Þú átt tvö skilaboð

Fyrr í dag var hér spurt hvort orðið skilríki væri til í eintölu og vísað í skilaboð frá Þjóðskrá: „Það er okkur sönn ánægja að segja þér að þú getur sótt skilríkið þitt“. Eins og ég hef skrifað um er skilríki ekki síður notað í eintölu en fleirtölu í eldra máli þótt merkingin sé eilítið önnur, en þótt orðið hafi yfirleitt eingöngu verið haft í fleirtölu í seinni tíð er eintölunotkunin aftur orðin algeng og engin ástæða til að amast við henni. En í umræðum um þetta var spurt hvort einhver dæmi væru um að orðið skilaboð væri notað í eintölu – eins og skilríki er það yfirleitt eingöngu gefið upp í fleirtölu í orðabókum og eingöngu fleirtölubeyging er sýnd í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls. Þetta er þó að breytast, a.m.k. í óformlegu málsniði.

Örfá gömul dæmi má finna um að skilaboð sé notað í eintölu. Í Morgunblaðinu 1914 segir: „Samt sem áður gafst honum færi á því að senda tvö skilaboð.“ Í Vísi 1925 segir: „Hver ert þú, og hvaða sönnun hefirðu fyrir því, að trúa megi skilaboði þínu?“ Í Morgunblaðinu 1932 segir: „Þessu skilaboði er hjer með komið á framfæri.“ Í Lindinni 1943 segir: „ég hélt, að Guð sjálfur hefði sett þetta skilaboð þarna.“ Í Friðarboðinn og vinarkveðjur 1943 segir: „á miðilsfundi […] kom fram spíritisti og bað til skilaboðs til Jóh. Kr. Jóhannessonar.“ Í Vikunni 1944 segir: „Það getur auðvitað verið, að Ralph Paton, hafi sent skilaboðið.“ Í Vísi 1949 segir: „„Guði sé lof,“ sagði hann í einu skilaboðinu.“ Í Alþýðublaðinu 1959 segir: „Það eru þrjú skilaboð til þín.“

Þetta virðist hafa farið að breytast með tilkomu símboða og síðar talhólfa, smáskilaboða og annarrar nýrrar samskiptatækni. Í „Reglugerð um boðtæki fyrir hið almenna boðkerfi Póst- og símamálastofnunar“ sem Samgönguráðuneytið gaf út 1989 segir: „Í talnaboðtækinu á að vera hægt að geyma a.m.k. tvö skilaboð t.d. tvö skilaboð 12 tákna löng.“ Í Degi 2000 segir: „Þá notum við SMS skilaboðið eða talhólfið til að koma á milli skilaboðum um hvern eigi að sækja hvert, hvenær.“ Í Morgunblaðinu 2001 segir: „Fyrir Frelsis-viðskiptavini kostar 15 krónur að senda SMS en fyrstu þrjú skilaboð dagsins eru ókeypis.“ Í sama blaði sama ár segir: „Þá kostar 10 krónur að senda SMS-skilaboð en að taka við SMS-skilaboði kostar ekkert.“

Í pistlum Eiðs Guðnasonar, Molar um málfar og miðla, birtist árið 2014 bréf frá Birni Jóni Bragasyni þar sem hann gerði athugasemdir við breytingu sem hefði orðið á talhólfi Símans. Þar hefði áður verið sagt þú átt ein talskilaboð, tvenn talskilaboð, þrenn talskilaboð, fern talskilaboð o.s.frv., en þessu hefði þá nýlega verið breytt í þú átt ein skilaboð, tvö skilaboð, þrjú skilaboð, fjögur skilaboð. Björn Jón sagði síðan: „Mér þykir þessi breyting með hreinum ólíkindum. Hjá fyrirtækinu virðast menn hafa skilið áður að orðið skilaboð er fleirtöluorð og ekki hægt að tala um ,,eitt skilaboð“, svo dæmi sé tekið, en einhverra hluta vegna ákveðið að breyta þessu.“ Eiður kvaðst vona að Síminn sæi sóma sinn í að breyta þessu til fyrra horfs.

Notkun eintölunnar virðist þó hafa farið mjög vaxandi á síðustu tíu árum en það er athyglisvert að fleirtalan virðist mun frekar notuð með tölunni einn en öðrum beygjanlegum töluorðum, rétt eins og í áðurnefndu dæmi frá Símanum. Þannig eru í Risamálheildinni 223 dæmi um ein skilaboð en 49 um eitt skilaboð, en á hinn bóginn 66 dæmi um tvenn skilaboð en 49 um tvö skilaboð, 24 um þrenn skilaboð en 21 um þrjú skilaboð, og 10 um fern skilaboð en 15 um fjögur skilaboð. Meginhluti dæmanna er af samfélagsmiðlum og það er því ljóst að eintalan skilaboð skilaboði skilaboðs er orðin mjög algeng í óformlegu máli. Engin ástæða er til að amast við henni – þetta er orð sem merkingarlegar forsendur eru fyrir að nota bæði í eintölu og fleirtölu.

Þorkeli eða Þorkatli?

Um daginn var hér spurt hvort fólk kysi fremur að nota myndina Þorkeli eða Þorkatli sem þágufall af karlmannsnafninu Þorkell. Fyrirspyrjandi sagðist vita að hvort tveggja væri talið rétt en vildi forvitnast um smekk fólks og tilfinningu fyrir þessu. Svörin voru á ýmsa vegu – mörgum fannst Þorkatli „sannarlega fallegra“ og „svipmeira“ en öðrum fannst það „svolítið tilgerðarlegt“, „nokkuð hátíðlegt“, „pínulítið snobbað“, „eitthvað hallærislegt“ og jafnvel „hljóma beinlínis undarlega“. En sumum fannst Þorkeli „hafa barnalegri hljóm“ og jafnvel „innst inni eitthvað rangt“. Bent var á að í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls eru báðar myndirnar gefnar og ekki gert upp á milli þeirra enda báðar algengar í málinu.

Seinni liður nafnsins, sem einnig kemur fyrir í nöfnunum Arnkell, Áskell, Hrafnkell og fleiri, er kominn af nafnorðinu ketill – það er ekkert óeðlilegt að sérhljóð falli brott í áherslulausu atkvæði og -ketill verði -kell í samsetningum. Í nafninu Ketill einu og sér ber seinna atkvæðið aftur á móti meiri áherslu og því fellur i ekki brott þar. Frumhljóð stofnsins er a sem breytist í e með i-hljóðvarpi (katil- > ketil-) nema í þágufallinu -katli þar sem i fellur brott eftir almennum reglum málsins vegna þess að beygingarendingin hefst á sérhljóði, sbr. depil+i > depli, jökul+i > jökli, hamar+i > hamri o.s.frv. Þess vegna fáum við í fornu máli beyginguna Þorkell (< Þorketill) – Þorkel (< Þorketil) – Þorkatli Þorkels (< Þorketils).

Í orðum með svipuðum víxlum er aftur á móti rík tilhneiging til að samræma stofnmyndir og útrýma óreglu. Orðið lykill beygðist t.d. lykil lykil lukli lykils og í fleirtölu luklar lukla luklum lukla vegna þess að i féll brott úr viðskeytinu -il- á undan sérhljóðsendingu (lukil+i > lukli í þágufalli eintölu) og i-hljóðvarpið u > y varð því ekki þar. En þegar í fornu mál er y oft haldið í allri beygingunni og lykli haft í stað lukli í þágufalli eintölu og lyklar í stað luklar í nefnifalli fleirtölu. Venjuleg þágufallsmynd mannsnafnsins Egill var líka Egli fram á tuttugustu öld en var útrýmt – í Islandsk Grammatik frá 1922 segir Valtýr Guðmundsson að Egill beygist „i Skriftsprog undertiden“ eins og Ketill – þ.e., þágufallið Agli sé stundum notað í ritmáli.

Það er því engin furða að tilhneiging hafi verið til að gera beygingu nafna eins og Þorkell reglulega og losna við hina óreglulegu mynd Þorkatli. Það er engin nýjung – í bókinni Um íslenskar orðmyndir á 14. og 15. öld segir Björn Karel Þórólfsson: „Frá því um 1300 fer þágufall á keli að verða algengt […] og er í Möðruvallabók miklu algengara en gamla myndin […]“ – en Möðruvallabók er talin skrifuð um miðja 14. öld. Samkvæmt tímarit.is eru þágufallsmyndir með -keli mun algengari en myndir með -katli af öllum þeim nöfnum sem um er að ræða – síðarnefndu myndirnar virðast raunar hafa verið mjög sjaldgæfar fram um 1930 en aukin tíðni þeirra eftir það stafar sennilega af (misskilinni) málvöndun og fyrnsku.

Allar góðar vættir

Nýlega var hér umræða um kyn nafnorðsins vættur. Orðið er upphaflega kvenkynsorð og beygist þá vættur vætti vætti vættar í eintölu og vættir vættir vættum vætta í fleirtölu. En vegna þess að það hefur hina venjulegu nefnifallsendingu karlkynsorða -ur, sem mjög fá kvenkynsorð hafa, hefur lengi verið rík tilhneiging til að hafa það í karlkyni og má finna þess dæmi þegar í fornmáli. Þá er beygingin vættur vætt vætti vættar í eintölu og vættir vætti vættum vætta í fleirtölu. Beygingin fellur því saman í öllum föllum nema þolfalli eintölu og fleirtölu, og oft verður því að ráða kynið af meðfylgjandi lýsingarorði eða fornafni. En ef orðið er með greini er samfall aðeins í þágufalli og eignarfalli fleirtölu – vættunum og vættanna.

Með því að gefa orðinu karlkyn er leitast við að laga það að málkerfinu þar sem -ur er dæmigerð karlkynsending eins og áður segir, en einnig eru dæmi um að orðið sé lagað að venjulegri beygingu kvenkynsorða með því að klippa endinguna af og hafa nefnifallið vætt. En karlkynið hefur lengi verið svo algengt að það hefur öðlast viðurkenningu í formlegu máli – „Upphaflega var nafnorðið vættur kvenkynsorð en tíðkast nú ekki síður í karlkyni“ segir Málfarsbankinn. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 er orðið gefið sem kvenkynsorð en „pop.“ sem karlkynsorð, þ.e. í talmáli. Í bók Valtýs Guðmundssonar, Islandsk Grammatik frá 1922, er orðið gefið sem karlkynsorð en bætt við innan sviga: „ogsaa Huk.“, þ.e. „einnig kvenkynsorð“.

Ýmsar samsetningar eru til með -vættur sem seinni lið, þær helstu bjargvættur, hollvættur, landvættur, óvættur og verndarvættur. Um þær flestar eða allar gildir hið sama, að þær koma fyrir bæði í kvenkyni og karlkyni, en hins vegar er misjafnt hvort kynið er algengara. Orðin hollvættur, landvættur og verndarvættur eru algeng í báðum kynjum og ekki hægt að skera úr um hvort sé algengara. Í fornu máli er óvættur mun algengara í karlkyni en kvenkyni og svo er líklega enn þótt erfitt sé að fullyrða um það. En bjargvættur sker sig nokkuð úr – það er margfalt algengara í karlkyni en kvenkyni. Á tímarit.is eru t.d. 13 dæmi um kvenkynsmyndina bjargvættirnar í nefnifalli fleirtölu, en 625 um karlkynsmyndina bjargvættirnir.

Skýringarinnar er líklega að leita í mismunandi merkingartilbrigðum. Í Íslensk-danskri orðabók er kvenkynsmyndin skýrð 'hjælpende Aand, hjælpsomt Væsen, Skytsaand' ('verndarandi' í Íslenskri orðabók) en karlkynsmyndin sem merkt er „pop.“ er skýrð 'Hjælper, Understøtter, Befrier, Redningsmand' ('hjálparhella, hjálparmaður' í Íslenskri orðabók). Í flestum samsetningum er vættur sem sé einhver yfirskilvitlega vera en það gildir ekki um algengustu notkun orðsins bjargvættur. Svo má velta því fyrir sér hvers vegna karlkynið sé yfirgnæfandi í merkingunni 'hjálparhella, hjálparmaður' – er það vegna þess að dæmigerðu bjargvættur í huga fólks sé karlmaður? Um það er auðvitað ekkert hægt að fullyrða.

Rökkrin

Í færslu hér fyrr í dag var bent á að nafnorðið rökkur, sem venjulega er aðeins haft í eintölu og ekki gefið upp í fleirtölu í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls, kæmi fyrir í fleirtölu á fleiri en einum stað í Rökkuróperunni eftir Þórberg Þórðarson – þar segir t.d. „Við lékum okkur oft í rökkrunum“. Málshefjandi sagði af þessu tilefni að það væri kannski rétt „að fara varlega í að fullyrða að fleirtalan sé ekki til þótt hún sé sjaldan notuð“ og er óhætt að taka undir það. Eins og hér hefur oftsinnis verið nefnt geta mjög mörg orð sem oftast hafa eingöngu verið notuð í eintölu fengið fleirtölu ef merkingin hliðrast aðeins til og þau fara að geta merkt eintak eða tegund af því sem um er rætt, auk hinnar óhlutstæðu merkingar sem þau hafa flest.

Nokkur dæmi eru um fleirtölumyndir orðsins rökkur í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, eitt það elsta úr Píslarsögu séra Jóns Magnússonar frá seinni hluta 17. aldar: „Ljós logaði í hverju húsi, sem nokkrir menn voru, rökkra á milli.“ Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar frá 1862 segir: „muni hann […] hafa lagt sig fyrir, svo sem vandi hans var til í rökkrum.“ Á tímarit.is eru hátt í 300 dæmi um fleirtölumyndirnar, það elsta í Fjölni 1835: „Enn voru þeir, sem vörðu rökkrunum til að færa í letur eða frásagnir hvað hinir höfðust að.“ Í þýðingu eftir Steingrím Thorsteinsson í Kirkjublaðinu 1894 segir: „eg reikaði út í rökkrum.“ Í Óðni 1912 segir: „Eru mjer enn í barnsminni rökkrin, þegar Siggeir gekk um gólf í húsinu sínu.“

Í Íslenskri nútímamálsorðabók er rökkur skýrt 'hálfmyrkur, tíminn þegar rökkur er (kvöld)' með notkunardæminu við komum heim í rökkri. Í þessari merkingu fær orðið ekki fleirtölu, en í fleirtöludæmunum hér að framan hefur það fremur merkinguna 'rökkurstund' – það orð er reyndar líka til þótt það sé ekki algengt. Þetta rímar við það að í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924 segir að með greini geti rökkrið merkt 'Mørkningstiden paa Landet om Vinteren, inden vaka begynder' – í Íslenskri orðabók segir: '(til sveita á vetrum) tíminn á undan vökunni' – en vaka er 'tíminn frá því kveikt er þar til háttað er'. Þarna er sem sé vísað til tiltekins tímaskeiðs og engin ástæða til að amast við því, eða notkun fleirtölu í þeirri merkingu.

„Heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra“

Ég að hinn nýkjörni alþingismaður Snorri Másson gerði stöðu íslenskrar tungu að umræðuefni í jómfrúrræðu sinni á Alþingi í dag. Það er góðra gjalda vert, en framsetningin var þó með þeim hætti að óhjákvæmilegt er að gera athugasemd við hana. Hann sagði nefnilega: „Hér á Íslandi hefur á undanförnum árum verið slegið heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra við að læra tungumálið í heimalandi. Aðeins 18% hafa tileinkað sér tungumálið hér á meðan samanburðarlönd státa flest af hátt í 60% árangri í sama flokki.“ Þarna er vísað í skýrslu OECD síðan í haust sem ég hef áður fjallað hér um og um þessar tölur mætti margt segja og ýmsa fyrirvara þarf að hafa á samanburði af þessu tagi eins og ég hef bent á.

Látum samt svo heita að sinni að þessar tölur séu sambærilegar, en það sem vakti helst athygli mína var orðalagið „heimsmet í ófullnægjandi árangri aðfluttra“. Þarna er allri skuldinni skellt á innflytjendur – það eru þeir sem eru skussar við að læra íslensku. En í raun hefði verið miklu nær að segja „Hér á Íslandi hefur á undanförnum árum verið slegið heimsmet í ófullnægjandi frammistöðu stjórnvalda við að kenna aðfluttum tungumál þjóðarinnar.“ Í áðurnefndri skýrslu OECD kemur nefnilega fram að í Noregi og Finnlandi er varið um fjórum sinnum meira opinberu fé í tungumálakennslu hvers innflytjanda og í Danmörku allt að tíu sinnum meira. Þetta eru væntanlega þau samanburðarlönd sem Snorri vísaði til í ræðu sinni.

Þegar tekið er tillit til þessa munar er vitanlega ekki óeðlilegt að hlutfall þeirra innflytjenda sem telja sig hafa sæmilega færni í íslensku (vera „fluent“ eða „advanced“ í sjálfsmati) sé mun lægra á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Það er ekki ólíklegt að neikvætt viðhorf Íslendinga til erlends hreims og ófullkominna beyginga valdi því að innflytjendur meti eigin kunnáttu lægra en vera myndi ef hér ríkti umburðarlyndi gagnvart þessum atriðum. Við það bætist að samsetning hópsins er með öðrum hætti hér en víða annars staðar – í mörgum Evrópulöndum er verulegur hluti innflytjenda fólk sem á sér skyld mál að móðurmáli og það auðveldar þeim vitaskuld málanámið. Um þetta er samt erfitt að fullyrða nokkuð.

Það er hárrétt hjá Snorra Mássyni að staðan í íslenskukunnáttu innflytjenda er óviðunandi og vitanlega er ekki óeðlilegt að ætlast til að þeir leitist við að læra málið. En það er hins vegar bæði ósanngjarnt og rangt að gera innflytjendurna sjálfa að blórabögglum og kenna þeim einum um „ófullnægjandi árangur“ í íslenskunámi. Slík framsetning þjónar fyrst og fremst pólitískum markmiðum en ekki íslenskunni og er síst til þess fallin að auka áhuga innflytjenda á íslenskunámi. Það er öllum í hag, bæði Íslendingum og innflytjendum – og ekki síst íslenskunni sjálfri – að auka íslenskukunnáttu innflytjenda og við ættum að sameinast um að bæta þar úr, í stað þess að nota íslenskuna til að kynda undir útlendingaandúð eins og þarna var gert.

Eiríkur vandar smellibeitum ekki kveðjurnar

Sumir íslenskir vefmiðlar gera út á smellibeitur – setja fram fyrirsagnir sem eru til þess ætlaðar að fá lesendur til að smella á þær og auka þannig umferð um vefinn svo að hann verði fýsilegri fyrir auglýsendur. Í þessum fyrirsögnum er oft gert mun meira en efni standa til úr smávægilegum ágreiningi eða málefnalegri gagnrýni. Ég þekki það vel því að sjálfur hef ég nokkrum sinnum nýst þessum miðlum, í fyrirsögnum eins og „Eiríkur æfur“, „Eiríkur skammar …“, „Eiríkur hirtir …“, „Eiríkur húðskammar …“, „Frægir hnakkrífast …“ o.fl. Ég man hins vegar ekki eftir því að sagt hafi verið í fyrirsögn að ég vandaði einhverjum ekki kveðjurnar en það er þó einhver algengasti orðaleppurinn í fyrirsögnum af þessu tagi.

Í Hugvekjum séra Vigfúsar Erlendssonar frá seinni hluta 18. aldar kemur fyrir sambandið að hún vandi þér betri kveðjurnar en elsta dæmi sem ég finn á tímarit.is um sambandið vanda ekki kveðjurnar er í Gjallarhorni 1905: „Einar ritstj. Hjörleifsson velti sér yfir Ólafsvíkur læknirinn í 20. tbl. »Fj.konunnar« og vandar honum ekki kveðjurnar.“ Næsta dæmi er í Nýjum kvöldvökum 1918: „Og því var það engin furða, í okkar augum, þó við vönduðum henni ekki kveðjurnar, þegar hún rak okkur úr þessum sælustað.“ Annars er sambandið frekar sjaldgæft fram um 1950, en þó er það einkum þegar nálgast aldamótin að tíðni þess fer að aukast, og á árunum 2000-2009 er það meira en fjórum sinnum algengara á tímarit.is en tveimur áratugum áður.

Sambandið vanda <honum> ekki kveðjurnar er skýrt 'láta illa af honum, tala illa um hann' í Íslenskri nútímamálsorðabók og 'tala ómjúkum orðum til e-s, skamma e-n' í Íslenskri orðabók. Þetta rímar við skilning minn á sambandinu – mér finnst það vera nokkuð sterkt og fela í sér harkalega árás á þá sem um er rætt. Ég sé ekki betur en það stemmi líka við notkun sambandsins í eldri dæmum, og mér finnst mjög óeðlilegt að nota það um málefnalega gagnrýni sem beinist að málflutningi fólks en ekki persónu þess – sem er þó iðulega gert í fyrirsögnum vefmiðla. Það er óheppilegt þegar orð og orðasambönd eru gengisfelld á þennan hátt og fólki gerð upp afstaða sem það hefur ekki. Smellibeitur eru hvorki málefnalegri umræðu né íslenskunni til hagsbóta.

Hátt verð – há verð

Það hefur lengi verið boðað að nafnorðið verð sé „ekki til“ í fleirtölu og því eigi ekki að tala um mörg verð, há verð, lág verð o.s.frv. Í dálknum „Móðurmálið“ í Degi 1993 segir: „Fram til þessa hefur það verið vond íslenska að tala um mörg verð. […]. Við getum talað um margs konar verð, breytilegt verð, ýmiss konar verð en ekki mörg verð.“ Í þættinum „Orðabókin“ í Morgunblaðinu 1996 sagði Jón Aðalsteinn Jónsson að verð væri „upphaflega eintöluorð“ og í annarri grein í blaðinu litlu síðar sagði hann að fleirtalan væri „vissulega […] ung í málinu.“ Í bókinni Íslenskt málfar amast Árni Böðvarsson einnig við fleirtölunni en segir: „Eðli þess er eintala, þótt formið banni ekki fleirtölumynd, enda kemur það fyrir þegar í fornu máli […].“

Fleirtöluna er m.a. að finna í Laxdælu: „þessi hross færð þú aldrei, þótt þú bjóðir við þrenn verð.“ Í Ólafs sögu helga segir: „ég skyldi margföldum verðum þjónustu yðra kaupa.“ Í Rómverja sögu segir: „Mun hann það og mörgum verðum kaupa.“ Í Biskupasögum Jóns Halldórssonar frá fyrri hluta 18. aldar segir: „hvað hann falaði af öðrum og fékk, borgaði hann jafnvel tvennum verðum.“ Í Tímanum 1857 segir: „í sumar munu þau flest hafa verið svo borguð, að meiri matvæli hefði mátt fá fyrir verðin jafnvel af innlendum matvælum.“ Í Ægi 1908 segir: „Hversu mjög framleiðsla félagsins skaraði fram úr allri norskri vöru samskonar að gæðum, sést á samanburði á verðunum.“ Í Morgni 1923 segir: „Káputau mörg verð og litir.“

Í DV 1986 skrifar Eiríkur Brynjólfsson um orð eins og flug og verð og segir: „Það er ekkert sem mælir á móti því að nota þessi orð í fleirtölu og segja mörg flug, mörg verð. Engu að síður er oft amast við fleirtölu þessara orða. Ástæðan er auðvitað sú að menn eru óvanir því.“ Í andsvari við áðurnefndum skrifum Jóns Aðalsteins Jónssonar sagði Jakob Björnsson í Morgunblaðinu 1996: „Ef svar þitt er að ástæðan sé sú, að fyrstnefndu þrjú orðin [bragð, verð, vín] hafi til þessa ekki tíðkast að hafa í fleirtölu, þá get ég ekki tekið það sem gilda ástæðu. Það jafngilti því í raun að málið geti aldrei tekið breytingum nema til hins verra og að skilyrðislaust eigi því að berjast gegn öllum breytingum á því. En einungis dauð tungumál taka engum breytingum.“

Eins og í mörgum orðum sem fremur hafa verið notuð í eintölu en fleirtölu er skýringarinnar á deilum um þetta að leita í merkingartilbrigðum orðsins verð. Það merkir annars vegar 'verðmæti, verðgildi, verðlag' og í þeirri merkingu er það aðeins notað í eintölu. En það merkir líka 'upphæð sem greiða þarf fyrir vöru og þjónustu, það sem eitthvað kostar' eins og segir í Íslenskri nútímamálsorðabók og í þeirri merkingu er eðlilegt að nota það í fleirtölu. Það er misskilningur að síðarnefnda merkingin sé nýjung – orðið hafði þessar mismunandi merkingar þegar í fornu máli eins og sjá má af því að í Ordbog over det norrøne prosasprog er það skýrt annars vegar 'værdi, pris, udbytte, ydelse' og hins vegar 'betaling, købesum, kompensation'.

Í Málfarsbankanum er fleirtölunni ekki hafnað með öllu þótt hún sé talin óæskileg: „Gott verð, lágt verð, hátt verð. Síður „góð verð“, „lág verð“, „há verð“, þó virðist ekki alltaf hægt að komast hjá því að nota verð í fleirtölu. Til að mynda í setningunni: öll verð eru án virðisaukaskatts.“ Afsökunartónninn í þessu er athyglisverður – „þó virðist ekki alltaf hægt að komast hjá því“. En hvers vegna í ósköpunum ætti að leitast við að komast hjá því? Eins og hér hefur komið fram hefur orðið alla tíð haft tvö merkingartilbrigði og fleirtala alltaf verið notuð af öðru þeirra. Eina ástæðan fyrir því að vilja „komast hjá“ henni er sú skoðun sem einhvern veginn hefur komist á flot að fleirtalan sé „röng“. En það er sem sé misskilningur.

Bóndar

Bæði hér og í Málvöndunarþættinum hef ég séð athugasemdir um að beyging orðsins bóndi sé að breytast og m.a. vísað til þess að viðmælandi Ríkissjónvarpsins í fréttum í fyrradag hafi sagt „Allir bóndar í dag eru bestu bóndar í heimi“. Þarna er vissulega notuð óhefðbundin fleirtala orðsins bóndi – venjuleg fleirtölubeyging þess er bændur bændur bændum bænda. Í fornu máli voru þágufall og eignarfall fleirtölu reyndar bóndum og bónda en hafa breyst fyrir áhrif frá nefnifalli og þolfalli eins og ég hef áður skrifað um. Fleirtalan bóndar sem vitnað var til víkur því frá hefðbundinni beygingu á tvo vegu. Annars vegar er endingin -ar í stað -ur, og hins vegar verður ekki hljóðvarp í stofninum – stofnsérhljóðið ó helst í stað þess að breytast í æ.

Hefðbundin beyging orðsins bóndi er reyndar mjög óvenjuleg. Langflest veik karlkynsorð, þ.e. orð sem enda á -i í nefnifalli eintölu, fá endinguna -ar í nefnifalli fleirtölu, og -a í þolfalli – orð eins og hani hanar, viti vitar, risi risar, hali halar, angi angar, dóni dónar, biti bitar, gumi gumar o.s.frv. Undantekningar frá því eru einkum orð sem enda á -andi og upphaflega eru lýsingarháttur nútíðar af sögn, svo sem eigandi eigendur, nemandi nemendur, lesandi lesendur o.s.frv. – þau orð fá -ur bæði í nefnifalli og þolfalli fleirtölu. Við það bætast þrjú orð sem hafa -nd- í stofni og eru í raun styttar lýsingarháttarmyndir – fjandi (fíandi, af sögninni fjá), frændi (fríandi, af sögninni fría) og bóndi (búandi, af sögninni búa).

Orðin með -andi- eru allstór hópur sem sker sig úr og hafa enga tilhneigingu til að breyta um beygingu svo að ég viti. Öðru máli gegnir um bóndi, fjandi og frændi. Vegna þess að þau hafa styst og innihalda ekki lengur -and- tengja málnotendur þau ekki lengur við þann hóp heldur hafa tilhneigingu til að meðhöndla þau eins og hver önnur veik karlkynsorð – láta þau hafa -ar í nefnifalli fleirtölu, og -a í þolfalli. Þetta á einkum við um orðið fjandi – í Beygingarlýsingu íslensks nútímamáls er bæði gefin fleirtalan fjendur um fjendur og fjandar um fjanda, og í athugasemd segir: „Fleirtalan fjendur er notuð í merkingunni 'óvinur' en fjandar fremur um púka eða drýsla.“ Myndin fjandar var þó einnig oft notuð í merkingunni 'óvinir' áður fyrr.

En orðin bóndi og frændi hafa einnig tilhneigingu til að laga sig að venjulegu beygingarmynstri veikra karlkynsorða og verða bóndar og frændar í nefnifalli fleirtölu – bónda og frænda í þolfalli. Fáein dæmi eru um hvort tveggja á tímarit.is en nokkru fleiri í Risamálheildinni, einkum af samfélagsmiðlum. Ég held samt að það sé oft einhver merkingarmunur á þessum myndum og þeim venjulegu. Fleirtalan bóndar er aðallega notuð í tengslum við bóndadaginn, þ.e. í merkingunni 'eiginmenn' frekar en í vísun til atvinnu. Fleirtalan frændar virðist helst koma fyrir í sambandinu frænkur og frændar og er e.t.v. fremur notuð þar sem áherslan er á einstaklingana fremur en skyldleikann þótt erfitt sé að átta sig almennilega á notkuninni.

Það er sem sé einföld og eðlileg skýring á því hvers vegna myndir eins og fjandar, bóndar og frændar koma upp sem aðlögun að almennu beygingarmynstri veikra karlkynsorða. Varðandi orðið bóndi sérstaklega skiptir máli að í tengslum við bóndadaginn hefur það sérstaka merkingu sem skiljanlegt er að málnotendur tengi ekki endilega við aðalmerkingu orðsins heldur meðhöndli sem sérstakt orð með sína eigin beygingu. Svo er annað mál hvaða skoðun við höfum á þessari breytingu – er þetta eitthvað verra en þegar bóndum og bónda varð bændum og bænda? Okkur finnst öllum að orð eigi að halda áfram að beygjast eins og þau beygðust þegar við lærðum þau, og það er eðlilegt – en þessi breyting er smávægileg og sárasaklaus.

Tengdasystir

Í frétt á vefmiðli í dag sagði: „Fyrrverandi tengdasystir Hegseths steig fram á mánudaginn.“ Þarna er orðið tengdasystir notað sem samsvörun við sister-in-law á ensku, en í íslensku er venja að nota orðið mágkona í þessari merkingu. Eins og ég geri stundum skrifaði ég viðkomandi blaðamanni og benti á þetta – fékk þakkir fyrir eins og nær undantekningarlaust, og þessu hefur nú verið breytt. En þótt mágkona sé vissulega hefðbundna orðið og gamalt í málinu er tengdasystir ekki einsdæmi. Elsta dæmi sem ég finn um það er í Norðanfara 1866: „tengdasystir mín, ekkju-húsfrú Hólmfríður Sæmundsdóttir á Þernumýri.“ Í Þjóðólfi 1869 segir: „Enn fremur komu inn á skipinu […] og fröken Bertelsen, tengdasystir Krügers lyfsala.“

Alls eru tæp 360 dæmi um tengdasystir á tímarit.is, meginhlutinn úr vesturíslensku blöðunum sem bendir til þess að notkun orðsins megi oft rekja til enskra áhrifa. Orðið tengdabróðir er einnig til. Í Þjóðólfi 1866 segir: „Tengdabróðir minn elskulegr herra prófastr Th. E. Hjálmarsen í Hítardal.“ Dæmin um það orð á tímarit.is eru alls 560 og eins og með tengdasystir er meginhluti þeirra úr vesturíslensku blöðunum. Bæði orðin eru gefin athugasemdalaust í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1924. Í Risamálheildinni er slæðingur af dæmum um bæði tengdasystir og tengdabróðir, meginhluti þeirra af samfélagsmiðlum sem bendir til þess að notkun þeirra fari vaxandi í óformlegu máli, líklega vegna aukinna enskra áhrifa á orðafar.

En þótt þessa auknu notkun orðanna megi sennilega rekja til ensku er samt engin ástæða til að fordæma þau. Bæði eru gömul í málinu, frá því áður en enskra áhrifa fór að gæta hér að marki. Þau falla fullkomlega inn í kerfi annarra venslaorða – tengdafaðir, tengdamóðir, tengdasonur, tengdadóttir, tengdafeðgar, tengdamæðgur, tengdafjölskylda o.fl. Ef þarf að tala um mága og mágkonur í einu lagi er oft notað orðið tengdasystkini – sem reyndar er ekki í orðabókum. Parið mágur og mágkona er ekki að öllu leyti heppilegt vegna þess að þar er konan skilgreind út frá karlinum ef svo má segja ('mágur sem er kona' var skilgreiningin á mágkona í fyrri útgáfum Íslenskrar orðabókar). Þótt mágkona sé hefðbundna orðið eru engin málspjöll að tengdasystir.

Hrafnadís

Í nýjum úrskurði Mannanafnanefndar er nafninu Hrafnadís hafnað á tvennum forsendum – annars vegar sé það „afbökun á eiginnafninu Hrafndís“ og hins vegar fari það „í bág við hefðbundnar nafnmyndunarreglur eiginnafna“, þ.e. „þeirri meginreglu íslenskrar nafnmyndunar að eignarfall fleirtölu sé ekki í forlið eiginnafns“. Þetta er mjög sérkennilegur úrskurður sem ég get ekki kallað annað en rugl. Í samsettum orðum getur fyrri liður ýmist verið stofn, eins og í Hrafndís, eða eignarfall – annaðhvort eintölu eða fleirtölu. Þetta eru jafngildar orðmyndunaraðferðir og fjölmörg dæmi eru um hliðstæðar tvímyndir þar sem fráleitt er að kalla aðra „afbökun“ af hinni. Fjöldi margs kyns tvímynda af mannanöfnum er líka til.

Ég kannast ekki heldur við að einhverjar sérstakar reglur gildi um mannanöfn sem banni að fyrri liður þeirra sé í eignarfalli fleirtölu. Sú „regla“ er bara tilbúningur nefndarinnar og mér finnst hún fara langt út fyrir öll eðlileg mörk í túlkun sinni á því hvað „brjóti í bág við íslenskt málkerfi“ enda eru vissulega til nöfn á mannanafnaskrá þar sem fyrri liður er í eignarfalli fleirtölu, svo sem Eyjalín, Rósalind, Alparós og Reykjalín og til dæmis. Tvö síðarnefndu nöfnin hafa m.a.s. verið samþykkt sérstaklega af Mannanafnanefnd án þess að nokkrar athugasemdir væru gerðar við myndun þeirra. Það er löngu kominn tími á að breyta lögum um mannanöfn og verður að vona að nýr dómsmálaráðherra leggi fram frumvarp að nýjum lögum hið fyrsta.