Posted on

Hvers vegna eru jólin stundum rauð?

Í Facebook-hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ var spurt hvers vegna andstæðan við hvít jól – sem er auðskilið – væri rauð jól en ekki auð jól. Í Íslenskri orðabók er ein merking lýsingarorðsins rauður sögð 'snjólaus, auður' með dæmunum rauð jörð og rauð jól. „Með rauð jól er því átt við snjólausa auða jörð um jól“ segir á Vísindavefnum í svari við spurningunni „Af hverju er snjólausum jólum lýst sem „rauðum jólum“ en ekki svörtum?“ En þetta svarar samt ekki þeirri spurningu hvers vegna lýsingarorðið rauður getur haft þessa merkingu – og eingöngu með þessum tilteknu nafnorðum (og að því er virðist einnig með nafnorðinu vetur í hendingunni „Veturinn rauður, vorið blítt“ úr kvæði frá átjándu öld, en það er skylt).

Á Vísindavefnum er bent á að til er orðatiltæki sem „felur í sér þá trú manna að væri jörð auð um jól yrði snjór um páska og öfugt“. Elsta dæmið um það er í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1864: „Ef jól eru rauð, verða hvítir páskar, en rauðir, ef jól eru hvít“. Þar kemur einnig fram að svipað orðasamband er til í dönsku – en grøn jul bringer snehvid påske og hvid jul giver en grøn påske. Þessi sambönd eru svo lík að milli þeirra hljóta að vera einhver tengsl og þá er mun líklegra að íslenska orðasambandið hafi verið búið til með hliðsjón af því danska en öfugt. Munurinn er sá að í dönsku er talað um græn jól eða páska en í íslensku um rauð – „grænn merkir þarna 'snjólaus, auður' eins og rauður í íslensku“ segir á Vísindavefnum.

Það er auðskilið hvers vegna grænt er notað í dönsku – það er litur grassins. En hvers vegna verða íslensku jólin rauð? Það væri auðvitað fráleitt að tala um græn jól á Íslandi – þótt gras sem grær á ræktuðum túnum nútímans geti verið býsna grænleitt um jólaleytið var það ekki þannig áður fyrr. Þegar danska orðatiltækið var yfirfært á íslensku þurfti því að finna eitthvert annað lýsingarorð í stað þess að hafa jólin græn. Ef verið er að nota litarorð á annað borð liggur beint við að tala um rauð jól vegna þess að það slær oft rauðleitri slikju á sölnað gras eða sinu í vetrarsólinni. En auðvitað kann líka vel að vera að þetta hafi ekki verið upphafið, heldur hafi verið talað um rauð jól og rauða jörð löngu áður en áðurnefnt orðatiltæki kom inn í málið.

Ég held sem sé að það sé í raun misskilningur að lýsingarorðin rauður í íslensku og grøn í dönsku merki 'snjólaus, auður' í þessum samböndum, heldur hafi þau upphaflega sína eiginlegu litarmerkingu í þeim en merkingin 'snjólaus, auður' er í raun forsenda þess að liturinn komi fram. Í dönsku er þetta augljóst, en í íslensku kannski ekki eins, vegna þess að í nútímanum er sölnað gras ekki áberandi í umhverfi okkar flestra. En það hlýtur að vera einhver skýring á því að rauður virðist merkja 'snjólaus, auður' með orðinu jörð, og svo jól þar sem það vísar til jarðarinnar, og ég sé ekki aðra en þessa. Það er aldrei talað um t.d. rauð fjöll, rauða kletta eða rauðar götur sem búast mætti við ef rauður merkti í raun 'snjólaus, auður'.

Posted on

Láttu vaða!

Út frá sambandinu láta vaða á súðum sem ég var að skrifa um í gær fór ég að skoða sambandið láta vaða sem er skýrt 'láta verða af því, framkvæma (það)' í Íslenskri nútímamálsorðabók. Þetta samband er hvorki að finna í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 né Íslenskri orðabók sem getur bent til þess að það sé ekki gamalt þótt vitaskuld komist ekki allt í orðabækur – en ég finn ekki heldur nein gömul dæmi um sambandið í þessari merkingu í textum. Í eldri dæmum er augljóslega vísað til tungumálsins, ýmist í samböndum eins og láta <þetta> vaða sem er gefið  í Íslenskri nútímamálsorðabók og skýrt '(þora að) segja það', eða láta allt vaða sem er gefið í Íslenskri orðabók og skýrt 'segja hvað sem vera skal, hvað eina sem kemur í hugann'.

Í bréfi frá 1852 birtu í Akranesi 1956 segir: „Ég læt allt vaða í einu, því naumur er tími.“ Í Speglinum 1937 segir: „párið þið nú, strákar, meðan andinn er yfir mér og ég læt vaða.“ Í Lögbergi 1953 segir: „Dregur Gestur að svo búnu hverja myndina annarri háðulegri af þeim félögum og lætur allt vaða, hversu svívirðilegt sem það er.“ Í Mánudagsblaðinu 1956 segir: „Sá sem er ófeiminn og lætur allt vaða, stendur án efa betur að vígi en sá, sem er feiminn, hikandi og fullur af vanmáttarkennd.“ Í Alþýðublaðinu 1958 segir: „Hitt smíðar glópa, að láta allt vaða, sem í hugann kemur.“ Í Morgunblaðinu 1985 segir: „Þú minnir fólk á að viðra skoðanir sínar og skrifa þér eða hringja [og því] sest ég nú niður mitt í sláturtíðinni og læt vaða.“

Í þessum dæmum virðist merkingin vera býsna nálægt merkingunni í sambandinu láta vaða á súðum sem er skýrt 'tala mikið og láta allt flakka' í Íslenskri nútímamálsorðabók og trúlegt að um sé að ræða styttingu á því sambandi. En á seinni árum hefur merkingin víkkað. Í Vikunni 1962 segir: „ég galaði í hann á móti og sagði honum að láta vaða.“ Í Austurlandi 1964 segir: „Loka bara augunum og láta vaða“. Í íþróttafrétt í DV 1975 segir: „ég lét vaða en framhjá.“ Í auglýsingu í Morgunblaðinu 1981 segir: „Sjóarinn eldhressi – með leppinn – lætur vaða.“ Í DV 1982 segir: „Þá fyrst fór að skyggja þegar stúdentar sem kenna sig við umbætur létu vaða.“ Í þýðingu á myndasögu í Morgunblaðinu 1985 segir „Ég læt vaða!“ (þýðing á „Here I go!“).

Dæmum um þessa merkingu á tímarit.is fer svo ört fjölgandi á síðasta áratug tuttugustu aldar og einkum eftir aldamót – eru hátt í níu hundruð í Risamálheildinni. Það er nokkuð ljóst að merkingarbreytingin stafar af því að í stað þess að skilja setningar eins og ég læt vaða sem 'ég hika ekki við að segja það mig langar til' hafa málnotendur farið að skilja þær almennari skilningi sem 'ég hika ekki við að framkvæma það sem mig langar til'. Sú víkkun er í sjálfu sér mjög skiljanleg og eðlileg. Þróunin virðist sem sé vera láta vaða á súðum > láta <þetta, allt> vaða > láta vaða. Þetta er skemmtilegt dæmi um hvernig málið er alltaf að breytast – ný orð og orðasambönd verða til, oft án þess að við veitum því athygli. Þannig helst málið lifandi.

Posted on

Að (láta) vaða á súðum

Í fyrirsögn á mbl.is í dag segir „Össur óð á súðum“. Sambandið láta vaða á súðum er vitanlega vel þekkt og skýrt 'tala mikið og láta allt flakka' í Íslenskri nútímamálsorðabók, og sú er merkingin augljóslega í umræddri frétt. En eins og orðabókardæmið sýnir er sambandið venjulega haft með sögninni láta. Orðið súð merkir hér 'ytra byrði skipshliðar' og í bókinni Mergur málsins segir Jón G. Friðjónsson: „Líkingin er dregin af mikilli siglingu þar sem ekki er skeytt um það þótt öldurnar skelli á byrðingnum, súðunum.“ Eins og Jón nefnir er eldri mynd sambandsins láta vaða með súðum en elsta dæmi um hana er úr bréfi frá 1831: „eg læt allt vaða með súðum.“ Aðeins átta dæmi eru um þessa mynd á tímarit.is og hún er löngu horfin úr málinu.

Elsta dæmi sem Jón nefnir um láta vaða á súðum er litlu yngra – úr frásögn frá því um miðja nítjándu öld sem birtist í Blöndu 1924-1927: „Jón tíkargjóla var sauðheimskur, búrmæltur og drafandi í máli, en varð það á, sem flestum heimskum að tala fljótt og láta munninn vaða á súðum, sem menn segja.“ Þarna tekur sögnin láta andlag, munninn, en oftast er andlagi sleppt og vaða á súðum kemur strax á eftir láta. Þannig segir t.d. í Ísafold 1890: „Eins er meira, miklu meira, varið í að forða efnatjóni fyrir almenning, heldur en að láta vaða á súðum og allt eiga sig afskiptalaust, þangað til í óefni er komið.“ Ef andlag fylgir er það oftast allt – í Tímariti Hins íslenzka bókmentafélags 1891 segir: „Hann lætur allt vaða á súðum, sem honum dettur í hug.“

Stundum er þó vaða á súðum notað án þess að láta fari á undan, og þá er vaða í framsöguhætti í stað nafnháttar en tekur þá yfirleitt ekki með sér geranda heldur iðulega óákveðna fornafnið allt. „Allt veður á súðum með söndunum“ segir í Alþýðublaðinu 1927. Í DV 1990 segir: „áður en varir hafa loforðin góðu gleymst og allt veður á súðum.“ Einnig er sambandið stundum notað án frumlags. Í Vinnan og verkalýðurinn 1954 segir: „Nú veður á súðum.“ Í Tímanum 1982 segir: „þar veður á súðum.“ Í Lesbók Morgunblaðsins 1968 segir: „Siglingin var góð og óð á súðum.“ Í stað geranda er stundum forsetningarliður með hjá. Í Skírni 1891 segir: „Svo veður allt á súðum hjá honum.“ Í Vísi 2016 segir: „Þá óð á súðum hjá seðlabankastjóranum.“

Elsta dæmi sem ég finn um mannlegan geranda með vaða á súðum er í Morgunblaðinu 1970: „Krúsjeff hafði vaðið á súðum.“ Í Dagblaðinu 1978 segir: „Hann óð á súðum.“ Í Þjóðviljanum 1985 segir: „Formaðurinn veður á súðum í atvinnurekendapólitík sinni.“ Í Alþýðublaðinu 1989 segir: „Össur Skarphéðinsson, doktor í fiskeldisfræði og fyrrum ritstjóri Þjóðviljans veður á súðum í viðtali við nýjasta tölublað af Þjóðlífi.“ Upp úr 1990 fjölgar dæmum af þessu tagi þótt enn sé langsamlega algengast að sögnin láta sé höfð með. Nýleg dæmi eru „Fámennur en hávær hópur óð á súðum vikum saman í fjölmiðlum“ í Vísi 2022 og „Þeir voru reknir úr Flokki fólksins eftir kvöldið alræmda á Klaustri, þar sem þingmenn óðu á súðum“ í Fréttablaðinu 2019.

Það er sem sé ljóst að notkun sambandsins hefur breyst – sögnin láta fylgir ekki alltaf með því núorðið og það fær oft geranda. Um leið má vitanlega segja að upphaflega líkingin við skip sem boðaföll ganga yfir dofni eða tapist. Á þetta var bent í dálknum „Málið“ í Morgunblaðinu 2019 og sagt: „Í grein einni var reitt hátt til höggs og höfundur sást ekki fyrir. Var þá sagt að hann hefði „vaðið á súðum“. Þannig getur enginn vaðið. Súð er byrðingur á skipi. Siglt er djarflega og ekki fengist um það þótt öldurnar skelli á súðinni. Maður lætur vaða á súðum.“ En þessi breytta notkun sambandsins er orðin meira en þrjátíu ára gömul og spurning hvort hún hefur unnið sér hefð eða hvort ástæða sé til að amast við henni. Því verða málnotendur að svara.

Posted on

Hamborgar(a)hryggur

Það bregst sjaldan að fyrir jólin upphefjist umræða um orðið hamborgar(a)hryggur – yfirleitt þannig að hneykslast er á þeim sem segja hamborgarahryggur enda sé þetta ekkert skylt hamborgurum. Lítill vafi leikur á að orðið er komið af hamburgerryg í dönsku. „Fyrri liðurinn er sóttur til borgarheitisins Hamborgar í Norður-Þýskalandi og merkir því orðið bókstaflega 'hryggur frá Hamborg'“ segir á Vísindavefnum. Elsta dæmi um myndina hamborgarhryggur er í auglýsingu í Vísi 1932 en orðið verður ekki algengt fyrr en seint á fimmta áratugnum. Elsta dæmi um hamborgarahryggur er í auglýsingu í Vísi 1955 en myndin verður ekki algeng fyrr en undir 1980. Fyrrnefnda myndin er þó margfalt algengari bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni.

Á Vísindavefnum segir: „Fyrri hluti danska orðsins, 'hamburger-', er í rauninni tvíræður og gæti frá sjónarmiði málfræðinnar þýtt hvort sem er 'hamborgar-' eða 'hamborgara-'. Lítill vafi er þó á því að átt er við fyrri merkinguna og að réttara eða eðlilegra er að tala um 'hamborgarhrygg' á íslensku.“ Ég er ekki sannfærður um að þetta sé rétt. Önnur merkingin í danska orðinu hamburger er vissulega 'hamborgari' í merkingunni 'þunn buffsneið milli tveggja (kringlóttra) brauðsneiða, oft með osti, grænmeti o.þ.h.' eins og orðið er skýrt í Íslenskri nútímamálsorðabók en hin merkingin er 'person fra Hamburg'. Endingin -er í danska orðinu svarar til viðskeytisins -ari í íslenska orðinu Hamborgari en ekki til eignarfallsendingarinnar -ar í Hamborgar.

Ég held sem sé að í dönsku sé hamburgerryg ekki kenndur við borgina, Hamborg, heldur við íbúana, Hamborgara. Þess vegna væri í raun eðlilegra og í samræmi við upprunann að tala um hamborgarahrygg en ekki hamborgarhrygg. Hins vegar á síðarnefnda myndin sér auðvitað langa og ríka hefð í málinu og telst því vitanlega rétt. Auðvitað er það líka rétt að málnotendur tengja hamborgarahrygg oft ranglega við fæðutegundina hamborgara enda íbúaheitið Hamborgari sjaldséð í íslensku núorðið þótt það væri algengt áður fyrr. En ég sé ekki að þessi misskilningur ætti að valda nokkrum vandræðum – fólk veit að það eru ekki hamborgarar í hamborgarahrygg. Báðar myndir eru sem sé góðar og gildar og ástæðulaust að gera upp á milli.

Posted on

Magatilfinning

Spurður um það í viðtali við Ríkisútvarpið hvort Ísland ætti að taka þátt í Eurovision á næsta ári svaraði menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra: „Ja magatilfinningin segir nei en ég ætla ekki að hafa afskipti af dagskrárgerð Ríkisútvarpsins.“ Orðið magatilfinning er ekki að finna í neinum orðabókum en notkun þess hefur færst töluvert í vöxt að undanförnu. Það er augljóslega þýðing á gut feeling í ensku sem merkir 'tilfinning eða viðbragð byggt á eðlisávísun eða hugboði fremur en á ígrundun og rökum'. Reyndar þýðir gut oftast eiginlega fremur 'þarmar' en 'magi' þannig að þarmatilfinning væri e.t.v. eðlilegri þýðing. Dæmi um það orð finnast vissulega á netinu, en að því er virðist aðeins í vélþýddum textum og því ekki marktæk.

Elsta dæmi sem ég finn um orðið magatilfinning er í DV 1985, í grein sem er þýdd úr ensku: „Þessi fréttamaður […] er í raun að segja að þessi magatilfinning sjónvarpsáhorfenda útheimti nákvæmlega enga kunnáttu í tungumáli eða rökfræði.“ En í texta frumsömdum á íslensku sést orðið ekki fyrr en eftir aldamót, í Morgunblaðinu 2001: „Og þrátt fyrir að magatilfinningin segði mér að með því væri ég hugsanlega að sigla út á hálan ís þráaðist ég við.“ Í Morgunblaðinu 2005 segir: „Annars finnst mér margir fara eftir eigin innsæi og „magatilfinningunni“ eins og sagt er.“ Upp úr þessu fer orðið að sjást dálítið á samfélagsmiðlum en það er ekki fyrr en á síðustu tíu árum sem farið er að nota það eitthvað að ráði í vef- og prentmiðlum.

Notkun sambandsins gut feeling í þessari merkingu í ensku mun ekki vera ýkja gömul – sögð síðan um 1970 – en talið er að uppspretta hennar séu gamlar hugmyndir um að tilfinningalíf mannsins eigi heima í innyflunum, þar á meðal þörmunum. Þessar hugmyndir má rekja allt til Forngrikkja og því má segja að þær séu í raun sameign vestrænnar menningar en tengist ekki ensku sérstaklega. Það er þó ljóst að notkun orðsins magatilfinning í íslensku á seinustu árum er komin beint úr ensku en endurspeglar ekki hugmyndir sem hafi lifað í íslenskri menningu og málsamfélagi. Vissulega er gagnlegt að hafa orð yfir þá merkingu sem hér um ræðir og magatilfinning er auðvitað íslenska, en hvort það er heppilegt orð er smekksatriði.

Posted on

Þetta tekur fljótt af

Í dag var spurt í „Málspjalli“ hvort færi betur að segja þessi hildarleikur tekur fljótt af eða þennan hildarleik tekur fljótt af – sem sé, hvort frumlagið með sambandinu taka fljótt af sem merkir 'stendur stutt, er fljótt búið' væri haft í nefnifalli eða þolfalli. Mér vafðist tunga um tönn vegna þess að frumlagið með þessu sambandi er langoftast fornafn í hvorugkyni, annaðhvort persónufornafnið það eða ábendingarfornafnið þetta, og þau eru eins í nefnifalli og þolfalli. Þegar sagt er þetta tekur fljótt af er því ómögulegt að segja hvort fall frumlagsins er nefnifall eða þolfall. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er frumlagið sagt vera í þolfalli en eina dæmið sem er gefið er það var sárt hjá tannlækninum en það tók fljótt af – sem sker ekki úr um fallið.

Sambandið taka af tekur vissulega þolfallsfrumlag í merkingunni 'fara af, hverfa', eins og höndina tók af um úlnlið í Morgunblaðinu 1977. En í öllum eldri dæmum tekur sambandið taka fljótt af nefnifall. Í Íslendingi 1864 segir: „ferðalögin verða þægileg, kostnaðarlítil, og taka fljótt af.“ Fleirtölumyndin taka sýnir hér að ferðalögin er nefnifall. Í Þjóðólfi 1895 segir: „hýðingin tekur fljótt af.“ Í Dýraverndaranum 1950 segir: „Ferðin tók fljótt af yfir heiðina.“ Í Vísi 1956 segir: „þar sem sú refsing tekur fljótt af er hún miskunnsamari en að strýkja menn í hel.“ Í Morgunblaðinu 1961 segir: „Hún tæki fljótt af ef fólk gætti þess að fara vel með sig.“ Í Vísi 1970 segir: „ég hafði einmitt búizt við því, að þessi framúrakstur tæki fljótt af.“

Ég finn ekki nema þessi sex ótvíræðu nefnifallsdæmi á tímarit.is fram til 1970 – en ekkert ótvírætt þolfallsdæmi. Dæmi um sambandið eru samtals rúmlega hundrað, en í öllum hinum gæti frumlagið verið hvort heldur er í nefnifalli eða þolfalli. Fyrsta ótvíræða þolfallsdæmið kemur í Tímariti Máls og menningar 1970: „Samdrykkjuna tók fljótt af.“ Í Morgunblaðinu 1975 segir: „Fyrstu hrinuna tók fljótt af.“ Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Þann ótta tók fljótt af.“ Í Degi 1982 segir: „Það er skemmst af því að segja, að fegurðina tók fljótt af.“ Í DV 1983 segir: „hana tók fljótar af.“ Í Vestfirska fréttablaðinu 1984 segir: „Nú, söguna tekur fljótt af.“ Í NT 1985 segir: „atburðinn tók fljótt af.“ Í Morgunblaðinu 1988 segir: „Skjálftann tók fljótt af.“

Það er þó ekki þannig að þolfallið útrými nefnifallinu með taka fljótt af. Allt frá 1970 hafa föllin verið notuð hlið við hlið, og eru enn – hlutfallið virðist vera nálægt þremur nefnifallsdæmum á móti tveimur þolfallsdæmum, bæði á tímarit.is og í Risamálheildinni. Ýmis dæmi eru um hliðstæðar setningar hvora með sínu falli. Í blaðinu 2006 segir: „Aftaka með eitursprautu tekur fljótt af“ en í Fréttablaðinu 2008 segir: „Hvítabjörninn var reyndar svo lánsamur að aftökuna tók fljótt af“. Í Þjóðviljanum 1978 segir: „Hún tók fljótt af biðskákin hjá þeim Kortsnoj og Karpov“ en í Skák sama ár segir: „Biðskákina tók fljótt af“. Þótt nefnifallið sé augljóslega eldra með þessu sambandi hlýtur bæði nefnifalls- og þolfallsfrumlag að teljast rétt.

Posted on

Einhvern megin

Í Facebook-hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ rakst ég á mikla hneykslunarumræðu um að nafngreind kona sem ekki er þekkt fyrir óvandað málfar hefði í viðtali sagt einhvern megin í stað einhvern veginn. Þetta var kallað „talgalli“, „málhelti“, „málleysa“ og „bull“ þótt einnig væri nefnt að „ógrynni af fólki“ segði þetta „fyrir austan“ – sem Austfirðingar mótmæltu reyndar harðlega. Ég veit ekki hvort þessi framburður er eitthvað algengari á Austurlandi en annars staðar en hitt er ljóst að hann er mjög algengur víða um land. Enginn vafi er á því að sambandið er upphaflega einhvern veginn, en langalgengasti framburður þess er sennilega einhvernegin [eiŋ̊k(v)ɛ(r)tneijɪn] – þ.e., orðin renna saman og v fellur framan af því seinna.

Þetta má sjá á textum í Risamálheildinni þar sem eru hátt í þúsund dæmi sem endurspegla þennan framburð, ýmist rituð einhvernegin, einhverneginn, einhverneigin eða einhverneiginn – stöku sinnum líka í tveimur orðum. Þarna eru líka rúm sex hundruð dæmi um samsvarandi myndir með m, einhvernmegin, einhvernmeginn, einhvernmeigin og einhvernmeiginn – þar af um þriðjungur í tveimur orðum. Langflest þessara dæma eru úr óprófarkalesnum textum samfélagsmiðla og nær engin dæmi um þessar myndir er að finna á tímarit.is. Vissulega er þetta ekki á við nema lítið brot af samsvarandi dæmum þar sem ritað er v, en sýnir þó að það er fjarri því að vera einsdæmi að hafa megin(n) sem seinni hluta þessa sambands í stað veginn.

Ég hlustaði reyndar á umrætt viðtal og þar var vissulega ekki sagt veginn en ég gat ekki heldur heyrt að þar væri sagt skýrt megin heldur virtist mér þetta vera einhvers konar millihljóð. Hér verður að hafa í huga að v og m eru hljóðfræðilega lík – hvort tveggja rödduð varahljóð og eini munurinn sá að v er önghljóð en m nefhljóð. Sá munur verður ansi lítill inni í miðri samsetningu þar sem að auki verður venjulega lítið eftir af hljóðinu – eins og áður segir er sennilega oftast hvorki vm þarna í eðlilegum framburði þannig að hvorki rithátturinn einhvern veginn einhvern megin(n) hefur stuðning af framburði. Þess vegna er í raun fullkomlega eðlilegt og viðbúið að veginn breytist stundum í megin(n) í ritmáli í þessu sambandi.

Hins vegar þekkja málnotendur ýmis orðasambönd þar sem megin er seinni liður – sambönd eins og hérna megin, báðum megin, hinum megin, sömu megin o.s.frv. – og ekkert undarlegt að þeir tengi einhvernegin við þau sambönd og skrifi einhvern megin eða eitthvert afbrigði af því. Þessi skilningur getur einnig leitt til þess að fólk fari að bera sambandið fram með m, til dæmis ef það ætlar að vanda sig. En þetta er heldur ekki fyrsta dæmið um að veginn breytist í megin. Það hefur nefnilega einmitt gerst í áðurnefndum samböndum með megin sem samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er „blendingsmynd úr -(v)eginn og vegum, sbr. þann veginn, einnegin(n)“. Myndin einhverneginn er reyndar gefin í Móðurmáls-bókinni eftir Jón Ólafsson frá 1911.

Því má bæta við að í skáldsögunni Merkingu notar Fríða Ísberg myndina megin(n) til að gefa málfari einnar persónu ákveðinn blæ. Í viðtali um söguna í Fréttablaðinu 2021 sagði hún: „Að sama skapi lét ég Tristan tala á sérstakan hátt til að sjá hvort það hefði áhrif á samkennd gagnvart honum. Yrði hann settur skör lægra, myndi hann strax verða fordæmdur af því hann segir einhvern meginn en ekki einhvern veginn?“ Nú veit ég ekki hvaða áhrif þessi ritháttur hefur haft á lesendur Merkingar en reyndar má búast við því að einhverjir þeirra hafi sambandið með megin(n). Viðbrögðin í hópnum „Skemmtileg íslensk orð“ sýna hins vegar greinilega að einhvern megin(n) kallar á hneykslun og fordæmingu hjá ýmsum málnotendum. Það er miður.

Posted on

Ábyrgð fjölmiðla – og aðhald okkar

Í frétt á mbl.is í dag segir: „Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra hefur ákveðið að auglýsa embætti skólameistara Borgarholtsskóla laust til umsóknar og láta þannig skipunartíma núverandi skólameistara ekki framlengjast eins og venja er nema eitthvað sérstakt beri til.“ Fólk getur vitanlega haft mismunandi skoðanir á því hversu skynsamleg eða sanngjörn þessi ákvörðun ráðherra hafi verið, en það er ljóst að hún er í fullu samræmi við 23. grein Laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, þar sem segir: „Ef maður hefur verið skipaður í embætti skv. 1. mgr. skal honum tilkynnt eigi síðar en sex mánuðum áður en skipunartími hans rennur út hvort embættið verði auglýst laust til umsóknar.“

Þessi frétt ætti vitanlega ekkert erindi í umræður um málfar nema vegna þess að fyrirsögn hennar á mbl.is er „Skólameistara Borgarholtsskóla vikið“. Í frétt Vísis af sama máli sagði uphaflega „Ársæli Guðmundssyni skólameistara Borgarholtsskóla hefur verið vikið frá störfum“ en var fljótlega breytt í „Ársæll Guðmundsson lýkur senn störfum sem skólameistari Borgarholtsskóla“. Sem er eins gott – það er nefnilega alveg ljóst að sögnin víkja á alls ekki við þarna. Í Íslenskri nútímamálsorðabók er sögnin víkja með þágufalli skýrð 'segja (e-m) upp, reka (e-n)' með dæminu Ráðherranum var vikið úr embætti, og í Íslenskri orðabók er sambandið víkja e-m úr embætti (starfi) skýrt 'reka e-n úr stöðu, svipta e-n stöðu'. Það á ekki við hér.

Ég hélt því fram í „Málspjalli“ að notkun sagnarinnar víkja í umræddri frétt yrði ekki kallað annað en pólitísk misnotkun tungumálsins, ekki síst í ljósi ýfinga sem undanfarið hafa verið milli Morgunblaðsins og ráðherrans. Í umræðum um þessa fyrirsögn í „Málspjalli“ sagði maður sem lengi stóð mjög nærri Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins (og gerir kannski enn): „Það er skilningur miðilsins að það að auglýsa stöðuna við þær aðstæður sem hér um ræðir, feli í sér brottvikningu.“ Í annarri athugasemd sagði hann: „Fjölmiðillinn leyfir sér að setja fram skoðun í fyrirsögninni. Það er hans mál og má deila um það út frá hlutleysi miðilsins en ekki út frá íslensku. Þetta er viljandi gert, miðillinn telur athæfið brottvikningu og notar rétt orð um það.“

Það má vitaskuld vera rétt að enda þótt unnið sé í samræmi við lög finnist einhverjum það jafngilda brottvikningu úr starfi að embættismaður fái ekki sjálfkrafa framlengingu á ráðningu. Það er skiljanlegt að slíkt sé áfall fyrir þann sem í því lendir og ekkert hefði verið óeðlilegt við það ef hann hefði sagt „ég var rekinn“, „mér var sparkað“ eða eitthvað slíkt. Það hefði ekki heldur verið neitt við því að segja þótt mbl.is hefði látið í ljósi skoðun í fyrirsögninni og skrifað t.d. Skólameistari hrakinn úr starfi eða Auglýsing starfs jafngildir brottvikningu eða eitthvað slíkt. Áðurnefnd athugasemd, „Það […] má deila um það út frá hlutleysi miðilsins en ekki út frá íslensku“ hefði átt ágætlega við slíkar fyrirsagnir en ekki þá sem þau orð voru höfð um.

En fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega getur ekki leyft sér að nota íslenskt orð sem hefur skýra merkingu, bæði í almennu máli og í þeim lögum sem um ræðir, í einhverri annarri merkingu eins og mbl.is gerði. Það getur ekki verið „skoðun“ hvað íslensk orð merkja. Það helgast af málhefð og er í þessu tilviki einnig stutt af lögum. Auglýsing starfs í samræmi við lög verður ekki „brottvikning“ og víkja verður ekki „rétt orð“ við það eitt að mbl.is telji það. Ég vona að sem flest átti sig á því hversu alvarlegt það er að fjölmiðill misnoti íslenskt orð með fasta og ákveðna merkingu á þann hátt sem þarna er gert. Á tímum upplýsingaóreiðu og falsfrétta skiptir miklu máli að sýna fjölmiðlum aðhald og láta þá ekki komast upp með svona.

 

Posted on

Beyging frændsemisorða

Eintölubeyging frændsemisorðanna faðir, bróðir, móðir, systir og dóttir er einstök í málinu – þau hafa -i- í endingunni í nefnifalli en -u- í öllum aukaföllum. Við það bætist að í faðir verður u-hljóðvarp sem breytir a í ö í aukaföllunum. Karlkynsorðin faðir og bróðir hafa tilhneigingu til að fá -s-endingu í eignarfalli, föðurs og bróðurs, en um það hef ég skrifað áður. En fleiri tilbrigði eru í beygingu þessara orða – þau hafa einnig (nema faðir) ríka tilhneigingu til að halda -i- í aukaföllunum. Í Málfarsbankanum segir t.d.: „Lengi hefur þekkst að orðið systir sé haft óbeygt í eintölu eins og í eftirfarandi dæmum: þau kölluðu á „systir“ sína, hann sat hjá „systir“ sinni, hún fékk lánaðan kjól „systir“ sinnar. Slík málnotkun þykir ekki hæfa í vönduðu máli.“

Í bók Björns Karels Þórólfssonar Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld frá 1925 segir að það sé „algengt í nútíðarmáli, að hafa nefnifallsmyndina í allri eintölunni af orðunum móðir, dóttir, bróðir, systir“ og sú beyging eigi sér langa sögu: „Ruglingur á beygingarendingum r-stofna kemur fyrst fram á síðari hluta 14. aldar […]. Á 15. öld verður ruglingur þessi algengur í brjefum […]“ segir Björn. Í Málinu á Nýja testamenti Odds Gottskálkssonar 1540 segir Jón Helgason að „nokkur ruglingur“ á beygingu frændsemisorðanna komi „greinilega fram, sem vænta mátti“. Í Islandsk Grammatik eftir Valtý Guðmundsson frá 1922 segir að orðin móðir, dóttir og systir séu oftast höfð óbeygð í talmáli og einnig stundum í ritmáli.

Það er athyglisvert að Valtýr bætir við að þetta sjáist einkum á prenti í vesturíslenskum blöðum og bókum. Lausleg athugun á tímarit.is staðfestir þetta – meginhluti dæma um aukafallsmyndir með -ir allt frá því um aldamótin 1900 og langt fram eftir tuttugustu öld er úr vesturíslensku blöðunum. Það sýnir væntanlega að þótt málhreinsun þessa tíma hefur tekist að berja beyginguna að verulegu leyti niður í blöðum á Íslandi hefur hún minna náð vestur um haf. Engin ástæða er þó til að ætla annað en beygingin hafi alla tíð lifað góðu lífi í talmáli og jafnvel verið aðalbeygingin. Þegar ég var að alast upp í Skagafirði fyrir 60-70 árum held ég að hún hafi verið ríkjandi í umhverfi mínu – foreldrar mínir notuðu hana og það eldra fólk sem ég umgekkst.

En þrátt fyrir andstöðu við -ir-myndirnar í aukaföllum slapp slæðingur af þeim á prent alla tuttugustu öldina. Það er athyglisvert að dæmum um þær á tímarit.is fjölgar talsvert á árunum 1980-1990 – um svipað leyti og málsnið fjölmiðla varð frjálslegra og slaknaði á prófarkalestri. Í Risamálheildinni skipta dæmin tugum þúsunda, einkum um myndirnar bróðir, systir og dóttir í aukaföllum – móðir er af einhverjum ástæðum miklu sjaldgæfari sem aukafallsmynd. 90-95% dæma um þessar myndir eru af samfélagsmiðlum og þar eru -ir-myndirnar sjötti hluti og allt upp í fimmtungur af heildinni, nema aðeins tuttugasti hluti í móðir. Það er því ljóst að þessi beyging er sprelllifandi í málinu og engin ástæða til annars en telja hana fullgilt og rétt mál.

Posted on

Sjúkdómsvæðing málfars

Nýlega skrifaði áhrifamikill stjórnmálamaður: „Á meðal málfræðinga og í íslenskri menntastétt hefur sú hugmynd náð sífellt meiri fótfestu á síðari árum, að í raun sé ekkert til sem heitir rétt eða rangt mál.“ Þetta hefur síðan verið étið upp af ýmsum, t.d. í grein í DV í dag. En þetta er rangt – ég veit ekki til þess að nokkur íslenskur málfræðingur hafi hafnað því að til sé eitthvað sem heiti „rangt mál“. Viðurkennd skilgreining á réttu máli og röngu er sú sem finna má í svari Ara Páls Kristinssonar á Vísindavefnum: „Rétt íslenskt mál er málnotkun sem samræmist (einhverri) íslenskri málvenju en rangt íslenskt mál samrýmist engri íslenskri málvenju.“ Ég tek undir þessa skilgreiningu og veit ekki betur en þorri íslenskra málfræðinga aðhyllist hana.

Því hefur líka verið haldið fram að ýmsir málfræðingar fordæmi allar leiðréttingar á máli barna en dylgjað um „að þessir sömu frjálslyndu menntamenn, sem út á við vildu láta allt reka hér á reiðanum í málfarsefnum, gerðust þó sekir um það heima fyrir að leiðrétta eigin börn þegar þágufallssýki fór að ríða húsum“. Eins og ég hef margsinnis skrifað um kannast ég ekki heldur við að málfræðingar amist við því að foreldrar leiðrétti málfar barna sinna á máltökuskeiði. Það er vitanlega sjálfsagður hluti af uppeldinu að leiðbeina um málfar eins og annað í hegðun og framkomu. Hitt er annað mál að rannsóknir benda til þess að beinar leiðréttingar skili ekki miklu og árangursríkara sé að vera börnunum góð málfarsfyrirmynd, tala við þau og lesa fyrir þau.

Það sem mér finnst þó verst og ljótast í áðurnefndum skrifum er að sjúkdómsvæðing málfars sem ég vonaðist til að væri liðin tíð er þar endurvakin með því að nota orðið þágufallssýki án gæsalappa eins og það sé hvert annað hlutlaust fræðiheiti. Meira að segja er bætt í með því að gera gys að þeirri „viðkvæmni“ sem ríki „uppi í háskóla“ og sagt: „Sama heilkenni er að vísu kallað þágufallshneigð uppi í háskóla í dag.“ Orðið heilkenni er læknisfræðilegt íðorð sem er skýrt 'Heild einkenna og teikna sem vitað er eða álitið er að auðkenni kvilla, sjúkleika eða meinsemd' í Íðorðasafni í læknisfræði. Með því að nota það er því komið skýrt á framfæri að umrætt tilbrigði í máli – sem er eðlilegt mál verulegs hluta þjóðarinnar – sé sjúklegt.

Þarna eru endurvaktir áratuga gamlir fordómar. Í Samtíðinni 1943 sagði Björn Sigfússon: „Þágufallssýki er gömul á Íslandi […] En landfarsótt hefir hún aldrei verið nema á okkar dögum“ og í Austurlandi 1952 sagði hann: „Þágufallssýki er alvarlegur kvilli og smitar ört.“ Gísli Jónsson sagði eitt sinn að „þágufallsýki“ minnti „reyndar leiðinlega á limafallssýki og niðurfallssýki“ og Bubbi Morthens sagði í Fréttablaðinu 2019: „Orðið þágufallssýki er þrútið af hroka enda hafa menn gegnum tíðina notað tungumálið nánast sem valdatæki þeirra sem töluðu rétt mál og skrifuðu rétt og beitt því gegn þeim sem notuðu það ekki rétt eða gátu ekki skrifað rétt. Þeir voru settir á lúserabásinn og urðu niðursetningar íslenskrar tungu.“

Íslensk málfarsumræðu hefur löngum verið full svipaðrar fordæmingar á málfari fólks, með gildishlöðnum orðum eins og málvilla, mállýti, málskemmd, málspjöll, málspilling, málfirra, og fleiri í sama dúr. Fólk var sagt tala almúgamál, götumál eða jafnvel skrílmál, vera málsóðar, þágufallsjúkt, hljóðvillt, flámælt, gormælt, latmælt, og meintum hnökrum á málfari þess var líkt við lús í höfði, falskan söng og illgresi. Það kom jafnvel fyrir að það væri notað gegn stjórnmálamönnum í pólitískri umræðu að þeir væru „hljóðvilltir“ eða „þágufallssjúkir“. Iðulega voru hin fordæmdu atriði tengd við leti, seinfærni í námi, greindarskort – og Reykjavík. Það er dapurlegt og ekki íslenskunni til framdráttar að slík orðræða skuli vera endurvakin.