Að klára stúdentinn og stefna á lækninn

Í „Málspjalli“ var spurt hvers vegna fólk segðist vera að læra lækninn / kennarann / lögfræðinginn / hjúkkuna / smiðinn / píparann o.s.frv., og hversu gamalt þetta væri í málinu. Þótt ég þekki þetta orðalag vissulega er það ekki í mínu máli og virðist ekki vera gamalt – elstu dæmi sem ég finn um það eru rúmlega tuttugu ára gömul. Fáein dæmi frá 2003 og 2004 er að finna á samfélagsmiðlum en dæmi úr prentmiðlum eru litlu yngri. Í DV 2005 segir: „Hún lærði kennarann í fjarnámi á styttri tíma en eðlilegt þykir.“ Í DV 2005 segir: „Ég er að læra píparann.“ Í blaðinu 2006 segir: „það vakti enga undrun hjá fjölskyldunni þegar hún ákvað að læra smiðinn.“ Í Munin 2008 segir: „Er að læra lækninn og spila knattspyrnu í landi frelsisins.“

Ég hef rekist á dæmi um nokkur fleiri orð í þessu sambandi, einkum á samfélagsmiðlum – að læra prestinn / leikarann / lögguna / ljósuna. Aftur á móti kemur að læra lögfræðinginn sem nefnt var í upphaflegu spurningunni varla fyrir – aðeins tvö dæmi á samfélagsmiðlum. Ekki eru heldur dæmi um að læra *hagfræðinginn eða *viðskiptafræðinginn þótt mikill fjöldi leggi stund á þessar greinar. Ástæðan er líklega sú að umrætt samband virðist alltaf vísa til þess að mennta sig til ákveðins starfs og lögfræðingur, hagfræðingur og viðskiptafræðingur eru prófgráður en ekki starfsheiti. Það er t.d. talað um að læra prestinn en aldrei *að læra guðfræðinginn þótt ekkert nám sé til sem heiti *prestafræði eða eitthvað slíkt.

Annað samband sem einnig er notað í skyldri merkingu og er sennilega álíka gamalt er stefna á. Á vef Náttúrulækningafélags Íslands 2023 er spurt: „Menntun?“ og svarað „Útskrifast sem sjúkraliði í vor og stefni á kennarann eða iðjuþjálfann eftir það.“ Þarna er augljóslega vísað til tiltekins náms, en sama orðalag getur einnig vísað til starfsins sem námið veitir réttindi til. Í Eyjafréttum 2007 er spurt „Hvað stefnir þú á að verða í framtíðinni?“ og svarið er „Ég stefni á lækninn“. Það er hins vegar ekki gott að segja hvers vegna þessi sambönd koma upp, en líklegasta ástæðan er sú að þau eru einföld og lipur. Það er einfaldara að segja ég er að læra kennarann eða ég er að læra lækninn en ég er í kennaranámi eða ég er að læra til læknis.

Ekki er heldur ólíklegt að um sé að ræða áhrif frá orðalaginu stefna á stúdentinn í merkingunni 'stefna á stúdentspróf' og klára / taka stúdentinn í merkingunni 'ljúka stúdentsprófi'. Það er nokkru eldra, frá því um 1980. Í Helgarpóstinum 1980 segir: „Ég ætla alla vega að klára stúdentinn og reyna að halda í ballettinn á meðan.“ Í Vísi 1981 segir: „Ég stefni á stúdentinn til að byrja með, en hvað verður eftir það er óráðið.“ Í Eyjafréttum 1985 segir: „Hugurinn stendur til ferðalaga, kynnast nýju fólki og löndum, taka stúdentinn og fara í auglýsingateiknun eftir það.“ Orðalagið verða stúdent í merkingunni 'ljúka stúdentsprófi' er auðvitað gamalt og ekkert undarlegt að farið sé að nota fleiri sagnir til að tákna sömu eða skylda merkingu.

Í millitíðinni

Af einhverjum ástæðum fór ég að skoða orðið millitíð sem í nútímamáli kemur nær eingöngu fyrir í sambandinu í millitíðinni sem er skýrt 'milli tveggja tímapunkta' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Elsta dæmi um sambandið í þessari mynd er í Norðanfara 1876: „í millitíðinni skulu peningar þessir geymast og ávaxtast í hinum væntanlega „Sparisjóði“.“ Þetta samband er mjög algengt – um það eru tæp níu þúsund dæmi á tímarit.is. Af einhverjum ástæðum jókst tíðni þess snögglega upp úr 1980 og dæmi um það á tímarit.is eru nærri fimmfalt fleiri á þeim áratug en á áratugnum á undan. Þetta hefur haldist – í Risamálheildinni sem hefur einkum að geyma texta frá þessari öld eru dæmin hátt í þrettán þúsund.

En þótt millitíð hafi nú ævinlega greini í þessu sambandi hafði orðið raunar áður verið notað án greinis í a.m.k. heila öld. Í Sjálfsævisögu síra Þorsteins Péturssonar á Staðarbakka frá 1777 segir: „í millitíð vil ég eigi þegja við míns herra […] tilmælum.“ Í Húsfreyjan á Bessastöðum frá 1811 segir: „En í millitíð komst gamli fóstri að þessu.“ Myndirnar í millitíð og í millitíðinni virðast hafa verið notaðar hlið við hlið lengi vel þótt sú síðarnefnda hafi verið margfalt algengari frá því skömmu eftir að hún kom fram, en frá síðustu aldamótum hefur greinislausa myndin verið mjög sjaldgæf. Þó eru til nýleg dæmi: „Í millitíð ákvað forsætisráðherra að láta af störfum“ segir í grein eftir Hallgrím Helgason í Tímariti Máls og menningar 2010.

Sambandið í millitíðinni á sér merkingarlega samsvörun í danska orðasambandinu i mellemtiden og gæti hugsanlega verið myndað með hliðsjón af því. En mér finnst þó líklegra að það sé komið af danska orðinu imidlertid. Það orð merkir reyndar 'hins vegar, þó' í nútímadönsku en í eldri dönsku gat það einmitt merkt 'í millitíðinni'. Það samsvarar því íslenska sambandinu merkingarlega, og hljóðfræðilega samsvörunin er mun meiri en við i mellemtiden. Danska orðið imidlertid er líka án greinis sem rímar vel við það að íslenska sambandið var upphaflega greinislaust, í millitíð. Áhrif frá i mellemtiden sem er með greini kunna svo að hafa spilað inn í það að farið var að nota greini í sambandinu, í millitíðinni.

Sambandið í millitíðinni er auðvitað fyrir löngu orðið góð og gild íslenska, en það ber danskan uppruna óneitanlega með sér og þess vegna átti ég von á því að það hefði verið merkt sem óformlegt eða vont mál í orðabókum. En mér til mikillar undrunar kom í ljós að orðið millitíð er hvorki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 (og ekki heldur í viðbætinum frá 1963) né í Íslenskri orðabók – ekki heldur í nýjustu útgáfu hennar á Snöru. Það er mjög sérkennilegt að svo algengt orð og gamalt í málinu skuli hafa farið fram hjá orðabókahöfundum, allt fram að Íslenskri nútímamálsorðabók, en sýnir að orð geta verið lengi í málinu án þess að komast í orðabækur og þær er því ekki hægt að nota til að skera úr um hvort eitthvert orð sé til.

Meinfýsi eða meinfýsni?

Í „Málvöndunarþættinum“ var verið að ræða orðið meinfýsni en málshefjandi taldi sig aðeins kannast við myndina meinfýsi – án n. Báðar myndirnar eru algengar og gefnar í Íslenskri nútímamálsorðabók, þar sem síðarnefnda myndin er skýrð 'það að vera meinfýsinn, illkvittni' og greinilega talin aðalmyndin því að sú fyrrnefnda er ekki skýrð sérstaklega heldur vísað á hina. Í Íslenskri orðabók eru orðin skýrð saman undir meinfýsi, meinfýsni. Í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2019 segir: „Meinfýsi heitir eiginleiki. […]. Þyki manni orðið ekki lýsa manni fyllilega stendur annar ritháttur til boða: meinfýsni. Og það er eins og auka-n-ið geri það aðeins mergjaðra.“ Þetta bendir allt til þess að litið sé á meinfýsni sem afbrigði af meinfýsi.

Elsta dæmi um meinfýsi á tímarit.is er í Austra 1900: „En mér virtist herra Laupépins tillit eigi laust við meinfýsi.“ Elsta dæmi um meinfýsni er í Tákni tímanna 1919: „Á meðan þessu fer fram, horfa aðstoðarmenn óvinarins með meinfýsni á þá, sem þeir hafa leitt til vantrúar.“ Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er aðeins meinfýsi að finna, en meinfýsni er hins vegar í Viðbæti bókarinnar sem var gefinn út 1963. Myndin meinfýsi virðist því vera aðeins eldri þótt ekki sé hægt að fullyrða um það vegna þess hversu fá dæmin eru lengi framan af. Hvorug myndin er sérlega algeng en meinfýsi hefur lengst af verið heldur algengari þótt meinfýsni virðist hafa siglt fram úr á síðustu árum ef marka má tímarit.is og Risamálheildina.

Nafnorðið meinfýsi er augljóslega myndað með i-hljóðvarpi af lýsingarorðinu meinfús sem er reyndar nánast horfið úr nútímamáli – aðeins um 50 dæmi eru um það á tímarit.is og það finnst hvorki í Íslenskri orðabók Íslenskri nútímamálsorðabók en er hins vegar í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Orðmyndun af þessu tagi er mjög algeng – við höfum t.d. nafnorðin lýsi og lýti af lýsingarorðunum ljós og ljótur, nafnorðið hýsi af nafnorðinu hús, o.s.frv. Í þessum orðum er ekkert n – það eru ekki til myndir eins og *lýsni, *lýtni o.s.frv. Nú er það auðvitað varla svo að þetta n troði sér inn í meinfýsi af einhverri tilviljun, „af því bara“, heldur hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því. Lykillinn að þessu er væntanlega lýsingarorðið meinfýsinn.

Það orð er ekki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 – elsta dæmi um það er í Vísi 1920: „Svipur hans varð þá bæði í senn, háðslegur og meinfýsinn.“ Orðið gæti verið myndað beint af meinfús með i-hljóðvarpi, eins og meinfýsi, en gegn því mælir það að meinfýsinn virðist hafa alveg sömu merkingu og meinfús og vandséð hvers vegna ástæða hefði þótt til að búa til nýtt lýsingarorð af lýsingarorði sömu merkingar. Orðið meinfús virðist alltaf hafa verið mjög sjaldgæft eins og áður segir og óvíst að margir málnotendur hafi þekkt það. Líklegra er því að lýsingarorðið meinfýsinn hafi verið myndað af nafnorðinu meinfýsi – slík orðmyndun liggur beint við. Myndunin er þá meinfús > meinfýsi > meinfýsinn frekar en meinfús > meinfýsinn.

Þetta skiptir þó í raun ekki máli – hver sem myndunarsaga lýsingarorðsins meinfýsinn er hlýtur það að vera forsenda fyrir nafnorðinu meinfýsni, með n-i. Af lýsingarorðum sem enda á -inn eru nefnilega oft leidd nafnorð sem enda á -ni, svo sem fyndinn fyndni,  glettinn glettni, heppinn heppni, hittinn hittni, (ást)leitinn ástleitni og mörg fleiri, þar sem n-ið í nafnorðinu er augljóslega ættað úr lýsingarorðinu. Sama gildir um meinfýsinn meinfýsni. Orðin meinfýsinn og meinfýsni eru álíka gömul í málinu ef marka má tímarit.is (þótt vissulega sé erfitt að draga ályktanir af því vegna dæmafæðar) og ekkert því til fyrirstöðu að málnotendur hafi myndað nafnorðið af lýsingarorðinu eftir mynstri sem var þeim vel kunnugt.

Það er því ljóst að meinfýsni er ekki eitthvert tilviljanakennt framburðar- og ritháttartilbrigði við meinfýsi, heldur eru orðin orðmyndunarlega ólík – annars vegar meinfús meinfýsi og hins vegar meinfús meinfýsi – meinfýsinn – meinfýsni (eða meinfús meinfýsinn meinfýsni). Sama máli gegnir væntanlega um tvímyndirnar vandfýsi og vandfýsni (sem er ekki í Íslenskri nútímamálsorðabók en aðalmyndin í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924) þótt tímalínan sé þar óljósari – elsta dæmi um vandfýsi er frá 1892, um vandfýsni frá 1856, um vandfýsinn frá 1874, en vandfús kemur nánast ekki fyrir (aðeins tvö dæmi frá 1934 og 1977). Báðar orðmyndunaraðferðirnar eru vitanlega góðar og gildar og ástæðulaust að gera upp á milli þeirra.

Vandinn við kröfur um íslenskukunnáttu

Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga fyrir helgi segir: „Gera þarf kröfu við starfsleyfi hjúkrunarfræðinga um kunnáttu í íslensku og þekkingu á viðeigandi lögum og reglugerðum sem eru nauðsynleg til að gera starfað sem hjúkrunarfræðingur á Íslandi.“ Í tilefni af þessari ályktun segir framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum: „Það er mjög mikilvægt fyrir Landspítalann að starfsfólkið hafi hæfni í tungumálinu, því það er öryggismál að hjúkrunarfræðingar tali íslensku.“ Hann segir „upp hafa komið atvik þar sem ónóg tungumálakunnátta hafi haft afleiðingar“ – „Ef starfsfólk skilur ekki fyrirmæli sem eru gefin og þá fær sjúklingurinn meðferðina seinna en hann hefði átt að fá hana“.

Eins og hér hefur oft verið skrifað um er eðlilegt og sjálfsagt að gera kröfu um íslenskukunnáttu til ákveðinna starfa þar sem málefnaleg rök hníga til þess að slík kunnátta skipti máli og sé jafnvel öryggismál eins og í þessu tilviki. En um leið og farið er að krefjast íslenskukunnáttu kemur upp vandamál – það er alls ekki ljóst hvað í því felst að „kunna íslensku“. Forstjóri Grundarheimilanna segir að auðvitað sé það „æskilegast að hjúkrunarfræðingar á hjúkrunarheimilum tali góða íslensku“ og langflestir þeirra erlendu hjúkrunarfræðinga sem þar vinna „geti bjargað sér á íslensku“. Það er langur vegur milli þess að geta „bjargað sér á íslensku“ og tala „góða íslensku“ – telst hvort tveggja vera fullnægjandi íslenskukunnátta?

Einkafyrirtæki geta vitanlega gert þær kröfur sem þeim sýnist til starfsfólks síns, innan marka laga og almennra siðferðilegra viðmiða. En lög og opinberir aðilar mega ekki mismuna fólki á ómálefnalegum forsendum, og mikilvægt er að átta sig á því að áður en gerðar væru kröfur um íslenskukunnáttu til tiltekinna starfa, hvort sem það væru hjúkrunarstörf eða eitthvað annað, þyrfti tvennt að liggja fyrir, hvort tveggja meira en að segja það. Í fyrsta lagi þarf að ákveða hversu mikil kunnáttan þarf að vera – dugir að geta bjargað sér, eða þarf nánast móðurmálsfærni? Eða liggja kröfurnar einhvers staðar þarna á milli – og þá hvar? Í öðru lagi – og það er aðalvandinn – þarf að hafa einhverja örugga og hlutlæga aðferð til að meta kunnáttuna.

Til að meta íslenskufærni væri eðlilegast að byggja á Evrópska tungumálarammanum (Common European Framework of Reference for Languages, CEFR) þar sem metin er hæfni fólks í skilningi (hlustun og lestri), töluðu máli (samskiptum og frásögn) og ritun. Innan rammans eru sex matsþrep, allt frá A1 (algjör byrjandi) til C2 (hefur móðurmálsfærni). Ramminn sjálfur hefur verið þýddur á íslensku og á vegum Háskóla Íslands er nú unnið að þróun rafræns hæfnimiðaðs stöðumats í íslensku sem öðru máli samkvæmt samningi sem skólinn gerði við mennta- og barnamálaráðuneytið í fyrra. Til stendur að útbúa rafræn stöðupróf sem „sem meta færni próftaka á stigum A2, B1 og B2 innan Evrópska tungumálarammans“.

Í lýsingu verkefnisins segir m.a.: „Hér er um að ræða umfangsmikla rannsóknarvinnu við að ákvarða hvaða málsértæka kunnátta og færni í íslensku tilheyri hverju færniþrepi innan rammans (A1–C2), en lögð verður sérstök áhersla á A2–B2. Verkefnið felst í að skilgreina öll einstök atriði sem skipta máli í þessu sambandi, í málfræði, hljóðfræði, stafsetningu og orðaforða, sem og almennri ritmálsfærni í íslensku. Huga verður að fyrri rannsóknum í íslensku á hverju sviði fyrir sig, spá fyrir um þá þróun sem vænta má í máltileinkuninni þegar fólk er að læra íslensku, og raða atriðunum á viðeigandi stig innan Evrópska tungumálarammans. Auk þess er stuðst við rannsóknir á skyldum tungumálum og útfærslu rammans í þeim.“

Próf af þess tagi ættu að geta orðið góður grunnur að mati á íslenskufærni, en á tilteknum starfssviðum getur auk þess getur verið eðlilegt að gera viðbótarkröfur um kunnáttu í orðaforða og málfari sem notað er á viðkomandi sviði. Aðalatriðið er að ef kröfur um íslenskukunnáttu (eða einhverja aðra kunnáttu og hæfni) eru settar í lög þarf að vera skýrt hverjar kröfurnar eru, það verður að vera hægt að mæla kunnáttuna með hlutlægum aðferðum, og fólk verður að geta gengið að skýrum upplýsingum um hvað það þurfi að gera til að uppfylla kröfurnar. Það má ekki vera geðþóttaákvörðun stjórnenda hverrar stofnunar hverju sinni sem ræðst hugsanlega af atriðum sem koma íslenskufærni ekki við, s.s. atvinnuástandi eða þörf stofnunar fyrir starfsfólk.

Sorg og sorgarferli er tvennt ólíkt

Í gær skrifaði ég um það sem ég taldi vera óheppilega notkun orðsins sorgarferli í frétt Morgunblaðsins þar sem það var notað um líðan starfsfólks lögreglustjóraembættisins á Suðurnesjum vegna skyndilegra starfsloka lögreglustjórans. Um þetta má vitaskuld deila og séra Hjálmar Jónsson gerði athugasemd við þetta í „Málspjalli“ og sagði: „Missir er margs konar og fólk tekst á við margvíslegar sorgir og áföll. Ég hef umgengist fólk í sorgum í nærri hálfa öld. Maður gengur inn í þær aðstæður með fólki eftir föngum en dettur ekki í hug að leggja dóm á hvað er mikil eða lítil sorg.“ Þetta er auðvitað rétt en kemur málinu þó í raun ekki við vegna þess að þarna er verið að tala um sorg en ekki sorgarferli og það er tvennt ólíkt.

Orðið sorgarferli er nefnilega nýlegt og eiginlega íðorð. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er íðorð – sem Guðmundur Finnbogason landsbókavörður mun hafa búið til á þriðja áratug síðustu aldar þótt það hafi verið sárasjaldgæft fram undir 1990 – skýrt ‘orð sem tilheyrir ákveðnu sérsviði, t.d. læknisfræði, fræðiorð, fagorð’ en íð (sem er nánast eingöngu notað í samsetningum eins og handíð) merkir ‘verk, iðn, starf’ eins og segir í Íslenskri orðabók. Margs konar munur er á íðorðum og orðum í almennu máli – til að íðorðin þjóni tilgangi sínum verða þau að hafa afmarkaða og skýra merkingu en merking orða í almennu máli er oft miklu óljósari og getur verið breytileg að vissu marki milli málnotenda, og getur einnig breyst með tímanum.

Elstu dæmi um orðið sorgarferli eru frá árinu 1985, úr Hjúkrun, tímariti Hjúkrunarfélags Íslands, og Ljósmæðrablaðinu. Þetta eru vitanlega fagtímarit og augljóst að orðið er þar notað sem íðorð. Ítarleg og nákvæm skýring orðsins í Íslenskri orðabók, ‘ferli viðbragða eftir áfall, s.s. dauða ástavinar, þar sem við sögu geta komið lost, afneitun og sársauki en einnig úrvinnsla tilfinninga með skilningi og að lokum einhvers konar sátt’, er líka dæmigerð fyrir skilgreiningu íðorðs, auk þess sem orðið er merkt þar sérstaklega sem fræðiorð („líf/lækn“). Orðið sorg er hins vegar ævagamalt í málinu og tilheyrir almennu máli en er ekki íðorð. Þess vegna er merking þess mun almennari og óskilgreindari – og á að vera það. Þannig er tungumálið.

Það er samt ekki svo að orð úr almennu máli og íðorð séu tveir skýrt afmarkaðir hópar sem aldrei skarist. Fjöldi orða tilheyrir báðum hópum og ræðst þá af samhengi og aðstæðum hvort orð er notað sem íðorð eða ekki. Stundum eru orð úr almennu máli tekin og gerð að íðorðum með því að hnika skilgreiningu þeirra til eða gera hana nákvæmari. Stundum er þá hætt að nota þau í almennu máli, en í öðrum tilvikum haldast þau áfram í almennri notkun til hliðar við notkunina sem íðorð. En í þessu tilviki er ljóst að orðið sorgarferli er búið til sem íðorð og þótt það sé notað í almennu máli er mikilvægt að það fái að halda skilgreiningu sinni – að öðrum kosti er hætta á að það missi gildi sitt og verði gagnslaust sem íðorð. Það væri óheppilegt.

Sorgarferli

Fyrir tólf árum lýsti Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri í Reykjavík, því yfir að hann hefði upplifað einelti á íbúafundi í Grafarvogi. Þessi notkun Jóns á orðinu einelti var gagnrýnd með vísun í ýmsar skilgreiningar á orðinu – í „Lögfræðiorðasafni“ í Íðorðabankanum segir t.d.: „Síendurtekin hegðun sem almennt er til þess fallin að valda vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður, svo sem að gera lítið úr, móðga, særa eða ógna viðkomandi eða að valda honum ótta.“ Séra Sigríður Guðmarsdóttir sagði: „Eitt helsta ein­kenni einelt­is er að þar er ráðist gegn ein­stak­lingi eða hópi og hann gerður vald­laus og ósýni­leg­ur. [...] En ég held að þegar vald­mikl­ir menn tala um einelti á hend­ur sér séu þeir að taka yfir orðræðu hinna vald­lausu.“

Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun þegar ég sá fyrirsögnina „Sorgarferli á Suðurnesjum“ í Morgunblaðinu og hélt í fyrstu að eitthvað vofeiflegt hefði gerst, en þá – og sem betur fer – reyndist fréttin snúast um skyndileg starfslok lögreglustjórans á Suðurnesjum. „Það eru all­ir slegn­ir yfir þessu og segja má að við séum í sorg­ar­ferli“ er haft eftir lögreglufulltrúa hjá lögreglustjóraembættinu. Orðið sorgarferli er skýrt ‚tímabil sorgar eftir andlát manns‘ í Íslenskri nútímamálsorðabók en skýringin í Íslenskri orðabók er öllu almennari og ítarlegri: „ferli viðbragða eftir áfall, s.s. dauða ástavinar, þar sem við sögu geta komið lost, afneitun og sársauki en einnig úrvinnsla tilfinninga með skilningi og að lokum einhvers konar sátt.“

Nú skal ég síst draga úr því að skyndilegt brotthvarf lögreglustjórans úr starfi hafi komið samstarfsfólki hans á óvart og það sé slegið og jafnvel í áfalli. En að tala um sorgarferli í því sambandi er út úr öllu korti, hvað þá sorgarferli á Suðurnesjum eins og þetta nái til alls almennings. Orðanotkun af þessu tagi er óheppileg vegna þess að hún dregur úr vægi orðsins og gerir lítið úr þeirri alvöru og sorg sem um er að ræða í raunverulegu sorgarferli. Sama gildir um ofnotkun orðsins einelti og ýmissa annarra orða sem tengjast framkomu fólks. Þetta er viðkvæmt og vandmeðfarið vegna þess að upplifun fólks getur verið svo misjöfn, en munum samt að orð geta sprungið og það getur vöknað í púðrinu eins og Sigfús Daðason sagði.

Verðið getur lækkað skart

Í morgun sá ég í frétt á vef Ríkisútvarpsins: „Verð hlutabréfa getur lækkað skart ef margir selja með skammtímagróða í huga.“ Það er ljóst af samhenginu að skart er þarna atviksorð sem merkir ‘snöggt og mikið’ eða eitthvað slíkt. Orðið er hins vegar ekki að finna í neinum orðabókum, og skömmu eftir að umrædd frétt birtist hafði skart verið breytt í skarpt – sem er raunar ekki heldur sjálfstætt flettiorð í orðabókum en er greinilega leitt af hvorugkyni lýsingarorðsins skarpur. Það er alkunna að hvorugkyn lýsingarorða er iðulega notað sem atviksorð án þess að ástæða þyki til að gera það að sjálfstæðri orðabókarflettu vegna þess að merkingin er fullkomlega fyrirsjáanleg út frá lýsingarorðinu.

Það er ekki einsdæmi að myndin skart sjáist í rituðu máli. Slæðing af dæmum má finna á tímarit.is – það elsta sem ég fann er í Harðjaxli laga og réttar 1924: „Ég heilsaði Tryggva svo skart yfir salinn, að þeim, sem á milli okkar var, kendi til.“ Í Lindinni 1957 segir: „þá var kippt svo skart í færið hjá honum að hann fór á hausinn út í vatn.“ Í Morgunblaðinu 1978 segir: „Þegar líður að þessum árstíma gengur síldin mjög skart á grynningar.“ Í NT 1985 segir: „Það brimaði mjög skart á miðvikudagskvöldið.“ Þetta er sérstaklega algengt með sögnunum hækka og lækka. Í Degi 1999 segir: „Gengið á bönkunum hefur hækkað mjög skart.“ Í Morgunblaðinu 1997 segir: „Vextir lækkuðu skart í kjölfarið.“ Í Risamálheildinni eru hundruð dæma um skart.

Þessi dæmi eru alltof mörg til að afgreiða þau sem prentvillur – þau sýna að í huga þeirra sem nota skart sem atviksorð er það sjálfstætt orð, án tengsla við skarpur. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt. Klasinn -rpt- er nánast óframberanlegur og einfaldast ævinlega í framburði, þannig að miðsamhljóðið fellur brott eins og algengast er í slíkum tilvikum og framburðurinn verður skart. Það er í raun alveg hliðstætt við það að þegar hvorugkynsendingin -t bætist við stofn lýsingarorða eins og harður og kaldur kemur út hartkalt en ekki *harðt, *kaldt – nema í því tilviki er einföldun klasans viðurkennd í stafsetningu. Raunar getur skart líka verið hvorugkyn af lýsingarorðinu skarður og þá er brottfallið viðurkennt í stafsetningunni.

Í dæmum eins og þessum, þar sem hljóð í stofni fellur ævinlega brott í framburði tiltekinnar orðmyndar, skiptir máli hversu augljós merkingartengsl viðkomandi myndar við stofninn eru í huga málnotenda. Ef þau eru augljós getur brottfallna hljóðið orðið hluti af hugmynd þeirra um myndina og kemur fram í því hvernig hún er rituð, eins og í verpt, af verpa. Séu tengslin hins vegar óskýr eru líkur á að í huga málnotenda verði viðkomandi mynd án brottfallshljóðsins og það endurspeglist þá í rithætti hennar. Lýsingarorðið skarpur hefur nokkur merkingartilbrigði en ekkert þeirra svarar nákvæmlega til þeirrar merkingar sem afleidda atviksorðið skar(p)hefur nema helst ‘beittur, hvass’ þótt vissulega sé stundum talað um skarpa lækkun hækkun.

Þessi merkingartengsl eru þó svo óljós að það er ekkert óeðlilegt að fólk sem heyrir atviksorðið skart notað tengi það ekki við lýsingarorðið skarpur og verði þess vegna ekki hluti af hljóðmynd fólks af orðinu heldur verði til nýtt og sjálfstætt atviksorð – skart. Við það er í raun ekkert að athuga. Orðið skart fellur fullkomlega að málinu, ekki síður en hart og bjart. Vissulega er hægt að koma með þá mótbáru að með því að skrifa orðið án glatist tengslin við uppruna þess, en þau tengsl eru hvort eð er óljós í huga margra og alveg eins má halda því fram að rithátturinn hart sé óheppilegur af því að hann sýni ekki tengslin við harður. Ég legg sem sé til að skart, ritað á þann hátt, sé viðurkennt sem sjálfstætt atviksorð í íslensku.

Mikilvægi umræðu um íslenskukunnáttu á vinnumarkaði

Í athyglisverðri grein eftir formann Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga á vef Vísis í gær er fjallað um fjölgun erlendra hjúkrunarfræðinga á Íslandi og vandamál sem af henni geti hlotist. Þar kemur fram að í Danmörku hafi árið 2023 verið „felld niður krafa um danskt tungumálapróf, bara hjá hjúkrunarfræðingum en ekki öðrum heilbrigðisstéttum. Í kjölfar þeirra ákvörðunar varð bein aukning í tilvikum þar sem öryggi sjúklinga var ógnað vegna tungumálavankunnáttu.“  Í greininni segir einnig: „Hér á landi er ekki gerð krafa um íslenskukunnáttu hjúkrunarfræðinga og eru mörg dæmi þess að það hefur bitnað á þjónustunni til okkar skjólstæðinga.“ Þetta er vitaskuld alvarlegt mál ef rétt er – sem ég hef enga ástæðu til að efast um.

Eins og ég hef áður skrifað um getur verið málefnalegt og eðlilegt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til þeirra sem sinna ákveðnum störfum sem fela í sér málleg samskipti við þjónustuþega. Þetta á einkum við í störfum þar sem mikilvægt er að ekkert fari milli mála – í bókstaflegri merkingu – svo sem i ýmsum störfum í heilbrigðiskerfinu. Slíkar kröfur eiga ekkert skylt við rasisma, en vandinn er hins vegar sá að oft virðast kröfur um tungumálakunnáttu byggjast á einhverju öðru en mikilvægi kunnáttunnar sjálfrar. Áðurnefnd breyting í Danmörku hefur væntanlega verið gerð til að bregðast við skorti á hjúkrunarfræðingum – ólíklegt er að hún byggist á rannsóknum sem sýni að dönskukunnátta skipti minna máli en áður var talið.

Umræðan um kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra er sama marki brennd. Hún sprettur upp í tengslum við ýmss konar óánægju með fjölgun leigubílstjóra og ástandið á leigubílamarkaðnum. Í henni er ýmsu blandað saman og þótt kröfur um íslenskukunnáttu leigubílstjóra kunni að vera málefnalegar verður ekki annað séð en verið sé að nota þær sem yfirskin til að losna við leigubílstjóra sem þykja óæskilegir af öðrum ástæðum. Þetta dæmi, og niðurfelling dönskuprófs hjúkrunarfræðinga í Danmörku, sýnir hvernig kröfur um tungumálakunnáttu stjórnast stundum af atvinnuástandi í tilteknum starfsgreinum frekar en af hagsmunum og öryggi viðskiptavina og sjúklinga – hvað þá hagsmunum tungumálsins.

Í greininni sem vísað var til í upphafi segir enn fremur: „Á meðan ekki er gerð krafa um íslenskukunnáttu af hálfu yfirvalda, freistast einstaka stofnanir til að ráða hjúkrunarfræðinga af erlendu þjóðerni til starfa áður en þeir geta átt full samskipti við sína skjólstæðinga og fylgja því jafnvel ekki eftir að þeir læri íslensku. Í þjóðfélaginu er iðulega rætt um íslenskukunnáttu ýmissa stétta. Fólk hefur pirrað sig á því að geta t.d. ekki átt samskipti á íslensku á veitingahúsum við starfsfólk og nýverið lýsti innviðaráðherra því yfir að leigubílstjórar ættu að vera skyldugir til að læra íslensku, það yrði gert af tilliti við öryggi farþega. Ég spyr því, af hverju á eitthvað annað að gilda fyrir hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk?“

Þetta er umræða sem mikilvægt er að fari fram hér – málefnaleg umræða, byggð á skýrum rökum, um hvort eðlilegt sé að gera kröfur um íslenskukunnáttu á ýmsum sviðum og til ýmissa starfa – og þá hvaða kröfur, og til hvaða starfa. Slík umræða verður að vera raunsæ og taka mið af því að innflytjendur eru ómissandi á íslenskum vinnumarkaði og halda ýmsum starfsgreinum gangandi, og einnig af því að tungumál lærist ekki á einni nóttu og eðlilegt er að fólk fái aðlögunartíma og því séu sköpuð skilyrði til námsins. En það verður að vera hægt að ræða þetta án þess að umræðan fari strax í skotgrafir og fólki sé ýmist brugðið um rasisma, útlendingahatur og þjóðrembu eða þá skeytingarleysi gagnvart íslenskunni og lítilsvirðingu í garð hennar.

Þiggur þotu af Katörum – eða Köturum

Í fyrirsögn á vef Ríkisútvarpsins í gær segir: „Trump ætlar að þiggja þotu af Katörum.“ Orðið Katörum er þágufall fleirtölu af íbúaheitinu Katari – í Málfarsbankanum segir: „Íbúar í landinu Katar (ef. Katars) nefnast Katarar.“ (Reyndar er katarar einnig til sem heiti á kristnum trúflokki en það skiptir ekki máli í þessu sambandi.) Samkvæmt íslenskum beygingarreglum er eðlilegt og óhjákvæmilegt að a í síðasta atkvæði stofns verði fyrir áhrifum frá u í beygingarendingu og þess vegna fáum við ö í Katörum – það væri óhugsandi að halda a-inu og segja *Katarum. Myndin Katörum er líka sú eina sem er gefin fyrir þágufall fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls – en hún er samt ekki sú eina sem kemur til greina.

Það væri nefnilega líka hugsanlegt að breyta seinna a-inu í stofninum í u og því fyrra í ö og fá Köturum – og sú beyging er reyndar til. Á tímarit.is eru fimm dæmi um Köturum en 18 um Katörum, og í Risamálheildinni rúm 20 um Köturum en tæp 60 um Katörum. Ef við skoðum orð með hliðstæða stofngerð við Katari kemur í ljós að þau breyta nær öll báðum a-unum í stofninum. Þágufall fleirtölu af gatari er göturum, ekki *gatörum, af hatari höturum, ekki *hatörum, af matari möturum, ekki *matörum, o.fl. Þjóðflokksheitið Tatari er þó undantekning – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er vissulega aðeins gefin upp myndin Töturum í þágufalli fleirtölu en á tímarit.is má þó finna á fjórða tug dæma um myndina Tatörum.

Tvímyndir af þessu tagi eru sannarlega ekki einsdæmi. Alþekkt er að þágufall fleirtölu af banani getur verið bæði banönum og bönunum, af sandali bæði sandölum og söndulum, og af Japani bæði Japönum og Jöpunum þótt það síðarnefnda sé vissulega sjaldgæft. Sameiginlegt með öllum þeim orðum þar sem tvímyndir koma fyrir er að þau eru tökuorð – orð af íslenskum stofni virðast aldrei leyfa myndir þar sem aðeins seinna a-ið i stofninum breytist, eins og *gatörum, *hatörum, *matörum. Það má þess vegna halda því fram að myndirnar Köturum, Töturum, Jöpunum, bönunum og söndulum séu í betra samræmi við málkerfið, séu „íslenskulegri“ í vissum skilningi en myndirnar Katörum, Tatörum, Japönum, banönum og sandölum.

Þótt erfitt sé að slá nokkru föstu um þróun tökuorðanna sýnist mér ritmálsdæmi benda til að þau aðlagist beygingakerfinu í skrefum – byrji yfirleitt á því að breyta aðeins seinna a-inu, eins og Katörum, en taki síðar smátt og smátt upp beygingarmynstur íslensku orðanna og þá koma til myndir eins og Köturum. Það er þó misjafnt eftir orðum hversu hratt þetta gerist og jafnvel hvort það gerist yfirleitt – orð eins og Albani verður t.d. aldrei *Ölbunum í þágufalli fleirtölu. Það er samt sem áður ljóst að bæði beygingarmynstrin eiga sér langa hefð í málinu og bæði Katörum og Köturum eru góðar og gildar beygingarmyndir – rétt eins og Tatörum og Töturum, Japönum og Jöpunum, banönum og bönunum, sandölum og söndulum o.s.frv.

Að feðra börn – og mæðra

Það ber sífellt meira á því að merking íslenskra orða hnikist til vegna áhrifa frá ensku. Oft er þá um að ræða orð sem eru orðsifjafræðilega og merkingarlega skyld í íslensku og ensku en merkja ekki alveg það sama, en vegna líkinda orðanna fer merkingarmunurinn fram hjá málnotendum. Eitt slíkt dæmi er sögnin feðra. Hún er gömul í málinu og merkti lengst af 'tilgreina föður að barni' eða 'ákvarða faðerni barns'. Ógiftar konur þurftu að feðra börn sín og stundum þurfti dómsúrskurð til að ákvarða faðerni barns – feðra það. Fyrir kom að ekki tækist að feðra barn þannig að það var ófeðrað, og einnig bar við að börn væru rangfeðruð. Sögnin er líka oft notuð í yfirfærðri merkingu um að 'tilgreina höfund' – feðra kvæði, feðra hugmynd o.fl.

Í seinni tíð er hins vegar algengt að sögnin feðra sé notuð sem samsvörun við ensku sögnina father sem er vissulega orðsifjafræðilega skyld, en merkir hins vegar dálítið annað – 'to become the father of a child by making a woman pregnant', eða 'verða faðir barns með því að gera konu þungaða'. Sú merking var áður tjáð með sögninni geta sem hefur m.a. merkinguna ‚gera konu barn‘ en hefur ekki verið mikið notuð í almennu máli lengi og notkun hennar í ættartölu Jesú Krists í upphafi Mattheusarguðspjalls hefur örugglega vafist fyrir ýmsum: „Abraham gat Ísak, Ísak gat Jakob, Jakob gat Júda og bræður hans“ – o.s.frv. Ég man eftir því þegar ég var að læra biblíusögur í barnaskóla að mér fannst þetta mjög undarleg málnotkun.

Elsta dæmi sem ég hef fundið um þessa nýju merkingu í feðra er í Morgunblaðinu 1976: „Þá á hann ennfremur að hafa feðrað tvíbura og er það einn liður ákærunnar á hendur honum.“ Í Vikunni 1989 segir: „Líffræðilega eru karlar ekki heftir á þennan sama hátt og margir geta feðrað börn langt fram eftir elliárunum.“ Dæmum fjölgar svo á seinni hluta tíunda áratugarins. Í Helgarpóstinum 1996 segir: „Ég hef feðrað fjórtán börn.“ Í Degi-Tímanum 1996: „Svo þótti hann alveg ótrúlega kvensamur og er sagður hafa feðrað fleiri börn en nokkur annar kóngur í Bretlandi fyrr og síðar.“ Í Vikunni 1999 segir: „Alls hefur Quinn feðrað 13 börn en þau voru ekki öll með í för.“ Í Morgunblaðinu 2000 segir: „Áður hafði hann feðrað stúlkubarn.“

Á sama hátt og sögnin feðra er mynduð af nafnorðinu faðir er vitaskuld hægt að mynda sögnina mæðra af nafnorðinu móðir en eðli málsins samkvæmt hafa verið minni not fyrir hana. Það hefur þó breyst með breyttu fjölskyldumynstri. Í héraðsdómi frá 2015 segir t.d.: „samkvæmt íslenskum lögum er ráð fyrir því gert að eftir að barn fæðist, og hefur verið mæðrað, kunni móðerni þess að vera breytt með ættleiðingu.“ Merking sagnarinnar mæðra er þarna hliðstæð hefðbundinni merkingu sagnarinnar feðra – afleidda nafnorðið mæðrun er í Lögfræðiorðasafni í Íðorðabankanum í merkingunni 'það að ákvarða móðerni barns'. En í samsetningunni staðgöngumæðrun er merkingin hliðstæð nýju merkingunni í feðra, þ.e. 'ganga með/fæða barn'.

Hin nýja merking sagnarinnar feðra virðist smám saman verða algengari þótt eldri merkingin lifi enn góðu lífi. Í fljótu bragði sýnist mér nýja merkingin ekki síst vera notuð þegar um er að ræða sæðisgjafa – „Faðir hans mun hafa feðrað á milli 500 og 1.000 börn þá þrjá áratugi, sem hann vann með sæðisbönkum“ segir t.d. í Morgunblaðinu 2013. Það eru svo sem ótal dæmi um að orð hafi fleiri en eina merkingu og í þessu tilviki er oftast ljóst af samhenginu um hvora merkinguna er að ræða – í hefðbundinni merkingu eru það t.d. yfirleitt konur (eða dómstólar) sem feðra börn en í nýju merkingunni eru það karlmenn. Samt sem áður gæti nýja notkunin ruglað fólk sem þekkir hana ekki í ríminu og rétt að hafa það í huga ef hún er notuð.