. Í árslok 2022 tók þáverandi dómsmálaráðherra upp á því að nota orðið rafvarnarvopn í stað rafbyssa sem lengi hafði verið notað. Nokkru síðar lagði sami ráðherra fram frumvarp þar sem talað er um afbrotavarnir í stað þess sem fram að því hafði verið kallað forvirkar rannsóknarheimildir. Í vetur lagði nýr dómsmálaráðherra svo fram frumvarp um lokað búsetuúrræði sem ekki varð séð annað en væri í raun fangelsi eða fangabúðir. Nú skilgreinir sami ráðherra lýsingarorðið friðsamlegur upp á nýtt og segir að um leið og fyrirmælum lögreglu sé ekki hlýtt hætti mótmæli að vera friðsamleg.

Í öllum þessum tilvikum er augljóslega verið að reyna að slá ryki í augu almennings, hafa áhrif á almenningsálitið með notkun orða sem hafa á sér annað yfirbragð en orð sem fyrir eru, eða með því að nota orð í annarri merkingu en hefðbundið er. Þetta eru mörg dæmi á stuttum tíma og það vekur ugg, og sýnir hvað það er mikilvægt að almenningur fylgist með orðræðu stjórnvalda og gjaldi varhug við því þegar þau hagræða tungumálinu í lýsingu á athöfnum sínum – reyna að dulbúa þær með orðskrúði eða með því að breyta hefðbundinni merkingu orða. Það er merki um hugleysi og ber vott um annaðhvort vonda samvisku eða hræðslu – hræðslu við almenningsálitið. Látum stjórnvöld ekki komast upp með slíka misnotkun tungumálsins.

Hér er við hæfi að rifja upp brot úr ræðu Sigurðar heitins Pálssonar á fundi á Austurvelli fyrir tíu árum, 1. mars 2014: „Mér finnst grafalvarlegt hvernig ráðamenn hafa í svörum sínum og útskýringum stöðugt afvegaleitt tungumálið, ráðist inn í samband orðs og merkingar á skítugum skónum, reynt að rjúfa og brengla samband orðs og merkingar. […] Framkoma ráðamanna við tungumálið er kannski það alversta og hættulegasta í þessu máli öllu. […] Við höfum fylgst allnokkra hríð með árásum ráðamanna á tungumálið. Þær eru stórhættulegar vegna þess að með því að eyðileggja orð og hugtök í anda newspeak Georges Orwell í skáldsögunni 1984, með því er verið að ráðast gegn DNA þjóðarlíkamans, þjóðarsálarinnar.“ Og Sigurður hélt áfram:

„Tungumálið er grundvöllur mannlegs samfélags alls staðar, það er skemmtilega augljóst í tilfelli okkar Íslendinga. Hið ritaða orð er grundvöllur sjálfsmyndar okkar sem þjóðar, við trúum á ritaðan texta. […] Vísvitandi afvegaleiðing orða og hugtaka jafngildir spillingu tungumálsins sem síðan spillir samskiptum manna og siðferði samskiptanna. Á endanum blasir við siðrof, fyrst manna í millum, síðan siðrof þjóðfélagsins. Það felst alvarleg hætta í því þegar ráðamenn svara kröfum um að þeir standi við orð sín með útúrsnúningum. [Þ]að er fyrsta skrefið í afvegaleiðingu og spillingu tungumálsins, fyrsta skrefið til newspeak Orwells. Viljum við ganga þann veg? Þar var tungumálið notað til þess að kæfa sjálfstæða hugsun einstaklinganna.“

Hvað merkir friðsamleg mótmæli?

Í frétt Ríkisútvarpsins af mótmælum vegna ástandsins á Gaza fyrir utan ríkisstjórnarfund í gær sagði: „Lögregla beitti piparúða á mótmælendur sem lagst höfðu í götuna til að hindra umferð í kringum ríkisstjórnarfund í Skuggasundi á bak við Þjóðleikhúsið í dag.“ Aðalvarðstjóri hjá lögreglunni sagði einnig í viðtali við Ríkisútvarpið: „fólk hlýddi engum fyrirmælum“ og piparúða var því beitt „til þess að geta rýmt götuna“. Í viðtali um aðgerðir lögreglunnar á vef Ríkisútvarpsins í dag segir dómsmálaráðherra: „Ísland er lýðræðisríki og í lýðræðisríkjum virðum við rétt fólks til að tjá skoðanir sínar með friðsælum hætti. En um leið og farið er gegn skýrum fyrirmælum lögreglu þá eru mótmæli ekki lengur friðsamleg.“

Hvorki réttmæti mótmælaaðgerða né aðgerðir lögreglu eru viðfangsefni þessa hóps. Hins vegar er mikilvægt að hafa augun opin fyrir því þegar stjórnvöld misbeita tungumálinu og snúa merkingu orða á hvolf. Lýsingarorðið friðsamlegur merkir 'sem einkennist af friði' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók eða 'sem fer fram í friði, hefur frið að forsendu' samkvæmt Íslenskri orðabók. Ekkert bendir til þess að mótmælendur hafi beitt valdi, hvað þá ofbeldi, eða ógnað einhverjum. Engin hætta skapaðist af aðgerðum þeirra og þær trufluðu ekki einu sinni ríkisstjórnarfund. Enda reynir ráðherrann ekki að halda því fram, heldur réttlætir aðgerðirnar með því að mótmæli sem fari gegn fyrirmælum lögreglu séu „ekki lengur friðsamleg“.

Ég veit ekki hvort fólk áttar sig almennt á því hvað þessi orðskýring ráðherrans er hættuleg. Með þessu móti væri hægt að stöðva öll mótmæli, hvers eðlis sem þau væru, með geðþóttaákvörðun lögreglu. Að neita að hlýða fyrirmælum lögreglu felur vissulega í sér borgaralega óhlýðni, en það er skilgreiningaratriði á borgaralegri óhlýðni að hún er friðsamleg. Ef stjórnvöld komast upp með það að misþyrma merkingu orða á þennan hátt erum við komin út á mjög hættulega braut. Þess vegna er það skylda okkar við samfélagið, og við tungumálið, að vekja athygli á því þegar orð sem við vitum öll hvað þýða eru gerð merkingarlaus á þennan hátt. Það ber að fordæma harðlega.

Að samþyggja

Nýlega sá ég í Málvöndunarþættinum að verið var að gera athugasemdir við orðmyndina samþyggja á einhverri vefsíðu – fólk átti varla nógu stór orð til að lýsa furðu sinni og hneykslun á henni. Vitanlega er það rétt að venjuleg stafsetning sagnarinnar er samþykkja en þessi ritun er samt fjarri því að vera einsdæmi. Á tímarit.is eru milli tíu og tuttugu dæmi um samþyggja, en í Risamálheildinni eru 635 dæmi sem byrja á samþygg-, sem getur verið ýmist sögnin samþyggja (þ.e. samþykkja) eða nafnorðið samþyggi (þ.e. samþykki). Af þessum dæmum eru öll nema átta af samfélagsmiðlum. Það er því ljóst að í óyfirlesnum textum er þessi ritháttur mjög algengur. Þess vegna er ómaksins vert að velta því fyrir sér hvers vegna svo sé.

Venjulega er auðvitað framburðarmunur á orðum sem eru skrifuð með kk og þeim sem eru skrifuð með gg. Þar sem skrifað er kk kemur venjulega fram svokallaður aðblástur, sem er eins og h sé skotið inn á undan kk, en gg er borið fram sem langt g. Sögnin þykkja (í merkingunni 'gera þykkri') er því borin fram öðruvísi en sögnin þiggja ([θɪhca] á móti [θɪcːa] fyrir þau sem geta lesið hljóðritun). En öðru máli gegnir í áhersluleysi, eins og seinni lið samsetningar – þá kemur aðblásturinn sjaldnast fram, lokhljóðið verður stutt, og samþykkja er því venjulega borið fram alveg eins og skrifað væri samþyggja ([samθɪca]). Slíkt samfall í framburði opnar vitaskuld möguleikana á því að röng ritmynd – sem passar þó við framburðinn – sé valin.

Við þetta bætist að seinni liður sagnarinnar, -þykkja, er ógagnsær fyrir nútíma málnotendur – þeir tengja hann varla við nokkuð annað. Þetta er í raun sögnin þykja sem var þykkja í fornu máli, en ekki er við því að búast að almennir málnotendur viti það eða tengi þar á milli og þess vegna er ekki óvænt að leitað sé annað að tengingu. Ekki er ólíklegt að fólk tengi samþykkja sem skýrð er 'segja já (við e-u), fallast á (e-ð)' í Íslenskri nútímamálsorðabók við sögnina þiggja sem skýrð er 'taka við (e-u), taka (e-u) játandi' – merkingarlegur skyldleiki er augljós. Vissulega er þiggja skrifuð með i en ekki y en ritmyndin þyggja er líka mjög algeng – nærri fjögur þúsund dæmi í Risamálheildinni, þar af rúm tvö hundruð úr öðru en samfélagsmiðlum.

Það er sem sé bæði samfall í framburði og (misskilin) merkingartengsl sem geta stuðlað að því að fólk skrifi samþyggja í stað hins viðurkennda samþykkja. Hliðstæð dæmi eru ýmis í málinu – ég hef t.d. skrifað um myndir eins og reiðbrennandi og afbrigði(s)samur. Það má samt ekki skilja þennan pistil svo að ég sé að mæla með rithættinum samþyggja eða leggja blessun mína yfir hann á einhvern hátt – þótt ég sé hlynntur tilbrigðum í máli er ég almennt séð fylgjandi samræmdri stafsetningu af praktískum ástæðum. Hins vegar finnst mér mikilvægt að við reynum að átta okkur á því hvers vegna algeng frávik af þessu tagi koma upp, í stað þess að láta okkur nægja að hneykslast á þeim. Það er bæði miklu skemmtilegra og gagnlegra á allan hátt.

Að liggja á tungu

Í gær skrifaði ég hér um orðasambandið leggja (einhverjum eitthvað) á tungu. Í framhaldi af því fór ég að skoða annað samband, mjög skylt – liggja (einhverjum) á tungu, sem er ekki heldur í orðabókum. Saga og þróun þessara sambanda er svipuð þótt elsta dæmi sem ég finni um það síðarnefnda sé rúmlega hálfri öld yngra en hitt, í kvæði eftir Sigurð Jónsson frá Arnarvatni í Sunnanfara 1902: „Mér lágu ungum svo oft á tungu / þau orð, sem féllu í stuðla’ og söng.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Og það er áreiðanlegt að honum lágu stór orð á tungu, en samt sem áður var hann fyrirmyndar stýrimaður, eins og öll framkoma hans ber vott um.“ Í Morgunblaðinu 1917 segir: „Cottet gleypti þau blótsyrði, sem lágu honum á tungu.“

Í Nýjum kvöldvökum 1940 segir: „að hann loksins bar fram spurningu, sem lengi hafði legið honum á tungu.“ Í Skírni 1941 segir: „Honum lágu örvar á tungu, sem hittu í markið, þegar honum rann í skap.“ Í Tímanum 1950 segir: „Æðruorð lá ekki á tungu hans.“ Í Tímaritið Þjóðræknisfélags Íslendinga 1951 segir: „Oss grunar það jafnvel að orð eins og föðurlandsást hafi æði sjaldan legið þeim mönnum á tungu.“ Í Tímanum 1960 segir: „Þegar fjármálaráðh. mælti fyrir fjárlagafrv. í október sl., lá honum sparnaður mjög á tungu sem fyrr.“ Í Vikunni 1960 segir: „Mick þagnaði við, og lét ósögð þau orð, sem bersýnilega lágu honum á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1980 segir: „því að svörin við öllu liggja honum tamt á tungu.“

Mjög oft fylgir atviksorðið létt með sambandinu. Elsta dæmi um það er í Suðurlandi 1914: „Fáum íslenskum skáldum hefir legið ljóðið svo létt á tungu sem Þorsteini.“ Í Dagblaði 1925 segir: „Eru það blótsyrðin, sem mest ber á og virðast þau liggja flestum létt á tungu.“ Í Tímanum 1930 segir: „Öllum liggur þeim skáldamálið með allri fjölbreytni sinni létt á tungu.“ Í Heimskringlu 1940 segir: „Páll byrjaði ungur að yrkja […] og liggur auðsjáanlega stuðlað mál mjög létt á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1958 segir: „En þótt meir en vafasamt sé, að þeim hafi legið orðið lífsbarátta jafn létt á tungu og yngstu kynslóð okkar, þá er hitt jafnvíst: Þau unnu hana.“ Í Tímanum 1959 segir: „Höfundi liggja náttúrulýsingar mjög létt á tungu.“

Merking sambandsins liggja (einhverjum) á tungu er ekki alltaf nákvæmlega sú sama en er oftast auðráðin af samhengi. Það merkir 'vera hugleikið', 'verða tíðrætt um', 'vera að því kominn að segja', 'eiga auðvelt með að tala/yrkja' eða eitthvað slíkt. Sambandið var töluvert notað langt fram eftir síðustu öld en dæmum um það hefur farið fækkandi undanfarið. Í Risamálheildinni eru um fimmtíu dæmi frá þessari öld, langflest um liggja létt á tungu, ekki síst í minningargreinum – „Hann var einstakt ljúfmenni og græskulaus gamanyrði lágu honum létt á tungu“ segir í Morgunblaðinu 2001, „Danskan lá henni létt á tungu“ segir í Morgunblaðinu 2018. Eins og leggja á tungu er þetta samband sem gjarna mætti blása lífi í.

Að leggja á tungu

Í hópnum Skemmtileg íslensk orð var nýlega spurt um merkingu sambandsins leggja (einhverjum eitthvað) á tungu. Ástæða fyrirspurnarinnar var setning í Skrá um handritasöfn Landsbókasafnsins eftir Pál Eggert Ólason, þar sem talin eru upp heiti á kvæðum í tilteknu handriti og það síðasta í upptalningunni er „Harmagrátr (lagðr á tungu Þorsteini Daníelssyni að Skipalóni)“. Ég man ekki eftir að hafa heyrt þetta orðasamband notað og ég hef ekki fundið það í neinum orðabókum, hvorki um fornmál né síðari alda mál. En þegar ég fór að skoða málið nánar fann ég töluvert af dæmum um sambandið í textum allt frá því um miðja nítjándu öld og fram undir lok tuttugustu aldar, en það virðist vera nær horfið úr nútímamáli.

Elsta dæmi sem ég hef fundið er í Norðra 1859: „Þekkti jeg suma þeirra að viturleik og drengskap og þótti undarlegt að þeim gæti verið lagið annað í huga en hitt á tungu.“ Annað dæmi er úr kvæði eftir Gísla Eyjúlfsson í Íslendingi 1861: „svo að engin kjör / leggi’ oss æðru-orð á tungu.“ Í Dagsbrún 1895 segir: „þarna stendur Davíð innblásinn af guðs anda, talandi þau orð, sem guð sjálfur leggur á tungu hans.“ Í Sameiningunni 1898 segir: „Að Elízabet frændkona hennar hafði heilsað henni sem móður drottins síns hafði ekki verið hennar sök; drottinn sjálfr hafði lagt þau orð á tungu hennar.“ Í Heimskringlu 1900 segir: „ég vil biðja einhvern góðan anda að leggja mér verðug orð á tungu og samboðin þessu hátíðlega tækifæri.“

Í kvæði eftir Bjarna frá Vogi í Þjóðólfi 1902 segir: „Ást á frelsi / og fjón á helsi / lögðu ungum / þér orð á tungu.“ Í Ingólfi 1906 er „Frú Íslenzka“ ávörpuð og sagt: „Þú ert víðfræg og hefir lagt Snorra Sturlusyni, Jónasi Hallgrímssyni og öðrum snillingum ódauðleg orð á tungu.“ Í „Minni Steingríms Thorsteinssonar“ eftir Þorstein Erlingsson í Austra 1911 segir: „Og vel gjörðu, Steingrímur, vordúfur þær, sem […] lögðu þér „Vorhvöt“ á tungu.“ Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Skyldi það vera sálarþróttur feðranna frá söguöldinni, sem nú leggur niðjunum […] skáldskap þann og orðsnild á tungu?“ Í Lögbergi 1914 segir: „því þar sem rita má eða ræða af óblandinni sannfæringu, leggur sannleikurinn manni ávalt orð á tungu.“

Mjög oft er sambandið notað í skáldskap eða um skáldskap eins og dæmin hér að framan sýna, en fleira er þó til – „En veiztu, hver það er eða hverjir, sem leggja þér orð á tungu?“ er miðill spurður í Lesbók Morgunblaðsins 1970. Þegar kemur fram á seinni hluta tuttugustu aldar fer dæmum um sambandið fækkandi og eru nær horfin á þessari öld eins og áður segir – aðeins rúm tíu dæmi í Risamálheildinni og flest úr eldri textum. Nýjasta dæmið er úr Fræðaskjóðu eftir Bergljótu S. Kristjánsdóttur frá 2020: „Þannig má segja að Gerður Kristný búi til sína mynd af persónunni Gerði Gymisdóttur í Blóðhófni og leggi henni orð á tungu.“ Mér finnst þetta fallegt og skemmtilegt orðasamband sem gjarna mætti vekja aftur til lífsins.

Merking sambandsins er ekki alltaf nákvæmlega sú sama og verður að ráða hana að einhverju leyti af samhengi. Oftast er hún þó eitthvað í átt við 'leggja einhverjum orð í munn', 'veita einhverjum innblástur' eða eitthvað slíkt. Merkingin er oftast jákvæð en þó ekki alltaf – „í brjósti mannsins hló illi andinn, er lagði honum orð á tungu, og æsti geð hans til haturs og ofsókna“ segir í Ljósi og skuggum 1904. Í dæminu sem vísað var til í upphafi, „lagðr á tungu Þorsteini Daníelssyni að Skipalóni“ er merkingin sennilega 'ort í orðastað Þorsteins'. Það var altítt áður fyrr að skáld væru fengin til að yrkja erfiljóð í nafni verkbeiðandans – Þorsteinn á Skipalóni var stórbóndi sem hafði örugglega efni á því að fá skáld til slíks verks.

Að kjarna, kjarnast og kjarna sig

Í kosningaumræðu þessa dagana sést því oft haldið fram að þessi og þessi kjarni málið vel. Þótt sögnin kjarna sé ekki gömul og óvíst að hún sé öllum kunn vefst varla fyrir fólki að skilja merkinguna í þessu, út frá nafnorðinu kjarni sem hefur m.a. merkinguna 'mikilvægur partur e-s, hluti e-s sem er þungamiðjan' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þar er sögnina kjarna hins vegar ekki að finna, og ekki heldur í síðustu prentútgáfu Íslenskrar orðabókar frá 2002. Hins vegar hefur henni verið bætt inn í vefútgáfuna á Snöru þar sem hún er skýrð 'koma á framfæri meginkjarna e-s, aðalatriði máls eða fyrirbrigðis'. Augljóst er að þessi viðbót er ekki eldri en frá síðasta áratug því að notkunardæmið er þessi skáldsaga kjarnar vel tíðarandann eftir hrunið.

Sögnin virðist hafa komið inn í málið kringum aldamótin. Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Sögumanni Ofurnæfs verður eitt sinn hugsað til þess hvernig listamaður nokkur gat litið yfir farinn veg og kjarnað líf sitt í einni úthugsaðri setningu.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „E.t.v. má segja að Haydn kjarni hina klassísku tónlistarhefð.“ Í Morgunblaðinu 2002 segir: „Þetta lag kjarnar kannski þessa notalegu einlægni verksins.“ Á Vísindavefnum 2002 segir: „Áhersla skemmtigarðsins á hið barnslega kjarnar þessa staðreynd fyrir Baudrillard.“ Í Morgunblaðinu 2004 segir: „Þessi hugleiðing kjarnar tilraun sögunnar til að ná einhverju tangarhaldið á dauðanum.“ Í Morgunblaðinu 2009 segir: „Þessi orð kjarna í raun þekkingarleysi og fordóma.“

Það er athyglisvert að fyrir utan dæmið af Vísindavefnum eru öll fyrstu dæmin um sögnina úr Morgunblaðinu eða Lesbók Morgunblaðsins – frá tveimur einstaklingum, karli og konu, sem voru hjón á þessum tíma. Þau virðast hafa verið nær ein um að nota orðið fyrsta áratuginn, en upp úr 2010 fer það að breiðast út smátt og smátt, og þó sérstaklega eftir 2015. Alls eru yfir fimm hundruð dæmi um sögnina í Risamálheildinni. Mér finnst þetta ágætt orð og raunar furða að það skuli ekki hafa komið upp fyrr, sérstaklega í ljósi þess að miðmyndin kjarnast hefur verið notuð mun lengur þótt hana sé ekki að finna í orðabókum fremur en germyndina. Það er nokkuð sérkennilegt að miðmyndin skuli koma upp og breiðast út á undan germyndinni.

Elsta dæmi sem ég finn um miðmyndina er í Skírni 1974: „Í Leik að stráum er lýst fyrsta draumi Ugga Greipssonar um framtíð sína er kjarnast í spurningunni.“ Um 1980 fer miðmyndin svo að breiðast út. Í Þjóðviljanum 1980 segir: „markvissar myndhverfingar þar sem kjarnast margvíslegt inntak og skírskotanir í knöppu formi.“ Í Lystræningjanum 1980 segir: „Líkingin er markviss, og í henni kjarnast margvíslegt inntak og djörf skírskotun í knöppu formi“. Í Tímanum 1983 segir: „En heimur Péturs Gunnarssonar kjarnast hins vegar í græskulausum og lífsglöðum hlátri og glettni.“ Alls er á annað hundrað dæma um miðmyndina á tímarit.is og hátt í tvö hundruð í Risamálheildinni, þannig að hún virðist vera að breiðast út eins og germyndin.

En sögnin er líka notuð afturbeygð, kjarna sig, og þá hefur hún dálítið aðra en þó skylda merkingu. Í Skessuhorni 2006 segir: „Orð sem mikið er notað í Hjallastefnunni er orðið kjarni og „að kjarna sig.“ […] [B]örnin eru látin kjarna sig þegar þau þurfa róa sig og ná einbeitingu.“ Þessi merking kemur fram í ýmsum dæmum á seinustu árum, sennilega ættuð frá Hjallastefnunni. Í Fréttablaðinu 2013 segir: „Svínabæli í Flatey er uppáhaldsstaðurinn minn. Þar er gott að kjarna sig.“ Í Morgunblaðinu 2017 segir: „ Þegar álagið er orðið of mikið klikkar ekki að stinga af í sveitina og kjarna sig aðeins.“ Í Fréttablaðinu 2019 segir: „Jófríður hefur sjaldan verið jafn jarðtengd og í dag og nýtur þess að kjarna sig á Íslandi.“

Handklæði, þerra og þurrka

Fyrir helgi var hér sett inn gamansamt innlegg þar sem spurt var hvers vegna vettlingar heita ekki handklæði. Í því sambandi má rifja upp að handklæði er meðal orða sem urðu nánast fyrir einelti á þeim tíma sem fordómar gagnvart „dönskuslettum“ voru sem mestir – þetta var talið hrá danska, håndklæde. Jón G. Friðjónsson segir t.d. í pistli í Málfarsbankanum: „Tökuorð úr dönsku þóttu ekki til fyrirmyndar þegar undirritaður var í skóla upp úr miðri síðustu öld. Stundum var svo langt gengið að fordæmd voru alíslensk orð fyrir það eitt að þau áttu sér samsvörun eða hliðstæðu í dönsku. Eitt þessara orða var handklæði en eg minnist þess að mér var kennt að betur færi á að nota önnur orð um fyrirbrigðið, t.d. mætti nota þerru.“

Annað dæmi er úr Morgunblaðinu 1990: „Svo dæmi sé tekið – meira til skemmtunar – nefndust rúmlök rekkjuvoðir á mínu bernskuheimili, ekki mátti strauja þvott heldur var lín strokið, og handklæði nefndust þurrkur – þótt síðar fyndust að vísu dæmi þess að „dönskusletta“ þessi stæði á bókum fornum og þarmeð sloppin úr „skammarkróknum“.“ Þarna er væntanlega vísað til þess sem Jón G. Friðjónsson nefnir, að í Njálu segir: „Flosi hugði að handklæðinu og var það raufar einar og numið til annars endans.“ Þetta er reyndar ekki eina dæmið um orðið í fornu máli – alls eru 36 dæmi um það í safni Ordbog over det norrøne prosasprog. Orðið er sem sé norrænt erfðaorð sem hefur lifað bæði í íslensku og dönsku en hvorugt málið þegið það af hinu.

En jafnvel þótt um tökuorð úr dönsku væri að ræða væri það vitanlega ekki næg ástæða til að amast við orðinu handklæði, enda báðir liðir þess íslensk orð. Hitt er annað mál að merking orðsins hefur víkkað – eins og fyrri hluti þess bendir til vísaði það upphaflega eingöngu til klæðis sem notað var til að þurrka sér um hendur, en nú þurrkum við allan líkamann með handklæði. Út frá því má svo sem halda því fram að orðin þerra og þurrka væru heppilegri vegna þess að þau vísa ekki til handanna einna, en á móti kemur að þau bera það ekki með sér að eiga við þurrkun líkamans – bæði eru gefin í Íslenskri orðabók í tveim merkingum, 'handklæði' og 'klútur til að þurrka með'. Er ekki best að halda sig bara við handklæði?

Forystukonur og forkonur

Um daginn var hér nefnt að vorið 2023 samþykkti færeyska Lögþingið breytingar á „stýrisskipan“ Færeyja sem gera ráð fyrir að -kvinna komi í stað -maður í starfsheitum í stjórnsýslunni þegar konur gegna störfunum – landsstýriskvinna, løgkvinna, løgtingsforkvinna og fleira. Ég veit ekki til að það hafi komið til tals að gera sambærilega breytingu á íslenskum lögum eða stjórnarskrá. Hins vegar hafa einstakar konur sem sitja á þingi stundum titlað sig sem þingkonur eða Alþingiskonur í stað þingmenn eða Alþingismenn. Þetta tíðkaðist athugasemdalaust allt frá því að fyrsta konan var kosin á þing árið 1923 en þegar þingkonur Kvennalistans vildu kalla sig svo árið 1983 var allt vitlaust – þá fór þetta að snúast um vald.

Ég tek eftir því að kosningabarátta Katrínar Jakobsdóttur er rekin undir kjörorðinu „Kraftmikil forystukona“. Það sýnir auðvitað að eðlilegra þykir að vísa til hennar sem forystukonu en forystumanns vegna þess að orð sem enda á -maður tengjast frekar körlum í huga fólks. Fjölmörg dæmi eru því um að búin hafi verið til orð með seinni liðinn -kona við hlið orða sem enda á -maður, en ein þeirra samsetninga með -maður sem venjulega er notuð jafnt um karla og konur er formaður. Þegar Stúdentaráð Háskóla Íslands komst að þeirri niðurstöðu árið 2018 að starfsheitið formaður Stúdentaráðs væri ónothæft var ekki brugðist við með því að taka upp kvenkyns starfsheiti, t.d. forkona, heldur var karlkynsorðið forseti tekið upp í staðinn.

En orðið forkona er samt til í málinu og hefur verið síðan á nítjándu öld. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Kirkjublaðinu 1895: „En aptur útvegaði Barrows sjer fylgi margra merkra karla og kvenna, […] frú Potter Palmer forkonu, frú Charles Henrotin varaforkonu kvennstjórnarinnar á sýningunni […].“ Í Kvennablaðinu sama ár segir: „Þessi bókfærsla hefir misjafnt gildi, og fer það eftir dugnaði forkonunnar.“ Í Fjallkonunni 1898 segir: „„Þetta mál er ekki á dagskrá“, sagði forkonan.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1928 segir: „Forkona hins sósíalistiska fjelags ljet ekki segja sjer þetta tvisvar.“ Dæmin eru vissulega ekki mörg, og nokkur dæmi eru einnig um að notkun orðsins forkona sé gagnrýnd þar eð konur séu menn.

Á seinustu árum eru fáein dæmi um að konur í forystu félaga titli sig forkonur og rúm hundrað dæmi eru um orðið í Risamálheildinni. Mér dettur ekki í hug að hvetja til þess að konur taki þetta starfsheiti almennt upp, enda er ég yfirleitt lítið hrifinn af því að tengja starfsheiti við kyn þeirra sem gegna störfunum. Hins vegar finnst mér líka ástæða til að benda á að auðvitað er forkona gott og gilt orð en engin málspjöll, og engin ástæða væri til að amast við því ef það breiddist út – við þyrftum bara að venjast því. Það er engin málfræðileg ástæða fyrir því að okkur þykir eðlilegt að tala um Katrínu Jakobsdóttur sem forystukonu en undarlegt að tala um hana sem (fyrrverandi) forkonu Vinstri grænna – það er bara venja, og slíkar venjur geta breyst.