Posted on

Hvað er snemmt?

Í „Málspjalli“ var í dag spurt um það hvenær ætti að nota snemma og hvenær snemmt. Þegar ég var að undirbúa svar við þessu komst ég að því að bæði orðin eru talin atviksorð, bæði í Íslenskri orðabók og Íslenskri nútímamálsorðabók. Sú greining á snemma er óumdeilanleg en öðru máli gegnir um snemmt. Vissulega lítur það út eins og dæmigert atviksorð – endar á -t eins og t.d. samt. En -t getur eins verið hvorugkynsending lýsingarorðs og þegar að er gáð verður ekki betur séð en snemmt hafi oftast setningarstöðu lýsingarorðs. Í stað þess er venjulega hægt að setja dæmigerðar lýsingarorðsmyndir eins og gott og vont, en alls ekki hrein atviksorð eins og vel og illa. Við getum sagt þetta er of gott/vont eins og þetta er of snemmt, en ekki *þetta er of vel/illa.

Eftir stendur samt að snemmt virðist aðeins koma fyrir í þeirri einu mynd en ekki beygjast í kynjum, tölum og föllum eins og lýsingarorð. Í Íslenskri málfræði Björns Guðfinnssonar segir: „Hvorugkyn lýsingarorða verður oft að atviksorði. Á það þá tíðast við sögnina, en lagar sig á engan hátt eftir fallorðinu. Oftast má í þessum samböndum komast að því, hvort um lýsingarorð eða atviksorð er að ræða, með því að breyta um tölu fallorðsins eða setja orð af öðru kyni í stað þess, sem fyrir er, og athuga, hvort vafaorðið lagar sig eftir fallorðinu eða ekki.“ Björn skýrir þetta með dæmunum „Hann málaði húsið rautt“ og „Hann málaði húsin rauð“ um lýsingarorð, og „Hann lyfti steininum hátt“ og „Hann lyfti steinunum hátt“ um atviksorð.

Erfitt er að beita þessu prófi á snemmt – og þegar að er gáð eru orðabækur raunar ekki á einu máli um greiningu orðsins. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið sagt „an. og adv.“, þ.e. lýsingarorð í hvorugkyni og atviksorð. Í Ordbog over det norrøne prosasprog er snemmt ekki flettiorð – dæmi um það er að finna undir lýsingarorðinu snemmur. Raunar er snemmt eina beygingarmyndin undir því flettiorði fyrir utan tvö dæmi um efsta stigið snemmst sem hefur stöðu atviksorðs í þeim dæmum – og fjögur af sex dæmum um snemmt eru einnig talin atviksorð. Í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans er snemmt ekki heldur flettiorð, heldur aðeins snemmur – og undir því er að finna ýmsar beygingarmyndir, en þó engin dæmi um snemmt.

Nokkur dæmi um aðrar beygingarmyndir lýsingarorðsins en hvorugkyn eintölu má einnig finna á tímarit.is. Í Þjóðólfi 1867 segir: „á Íslandi mundi það þykja snemmr gróðr.“ Í Eir 1899 segir: „Hún stofnar oss öllum í hættur, er haft geta snemman dauða í för með sér.“ Í Heimi 1913 segir: „En fyrir þessa snemmu fótaferð stöku manna, gekk þó fljótar að vekja á bæjunum.“ Í Nýja dagblaðinu 1937 segir: „Hann var dauðþreyttur á snemmri fótaferð kaldra morgna.“ Í Tímanum 1964 segir: „Þaðan flyzt hann á snemmum tamningaraldri vestur í Hreppa í Árnessýslu.“ Í Degi 1984 segir: „því varla að vænta mjög snemmrar blómgunar.“ Í Stúdentablaðinu 2004 segir: „Ég vissi að það væri í það snemmsta að ætla að skoða kanínur í mars.“

Það er ljóst að þótt aðrar myndir af lýsingarorðinu en snemmt hafi alltaf verið sjaldgæfar hafa þær lifað lengi í málinu og eitthvert líf virðist vera í þeim enn, jafnvel í óformlegu máli – a.m.k. eru nokkur dæmi af samfélagsmiðlum í Risamálheildinni. Á Hugi.is 2004 segir: „Mér finnst að við ættum að stofna félag gegn of snemmum jólaundirbúningi.“ Á Hugi.is 2007 segir: „Gladdu svo kallinn með snemmri jólagjöf þegar hann kemur heim úr vinnunni.“ Á Málefnin.com 2008 segir: „Mér finnst að skuggarnir séu frekar í snemmri kantinum, 8:00 eða 9:00 frekar en seinna um morguninn.“ Það kæmi því til greina að hafa lýsingarorðið snemmur í orðabókum, og a.m.k. væri eðlilegt að greina snemmt sem lýsingarorð fremur en atviksorð.

Posted on

Innviðaskuld við íslenskuna

Fyrir nokkru fórum við að átta okkur á því að við hefðum vanrækt að byggja upp ýmsa mikilvæga innviði samfélagsins eða halda þeim við, og þá varð til orðið innviðaskuld. Elstu dæmi um það eru frá 2018 en síðan hefur það breiðst mjög út og er nánast orðið tískuorð. Stundum hefur verið reynt að leggja mat á þessa skuld og í nýlegri skýrslu Samtaka iðnaðarins er hún metin á 680 milljarða, en þar er eingöngu vísað til efnislegra innviða svo sem vegakerfis, fráveitna, fasteigna o.s.frv. En við stöndum líka í innviðaskuld við óefnisleg kerfi samfélagsins svo sem heilbrigðiskerfi og menntakerfi, og það er ekki síður nauðsynlegt að greiða inn á þá skuld. Einnig hefur verið bent á innviðaskuld við skapandi greinar og íslenska menningu.

En einn er sá innviður sem hefur oftast gleymst í þessari umræðu þótt hann sé í raun forsenda fyrir tilvist íslensks samfélags. Það er íslenskan. Þess vegna var ánægjulegt að lesa viðtal Vísis við Höllu Hrund Logadóttur alþingismann þar sem hún bendir á að „tungumálið sé einn af mikilvægustu innviðum samfélagsins sem huga verði að“ og „vill að þingheimur hugsi um íslenska tungu með sama hætti og hann hugsar um innviði á borð við samgöngur og orkumál“. Þetta er meginatriði. Íslenskan er ekki einungis mikilvægasta samskiptatæki okkar og menningarmiðlari, heldur grundvallarþáttur í sjálfstæði okkar og þjóðarímynd – burðarás samfélagsins. Ef brestir koma í þann innvið er hætt við að samfélagið fari sömu leið.

Ný ríkisstjórn hefur lagt áherslu á mikilvægi þess að vinna á innviðaskuldinni og segist vera byrjuð á því. Í ljósi þess skýtur skökku við að í fjárlagafrumvarpi næsta árs er  lagt til að þeim greiðslum inn á innviðaskuld við íslenskuna sem fyrri ríkisstjórn hóf í fjárlögum þessa árs skuli nú hætt. Erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað um fimmtíu þúsund undanfarinn áratug – úr um 10% upp í um 20% íbúa. Þetta eru ekki ómagar á þjóðinni – atvinnuþátttaka þeirra er mjög mikil, og við þurfum á þeim að halda. En inngilding svo fjölmenns hóps í samfélagið, þar á meðal íslenskukennsla, er risastórt verkefni sem ekki verður hrist fram úr erminni og fráleitt að lækka fjárveitingar til þessa málaflokks þótt dregið hafi úr fólksstraumi til landsins í fyrra.

Ég trúi ekki öðru en að í meðförum Alþingis verði umrædd lækkun á framlögum til íslenskukennslu og inngildingar afturkölluð. En það er ekki nóg – við þurfum að bæta verulega í. Í skýrslu OECD um málefni innflytjenda á Íslandi sem birt var fyrir ári kom fram að fjárveitingar til kennslu íslensku sem annars máls (miðað við fjölda innflytjenda) eru ekki nema brot af því sem önnur Norðurlönd verja til kennslu í þjóðtungum sínum, og það endurspeglast í því að hlutfall innflytjenda sem telur sig hafa sæmilega færni í tungumáli landsins þar sem þeir búa er hvergi lægra en á Íslandi. Innviðaskuld okkar við íslenskuna felst ekki síst í þessu – við þurfum að verja miklu meira fé til þess að gera hana að sameign allra sem hér búa.

Við þurfum samt að varast ómálefnalega mismunun á grundvelli íslenskukunnáttu, og gæta þess að láta skort á íslenskukunnáttu ekki bitna á fólki. En það á ekkert skylt við þjóðrembu að telja mikilvægt að þau sem hér búa læri íslensku. Það er öllum í hag. Skortur á íslenskukunnáttu veldur því iðulega að verðmæt þekking og kunnátta innflytjenda nýtist ekki heldur sitja þeir fastir í láglaunastörfum og börn þeirra eru í mikilli hættu að falla brott úr námi vegna ófullnægjandi íslenskukunnáttu. Skortur á íslenskukunnáttu leiðir líka til þess að innflytjendur taka lítinn þátt í almennri þjóðfélagsumræðu og þátttaka þeirra í kosningum er mun minni en innfæddra. Í ljósi hás hlutfalls innflytjenda er þetta vitaskuld alvarlegt fyrir lýðræði í landinu.

Fjölgun innflytjenda skall fremur skyndilega á og hefur verið mjög ör og við áttuðum okkur ekki á því að nauðsynlegt væri að bregðast við henni – og vorum líka vanbúin til þess. En nú hefur margoft verið bent á, bæði í áðurnefndri skýrslu OECD og víðar, að staðan er alvarleg og íslenskan er á undanhaldi. Við höfum þess vegna enga afsökun fyrir því lengur að láta reka á reiðanum. Eftir því sem lengri tími líður án þess að við sinnum þessum málum minnka líkurnar á að innflytjendur sjái ástæðu til að læra íslensku vegna þess að það verða til samfélög þar sem íslenskan verður í raun óþörf. Til skamms tíma er kannski þægilegast og ódýrast fyrir okkur að stinga höfðinu í sandinn – en viljum við það? Nú reynir á Alþingi og ríkisstjórn.

Posted on

Hint

Innleggshöfundi í „Málspjalli“ í gær fannst „sérkennilegt og óviðeigandi“ að spurningaþáttur á sjónvarpsstöðinni Sýn (áður Stöð 2) héti „Kviss“ og vísbendingar í þættinum væru nefndar hint. Vissulega eru bæði orðin tekin óbreytt úr ensku, quiz og hint, þótt ritháttur annars og framburður beggja sé lagað að íslenskum reglum. Orðið kviss í þessari merkingu er líklega ekki mikið eldra í íslensku en síðan um aldamót, en hint er töluvert eldra. Það er að finna í Slangurorðabókinni frá 1982, skýrt 'óljós ábending, vísbending, vink' og sömuleiðis er þar samstofna sögnin hinta () sem er skýrð 'gefa í skyn, vekja grun um'. Bæði orðin eru einnig í síðustu útgáfu Íslenskrar orðabókar en merkt ??, þ.e. 'framandorð sem vafi leikur á hvort talist getur íslenskt, sletta'.

Sögnin virðist nokkru eldri í málinu en nafnorðið. Elstu dæmi um hana eru í Morgunblaðinu 1972: „Er síðan hintað að því að Loftleiðir séu eins og járnbrautarlest“, „þá var hintað að ýmsu mjög furðulegu“ og „í bréfinu ber hann fram margvíslegar ásakanir […] og hintar að einu og öðru“. Í viðtali í Vísi skömmu síðar vísar þáverandi umsjónarmaður útvarpsþáttarins „Daglegt mál“ til þessara dæma og er greinilega ekki sáttur. Í Skólablaðinu 1973 segir: „þess má geta að forsíða alþýðublaðs var ekki hönnuð erlendis einsog hintað er að í ritdómi.“ Í Stúdentablaðinu 1975 segir: „Hann […] hintaði að hlutum sem erfitt er að sanna.“ Í Helgarpóstinum 1979 segir: „Að sönnu hafði verið hintað og það kvisast út að eitthvað stæði til í herbúðum krata.“

Elsta dæmi sem ég finn um hvorugkynsorðið hint er í Helgarpóstinum 1981: „Hef mín persónulegu hint.“ Í Tímanum 1982 segir: „Við getum gefið ykkur nokkur hint“ og „Bara lítil hint“. Í Þjóðviljanum 1982 segir: „Gefðu mér nú hint.“ Í Morgunblaðinu 1986 segir: „sérð öll spilin og fékkst ákveðið hint í inngangsorðunum.“ Í Læknanemanum 1986 segir: „Ekki fengum við nein „hint“.“ Það eru þó ekki nema fáein dæmi um þessi orð, hvort heldur er sögnin eða nafnorðið, á tímarit.is en þeim mun fleiri í Risamálheildinni. Þar eru hátt í fjögur þúsund og fjögur hundruð dæmi um nafnorðið hint, öll nema rúmlega hundrað af samfélagsmiðlum, og um fjögur hundruð dæmi um sögnina hinta, einnig langflest af samfélagsmiðlum.

Þessi orð eru því bæði mjög algeng í óformlegu máli, einkum nafnorðið, og hafa væntanlega verið það undanfarin fjörutíu ár eða svo. Það er rétt að benda á að skýringar Íslenskrar orðabókar og Slangurorðabókarinnar á hint, ‚vísbending, (óljós) ábending‘ eru ófullnægjandi. Eins og enska orðið getur hint í íslensku samhengi einnig merkt 'merki um' eða 'vottur af'. Í blaðinu 2006 segir: „Púðrið gefur húðinni fínlega silkiáferð og hint af silfri.“ Í DV 2009 segir: „þá finnst mér svartur litur, með ljósum grátónum og kannski hint af lit með annað slagið vera málið í sumar.“ Á Bland.is 2006 segir: „Er ég að skynja hint af kaldhæðni þarna?“ Vitanlega er merkingin mjög skyld, en samt ekki alltaf hægt að setja vísbending í staðinn fyrir hint.

Þótt þessi orð séu tekin beint úr ensku, nafnorðið óbreytt en sögnin að viðbættu viðskeytinu -a, er það í sjálfu sér ekki næg ástæða til að amast við þeim að uppfylltum tveimur skilyrðum. Annað er að þau falli að hljóðkerfi og beygingakerfi málsins. Augljóslega falla þau ágætlega að beygingakerfinu og koma fyrir í fjölmörgum mismunandi beygingarmyndum. Það er ekki heldur hægt að segja annað en þau falli að hljóðkerfinu – vissulega eru ekki til mörg hvorugkynsorð með -int önnur en hin sjaldgæfu (töku)orð kvint og pint, og ekki aðrar sagnir með -inta en hin sjaldgæfa trinta sér, en fjöldi orða er til með annað sérhljóð á undan -nt(a). Hitt skilyrðið er að orðin útrými ekki þeim orðum sem fyrir eru – það er okkar að sjá til þess.

Posted on

Misskilningur eða rangtúlkun í Kastljósi

Í Kastljósi í kvöld var forsætisráðherra spurð hverju það sætti að framlög til kennslu íslensku sem annars máls væru skorin niður þrátt fyrir að OECD hefði bent á að færri innflytjendur næðu tökum á þjóðtungunni hér en í öðrum OECD-löndum. Þessu svaraði ráðherrann svo: „Mest af þeim framlögum sem eru að minnka ef svo má segja í málaflokki útlendingamála er vegna þess að umfang þeirra sem eru að koma til landsins er að minnka. Það kom auðvitað stórkostlegur kúfur hér á sínum tíma, það var stór hópur sem kom frá Úkraínu, það var hópur sem kom frá Venesúela og það hafa orðið breytingar í þeim málaflokki. Lykilatriðið í þessu er að við erum að nálgast þetta með heildrænum hætti“ – sem mér er ekki alveg ljóst hvað þýðir.

Annaðhvort er forsætisráðherra meðvitað að afvegaleiða umræðuna með þessu svari eða hún áttar sig ekki á því um hvað málið snýst. Það sem hún segir um fækkun þeirra sem eru að koma að utan á augljóslega eingöngu við um hælisleitendur, enda vísar hún sérstaklega til fólks frá Úkraínu og Venesúela. En innflytjendum yfirleitt hefur alls ekki fækkað frá því í fyrra heldur fjölgað, þótt vissulega hafi hægt á fjölguninni. Þær tímabundnu fjárveitingar sem ég hef bent á að eru felldar niður í fjárlagafrumvarpinu, 250 milljónir til eflingar íslenskukennslu fyrir útlendinga og 150 milljónir vegna aðgerðaáætlunar um inngildingu innflytjenda og flóttafólks, áttu að gagnast öllum innflytjendum en alls ekki bara hælisleitendum.

En jafnvel þótt dregið hafi úr fjölgun innflytjenda síðasta ári þýðir það ekki að útlendingum sem hér búa hafi fækkað – nú eru rúmlega áttatíu þúsund erlendir ríkisborgarar á Íslandi og hefur fjölgað um þrjátíu þúsund á fimm árum og um fimmtán þúsund síðustu tvö og hálft ár. Þess vegna eru rök forsætisráðherra fyrir lækkun framlaga til íslenskukennslu og inngildingar fullkomlega haldlaus – íslenskukennsla og inngilding þessa fjölda er ekkert áhlaupaverk sem hægt er að afgreiða með tímabundinni fjárveitingu til eins árs eins og öllum sem hafa snefil af þekkingu og skilningi á tungumálanámi hlýtur að vera ljóst. Að læra nýtt tungumál er langtímaverkefni, ekki síst fyrir fólk sem er í fullri vinnu eins og þorri innflytjenda er.

Íslenskukennsla innflytjenda er verkefni sem við höfum lengi vanrækt. Að sumu leyti er það skiljanlegt – fjölgun innflytjenda hefur verið svo ör að kerfið var gersamlega óviðbúið og vanbúið til að takast á við hana, bæði á þessu sviði og öðrum. En því lengur sem við bíðum með að takast á við verkefnið af alvöru þeim mun óviðráðanlegra verður það – og því alvarlegri verða afleiðingarnar, bæði fyrir fólkið sjálft, íslenskt samfélag, og íslenska tungu. Þess vegna er dapurleg skammsýni hjá stjórnvöldum að stórlækka framlög til íslenskukennslu og inngildingar og furðulegt skilningsleysi að halda að tímabundin framlög til eins árs hafi leyst vandann. Ég treysti því að í meðförum Alþingis verði þessi aðför að íslenskukennslu stöðvuð.

Posted on

Ráðherra gegn íslenskunni

Um daginn skrifaði ég pistil með fyrirsögninni „Félag atvinnurekenda gegn íslenskunni“ þar sem ég sagði frá umsögn félagsins um drög að nýrri reglugerð um plastvörur sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hugðist innleiða og er í samráðsgátt stjórnvalda. Þessi reglugerð myndi m.a. fela í sér að skylt yrði að merkja einnota plastvörur á íslensku og því var félagið mjög andvígt því að það myndi koma „illa niður á örmarkaði eins og Íslandi“, vera „verulegt inngrip í atvinnufrelsi“ og myndi „stuðla að því að umræddar vörur hækki í verði“ – og það myndu neytendur „að sjálfsögðu“ greiða. Í upptalningu á þeim hagsmunum sem félagið taldi að Alþingi þyrfti að hafa í huga í þessu sambandi voru hagsmunir íslenskunnar hvergi nefndir.

En nú hefur Félag atvinnurekenda fengið öflugan liðsmann í þessari baráttu gegn íslenskunni – sjálfan umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem þó lagði reglugerðardrögin fram. Nú er hann búinn að skipta algerlega um kúrs (og ekki í fyrsta skipti) og „segir mögulegt að reglurnar verði ekki innleiddar að fullu“ – „þessi stranga tungumálakrafa felur í sér mjög íþyngjandi kröfur á atvinnulíf og neytendur“ bætir hann við og tekur þannig fullkomlega undir málflutning Félags atvinnurekenda. „Þetta bitnar sérstaklega illa á Íslandi af því við erum örhagkerfi og við erum fámennt málsvæði og það skiptir gríðarlega miklu máli að við höldum vöku okkar og tryggjum að svona reglur séu aðlagaðar að íslenskum aðstæðum“ segir ráðherrann.

Það er hárrétt hjá ráðherra að við erum fámennt málsvæði. En einmitt þess vegna erum við svo viðkvæm fyrir utanaðkomandi þrýstingi og því enn mikilvægara en ella að við tökum því fegins hendi þegar færi gefst á að gera íslenskunni hærra undir höfði. Það skýtur skökku við að ríkisstjórn sem segist í stefnuyfirlýsingu sinni munu „hlúa að íslenskri tungu“ skuli ætla að krefjast undanþágu frá kröfu um notkun tungunnar. Rökin um að sérreglur þurfi að gilda fyrir fámenn málsvæði eru stórhættuleg vegna þess að þau tengjast ekki þessu máli sérstaklega – þeim er hægt að beita til að réttlæta alls konar tilslakananir á notkun íslensku. Að því marki sem sérreglur þarf fyrir fámenn málsvæði ættu þær að styrkja málið, ekki veikja.

Ráðherrann segist munu „gæta ítrustu hagsmuna Íslands í þessu máli“. Þá á hann væntanlega við „atvinnulíf og neytendur“ sem hann vísar sérstaklega til. Hagsmunir atvinnulífsins – innflytjenda og seljenda – eru vitanlega þeir að kostnaður þeirra við vöruna sé sem minnstur. En þótt það séu vissulega hagsmunir neytenda að varan sé sem ódýrust eru það líka ótvíræðir hagsmunir þeirra að hafa allar upplýsingar um hana á móðurmáli sínu. Og til lengri tíma litið eru það vitanlega líka hagsmunir neytenda að ekki sé slakað á kröfum um notkun íslensku á öllum sviðum. Síðast en ekki síst snýst þetta auðvitað um hagsmuni íslenskunnar – hver ætlar að gæta þeirra? Þjóðtungan virðist því miður ekki eiga sér marga málsvara í ríkisstjórn.

Posted on

Skertar fjárveitingar til íslenskunnar

Eins og í fyrra skoðaði ég fjárlagafrumvarp næsta árs sem lagt var fram í morgun til að leita að vísbendingum um fjárveitingar til að efla íslenskuna, ekki síst kennslu í íslensku sem öðru máli. Í skýrslu OECD um innflytjendur sem var birt fyrir rúmu ári kom fram að fjárveitingar á Íslandi til kennslu í þjóðtungunni eru ekki nema brot af því sem þær eru annars staðar á Norðurlöndum. Jafnframt kom fram að kunnátta innflytjenda í þjóðtungunni væri minni en í nokkru öðru landi OECD. Þessi skýrsla kom rétt áður en fjárlagafrumvarp yfirstandandi árs var lagt fram og hafði því ekki áhrif á það, en þess hefði mátt vænta að einhverra breytinga sæi stað í fjárlagafrumvarpi næsta árs. Vissulega eru breytingar á þessu sviði – en því miður í öfuga átt.

Þetta kemur skýrast fram í lið 22.20, „Framhaldsfræðsla og menntun óflokkuð á skólastig“. Undir þeim lið sagði í fjárlögum síðasta árs: Fjárheimild málaflokksins er aukin tímabundið um 250 m.kr. til eflingar íslenskukennslu fyrir útlendinga.“ En í nýja frumvarpinu segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 250 m.kr. vegna tímabundinna verkefna sem falla niður.“ Ekki kemur fram hver þessi tímabundnu verkefni séu en augljóst er að það er áðurnefnd aukning – liðurinn „Íslenskukennsla fyrir útlendinga“ lækkar úr 564,4 milljónum króna í 360,7 milljónir króna (hér þarf að hafa í huga verðlagsbreytingar). Þetta er auðvitað algerlega forkastanlegt. Í stað þess að gefa í og efla íslenskukennslu er fé til hennar skert stórlega.

Undir lið 29.70, „Málefni innflytjenda og flóttamanna“ segir: „Fjárheimild málaflokksins lækkar um 150 m.kr. Um er að ræða tímabundna fjárheimild vegna aðgerðaáætlunar um inngildingu innflytjenda og flóttamanna sem fellur nú niður.“ Þegar þessar 150 milljónir komu inn í fjárlögum þessa árs var það til að hrinda í framkvæmd aðgerðaáætlun fyrri ríkisstjórnar um inngildingu innflytjenda og flóttafólks í íslenskt samfélag. Vitanlega gerist slíkt ekki á einu ári og þess vegna fráleitt að fjárveitingin haldist ekki áfram. Vissulega tók þessi aðgerðaáætlun til margra þátta og óvíst að mikið af því fé sem ætlað var til hennar hafi farið beinlínis í íslenskukennslu, en hvers kyns aðrar aðgerðir til inngildingar styrkja líka íslenskuna.

En vondu fréttirnar eru fleiri. Undir lið 18.30, „Menningarsjóðir“, segir: „Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er fjárheimild málaflokksins aukin um 950 m.kr. Af þeim verður 720 m.kr. varið í að efla menningarsjóði og standa þannig vörð um grasrót skapandi greina og störf innan hennar.“ Liðurinn „Miðstöð íslenskra bókmennta“ hækkar vissulega um 50 milljónir, en liðurinn „Stuðningur við útgáfu bóka á íslensku“ lækkar um fjórar og hálfa milljón og „Bókasafnssjóður höfunda“ lækkar um hálfa aðra milljón – raunlækkun er vitanlega talsvert meiri. Fátt skiptir meira máli fyrir íslenskuna en öflug bókaútgáfa á íslensku, og til að bækur séu gefnar út þarf að skrifa þær. Lækkun á þessum liðum er atlaga að íslenskunni.

Einnig segir undir lið 18.30: „230 m.kr. verður varið til styrkingar málefna íslensku, barnamenningar og aukins aðgengis að menningu óháð búsetu og efnahag.“ Mér hefur satt að segja ekki tekist að finna þessar milljónir – liðurinn „Barnamenningarsjóður“ lækkar t.d. um 1200 þúsund. Gefum okkur samt að eitthvað af þessum milljónum skili sér til íslenskunnar, og einnig getur verið að einhvers staðar annars staðar í frumvarpinu leynist eitthvað sem kemur íslenskunni til góða. Það eru þó engar líkur á að það vinni upp þær skerðingar sem nefndar eru hér að framan. Í heildina má segja að fjárlagafrumvarpið sé gífurleg vonbrigði fyrir öll þau sem bera hag íslenskunnar fyrir brjósti og hafa áhyggjur af stöðu hennar og framtíð.

Posted on

Sigursælni

Fyrirsögnin „Forsetinn segir nýtt heiti varnarmálaráðuneytisins senda skilaboð um sigursælni“ á vef Ríkisútvarpsins í gær vakti athygli mína – ekki af efnislegum ástæðum heldur vegna nafnorðsins sigursælni sem einnig kom fyrir inni í fréttinni sjálfri. Þetta orð er vissulega auðskilið og hljómar ekki framandi en er þó ekki að finna í neinum orðabókum. Það er augljóslega leitt af lýsingarorðinu sigursæll sem er vel þekkt og skýrt 'sem á oft sigri að fagna' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Venjulega nafnorðið af því er sigursæld sem ekki er í Íslenskri nútímamálsorðabók en er gefið í Íslenskri orðabók – ásamt kvenkynsorðinu sigursæla og karlkynsorðinu sigursæli í sömu merkingu. Öll þrjú koma fyrir í fornu máli, en ekki sigursælni.

Það orð er þó ekki alveg nýtt – á tímarit.is eru tvö gömul dæmi um orðið, bæði úr Vísi 1943: „Þrátt fyrir sigursælni sína mun Montgomery ekki koma til hugar að leggja tafarlaust til atlögu við varnir Rommels“ og „Þjóðverjar hafa sjálfir undirbúið jarðveginn fyrir hrun með sigursælni sinni“. Í Risamálheildinni eru sex dæmi um orðið frá þessari öld, öll nema eitt úr íþróttafréttum mbl.is – raunar öll úr kappakstursfréttum og því ekki ólíklegt að þau séu skrifuð af sama manni – þar á meðal „Vettel virðist óstöðvandi því auk sigursælni hefur hann unnið alla fjóra ráspóla ársins“ frá 2011. Auk þess er eitt dæmi af fótbolti.is 2018: „Það má rekja til að mestu sigursælni þýska landsliðsins í kringum heimsmeistaratitilinn þeirra 2014.“

Orðið sælni eitt og sér kemur fyrir í Viðbæti Íslensk-danskrar orðabókar frá 1963 og er skýrt 'positiv tropisme'. Það er einnig að finna í „Orðasafni úr uppeldis- og sálarfræði“ í Íðorðabankanum sem samheiti við aðhvarf og er skýrt 'umhvarf í átt til áreitingar'. Það er leitt af lýsingarorðinu sælinn sem einnig er í áðurnefndum Viðbæti og er komið úr Nýyrðum I frá 1953 þar sem það er gefið sem samheiti við leitni. Orðin sælinn og sælni eru aldrei notuð ein og sér en koma fyrir í nokkrum samsetningum, svo sem ásælinn ásælni, hitasælinn hitasælni, valdasælinn valdasælni o.fl. Í þessum orðum má líta svo á að nafnorðin séu leidd af lýsingarorðum enda er það uppruni viðskeytisins -ni: -sæk-in > -sæk-in+i > -sæk-ni.

En svo hefur -ni orðið að sjálfstæðu viðskeyti sem hægt er að nota það á önnur orð en þau sem enda á -inn. Sum nafnorð sem hafa -sælni að seinni lið virðast því ekki vera leidd af lýsingarorðum með -sælinn heldur af orðum sem enda á -sæll, svo sem jarðsælni af jarðsæll og sólsælni af sólsæll – allt eru þetta reyndar mjög sjaldgæf orð. Orðmyndunin sigursælni af sigursæll á sér því skýrar fyrirmyndir og engin ástæða til að hafa neitt á móti þessu orði þótt sjaldgæft sé. Vissulega má halda því fram að það sé óþarft vegna þess að fyrir séu þrjú orð sömu merkingar – sigursæld, sigursæla og sigursæli – en það eru auðvitað engin rök gegn orðinu. Aukin fjölbreytni í orðavali auðgar málið en skaðar það ekki.

Posted on

Þöggun

Orðið þöggun er skýrt 'það að þagga (e-ð) niður' og 'það að þaggað sé niður í e-m' í Íslenskri orðabók. Elsta dæmi um það er í Skírni 1832: „í raun réttri varð uppreistinn þar eigi almennt framkvæmd. Þó tafði þöggun hennar mjög fyrir Rússum.“ Þarna vísar orðið ekki til tungumálsins, heldur merkir 'það að kveða niður'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið tilfært í þeirri merkingu, 'Neddysning', með vísun til þessa dæmis. Önnur dæmi eru ekki um orðið á tímarit.is fram til 1990 fyrir utan þrjú dæmi í krossgátum í Vikunni frá fimmta áratugnum þar sem það er notað sem skýring á uss. Auk þess eru örfá dæmi um samsetninguna niðurþöggun, það elsta í merkingunni 'kveða niður' en önnur í merkingunni 'þagga niður í'.

En um 1990 fór Helga Kress bókmenntafræðingur og síðar prófessor að nota orðið þöggun, og í upphafi líka stundum niðurþöggun, í sértækri merkingu eins og hún skýrir í bókinni Máttugar meyjar frá 1993:  „Hugtakið þöggun felur ekki í sér að hinn þaggaði hópur þegi, heldur að það sé eingöngu ríkjandi talsháttur sem heyrist, eða öllu heldur er hlustað á. Þessa þöggun þaggaða hópsins er því hægt að skilgreina sem ákveðið heyrnarleysi hjá ríkjandi hópnum, á sama hátt og líta má á ósýnileika þaggaða hópsins sem ákveðna blindu hjá ríkjandi hópnum. Ef þaggaði hópurinn vill gera sig skiljanlegan verður hann að gera það á því tungumáli sem ríkjandi hópurinn heyrir, í stað þess tungumáls sem hann hefði getað myndað og þróað sjálfstætt.“

Þessi notkun orðsins hefur orðið ofan á sem endurspeglast í því að í stað bókstaflegrar skýringar Íslenskrar orðabókar sem vitnað var til í upphafi er þöggun skýrð 'kerfisbundin aðferð til að koma í veg fyrir að fólk tjái skoðanir sínar' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Í þeirri merkingu hefur notkun orðsins aukist gífurlega í hvers kyns pólitískri umræðu á undanförnum tveimur áratugum – frá því að vera rúm tuttugu dæmi á tímarit.is á síðasta áratug tuttugustu aldar upp í rúm þrettán hundruð dæmi á öðrum áratug þessarar aldar. Í Risamálheildinni eru meira en átta þúsund dæmi um orðið, öll frá þessari öld. Þetta er sannkallað tískuorð og má alveg halda því fram að það sé stundum notað af litlu tilefni og jafnvel orðið merkingarlítið vegna ofnotkunar.

Posted on

„Back to School ball“

Mér var send auglýsing um viðburð sem er ætlaður unglingum í nokkrum grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og nefnist „Back to School ball“. Á auglýsingunni stendur m.a.: „Line-up kemur seinna!“ Það er ekki eins og þessi ensku orð eigi sér ekki íslenskar samsvaranir, en sjálfsagt er hugmyndin á bak við þetta sú að enskan höfði betur til unglinganna – og kannski er það rétt. Það hefur komið í ljós í rannsóknum að unglingar tengja námsgreinina íslensku oft við skyldu, utanbókarlærdóm og leiðréttingar, en ensku tengja þau við afþreyingu, ferðalög og skemmtun. Þessar tengingar hafa vitanlega áhrif á viðhorf þeirra til tungumálanna – en eigum við að hlaupa eftir því þótt unglingunum finnist kannski enskan eiga betur við þarna?

Íslenskan á undir högg að sækja gagnvart enskunni og það skiptir miklu máli að hún sé notuð sem víðast. Rannsóknir benda til að viðhorf ungu kynslóðarinnar sé eitt af því sem skiptir mestu máli fyrir lífvænleik tungumála – ef ungt fólk hefur ekki jákvætt viðhorf til móðurmáls síns er málið í alvarlegum vanda. Með því að nota ensku á þennan hátt til að auglýsa skemmtanir er í raun – örugglega ómeðvitað – verið að senda þau skilaboð að íslenskan henti ekki, dugi ekki eða eigi ekki við á þessu sviði og þar með verið að vinna skemmdarverk á viðhorfum unglinga til hennar. Það hlýtur að vera hlutverk skólanna að halda íslenskunni að nemendum í stað þess að láta berast með straumnum og nota ensku þótt nemendum kunni að þykja hún eiga betur við.

Posted on

Bara si svona – eða sisona, eða . . .

Í pistli í gær notaði ég orðið eða orðasambandið si svona sem er mér tamt í tali, en eftir á fór ég að hugsa að ég hefði líklega aldrei notað það í rituðu máli og vissi ekki hvernig ætti að skrifa það – eða hvort einhverjar reglur væru um það. Ég fór líka að velta fyrir mér hvað þetta si væri. Í Íslenskri orðsifjabók er þetta sagt frá 17. öld, haft í einu orði og gefnar myndirnar sisona og sisvona (og reyndar einnig sem-svona sem talið er vafasamt að sé upprunalegt) og sagtsi- sé „e.t.v. [...] einsk[onar] bendiorð, sbr. -si í þessi“. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er þetta haft í einu orði, sisona, og skýrt 'án sérstakrar ástæðu' en í Íslenskri orðsifjabók er skýringin 'einmitt, þannig'. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 eru báðar þessar skýringar tilfærðar.

Í Íslensk-danskri orðabók er „= til svona“ sett á eftir uppflettimyndinni sisona, og undir sisona er í Íslenskri orðsifjabók vísað á ti-sona sem sagt er frá 19. öld, með víxlmyndinni til-sona, „sbr. víxlan -ti og -til í helsti, helst til“. Undir helsti kemur svo fram að tengingin við forsetninguna til sé ekki upphafleg heldur síðari alda þróun í íslensku – málnotendur hafa ekki skilið ti og tengt það við til. Orðið tisona er gefið í Íslensk-danskri orðabók í merkingunni 'netop paa denne Maade' og merkt „Skaft.“. Engin dæmi finnast um tisona en ti sona kemur fyrir í bréfi frá Jónasi Hallgrímssyni til Konráðs Gíslasonar 1841: „En mosatekjan mín [...] fór ti sona.“ Annað dæmi er úr ljóðabréfi Jónasar til Fjölnisfélaga sinna: „það kom ti sona yfir mig.“

Einhver nítjándu aldar dæmi má finna um bæði til sona og til svona – sem er vitanlega sama sambandið, aðeins með mismunandi stafsetningu. Í Norðlingi 1877 segir: „það var til sona fyrir mér, að eg kunni ekki að vita það fyrir.“ Í Þjóðólfi 1856 segir: Það er nú til svona með flest sem hann segir.“ Í kvæði eftir Grím Thomsen segir: „hefir huldukona / heillað mig til svona.“ Einstöku yngri dæmi má finna. Í Alþýðublaðinu 1952 segir: „Já, það fór nú til svona; og ekkert við því að gera.“ Í minningum Steinþórs Þórðarsonar á Hala frá 1970, Nú-Nú, bókin sem aldrei var skrifuð, segir: „Því læturðu til svona.“ Sennilega er sambandið alveg horfið úr málinu en erfitt er að leita af sér allan grun í textasöfnum – til og svona standa oft saman í öðru samhengi.

En aftur að si svona – eða sisvona, eða si sona, eða sisona. Vitanlega er sona bara framburðarstafsetning af svona og kannski eðlilegast að halda sig við að skrifa v – nema við viljum líta svo á að þetta orð – eða orðasamband – hafi slitið sig alveg frá upprunanum. Spurningin er þá hvort eigi að líta á þetta sem eitt orð eða tvö – sis(v)ona eða si s(v)ona. Ég held að áherslan á seinni hlutanum sé yfirleitt a.m.k. jafnsterk og á þeim fyrri, eða sterkari, sem bendir til þess að málnotendur skynji þetta sem tvö orð. Svo má benda á dæmi um að si komi ekki næst á undan svona, í kvæðinu „Ég labbaði inn á Laugaveg“ eftir Ingimund (Kristján Linnet): „Ég heilsaði henni rétt si svo sem svona“ (eða si sosum, eða sisosum).

Fjöldi dæma er um alla fjóra rithættina, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Á fyrrnefnda staðnum er si svona langalgengast, en sisona og si sona rúmlega hálfdrættingar á við það í tíðni – sisvona heldur sjaldgæfara. Elstu dæmin um þrjú tilbrigðanna eru frá því um miðja nítjándu öld en sisona heldur yngra, frá 1887. Í Risamálheildinni er sisvona algengast en si svona næst á eftir – myndin sisona sem er uppflettimynd í Íslenskri nútímamálsorðabók eins og áður segir er langt undan. Bæði sisona og sisvona er í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls en orðið – eða sambandið – er ekki gefið í Íslenskri stafsetningarorðabók. En svo er líka fjöldi dæma um í í stað i – í öllum fjórum afbrigðunum. Þann rithátt er ekki að finna í neinum orðabókum.

Ritháttur með í er greinilega yngri – elsta dæmið er frá 1915. Ástæðan fyrir uppkomu hans er hugsanlega sú að málnotendur tengi þetta við atviksorðið , sbr. sí og æ, en si er ekki hægt að tengja við neitt. Á tímarit.is eru dæmi með i meira en þrisvar sinnum fleiri en dæmi með í, en í Risamálheildinni er hlutfall dæma um í á móti i um það bil fimm á móti sex. Það er því greinilegt að ritháttur með í sækir á, og sí svona er algengasti rithátturinn í Risamálheildinni – algengari en allir rithættir með i. Þrátt fyrir það, og þrátt fyrir að sisona sé myndin sem gefin er í Íslenskri nútímamálsorðabók, hallast ég að því að skrifa þetta eins og ég gerði upphaflega, si svona – með i í si og v í svona með vísan til uppruna, og í tveimur orðum vegna áherslu.