Að renna út á tíma

Orðalagið renna út á tíma bar hér á góma í morgun og var vísað í blogg Ómars Ragnarssonar sem segir að þetta sé „enska eða enskuskotin íslenska“. Gagnrýni á þetta orðasamband er ekki ný af nálinni – Gísli Jónsson sagði í Morgunblaðinu 2001: „,,Að renna út á tíma“ er afkáraleg stæling úr ensku um það að komast í tímaþröng, tímahrak.“ Elsta dæmi sem ég finn um renna út á tíma er í Alþýðublaðinu 1988: „Við vorum að renna út á tíma, urðum að svara fyrir 15. febrúar hvort forkaupsrétturinn yrði nýttur eða ekki.“ Í ræðu á Alþingi 1988 segir: „Virðulegur forseti, er ég að renna út á tíma?“ Í DV 1989 segir: „Þeir halda því fram að verslunin takmarki framboð á íslenskum bjór til þess að tryggja sölu á erlendum bjór sem er að renna út á tíma.“

Það er trúlega rétt að þetta orðalag sé ættað úr run out of time í ensku, en það er ekki næg ástæða til að fordæma það því að samband sagnarinnar renna, atviksorðsins út og nafnorðsins tími er gamalt í málinu. Í Skírni 1886 segir: „Sá tími rann út, meðan Tórýmenn voru við stjórnina.“ Í Aldamótum 1893 segir: „tími leiptursins og jarðskjálptanna var runninn út.“ Í Ísafold 1897 segir: „svo að hann standi snauður og afrekalaus, þegar tíminn rennur út.“ Í Skýrslum um landshagi á Íslandi 1858 segir: „er 5 ára tími sá, sem skipið var leigt um, útrunninn 1. apríl.“ Í Þjóðólfi 1860 segir: „voru mennirnir með peningana ókomnir að sunnan, og sá tími útrunnin sem þeirra var von.“ Í Þjóðólfi 1864 segir: „Hér stóð nú kálfrinn í kúnni, og vopnahléstíminn útrunninn.“

Í bloggi sínu vísar Ómar í orðalagið falla á tíma úr skákmáli og hugnast það betur en renna út á tíma sem hann segir „á góðri leið með að ryðja notkun íslenskra orða, svo sem „að falla á tíma““. Orðalagið falla á tíma virðist reyndar ekki vera mjög gamalt – elstu dæmi sem ég finn um það eru frá miðjum sjötta áratugnum og spurningin er hvort það er eitthvað síður sniðið að ensku. Þetta heitir á ensku flag fall sem vísar til þess að „flaggið“, litli rauði vísirinn á (gamaldags) skákklukku, fellur þegar tíminn er úti. Ástæðan fyrir því að sögnin falla er notuð í íslenska sambandinu er væntanlega sú að fall er notuð í því enska. En hvað sem upprunanum líður er ljóst að ekki er hægt að nota falla á tíma í öllum merkingum sem renna út á tíma hefur.

Eins og dæmin sýna er það ekki eingöngu notað um að komast í tímaþröng eins og Gísli Jónsson nefndi, heldur einnig um það þegar eitthvað er að verða úrelt – útrunnið. En það er líka notað þegar tími sem er gefinn til að ljúka einhverju rennur út án þess að nokkuð sé aðhafst, eins og dæmið „Aðgerðin rann út á tíma“ úr áðurnefndu bloggi Ómars sýnir. Dæmum um sambandið renna út á tíma hefur fjölgað ört síðan um miðjan tíunda áratuginn og alls eru rúm 700 dæmi um það í Risamálheildinni, þar af tæp 400 úr öðrum textum en af samfélagsmiðlum. Sambandið er því greinilega orðið fast bæði í formlegu og óformlegu málsniði og ég sé enga ástæðu til að amast við því enda löng hefð fyrir því að tengja renna og tíma saman eins og áður segir.

Var hún útskúfuð eða henni útskúfað?

Í gær var hér spurt út í orðalag hliðstætt því sem sjá mátt í fyrirsögn í DV í gær, „Guðbjörgu var útskúfað“. Fyrirspyrjandi sagðist hafa alist upp við að nota nefnifall í slíkum dæmum – sé það gert er setningin Guðbjörg var útskúfuð – og spurði hvort annað væri réttara en hitt. Því er fljótsvarað að hvort tveggja er rétt. Vissulega er enginn vafi á að sögnin útskúfa stýrir þágufalli eins og fram kemur í Íslenskri nútímamálsorðabók þar sem notkunardæmið er menntamenn hafa útskúfað honum úr sínum hópi og þess vegna mætti búast við þágufalli í sambandinu var útskúfað. Þágufall á andlagi helst þótt andlagið sé gert að frumlagi í þolmyndarsetningu –  einhver hjálpaði henni í germynd verður henni var hjálpað í þolmynd, ekki *hún var hjálpuð.

Það má vissulega finna gömul dæmi um þágufall í þolmynd af útskúfa – í Austra 1887 segir: „Hvers á hinn fagri og kjarngóði sálmur séra Kristjáns Jóhannssonar […] að gjalda, að honum er útskúfað í Nb.?“ Í Sameiningunni 1887 segir: „Ekki ein rödd heyrist nú, sem mælir á móti því, að honum sé útskúfað, sem áðr var tilbeðinn af svo mörgum.“ En eins og Jón G. Friðjónsson hefur bent á eru einnig til gömul dæmi um nefnifall – Jón sýnir dæmi allt frá 14. öld, en elsta dæmi um nefnifallið á tímarit.is er í fyrsta árgangi Fjölnis 1835: „forfeður vorir kendu það umbrotum ins bundna jötuns, sem fyrir ílsku sakir var útskúfaður úr félagi guðanna.“ Í Nýrri sumargjöf 1859 segir: „Sönn að sök, útskúfuð og fyrirdæmd um tíma og eylífð.“

Það má skýra nefnifallið með því að útskúfaður getur verið lýsingarorðssagnfylling frekar en lýsingarháttur þátíðar, eins og Jón bendir á, og þá er hún var útskúfuð ekki þolmynd þótt henni var útskúfað sé það. Þolmyndin lýsir athöfn og hægt er að tilgreina geranda í forsetningarlið – henni var útskúfað af fjölskyldunni. Aftur á móti er hún var útskúfuð germynd, lýsir ástandi. Jón G. Friðjónsson segir: „Ég tel ekki efni til að telja fortakslaust að annað afbrigðið sé réttara en hitt“ og undir það má taka, enda er þetta hliðstætt við ýmsar fleiri sagnir sem hér hefur verið skrifað um, t.d. bjóða þar sem boðinn er lýsingarháttur þátíðar í mér var boðið í mat en lýsingarorðssagnfylling í ég var boðinn í mat.

Fjöldi Sómala sem eru búsettir á Íslandi

Í morgun var hér vitnað í setninguna „fjöldi Sómala sem eru búsettir á Íslandi“ og spurt hvort rétt væri að nota fleirtöluna eru búsettir frekar en láta eintöluorðið fjöldi ráða sambeygingunni og skrifa er búsettur. Þessi setning leynir dálítið á sér því að þarna er tilvísunarsetning, sem eru búsettir á Íslandi, og tvö nafnorð sem hún gæti tengst – annars vegar fjöldi og hins vegar Sómala. Ef hún tengist eintöluorðinu fjöldi ætti það orð að ráða sambeygingunni og þá fáum við eintölu, en ef hún tengist Sómala sem er fleirtala ættum við að fá fleirtölu. Í þessu tilviki finnst mér eðlilegt að líta svo á að verið sé að vísa til Sómala sem einstaklinga og tilvísunarsetningin tengist því orði, og setningin sé því rétt eins og hún er tilfærð, með fleirtölu.

Öðru máli gegnir hins vegar ef frumlag setningarinnar væri hópur Sómala frekar en fjöldi Sómala. Það væri t.d. eðlilegt að segja hópur Sómala sem er búsettur á Íslandi efndi til mótmæla vegna þess að þar er vísað til Sómalanna sem heildar – hóps. Þá er tilvísunarsetningin skilin þannig að hún tengist hópur frekar en Sómala og því er notuð eintala í henni – er búsettur. En vissulega er hugsanlegt að skilja báðar setningarnar, bæði með fjöldi og hópur, á tvo vegu – frá setningafræðilegu sjónarmiði getur tilvísunarsetningin tengst hvoru nafnorðinu sem er.Það kemur alveg til greina að segja fjöldi Sómala sem er búsettur á Íslandi og hópur Sómala sem eru búsettir á Íslandi – mér finnst það bara ekki eins eðlilegt. En það er ekki rangt.

Hins vegar kom fram í umræðum að mörgum fannst að þarna hlyti að eiga að vera eintala – fjöldi Sómala sem er búsettur á Íslandi. Mér finnst ekki ólíklegt að þar spili ofvöndun inn í og fólk blandi þessu saman við dæmi án tilvísunarsetningar eins og fjöldi Sómala eru búsettir á Íslandi – við erum vön því að vera vöruð við slíkum dæmum, eins og t.d. í Málfarsbankanum sem segir: „Orðið fjöldi vísar til margra þótt það standi sjálft í eintölu. Beygingin miðast við form orðsins, þ.e. eintöluna, fremur en merkingu þess. Fjöldi skipa fékk góðan afla (ekki: „fjöldi skipa fengu góðan afla“).“ En eins og ég hef áður bent á hefur merkingarleg sambeyging þar sem notuð er fleirtala með orðinu fjöldi tíðkast í málinu allar götur síðan í fornmáli.

Íslenska – tvítyngi – fjöltyngi

Ég var að koma af sérlega áhugaverðu málþingi með ofangreindu heiti, og undirtitlinum „Hlutverk og ábyrgð skólans í íslenskukennslu“. Þar voru flutt mjög fróðleg erindi þar sem m.a. var staðfest það sem ég hef oft skrifað um hér: Það er mikil ástæða til að hafa áhyggjur af börnum af erlendum uppruna sem alast upp á Íslandi um þessar mundir. Til að eiga jafna möguleika og börn íslenskra foreldra verða þau að ná góðu valdi á íslensku, og til að það gerist þurfa þau að vera í íslensku málumhverfi a.m.k. 40% vökutímans. En mikil enska í málumhverfi unglinga á Íslandi skerðir tíma íslenskunnar svo mikið að þrátt fyrir að skólamálið sé íslenska ná mörg börn og unglingar þar sem heimilismál er annað en íslenska ekki þessu viðmiði.

Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að það þýðir að sum börn og unglingar ná ekki móðurmálsfærni í neinu tungumáli. Ekki heimilismálinu, ekki ensku, og ekki íslensku – ekkert málanna nær því að vera í málumhverfi þeirra 40% vökutímans. Móðurmálsfærnin er forsenda fyrir árangri og velgengni á svo mörgum sviðum – hún skiptir máli fyrir rökhugsun, tilfinningagreind, félagsþroska, jafnvel verkgreind og fleira. Ef við sjáum ekki til þess að börn og unglingar nái nægilegri færni í íslensku erum við að svipta þau tækifærum til virkrar þátttöku og áhrifa í samfélaginu og dæma þau til láglaunastarfa – búa til lágstétt sem þau eru föst í og eiga enga möguleika á að komast upp úr. Það er vont fyrir fólkið, samfélagið – og íslenskuna.

En það eru ekki bara börn af erlendum uppruna sem ástæða er til að hafa áhyggjur af. Ég var að tala við leikskólakennara sem sagði mér að að á yngstu deildum leikskólanna væri meginhluti starfsfólksins stundum fólk sem kynni sáralitla íslensku. Það væru vissulega reglur um það hversu hátt hlutfall starfsfólks þyrfti að vera íslenskumælandi en eftir þeim reglum væri oft ekki farið vegna þess að íslenskumælandi starfsfólk fengist ekki. Hæfni til leikskólastarfa fer vitanlega ekki eftir móðurmáli fólks og þetta getur verið frábært starfsfólk þótt það tali ekki mikla íslensku. En þarna eru börn á mikilvægasta skeiði máltökunnar þar sem skiptir máli að þau séu á kafi í íslensku málumhverfi og það sé talað sem mest við þau á íslensku.

Á þessu sviði verðum við að taka okkur á svo um munar. Það þarf að sinna börnum af erlendum uppruna miklu betur. Ég efast ekki um að kennarar geri sitt besta en þeir eru undir alltof miklu álagi eins og kom vel fram í Kastljósi í gær. Í aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu sem nú liggur fyrir Alþingi og verður vonandi samþykkt í vor eru ýmsar góðar aðgerðir á þessu sviði en til að hrinda þeim í framkvæmd þarf fé – mikið fé – og í fjármálaáætlun næstu fimm ára sem lögð var fram í gær er ekki að sjá neinar vísbendingar um að það fé sé væntanlegt. Við þurfum líka að gera átak í að hækka hlutfall leikskólakennara og stórbæta kjör leikskólastarfsfólks þannig að unnt sé að fara eftir reglum um hlutfall íslenskumælandi starfsfólks.

Þetta málþing var vel sótt – mér sýndust vera um 80 í ráðstefnusalnum í Grósku og það var sagt að 200 manns fylgdust með í streymi. En mér fannst samsetning þátttakenda mjög athyglisverð. Ég held að það hafi verið einn karlmaður í salnum fyrir utan mig – mál af þessu tagi virðast enn vera álitin viðfangsefni kvenna sem karlmenn ómaka sig ekki við að sinna. Ég saknaði líka áhrifafólks af ýmsum sviðum – mennta- og barnamálaráðherra ávarpaði málþingið í upphafi en þurfti svo að sinna mikilvægari málum (hver sem þau gætu verið). Í hópi áheyrenda sá ég engan alþingismann, engan borgarfulltrúa, enga háskólakennara, o.s.frv. En vitanlega má vera að þetta fólk hafi allt verið að fylgjast með í streymi – ég vona það, því að þetta er svo mikilvægt mál.

Er reynslumikill sama og reyndur?

Í dag var hér spurt um orðið reynslumikill sem fyrirspyrjanda sýndist að væri æ meira notað í stað þess að vera reyndur eða með reynslu og spurði hvort þetta væri ekki nýleg tilhneiging. Svarið er játandi – elsta dæmi um reynslumikill á tímarit.is er reyndar frá 1902 – „Banalega hennar va'r löng og reynslumikil“ segir í Lögbergi. En þarna merkir orðið ekki það sama og nú, heldur þung, erfið, sem reyndi á' eða eitthvað slíkt. Elsta dæmi um orðið í nútímamerkingunni er í Stormi 1936: „Duglegustu mennirnir og reynslumestu innan stéttarinnar eru ofsóttir og rægðir.“ Annað dæmi er í Þjóðviljanum 1939: „hann hefur yfirsýn viturs manns og reynslumikils.“ En fram yfir 1960 eru aðeins fjögur dæmi um reynslumikill í nútímamerkingu.

Frá sjöunda áratugnum eru rúm 20 dæmi um orðið á tímarit.is, frá þeim áttunda um 60, en um 1980 tekur orðið mikinn kipp og notkun þess hefur farið mjög hratt vaxandi síðan. Í Risamálheildinni er á ellefta þúsund dæma um orðið – en rúm þrjátíu þúsund um reyndur þannig að það orð er a.m.k. ekki að hverfa. Orðið reynslumikill er ekki að finna í Íslenskri orðabók en í Íslenskri nútímamálsorðabók er það skýrt 'sem býr yfir mikilli reynslu'. Lýsingarorðið reyndur er aftur á móti skýrt 'sem hefur öðlast reynslu'. Þetta má e.t.v. túlka svo að reynslumikill feli í sér meiri reynslu en reyndur sem kann að vera þótt kannski sé hæpið að alhæfa um það, í ljósi þess að reyndur er skýrt 'sem hefur mikla reynslu' í Íslenskri orðabók.

En þótt merkingarmunur orðanna sé ekki augljós og mjög oft sé hægt að setja annað í stað hins finnst mér merkingin í reynslumikill vera almennari – vísa síður til einhverrar tiltekinnar reynslu. „Ég veit hvað þarf að gera og er orðinn reynslumikill“ segir í Vísi 2012. „Hann virkaði traustur, rólegur, reynslumikill, sanngjarn, vel menntaður“ segir í DV 2009. „Hann var reynslumikill, fumlaus og faglegur í sínum störfum“ segir í Morgunblaðinu 2018. Í þessum dæmum finnst mér reynslumikill vísa til almennrar reynslu, jafnvel merkja 'lífsreyndur', 'sjóaður' eða eitthvað slíkt. Ef reyndur væri notað í staðinn fyndist mér það fremur vísa til reynslu á einhverju ákveðnu sviði. En ég veit ekki hvort þetta er almenn tilfinning.

Fjarlægt var bílana

Ég sá í Málvöndunarþættinum að verið var að gera athugasemd við setninguna „Fjarlægt var bílana sem voru í árekstrinum“ í frétt mbl.is af árekstri á Ölfusárbrú. Þessu var reyndar snarlega breytt og nú stendur í fréttinni „Bílarnir sem voru í árekstrinum voru fjarlægðir“. Það er hefðbundin þolmynd af germyndinni (einhver) fjarlægði bílana – andlagið bílana er fært í frumlagssæti fremst í setningunni og sett í nefnifall, auk þess sem vera er skotið inn. Upphaflega setningin var hins vegar dæmi um hina svokölluðu „nýju þolmynd“ eða „nýju ópersónulegu setningagerð“ sem ég hef áður skrifað um. Í henni er andlagið látið halda sæti sínu á eftir sögn, og jafnframt halda þolfalli sínu, í stað þess að færast í frumlagssætið og fá nefnifall.

En ef andlagið er ekki fært í frumlagssætið stendur það tómt og einhvern veginn þarf að fylla það – ekki er hægt að byrja á sögninni og segja *var fjarlægt bílana. Í óformlegu málsniði væri frumlagssætið venjulega fyllt með það og sagt það var fjarlægt bílana. En í tiltölulega formlegu málsniði, eins og í blaðafrétt, kann þetta að virka of óformlegt. Þegar fylla þarf frumlagssætið vegna þess að setning er frumlagslaus er því oft gripið til svokallaðrar stílfærslu, þar sem sögn í fallhætti (nafnhætti eða lýsingarhætti þátíðar) er færð fremst í setninguna. Í setningunni hér á undan hefði ég getað skrifað þegar það þarf að fylla frumlagssætið en það fannst mér of óformlegt og notaði þess vegna stílfærslu í staðinn – færði nafnháttinn fylla fremst í setninguna.

Þetta er væntanlega ástæðan fyrir því að fréttaskrifarinn beitti stílfærslu og skrifaði „Fjarlægt var bílana“ en ekki það var fjarlægt bílana. En við það skapast áhugavert stíllegt ósamræmi. Stílfærsla er nefnilega einkenni á tiltölulega formlegu máli eins og áður segir, en „nýja þolmyndin“ nýtur ekki viðurkenningar sem fullgilt mál þótt þetta sé eðlilegt mál mikils fjölda yngra fólks – og muni væntanlega fara að sjást meira og meira í formlegu málsniði. Þarna lýstur sem sé saman formlegu og óformlegu málsniði og þess vegna hljómar „Fjarlægt var bílana“ svolítið undarlega í mínum eyrum, þótt ég sé orðinn vanur „nýju þolmyndinni“ og hefði ekkert kippt mér upp við það var fjarlægt bílana í töluðu máli eða á samfélagsmiðlum.

Nú þykist ég vita að mörgum finnist einu gilda hvort sagt er fjarlægt var bílana eða það var fjarlægt bílana og telji hvort tveggja jafn fráleitt og ljótt. En „nýja þolmyndin“ á sér hundrað ára sögu í málinu og hefur breiðst mikið út undanfarna áratugi, og er eðlilegt mál mjög margs fólks undir fertugu. Miðað við venjulega skilgreiningu á „réttu“ máli og „röngu“ eru því engar forsendur fyrir öðru en telja hana rétt mál. Dæmið sem vitnað var til í upphafi bendir til þess að fyrir fréttaskrifara sé hún fullkomlega eðlileg og tengist ekki sérstaklega óformlegu málsniði en hann hafi hins vegar tilfinningu fyrir því að algengasta gerð hennar með það henti illa í formlegu málsniði og betur fari á að nota formlega setningagerð eins og stílfærslu með henni í staðinn.

Hvenær hefst þrítugsaldur?

Hér hefur í dag sprottið nokkur umræða um það hvenær fólk komist á þrítugs-, fertugs-, fimmtugsaldur o.s.frv. Það er enginn vafi á því að daginn sem tuttugu ár eru liðin frá fæðingu verður maður tvítugur, daginn sem þrjátíu ár eru liðin frá fæðingu verður maður þrítugur, o.s.frv. Það er ekki heldur neinn vafi á því að málvenja er að segja að fólk sem er milli tvítugs og þrítugs sé á þrítugsaldri, fólk sem er milli þrítugs og fertugs á fertugsaldri, o.s.frv. Það er sem sé miðað við hærri tuginn, öfugt við það sem gert er í málum eins og dönsku þar sem talað er um tyverne, trediverne o.s.frv., og ensku þar sem talað er um twenties, thirties o.s.frv. Þessi málvenja hefur vissulega oft farið fyrir brjóstið á mörgum, en svona er hún nú samt.

Ég hef alltaf staðið í þeirri meiningu að fólk komist á þrítugsaldur, fertugsaldur o.s.frv. um leið og undanfarandi áratug lýkur – á tvítugsafmælinu hefjist þrítugsaldurinn, á þrítugsafmælinu hefjist fertugsaldurinn, o.s.frv. Þessi skilningur fær stuðning í orðabókum – í Íslenskri nútímamálsorðabók er þrítugsaldur í sambandinu á þrítugsaldri skýrt '20-29 ára aldur' og önnur sams konar orð á sama hátt. Í Íslenskri orðabók er þrítugsaldur skýrt 'aldurinn milli 20 og 30 ára (þó oft nær 30 ára)', fertugsaldur 'aldurinn milli 30 og 40 ára' o.s.frv. En skilningur sumra er aftur á móti sá að fólk sem er á tuttugasta og fyrsta ári sé ekki komið á þrítugsaldur, heldur standi á tvítugu – þrítugsaldurinn hefjist ekki fyrr en á tuttugu og eins árs afmælinu.

Ef fólk kemst ekki á þrítugsaldur fyrr en það verður tuttugu og eins árs gamalt er það ekki á þrítugsaldri nema í níu ár, og sama gildir um fertugsaldur, fimmtugsaldur o.s.frv. Það væri óeðlilegt ef um stærðfræði væri að ræða, en þarna er ekki verið að segja að þriðji tugur ævinnar sé aðeins níu ár, heldur þrítugsaldurinn. Það eru reyndar fordæmi fyrir því – í máli allra – að orð af þessu tagi vísi ekki til heils áratugar. Þannig merkir orðið tvítugsaldur 'aldurinn í kringum tvítugt' samkvæmt Íslenskri nútímamálsorðabók en 'aldur manns sem er kominn nálægt tvítugu (t.d. frá 16-18 ára aldri)' samkvæmt Íslenskri orðabók. Þarna er blæbrigðamunur, en engum dytti í hug að nota orðið um tíu eða ellefu ára börn þótt þau séu komin á annan tug ævinnar.

Þarna skiptir máli að gera mun á stærðfræði og málfræði. Orðið tugur er stærðfræðilegt íðorð sem miklu skiptir að við leggjum öll sömu merkingu í. Það væri óheppilegt og raunar fráleitt ef fólk færi t.d. að nota orðið tvítugur í merkingunni 'sem hefur lifað í 21 ár' eða eitthvað slíkt. Það er enginn vafi á því hvenær tveir tugir eru liðnir af ævinni. Orð eins og þrítugsaldur er hins vegar ekki íðorð og um merkingu þess fer eftir málvenju. Út af fyrir sig gæti það eins merkt ‚milli þrítugs og fertugs‘, þ.e. miðast við lægri tuginn en ekki þann hærri – en það er ekki venjan. En það getur hins vegar vel verið að tvær mismunandi venjur séu um það hvenær þrítugsaldur hefjist. Það getur verið óheppilegt og jafnvel valdið misskilningi en er ekki á neinn hátt rangt.

Íslenska í fjármálaáætlun

Fjármálaráðherra kynnti í morgun nýja fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2025-2029. Fyrir ári fór ég vandlega í gegnum síðustu fjármálaáætlun, 2024-2028, og skrifaði um hana pistil það sem ég klykkti út með því að segja: „Í heildina má segja að frá sjónarhóli íslenskrar tungu sé fjármálaáætlunin dapurleg lesning og veki litlar vonir um að íslenskan komist úr þeirri varnarstöðu sem hún er í.“ Það er skemmst frá því að segja að hin nýja fjármálaáætlun er síst ánægjulegri lesning. Þar segir vissulega að áhersla verði lögð „á að efla íslensku og íslenskt táknmál sem opinber mál á Íslandi“ og það er svo sem minnst á íslenskuna og mikilvægi hennar á ýmsum stöðum í áætluninni, t.d. í kafla um málefni innflytjenda og flóttafólks.

Í þeim kafla segir m.a.: „Innflytjendum fer fjölgandi og voru þeir 18,7% af heildarmannfjölda hér á landi, eða 74.000, 1. desember 2023. Aðgengi innflytjenda að íslenskunámi og samfélagsfræðslu þarf að vera auðvelt, m.a. með samhæfðari upplýsingagjöf en nú er, bæta þarf faglegan stuðning við kennara og tryggja fjölbreyttari leiðir til að læra íslensku og æfa talmál. Í því sambandi er hafið verkefni um þróun starfstengdrar íslenskufræðslu á vinnutíma samhliða leiðsagnarkerfi. Þá er stutt við aukna notkun stafrænna lausna þar sem læra má starfstengdan orðaforða hvar og hvenær sem er. Unnið verður áfram að útfærslum aðgerða í tillögum til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 […].“

Í kafla um grunnskóla segir: „Mæta þarf þörfum barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og barna í viðkvæmri stöðu til að stuðla að auknum jöfnuði í menntun og til að auka virkni þessara hópa í námi og starfi. […] brýnt er að styrkja kennslu þessa hóps í íslensku sem öðru tungumáli og áherslu á virkt fjöltyngi.“ Í kafla um framhaldsskóla segir: „Tryggja þarf kennslu við hæfi í hvetjandi námsumhverfi, auka íslenskukennslu og fræðslu um íslenskt samfélag og veita viðeigandi stuðning. Aukinn fjöldi umsókna barna um alþjóðlega vernd kallar einnig á aukinn stuðning skólakerfisins, s.s. sálrænan stuðning, almenna móttöku og styrkingu kennslu í íslensku sem annars tungumáls (ÍSAT) […].“

Þetta eru falleg orð sem hægt er að taka undir en þau eru samt lítils virði ef þeim er ekki fylgt eftir með fjárveitingum. Í fyrri áætlun stóð: „Tillaga til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi er í vinnslu og fjallar um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags.“ Eins og kemur fram í nýju áætluninni hefur tillagan nú verið lögð fram og „[l]eiðarstef í áætluninni eru bætt aðgengi og gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur og aukinn sýni- og heyranleiki tungumálsins“. Þessi tillaga hefur vissulega ekki verið samþykkt enn en samt hefði mátt ætla að hennar sæi víða stað í fjármálaáætluninni. En eftir því sem ég fæ best séð fer lítið fyrir því.

Ég sé a.m.k. hvergi í áætluninni að til standi að auka fjárveitingar til kennslu íslensku sem annars máls. Í áætluninni er sett fram það markmið að „Hlutfall flóttafólks sem nýtir íslenskunámskeið á fyrsta ári eftir verndarveitingu“ fari úr 75% árið 2023 í 90% árið 2029, og „Fjöldi skráninga á íslenskunámskeið viðurkenndra fræðsluaðila“ fari úr 9.691 árið 2023 í 15.000 árið 2029. En það er til lítils að setja fram mælikvarða og göfug markmið ef ekkert kemur fram um hvernig eigi að ná þeim markmiðum og ekkert fé er sett í að ná þeim. Sums staðar virðist m.a.s. unnið þvert á markmið um eflingu íslenskunnar – í áætluninni kemur t.d. fram að felld verði niður 360 milljóna króna tímabundin fjárveiting til máltækni.

Því miður er hér hægt að endurtaka óbreytt það sem ég sagði um fyrri fjármálaáætlun en í fylgigögnum nýrrar áætlunar „er fjallað um stöðu og horfur á einstökum málefnasviðum í mörgum köflum sem öllum er skipt í undirkafla á sama hátt. Meðal undirkafla eru „Helstu áskoranir“, „Tækifæri til umbóta“ og „Áhættuþættir“. Það vekur sérstaka athygli að þörf fyrir íslenskukennslu er sjaldnast nefnd í köflum um helstu áskoranir – ekki í „10.05 Útlendingamál“, ekki í „14.1 Ferðaþjónusta“, og ekki í „29.7 Málefni innflytjenda og flóttafólks“. Tækifæri sem íslenskukennsla skapar eru ekki heldur nefnd í köflum um tækifæri til umbóta, og áhættan af því að hér verði til samfélög fólks sem ekki talar íslensku er ekki nefnd í köflum um áhættu.“

Í áætluninni er gert ráð fyrir „400 m.kr. varanlegu framlagi til menningarmála þar sem m.a. er horft til stofnunar þjóðaróperu og starfslauna listamanna“. Þetta er vitaskuld ánægjulegt – íslensk listsköpun styrkir íslenskuna á ýmsan hátt. En einnig er gert ráð fyrir „8.220 m.kr. tímabundnu framlagi vegna framkvæmda við þjóðarhöll á tímabilinu 2025-2027“. Það er gott og blessað að fá nýja þjóðarhöll – sú sem við eigum er sögð of lítil og úrelt um margt. En ekki má gleyma því að við eigum óefnislega þjóðarhöll þar sem er íslensk tunga. Hún þarfnast viðhalds og styrkingar – en ef hún hrynur, eða hættir að fullnægja þörfum samfélagsins, er ekki hægt að byggja nýja. Henni veitti ekkert af átta milljarða innspýtingu. Við þurfum að gera betur.

Getur breidd verið meiri en lengd?

Einu sinni hringdi í mig maður sem hafði verið að grúska í gömlum heimildum þar sem talað var um kirkjugarð sem var 37 metrar á lengd og 43 metrar á breidd. Hann var að velta fyrir sér hvort það gæti staðist að orða þetta svona. Getur breidd verið meiri en lengd? Og þá við hvaða aðstæður? Hvernig á að ákvarða hvað er lengd og hvað breidd einhvers tvívíðs fyrirbæris? Þessar spurningar koma sjaldan upp vegna þess að yfirleitt virðist fólki finnast þetta augljóst – en hvað er það sem gerir það augljóst? Í Íslenskri nútímamálsorðabók er lengd skýrt 'það hversu langt eitthvað er' og langur skýrt 'mikill á lengdina, t.d. band eða vegur'. Aftur á móti er breidd skýrt 'það hversu breitt eitthvað er', og breiður skýrt 'mikill á þverveginn, víður'.

Þegar fyrirbærið sem um ræðir er á hreyfingu eða getur hreyfst er lengd venjulega notað um stefnuna – þegar talað er t.d. um ár er lengd fjarlægðin frá upptökum til ósa en breidd fjarlægðin milli bakka. Jökulsá á Breiðamerkursandi er ekki nema 500 metra löng og styttist ár frá ári, og svo gæti farið á endanum að lengd hennar yrði minni en breiddin – en það yrði samt haldið áfram að nota orðin lengd og breidd á þann hátt sem áður var lýst. Þegar um er að ræða t.d. hús með mæni held ég að lengd vísi alltaf til stefnu mænisins jafnvel þótt það gæti í undantekningartilvikum leitt til þess að lengd hússins yrði minni en breidd þess. Því má segja að lengd vísi í einhverjum skilningi til stefnu eða hreyfingar en breidd til fasta eða kyrrstöðu.

Langoftast er það samt þannig að lengd þess sem um er að ræða er meiri en breidd þess þar sem hægt er að finna einhverja tengingu við stefnu eða hreyfingu. En það er ekki alltaf hægt, t.d. þegar um er að ræða landspildu, hús með flötu þaki, o.m.fl. Þá er venja að lengri hliðarnar séu kallaðar lengd en þær styttri breidd – nema einhverjar aðstæður geri kleift að gera upp á milli. Ef kirkja stæði í kirkjugarðinum sem nefndur var í upphafi væri eðlilegt að fara eftir henni – lengd garðsins væri samhliða lengd kirkjunnar, jafnvel þótt það leiddi til þess að lengd hans yrði minni en breidd. Einnig gæti garðshliðið ráðið þessu – það segir til um stefnu inn í garðinn og þess vegna er eðlilegt að hliðarnar samhliða þeirri stefnu séu kallaðar lengd garðsins.

Gerum íslenskukunnáttu eftirsóknarverða

Stundum heyri ég fólk hneykslast á innflytjendum sem hafa búið hér árum saman en ekki lært íslensku og halda því fram að við eigum að gera kröfur til innflytjenda um íslenskukunnáttu. Þessi hneykslun er í sjálfu sér skiljanleg – okkur finnst sjálfsagt að fólk sem hefur ákveðið að starfa og búa í þessu samfélagi læri tungumál þess, og það ætti að vera sjálfsagt. En þarna þarf að huga að mörgu. Oft vísa slíkar athugasemdir til málnotkunar fólks í opinberri umræðu, t.d. sjónvarpsviðtölum. Það er ekkert óeðlilegt að fólk sem hefur ekki náð fullu valdi á íslensku veigri sér við að tala málið við slíkar aðstæður þótt það tali málið kannski hversdags, vegna þess að það hefur heyrt að fólk er iðulega gagnrýnt og gert gys að því fyrir hvers kyns „villur“.

Þótt það kunni að virðast æskilegt að gera kröfur til innflytjenda um íslenskukunnáttu verður að hafa í huga að slíkar kröfur verða að byggjast á málefnalegum forsendum. Í úrskurði Kærunefndar jafnréttismála nr. 4/2019 er vísað í Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði nr. 86/2018 og sagt: „Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. orkar ekki tvímælis að mati kærunefndarinnar að kröfur um tungumálakunnáttu geta í ýmsum tilvikum talist lögmætar, enda þótt þær komi að einhverju marki niður á einstaklingum sem eru af erlendum þjóðernisuppruna og búa þar með hugsanlega ekki yfir íslenskukunnáttu.“ En jafnframt segir: „Kröfur […] um íslenskuþekkingu geta því verið til þess fallnar að fara í bága við“ bann við mismunun á vinnumarkaði.

Það er auðvelt að færa málefnaleg rök fyrir mikilvægi íslenskukunnáttu við ýmis störf – afgreiðslu- og þjónustustörf, umönnunarstörf, störf á leikskólum og frístundaheimilum, og jafnvel leigubílaakstur svo að vísað sé í nýlega umræðu. Aftur á móti gegnir öðru máli um t.d. störf í byggingariðnaði, við ræstingar o.fl. Í þeim er ýmist ekki þörf mikilla mállegra samskipta eða þau samskipti hljóta hvort eð er að verða mest á erlendum málum vegna þess að vinnufélagar fólks eru af erlendum uppruna. Því væri sennilega ekki hægt að gera kröfur um íslenskukunnáttu til fólks í þessum störfum og ef við ætlumst til þess að fólkið læri íslensku verður það að byggjast á því að það finni hjá sér einhverja þörf til þess og sjái gagnsemi í því.

Í staðinn fyrir að spyrja „Hvers vegna hefur fólkið ekki lært íslensku?“ ættum við að prófa að snúa þessu við og spyrja „Hvers vegna hefði fólkið átt að læra íslensku?“. Það dugir ekki að svara bara „Af því að íslenska er opinbert mál í landinu“. Fólk leggur yfirleitt ekki á sig að læra nýtt tungumál af þeirri ástæðu einni. Ekki dettur okkur í hug að áfellast íslensku frumbyggjana í Vesturheimi sem sum hver lærðu aldrei ensku sér til gagns. Þau þurftu þess ekki vegna þess að þau bjuggu sér til íslenskt samfélag í nýju heimkynnunum. Sú staðreynd að fólk býr og starfar á Íslandi árum saman án þess að læra íslensku sýnir að fólk hefur ekki séð brýna þörf fyrir að læra málið vegna þess að það er yfirleitt hægt að bjarga sér ágætlega á ensku.

Það er ekki innflytjendunum að kenna heldur okkur sjálfum. Það erum við sem höfum leyft enskunni að verða svo fyrirferðarmikil í íslensku málsamfélagi að hún dugir fólki til allra daglegra nota. En hún nægir samt ekki til fullrar þátttöku í samfélaginu – þátttaka innflytjenda í kosningum og í almennri lýðræðislegri umræðu er mjög lítil, sýnileiki þeirra í fjölmiðlum sömuleiðis, og margt fleira mætti nefna. Það þarf að auðvelda innflytjendum eins og mögulegt er að læra íslensku en það er ekki nóg – það þarf líka að hvetja þá til að læra málið. Það verður ekki gert með boðum og bönnum, heldur með því að gera íslenskukunnáttu áhugaverða og eftirsóknarverða – sýna fram á gildi og mikilvægi fullrar þátttöku í samfélaginu.