Að læsa, eða aflæsa – þarna er efinn
Í „Málspjalli“ var sögnin aflæsa og merking hennar til umræðu. Í Íslenskri orðabók er hún skýrð 'læsa, harðlæsa' og svipuð skýring, 'læsa (hurð)', er í Íslenskri nútímamálsorðabók en orðið þó merkt „gamalt“. Í Íslensk-danskri orðabók frá 1920-1922 er sögnin skýrð 'aflaase' og varla vafi á að sú danska sögn liggur að baki. Elsta dæmi um sögnina á tímarit.is er í Norðanfara 1881: „þar sofa vinnumenn í aflæstu húsi“. Í Svövu 1895 segir: „læddist hún inn í sitt eigið herbergi. Hún aflæsti dyrunum.“ Í Þjóðólfi 1893 segir: „Hjallurinn var ekki aflæstur.“ Í Þjóðviljanum unga 1896 segir: „Hann lokaði hurðinni, og aflæsti um leið.“ Í öllum þessum dæmum er ljóst að sögnin merkir 'læsa', og það gildir um öll dæmi lengst af tuttugustu öld.
En á síðasta fjórðungi aldarinnar fer að bera á annarri merkingu. Í Alþýðublaðinu 1977 segir: „Hann ákvað að snúa aftur, […] þaut af stað og aflæsti bakdyrunum, ef hann skyldi þurfa að koma þar inn.“ Í Norðurlandi 1977 segir: „Þau læstu aldrei dyrunum að kofa sínum á kvöldin til þess að þurfa ekki að hafa fyrir að aflæsa á morgnana.“ Í Vikunni 1978 segir: „Hann kinkaði kolli, þegar hann sá DeMarco. aflæsti hliðinu og opnaði það upp á gátt.“ Í Vikunni 1981 segir: „Ég aflæsti útidyrunum og steig til hliðar svo hann kæmist framhjá. Hann tvísté méðan ég lokaði og læsti.“ Í Þjóðlífi 1987 segir: „Svo dæmi séu nefnd þá eru hurðalæsingar miðstýrðar (allar hurðir læsast eða aflæsast þegar lykli er snúið í bílstjórahurðinni).“
Í þessum dæmum er augljóst að aflæsa merkir ekki 'læsa', heldur 'opna, taka úr lás'. Dæmum um þá merkingu fjölgaði smátt og smátt fram að aldamótum en tóku þá mikinn kipp. Nú held ég að megi fullyrða að í næstum öllum dæmum um sögnina sé hún notuð í nýju merkingunni. Þessi merkingarbreyting er í sjálfu sér mjög eðlileg – forskeytið af- hefur í mörgum tilvikum það hlutverk að snúa við merkingu sagnarinnar sem það tengist. Nærtækt dæmi er tengja og aftengja en fjölmörg önnur dæmi má nefna – ferma og afferma, bóka og afbóka, helga og afhelga, laga og aflaga, siða og afsiða, o.s.frv. Það er ekki óeðlilegt að málnotendur túlki aflæsa á sama hátt, enda er það mjög sérkennilegt að læsa og aflæsa skuli hafa sömu merkingu.
En það voru líklega einkum tvær tækninýjungar undir aldamótin sem ýttu undir þessa breytingu á merkingu sagnarinnar. Annars vegar var tilkoma fjarstýringa til að læsa bílhurðum og taka læsinguna af, og hins vegar tilkoma farsíma sem hægt var að læsa – eða læstust sjálfkrafa. Í báðum tilvikum var nauðsynlegt að eiga lipurt orðalag um að setja læsingu á og taka hana af, og það kallaði eiginlega á eina sögn um hvorn verknað um sig. Við þetta bættist að báðar nýjungarnar bárust okkur úr hinum enskumælandi heimi þar sem orðin lock og unlock eru notuð um þetta, og það liggur beint við að þýða þau með læsa og aflæsa. Mér finnst sjálfsagt að gera það, og líta svo á að eldri merking sagnarinnar aflæsa sé úrelt en sú nýja hin eina rétta.