Í morgun var hér vakin athygli á því að í frétt á Vísi í gær segir: „Frá því að Grindavík var fyrst rýmd þann 10. nóvember á síðasta ári hefur bærinn verinn lokaður almenningi.“ Það er orðið verinn sem er þarna áhugavert – þarna er greinilega um sögnina vera að ræða en myndin verinn kemur hvergi fyrir í venjulegri beygingu hennar. Á eftir hjálparsögninni hafa (og einnig geta) kemur venjulega sagnbót (sem er eins og lýsingarháttur þátíðar í hvorugkyni) og því væri venjulega sagt þarna hefur verið lokaður. Í umræddri frétt er hins vegar notuð karlkynsmyndin verinn í stað hvorugkynsmyndarinnar verið vegna þess að orðið sem vísað er til, bærinn, er karlkynsorð. Ég hafði aldrei tekið eftir þessu en við nánari athugun reynist þetta ekki einsdæmi.
Elsta dæmi sem ég finn af þessu tagi er í ræðu á Alþingi 1915: „þau miklu ólæti, er hafin hafa verin hjer í bænum.“ Í Bergmálinu 1916 segir: „Sjúkrasamlög hafa verin stofnuð á nokkrum stöðum hér á landi.“ Í ræðu á Alþingi 1926 segir: „Það getur verin hin brýnasta þörf að setja lög um þetta.“ Í Rauða fánanum 1927 segir: „Þetta er hin svívirðilegasta árás á kaup verkalýðsins, sem gerð hefur verin í langa tíð.“ Í Íslenskri endurreisn 1933 segir: „Sumarið hefir hingað til verinn talið helsti bjargræðistíminn.“ Í Verkamanninum 1934 segir: „Sumum alþýðumönnum meðal kjósenda Sjálfstæðisflokksins […] hefur verin talin trú um […].“ Í Þjóðviljanum 1945 segir: „Kosin hefur verin sérstök stjórn fyrir Bókabúð Í.S.Í.“
Dæmi um þetta fara þó ekki að sjást að ráði fyrr en eftir 1980 og einkum eftir aldamót. Alls er a.m.k á áttunda tug dæma á tímarit.is og a.m.k. 130 í Risamálheildinni. Meðal nýlegra dæma eru: „á þessu ári hefur kvótinn verinn skorinn niður um 10 þúsund tonn“ í Morgunblaðinu 2000, „Samkeppnislög hafa beinlínis verin tekin úr sambandi“ í Morgunblaðinu 2006, „Lögð hefur verin áhersla á að ná góðum árangri“ á Vísi 2011, „Talin höfðu verin 8.900 atkvæði“ á vef Ríkisútvarpsins 2012, „Fyrsti hópur sýrlenska flóttafólksins sem boðin hefur verin búseta hér á landi kemur á morgun“ á mbl.is 2016, „úrlausn þeirra getur verin flókin og sár“ í Fréttablaðinu 2018, og „talinn hefur verinn um helmingur atkvæða“ í Fjarðarpóstinum 2018.
Þegar hafa er hjálparsögn tekur hún venjulega með sér svokallaða sagnbót eins og áður segir. Hún beygist ekki en hefur sama form og lýsingarháttur þátíðar í hvorugkyni – við segjum ráðherra hefur skorið kvótann niður og kjörstjórn hefur talið 8.900 atkvæði. Hjálparsögnin vera tekur hins vegar með sér lýsingarhátt þátíðar sem beygist og samræmist nafnorðinu sem hann á við í kynjum, tölum og föllum – við segjum kvótinn var skorinn niður og 8.900 atkvæði voru talin. Það sem er að gerast í dæmunum hér að framan er að í stað þess að standa sem óbeygjanleg sagnbót er sögnin vera líka látin sambeygjast nafnorðinu á sama hátt og lýsingarhátturinn sem hún tekur með sér, og því fáum við verinn skorinn, verin talin o.s.frv.
Þetta er þó kannski ekki eins mikil nýjung og virst gæti í fljótu bragði. Þótt yfirleitt sé ekki gert ráð fyrir því að vera eigi sér lýsingarhátt þátíðar er lýsingarhátturinn verinn gefinn upp í Altnordisches Lesebuch eftir Friedrich Pfeiffer frá 1860, og í Lögmannsannál, handriti frá seinni hluta 14. aldar, segir: „sú sama Margrét hafði brennd verin“. Beygður lýsingarháttur af vera kemur einnig fyrir nokkrum sinnum í þýðingu Odds Gottskálkssonar á Nýja testamentinu frá 1540 eins og Kjartan G. Ottósson bendir á í bókinni Íslensk málhreinsun, t.d. „Því að ef í Sódóma hefði þau kraftaverk gjörst sem í þér hafa gjörð verin.“ Þetta eru þó væntanlega áhrif frá frumtexta og ekki líkur á að notkunin í nútímamáli tengist þessum gömlu dæmum.
En einnig má benda á að í fornu máli er nokkuð um það að lýsingarháttur þátíðar með sögninni hafa sambeygist andlagi, t.d. „Þú hefur skaptan mig“ í sálminum „Heyr himnasmiður“ eftir Kolbein Tumason og „Hefi eg þig reyndan að góðum dreng“ í Hallfreðar sögu vandræðaskálds. Þegar í fornu máli er þó einnig algengt að í stað beygðs lýsingarháttar sé notuð óbeygð sagnbót í þessu sambandi, og stundum eru mismunandi myndir notaðar í tveimur handritum sömu sögu – „Hefi eg þig reynt að góðum dreng“ segir í öðru handriti. Jafnvel eru þess dæmi að báðar setningagerðir komi fyrir í sömu málsgrein: „þeir þræti um hvort Vésteinn hefði átt eftir dætur einar eða hefði hann áttan son nokkurn“ segir í Gísla sögu Súrssonar.
Það er samt ekki líklegt að þessi gömlu dæmi hafi bein tengsl við áðurnefnda setningagerð í nútímamáli. Hins vegar verður ekki séð að það sé neitt órökrétt að láta sögnina vera í þessari stöðu sambeygjast orðinu sem hún á við, rétt eins og lýsingarhátturinn sem hún tekur sjálf með sér – kvótinn hefur verinn skorinn niður, atkvæðin höfðu verin talin o.s.frv. En auðvitað er þetta bæði setningafræðileg og beygingarleg nýjung. Þarna er verið að láta hafa taka með sér lýsingarhátt í staðinn fyrir sagnbót, og þar að auki er verið að búa til nýjar beygingarmyndir vegna þess að sögnin vera hefur yfirleitt ekki átt sér neinn lýsingarhátt þátíðar. Þau sem telja allar nýjungar í setningagerð og beygingum til bölvunar leggjast því væntanlega gegn þessu.
En það er líka hægt að líta á þetta jákvæðari augum. Í hinni svonefndu „nýju þolmynd“ sem oft er amast við er lýsingarhátturinn alltaf í hvorugkyni eintölu í stað þess að sambeygjast frumlagi (ef það er í nefnifalli) – það var barið hana í stað hún var barin, það var fellt hann í stað hann var felldur. Breytingin leiðir því til minnkandi notkunar beygðra mynda. Í þeirri setningagerð sem hér er til umræðu er farið í öfuga átt – notuð beygð mynd sem sambeygist orðinu sem hún á við í stað óbeygðrar sagnbótar. Það er því verið að auka á beygingar, nýta beygingakerfið betur. Auk þess sýnir þessi setningagerð tilfinningu málnotenda fyrir kerfinu – þeim finnst eðlilegt að þarna komi beygð mynd en ekki óbeygð. Hvort tveggja hlýtur að teljast jákvætt.